Hollendingurinn fljúgandi eða Draugaskipið
Wagner fyrir byrjendur og börn
Árni Tómas Ragnarsson
Lesbók Mbl. 4. maí 2002
Óperan Hollendingurinn fljúgandi eftir Richard Wagner, sem sýnd verður á Listahátíð í Reykjavík í maí, er verk sem ætti að höfða sterkt til okkar Íslendinga. Fyrir því eru margar og mismunandi ástæður sem hér verða raktar.
Í fyrsta lagi er tónlist óperunnar að mestu leyti létt og aðgengileg, a.m.k. miðað við ýmsar aðrar óperur Wagners. Ekki nóg með það, heldur eru kórarnir sérstaklega skemmtilegir, svo lagrænir og hressilegir að vel mætti nota suma til söngs við böndin í frystihúsunum eða úti á dekki í brælu.
Í öðru lagi er þetta stysta ópera Wagners; hún tekur aðeins um 2½ klst. í flutningi en flestar aðrar Wagneróperur eru um eða yfir 4 klst. að lengd. Því má segja að Hollendingurinn sé tilvalin Wagnerópera fyrir byrjendur, ekki síst þegar við það bætist að í verkinu er sögð stórkostleg saga um ást og ástarfórnir, en slíkt hefur verið talið alveg ómissandi fyrir almennilegar óperur.
En fyrir Íslendinga bætist það svo enn við að verkið er öðrum þræði saga af sjómönnum – eins og heyra má í tónlistinni sem víða endurómar villta storma og löðrandi brim – og er hins vegar hálfgildings draugasaga, en fáar þjóðir hafa sýnt slíkum sögum jafn mikinn áhuga og einmitt við. Eins og nú væri ekki nóg upp talið má einnig benda á að í verkinu eru óvenju djúpir undirtónar, sem höfða mjög til gáfaðs fólks, sem við Íslendingar erum nú flestir. Þarna er um að ræða djúpsálarlega köfun Wagners í persónur sínar, – löngu áður en Freud kom fram með kenningar sínar um þau mál, en Freud var enn ófæddur þegar óperan var skrifuð 1841. Fyrst og síðast er þetta svo ljómandi skemmtileg saga, en það eiga allar sögur helst að vera.
Þjóðsagan um Hollendinginn fljúgandi
Menn voru búnir að vera að bauka við þessa sögu í nokkur hundruð ár áður en Richard Wagner tók til við hana. Svoleiðis sögur eru kallaðar þjóðsögur og er sama sagan oftast til í mörgum löndum og í breytilegum útgáfum.
Þjóðsagan um Hollendinginn fljúgandi var líka oft kölluð Draugaskipið og er ópera Wagners reyndar enn kölluð því nafni á frönsku (Le Vaisseau Fantome). Þetta leiðir hugann enn frekar að eðli sögunnar sem draugasögu eða hrollvekju, sem þjónaði þeim tilgangi að kitla ótta sjómanna við hið yfirnáttúrulega og óhugnanlega, sem gæti beðið þeirra úti á hafinu. Sagan er því hliðstæða íslensku þjóðsagnanna um tröllin í fjöllunum því „margt býr í þokunni“. Ekki sakar að kölski sjálfur kemur hér við sögu alveg eins og í mörgum af sögunum okkar og þær eiga það einnig sameiginlegt að jafnan fer illa fyrir þeim sem eiga við Hollendinginn ekki síður en fyrir þeim sem verða á vegi drauga eða forynja í niðaþoku á íslenskri heiði.
Eins og Wagner segir söguna fjallar hún um hollenskan skipstjóra – enginn veit af hverju hann var síðar kallaður fljúgandi – sem var að sigla í vitlausu veðri fyrir einhvern höfða og gekk það illa. Hann brast þolinmæði og kallaði í örvæntingu og reiði út í storminn að hann skyldi sigla til eilífðar ef honum bara tækist að komast fyrir þennan déskotans höfða. En kölski var einmitt á línunni og tók hann á orðinu.
Hann greiddi götu hans fyrir höfðann, en síðan hvíldi sú bölvun á skipstjóranum að hann varð að sigla áfram til eilífðarnóns. Alveg eins og í þjóðsögunum okkar var kölski hér þó dálítið stríðinn og brögðóttur. Hann vissi sem var að ástum kvenna er lítt að treysta svo hann gaf Hollendingnum eitt tækifæri; hann fengi að fara í land á sjö ára fresti til að finna sér trygglynda konu. Tækist honum það yrði bölvuninni aflétt um leið.
