Hollendingurinn fljúgandi á Listahátíð 2002
Bergþóra Jónsdóttir
Morgunblaðið, 12. júní 2001
Fjórar af stærstu listastofnunum þjóðarinnar hafa sameinast um uppfærslu á óperunni Hollendingnum fljúgandi eftir Richard Wagner á Listahátíð næsta vor.
Bergþóra Jónsdóttir ræddi við forsvarsmenn stofnananna um þetta mikla fyrirtæki.
Listahátíð í Reykjavík, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Þjóðleikhúsið og Íslenska óperan hafa í vetur unnið að því að menningarstofnanirnar fjórar setji upp óperu Richard Wagners, Hollendinginn fljúgandi, á Listahátíð næsta vor.
Unnið að hugmyndinni í allan vetur
Að sögn Þórunnar Sigurðardóttur, listræns stjórnanda Listahátíðar, hafa forsvarsmenn stofnananna fjögurra hist oft í vetur til að þróa áfram hugmyndir um samstarf þeirra, með það að markmiði að setja upp óperu á Listahátíð. Niðurstaðan varð sú, að þessi ópera Wagners var valin. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Óperukórinn og hópur íslenskra óperusöngvara tekur þátt í flutningnum, sem verður í Þjóðleikhúsinu.
Stefán Baldursson, Þjóðleikhússtjóri, segir að iðulega hafi verið rætt um að hafa skynsamlegt samstarf milli þessara aðila, vegna þess hve gríðarlega kostnaðarsamt það er að koma upp óperusýningu. Fyrir Þjóðleikhúsið sé ráðning hljómsveitar, kórs og söngvara beinn aukakostnaður, þar sem þessir listamenn séu ekki á föstum samningum við Þjóðleikhúsið. Samstarf af þessu tagi hafi þó verið prófað áður, á Listahátíð 1994 með sýningu á styttri útgáfu Niflungahringsins eftir Wagner. Hollendingurinn fljúgandi verði hins vegar fyrsta ópera Wagners sem flutt verður á Íslandi í heild sinni. „Hér eru allir að leggja sitt af mörkum, hvert okkar tekur ábyrgð á sínum hlut í uppfærslunni, og þannig getum við þetta“, segir Stefán Baldursson.
Tannhäuser til umræðu fyrir árið 2000
Þröstur Ólafsson framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands segir að málið hafi farið að hreyfast þegar forsvarsmenn Wagnerfélagsins á Íslandi komu að máli við Sinfóníuhljómsveitina og Þjóðleikhúsið á sínum tíma með þá hugmynd, að reynt yrði að flytja óperuna Tannhäuser eftir Wagner á árinu 2000. „Við skoðuðum málið þá, og sáum að uppsetningunni fylgdi mikill kostnaður og tíminn var orðinn of naumur og því var þá slegið á frest að glíma við Wagner”. Kostnaði við uppfærsluna á Hollendingnum fljúgandi verður skipt milli stofnananna fjögurra og hver þeirra sér um þann hluta uppfærslunnar sem að henni snýr; Sinfóníuhljómsveitin ræður hljómsveitarstjóra, Þjóðleikhúsið leikstjóra, Óperan söngvara, en allt lýtur þetta einni stjórn. „Hver og einn heldur utan um það sem hann kann best“, segir Þröstur Ólafsson.
Samstarfið mikilvægt fyrir framtíðina
Að sögn Þórunnar átti Listahátíð frumkvæðið að þessu samstarfi nú. „Það er mjög gaman fyrir Listahátíð að þetta skyldi hafa tekist núna, því frumsýning óperunnar verður á opnunarkvöldi hátíðarinnar 11. maí 2002. Það er líka gaman að geta teflt fram svona stórum viðburði þar sem þessar stofnanir koma saman. Þetta er áríðandi fyrir framtíðina, þegar menn fara að sjá fyrir sér Tónlistarhús og framtíð listflutnings af þessu tagi á Íslandi, að þessar stofnanir skuli geta unnið saman og reynt að gera þetta eins vel og hægt er við bestu mögulegu aðstæður“.
