Í leit að góðri Sentu
Hljóðritanir af Hollendingnum fljúgandi eftir Richard Wagner
Magnús Lyngdal Magnússon
Óperublaðið ? tbl. ????
„Mér finnst Der fliegende Holländer besta ópera Wagners fram að Die Walküre en því eru kannski ekki allir sammála.“ — William Mann í Opera on Record.
Hollendingurinn fljúgandi er elsta óperan í röð þeirra tíu sem nú eru helst fluttar eftir Wagner (Die Feen, Das Liebesverbot og Rienzi eru t.a.m. aldrei settar á svið í Bayreuth). Þetta verk hefir notið töluverðra vinsælda upptökufyrirtækja; hafa því hlustendur sem hyggjast eignast óperuna á geisladiskum úr miklu að moða. Hér skal rætt stuttlega um nokkrar hljóðritanir af Hollendingnum en þeim elstu er vísvitandi sleppt. Þó skal benda áhugasömum á Hans Hotter — einn frambærilegasta Hollending allra tíma — sem söng hlurverkið undir stjórn bæði Krauss (1944 Preiser) og Reiners (1950 OPR). Báðar þessar hljóðritanir er hins vegar erfitt að nálgast. VHS-útgafum er einnig sleppt hér.
Ferðin hefst því í Bayreuth árið 1955. Þetta ár stjórnuðu bæði Hans Knappertsbusch og Joseph Keilberth Hollendingnum á hátíðinni. Sýningar beggja voru hljóðritaðar (nánast með sömu söngvurum). Baðar státa af afburðagóðum Hollendingi, Hermann Uhde. Hefir hlutverkið að mínum dómi aldrei verið betur sungið. Ekki spillir fyrir að bæði Ludwig Weber (Daland) og Astrid Varnay (Senta) eru firnagóð í sínum hlutverkum. Kannski má segja að Varnay hafi full þroskaða rödd fyrir Sentu en hún er betri en flestar aðrar í þessu hlutverki. Ég er reyndar hrifnari af Knappertsbusch-hljóðrituninni (tekin upp fyrsta kvöldið), enda Wolfgang Windgassen betri Erik en Rudolf Lustig, en báðar eru afburðagóðar.
Það hefir gengið erfiðlega að finna góða Sentu og eru hljóðritanir Ferenc Fricsays, Franz Konwitschnys og Antals Doratis því marki brenndar (og fleiri og fleiri). Reyndar finnst mér hljóðritun Fricsays, sem er hraðasti fáanlegi Hollendingurinn, afskaplega lítið heillandi og ekki til að mæla með. Það er kannski helst að Windgassen (Erik) veki hrifningu hlustenda. Dietrich Fischer-Dieskau er góður Hollendingur hjá Konwitschny og Gottlob Frick fínn Daland. Marianne Schech (Senta) og Rudolf Schock (Erik) eru hins vegar ekki í sama gæðaflokki og túlkun hljómsveitarstjórans er afar rómantísk (gamaldags). Það er samt vel þess virði að hlusta á Fischer-Dieskau og Frick svo ekki sé minnst á Fritz Wunderlich sem stýrimanninn. Mér finnst hins vegar tæplega hægt að mæla með hljóðritun Doratis. George London var frægur Hollendingur á sinni tíð en röddin er ekki falleg. Leonie Rysanek á sínar björtu hliðar sem Senta en margt annað skyggir á (s.s. söngtækni) og Giorgio Tozzi (Daland) er með bjartari rödd en London sem er varla boðlegt! Karl Liebl (Erik) rétt sleppur, ekkert meira en það.
Kraftmikil og dramatísk túlkun Sawallisch
Jafnhliða Dorati-upptökunni kom einnig út Hollendingur hljóðritaður í Bayreuth. Franz Crass hafði slegið í gegn á hátíðinni ári aður (1960) sem Hollendingur þegar hann steig út úr kórnum til að leysa George London af á siðustu stundu og hann er prýðilegur í titilhlutverkinu. Josef Greindl (Daland) verður kannski seint talinn finpússaður söngvari en hann á ágætis spretti (betri hér en hjá Fricsay). Rétt eins og Crass kom Anja Silja (Senta) fyrst fram í Bayreuth í Hollendingnum fljúgandi. Hún hafði áður ekki sungið þyngra hlutverk en næturdrottninguna í Töfraflautunni. Ég er ekki hrifinn af henni en hún þótti mjög sannfærandi á sviði. Fritz Uhl (Erik) er áreiðanlegur fremur en sannfærandi. Stjarna kvöldsins er hins vegar hljómsveitarstjárinn, Wolfgang Sawallisch. Öfugt við þunglamalegar og óspennandi óperutúlkanir hans í dag er þessi Hollendingur kraftmikill og dramatískur (hraður).
