Eftirminnilegar sópransöngkonur frá 1925 til 1939
Halldór Hansen
Óperublaðið, 2. tbl. 1997
Hér heldur Halldór Hansen áfram umfjöllun sinni um eftirminnilega söngvara um og eftir síðari heimsstyrjöldina. Í síðasta blaði voru það messósópransöngkonur en núna er áherslan á kóloratúrsöngkonur.
Ef Miliza Korjust og Erna Sack nutu heimsvinsælda vegna hljóðritana sinna, voru fjölmargar aðrar kóloratúrsöngkonur, sem þekktar voru af frammistöðu sinni á óperu- og tónleikasviðinu fremur en af hljóðritunum sínum, þó að hljóðritanirnar hafi varðveitt söng þeirra fyrir síðari kynslóðir.
Lili Pons (1904-1976) átti það sameiginlegt með Milizu Korjus og Ernu Sack að ná hæst í þeirri tegund af flúrsöng, sem hittir í mark með því að glansa og glitra án þess að rista djúpt. Hún fæddist í Suður- Frakklandi, nálægt Cannes, og átti ítalska móður en franskan föður. Hún lagði strax í bernsku stund á píanóleik og ætlaði sér að verða atvinnupíanóleikari. Í fyrri heimsstyrjöldinni var hún fengin til að leika fyrir hermenn, en var ákaflega taugaóstyrk og átti erfitt með að koma fram. Sér sjálfri til huggunar fór hún því að raula með, þegar hún var að spila vinsæl lög og síðan að syngja fullum hálsi. Svo fór, að hún varð mun vinsælli fyrir sönginn en píanóleikinn. Þetta varð til þess að hún fór að stunda alvarlegt söngnám hjá Alberto da Corostaiaga í París.
Hún hóf feril sinn sem óperusöngkona í Mulhouse og skömmu seinna heyrðu hjónin Maria Gay og Giovanni Zenatello til hennar og ákváðu að koma því í kring, að hún syngi fyrir á Metropolitan óperunni í New York. Þau vissu að Metropolitan óperan var í vandræðum, eftir að Amelita Galli-Curci hafði orðið að draga sig heldur skyndilega í hlé, og var því á höttunum eftir góðri kóloratúrsöngkonu. Lausn vandans kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, þegar Lily Pons kom, sá og sigraði, þótt hún væri áður með öllu óþekkt.
Það þarf ekki að orðlengja, að Lily Pons vakti strax gífurlega athygli og hrifningu, þegar hún kom fyrst fram á Metropolitan óperunni sem Lucia í óperunni Lucia di Lammermoor eftir Donizetti og enn meiri voru fagnaðarlætin, þegar hún söng aðalhlutverkið í óperunni Lakmé eftir Delibes. Lily Pons var talsvert sérstakt fyrirbæri. Hún var örsmá vexti og var því oft kölluð „vasa“sópraninn. Engu að síður var hún glæsileg útlits og í framkomu engu síður en í klæðaburði. Hún var með örðum orðum, það sem Ameríkanar kalla „glamour girl“, sem voru að komast í tízku á óperusviðinu um þær mundir, saman ber Grace Moore og Gladys Swarthout.
Rödd Lily Pons má eiginlega líkja við fuglsrödd. Í henni var mikil mýkt, en tiltölulega lítill kjarni og þróttur. Samt barst þessi rödd auðveldlega í stærstu óperuhúsum. Hins vegar var röddin hjólliðug en ekki að sama skapi stöðug. Lily Pons söng inn á fjöldann allan af hljómplötum og var bæði dáð og feiknavinsæl söngkona. Engu að síður náði hljóðritunartækni þeirra tíma illa hinum sérstaka hljóm og sjarma, sem röddin bjó yfir og að sjálfsögðu alls ekki þeirri útgeislun og glæsilega ljóma, sem einkenndi Lily Pons, hvar sem hún kom fram. Þrátt fyrir allt, var Lily Pons samt engan veginn tæknilega sambærileg við koloratúrsöngkonur fyrri tíma.
Erna Berger (1900-) var af allt öðrum toga spunnin en Lily Pons og einnig gjörólík nöfnu sinni Ernu Sack. Meðan þessum tveim söngkonum lét bezt að glansa og glitra í söng sínum, lét Ernu Berger yfirleitt bezt að syngja frá hjartanu. Þótt rödd hennar væri óumdeilanlega léttur kóloratúrsópran, hafði hún í raun lítinn áhuga á að skína í kóloratúrsöng, en lét þeim mun betur að gæða kóloratúrsöng lífi og nota flúrið til að tjá mannlegar tilfinningar. Enda var Erna Berger hógværðin sjálf í einkalífinu og frábitin allri auglýsingastarfsemi. Þetta fór vel heim og saman við það, að Erna Berger var frábær ljóðasöngkona, sem hitti beint í mark í einfaldleika sínum og innileika í túlkun.
