Draumagengið í Hollendingum fljúgandi
Undirtitill
Steinn Jónsson
Óperublaðið ? tbl. ????
Óperublaðið bað þau Stein Jónsson og Magneu Tómasdóttur að loka augunum og láta sig dreyma um hverja þau vildu sjá í óskauppsetningu sinni á Hollendingnum fljúgandi. Þau fengu allsendis frjálsar hendur og máttu velja í áhöfnina söngvara, hljómsveit, kór, hIjómsveitarstjóra og leikstjóra frá öllum heimshornum og tímabilum, lífs og liðna.
Hálfíslensk uppfærsla í nýja Tónlistarhúsinu
Þegar Listahátíð í Reykjavík hafði forgöngu um sýningar á styttri útgáfu af Niflungahringnum árið 1994 var það stórvirki á íslenskan mælikvarða og það merka frumkvæði hlaut að leiða til fleiri sýninga á stærri óperuverkum hér á landi. Aðstaða hefur eins og margir vita verið afar ófullkomin, jafnvel í Þjóðleikhúsinu, sérstaklega hvað snertir stærð hússins og hjómsveitargryfjunnar. Það er því mikið ánægjuefni fyrir óperuunnendur að í áformum um byggingu Tónlistarhúss í Reykjavík sé nú gert ráð fyrir því að þar verði aðstaða til óperuflutnings í stóra sal hússins. Með tilkomu hússins mun stórum sýningum fjölga og tækifæri gefast til að sjá okkar fjölmörgu frábæru söngvara taka þátt í sýningum hér heima við bestu aðstæður.
Þegar velja á í hlutverk í óperusýningum verður að taka tillit til tveggja meginsjónarmiða sem stundum er erfitt að uppfylla. Í fyrsta lagi þarf söngröddin að passa fyrir hlutverkið og í öðru lagi þarf einstaklingurinn að passa inn í söguna hvað snertir útlit og aldur þannig að hinn dramadski þáttur í verkinu fái notið sín til fulls. Richard Wagner var mikill leikhúsmaður og lagði mikið upp úr leikstjórn, texta og túlkun. Tónlistina samdi hann jafnan síðast og á þann veg að hún undirstrikaði hughrifin sem textinn og atburðir á sviðinu áttu að kalla fram. Hann leikstýrði oft verkum sínum sjálfur, skrifaði ítarleg sviðsetningarfyrirmæli og æfði verkin í þaula, oft með takmörkuðum árangri (að eigin áliti). Fátt var í hans augum dapurlegra en að horfa á tenórinn standa hreyfingar- og svipbrigðalausan á sviðinu og syngja án þess að hafa nokkra tilfinningu fyrir því um hvað textinn [KLÁRA SETNINGU]
Á þeirri einu og hálfu öld sem liðin er frá því að Hollendingurinn fljúgandi var saminn hefur öllum þeim þáttum sem skapa góða óperusýningu fleygt gífurlega fram en grundvallaratriðin um dramatískt samræmi og kröfur til radda eru alltaf þau sömu. Það er skemmtilegt viðfangsefni að setja sig í þær stellingar að færa upp eina af uppáhaldsóperum sínum með listamönnum að eigin vali án tillits til kostnaðar og annarra þeirra atriða sem oft eru í raun takmarkandi fyrir slík verkefni. Ég mun í mínum uppástungum einskorða mig við listamenn sem nú eru í fullu fjöri og kæmu því til greina fyrir sýningu á verkinu í dag.