Eftir sjö ára hlé (sem hæfir Hollendingnum vel: „Die Frist ist um, und abermals verstrichen sind sieben Jahr.”) kom hljóðritun Ottos Klemperers. Hún var gerð árið 1968 þegar karlinn var orðinn mjög hrumur en árangurinn er á margan hátt ágætur. Túlkunin er breið og hæg en samt sem áður dramatísk. Theo Adam er ágætur Hollendingur og Martti Talvela góður Daland. Silja hefir lítið breyst frá 1961 (hjá Sawallisch) og mér finnst röddin hreint ekki falleg. Ernst Kozub er frekar litlaus Erik (Klemperer vildi fá James King). Það er þó vel þess virði að hlýða á þessa hljóðritun sem er í hávegum höfð hjá mörgum gagnrýnendum (einkum þeim Gramophone-mönnum).
Karl Böhm stjórnar mjög dramatískri Bayreuth-uppfærslu og keyrir verkið áfram linnulaust (líkt og Sawallisch). Thomas Stewart (Hollendingurinn) og Karl Ridderbusch (Daland) finnast mér góðir en Gwyneth Jones (Senta) er umdeild. Hún syngur á köflum fallega, einkum háa veika tóna. Röddin missir hins vegar oftar en ekki fókusinn og verður gróf (jafnvel Ijót). Jones er þó mjög dramatísk (í takt við túlkun Böhms) og skilar sínu vel þegar upp er staðið. Hermin Esser (Erik) er ekkert sérstakur. Þegar á heildina er litið er ég á margan hátt mjög hrifinn af þessari hljóðritun (en margir eru það alls ekki).
Hollendingurinn fljúgandi var fyrri Wagner-óperan sem Sir Georg Solti hljóðritaði í Chicago (miklu seinna komu svo Meistarasöngvararnir). Ekki er að sökum að spyrja að túlkunin er dramatísk (eins og alltaf hjá Solti). Norman Bailey (Hollendingurinn) þótti prýðilegur Hans Sachs og hann gerir hér margt ágætlega. Martti Talvela (Daland) er einnig góður. Janis Martin (Senta) á í vandræðum eins og svo margar söngkonur í þessu hlutverki en René Kollo (Erik) er fínn. Hljóðið er fyrsta flokks og spilamennskan hjá sinfóníuhljómsveitinni í Chicago er framtírskarandi.
Það sem Karajan gerir vel er betra en hjá öllum öðrum
Herbert von Karajan gerði sína hljóðritun í tengslum við Salzburg-hátíðina en vegna vandræða með söngvara tók þrjú ár að ljúka upptökum (1981–83). Karajan lítur ekki á Hollendinginn sem byrjendaverk (í jákvæðri merkingu) heldur túlkar óperuna eitthvað í líkingu við Tristan und Isolde. Það gengur ekki alltaf upp en inn á milli eru atriði sem enginn gerir betur. Svo bregðast söngvarar að hluta til. José van Dam (Hollendingurinn) og Kurt Moll (Daland) eru reyndar afburðagóðir og ég set þá hiklaust á bekk með Uhde og Weber. En Dunja Vejzovic sem var fín Kundry í Parsifal hjá Karajan á í mestu erfiðleikum sem Senta; ekki hjálpar löturhægt tempóið henni mikið. Peter Hofmann er hreint út sagt vondur Erik (og Karajan sjálfur var óanægður með hann). Hins vegar er að mínum dómi það sem Karajan gerir vel betra en hjá öllum öðrum (hlustið t.a.m. á hljómsveitina „Die Frist ist um“ og svo effir dúett Sentu og Eriks). Gallinn er bara sá að stundum fer Karajan yfir strikið og ekki hjálpar miðlungi góð Senta og lélegur Erik.
Hljóðritun Woldemars Nelssons sem var gerð á sýningu Bayreuth arið 1985 hefir alltaf verið mikils metin hjá gagnrýnendum. Vissulega er þar á ferðinni frambærileg túlkun hljómsveitarstjórans en seint verður Simon Estes (Hollendingurinn) talinn með hljómfagra rödd (mér liggur við að kalla hann leiðinlegan söngvara). Lisbeth Balslev (Senta) og Robert Schunk (Erik) eru ágæt og Matti Salminen (Daland) svíkur ekki frekar en fyrri daginn. Fyrir þá sem eru hrifnir af Estes er þetta efalaust góður kostur en ef Bayreuth-hljóðritun er skilyrði mæli ég miklu frekar með Knappertsbusch, Keilberth, Sawallisch eða Böhm (þar eru a.m.k. dökku raddirnar allar betri en hér).
