Hugleiðingar um Parsifal

Hvar og hvenær birt?

Umgjörð verksins lýsir Wagner svo að atburðirnir eigi sér stað „í og við kastala Gralsriddaranna í Montsalvat. Í sviðsmyndinni sjást norðurfjöll hins gotneska ríkis Spánar. Galdrakastali Klingsors er í suðurhlíðum fjallanna og snýr að ríki Araba á Spáni“.

Fáar óperur veita eins mikla ánægju þeim sem vel kunna að meta og engin er eins pirrandi fyrir þá sem það gera ekki. Þetta má vafalaust rekja til trúarlegs viðfangsefnis verksins, sem flestir taka harða afstöðu til og tjá sig því gjarnan um verkið á óvæginn og ofsafenginn hátt. Fyrir aðdáendur er verkið sem úr öðrum heimi og vekur með þeim djúpa lotningarkennd. Andstæðingar verksins ráðast yfirleitt á það út frá þremur mismunandi sjónarmiðum; bókmenntalegum, trúarlegum eða tónlistarlegum.

Hin bókmenntalega gagnrýni beinist að texta Wagners, sem hann samdi sjálfur að vanda. Textann byggði hann að hluta til á skáldsögu frá miðöldum, sem þegar naut vinsælda á tólftu öld.

Í bók sinni „Frá helgisiðum að skáldsögu“ (útg.1920) sýndi Jessie L. Weston fram á að þessi skáldsaga var í aðalatriðum endursögn heiðinnar sögu, sem í fyrndinni mátti finna í einni eða annarri mynd hjá flestum þjóðbálkum. Um er að ræða helgisiði, sem tengjast gróðri jarðar og frjósemi. Konungur eða stjórnandi ríkisins hefur tapað lífsorkunni vegna sjúkdóms, elli eða sára. Ástand hans hefur áhrif á frjósemi landsins og þjóðarinnar, konur fá ekki alið börn og land eyðist (sbr. „The Waste Land“

 eftir T.S. Eliot). Hlutverk hetjunnar er að endurheimta lífsorku konungsins og auðsæld landsins. Eftir margháttaðar mannraunir og ævintýri, tekst hetjunni ætlunarverk sitt að lokum. Heiðnir menn léku þetta verk eða drápu hreinlega gamla kónginn til að koma hinum nýja að.

Í þessum helgisiðum voru tvær táknmyndir, spjótið og bikarinn, sem ávallt tengdust hvoru öðru. Þau voru frjósemistákn karls og konu. Þannig var það fyrir daga kristninnar og svo er enn meðal frumstæðra þjóða. Í hefðum og list kristindómsins höfðu þessi tákn þó ekki verið tengd, a.m.k. ekki fyrir tíma Wagners.

Þegar miðaldaskáldin kynntust þessari sögu þá fundu þau efnivið í sögu um hetju, sjúkan konung, spjót og bikar og ýmis konar ævintýri. Hins vegar gerðu þau sér ekki grein fyrir ástæðu þess að konungurinn var sjúkur né skildu þau táknræna þýðingu spjótsins og bikarsins. En þar sem skáldin voru kristin þá leituðust þau við að segja söguna út frá forsendum kristinnar trúar. Árangurinn varð skáldsaga, sem var full af óskiljanlegum táknum og sérkennilegum uppákomum – til í mörgum mótsagnakenndum útgáfum, sem í þúsund ár hafa valdið jafnt fræðimönnum sem gagnrýnendum og lesendum miklum heilabrotum og oft ergelsi.

Fræðimenn í bókmenntum halda því fram að á hinn heiðna grunn sögunnar hafi Wagner byggt kristna yfirbyggingu að sinni eigin forskrift, en því miður hafi hann ekki frekar en skáld miðalda skilið inntak og þýðingu efniviðar síns. Hér er t.d. bent á 3. þátt verksins þegar Parsifal færir spjótið aftur til heimkynna Gralsins, en það gefur til kynna vorkomuna sem skrýðir engin blómum og græðir sviðna jörð. Þegar Parsifal stingur spjótinu í jörðina, krýpur á kné og leggst á bæn, þá stangast það algerlega á við hinn kristna heim Wagners, þar sem riddarar í meinlætareglu munka heyra raddir af himnum.

Auðvitað hefur Wagner rétt til að nota táknmyndirnar eftir eigin höfði. Ef bókmenntalega sinnaðir óperugestir ætla hins vegar að leitast víð að dýpka skilning sinn á Parsifal með því að glugga í bók Westons, þá vill það oft aðeins leiða til þess að þeir gera sér enn betur grein fyrir annmörkum óperutextans.

Næstir eru þeir sem gagnrýna Parsifal á trúarlegum grundvelli og telja kristna trú og helgisiði sér svo mikilvæg að þeir kæri sig ekki um að það sé notað til að hnoða upp sögu um einhverja riddara, töfragarð með blómameyjum og galdrakarl. Þeir segja að atriðið þegar Kundry þvær fætur Parsifals, þurrkar síðan með hári sínu og smyr þá olíu, sé augljóslega byggt á sögunni um Krist og syndugu konuna, sem laugaði fætur hans o.s.frv. (Lúkasarguðspjall).