Mildi og mýkt í persónu Sentu
Hlutverk Sentu, ungrar sjómannsdóttur í Noregi, er lykilhlutverk í óperunni enda er hún örlagavaldurinn í framvindu verksins. Senta er ung stúlka og því best að fá unga konu í hlutverkið ef nokkur kostur er. Hún er eins og fleiri kvenhetjur Wagners í því hlutverki að bjarga vonlitlum karlmanni úr ógöngum og sýnir bæði hugrekki, mildi og fórnfýsi. Þótt nauðsyn sé á nokkrum raddstyrk fer best á því að fyrrgreindir skapgerðareiginleikar Sentu komi fram í því hvernig sungið er þannig að mildi og mýkt er kostur en alltof mikill kraftur stingur í stúf. Mest reynir á röddina í ballöðu Sentu í öðrum þætti en segja má að tónlistin í óperunni sé að verulegu leyti tilbrigði við þann söng. Fáar söngkonur hafa skilað þessu hlutverki af meiri fágun en bandaríska söngkona Cheryl Studer í nýlegri útgáfu Deutsche Grammophon. Ég ætla að stinga upp á ungri þýskri sópransöngkonu að nafni Angela Denoke, en síðastliðið haust átti ég þess kost að sjá hana syngja Venus og Elisabet í Tannhäuser með miklum glæsibrag en hún er auk þess ung og norræn í útliti. Angela Denoke var kjörin söngkona ársins 1999 af þýska tónlistartimaritinu Opernwelt. Hún virðist eiga glæstan feril framundan.
Hollendingurinn sjálfur er nokkru eldri en Senta, sveipaður dulúð og drunga. Hlutverkið þykir erfitt fyrir bassbaritón vegna þess að það gerir kröfu til þess að farið sé um nánast allt raddsviðið án erfiðleika ef vel á að vera. Hvað leikræna þætti snertir þarf söngvarinn að geta túlkað á sannfærandi hátt einsemd, vonbrigði og umfram allt þrá eftir nærveru við aðra mannveru; — þá konu sem ein getur bjargað Hollendingnum frá álögum hans. Strax reynir á Hollendinginn í hans langa söng í fyrsta þætti „Die Frist ist um“ og síðan ekki síður í „Durch Sturm und bösen Wind“. Margar góðar útgáfur af verkinu eru til á geisladiskum og má þar m.a. nefna Philips-útgáfuna frá Bayreuther Festspiele þar sem Simon Estes syngur Hollendinginn einstaklega vel og Lisbeth Balslev er í hlutverki Sentu. Minn fyrsti kostur í hlutverkið væri þó án efa breski baritónsöngvarinn Bryn Terfel sem margir telja nú fremstan meðal jafningja í fjölmörgum baritón-hlutverkum og er hlutverk Hollendingsins eitt þeirra.
Daland skipstjóri faðir Sentu er svolítið skoplegur karakter og gefur tilefni til að draga fram ákveðinn léttleika mitt í öllu ölduróti tilfinninganna. Hann er grandalaus meðan Hollendingurinn ber fé á hann í því skyni að ná hönd dóttur hans og telur þetta nokkuð góðan ráðahag fyrir alla aðila og jafnvel sjálfsagða gestrisni. Hlutverk Dalands er eitt af mörgum bassahlutverkum hjá Wagner sem ég tel að séu eins og kIæðskerasaumuð fyrir okkar ágæta Kristin Sigmundsson og myndi rödd hans og leikrænir hæfileikar koma einstaklega vel út í þessu hlutverki.
Domingo í fullu fjöri
Hlutverk Eriks, vonbiðils Sentu, er fremur stutt en fallegt tenórhlutverk. Erik reynir á örvæntingarfullan hátt að afstýra því óumflýjanlega að Senta fleygi sér í faðm örlaganna. Engan söngvara hef ég heyrt syngja þetta af jafn mikilli nærgætni og fágun og Placido Domingo í fyrrgreindri útgáfu Deutsche Grammophon frá 1998. Reyndar er það mikill fengur að til skuli vera upptökur af Domingo í mörgum helstu tenórhlutverkum Wagners. Dótt Domingo sé kominn af léttasta skeiði syngur hann Sigmund og Parsifal með miklum ágætum á sviði enn í dag og ætla ég því að veita svolítinn afslátt af dramatísku samræmi til þess að fá að heyra í honum.