Kannski er hljóðritun Christophs von Dohnányis sú umdeildasta sem fáanleg er af Hollendingnum fljúgandi. Annað hvort er hún talin mjög góð (s.s. Gramophone) eða verulega vond (s.s. Penguin Guide). Mér finnst Robert Hale frábær Hollendingur en að sama skapi er Hildegard Behrens á tíðum slöpp Senta. Hún á oft miklum erfiðleikum (s.s. ballaðan í öðrum þætti: „Johohoe! “Traft ihr das Schiff im Meere an“) en vinnur þó verulega á. Sjaldan hefi ég heyrt orðin „Wie aus der Ferne“ betur sungin en hjá Hale og þau Behrens syngja dúettinn sem fyIgir ágætlega. Þá er Josef Proischka (Erik) ágætur. Dohnányi sem var lengi giftur Önju Silju er reyndar mjög umdeildur. Mér finnst flest af því sem hann hefir gert mjög gott hljómsveitarlega séð en miðað við þrautreyndan óperustjórnanda virðist hann oft hafa ótrúlega lélegan smekk fyrir röddum og Behrens í hlutverki Sentu er dæmi um það (þó ekki það versta því Gabriele Schnaut sem Brünnhilde (Die Walküre, Decca) eða Leonore (Fidelio, Decca) hjá Dohnanyi slær öllu við).
Cheryl Studer stelur senunni
Það er synd að Giuseppe Sinopoli náði ekki að hljóðrita fleiri Wagner-óperur en Tannhäuser og Hollendinginn fljúgandi áður en hann lést árið 2001. Að mínum dómi eru þær báðar með þeim bestu sem fáanlegar eru af þessum verkum. Bernd Weild er prýðilegur Hollendingur og Hans Sotin ágætur Daland. Plácido Domingo hefir alltaf verið umdeildur í Wagner (Walther, Lohengrin, Tannhäuser og Parsifal eru önnur hlutverk sem hann hefir hljóðritað í heild sinni) en mér finnst hann fínn Erik. Söngvarinn sem þó stelur senunni hér er án efa Cheryl Studer. Hún er að mínum dómi ein allra besta Senta á geisladiskum. Þetta er erfitt hlutverk sem þarf mikla dramatík í bland við unglegan hljóm. Hjá Studer hljómar þetta áreynslulaust en samt svo sannfærandi. Ég er reyndar yfirleitt afar hrifinn af Studer í Wagner (hlustið á „Allmächtige Jungfrau! Hör mein Flehen!“ úr Tannhäuser (3. þáttur) eða „Selig, wie die Sonne“ úr Die Meistersinger (3. þáttur) og athugið hvort þið eruð mér ekki sammála). Þá er Peter Seiffert (stýrimaður) rúsínan í pylsuendanum á feiknagóðum söngvarahópi. Annars er túlkun Sinopolis dramatísk og hljóðið ennfremur gott. Þegar allt er lagt saman: fyrsta flokks skemmtun.
Síðast en ekki síst er allra hægasti Hollendingurinn frá upphafi (um hálftíma lengri en Fricsay og Sawallisch)! Samt sem aður gerir James Levine margt vel og leggur áherslu á ýmis smáatriði í raddskránni. James Morris (Hollendingurinn) fékk fyrir ferðina hjá nokkrum gagnrýnendum þegar hljóðritunin kom út en mér finnst hann prýðilegur. Jan-Hendrik Rootering (Daland) er góður og Ben Heppner er án efa einn besti Erik fáanlegur á geisladiskum. Deborah Voigt (Senta) fær kannski að kenna mest á hægu tempói Levines (ballaðan í öðrum bætti: „Johohoe! Traft ihr das Schiff im Meere an“ gengur engan veginn upp svona hægt) en stendur sig þó vel eftir föngum. Þrátt fyrir góðan söng er þessi hljóðritun varla fyrir aðra en sanna aðdáendur Levines (sem reyndar eru margir) en þó vel þess virði að heyra.
