Undirkaflar
Glíman við fortíðina
Fortíðarvandi Wagnerfjölskyldunnar og Bayreuthhátíðarinnar
Viðar Pálsson
Sagnir, 1. tbl. 2001.
„Weibt du, was du sahst?“
30. júlí 1951 dóu gömlu gaslamparnir í tónleikasalnum í Festspielhaus í Bayreuth út.[1] Út úr myrkinu fæddust lágværir tónar Parsifal, draumkenndir og seiðandi. Án allrar framhleypni má fullyrða að þetta hafi verið upphafið á merkustu óperutónleikum síðustu aldar, a.m.k. í sögulegum skilningi; einungis frumflutningur Wozzeck í Berlín 1925 getur kallast jafningi. Tónleikarnir voru sögulegir á alla lund. Þeir voru hlaðnir táknrænni merkingu. Þeir mynduðu brú milli fortíðar og framtíðar, gamalla hugsjóna og nýrra, og mörkuðu þáttaskil í pólitískri og listrænni sögu frægustu óperuhátíðar heims.
Parsifal er helgasta verk Richards Wagners. Það hefur ekki aðeins trúarlegra inntak en önnur verk hans heldur reyndist það vera svanasöngur hans. Ólíkt öðrum óperum sínum, sem hann kallaði Musikdrama,[2] kallaði hann Parsifal Bühnenweihfestspiel. Upphaflega átti einungis að flytja það einu sinni í Bayreuth en síðan heimilaði Wagner að það yrði flutt oftar, en áfram bara í Bayreuth. Það var virt að vettugi sem kunnugt er.[3]
Hönnun leikmyndarinnar og valinu á listamönnunum var ætlað að marka skörp skil. Wagner gaf nákvæm fyrirmæli um leikstjórn, sviðsmynd og búninga. Wieland Wagner, leikmyndahönnuður, leikstjóri sýningarinnar og sonarsonur Richards, varpaði þeim flestum fyrir róða. Engin gömlu Wagnerkempanna frá millistríðsárunum fór með hlutverk í óperunni. Á móti sýndi valið á verkinu og stjórnanda þess tengsl við hina sönnu arfleifð Wagners. Stjórnandinn var Hans Knappertsbusch, gamalreyndur Wagnerstjórnandi og nemandi Hermanns Levis, þess sem frumflutti verkið 1882 og hafði Wagner sjálfan sér til ráðgjafar.[4] Tónleikarnir 30. júlí 1951 sýndu stefnubreytingu en ekki rof.
Wagner stofnaði hátíðina í Bayreuth 1876 með frumflutningi Der Ring des Nibelungen og vígslu eigin óperuhúss, Festspielhaus Bayreuth. Hann vígði húsið með því að stjórna 9. sinfóníu Beethovens en annars voru einungis óperur hans sjálfs fluttar í húsinu. Það var hannað með Niflungahringinn í huga og Parsifal var sérstaklega samin fyrir það. Þegar fram liðu stundir varð hátíðin að árlegum viðburði. Færustu Wagnerlistamenn heims komu fram í Bayreuth án þóknunar og þökkuðu fyrir þann heiður að vera boðið að koma fram á hátíðinni. Hátíðin stóð í stutt tímabil á hverju sumri og miðaframboð var mjög takmarkað. Til þess að gera langa sögu stutta var Bayreuth frá upphafi helgiskrín í listalífi Þýskalands, Mekka Wagnerunnenda og listrænt lokatakmark óperusöngvara og stjórnenda.[5]
Uppfærslan á Parsifal var dæmigerð fyrir listræna stefnu hátíðarinnar eftir stríð. Hún er venjulega nefnd Neu-Bayreuth eða Werkstatt Bayreuth til áherslu á endursköpun og lifandi list og til andstöðu við stöðnun, andleysi og tímahelsi.[6] Eðlilega hlaut stefnan misjafna dóma. Áhorfendur á Parsifal skipuðust í fylkingar og taldi önnur hátíðina heimta úr helju á meðan hin fékk fyrir hjartað af þeim helgispjöllum sem hún taldi vera unnin.[7] Þegar Wieland uppfærði Die Meistersinger von Nürnberg árið 1956, og svipti óperuna sögutímanum, var andstæðingum stefnunnar nóg boðið. Í fyrsta sinn í sögu Bayreuth púuðu áhorfendur eftir sýningu. “Die Meistersinger ohne Nürnberg!”, hrópuðu þeir í háðungarskyni.[8]
Hátíðin var lögð niður 1944. Þegar hún var endurreist 1951 voru stjórnendur hennar Wolfgang og Wieland Wagner, synir Winifredar og Siegfrieds Wagners, sonar Richards. Ljóst var á öllu að stefnubreyting þeirra bræðra átti sér ekki bara rætur í þörf fyrir listræna framvindu og endursköpun heldur líka í pólitískri umræðu eftirstríðsáranna. Hitler hóf Wagner á stall sem æðsta spámann þýskrar menningar og hátíðin í Bayreuth var gimsteinn í Þriðja ríkinu. Tengsl Hitlers við Wagnerættina voru náin og tengdu hana, hátíðina og verk Wagners dökkum tíma í sögu landins. Það var erfitt og umdeilt að endurreisa hátíðina með þetta á bakinu.
Í bókaverslunum flóir yfir af bókum um Wagner og Hitler, Wagner og nasismann, Wagner og seinni heimsstyrjöldina, Wagner og gyðingahatur. Efnið er spennandi og söluvænlegt, og kann það að vera ríkur þáttur þess að margar bókanna eru flausturslega unnar og reyfarakenndar úr hófi fram. Því er gjarnan haldið fram að Wagner hafi verið stækur gyðingahatari, afkomendur hans sömuleiðis og hátíðin öðrum þræði nasísk helgihátíð. Af þessu leiðir að hátíðin og Wagner vekja hugrenningatengsl við Hitler, nasismann og helförina, nokkuð sem fæstir vilja tengjast á nokkurn hátt. Flutningur á tónlist Wagners er t.d. bannaður í Ísrael.[9] Þessi Wagnerkomplex, ef svo má að orði komast, er hins vegar ekki hugarburður rithöfunda eftirstríðsáranna. Strax eftir stríðið sáust greinileg merki þess að Þjóðverjar væru óvissir um í hvorn fótinn þeir ættu að stíga þegar Wagner bar á góma. Sjálfsmynd þeirra var löskuð eftir ósigurinn 1945 og nánast allir þættir þýskrar sjálfsvitundar og sjálfmyndar voru teknir til endurskoðunar. Þjóðverjar voru hræddir við að hlusta á Wagner skömmu eftir stríð. Það er merkileg staðreynd að árið 1946 var engin Wagnerópera sett upp í öllu Þýskalandi. Árið 1947 tóku örfá þýsk óperuhús Wagneróperur til sýninga, og þótti dirfska að flestra mati. Hringurinn, höfuðverk Wagners, hafði sérstöðu í huga almennings, einkum vegna túlkunar nasista og hægrimanna á honum og var fyrst fluttur aftur í Þýskalandi 1950, og þá í litlu óperuhúsi í Coburg. Stóru húsin tóku Hringinn fyrst til sýninga 1951 þannig að Bayreuthhátíðin var í broddi fylkingar þegar hún færði hann upp á opnunarhátíðinni.[10] Þessar einföldu staðreyndir segja meira en mörg orð.[11]
Í þessari grein er fortíðarvandi Bayreuthhátíðarinnar og Wagnerfjölskyldunnar reifaður. Ósigurinn 1945 færði fjölskylduna, og Þjóðverja almennt, skyndilega í þá stöðu að þurfa að horfast í augu við fortíðina með öðrum hætti en þau höfðu vænst. Höfuðspurning ritgerðarinnar er í hverju fortíðarvandinn felst fremur en hvernig fjölskyldan og Þjóðverjar glíma við hann. Fyrst er vikið að Richard sjálfum og verkum hans með skírskotun til nasisma og andsemitisma. Því næst eru raktir þættir úr sögu hátíðarinnar og Wagnerfjölskyldunnar fram til 1944 og grafist fyrir um pólitíska stöðu hátíðarinnar, tengslin við Hitler og stöðu Bayreuth í Þriðja ríkinu. Að lokum er dregið saman í hverju fortíðarvandinn felst og hvers vegna erfiðlega gengur að glíma við hann.
Þjóðernishyggja og andsemitismi í verkum Wagners
Stjórnmálasaga og menningarsaga Þýskalands á 19. öld er samofnari en í fyrstu virðist. Þýskaland var sameinað eftir fransk-prússneska stríðið 1870-1871 og brátt eldaði það grátt silfur við nágrannaríkin á nýjan leik. Á öld rómantíkur og þjóðernishyggju tókst hið nýstofnaða Þýskaland á við það verðuga verkefni að hlaða undir þjóðarvitund sína og leita hins sanna þýska þjóðaranda.[12] Síðbúin stofnun ríkisins, sem áður hafði einungis verið sameinað að nafninu til sem keisaralegt ríkjasamband, hafði þau áhrif á fornaldardýrkun þýskrar rómantíkur að síðbúin fornmenntastefna reið í hlað. Menntamenn og listamenn leituðu þá dyrum og dyngjum að öllu fornþýsku sem mætti styrkja þjóðernisvitund og stolt. Saman við fornmenntastefnuna þýsku ófst pangermanisminn og leitarsvæðið varð því öllu víðlendara en ætla mætti. Skyndilega varð fornnorrænn menningararfur forngermanskur, fornþýskur.[13]
Listaverk og efnistök Wagners eru skilgetin afkvæmi þessara strauma í stjórnmálum og menningu. Fyrir fáum misserum birti Árni Björnsson afrakstur rannsókna sinna á þýsku fornmenntastefnunni með sérstöku tilliti til Wagners. Wagner var ákafur þjóðernissinni og leit ekki á efnivið sinn sem alþjóðlegan fornmenntaarf heldur fornþýskan arf. Niðurstöður Árna styðja þá skoðun að verk Wagners beri að skoða í þessu ljósi.[14] Barry Millington bendir ennfremur réttilega á að vegna hálfguðlegar stöðu Wagners, og óumdeilanlegs frumleika í listsköpun, sé mönnum of gjarnt að líta á hann sem frumherja á öllum mögulegum sviðum. Sannleikurinn sé hins vegar sá að hann hafi ekki verið frumkvöðull í pólitískum skrifum sínum og skoðunum og verk hans endurspegli umfram allt skoðanir Þjóðverja á 19. öld, að því gefnu að þau endurspegli eitthvað. Mjög varasamt sé að rekja ýmsa þræði nasismans fremur til hans en annarra.[15] Ef Wagner hefði ekki samið frægar óperur dytti fáum í hug að leita róta nasismans hjá honum.