Þá eru eftir tvo stutt einsöngshlutverk. Stýrimaðurinn er lýriskt tenórhlutverk sem passar mjög vel fyrir Gunnar Guðbjörnsson enda valdi Berlínaróperan og Daniel Barenboim hann til að syngja þetta hlutverk á Wagnerhátiðinni sem nú er nýlokið þar í borg. Hlurverk Mary, hinnar röggsömu ráðskonu á heimili Dalands, sem jafnframt hefur verið fóstra Sentu, er skemmtilegt mezzósópranhlutverk og væri gaman að sjá Elsu Waage syngja það, en frábær frammistaða hennar í hlutverki Erdu í Niflungahringnum er mörgum vafalaust minnisstæð. Reyndar vil ég láta þess getið að val íslenskra söngvara í þá sýningu sem framundan er hefur tekist vel og er góðs að vænta af þeim ágæta hópi öllum.
- Steinn vill sjá þýsku sópransöngkonuna Angelu Denoke í hlutverki Sentu. Hún var kjörin söngkona ársins 1999 af þýska tónlistartinzaritinu Opernwelt — og ekki spillir fyrir að hún er ung og norræn í útliti.
Að lokum skiptir miklu máli að hljómsveitin, kórinn og ekki síst hIjómsveitarstjórinn skili sínu hlutverki vel. Hvað snertir hljómsveit tel ég að í dag sé ekki ástæða til að leita út fyrir landsteinana því að Sinfóníuhljómsveit Íslands er að mínum dómi orðin fyllilega sambærileg við bestu hljómsveitir í Evrópu. Kór Íslensku ópertumar hefur einnig margsannað ágæti sitt en þyrfti að sjálfsögðu að vera fullskipaður í þessu verki og vel æfður því hann hefur minni reynslu í Wagner en ítölsku óperunum. Til að setja punktinn yfir i-ið þarf frábæran hljómsveitarstjóra en þeir eru að sjálfsögðu nokkrir. Mínir uppáhaldsmenn í Wagner, þeir Wilhelm Furtwangler og George Solti, eru látnir en nýir snillingar bætast við. Á Bayreuther Festspiele 1999 heyrði ég ungan hljómsveitarstjóra að nafni Antonio Pappano stjórna Lohengrin. Mér fannst eins og allar áherslur, hraði og kraftur minntu mig á þau einstöku tök sem Solti hafði þessari tónlist. Það kom mér því ekki á óvart þegar ég frétti að Pappano hefði nú verið ráðinn aðalhljómsveitarstjóri Covent Garden óperunnar aðeins 39 ára að aldri. Þá er ekkert annað eftir en að ímynda sér að maður sé sestur í þægilegt sæti í stóra sal Tónlistarhússins í Reykjavík til að hlusta og horfa á þessa hálfíslensku uppfærslu á Hollendingnum fljúgandi.
- Steinn Jónsson
Höfundur er læknir, auk þess sem hann er í Richard Wagner félaginu á Íslandi og Vinafélagi Íslensku óperunnar.
- Magnea velur Fritz Wunderlich í hlutverk stýrimannsins. Hér sést hann hins vegar í hlutverki Tamínós.
Eins og aðrar áhafnir í lífsins ólgusjó
- Eftir Magneu Tómasdóttur
Það er ögrandi verkefni að velja áhöfn á skip Wagners í Hollendingnum fljúgandi. Sjálf hef ég aldrei séð þessa óperu á sviði en hins vegar hlustað á nokkrar upptökur af verkinu og lesið það í gegn. Ég myndi velja uppsetningunni stað á Bayreuth-hátíðinni. Sumarið 1999 var ég svo lánsöm að fá styrk frá Wagner-félaginu í Köln til að fara til Bayreuth og upplifa sumarhátíðina sem er haldin þar á hverju ári. Þá sá ég Meistarasöngvarana, Tristan og Ísold, Lohengrin og Parsifal. Ég hafði heyrt mikið lof um hljómburð hússins og fór því með mikilli eftirvæntingu á fyrstu sýninguna. Þegar ég settist á harða stóla óperuhússins og leit í kringum mig á prúðbúið fólkið, gerði ég mér grein fyrir því að nú væri ég komin á einhvern sérstakan stað. Þegar hljómsveitin byrjaði að spila var ekki aftur snúið og ég fann að ég var föst í neti fallegra og kraftmikilla tóna Wagners. Hljómsveit og kór Bayreuth-sumarhátíðarinnar eru sérvalin til að flytja tónlist hans og þess vegna vel ég þau sem kjarna áhafnarinnar í Hollendingnum fljúgandi.
