Áhrif íslenskra fornsagna á líf og verk Wagners
Jóhann J. Ólafsson
Morgunblaðið, 10. júlí 1994
Höfuðverk þessa snillings, og þar með allra tónbókmenntanna, er fjórsöngleikurinn Niflungahringurinn þ.e. Rínargullið, Valkyrjunnar, Sigurður Fáfnisbani og Ragnarök.
Jóhann J. Ólafsson sýnir hér fram á að innblásturinn í þetta mikla verk sæki Wagner beint í íslenskar bókmenntir.
Eitt fremsta tónskáld allra tíma var listamaðurinn Richard Wagner. Um hann segir breski Wagnersérfræðingurinn Ernest Newmann eitthvað á þessa leið:
„Hann var einstakt fyrirbæri í samanlagðri sögu listanna … Sérhver persóna hans, sérhver atburðarás var sköpuð samhliða í hugarheimi tónskálds, leikritaskálds, hljómsveitarstjóra, leikgerðarmanns, látbragðshöfundar og textahöfundar. Slík samsetning hafði aldrei verið hjá einum og sama einstaklingnum áður, það hefur ekki gerst síðan og mun að öllum líkindum aldrei koma fyrir aftur“.
Höfuðverk þessa snillings, og þar með allra tónbókmenntanna, er fjórsöngleikurinn Niflungahringurinn þ.e. Rínargullið, Valkyrjumar, Sigurður Fáfnisbani og Ragnarök. Innblástur í þetta mikla verk sækir Wagner beint í íslenskar bókmenntir.
Árið 1988 heimsótti ég Wagnersafnið í Bayreuth gagngert til þess kynna mér þær bækur, sem þar kynnu að finnast af íslenskum bókmenntum. Mér til mikillar undrunar fann ég, með aðstoð Günthers Fischers bókasafnsfræðings, fjölda bóka á íslenskri tungu, sem höfðu verið í persónulegu bókasafni tónskáldsins. Má þar nefna m.a. Völuspá, Sæmundar-Eddu, Snorra-Eddu, Heimskringlu, Völsungasögu, riddarasögur o.fl. Um þessa heimsókn skrifaði ég grein í Morgunblaðið 23. mars 1989. Eftir þessa heimsókn gerði ég mér enn betur grein fyrir hvílíkar gersemar bókmenntir okkar eru og fékk þá hugmynd, að nauðsynlegt væri að gera fólki kunnug tengsl ópera Wagners við þær. Mér datt í hug hvort hægt væri að fá vísindamenn, einn eða fleiri, t.d. íslenskan og þýskan, til þess að gera ítarlega úttekt á þessu efni. Einu sinni sem oftar, þegar ég var í heimsókn hjá Dr. Kurt Schier prófessor í München ræddi ég þetta mál við hann. Hann var því mjög hlynntur, að úttekt yrði gerð á þessu efni og afmarkaði efnið með spurningunni. Á þýsku hljómar spurningin þannig:
„Welchen Einfluss hatte die isländische Literatur auf das Leben und Werk Richard Wagners“.
Einnig ræddi ég þetta mál við Jónas Kristjánsson, forstöðumann Handritastofnunar Árna Magnússonar. Hann var strax mjög jákvæður og áhugasamur.
Jónas hringdi í mig er von var á Wolfgang Wagner hingað til lands á vegum Listahátíðar í ársbyrjun 1993. Hann sagði mér að Wolfgang hefði áhuga á að skoða íslensku handritin. Ég lét fréttastofu Stöðvar 2 strax vita og átti Ómar Ragnarsson langt viðtal við Wagner við það tækifæri. Ég skrifaði Valgarði Egilssyni forstöðumanni Listahátíðar bréf og skýrði honum frá áhugamáli okkar Jónasar og bað hann að tala máli okkar við Wagner. Valgarður var svo vinsamlegur að bjóða mér heim til sín 26. janúar 1993 að hitta Wolfgang Wagner og ræða þessi mál við hann sjálfur. Jónas Kristjánsson var erlendis um þessar mundir og fór ég því einsamall. Á heimili Katrínar Fjeldsted og Valgarðs var vinnufundi samstarfsmanna þeirra að ljúka. Auk húsbænda voru þar Wolfgang og kona hans Gudrun Wagner, Árni Tómas Ragnarsson læknir og kona hans Selma Guðmundsdóttir píanóleikari svo og Ruth Magnússon. Þetta var stjórn Listahátíðar í Reykjavík 1994, sem hafði sýnt Wagnerhjónunum handritin í Árnastofnun fyrr um daginn og skoðað mögulega staði til þess að sýna Wagneróperu. Þetta ágæta fólk hafði sagt Wagner frá grein minni í Morgunblaðinu og heilsaði hann mér einkar vingjarnlega. Ég sagði honum frá áhuga okkar Jónasar Kristjánssonar. Wolfgang varð mjög áhugasamur og sagðist vera reiðubúinn að gera allt sem hægt væri til að greiða götu þessa máls. Ég spurði hvort ég mætti nefna nafn hans í þessu sambandi. Hann hélt nú það, til þess væru þeir þarna í Bayreuth. Ég skyldi bara skrifa beint til hans persónulega eða spyrja eftir honum sjálfum næst þegar ég væri á ferðinni. Nýr forstjóri, ungur maður, 29 ára, Sven Friedrich, hefði verið ráðinn og myndi hann aðstoða okkur.