Þótt Erna Berger væri fædd í Þýzkalandi, nálægt Dresden, fluttist hún ung með fjölskyldu sinni til Argentínu, en snéri aftur til Þýzkalands árið 1923 og lagði stund á söngnám. Þegar árið 1925 var hún ráðin að óperunni í Dresden og 1929 kom hún fram í Berlín sem gestur við Städtische Oper þar í borg í óperunni Christelfelein eftir Pfitzner. Árið 1929 kom hún líka fram í Bayreuth í hlutverki hjarðsveinsins í Tannhäuser eftir Wagner og loks var hún ráðin að ríkisóperunni í Berlín árið 1934 af Wilhelm Furtwaengler og þar söng hún næstu tuttugu árin.
Eiginmaður Ernu Berger var norskur verkfræðingur, sem stundað hafði nám í Þýzkalandi. Hún var því tíður gestur hjá tengdafólki sínu í Noregi og velti því alvarlega fyrir sér að flytja frá Þýzkalandi á nazistatímabilinu, þar eð hún var í raun norskur ríkisborgari, en ákvað samt að vera kyrr í Berlín, sem hafði opnað henni leið til frægðar og frama.
Það gerði Ernu Berger erfitt fyrir, að hátindur getu hennar féll saman við seinni heimsstyrjöldina. Þegar henni lauk, var hún eiginlega komin á þann aldur, sem flestar söngkonur af hennar gerð fara að draga sig í hlé. En Erna Berger átti samt enn langan feril fyrir höndum og söng meðal annars í Metropolitan óperunni í New York eftir að hún var komin yfir fimmtugt. Hún lauk starfsferli sínum sem söngkennari í Hamborg og lézt í hárri elli. Hún hélt röddinni fram á elliár, og varðveitti hinn ungæðislega, jafnvel drengjalega blæ alla tíð.
Elisabeth Schumann (1885-1952) hljóðritaði meira en flestar aðrar söngkonur, eftir að rafmagnshljóðritanir komu til sögunnar. Hún fæddist í Merseburg í Þýzkalandi og stundaði tónlistarnám í Dresden, Berlín og Hamborg. Hún var ráðin að Hamborgaróperunni 1909 en fluttist til Vínaróperunnar árið 1919. Á árunum 1914 og 1915 var hún einnig ráðin að Metropolitan óperunni í New York. Sem óperusöngkona var hún einkum þekkt sem Mozartsöngkona og einnig fyrir túlkun sína á hlutverki Sophie í Rósariddaranum eftir Richard Strauss. En þekktust var Elisabeth Schumann þó sem ljóðasöngkona og þegar á ævina leið helgaði hún sig ljóðasöngnum meir og meir.
- Elisabeth Schumann var þrígift og á ýmsu gekk í einkalífi hennar.
- Ständchen Op. 17 No. 2 (Strauss) / Elisabeth Schumann
- https://www.youtube.com/watch?v=caboR6GYCO4
Richard Strauss hafði á henni sérstakt dálæti og ferðaðist með henni um Bandaríkin sem undirleikari á tónleikaferðum hennar í þeirri heimsálfu. Árið 1938 snéri hún baki við Austurríki og fluttist til New York þar sem hún bjó til æviloka og fékkst meðal annars við kennslu, en var tíður gestur á Bretlandseyjum, þar sem einkasonur hennar bjó. Elisabeth Schumann hafði einkar skæra og bjarta rödd, sem féll einstaklega vel að ljóðum Schuberts og ýmsum lögum Richards Strauss. Hún var afburða örugg á tónlistarsviðinu og því eftirlæti margra hljómsveitarstjóra og undirleikara. Hún var með öðrum orðum ljóðasöngkona, sem aðrir fagmenn dáðu, en átti engu að síður hug og hjarta hins almenna hlustanda.