Flestir nota endurskoðaða útgáfu tónskáldsins sjálfs
Þess skal að lokum getið að flestir sem hljóðritað hafa Hollendinginn fljúgandi hafa notað endurskoðaða einsþáttar útgáfu Wagners frá árinu 1860; þá gerð taldi tónskáldið sjálft betri og þannig er óperan oftast nær flutt í Bayreuth. Undantekningar frá þessu eru: Fricsay, Klemperer og Dohnányi sem nota Dresden-útgáfuna frá 1843 sem er í þremur þáttum. Wolfgang Sawallisch notar einnig Dresden-útgafuna en gengur skrefi lengra; hann sleppir upphafi 2. þáttar (byrjar beint á spunakórnum) og hækkar ballöðu Sentu („Johohoe! Traft ihr das Schiff im Meere an“) upp um tón. En þannig átti hún að hljóma upphaflega. Wilhelmine Schröder-Devrient, Senta í frumflutningi verksins í Dresden 1843, réði illa við hlutverkið og því afréð tónskáldið að færa ballöðuna niður um tón (úr a-moll í g-moll). Þessi breyting festist í sessi og er Sawallisch sá eini fram til þessa sem hefir breytt út af vananum. Með þessum tónflutningi hljómar viðlag ballöðunnar í C-dúr („Doch kann dem bleichen …”), þ.e. í sömu tóntegund og Senta raular þetta stef áður en ballaðan hefst (taktar 159–162, bls. 287 í Eulenburg útgáfunni; fyrri diskur, band 15 hjá Sawallisch). Það reynir hins vegar töluvert meira á söngkonuna í hlutverki Sentu við þennan tónflutning og vel skiljanlegt að fáir láti freistast þó svo að hljómfræðilega gangi upphafleg hugsun Wagners betur upp.
Fyrir þá sem vilja eignast eina hljóðritun af Hollendingnum fljúgandi í safnið koma að mínu mati einkum tvær til greina:
Hljóðritað á sýningu:
Hermann Uhde (H), Astrid Varnay (S), Ludwig Weber (D), Wolfgang Windgassen (E), Elisabeth Schärtel (M), Josef Traxel (St); kór og hljómsveit Bayreuth-hátíðarinnar / Hans Knappertsbusch (1955) — Music and Arts.
Hljóðritað í stúdíói:
Bernd Weikl (H), Cheryl Studer (S), Hans Sotin (D), Plácido Domingo (E), Uta Priew (M), Peter Seiffert (St); kór og hljómsveit Þýsku óperunnar í Berlín / Giuseppe Sinopoli (1991) — Deutsche Grammophon.
Höfundur stundar framhaldsnám á sagnfræði í Kaupmannahöfn.
Helstu hljóðritanir af Hollendingnum á geisladiskum
Upptökuár | Heading 1 |
---|---|
1955 | Uhde (H), Varnay (S), Weber (D), Windgassen (E), Schärtel (M), Traxel (St); Bayreuther Festsp. / Knappertsbusch — Music and Arts |
1955 | Uhde (H), Varnay (S), Weber (D), Lustig (E), ), Schärtel (M), Traxel (St); Bayreuther Festsp. / Keilberth — Teldec |
1955 | Metternich (H), Kupper (S), Greindl (D), Windgassen (E), S. Wagner (M), Haefliger (St.); RIAS Orch. / Fricsay — Deutsche Grammophon |
1960 | Fischer-Dieskau (H), Schech (S), Frick (D), Schock (E), S. Wagner (M), Wunderlich (St); Berliner Staatskapelle / Konwitschny — Berlin CLassics |
1961 | London (H), Rysanek (S), Tozzi (D), Liebl (E), Elias (M), Lewis (St); Covent Garden Opera Orch. / Dorati — Decca |
1962 | Crass (H), Silja (S), Greindl (D), Uhl (E), Fischer (M), Paskuda (St); Bayreuther Festsp. / Sawallisch — Philips |
1968 | Adam (H), Silja (S), Talvela (D), Kozub (E), Burmeister (M), Unger (St); New Philharmonia / Klemperer — EMI |
1971 | Adam (H), Silja (S), Talvela (D), Kozub (E), Burmeister (M), Unger (St); New Philharmonia / Klemperer — EMI |
1976 | Bailey (H), Martin (S), Talvela (D), Kollo (E), I. Jones (M), Krenn (St); Chicago Symph. Orch. / Solti — Decca |
1981-3 | van Dam (H), Vejzovic (S), Moll (D), Hofmann (E), Borris (M), Moser (St); Berliner Phil. / Karajan — EMI |
1985 | Estes (H), Balslev (S), Salminen (D), Schunk (E), Schlemm (M), Clark (St); Bayreuther Festsp. / Nelsson — Philips (einnig á VHS) |
1991 | Hale (H), Behrens (S), Rydl (D), Protschka (E), Vermillion (M), Heilmann (St); Wiener Phil. / Dohnányi — Decca 1991 Weikl (H), Studer (S), Sotin (D), Domingo (E), Priew (M), Seiffert (St); Deutsche Oper Orch. / Sinopoli — Deutsche Grammophon |
1992 | Muff (H), Haubold (S), Knodt (D), Seiffert (E), Schiml (M), Hering (St); ORF Orch. / Steinberg — Naxos |
1993 | Morris (H), Voigt (S), Rootering (D), Heppner (E), Svendén (M), Groves (St); Metropolitan Opera Orch. / Levine — Sony |
H: Hollendingur; S: Senta; D: Daland; E: Erik; M: Mary; St: stýrimaður |