Snemma var verkum Wagners haldið á lofti sem einum af meistaraverkum mannsandans. Í ljósi þess að þau eru þýsk þóttu þau jarteikn um yfirburði Þjóðverja í menningu og listum. Þá þótti mörgum verkin endurspegla pólitískar skoðanir Wagners.
Án þess að hefja langa umræðu um mögulegar merkingar og túlkanir á verkum Wagners verður ekki séð að óperur hans séu þjóðernisleg áróðursverk. Þegar spurt er um þjóðernislegan áróður í verkum Wagners eru einungis tvær af þrettán óperum hans tækilegar til umræðu, Lohengrin og Meistarasöngvararnir. Í fyrsta þætti Lohengrin heldur Hinrik konungur fuglari þrumuræðu yfir undirsátum sínum í Brabant vegna herkvaðningar sinnar gegn ungverskum innrásarlýð. Vörn Þjóðverja og ósigranleiki þeirra er hins vegar ekki umfjöllunarefni óperunnar. Eftir að Elsa hefur klúðrað ráðahagnum við Lohengrin og líður að lokum óperunnar heitir hann konungi sigri gegn Ungverjum í guðs umboði. Guðsfylgi Þjóðverja á orrustuvellinum gegn öðrum þjóðum mætti túlka sem þjóðernisáróður. Auðsærra virðist þó að guð styðji trúmenn sína gegn heiðnum barbörum en að hann taki afstöðu í deilum kristinna, og þar af leiðandi siðmenntaðra, þjóða. Enda kemur Lohengrin upphaflega til Brabant til þess að hindra áform Ortrudar, sem er heiðinn morðingi, en ekki til þess að leiða Þýskaland til sigurs gegn öðrum þjóðum. Og eftir allt saman eru varnir þjóðarinnar aukaatriði í óperunni en ást og tryggð í forgrunni.[16] Þannig er mjög djúpt á þjóðernisáróðri í Lohengrin, og undarlega lítið af honum ef Wagner hugsaði hana sem áróðursstykki.
Í Meistarasöngvurunum er fjallað um gildi þýskrar listar og viðhorf til vaxtar og viðgangs hennar. Meðal niðurstaðna er að þýsk list sé öllum öðrum æðri og eilíf. Sachs segir við Walter, þegar sá síðarnefndi hafnar því að vera gerður Meistarasöngvari, að viðhald gamalla gilda og hefða sé lykillinn að sjálfsvitund þjóðarinnar:
Drum sag ich Euch:
ehrt Euren deutschen Meister!
Dann bannt ihr gute Geister;
und gebt Ihr ihrem Wirken Gunst,
zerging in Dunst
das heil´ge röm´sche Reich,
und bliebe gleich
die heil´ge deutsche Kunst![17]
Meistarasöngvararnir eru stundum kallaðir „þýskasta ópera Wagners“. Þegar Bayreuthhátíðin átti að stappa stálinu í hermenn og aðra gesti í seinna stríði var hún tíðast sýnd. Hún sker sig úr óperum Wagners sem eina gamanóperan og hefur vafalaust þótt vænlegri til uppörvunar en heimsendir Hringsins eða sjálfsmorð Tristans. Þjóðernislegri kafli í óperum Wagners en sá sem hér er tilfærður finnst ekki. Þetta er líka eini kaflinn.[18]
Þegar komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að óperur Wagners séu svo að segja lausar við þjóðernisáróður er rétt að reifa andgyðingleg viðhorf Wagners og kanna hvort þau komi fram í óperum hans. Andgyðingleg viðhorf Wagners voru í takt við það sem almennt gerðist í Evrópu um hans daga. Sagnfræðingar hafa leitt í ljós að Þýskaland skar sig ekki úr meðal þjóða í Evrópu hvað varðar gyðingahatur í lok 19. aldar, öfugt við almenna tilfinningu fólks nú á dögum. Hins vegar voru andgyðingleg viðhorf almennari í Frakklandi og víða í A-Evrópu.[19] Þegar kynþáttakenningar ruddu sér til rúms á 19. öld, og blönduðust fyrri fordómum, tók aldagömul andúð á gyðingum á sig ýmsar myndir. Deilt er um hvers eðlis andsemitismi Wagners var og halda færri því fram að hann hafi verið kynþáttalegs eðlis.[20] Gottfried Wagner, sonarsonarsonur Richards, hefur ákaft tengt skoðanir hans kynþáttakenningum manna á borð við Arthur Gobineau en skortir sannfærandi rök fyrir máli sínu.[21] Andúð Wagners á gyðingum fólst einkum í þjóðerniskennd hans. Hann taldi gyðinga sem ekki beygðu sig undir þýska menningu og þýsk gildi spilla fyrir einingu þjóðarinnar og grafa undan sjálfsmynd hennar. Í ritgerðinni “Judentum in der Musik” heldur Wagner því fram, að menningarlegt rótleysi gyðinga hefti listræna hæfileika þeirra og spilli fyrir öðrum. Hann leit á gyðinga sem útlendinga í Þýskalandi sem bæri að losa úr landi, en ekki sem óæðri manneskjur. Andsemitismi Wagners endurspeglar aldagamla andúð og á lítið skylt við kynþáttalegan andsemitisma.[22]
Í óperum Wagners finnst hvorki tangur né tetur af andgyðinglegum viðhorfum. Þeir sem sjá skrattann í hverju horni í þessu efni þykjast hins vegar sjá andsemitisma bregða fyrir í ýmsum myndum. Við nákvæma leit í öllum óperunum að einhverju sem má túlka sem andgyðingleg viðhorf uppskar ég ekkert.[23] Áðurnefndur Gottfried er dæmigerður fyrir þá sem eru ósammála mér. Í ævisögu sinni tiltekur hann sterkustu dæmin sem hann þekkir um andsemitisma í óperum áa síns. Gottfried hefur alla sína ævi kappkostað að leiða í ljós stækt gyðingahatur Wagners og hann gjörþekkir verkin. Dæmi hans eru því sterkustu dæmin sem fundist hafa. Dæmin sem hann tiltekur eru gamlar lummur um Parsifal og Hringinn sem andsemitísk verk.[24] Rökstuðningur Gottfrieds er síst sterkari en þeirra sem áður hafa reynt að færa rök að því að Fáfnir, Mímir, Alberich og Högni séu táknmyndir gyðinga. Kenningin hlýtur engan stuðning í skrifum Wagners, sem víkja margoft að túlkunarmöguleikum verkanna. Rökstuðningur Gottfrieds og skoðanabræðra hans er, að þar sem áðurnefndar persónur séu fégráðugar, valdafíknar og undirförular leiði af sjálfu sér að þær séu táknmyndir gyðinga. Meðan sterkari rökstuðningur kemur ekki til má hiklaust dæma þessar túlkanir sem loftkastala kenningarsmiðanna. Þegar Gottfried þykist færa sönnur á stuðning Wagners við helförina með því að rýna í Parsifal og persónusköpun Klingsors og Kundryar þarf ekki fleiri vitnanna við um þessa loftfimleika.[25] Langsóttari rökstuðningur er utan míns ímyndunarafls.
Óperur Wagners eru hvorki andgyðinglegar né hlaðnar þjóðernisáróðri. Að nær öllu leyti sýnast þær ópólitískar. Wagner var ákafur þjóðernissinni og stóð oft í ströngu vegna pólitískra skoðana sinna.[26] Gild rök hafa verið færð að því að hann hafi verið allt annað en geðugur maður, lastafullur umfram aðra menn.[27] Allt um það er erfitt að merkja það í óperum hans. Það er líka ljóst að hann bar enga ábyrgð á því sem síðar varð í Þýskalandi þegar nasistar mistúlkuðu og misnotuðu verk hans. Allt tal, sem stundum heyrist, um að hefði hann verið uppi á dögum Þriðja ríkisins hefði hann verið ákafur nasisti er óraunhæft og tilgangslaust. Wagner var ekki nasisti.[28]
Sjálfstæði Bayreuth – pólitískt og listrænt
Löngu áður en nasistar komu til sögunnar þyrptust þjóðernissinnar og hægrimenn til Bayreuth og nutu þess sem þeir töldu sýna yfirburði Þjóðverja í andlegum efnum. Meistarasöngvararnir höfðuðu strax í upphafi til þessa hóps umfram önnur verk. Þegar leið fram yfir fyrra stríð kom fram sú túlkun á Hringnum sem nasistar tóku upp á arma sína. Hringurinn var þá fyrst og fremst túlkaður sem táknsaga Þýskalands, með Siegfried í hlutverki sannra Þjóðverja. Siegfried fellur saklaus, grunlaus og dyggðugur, fórnarlamb valdagírugra öfundarmanna sinna. Fjandmenn Siegfrieds fengu snemma á sig stimpil gyðinglegrar hegðunar og táknuðu óvini Þjóðverja. Ekki þarf að fjölyrða um túlkun þjóðernissinnaðra hægrimanna á spjótsstungu Högna í bak Siegfrieds, samsvörunin er augljós. Óvinir gátu leynst innanlands sem utan.[29]
En hver var afstaða Wagnerættarinnar sjálfrar, leiðtoga hátíðarinnar? Eftir dauða Wagners 1883 tók Cosima, ekkja hans, við stjórn hátíðarinnar. Saga Cosimu er afar sérstök og áhugaverð, einkum fyrir þá sem finnst þriðji þáttur Tristan und Isolde óraunverulegur. Richard dó hægum dauðdaga í örmum Cosimu í Feneyjum og segja má að hún hafi dáið samtímis, rétt eins og Ísold þegar Tristan leið. Við dauða Richards hætti Cosima að lifa þótt hún dæi í hárri elli löngu síðar, 1930. Cosima var Festspielleiter til 1906, þegar Siegfried, sonur þeirra hjóna, tók við. Tíminn stóð í stað hjá Cosimu og allt skyldi vera ósnert eins og „meistarinn“[30] skildi við það. Þegar Cosima dó lágu flestar eigur Wagners á sama stað og hann lagði þær, húsgögnin í Wahnfried, aðsetri fjölskyldunnar, voru óhreyfð, föt Richards voru á sama stað. Jafnvel bókin sem Wagner skildi eftir á stofuborðinu var óhreyfð.[31] Sama gilti um óperuuppfærslur hennar. Breytingar voru ekki gerðar nema nauðsyn krefði og fyrirskipunum Richards var fylgt út í ystu æsar. Persónulegar skoðanir Cosimu gáfu heldur ekki tilefni til þess að telja Bayreuth pólitískari en áður. Cosima var nánast óafvitandi um það sem fram fór utan Wahnfried og Festspielhaus. Hún talaði um löngu látna listamenn, heimspekinga og stjórnmálamenn eins og þeir væru enn á lífi, viðstöddum til vandræða. Eftir 1906 fór hún örsjaldan út fyrir lóðarmörk Wahnfried og þá einungis í fylgd sonar síns. Hún steig ekki aftur inn fyrir dyr í Festspielhaus fyrr en 1924. Fáir vissu hvort hún hafði gert sér grein fyrir því að fyrri heimsstyrjöldin átti sér stað.[32]