Þótt á ýmsu gengi í einkalífi hennar, var söngferill hennar snurðulaus að mestu. Elisabeth Schumann var þrígift. Hún var fyrst gift lækni í Hamborg sem var mjög afbrýðisamur út í hljómsveitarstjórann Otto Klemperer, sem leit Elisabethu Schumann hýru auga. Otto Klemperer var mjög örlyndur maður og það svo mjög að sjúklegt varð með köflum. En hann var líka smellinn og orðheppinn. Eitt kvöld í óperunni stóð hann upp og sagði: „Það er sagt að ég standi í ástarsambandi við Elisabethu Schumann. Það er ekkert hæft í þessu“ – síðan kom löng þögn og þá bætti hann við „því miður“. Þó var þessi yfirlýsing ekki alls kostar rétt, því að upp úr hjónabandi Elisabethar Schumann og læknisins slitnaði um hríð, þó að sættir tækjust um síðir. Síðar gekk Elisabeth Schumann að eiga hljómsveitarstjórann Karl Alwin en loks mann af Gyðingaættum frá Vínarborg. Það samband reyndist ekki farsælt, en varð þó til þess að Elisabeth Schumann yfirgaf Vínarborg, þegar nazistarnir komust þar til valda og fluttist til Bandaríkjanna.
Lotte Schöne (1894-1977) átti margt sameiginlegt með Elisabethu Schumann. Eftir hana liggja fyrir fáar en afburðagóðar hljóðritanir. Lotte Schöne fæddist í Vínarborg og lærði þar söng. Hún kom fyrst fram á Volksoper þar í borg í smáhlutverkum, en var svo ráðin að Keisaralegu óperunni árið 1917. Árið 1926 var hún ráðin til Berlínar að Borgaróperunni fyrir tilstilli Bruno Walter og varð feiknarlega vinsæl þar. Hún gekk undir viðurnefninu „Die schöne Lotte“ þar í borg og var það nafn með rentu. Árið 1933 varð hún að flýja Þýzkaland, þar eð hún var af Gyðingaættum, og settist að í Frakklandi.
Hún hafði sungið hlutverk Mélisande í óperunni Pelléas og Mélisande í Hollandi við feiknagóðar viðtökur árið 1929 og í París söng hún sama hlutverk við samskonar móttökur. Og árið 1927 hafði hún sungið hlutverk Liu, þegar óperan Turandot var frumflutt í Covent Garden óperunni í London. Á stríðsárunum varð Lotte Schöne að fela sig í frönsku ölpunum fyrir innrásaliði Þjóðverja í Frakklandi. Eftir uppgjöf Þjóðverja, kom hún aftur úr felum og hóf söngferil sinn á ný um hríð, en helgaði sig síðan kennslu. Rödd Lotte Schöne var ekki stór eða kraftmikil, en afar mjúk og fljótandi jöfn og misfellulaus upp og niður allan tónstigann. Hún var ákaflega kvenleg og áhrifamikil leikkona.
Claudia Muzio (1889-1936) má segja að hafi fæðst beint inn í heim óperunnar, þar eð faðir hennar var leikstjóri við Covent Garden óperuna í London og síðar við Metropolitan óperuna í New York, meðan móðir hennar söng í kórnum á báðum stöðum. Claudia Muzio lagði stund á söngnám í Torino og kom fyrst fram í hlutverki Manon í óperunni Manon Lescaut eftir Puccini í Arrezzo árið 1911. Hún söng víða við smærri hús á Ítalíu en árið 1913-14 var hún ráðin að La Scala óperunni í Mílanó og vakti mikla athygli í hlutverki Desdemonu í Otello eftir Verdi og hlutverk Fioru í L’Amore Dei tre re eftir Montemezzi. Hún kom og fram sem gestur á Covent Garden óperuni 1914, en árið 1916 var hún ráðin að Metropolitan óperunni í New York við feikna góðar undirtektir og söng þar til ársins 1922. Hún frumflutti hlutverk Giorgiettu í II Tabarro eftir Puccini 14. desember 1918 í New York. Hún var leiðandi stjarna Chicago óperunnar frá 1922-1932 og kom víða fram í Suður-Ameríku sem vinsæll gestur.
- Claudia Muzio var afar hlédræg kona og allt að því þunglynd.
Árið 1926 hvarf hún heim til Ítalíu og söng við flest meiri háttar óperuhús í heimalandinu og var bæði dáð og virt, sem ein fremsta leik- og söngkona föðurlands síns og fékk viðurnefnið „Duse óperuheimsins“, en Elenora Dusa var, sem kunnugt er, allra frægasta leikkona Ítalíu. Árið 1934 hvarf hún aftur til New York, en söng einungis hlutverk Violettu í óperuni La Traviata eftir Verdi og Santuzzu í óperunni Cavalleria Rusticana eftir Mascagni.