Hinn mikli fræðimaður í Wagner, Ernest Newmann, skrifaði um þessi mál: „Áhorfandinn verður að gæta sín á þeirri algengu villu að á nokkurn hátt reyna að tengja Parsifal við Krist. Sérhver uppástunga í þá veru vakti reiði Wagners sjálfs. Hvílík hugmynd,  að láta Krist vera tenór!!“ sagði hann. „OJ barasta“! En mörgum finnst skýring Newmann vera einföldun og að Wagner hafi hér vísvitandi farið rangt með. Newmann segir réttilega að villan sé algeng og þessi túlkun er oft sviðsett á afgerandi og augljósan hátt. Hinir trúarlegu gagnrýnendur segja að þeir hefðu fremur kosið óperu um Jesús Krist í stað þess að láta leika á tilfinningar sínar á þennan hátt. Þeir benda á helgileikinn í Oberammergau, þar sem listafólkið fjalli á beinan hátt um líf Krists í stað þess að plokka úr því nokkrar skírskotanir og táknmyndir.

Önnur gagnrýni af trúarlegum toga er að Wagner hafi alls ekki skilið boðskap kristninnar. Það sem Parsifal færir riddurunum sé Nirvana, – flótti frá sársauka og þjáningu inn í sæluríki tilvistarleysis, þar sem sál mannsins og skynjun fái frið. Þetta er í öllu falli áhrifin, sem verkið hefur á marga áheyrendur og óumdeilanlega líka það, sem Wagner ætlaðist til. En það hefur þó lítið að gera með það að hvetja áheyrendur til að gera skyldu sína, elska náunga sinn eða tilbiðja aðeins einn Drottinn.

Loks má nefna tónlistarlega gagnrýnendur, sem ekki síst hafa verið ofsafengnir í gagnrýni sinni á Parsifal, og segja tónlistina hreinlega vera leiðinlega. Í fyrsta lagi sé verkið of langt og að út í gegn sé hraðaval of hægt og gætilegt. Taktur verksins sé einsleitur og leiðigjarn. Sem dæmi er tekið að þegar riddararnir koma fram í fyrsta Gralsatriðinu þá er leikinn þungur hopptaktur næstum allan tímann. Hvað laglínurnar varðar, þá er bent á að Wagner noti aftur og aftur efnivið úr forleiknum – yfirleitt án tilbrigða. Loks er notkun Wagners á hljómsveitinni gagnrýndur fyrir að vera hugmyndasnauður, svo sem þegar í þyt hörpunnar þegar Klingsor þeytir spjótinu að Parsifal.

En þeir eru líka margir sem hrífast af óperunni og þeim er alveg sama um ofangreinda annmarka, ef annmarka skyldi kalla. Þótt það séu næstum engin hefðbundin einsöngsatriði í verkinu, þá heldur það óslitinni athygli áhorfenda, en flestir þeirra telja sig fremur fá trúarlegan innblástur en tónlistarlegan. Gagnvart þessu fólki hefur Wagner náð að túlka kjarna lotningar og tilbeiðslu – hann tengir Gralsriddara og áheyrendur milliliðalaust án afskipta kennimanna eða útúrdúra kreddukenninga.

Í forleiknum og tónlist föstudagsins langa finna margir hæstu hæðir í hljómsveitarskrifum Wagners, í atriði Kundry og Parsifals mestu dramatík hans og með óperunni sem heild, með tveimur helgiþáttum og einum óheilögum á milli, verk sem er fullkomið í samsetningu.
(Lauslega þýtt úr bók Georgs Martin, The Opera Companion).

Þegar skoðuð er gagnrýnin hér að ofan um það hvernig Wagner rótaði saman heiðnum hugmyndum og kristnum og túlkaði þær upp á nýtt í Parsifal, þá kemur upp í hugann sams konar meðferð hans á norrænni goðafræði og hetjusögnum, sem hann túlkaði og endurskapaði í Niflungahringnum, mörgum íslenskufræðingnum til sárrar gremju og ergelsis!!

Hugleiðingar Georgs Martin fjalla að mestu leyti um margvíslega gagnrýni á óperuna Parsifal, en þó er ýmsu sleppt, sem vakið hafa deilur. Til dæmis hefur verið deilt um það hvort og þá hvernig líta beri á verkið sem listræna framsetningu Wagners á skoðunum sínum í kynþáttamálum og þá einkum gagnvart Gyðingum.

En hvað sem um allar túlkanir verksins má segja, þá er ljóst að það stendur – eins og önnur mikil listaverk – sjálft fyrir sínu, öðru óháð. Það er ekki hægt að lesa úr því neitt annað en það sem í því sjálfu stendur. Barry Millington segir í bók sinni “Wagner”:

„Wagner kaus að binda Parsifal ekki við neina ákveðna trú eða hugmyndafræði. Verkið inniheldur margs konar hugmyndir, sem stundum stangast hver á við aðra, – alveg eins og önnur skrif Wagners og samræður hans voru krydduð hugmyndum, sem gengu þvert hver á aðra. Hvorki í einkalífi sínu né á opinberum vettvangi hræddist Wagner að láta skoðanir sínar í ljósi, stundum af meiri ástríðu en skýrleika. Í listaverkum sínum valdi hann og hafnaði úr heimspekikenningum eða bókmenntaverkum, – hann tók úr allt það sem honum sýndist, klæddi svo verk sitt í lokkandi búning ótal táknmynda og lét sig þá litlu varða þótt hvert rækist á annað.

Að lesa Parsifal eingöngu sem kristilegt verk eða eingöngu sem búddíska dæmisögu, eða lesa aðeins úr verkinu listræna samsvörun við kenningar síðustu rita hans, – það væri að gera skelfilega lítið úr gildi verksins. Til þess að ná utan um Parsifal verður maður að sætta sig við að vefur verksins er ofinn úr þversögnum; aðeins með því að horfast í augu við þá staðreynd erum við líkleg til að komast að kjara verksins“.