Þegar Siegfried tók við taumunum í Bayreuth bundu margir vonir við að hátíðin yrði „þýskari“. Ýmsir þjóðernissinnar höfðu lýst yfir áhyggjum sínum vegna „óþjóðlegrar“ forystu Cosimu, enda ítölsk í annan legginn en ungversk í hinn.[33] Þeir urðu fyrir sárum vonbrigðum með Siegfried. Í stað þess að taka undir málstað þjóðernissinna og hægriafla forðaðist Siegfried að færa Bayreuth í hringiðu pólitískra skoðanaskipta. Í upphafi þriðja áratugarins urðu kröfur Bayreuthklíkunnar, en svo voru hægrisinnaðir og þjóðernissinnaðir áhangendur hátíðarinnar gjarnan nefndir, sífellt háværari um að útiloka bæri alla gyðinga frá starfsemi hátíðarinnar. Hún varð fyrir miklum vonbrigðum þegar Siegfried réðst opinberlega gegn þessum viðhorfum 1921 og þvertók fyrir að slíkt kæmi til greina. Siegfried gaf líka í skyn að þýskt þjóðerni væri ekki skilyrði fyrir þátttöku í hátíðarstarfseminni. Fjölmargir gyðingar sungu í Bayreuth á dögum Siegfrieds og Cosimu.[34]
Eftir sýningu á Meistarasöngvurunum 1924 brutust út æsileg fagnaðarlæti meðal fjölmargra áhorfenda úr röðum Bayreuthklíkunnar. “Deutschland, Deutschland über alles!”, hrópuðu gestir ákaft. Í stað þess að fylla Siegfried stolti gramdist honum viðbrögðin og þau fengu honum áhyggna.[35] Viðbrögð Siegfrieds við þrýstingi klíkunnar og kröfum um gyðingalausa Bayreuth voru fyrst og fremst til varnar pólitísku sjálfstæði hátíðarinnar. Sjálfur var hann allt annað en ósnortinn af þeirri trú að flutningur og uppsetning verkanna færu best í höndum þýskra listamanna, helst ekki gyðinga. Heimildir sýna að hann forðaðist að bjóða þekktum gyðinglegum Wagnerstjórnendum til starfa í Bayreuth af listrænum ástæðum. Andstaða Siegfrieds gegn erlendum stjórnendum og gyðinglegum virðist aftur á móti ekki hafa byggst á persónulegri andúð hans á gyðingum almennt, andsemitisma, heldur mun frekar tryggð við venjur og hefðir arfleifðarinnar í Bayreuth.
Árið 1930 sá Siegfried sér leik á borði til þess að hamra á pólitísku sjálfstæði Bayreuth. Hann braut odd af oflæti sínu, skellti skollaeyrum við hefðinni og bauð hinum ítalska Arturo Toscanini að stjórna í Bayreuth, sem hann og þáði. Siegfried hafði sex árum áður reynt þetta bragð en fallið frá því vegna gríðarlegar andstöðu fjölskyldunnar gegn erlendum stjórnendum í Bayreuth. Toscanini var fyrsti erlendi stjórnandi hátíðarinnar. Flugurnar sem Siegfried sló með þessu voru nokkrar. Þjóðerni Toscaninis var ekki það eina sem gekk þvert á vilja Bayreuthklíkunnar, heldur og einnig stjórnmálaskoðanir hans. Toscanini var þekktur andfasisti og baráttumaður gegn andsemitisma.[36] Ráðning hans voru skýr skilaboð. Auk þessa bar Toscanini ferskan andblæ með sér í listræna stefnu hátíðarinnar, sem um þessar mundir sætti harðri gagnrýni fyrir stöðnun og andleysi.
Á sama tíma og Bayreuthhátíðin festist í sessi sem samkomustaður þjóðernissinnaðra hægriafla tókst Siegfried furðu vel að verja sjálfstæði hennar, bæði pólitískt og listrænt. Þegar forvígismenn nasista voru að fóta sig í þýskum stjórnmálum á þriðja áratugnum var Siegfried síður en svo harður andstæðingur þeirra. Hann taldi hins vegar mjög mikilvægt að aðskilja listir og stjórnmál.[37] Margir hafa velt því fyrir sér hvernig saga hátíðarinnar væri ef Siegfried hefði ekki fallið frá fyrir aldur fram 1930. Aftur er óskynsamlegt að spinna ímyndaðan kafla aftan við raunveruleikann.
Gestur er inn kominn, hvar skal sitja sjá?
Í desember 1908 giftist Eva, dóttir Cosimu og Richards, heimspekingnum Houston Stewart Chamberlain. Chamberlain var kynlegur kvistur, svo ekki sé meira sagt. Þessi enski aðalsmaður var þýskari en flestir Þjóðverjar og taldi að óskiljanleg mistök guðs hefðu fætt hann í heiminn í röngu landi. Hann ávann sér frægð fyrir höfuðrit sitt, Grundlagen des XIX. Jahrhunderts, þar sem hann greinir mannkynssöguna með hliðsjón af kynþáttakenningum 19. aldar. Skoðanir Chamberlains höfðu mótandi áhrif á kynþáttalegan andsemitisma og Hitler sótti allnokkuð í smiðju hans þegar hann skrifaði Mein Kampf.[38] Chamberlain var fanatískur Wagneráhangandi og stofnaði þegar fyrir aldamótin til vináttu við Cosimu. Hann réri allt til æviloka sinna 1927 í Siegfried og öðrum fjölskyldumeðlimum að taka afgerandi afstöðu með Bayreuthklíkunni og verja Bayreuth „menningarlegum bolsevisma“ og óæskilegum áhrifum gyðinga. Undirtektir annarra en Evu létu á sér standa og Siegfried var lítið um þennan herramann gefið.[39]
Chamberlain kynnti fjölskylduna fyrir ágætum vini sínum og Wagneraðdáanda árið 1923. Sá var ungur og átti samleið með Chamberlain og Bayreuthklíkunni. Hann hét Adolf Hitler. Þegar Hitler steig inn í Wahnfried í fyrsta sinn 1923 gerði hann það aftur á móti ekki sem stjórnmálamaður eða nasisti heldur sem einlægur Wagneristi. Frá þeirri stundu var Hitler heimagangur í Wahnfried og fastagestur á hátíðinni allt til 1940.[40]
Þegar fræðimenn hyggjast sýna fram á illsku og ómennsku Hitlers er af nógu að taka. Það er hins vegar alltof algengt að Hitler sé sviptur öllum mannlegum eiginleikum og málaður sem tilfinningalaust skrímsli. Keppst er við að finna honum allt til foráttu, stórt og smátt, og slá fram alhæfingum sem bera heiftblindni rannsakandans sterkara vitni en gagnrýninni sýn. Af þessum sökum hafa margir glímt við þá ráðgátu hvers vegna Hitler lagði á sig allt það erfiði og umstang sem hann stóð í vegna Wagners og Bayreuthhátíðarinnar á dögum Þriðja ríkisins. Höfuðspurning ráðgátunnar er hvers vegna Hitler sat undir þessu öllu saman þar sem sýnt þykir, að hann hafði lítið sem ekkert vit á tónlist, hvað þá tónlist Wagners. Þessu til svara er að ráðgátan er tilbúningur þeirra sem geta ekki horft á Hitler sem mennska tilfinningaveru. Hitler hreifst af Wagner á sama hátt og hver annar Wagneristi. Hvenær hefur maður „vit á“ tónlist? Hitler sá óperur Wagners á sviði oftar en talið varð. Hann stærði sig af því að hafa séð Götterdämmerung og Meistarasöngvarana oftar en hundrað sinnum. Auk þess gat hann klórað sig áfram á píanó. Hann hafði ekki víðan tónlistarsmekk en lagði mikla stund á það sem hann hafði áhuga á.[41] Bæði Wagnerfjölskyldan og listamenn sem komu fram í Bayreuth þegar Hitler dvaldi þar höfðu þá og síðar orð á þekkingu hans á verkum Wagners.[42] Samstarfsmenn Hitlers taka í sama streng. Albert Speer talar um að Hitler hafi verið allur annar maður eftir að hafa hlustað á Wagner. Eftir heimsóknir hans til Bayreuth hafi hann verið óvenju léttlyndur og afslappaður.[43]
Winifred heillaðist samstundis af Hitler og traust vinátta þeirra stóð allt til loka. Hitler lék á alls oddi í Bayreuth, las börnum Winifredar og Siegfrieds, Friedelindi, Verenu, Wolfgang og Wieland, sögur á kvöldin og naut samvistar við vini sína. Hann var aufúsugestur í Wahnfried og var tekið opnum örmum þegar hann birtist skyndilega í dyragættinni. Hitler varði miklum tíma með börnunum fjórum, sem hændust að honum og kölluðu “Onkel Wolf”. Á sýningum í Festspielhaus sat Hitler við hlið Winifredar í svalarstæði Wagnerfjölskyldunnar, haldandi í hönd hennar í átakamestu senunum. Í henni átti hann einkavin.[44]
Bayreuth í Þriðja ríkinu
Á fjórða áratugnum stóðu Bayreuthhátíðin og fjölskyldan í Wahnfried frammi fyrir miklum breytingum. Cosima og Siegfried féllu frá með skömmu millibili árið 1930. Skyndilega stóð 33 ára gömul ensk kona og fjögurra barna húsmóðir með rekstur og listræna stjórn hátíðarinnar í höndunum.
Aðstaða Winifredar var ákaflega erfið, bæði frá listrænu og pólitísku sjónarmiði. Siegfried breytti sáralitlu í listrænum efnum og hátíðin sat þegar á hans dögum undir ámæli fyrir íhald umfram listrænan metnað. Það kom í hlut Winifredar að tryggja að Bayreuth héldi virðingu sinni og listfengi. Erfiðleikarnir fólust ekki síst í ákvörðunum um hverju mætti breyta og hverju ekki.