Í febrúar árið 1934 tók hún þátt í frumuppfærslu óperunnar Cecilia eftir Refice í Rómaborg, sem vakti heimsathygli. Á árunum 1934-36 ferðaðist hún víða um Suður-Ameríku og söng þar við frábærar undirtektir. Claudia Muzio var sérstakur persónuleiki, hún skyggndist djúpt undir yfirboðið á þeim hlutverkum, sem hún söng og var gædd alveg sérstökum tjáningarhæfileikum á leiksviði, auk þess sem röddin var frábær, dökklituð sópranrödd sem snart áheyrendur beint í hjartastað. Í einkalífinu var Claudia Muzio afar hlédræg kona. Hún virðist hafa verið allt að því þunglynd, því að á heimili sínu hafði hún ávallt dregið fyrir alla glugga, forðaðist ókunnuga og umgekkst fáa. Um leið og tjaldið var fallið óperuhúsinu, var hún á brott, áður en áheyrendur gátu náð tali af henni. Hún var hjartveik og barðist við fátækt seinustu árin, enda heilsan farin. Hún lézt í Rómaborg vorið 1936. Undir lok ævi sinnar hljóðritaði Claudia Muzio nokkrar aríur og lög með rafmagnsaðferðinni, aðallega vegna þess að hana vantaði peninga. Þessar hljóðritanir eru merkar fyrir þá dýpt og listræna skilning, sem þær bera vott um, þó að röddin sem slík hafi verið farin að láta talsvert á sjá, enda Claudia Muzio þá orðin fársjúk og átti ekki nema stutt ólifað.
Rosa Ponselle (1897-1981) hafði til að bera rödd, sem þótti eitt af undrum veraldar. Eitt sinn spurði Lotte Lehmann, hin velþekkta þýzka söngkona, hvernig væri eiginlega hægt að öðlast svona rödd. Svarið var, að það væri einungis hægt með sérstöku samkomulagi við skaparann. Á hátindi frægðarinnar var Rosu Ponselle oft líkt við sjálfan Caruso og menn sögðu, að hún væri eiginlega sjálfur Caruso, einungis pilsi klæddur.
- Rosa Ponselle var umsvifalaust ráðin að Metropolitan óperunni, þó að hún hefði engan bakgrunn í óperusöng.
Caruso hafði reyndar sterk áhrif á feril hennar í upphafi, því að hann var mótsöngvari hennar, þegar hún kom fram í fyrsta sinn á Metropolitan óperunni í New York í óperunni Vald örlaganna eftir Verdi. Það var reyndar í fyrsta sinn, sem hún steig á óperusvið yfirleitt. Rosa Ponselle var af ítölsku bergi brotin, en fædd í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Meriden, Connecticut. Hún og systir hennar, Carmela, fóru ungar að syngja saman á skemmtunum og í fjölleikahúsum við talsverðar vinsældir. Ráðamaður Metropolitan óperunnar heyrði til þeirra og varð það til þess, að Rosa Ponselle var umsvifalaust ráðin að Metropolitan óperunni, þó að hún hefði í raun engan bakgrunn í óperusöng og væri algjör viðvaningur á sviði. Hún varð að læra allt á sjálfu leiksviðinu og fyrir framan áheyrendur. Hún var í raun gott dæmi um það, sem getur gerst, ef hæfileikaríkum söngvara eða söngkonu er ýtt út í sviðsljósið og alheimsfrægð of snemma, án þess að hafa þann undirbúning, sem til þarf. Rosa Ponselle varð að borga þetta dýru verði, því að hún var alltaf skelfingu lostin, er hún átti að koma fram og hafði sú staðreynd áhrif á allan hennar feril.
Röddin sjálf hafði til að bera þrótt og fyllingu og einstaklega fagran dökkan blæ, einkum á miðsviðinu, en Rosa Ponselle var alla ævi hrædd við háu tónana. Því var hún t.d. hrædd við hlutverk eins og Aidu, en bar af öðrum í klassískum óperum eins og La Vestale eftir Spontini og Normu eftir Bellini, svo að ekki sé minnst á Vald örlaganna og Ernani eftir Verdi. Loks ákvað Rosa Ponselle að leggja til atlögu við óperuna Carmen eftir Bizet. Hún lagði sig alla fram við undirbúning hlutverksins, en þegar á hólminn var komið, rifu gagnrýnendur hana í sig og varð það til þess. að Rosa Ponselle dró sig í hlé frá óperusöng, sárreið við bæði guð og menn og þó sérlega við gagnrýnendur.
