Þegar ég svo fór til útlanda, seytján ára gamall, þá var Ísland í mínum augum hið æðsta í allri tilverunni. Þegar til útlanda kom, varð ég þess fljótt var að sumir þeirra þekktu ekki Ísland einu sinni að nafninu til, héldu jafnvel að ég væri frá Eistlandi eða Írlandi eða máske einhverri eyju í Eystrasaltinu. Sumir höfðu heyrt nefnda íslenska síld, sem væri betri en önnur síld. Aðrir, sem menntaðri voru, höfðu heyrt nafnið Geysir og máske Hekla, en þeir spurðu undrandi: „Ísland! – er það mögulegt? Lifa þar yfir höfuð mennskir menn? – En þér eruð þó ekki Íslendingur?“ – Jú, ég kvað svo vera. „Nú, en þér eruð þó að minnsta kosti blendingur af – Íslendingi og Evrópumanni?“ Þegar ég neitaði því líka, þá kom, með vandræðasvip, næsta spurningin: „En hvar á Íslandi búa þá Eskimóarnir?“