Valdataka Hitlers og uppgangur nasismans vöktu upp áleitnar spurningar um hátíðina. Með valdatökunni óx Bayreuthklíkunni fiskur um hrygg og þóttist hún hafa himinn höndum tekið þegar sjálfur Hitler var bæði leiðtogi ríkisins og innanbúðarmaður á hátíðinni. Á sama tíma heyrðust raddir um að Winifred bæri að víkja fyrir þýskum Festspielleiter, rétt eins og talað var um Cosimu áður, en ekki tóku allir undir það. Cosima hafði það sér til ágætis að vera eiginkona tónskáldsins og þekkja frá fyrstu hendi hvernig hlutirnir ættu að vera. Sú staðreynd varð henni mikil vörn og sefaði margan klíkumeðliminn. Winifred þekkti aldrei Richard og stóð því varnarlaus þegar fullyrt var að aðrir kynnu að hafa meira vit á málefnum hátíðarinnar en hún. Ástæða þess að Bayreuthklíkan beitti sér hins vegar ekki harðar í andstöðunni gegn Winifred var sú að náin vinátta hennar og Hitlers var talin stórt tromp. Meirihluti klíkunnar hefur talið það of sterkt á hendi til þess að spila því ekki út.
Listræn vandræði Winifredar minnkuðu lítið við valdatöku nasista. Toscanini, sem stjórnað hafi bæði 1930 og 1931 við mikinn orðstír, lofaði að snúa aftur 1933. Hann hafði aftur heitið því að stjórna aldrei á Ítalíu meðan fasistar væru við völd þar né koma fram í Rússlandi. Við valdatöku nasista hvarf Toscanini frá öllum áformum um tónleika í Þýskalandi og steig aldrei fæti á þýska jörð meðan Hitler var kanslari.[45] Ýmsir færustu söngvarar Bayreuth sem voru gyðingar eða af gyðingaættum pökkuðu í töskurnar von bráðar. Vandræðin jukust. Bayreuthklíkunni varð hins vegar ekki að ósk sinni um að Hitler og nasistar tækju sjálfir til hendinni og „hreinsuðu“ Bayreuth. Þvert á móti olli afskiptaleysi Hitlers í listrænum efnum þeim vonbrigðum.[46]
Réttara væri að tala um vernd Hitlers en afskiptaleysi þegar að listrænum efnum hátíðarinnar kom. Í Þriðja ríkinu giltu boð og bönn í menningarmálum ríkisins. Yfirvöld létu ekki liggja í láginni hvaða list væri Þjóðverjum samboðin og hver teldist úrkynjuð og skaðleg. Víða var listaverkum fargað á almannafæri og úrkynjuð list höfð að spotti. Tónlistarlífið var ekki undanþegið. Tiltekin tónlist hvarf af efnisskrám. Óperuhús og hljómsveitir heyrðu beint undir ríkisvaldið og urðu að hlýða boðum þess. Hljómsveitarstjórum, söngvurum og einleikurum var umsvifalaust sagt upp störfum að kröfu yfirvalda ef þeir þóttu á einhvern hátt ekki falla að menningarhugmyndum nasista. Tónlistarstofnanir misstu með þessu veigamikið sjálfstæði í rekstri sínum.[47]
Öfugt við önnur óperuhús í landinu hélt Bayreuth listrænu sjálfstæði sínu lengst af. Hitler sá sjálfur um að hátíðin starfaði ósnortin og undir afdráttarlausri stjórn Winifredar. Það er ekki þar með sagt að Hitler hafi horft á gyðinga stíga á stokk í þessu heilagasta tónlistarhúsi landsins athugasemdarlaust. Hann bað Winifred, bæði að eigin hvötum og þrýstingi annarra nasískra áhrifamanna í menningarmálum, að útiloka tiltekna gyðinga og aðra óæskilega menn frá hátíðinni. Þegar Winifred sagði listræn sjónarmið hátíðarinnar ganga fyrir öllu, og að nefndir menn væru hátíðinni mikilvægir, og hunsaði þar með beiðni Hitlers, beitti hann sér ekki frekar. Enginn úr röðum nasista tók fram fyrir hendur hans í málinu og freistaði þess að knýja á um breytingar. Meðal þeirra sem unnu áfram óáreittir í Bayreuth var andnasistinn Heinz Tietjen, einn hæfasti leikmyndahönnuður og óperuleikstjóri 20. aldar og primus motor í listrænni starfsemi hátíðarinnar í Þriðja ríkinu.[48]
Fyrri heimsstyrjöldin setti hátíðina úr skorðum í miðjum klíðum 1914 og hún var ekki endurreist fyrr en 1924, og þá úr gjaldþroti. Flutningsréttur allra óperanna rann út 1913 og þar með lagðist af mikilvæg tekjulind fyrir fjölskylduna. Siegfried fór umfangsmikla tónleikaför um Bandaríkin 1924 með háleit markmið um fjársöfnun fyrir endurreisnina, en rak sig þá á vegg sem hann hafði ekki gert sér grein fyrir áður. Í stað þess að uppskera rausnarleg framlög bandarískra Wagneraðdáenda héldu flestir að sér höndum vegna pólitískrar stöðu fjölskyldunnar. Miklar sögur gengu af sambandi Winifredar og Hitlers. Hitler hafði skömmu áður mistekist að hrifsa til sín völdin í Bjórkjallarabyltingunni og nafn hans var þekkt. Siegfried varð stöðugt að svara fyrir tengsl fjölskyldunnar við hægriöfgaöflin í Þýskalandi. Hann var sjálfur frekar reikull í afstöðu sinni til nasista og tók ekki afgerandi afstöðu gegn þeim. Hann hreifst t.d. mjög af Erich Ludendorff. Hann var keisarasinni og harður andstæðingur Weimarlýðveldisins. Yfir Festspielhaus blakti aldrei fáni Weimarlýðveldisins heldur gamli keisarafáninn. Hann hafði samt ekki gert sér grein fyrir því fyrr en nú hversu illa honum hafði tekist að efla pólitískt hlutleysi hátíðarinnar.
Allt frá heimkomunni til dauða síns 1930 reyndi Siegfried að draga upp mynd af hátíðinni sem pólitískt hlutlausri, en með litlum árangri. Þjóðernissinnaðir hægrimenn flykktust áfram til Bayreuth. Bæjarblaðið, Bayreuther Blätter, sem jafnan var spyrt hátíðinni af almenningi, fylgdi Bayreuthklíkunni ákaft að málum og viðhafði æ nánari samvinnu við nasistaflokkinn. Það var á brattann að sækja fyrir Siegfried og hann varð æfur þegar hann sá leikskrána fyrir hátíðina 1924, en gerð hennar hafði verið í annarra höndum. Í stað skrifa um Wagner úði allt og grúði af pólitískum áróðri. Í kjölfarið lét Siegfried hengja upp stórt og áberandi skilti í Festspielhaus þar sem gestir voru vinsamlegast beðnir að ræða ekki pólitísk málefni í húsinu né hrópa pólitísk slagorð eftir sýningar; “Hier gilt´s der Kunst!” Eins og áður er getið var þessu ekki hlýtt.
Tilraun Siegfrieds til varnar pólitísku sjálfstæði Bayreuthhátíðarinnar er þeim mun áhugaverðari þar sem viðhorf hans til Hitlers virðist hafa sveiflast til og frá. Það var ekki að ósekju sem Bandaríkjamenn, og reyndar aðrir einnig, sökuðu Siegfried um náin tengsl við nasista. Þegar Hitler sat í fangelsi lýsti Siegfried yfir stuðningi sínum við hann í opnu bréfi í Bayreuther Blätter, og víðar. Erfitt var fyrir Siegfried að telja fólki trú um, að stuðningurinn við Hitler væri algerlega utan við málefni hátíðarinnar og einungis á grunni persónulegrar vinsemdar en ekki pólitískum grunni, enda ekki trúlegt.[49]
Þegar Winifred tók við hátíðinni var hún á barmi gjaldþrots vegna fjárhagslegra ógangna Weimarlýðveldisins. Ef ekki hefði komið til fjárstuðningur ríkisins 1933, fyrir atbeina Hitlers, hefði hátíðin líklega lagst af á fjórða áratugnum. Frá og með 1936 var árlegt framlag ríkisins aðaltekjulind hátíðarinnar og myndaði rektrargrundvöll hennar; hún var fjárhagslega háð ríkinu.[50]
Strax 1933 var Bayreuth endurvígð Þriðja ríkinu. Í fyrsta sinn frá því að Festspielhaus var vígt í upphafi hófst hátíðin sumarið 1933 á flutningi níundu sinfóníu Beethovens, að þessu sinni undir stjórn Richards Strauss. Meistarasöngvararnir voru fyrstir á dagskrá og í fyrra hléi var bein útvarpsútsending frá Festspielhaus um allt Þýskaland. Joseph Göbbels hélt magnaða útvarpsræðu um Wagner og óperur hans sem hornsteina sjálfsmyndar Þjóðverja. Á sama tíma birtist Hitler einkennisklæddur með útrétta hægri hönd í svalarglugga Festspielhaus og hátíðargestir fögnuðu með viðeigandi hætti. Winifred lét sér vel líka. Með hverju sumri jókst nasistabragur hátíðarinnar, svo mjög að mörgum þótti Hitler nánast skyggja á Wagner. „Hirðóperuhús Hitlers“, sagði Thomas Mann. Aðalgatan sem gengið er eftir frá bænum sjálfum í Bayreuth til „grænu hæðarinnar“, eins og Festspielhaushæðin er nefnd í daglegu tali, var endurskírð Adolf-Hitler-Straβe. Á frumsýningum hvers sumars stóðu SS sveitir undir vopnum heiðursvörð í löngum röðum við Festspielhaus. Andrúmsloftið var eftir þessu. Hitler ávarpaði gesti í leikskrá hátíðarinnar og bað þá um að virða ósk hátíðarhaldara um að ræða ekki pólitísk mál í húsinu. Þetta er undarlegt yfirvarp og má spyrja hverju sætti. Winifred virðist ekki hafa gert neitt til þess að hindra að hátíðin yrði rammpólitísk nasistahátíð. Líklega hefur Hitler sjálfur viljað leyfa sýningunum að njóta sín og Wagner að eiga athygli manna óskipta þegar inn í musteri menningarinnar var stigið. Hátíðin var aftur á móti ekkert ópólitískari fyrir vikið.
