Hugleiðingar um Parsifal
Hjalti Guðmundsson
Óperublaðið, ?. tbl 19??
Það er ánægjulegt þegar vonirnar rætast. Það fékk ég að reyna í sumar, þegar okkur hjónunum gafst kostur á að fara til Bayreuth ásamt mörgu góðu fólki. Ég hafði lengi alið þá von í brjósti, að einhvern tímann kæmist ég til Bayreuth á vit hins mikla snillings, Richards Wagners; fengi að koma á þann stað, sem er eins og helgistaður í hugum þeirra, sem unna tónlist Wagners. Við fórum fyrst og fremst til að sjá Niflungahringinn, en auk þess var ég svo heppinn að fá miða á sýningu á Parsifal, sem er síðasta ópera Wagners og var frumsýnd í Festspielhaus 26. júlí 1882, sex mánuðum fyrir dauða tónskáldsins.
Sýningin á Parsifal var ákaflega falleg og hátíðleg og hafði djúp áhrif á áheyrendur. Söngvarar voru allir góðir og var þar hvergi veikur hlekkur. Hans Sotin söng veigamesta hlutverk helgileiksins, Gurnemaz, af miklum myndugleika, hlýju og göfgi. Bernd Weikl söng Amfortas og fór trúverðuglega með það hlutverk, svo að kvöl hans og angist komu vel fram og hans fallega rödd naut sín mjög vel. Franz Mazura söng hlutverk Klingsors og gerði það á sannfærandi hátt.
Janis Martin frá Bandaríkjunum söng hlutverk Kundry. Þetta er mjög erfitt hlutverk, en söngkonan leysti það vel af hendi. Það vakti athygli mína að þær tvær söngkonur sem höfðu stærstu og erfiðustu hlutverkin í Niflungahringnum og Parsifal, voru frá Bandaríkjunum. Það finnst mér segja mikið um grósku og stöðu sönglistarinnar þar í landi.
Janis Martin frá Bandaríkjunum söng hlutverk Kundry. Þetta er mjög erfitt hlutverk, en söngkonan leysti það vel af hendi. Það vakti athygli mína að þær tvær söngkonur sem höfðu stærstu og erfiðustu hlutverkin í Niflungahringnum og Parsifal, voru frá Bandaríkjunum. Það finnst mér segja mikið um grósku og stöðu sönglistarinnar þar í landi.
Mesta athygli í sýningunni vakti að sjálfsögðu Placido Domingo í hlutverki Parsifals. Hann söng það mjög vel og ekki voru nein vandræði að heyra tenórinn yfir hljómsveitargryfjuna og hljómaði glæsilegur söngur hans vel um hinn fallega og virðulega sal. Domingo var glæsilegur í þessu hlutverki og greinilegt var að honum þykir mjög vænt um það.
Minni hlutverk voru mjög vel af hendi leyst. Sérstaklega fannst mér fallegt atriðið í töfragarði Klingsors, þar sem allt kapp er lagt á að trylla Parsifal og tæla. Söngur blómameyjanna var sérlega fallegur, hreinn og tær. Ekki má gleyma kórnum, sem söng framúrskarandi vel. Stundum hafa íslenskir söngvarar verið þar í hópi, en ég gat ekki séð að svo væri að þessu sinni. Í hátíðarhljómsveitinni í Bayreuth var valinn maður í hverju rúmi, en hljómsveitarstjóri var Giuseppe Sinopoli,
Söngvurum var öllum mjög vel fagnað í lok sýningarinnar, en það var greinilegt hver naut mestrar hylli. Það var Placido Domingo. En hinir máttu vel við sinn hlut una. Þegar við sáum Niflungahringinn, var púað og baulað á Rosalie, sem hannaði búningana og leiktjöldin, og einnig á leikstjórann, Kirchner. Þetta hafði ég aldrei upplifað áður og var ekki laust við að mér brygði. Það mátti vart á milli greina hvorir hefðu betur, þeir sem klöppuðu og fögnuðu, eða þeir sem púuðu. Slíkt heyrðist ekki eftir sýninguna á Parsifal. Þó gerðist það, að fáeinar hjáróma raddir púuðu á sjálfan Wolfgang Wagner, sem kom fram í lok sýningarinnar sem leikstjóri og leikmyndahönnuður. Fannst mér það mjög ómaklegt, því að öll umgjörð sýningarinnar var ákaflega falleg og hæfði vel hinu fagra og göfuga viðfangsefni. En þetta kváðu hafa verið algjörir púristar, sem engu vilja breyta heldur hafa alla hluti eins og þeir voru þegar Richard Wagner setti Parsifal upp hið fyrsta sinni.
Það er eðlilegt að láta hugann reika, að mynda sér skoðanir og láta sig dreyma. Hvað varð af spjótinu, sem rómverskur hermaður lagði í síðu Jesú Krists? Og hvað varð af kaleiknum, sem notaður var við hina síðustu kvöldmáltíð? Og hvað varð um kross Krists? Ekki hefur hinn rómverska hermann grunað að spjótið ætti eftir að gegna svo miklu hlutverki í stórfenglegum helgileik mörgum öldum síðar. Og hætt er við að kaleikurinn, sem Jesús notaði við hina síðustu kvöldmáltíð, hafi ekki verið jafn veglegur og hann er gerður við sýningar á Parsifal. Það hefur vafalaust verið einfaldur og fátæklegur bikar.
Hvaða boðskap ber Parsifal? Hann ber mér trúarlegan boðskap og snertir mig djúpt. Ég skynja í þessu göfuga og fagra verki nærveru hins heilaga og þá fegurð, sem aðeins getur verið frá Guði sjálfum komin. Parsifal ber mér sterkan boðskap um fyrirgefningu og sigur hins góða yfir hinu illa. Þar kemur Parsifal sem staðgengill frelsarans sjálfs og leggur sína líknandi hönd yfir vonlausa og veika menn.
Aðeins sá sem höndlaður er af Guði og hefur þegið ríkulegar gjafir hans, getur samið slíkt verk. Vissulega átti Wagner sína galla, en náðargjöf hans var stórkostleg og honum auðnaðist að færa öllu mannkyni dásamlegar gjafir í verkum sínum. Þar er að finna slíka dýrðarheima, að erfitt er að finna sambærileg verk. Í Parsifal er að finna sumt af því fegursta í tónlist, sem ég þekki.
Richard Wagner er einn af velgjörðarmönnum mannkyns og hefur með verkum sínum auðgað menningararf heimsins meira en margur annar. Það er í raun undravert að einn maður hafi unnið önnur eins stórvirki og hann. Ég er þakklátur fyrir að hafa átt þess kost að heimsækja Bayreuth, þakklátur fyrir að hafa fengið að njóta þeirrar fegurðar, sem þaðan streymir.