Þröstur Ólafsson segir það nánast fastmælum bundið að hljómsveitarstjóri sýningarinnar verði Þjóðverjinn Gregor Buhl, sem hefur starfað mikið með óperunni í Hannover og í Staatsoper í Hamborg, en einnig stjórnað víða annars staðar. Buhl hefur stjórnað mörgum Wagneróperum, en stjórnar þó öðrum óperum einnig. Hann hefur fengið sérstakt lof gagnrýnenda fyrir stjórn á óperum Wagners og Richards Strauss, einkum þó fyrir flutning á Niflungahringnum í heild sinni í Þýskalandi í fyrra.
Fjölmenntaður leikstjóri sem skapar sterkar sýningar
Leikstjóri sýningarinnar verður, að sögn Stefáns Baldurssonar, Þjóðverjinn Saskia Kuhlmann. Hún hefur sett upp um 40 óperusýningar og starfar mikið við Þýsku óperuna í Berlín. Hún hefur víðtækan bakgrunn í tónlist og er bæði söngvari og flautuleikari. Kennari hennar á flautu var James Galway. Hún lagði líka stund á leiklist og leikstjórn og hóf feril sinn sem aðstoðarleikstjóri við Þýsku óperuna í Berlín. Hún hefur leikstýrt uppfærslum með heimsþekktum söngvurum á borð við Vesseiinu Kasarovu, Roberto Alagna, Matta Salminen, Hildegard Behrens, René Kollo og Francesco Araiza og stjórnendum á borð við Bernard Haitink, Riccardo Muti og Rafael Frühbeek de Burgos. „Það sem við höfum séð eftir Saskiu Kuhlmann, þó mest sé á myndböndum, lofar afskaplega góðu. Hún skapar sterkar og mjög fallegar sýningar“.
Verið er að vinna að því að ráða aðra þá sem þátt taka í sýningunni, en engin nöfn eru þar komin á blað.
Hvað söngvarana varðar er heldur ekki hægt að nefna nöfn ennþá, þótt vissulega hafi forsvarsmennirnir fjórir sínar hugmyndir um óskasöngvara. Efnt verður til prufusöngs í haust, þar sem söngvurum verður gefinn kostur á að reyna sig við Wagner fyrir hlutverk í óperunni, en hugsanlegt er að útlendingur verði valinn í hlutverk Hollendingsins.
Búist við miklum áhuga
Sýningar á Hollendingnum fljúgandi verða aðeins sjö til átta. Ljóst er að Wagneraðdáendur um allan heim verða spenntir fyrir sýningunni, enda er það nokkur hópur þeirra sem sleppir ekki ótilneyddur nýjum uppfærslum á verkum meistarans. Listahátíð í Reykjavík nýtur alþjóðlegrar athygli og telja má víst að slagur verði um miða á sýninguna. Þórunn segir að eftir flutninginn á verki Jóns Leifs, Baldri, á síðustu Listahátíð sé hátíðin komin á kortið hjá þeim sem þekkja tengslin milli verks Jóns Leifs og Wagners. „Við munum byrja að kynna sýninguna strax í haust, það þarf að gerast svo snemma til að fólk geti gert ráðstafanir með hótelpantanir og slíkt. Það komu um þrjátíu erlendir tónlistar- og dansgagnrýnendur gagngert til að fjalla um sýninguna á Baldri, og þeir munu fylgjast mjög vel með þessu“. Þau Þröstur og Þórunn hafa ekki áhyggjur af áhugaleysi íslenskra tónlistarunnenda og búast við því að miðar seljist vel. „Ef það gerist, knýr það bara á um að þetta verði gert einhvern tíma aftur. Eftirspurnin skapar áframhaldið”, segir Þórunn Sigurðardóttir, „það þarf bara í framtíðinni að vera til stærra hús“.