Það er ótrúlegt hversu gæðamiklar sýningar hátíðarinnar voru á dögum Þriðja ríkisins sé litið til þess fólksflótta sem varð meðal listamannanna. Winifred fékk af Hitler að nasistar höfðu ekki áhrif á hverjir kæmu fram í Bayreuth, gyðingar eða aðrir. Hátíðin var pólitískt ósjálfstæð en listrænt sjálfstæð. Fleiri gyðingar yfirgáfu hátíðina að eigin frumkvæði en þeir sem sátu eftir. En það voru ekki bara gyðingar, og aðrir þeir sem nasistar litu niður á, sem flúðu. Norrænir og þýskir stórsöngvarar yfirgáfu hátíðina hver af öðrum, Kirsten Flagstad, Kerstin Thorburg, Lotte Lehmann, Elisabeth Schumann, Frida Leider og Herbert Janssen, svo einhverjir séu nefndir. Að Bayreuth hafi sjaldan eða aldrei náð slíkum hæðum í tónlistarflutningi eins og á fjórða áratugnum sýnir hversu margir góðir Wagnersöngvarar komu fram á þessum árum. Vandræði Winifredar voru helst í stjórnendamálum. Victor de Sabata var eini erlendi stjórnandinn í hæsta gæðaflokki sem vildi stjórna í Bayreuth á þessum árum og flestir bestu stjórnendur Þýskalands héldi sig fjarri eftir að hafa misst stöður sínar annars staðar. Hitler tókst ekki að ráða fram úr vandanum með því að reyna að telja Toscanini hughvarf, en gekk betur þegar hann skrifaði sínum uppáhaldsstjórnanda, Wilhelm Furtwängler. Furtwängler hafði yfirgefið hátíðina 1931 eftir ágreining við Winifred en snéri nú aftur 1936. Hann var flokksbundinn nasisti og mjög haldið á lofti af Bayreuthklíkunni.
Þegar rifist er um fortíð hátíðarinnar og hversu nasísk hún var í raun og veru er því gjarnan fleygt fram til varnar, að þrátt fyrir fjárhagsstuðning Þriðja ríkisins hafi hátíðin bæði haldið listrænu sjálfstæði sínu og öll stjórn hennar verið í höndum Wagnerfjölskyldunnar. Winifred var Festspielleiter og þar af leiðandi heyrðu öll mál hátíðarinnar beint undir hana, listræn og fjárhagsleg. Barry Millington heldur t.d. fast í þá skoðun að ekki beri að líta svo á að fjárhagsstuðningur ríkisins við hátíðina 1936-1939 hafi á nokkurn hátt svipt hana sjálfstæði gagnvart nasistum.[51] Hvernig sem heppilegast er að skilgreina stöðu hátíðarinnar fyrir síðari heimsstyrjöldina í þessu samhengi, þá þarf enginn að velkjast í vafa um stöðu hennar í stríðinu.
Þegar stríðið skall á fáum dögum eftir lok hátíðarinnar 1939 bjóst Winifred til að leggja niður starfsemi hátíðarinnar. Hún gerði ekki ráð fyrir fjárframlögum á stríðstímum og taldi víst að flestir starfsmenn og listamenn yrðu kvaddir í herinn innan skamms. Síðast en ekki síst var til lítils að halda hátíð án áhorfenda. Öllum að óvörum greip Hitler í taumana. Frá og með sumri 1940 hafði Winifred listræna stjórn með höndum sem fyrr en að öðru leyti heyrði stjórn hátíðarinnar beint undir Hitler.[52] Hitler skipaði rekstri hátíðarinnar undir samtök á vegum nasistaflokksins, Kraft durch Freude, og gerði leiðtoga þeirra, Bodo Lafferentz, umsjónarmann hátíðarinnar í sínu umboði. Lafferentz var ákafur stuðingsmaður Hitlers og Hitler fékk honum gjarnan ýmis gæluverkefni. Lafferentz var einnig heillaður af Wagner og hátíðinni, og 1943 mægðist hann Wahnfriedfjölskyldunni þegar hann kvæntist Verenu. Af hlýðni við Hitler reyndi Lafferentz aldrei að hafa áhrif á listræna stjórn hátíðarinnar.
Hátíðarnar 1940-1944 gengu þá og nú undir nafninu Kriegsfestspiel. Miðar voru ekki seldir á almennum markaði heldur deilt af Hitler til valinna manna; gestirnir urðu „Gäste des Führers“. Hátíðina sóttu einkum hermenn, bæði særðir og aðrir sem fengið höfðu að snúa til baka af vígstöðvunum um stundarsakir af einhverjum ástæðum. Hermenn úr Rússlandsstríðinu voru sérlega áberandi. Geta Þjóðverja til þess að halda glæsilega menningarviðburði sem þessa á stríðstíma skyldu sýna þrek og yfirburði og innblása hermönnunum baráttumóð og föðurlandsást. Stríðshátíðarnar voru þó allt annað en glæsilegar þótt Bayreuth væri skreytt nasistaborðum í bak og fyrir og leikskráin væri uppfull af stóryrðum og hvatningarorðum í nafni Wagners og föðurlandsins. Hitler veitti fjölmörgum listamönnum undanþágu frá herskyldu til þess að styrkja hátíðina, en það var ekki nóg. Söngvarar flúðu umvörpum og skortur á mannafla var tilfinnanlegri en nokkru sinni. Sem dæmi um skortinn má nefna að meðlimir úr Víkingsfylki SS mynduðu meirihluta Bayreuthkórsins. Annað var eftir þessu. Gestirnir voru sömuleiðis ekki upp til hópa ákafir aðdáendur tónskáldsins og dottuðu fleiri þeirra en vanalega, enda óperur Wagners langar og krefjandi.
Í ræðu og riti túlkuðu nasistar verk Wagners málstað sínum til stuðnings. Athyglisvert er, að ekkert bendir til þess að Hitler hafi ætlað að svipta hátíðina pólitískum búningi eftir ætlaðan sigur í heimsstyrjöldinni. Þvert á móti hafði hann miklar framkvæmdir á teikniborðinu. Til eru nákvæmar teikningar af endurbyggingu og viðbyggingu Festspielhaus sem aldrei urðu en bera stórhug Hitlers vitni. Á prjónunum var heljarmikil sigurhátíð í Bayreuth. Allt féll þetta um sjálft sig. Ekki síður athyglisverð er staða Winifredar í stríðinu. Rannsóknir á bréfum og skjölum hátíðarinnar og Hitlers sýna, að hún leitaði samþykkis Hitlers við nánast hverju sem var í listrænum efnum stríðshátíðanna, hverjir kæmu fram, hvaða óperur væru settar upp o.s.frv. Hátíðin var varla sjálfstæð nema að litlu leyti eftir 1940.[53]
Bandarískar hersveitir hertóku Bayreuth bardagalaust 14. apríl 1945. Til allrar hamingju var engri sprengju varpað á Festspielhaus en því miður skemmdist Wahnfried verulega þegar fáeinum sprengjum var varpað á bæinn. Við tók óvissan. Wagner hafði hljómað í síðasta sinn í Festspielhaus – í bili.
Vondur aðdáandi?
Á aldarafmælishátíðinni í Bayreuth 1976 ávarpaði Walter Scheel, forseti V-Þýskalands, hátíðargesti. Lokaorð hans í ræðustól voru þessi:
Saga Bayreuthhátíðarinnar er hluti af sögu Þýskalands. Misstig hennar eru misstig þjóðar okkar. Í þessum skilningi getum við þekkt okkur sjálf í sögu Bayreuthhátíðarinnar. … Við getum einfaldlega ekki eytt burtu dökkum kafla í sögu Þýskalands og sögu Bayreuthhátíðarinnar.[61]
Wolfgang vissi vart hvernig hann átti að snúa sér við þessi orð. Viðtalið við Winifred var sýnt árið áður og gerði hann æfan. Nú var því enn haldið fram að hátíðin ætti sér dökka sögu. Wolfgang kannaðist ekki við það. Fullyrðingar um að Wagnerfjölskyldan hafi verið pólitísk lengst af, stutt nasista og hátíðinni hafi eftir stríð verið stjórnað af mönnum sem báðir áttu dökka pólitíska fortíð féllu í grýtta jörð í Bayreuth. Þrátt fyrir ákafar tilraunir bræðranna tveggja til að hreinsa ímynd hátíðarinnar var langur vegur frá því að hún væri pólitískt hlutlaus í huga almennings, síst í augum útlendinga. Í fyrsta lagi voru margir sem komu að hátíðinni eftir stríð fyrrum nasistar. Þjóðverjar, sem sjálfir voru nasískir upp til hópa í Þriðja ríkinu, settu það lítt fyrir sig þótt margir sem kæmu að hátíðinni ættu nasíska fortíð. Þeirra fortíð var ekkert frábrugðnari en margra annarra Þjóðverja. Sé einungis litið til stjórnendanna eftir stríð bregður fyrir mörgum fyrrum nasistum. Á endurvígsluhátíðinni 1951 stjórnaði, auk Knappertsbusch, Herbert von Karajan, sem hafði undanfarin ár átt erfitt uppdráttar vegna meintrar nasískrar fortíðar.[62] Níundu sinfóníu Beethovens stjórnaði Furtwängler, þekktur aðdáandi Hitlers.[63] Síðar var Karl Böhm leiðandi stjórnandi í Bayreuth, fyrrum ákafur nasisti. Böhm var meðal áhorfenda þegar Scheel hélt ræðuna 1976 og brást ókvæða við. Hann kom af fjöllum eins og Wolfgang.[64]
Auðvitað forðuðust þeir bræður að spyrða hátíðina við nasisma. En hvers vegna hefur gengið jafnilla að horfast í augu við fortíðina í Bayreuth eins og raun ber vitni? Strax kemur í hugann það sem lengi hefur verið haft fyrir satt: Wolfgang, Wieland, Böhm og fleiri fyrrum nasistar voru bæði nokkuð ákafari stuðningsmenn nasismans en seinna var látið, og ef til vill ekki jafnmikið „fyrrum“ og gefið var út. Winifred, Wolfgang, Wieland og Verena voru öll flokksbundnir nasistar og virðast ekki einungis hafa verið aðdáendur Hitlers sem persónulegs vinar. Wolfgang varði lengst af skjalasafnið í Wahnfried fyrir ágangi fræðimanna, en þegar hann loksins lét undan þrýstingi hafði hann fjarlægt allnokkuð af skjölum og fargað. Af hverju?