Víst er, að sú Carmen, sem hún setti á svið, var bæði ruddaleg, óhefluð og óhefðbundin. Það má vera, að Rosa Ponselle hafi verið á undan smekk samtíðar sinnar í þessu hlutverki, því að margir dáðu túlkun hennar, þar á meðal söngkonan Mary Garden, sem sjálf hafði verið ein af frægustu Carmentúlkendum heims, þó að hún liti hlutverkið öðrum augum. Það sem eftir var ævinnar, eyddi Rosa Ponselle í glæsihúsi sínu nálægt Philadelphiu og húsið kallaði hún „Villa Pace“ eftir aríunni Pace, pace mio Dio úr óperunni Vald örlaganna, sem leiddi Rosu Ponselle til heimsfrægðar á einni kvöldstund.
Toti dal Monte (1898-1976) fæddist í Venetohéraðinu á Ítalíu og ætlaði sér, líkt og Lily Pons að verða píanóleikari. Hún varð fyrir því óláni að sin tognaði í hendi með þeirri afleiðingu að hún varð að láta píanóleik lönd og leið. Henni var þá komið í söngnám hjá Barböru Marchisio til sárabóta, en Marchisio systurnar höfðu verið frægar prímadonnur á tímum Rossini og verið í miklu uppáhaldi hjá honum. Toti dal Monte varð ein af vinsælustu söngkonum Ítalíu og ekki einungis á sviði flúrsöngsins. Hún þótti frábær í óperum Bellinis, Donizettis og Rossinis, en var frábær túlkandi öðrum hlutverkum og var þekkt sem einhver hjartnæmasta og viðkvæmasta Madame Butterfly í óperu Puccinis, sem um getur, og sú eina sem gat sannfært áheyrendur um, að hún væri einungis fimmtán ára.
- Toti dal Monte var þekkt sem einhver hjartnæmasta og viðkvæmasta Madame Butterfly sem um getur.
Röddin var sem sagt ákaflega ungæðisleg, jafnvel barnsleg í hljóm, þó að listrænir hæfileikar og kunnátta, sem að baki bjó, væri allt annars eðlis. Utan Ítalíu naut Toti dal Monte aldrei sömu vinsælda og á heimavelli. Hún var frábær leikkona en smá vexti og dálítið hnellin, en á leiksviðinu geislaði af henni og fáar söngkonur hafa hitt jafn milliliðalaust í mark og Toti dal Monte eða snert hjarta áheyrenda jafnótvírætt.
Nútíminn man helst eftir Toti dal Monte fyrir upptöku af óperunni Madama Butterfly, sem hún söng með Beniamino Gigli, þegar hún var farin nokkuð að reskjast.
Lina Pagliughi (1911-1980) er mörgum íslenzkum söngvurum ofarlega í minni, þar eð hún hefur kennt mörgum þeirra söng, meðal annars Þuríði Pálsdóttur, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og Garðari Cortes ef ég man rétt. Lina Pagliughi var af ítölskum ættum og fæddist í New York en bjó á barnsaldri í San Fransisco. Þar heyrði Luisa Tetrazzim til hennar og lýsti því yfir að hún væri búin að finna eftirmann sinn. Lina Pagliughi flutti til Ítalíu á unglinsárunum og söng hlutverk Gildu í Rigoletto inn á grammafónplötur, þegar hún var innan við tvítugt og sú upptaka stendur enn fyrir sínu.
Lina Pagliughi var feikna vinsæl söngkona, en þegar aldurinn færðist yfir fitnaði hún alveg óeðlilega, þannig að hún átti erfitt með hreyfingar á leiksviðinu. Þótt hún bæri af öðrum, hvað sönginn varðaði, varð hún þó oft að sætta sig við að syngja sín hlutverk í útvarp eða á grammafónplötum. Í raun og veru hafði Luisa Tetrazzini átt við sama vandamál að stríða, en tímarnir voru aðrir og „straumlínulagaðar“ óperusöngkonur ekki komnar í móð. Þó að Lina Pagliughi og Toti dal Monte væru að sumu leyti sambærilegar af því að báðar voru eðli sínu samkvæmt kóloratúrsöngkonur, var þó nokkur munur á því, hvernig þær notuðu raddir sínar. Toti dal Monte notaðist fyrst og fremst við hina björtu og skæru hliðar á röddinni, meðan Lina Paghliughi blandaði dekkri hljómum saman við þá skæru og var því nær þeirri tónmyndun, sem hefur orðið vinsælli í nútímanum. Enda var Lina Pagliughi nokkuð yngri en Toti dal Monte.