Og kölski vissi hvað hann söng. Þegar sagan hefst var Hollendingurinn búinn að sigla í heila öld og hafði alltaf skroppið í land á sjö ára fresti, en aldrei tekist að finna sér trygglynda konu. Skipstjóranum – og reyndar allri áhöfninni – var farin að leiðast þessi eilífa sigling, en við því var ekkert að gera, því bölvun er og verður alltaf bölvun. En einmitt núna höfðu sjö ár liðið frá síðustu landgöngu og Hollendingurinn var siglandi í brjáluðu veðri eins og venjulega (það fylgdi honum nefnilega, hvert sem hann fór) undan strönd Noregs. Svo vildi til að á þessum slóðum var norski skipstjórinn Daland að baslast við að sigla heim og rétt ókominn þegar hann lenti í stormi Hollendingsins. Og hér hefst sjálf óperan því hitt var forsagan.
Eftir að hafa bisað við veðrið um nokkra hríð ákveður Daland að sigla í var við ströndina og leggja sig. Hann hefur ekki sofið lengi þegar skip Hollendingsins kemur siglandi utan úr sortanum og leggur að skipi Dalands. Þegar Daland loks vaknar upp bregður honum við þessa sjón og spyr hver sé þarna eiginlega á ferðinni. Má í því sambandi taka fram að honum var ekki nema von því skip Hollendingsins var býsna draugalegt, bikasvart og með rauðum seglum og hvíldi yfir því einhver óhugnaður. Daland fær þó ekkert svar í fyrstu og ekkert kvikt var að sjá í skipinu.
Hollendingur Wagners
Allt í einu líður Hollendingurinn fram, virðulegur í fasi, og var þá nýbúinn að syngja átakanlegan raunasöng um meinleg örlög sín og einsemd, sem Daland hafði misst af á meðan hann var sofandi, en við hin náðum honum af því óperan var tiltölulega nýbyrjuð og veðurhamurinn í forleiknum var slíkur að engum okkar hafði enn tekist að festa nokkurn blund. (Það tókst hins vegar hjá stýrimanninum sem var á vaktinni hjá Daland, en hann hafði líka verið að puða í langan tíma áður en óperan hófst.) Hollendingurinn tekur Dalandi vel og sýnir honum kistu sína fulla af skarti og falbýður honum gegn vægu verði.
Við það verður Daland talsvert upp með sér svo þegar Hollendingurinn fer að spyrja um heilmilishagi hans er Daland snöggur að segja frá Sentu dóttur sinni. Það kveikir aftur áhuga Hollendingsins og verður niðurstaðan í stuttu máli sú að þeir ákveða að halda saman heim til Dalands og athuga hvort ekki gangi á milli Sentu og Hollendingsins (sem Daland vissi ekki að var hinn hræðilegi fljúgandi, heldur leit bara á hann sem gott mannsefni).
Nú er fyrsti þáttur búinn og er þá alveg skipt um gír. Eins og segir í gömlu útvarpsleikritunum: Við erum komin heim í stofu til Dalands þar sem Senta situr með hinum konunum og eru þær að spinna – hinn frægi spunakór er að sjálfsögðu hér. En Senta nennir ekki að spinna úr ull, hún vill spinna sögur. Hún starir á mynd af Hollendingnum fljúgandi, sem hangir þar á veggnum (eins og þá tíðkaðist á öllum góðum sjómannsheimilum), og fer að segja hinum frá sögunni hræðilegu um Hollendinginn (þetta er ballaða Sentu, sem er mjög fræg og hádramatísk).
Konunum er nokkuð skemmt þar til í ljós kemur í lokin að Senta trúir sögunni og gefur sig að auki fram sem þá sem muni fórna sér fyrir Hollendinginn með því að heita honum eilífri tryggð. Það er rétt að hér komi fram að eilíf tryggð var ekki alveg nóg fyrir Hollendinginn, heldur þurfti líf konunnar líka að fylgja með, – því hvernig er hægt að vita hvort tryggð konu sé eilíf meðan hún enn lifir?
Konunum er nokkuð skemmt þar til í ljós kemur í lokin að Senta trúir sögunni og gefur sig að auki fram sem þá sem muni fórna sér fyrir Hollendinginn með því að heita honum eilífri tryggð. Það er rétt að hér komi fram að eilíf tryggð var ekki alveg nóg fyrir Hollendinginn, heldur þurfti líf konunnar líka að fylgja með, – því hvernig er hægt að vita hvort tryggð konu sé eilíf meðan hún enn lifir? Þetta hafa fáir hugsað út í og er oft skrifað með smáa letrinu, en er samt alveg rétt.