Mörgum kann einnig að detta í hug gleymska fjölskyldunnar og Þjóðverja; þau séu staðráðin í að muna ekki eftir dökkum þáttum í sögu sinni eftir ósigurinn 1945. Sjálfum dettur mér þó helst í hug að það sé ekki gleymska sem hefur hrjáð Wagnerfjölskylduna, og aðra þá sem vilja ekkert kannast við slæma fortíð, heldur þvert á móti gott minni. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp viðkvæðið sem oftast er viðhaft þegar fjallað er um fortíðarvanda Wagnerhátíðarinnar og tengsl Wagners og nasismans: Wagner geldur þess að hafa átt vondan aðdáanda. Ég hafði sjálfur aldrei séð neitt athugavert við þessa fullyrðingu, raunar verið henni sammála. En eftir því sem ég rannsaka sögu hátíðarinnar og tengsl hennar og Hitlers frekar þykir mér fullyrðingin allmikil einföldun. Sé horft á málið frá sjónarhóli Wagnerfjölskyldunnar, einkum Winifredar, var Hitler hreint ekki slæmur aðdáandi. Hitler kom hátíðinni til bjargar þegar nauð hennar var mikil og endalok hennar virtust blasa við. Stuðningur nasista við hátíðina er engum öðrum en Hitler sjálfum að þakka. Dekur hans við hátíðina og mest allt tilstandið með Wagner í leiðtogatíð hans mæltist misjafnlega fyrir meðal forystumanna flokksins og hann þurfti oft að beita sér til þess að hafa sitt fram í þeim málum. Vilji Hitlers í Bayreuthmálum var gjarnan gegn vilja flokksforystunnar en gekk fram að lokum. Það var Hitler að þakka að Bayreuth hélt listrænu sjálfstæði sínu lengst af, það var Hitler að þakka að nasistar „hreinsuðu ekki til“ í listamannahópi Bayreuth, það var að persónulegri skipun Hitlers að listamenn og fjölskyldumeðlimir, t.d. Wieland, voru undanþegnir herskyldu og gátu unnið óskipt að málefnum hátíðarinnar. Hitler reyndist fjölskyldunni ætíð stoð og stytta. Þegar Wolfgang og Wieland voru reknir fyrir óhlýðni úr Hitlersæskunni var mildilega tekið á málinu fyrir atbeina Hitlers.[65] Getur ekki verið, að fjölskyldunni sé erfitt að skera á allar tilfinningar sem hún hafði til þessa trausta vinar? Getur ekki verið, að Wolfgang muni enn í dag að Hitler gerði meira fyrir Wagnerhátíðina en flestir aðrir? Vissulega er stór hluti fortíðarvandans fólgin í tengslum Hitlers og Wagnerfjölskyldunnar. Nasistar misnotuðu verk Wagners og stríðshátíðarnar tengja nafn Bayreuth og Wagners órjúfanlega við atburði sem þáverandi stjórnendur hátíðarinnar, og síst af öllu Richard sjálfur, áttu aðild að. Samtímis er örðugt að finna þann mann sem hefur stutt hátíðina af slíkri rausn sem Hitler, nema ef vera skyldi Lúðvík Bæjaralandskonungur sem gerði stofnun hátíðarinnar mögulega. Það eru sannarlega tvær hliðar á sambandi Hitlers við hátíðina og Wahnfriedfjölskylduna. Líklega var Hitler allt í senn besti og versti áðdáandi Wagners. Venjulega gerir fólk sér ekki grein fyrir góðu hliðinni, og síst af öllu, að það var sú hlið sem miklu fremur snéri að Wagnerfjölskyldunni en sú slæma.
Hitler - Bayreuth - Winifred
Árið 1975 var fimm tíma langt viðtal við Winifred, háaldraða, sýnt í sjónvarpi um allt Þýskaland. Þar rakti hún sögu Wahnfriedfjölskyldunnar og hátíðarinnar 1914-1975. Viðtalið vakti deilur og umtal vegna opinskáar umræðu Winifredar um sambandið við Hitler og glímuna við fortíðina. „Ef Hitler gengi inn um dyrnar núna mundi ég taka honum opnum örmum og sem vini. Ég þekkti Hitler að góðu einu“, var meðal þess sem Winifred sagði. Þetta er í hnotskurn lausnin sem Wagnerfjölskyldan sér á vandanum, a.m.k. opinberlega. „Ég þekkti Hitler aðeins persónulega, sem vin, en ekki sem Führer. Við ræddum um lífið og tilveruna, Wagner. Stjórnmál voru aldrei rædd“, sagði hún ennfremur. Winifred hefur eftir Thomasi Mann, að þegar hann ferðaðist um Þýskaland við annan mann nokkru eftir stríð hafi þeir ekki fundið neinn sem gekkst kinnroðalaust við því að vera stuðningsmaður Hitlers og sannur þjóðernissósíalisti, nema eina konu í Bæjaralandi, og hún var ensk! Allt til dauða síns 1980 hélt Winifred tryggð við Hitler og hugsjónir nasismans.[54]
Það er ótrúlegt að hlusta á Winifred lýsa Hilter af innilegri aðdáun: „einstaklega barngóður“, „hrífandi maður“, „hlýlegur með gott hjartalag“, o.s.frv.[55] Þegar hugsað er til helfararinnar og þeirra voðaverka sem Hitler fór fyrir liggur við sjálft að dæma Winifred gamalæra. En það er ekki skynsamlegt. Að vissu leyti á hún sér málsbætur. Í fyrsta lagi er ekkert sem mælir gegn því að Hitler hafi verið fjölskyldunni góður, traustur og skemmtilegur vinur, unnið hugi barnanna, og fyrst og fremst komið til Bayreuth sem Wagneraðdáandi.[56] Í öðru lagi hnígur allt að því, að Winifred hafi alla tíð verið ósnortin af andsemitisma Hitlers og nasismans. Áður hefur verið minnst á synjun hennar á beiðni Hitlers um að ýmsum „óæskilegum“ starfsmönnum hátíðarinnar væri vísað frá. Að stríði loknu var Winifred flokkuð með harðsvíruðustu nasistum. Þegar mál hennar voru tekin til nánari skoðunar kom hins vegar í ljós að hún hafði aðstoðað nokkra gyðinga við að komast úr landi í stríðinu.[57] Sjálf segir hún í viðtalinu, að auk persónulegrar aðdáunar á Hitler hafi hún verið, og væri enn, stuðningsmaður nasista, en ekki á grunni andsemitisma. Hitler kom reglu á glundroða samfélagsins, efnahagurinn komst á réttan kjöl og Þýskaland varð sterkara en aldrei fyrr. „Við áttum ekkert. Við áttum hvorki peninga né mat.“ Þá kom Hitler.[58]
Aðspurð um helförina sagði Winifred hana hræðilega. Það breytti því hins vegar ekki að hún þekkti Hitler að góðu einu; meðan svo væri sæi hún ekki ástæðu til að bregða vináttu við hann.[59] Þessi skýra lína sem Winifred dró milli persónulega vinararins Hitlers og stjórnmálamannsins, og er dæmigerð fyrir Wagnerfjölskylduna, er skiljanleg en óréttlætanleg. Fullyrðingar Winifredar um að hátíðin hafi aldrei verið nasísk og að Wagner hafi ávallt verið í fyrirrúmi en ekki Hitler, og einnig bregður fyrir hjá öðrum fjölskyldumeðlimum, eru rangar. Hátíðin var um skeið áróðurshátíð nasista með Hitler í fyrirrúmi ekki síður en Wagner. Umgjörðin var pólitísk en ekki persónuleg, hún upphóf ekki Hitler án nasismans heldur Hitler sem Führer og þá stjórnmálastefnu sem hann stóð fyrir.
Þegar hátíðin var endurvakin 1951 var Winifred enn í fullu fjöri og, með samþykki Siegfrieds, Festspielleiter til lífstíðar. Yfirtaka sona hennar, Wolfgangs og Wielands, var þáttur í hlutleysingu hátíðarinnar og var ætlað að undirstrika að nýjir tímar væru gengnir í garð. Skilti var sett upp í Festspielhaus, keimlíkt því sem eitt sinn var: “Hier gilt nur die Kunst!” Ýmsum þótti nóg um umsnúning þeirra félaga í listrænum efnum, fráhvarfið frá natúralisma til symbólisma. Hans Knappertsbusch var t.d. af gamla skólanum og lítt gefinn fyrir hinn nýja stíl, Neu-Bayreuth. Þegar hann var síðar spurður að því hvers vegna hann hafi ekki mótmælt dökkri og fábrotinni sviðsmyndinni í Parsifal svaraði hann um hæl: „Á æfingum hélt ég alltaf að sviðsmyndin væri í smíðum og ætti eftir að koma.“ Allt var endurmetið og fátt var heilagt lengur.[60]
Fúafen fortíðarvandans
Aðspurður um túlkun sína á Hringnum svaraði söngvarinn Dietrich Fischer-Dieskau, að fyrst og fremst væri sagan harmsaga fjölskyldunnar. Það má með sanni segja að saga Wagnerfjölskyldunnar sé Niflungahringur út af fyrir sig. Hatrammar ættardeilur hafa orðið um forystu hátíðarinnar[66] og fjölskyldumeðlimir sjá fortíðina ekki sömu augum. Illindin hafa leitt til þess, að hver sakar annan um óheilindi og nasisma. Friedelind gekk fyrst á dyr í seinni heimsstyrjöldinni og skrifaði bókina Heritage of Fire árið 1944. Í henni segir hún loft allt lævi blandið í Wahnfried og að hún vilji ekki taka þátt í þeim nasisma sem þar veður uppi. Bókin var ári síðar þýdd á þýsku (undir heitinu Nacht über Bayreuth) og var gríðarlega vinsæl eftir stríð. Bók Friedelindar þykir traust heimild því að hún er mjög gagnrýnin og skarpskyggn í umfjöllun sinni.[67] Á eftir Friedelindi hefur Gottfried Wagner farið mikinn í útlistun á nasískri fortíð fjölskyldunnar. Þrátt fyrir ýmsar góðar athugasemdir er mjög erfitt að taka hann trúanlegan vegna þess tilfinningahita sem einkennir öll skrif hans. Áður var getið túlkunar hans á verkum Wagners; annað er eftir því. Í augum Gottfrieds er ætt hans öll, allt frá Richard sjálfum til Wolfgangs, ákafir nasistar og andsemitistar sem bera mikla ábyrgð á framgangi Hitlers, nasismanum og þeim grimmdarverkum sem framin voru í nafni hans.[68] Hér er seilst um hurð til lokunnar. Vegna þessa ber ekki minna á varnarritum í ættinni. Dæmi um slíkt er sjálfsævisaga Wolfgangs, Lebens-Akte, frá 1994 þar sem hann snýst gegn ásökunum um nasíska fortíð sína og hátíðarinnar.[69] Eftir Wieland liggur ekki mikið á prenti um þessi efni þar sem honum gafst ekki tækifæri til að gera sér varnarrit áður en hann féll frá 1966. Hann leit fortíðina svipuðum augum og Wolfgang, kannaðist vel við vinfengið við Hitler, að hann hafi verið vinur, stoð og stytta, en ekki að Wagnerfjölskyldan hafi nokkurn skapaðan hlut á samviskunni.[70] Af þessu þarf engan að undra að erfitt er að sjá hvað er satt og logið í sögu fjölskyldunnar og Wagnerhátíðarinnar.