Þetta ágæta fólk hafði sagt Wagner frá grein minni í Morgunblaðinu og heilsaði hann mér einkar vingjarnlega. Ég sagði honum frá áhuga okkar Jónasar Kristjánssonar. Wolfgang varð mjög áhugasamur og sagðist vera reiðubúinn að gera allt sem hægt væri til að greiða götu þessa máls. Ég spurði hvort ég mætti nefna nafn hans í þessu sambandi. Hann hélt nú það, til þess væru þeir þarna í Bayreuth. Ég skyldi bara skrifa beint til hans persónulega eða spyrja eftir honum sjálfum næst þegar ég væri á ferðinni. Nýr forstjóri, ungur maður, 29 ára, Sven Friedrich, hefði verið ráðinn og myndi hann aðstoða okkur.
Ég sagði Wolfgang frá þeirri hugmynd okkar að fá þýskan og íslenskan námsmann til þess að rannsaka efnið, sem hluta af námi sínu, og koma til Bayreuth í þeim tilgangi. Wolfgang sagði sjálfsagt að taka á móti slíkum manni og veita honum vinnuaðstöðu. Þrjár vinnuaðstöður væru í Bayreuth, en væru þær uppteknar myndi hann sjálfur koma honum fyrir.
Talið barst að öðru. Hann sagði að þetta væri sín fyrsta heimsókn til Íslands. Hann var himinlifandi yfir heimsókn sinni í Árnastofnun. Þar fékk hann að handleika frumgögn verka, sem afi hans hafði byggt Niflungahring sinn á. Einnig fékk hann þar skýringar forstöðumannsins á þýðingu Guðrúnarkviðu fyrir verk Wagners. Fornar bókmenntir bar á góma og hversu þær drægju upp mannlega hugsun, ástríður og hegðun, einföldum, skýrum og sterkum litum. Svo sterkum að ef við færum að meta atburði, persónuleika og framferði söguhetjanna á hefðbundinn mælikvarða sýndist okkur nútímamönnum flest þetta fólk altekið vitfirringu. En hefur nokkuð breyst? Líti maður í kringum sig, nú á okkar tímum, virðist trylling manna síst minni. Hún hefur aðeins verið tæknivædd. Manndráp nútímans eru miklu meiri, og þau eru grimmúðlegri og andstyggilegri en heilaspuni hinna fornu höfunda gat fóstrað. Morðin hafa verið „mekaníseruð“ og á þessari morðóðu öld höfum við upplifað mestu manndráp samanlagðrar mannkynsögunnar. Mannskepnan væri eina skepna jarðar sem dræpi aðra af sama stofni í stórum stíl. Samt væri maðurinn æðsta verk sköpunarinnar. Sagt væri að Guð hafi skapað manninn í eigin mynd. Eftir því væri þetta hræðilegur Guð.
Hinu eilífa böli, þversögn mannsins og takmörkum er lýst með sterkum dráttum á þrunginn hátt í hinum kynngimögnuðu bókmenntum okkar. Þessi sannindi eru viðfangsefni Wagners. Hann vekur áhorfandann til umhugsunar en bendir á lausn: Fórnfæring ástarinnar.