Spunakonurnar átta sig þó á þessu og taka orðum Sentu með hryllingi og þá ekki síður veiðimaðurinn Erik, sem þarna kom aðvífandi, en hann var heitmaður Sentu og því ekki skrýtið að honum skyldi vera misboðið. Annars er hann nú kominn til að segja þeim að sést hafi til skips Dalands svo stúlkurnar þjóta út til að taka á móti, en Erik heldur Sentu eftir og reynir að telja henni hughvarf. Það reynist þó gersamlega þýðingarlaust, hún er eins og í transi og lætur Erik sig því hverfa áður en Daland stikar inn með Hollendinginn í eftirdragi. Senta sér strax hver maðurinn er, þetta var sá hinn sami og á myndinni á veggnum – (og hafði þó Hollendingurinn horfið löngu fyrir tíma ljósmyndatækninnar.
Fórn og frelsun í lokin
Daland byrjar á að kynna þau hvort fyrir öðru og er ansi lengi að því. Á meðan segja þau ekki orð, en starast stíft í augu. Þegar Daland hefur loks vit á að láta sig hverfa er eins og stífla bresti og þau fara að syngja mikið saman en það er kallað dúett. Sagt er að í upphafi þessa dúetts hafi Senta verið saklaust stúlkubarn, en í lokin fullþroskuð kona. Eitthvað svipað má segja um Hollendinginn sjálfan; fyrir dúettinn var hann eins og hver annar tilfinningalega bældur sjóari, en í lokin ástheitur og hlýr. Svona atriði er kallað lykilatriði í hverju verki og er það líka í þessu. Persónurnar taka út sinn tilfinningalega þroska á meðan við fylgjumst með í beinni. Slíkt er mjög sjaldgæft – „einmalig“ myndi þýskurinn kalla það. Þarna var Freud vel á eftir.
Þá er nú farið að síga á seinni hlutann og komið fram í þriðja og síðasta þátt þar sem fólkið er að undirbúa fagnaðarveisluna og er nú aldeilis tækifæri til að láta kórinn taka lagið og Wagner gerir það líka með stæl. En fólkinu leiðist að vita af Hollendingagreyjunum þarna aleinum inni í skipi sínu og kallar til þeirra hvort þeir vilji ekki slá sér upp með þeim – hafandi ekki grænan grun um að þessir kallar hafa verið á lífi að meðaltali í 150 ár a.m.k. og því löngu hættir að nenna að slá sér upp. En fólkið heldur áfram að juða í þeim þar til stormbeljandi Hollendingsins tekur skyndilega upp á því að hrista skip hans illyrmislega og upp úr þurru um leið og áhöfnin kemur fram og lætur skemmtifólkið heyra það óþvegið. Þá er málið strax afgreitt af Norðmanna hálfu og ákveða þeir að halda sína veislu einir. Skömmu síðar sést til Eriks, sem hefur dregið Sentu afsíðis og reynir í hinsta sinn að fá hana til að hætta þessari vitleysu. En hún gefur sig hvergi þótt hún vilji gera sem best úr þessu. Svo illa vill þá til að Hollendingurinn kemur þar aðvífandi.
Hann misskilur allt saman og heldur að nú sé verið að svíkja sig eina ferðina enn. Hann hóar á sína menn að gera klárt, en Senta hleypur á eftir og segir sem er að þetta sé tómur misskilningur. En það er of seint, vindurinn er farinn að gnauða, seglin komin upp og Hollendingurinn stokkinn um borð. En þá gerist það sem kölski hafði ekki reiknað með og Hollendingurinn ekki heldur. Senta hleypur upp á næsta klett og steypir sér í sjóinn á eftir skipi Hollendingsins og leysir hann þar með úr álögunum. Skipið sekkur strax á bólakaf og á meðan undurþýðir lokahljómarnir óma sjáum við hvar Senta og Hollendingurinn stíga í faðmlögum saman til himins.
Ef fólki finnst þetta efni ekki vera nóg til að fylla upp í tvo og hálfan tíma með aríum, kórum, dúettum og öllu saman er ég illa svikinn. Um tónlistina er ekki hægt að tala frekar en venjulega, en þó má segja að hún er flott. Sá sem ekki tekur undir það fær endurgreitt hjá Wagner sjálfum því hann lifir enn, rúmum hundrað árum eftir dauða sinn. Kröfuhafi skal þó fyrst sýna fram á það með óyggjandi hætti að hann eigi konu sem hafi verið sér trú í sjö ár hið minnsta. Tekið skal fram að Jón Steinar eða sambærilegur fer með mál Wagners fyrir hans hönd