Glíman við fortíðina er aldrei auðveld. Kannski sést best í tilviki Wagnerhátíðarinnar hvernig aðskildir slæmir þættir í fortíðinni geta magnað hvern annan upp og runnið saman í stærri vanda. Hátíð Richards var ópólitísk og nasistar fjarri. Á hinn bóginn var Richard andsemitískur. Síðan snérist dæmið við, andsemitisminn hvarf en hátíðin varð pólitískari. Útkoman úr þessu er verri en þættirnir aðskildir: tengsl hátíðarinnar og fjölskyldunnar við Hitler og nasista hafa bæði gert andsemitisma Wagners í menningar- og þjóðernismálum að kynþáttahyggju og stimplað alla ættina frá upphafi til enda með henni. Winifred og synir hennar þurftu, og Wolfgang þarf enn, að sverja af sér gyðingahatrið sem þau hafa aldrei gerst sek um. Og enn í dag þarf að sverja nasistabrennimarkið af Wagner sjálfum og verkum hans. Vandamálin eru eitt fúafen og ólíklegt að almenningur kæri sig um að ana út í það og átta sig. Til þess þarf fólk einfaldlega að kynna sér sögu Wagnerættarinnar og Wagnerhátíðarinnar betur en almenningur hefur hug á. En við verðum þó að vona að á endanum megi koma safaríkustu kjaftasögunum og alvarlegustu rangfærslunum fyrir kattarnef.
Tilvísanir
[1] Ég vil þakka þeim heiðurshjónum, Selmu Guðmundsdóttur og Árna T. Ragnarssyni, fyrir að taka mér opnum örmum og leyfa mér að gramsa í bókaskápum þeirra hjóna. Þau eiga veglegt safn heimilda um líf, list og arfleifð Wagners. Þessi grein er að stofni fyrirlestur sem haldinn var á vegum Richard Wagner félagsins á Íslandi í Norræna húsinu 17.febrúar 2002.
[2] Wagner taldi að hugtakið Oper væri ekki sæmandi sínum verkum því að þau væru ekki síður ljóð og leikrit. Ein tryggasta leiðin til þess að móðga þýskan Wagnerista er að kalla verk Wagners Oper. Á fæstum öðrum tungumálum eru til orð sem samsvara þýska orðinu Musikdrama, og eru verkin því jafnan kölluð óperur á öðrum málum. Svo er einnig á íslensku. Þess ber að geta að hugtakið Musikdrama tók Wagner ekki að nota fyrr en eftir að hann samdi Lohengrin. Samt sem áður kallaði hann fyrstu „þroskuðu“ óperurnar sínar, Der Fliegende Holländer, Tannhäuser og Lohengrin músíkdrömu eftir að hann tók það hugtak upp. Niflungahringinn, sem samanstendur af fjórum músíkdrömum, kallaði hann aftur Buhnenfestspiel.
[3] Chancellor, John: Wagner. London, 1978, bls. 281.
[4] Staða Knappertsbusch var einnig pólitískt táknræn því að hann var opinber andstæðingur nasista alla tíð. Þrátt fyrir æviráðningu við Ríkisóperuna í München var honum vikið frá störfum 1936 að persónulegri skipun Hitlers. Richard Wagner. Götterdämmerung. Bayreuth Festival. Bromley, 1999. Fylgirit með upptöku af Götterdämmerung frá 4. ágúst 1951 í Bayreuth, útg. af Testament, nr. SBT 41, bls. 75.
[5] Upphaf hátíðarinnar og fyrstu ár eru skilmerkilega rakin í: Spotts, Frederic: Bayreuth. A History of the Wagner Festival. New Haven, London, 1994, bls. 29-89.
[6] Haas, Willy: “Richard Wagner und das neue Bayreuth”. Richard Wagner und das neue Bayreuth. Wieland Wagner ritstj. München, 1962, bls. 15-26. – Ruppel, K. H.: “Bayreyth – alte Idee in neuer Form”. Richard Wagner und das neue Bayreuth. Wieland Wagner ritstj. München, 1962, bls. 206-210. – Wagner, Wieland: “Denkmalschutz für Wagner?”. Richard Wagner und das neue Bayreuth. Wieland Wagner ritstj. München, 1962, bls. 231-235. – Schreiber, Hermann og Guido Mangold: Werkstatt Bayreuth. München, Hamborg, 1986, bls. 17-40.
[7] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 212-214.
[8] Árni T. Ragnarsson: „Wieland Wagner í Bayreuth“. Í varðveislu höfundar, bls. [3]. – Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 218-222.
[9] Fyrir fáum mánuðum var hart deilt í ísraelska þinginu um fyrirhugaðan flutning á fyrsta þætti Valkyrjunnar í Jerúsalem síðasta sumar (sem varð að lokum). Var haft eftir einum þingmanni að ef helvíti sé til eigi Wagner þar heiðurssess.
[10] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 205.
[11] Rétt er að benda á að ekkert rof varð í öðrum löndum á flutningi á verkum Wagners. Hræðslan við Wagner virðist því bundin við Þýskaland að mestu, og Ísrael.
[12] Strax í upphafi rómantískrar hugmyndafræði kom sú hugmynd fram (sterkast hjá Johann Gottfried Herder) að hver þjóð ætti sitt eðli og sérstakan þjóðaranda (Volksgeist).
[13] James, Harold: A German Identity 1770-1990. London, 1989, bls. 34-54. – Árni Björnsson: Wagner og Völsungar. Niflungahringurinn og íslenskar fornbókmenntir. Rvík, 2000, bls. 55-56.
[14] Árni Björnsson: Wagner og Völsungar, bls. 42-59.
[15] Millington, Barry: Wagner. London, Melbourne, 1984, bls. 123.
[16] Undirtitill Lohengrin er Romantische Oper.
[17] Texti óperanna fylgir flestum hljóðritunum þeirra og því óþarft að tilgreina tilteknar útgáfur.
[18] Sé innihald lokaræðu Sachs skoðað sést glögglega að hann á ekki við að þýsk menning sé yfir aðra menningu, t.d. ítalska eða franska, hafin, heldur yfir stjórnmál og valdabaráttu. Hann segir að þýska þjóðin hafi lifað við misgóða stjórn og kunni jafnvel í framtíðinni að verða undirokuð af öðrum þjóðum, en svo lengi sem hlúð sé eðlilega að menningararfleifðinni sé þýsk þjóðarvitund ósnertanleg. Stjórnmál og valdamynstur eru jarðleg og stundleg, menning og sjálfsvitund andleg og eilíf, sé rétt á spöðunum haldið. – Harold James er einn þeirra sem kannað hefur þjóðernishyggju í verkum Wagners. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að óperurnar séu að meira eða minna leyti endurspeglun á þjóðernishyggju Wagners og beri hennar víða merki. Hann tiltekur sérstaklega Tannhäuser og Lohengrin. Rökstuðningur hans er langsóttur og beinist fremur að ýmsum smáatriðum en burðarásum óperanna eða meginhugmyndum. James, Harold: German Identity, bls. 92-102.
[19] Marrus, Michael R.: The Holocaust in History. London, 1987, bls. 9-10.
[20] Ágætt yfirlit um andsemitisma í Evrópu á dögum Wagners, m.a. um kenningar manna eins og A. Gobineaus og H. S. Chamberlains, má finna í: Langmuir, Gavin I.: History, Religion, and Antisemitism. London, 1990, bls. 318-346.
[21] Wagner, Gottfried: Wer nicht mit dem Wolf heult. Autobiographische Aufzeichnungen eines Wagner-Urenkels. Köln, 1997, bls. 93.
[22] Millington, Barry: Wagner, bls. 45-48 og víðar. – Andsemitismi Wagners er gjarnan rakinn til Parísarára hans. Á yngri árum Wagners var París háborg óperunnar. Þegar Wagner reyndi fyrir sér þar var gyðingurinn Meyerbeer alls ráðandi í óperuheiminum. Meyerbeer var holdgervingur “grand opera” stílsins sem Wagner taldi mjög andþýskan. Hjá Wagner gekk hvorki né rak fyrr en hann samdi óperu í þessum stíl, Rienzi. Hans von Bülow sagði stundum að Rienzi væri besta ópera Meyerbeers. Framgangur gyðinga og áhrif í tónlistarheiminum eru þá sagðar vera ástæður andsemitismans. Magee, Bryan: Aspects of Wagner. 2. útg. Oxford, New York, 1988, bls. 23-28. Chancellor, John: Wagner, bls. 55-75.
[23] Rannsóknir Alex Bein á andsemitisma Wagners eru einna bestur inngangur um það efni. Hann leggur varnað á að lesa pólitískar skoðanir Wagners út úr óperunum og gefur lítið fyrir andsemitískar túlkanir á þeim. Hann rekur einnig dæmi þess að andsemitismi Wagners hafi gjarnan verið fremur í orði en á borði, og er sannfærandi. Hann hafnar hugmyndum um kynþáttahyggju í andsemitisma Wagners. Paul Lawrence Rose, sem einnig hefur rannsakað málið, er á öndverðum meiði við Bein hvað kynþáttahyggjuna varðar. Bein, Alex: The Jewish Question. Biography of a World Problem. Harry Zohn þýddi úr þýsku á ensku. Cranbury, London, Mississauga, 1990, bls. 600-608. Rose, Paul Lawrence: Revolutionary antisemitism in Germany from Kant to Wagner. New Jersey, 1990. bls. 358-379.