Wolfang Wagner hefur áhuga á að sviðsetja óperur afa síns á sem flestum stöðum. Fyrir þremur árum hefðu þær verið fluttar í fyrsta sinn á Nýja-Sjálandi, þar áður á Japanseyjum. Nú yrði eyjan Ísland næst. Hin nýja styttri útfærsla væri hans hugmynd og yrði hún flutt fyrst á Íslandi. Árni Tómas Ragnarsson hafði áður sagt mér frá þessari hugmynd og að Þjóðleikhúsið hefði verið valið. Wolfgang Wagner stakk upp á Þingvöllum undir berum himni en menn voru ekki tilbúnir að taka áhættu af veðurfarinu. Hugmyndin um Þingvelli er mjög athygliverð. Til forna héldu germanskar þjóðir þing sín undir berum himni. Þingvellir eru líklega einn af mjög fáum slíkum þingstöðum, sem enn er hægt að staðsetja og ganga að í óbreyttri mynd. Hann er örugglega mestur og glæsilegastur slíkra þingstaða og ennþá í notkun. Væntanlega koma Þingvellir til greina við kvikmyndun Niflungahrings Wagners í framtíðinni.
Heimsókn til Bayreuth
Við Jónas Kristjánsson ræddum oft um það okkar á milli hvernig hægt væri að ráðast í það verk að rannsaka tengsl bókmennta okkar og tónlistar Wagners. Hér á landi eru margar stofnanir sem sinna menningarmálum en allar fjárvana og hafa ákveðnum og sérstökum skyldum að gegna. Mörg nöfn komu upp og var rætt við ýmsa fræðimenn. Ég skrifaði Wolfgang Wagner og bar fram erindið eins og um var talað. Hann staðfesti bréflega, það sem hann hafði sagt í Reykjavík, að hann hefði mikinn áhuga á þessu viðfangsefni, og myndi gera allt sem hann gæti til að styðja þetta mál. Forstöðumaður skjalasafnsins væri mjög hæfur fagmaður.
Í nóvember 1993 átti ég erindi til München og datt í hug að nota ferðina til þess að hitta menn í Bayreuth og athuga aðstæður. Ég fékk Dr. Hubert Seelow háskólakennara í norrænum fræðum við háskólann í Erlanger til að slást í för með mér. Seelow er kvæntur íslenskri konu, Kolbrúnu Haraldsdóttur, og talar íslensku lýtalaust. Gerði ég mér jafnframt vonir um að Seelow gæti tekið þetta rannsóknarverkefni að sér. Við ókum til Bayreuth og gerðum boð fyrir Stefan Jöris í „Festspielhaus”, óperuhúsi Wagners, en Jöris var sérstakur fulltrúi Wolfgangs Wagners í öllu því sem snerti væntanlega uppfærslu Niflungahringsins í Reykjavík næsta vor (27. maí 1994). Jöris kallaði á Wolfgang Wagner, sem kom til okkar að vörmu spori, heilsaði okkur glaðlega og bauð okkur velkomna. Ég kynnti Dr. Seelow fyrir honum.
Wagner ræddi mikið um væntanlega uppfærslu Niflungahringsins í Reykjavík og sagði að stytting verksins stæði nú yfir. Tvær aðferðir væru til umræðu um það hvernig tengja ætti kaflana saman. Önnur væri sú að tvinna tónlist þeirra þátta sem valdir yrðu með tónfléttu, sem samin yrði sérstaklega í þeim tilgangi. Það hefði hins vegar ekki gefist vel t.d. í Brüssel þar sem stytt gerð hringsins hefði verið sýnd á tveimur kvöldum. Hin aðferðin væri sú að tengja kaflana með töluðum þáttum. Hann væri hlynntari seinni aðferðinni. Ég afhenti Wagner nýjasta hefti Óperublaðsins, þar sem mikið var fjallað um væntanlega uppfærslu. Hann varð mjög ánægður með að fá það. Því næst bað hann Stefan Jöris að fylgja okkur til Wagnersafnsins, sem er í hinum enda bæjarins í Villa Wahnfried, sem var heimili Richards Wagners síðustu ár hans. Í Bæjaralandi er skammdegi í nóvember eins og á Íslandi, því var skollið á myrkur er við komum á safnið. Þar tók á móti okkur Sven Friedrich. Einnig fékk ég aftur að heilsa upp á gamlan kunningja, Günther Fischer, sem hafði aðstoðað mig í síðustu heimsókn minni.