Öldugangur örlaganna
Sem Hollending vel ég Kanadamanninn George London (1919-1985). Ég hlustaði á upptöku með honum frá árinu 1960 og kraftmikil röddin og túlkun hans á þessum dularfulla Hollendingi hreif mig þannig að mér fannst ég vera komin mitt inn í öldugang örlaga hans.
Ég vel Ninu Stemme (1963) sem Sentu. Hún er sænsk og er að mínu mati mikil listakona. Við höfum starfað saman í Köln og núna siðast í Valkyrjunum, þar sem hún söng Sieglinde við mjög góðar undirtektir. Ég hef aldrei heyrt hana sem Sentu en ég er viss um að hún myndi túlka hana af mikilli sannfæringu. Ég veit að hún hefur sungið hlutverkið nokkrum uppfærslum og sú síðasta var á Metropolitan í New York á síðasta ári.
Kraftur og virðing
Sem skipstjórann Daland kýs ég Kurt Moll (1938). Hann er Kölnarbúi og þar sem ég hef búið í Köln undanfarin ár hef ég haft tækifæri til þess að hlusta á nokkra tónleika með honum. Mikil röddin og skemmtilegur karakter myndu gæða Daland þeim krafti og virðingu sem skipstjóri þarf að hafa.
Tenórinn Bernd Aldenhoff (1908–1959) væri Erik í minni áhöfn. Það er ekki til nein upptaka á geisladiski með honum sem Erik svo ég viti til. Hins vegar þekki ég frænda hans og heyrði hjá honum útvarpsupptöku sem var gerð á tónleikum í Hamborg 1951. Aldenhoff söng á sínum tíma mikið í Bayreuth og var fyrsti Siegfried þar eftir seinni heimstyrjöldina þegar húsið var opnað árið 1951.
Fritz Wunderlich (1930–1966) vel ég í hlutverk stýrimannsins. Á hans stuttu ævi komst hann á pall með frægustu lýrísku tenórum Þýskalands.
Crista Ludwig (1928) hefur lengi verið minn uppáhaldsmezzósópran. Þess vegna vel ég hana í hlutverk Mary. Ég veit ekki hvort hún hefur sungið hlutverkið en ég býst við því, þar sem hún hefur verið ein af ástsælustu söngkonum Þýskalands á okkar tímum.
Ég myndi gjarnan vilja sjá Kanadamanninn Robert Carsen sem leikstjóra. Þær sýningar sem ég hef séð eftir hann hafa hrifið mig. Hann kemur oft með nýjar og ferskar hugmyndir sem þjóna verki og tónlist vel.
Ég er búin að velta því mikið fyrir mér hvern ég ætti að velja sem hIjómsveitarstjóra þessarar uppsetningar. Ég hef ekki komist að neinni ákveðinni niðurstöðu og læt það þess vegna ógert að sinni.
Þetta er sú áhöfn sem ég vel í dag á fleytu hins fljúgandi Hollendings. Hins vegar gæti val mitt verið annað á morgun því eins og með aðrar áhafnir í lífsins ólgusjó eru margir sem hafa stigið um borð og möguleikarnir því óbrjótandi.
Höfundur er sópransöngkona og fer með hlutverk Sentu í uppsetningu Íslensku óperunnar, Þjóðleikhússins, Sinfónfíuhijómsveitar Íslands og Listahátíðar á Hollendingnum fljúgandi.