[24] Nike Wagner (dóttir Wielands Wagners) er meðal þeirra sem hafa talið Parsifal vera öðrum þræði ádeilu á gyðingdóminn. Áhugaverðar hugleiðingar um þetta eru í: Wagner, Nike: Wagner Theater. 3. útg. Frankfurt am Mein, Leipzig, 1998, bls. 190 og áfram.
[25] Wagner, Gottfried: Wer nicht mit dem Wolf heult, bls. 94-95.
[26] Chancellor, John: Wagner, bls. 77-126.
[27] Newman, Ernest: Wagner as Man & Artist. 2. útg. New York, 1924, bls. 27-153.
[28] Nasisminn var margþætt fyrirbæri og vissulega ofinn úr fleiri þráðum en þeim tveimur sem hér eru dregnir fram, þjóðernishyggju og andsemitisma. Ástæða þess að fleiri þættir eru ekki skoðaðir í þessu samhengi er einfaldlega sú, að þeir sem hafa í gegnum tíðina viljað spyrða Wagner nasismanum hafa allir þyrpst á þessar tvennar vígstöðvar. Óhjákvæmilega hafa stórorrusturnar því farið fram á þeim, og í raun allar smærri einnig.
[29] Því er oft slengt fram að nasistar eigi alla sök á mistúlkunum á verkum Wagners, en það er villandi einföldun. Nasistar gengu reyndar lengst í mistúlkununum af öllum en tóku þó afar margt í arf. Nasistar voru t.d. fráleitt fyrstir til þess að lesa andsemitisma út úr verkum Wagners. Rose, Paul Lawrence: Revolutionary antisemitism, bls. 358-379. – Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 77.
[30] Eftir dauða Richards nefndi hún hann nær aldrei með nafni heldur vísaði til hans með orðum sem þessum.
[31] “Ich wurde in einem Mausoleum geboren!”, sagði Wieland Wagner síðar. Ádeilan í setningunni beindist að helgum óbreytanleika í öllum efnum, ekki síst listrænum. Wessling, Brendt W.: Wieland Wagner. Der Enkel. Köln, 1997, bls. 8.
[32] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 90-122.
[33] Millington, Barry: Wagner, bls. 117-118. – Cosima var dóttir Franz Liszt, tónskálds.
[34] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 127-128, 130-136. – Millington, Barry: Wagner, bls. 118.
[35] Millington, Barry: Wagner, bls. 119.
[36] Hann var sjálfur kaþólskur.
[37] Um Siegfried og hátíðina á hans dögum er stuðst við: Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 123-158.
[38] Burleigh, Michael og Wolfgang Wippermann: The Racial State: Germany 1933-1945. Cambridge, 1991, bls. 36.
[39] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 135-136 og víðar.
[40] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 140-143, 189, 192, 198.
[41] Bullock, Alan: Hitler. A Study in Tyranny. 2. útg. Middlesex, 1962, bls. 387.
[42] Syberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner und das Geschichte des Hauses Wahnfried 1914-1975 II. Berlín, 1993. Myndband, útg. af Alexander Verlag, nr. ISBN 3-923854-85-4.
[43] Speer, Albert: Inside the Third Reich. Þýdd úr þýsku á ensku af Richard og Clöru Watson. New York, 1970, bls. 219.
[44] Syberberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner I-II. – Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 140-143, 166-168, 178, 187-188, 229, 266-269 og víðar.
[45] Sachs, Harvey: Toscanini. London, 1978, bls. 224-226.
[46] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 159-173.
[47] Í september 1933 var sett á laggirnar sérstakt ráðuneyti sem fór með menningarmál í Þriðja ríkinu, Reichskulturkammer. Það vann í fjölmörgum deildum eftir listgreinum og innan þess fór fram stefnumótunarvinna og framkvæmd hugmyndafræðinnar. Mjög góður yfirlitskafli um menningarstefnu í Þriðja ríkinu og framkvæmd hennar er í: Craig, Gordon A.: Germany 1866-1945. New York, 1978, bls. 638-672.
[48] Þegar Toscanini hvarf á braut, við fögnuð þjóðernissinna en þvert á vilja Wagnerfjölskyldunnar, hringdi Winifred í Hitler og bað hann um að telja Toscanini hughvarf. Winifred hafði reynt það árangurslaust. Hitler sendi Toscanini persónulegt bréf þar sem hann með fagurgala bað hann að snúa til baka og að hann hlakkaði til þess að sjá hann í Bayreuth á komandi hátíðarsumri. Toscanini svaraði Hitler með bréfi og kvaðst ekki sjá sér fært að snúa aftur við svo búið. Áður en til þessa tilstands kom höfðu nasistar snúist gegn Toscanini vegna andfasisma hans og bannað allar upptökur hans í Þýskalandi, bæði sölu og leik í útvarpi. Hitler reyndi m.a. að mýkja Toscanini með því að aflétta banninu, en þegar ekkert gekk var það sett aftur á. Sagt er að eftir þetta hafi sá átt reiði Hitlers vísa sem nefndi Toscanini og Wagner í sömu andrá. Sachs, Harvey: Toscanini, bls. 224-226.
[49] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 138-140 og víðar.
[50] Millington, Barry: Wagner, bls. 122.
[51] Millington, Barry: Wagner, bls. 122. Sjálfur er ég sammála Millington hvað þetta varðar. Þess verður að gæta að fjárframlögin komu frá ríkinu en ekki nasistaflokknum.
[52] Á heimasíðu hátíðarinnar, og í ritum á vegum hátíðarinnar frá því að hún var endurreist 1951, er jafnan talað um Winifred sem Festspielleiter 1930-1944. Eins og sjá má er þetta hálfsannleikur um tímabilið 1940-1944 því að þá skiptu Hitler og Winifred stöðunni með sér. Winifred hélt þó titlinum opinberlega og Hitler talaði aldrei um sig sem Festspielleiter.
[53] Um stjórnartíð Winifredar og Stríðshátíðarnar er aðallega stuðst við: Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 159-199. Syberberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner I-II.
[54] Syberberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner I. – Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 85-112, 143-156, 213-267.
[55] Syberberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner I.
[56] Syberberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner I.
[57] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 203-204.
[58] Syberberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner I.
[59] Hún ýjar reyndar að því í viðtalinu að Hitler hafi minnsta ábyrgð borið á henni, að hennar trú.
[60] Sú gamansaga gekk í Bayreuth að réttara væri að kalla „yfirmann lýsingar“ á sýningum „yfirmann myrkvunar“. Önnur segir að Knappertsbusch hafi þvertekið fyrir að stjórna Parsifal ef dúfan í sýningunni væri á bak og burt. Hann hafi loks fengið þessu framgengt og séð dúfuna yfir sér úr gryfjunni. Áhorfendur sáu hana hins vegar aldrei því að hún hékk of hátt. Þetta er ekki selt dýrar en það er keypt.
[61] Þýdd tilvitnun úr: Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 269.
[62] Um nasíska fortíð Karajans hefur allnokkuð verið rætt frá stríðslokum, og hefur sitt sýnst hverjum. Árið 1999 kom hins vegar út langþekktasta ævisaga Karajans eftir breska fræðimanninn Richard Osborne. Þessi ævisaga, sem er mikill doðrantur, er lofuð í hástert af tónlistarsagnfræðingum og þykir einhver vandaðasta tónlistarsögubók síðari ára. Í henni fer Osborne í saumana á meintri nasískri fortíð Karajans, en hann var flokksbundinn nasisti. Osborne kemst að þeirri niðurstöðu, að Karajan hafi alls ekki verið nasisti í raun, og aðild hans að flokknum eigi sér aðrar skýringar, sem hann rekur nákvæmlega. Röksemdir Osbornes eru sannfærandi og heita má, að deilur um þetta mál hafi koðnað niður eftir að bókin kom út. Osborne, Richard: Herbert von Karajan. A Life in Music. London, 1999, sjá atriðisorðaskrá.
[63] Furtwängler var í miklum metum hjá nasistum og hann gegndi ýmsum stöðum í stefnumótunarvinnu nasista. Að stríði loknu reyndi hann ákaft að hreinsa sig af samstarfinu við nasista en gekk illa. Hann reyndi fyrir sér í Bandaríkjunum en var illa tekið. Hljóðfæraleikarar á borð við Arthur Rubinstein og Walter Geseking afboðuðu þátttöku sína á tónleikum í Bandaríkjunum þegar Furtwängler var fengin til þess að stjórna þeim. Furtwängler dó 1954 en hafði þá snúið til baka til Þýskalands. Þar hafði fortíð hans lítil áhrif, að séð verði, og var honum tekið opnum örmum. Það er kannski dæmigert fyrir þýska listamenn sem voru fyrrum nasistar, a.m.k. opinberlega. Ardoin, John: The Furtwängler Record. Portland, 1994, bls. 42-62.
[64] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 269.
[65] Spotts, Frederic: Bayreuth, bls. 195.
[66] Sjá t.d.: „A Wagnerian Drama of Succession“. The Wall Street Journal, 12. apríl 2001. Bls. 15.
[67] Það varpar kannski skýru ljósi á Niflungahringslíkinguna að þegar Friedelind sá hversu vel hátíðin gekk 1951 vildi hún ólm stinga ágreiningnum og bókinni undir stól og eiga þátt í hinni nýju hátíð. Skiljanlega tóku Wolfgang og Wieland henni ekki opnum örmum þegar hún kom að heimta sitt í Bayreuth 1952. Þeir réðu hana til starfa á hátíðinni um stundarsakir en léðu ekki máls á að hún kæmi nálægt stjórn hátíðarinnar. Winifred fyrirgaf Friedelind aldrei bókarskrifin og baktalið. Wagner, Friedelind: Nacht über Bayreuth. Die Geschichte der Enkelin Richard Wagners. 3. útg. Lola Humm þýddi úr ensku á þýsku. Köln, 1997. Syberberg, Hans Jürgen: Winifred Wagner II.
[68] Wagner, Gottfried: Wer nicht mit dem Wolf heult, einkum bls. 72-137.
[69] Wagner, Wolfgang: Lebens-Akte. Autobiographie. München, 1994, bls. 44-53, 71-132 og víðar.
[70] Eftir Wieland ungum er haft að hann óskaði þess að Hitler væri faðir sinn en ekki Siegfried. Sonur Wielands, fæddur 1943, heitir í höfuðið á Hitler, Wolf-Siegfried Wagner. Það lýsir tæpast andúð á “Onkel Wolf”. Wessling, Bernt W.: Wieland Wagner, einkum fyrstu níu kaflarnir.