Friedrich bauð okkur á skrifstofu sína, sem var mjög mikið lýst af hvítu flúrljósi. Vinnustaður hans er í hliðarbyggingu við safnið. Sonur tónskáldsins, Sigfried, faðir Wolfgangs, lét reisa þetta hús fyrr á öldinni og bjó þar. Ekkja hans Winnifried bjó þar til dauðadags 1980. Í einu horni skrifstofunnar var uppbúið kaffiborð, sem Friedrich bauð okkur Seelow og Jöris að setjast við. Friedrich sýndi okkur nokkrar bækur á íslensku, gamla kunningja, sem hann hafði látið sækja úr bókastafni Wagners. Völuspá, Sæmundar-Eddu og Snorra-Eddu. Við ræddum mikið um hvaða áhrif þessar bækur hefðu haft á tónlist Wagners. Þjóðverjarnir fullyrtu að Wagner hefði sáralítið sótt í hin þýsku Niflungaljóð. Wagner hefði sótt mest allt efni sitt í hinar íslensku bókmenntir. Hinn sterki, mergjaði og magnaði stíll fornbókmenntanna hefði haft mikil áhrif á sköpunargáfu meistarans og ímyndunarafl. Friedrich endurtók að aðgangur að safninu og gögnum þess stæði okkur opinn og jafnvel væri hann tilbúinn að ganga lengra í þeim efnum en venjulegt er. Stefan Jöris kvaddi okkur og fór aftur upp í óperuhúsið þar sem hann myndi bíða okkar en Friedrich leiddi okkur þessu næst út í Wagnersafnið Villa Wahnfried. Búið var að loka safninu, svo við fengum einkasýningu undir leiðsögn Friedrichs. Fyrir utan æviatriði Wagners sjálfs er gerð grein fyrir flutningi verka hans í Bayreuth frá upphafi til vorra daga. Þó bendir Friedrich á að Þriðja ríkinu sé sleppt og þurfi að bæta úr því. Greinilegt er að hinn ungi maður (29) lítur þessa hörmulegu atburði með augum sagnfræðingsins og rannsakandans og telur ósanngjarnt að umfjöllun um tónskáldið líði fyrir gjörðir manna sem misnotuðu nafn þess hálfri öld eftir að það lést. Þetta þurfi að leiðrétta. Þótt hægt sé að samþykkja þetta út af fyrir sig finnum við hinir eldri að við erum meira undir áhrifum þessara atburða en hinir yngri. Engin mynd er af Snorra Sturlusyni né handritunum og þyrfti að fylla upp í þá eyðu sem fyrst. Við kveðjum nú Friedrich með miklu þakklæti og skundum aftur upp í „Festspeilhaus“.
Þar er allt harðlæst enda klukkan orðin sex svo við berjum húsið utan þar til Jöris opnar fyrir okkur til þess að ganga með okkur um bygginguna. Húsið er reist eftir hugmyndum Wagners sem hafði til fyrirmyndar óperuhús í Ríga og forn grísk leikhús. Húsið var hugsað sem sumaróperuhús eingöngu og því engin upphitun í því enda svalt þarna inni þennan nóvemberdag. Húsið er og léttbyggt úr timbri og múrsteinsbindiverki. Hljóðeinangra þurfti þakið með steinull því þotur fljúga yfir það og trufla tónlistarflutning. Hvorki hljómsveitin né stjórnandi hennar sjást úr áhorfendasal. Því er ekkert klappað þegar hann gengur í hljómsveitargryfjuna. Af sömu ástæðum eru hljóðfæraleikararnir ekki í kjólfötum, heldur þægilegum fötum t.d. gallabuxum og stuttermabolum. Hljómsveitarstjórinn stjórnar sitjandi og á hver sinn stól sérsmíðaðan. Ég fékk að reyna stól Daniels Barenboims.
Jöris sýndi okkur allt sviðið og þann flókna sviðsbúnað, sem notaður er. Áhrifamikið var að sjá hinn djúpa kjallara úr tilhöggnu grjóti gerðan af hörðum höndum fyrir 120 árum. Meitilförin töluðu sínu máli. Á sumrin bætast 900 starfsmenn við þá 60 sem starfa allt árið. Nú er klukkan að ganga átta. Við Seelow þökkum Jöris fyrir greiðvikni hans, löngu eftir hans vinnutíma, og kveðjum.
Greiðvikni gestgjafa okkar vitnar um vilja þeirra til þess að hjálpa okkur við rannsókn efnisins: „Hvaða áhrif höfðu íslenskar fornbókmenntir á líf og verk Richards Wagners?“.
Við síendurtekinn flutning Niflungahringsins um allan heim er stöðugt verið að velta upp nýjum hliðum verksins, dýpka skilning manna á því og túlka það á nýjan hátt. Þess vegna myndi slík rannsókn vera flytjendum og áhorfendum mjög að skapi. Okkur væri þetta kærkomið tækifæri til þess að vekja áhuga manna á bókmenntum okkar. Eins og málum er háttað yrði slík rannsókn varla gerð nema undir forystu menntamálaráðuneytisins.
Höfundur er stórkaupmaður í Reykjavík.