Einn mesti, ef ekki mesti, núlifandi sérfræðingur í tónlist Wagners er Christian Thielemann, en hann er aðalhljómsveitarstjórinn í Hátíðaleikhúsi Wagners í Bayreuth. Það er kannski ekki síst til heiðurs honum sem leikstjóri Lohengrin leyfir Wagner og Thielemann að eiga forleikinn að Lohengrin óskaddaðan af myndrænu gumsi. Ef maður vill horfa á eitthvað meðan þessi frábæri forleikur er leikinn núna í Bayreuth, og næstu þrjú síðsumrin væntanlega, horfir maður bara á dökkgræna fortjaldið í Festspielhaus eða lygnir aftur augunum og lætur tónlistina dekra við eyrun á sér og heilann.
Á sýningunni á Tannhäuser 13. ágúst í Bayreuth forfallaðist hljómsveitarstjórinn Valery Gergiev; áður en sýningin hófst birtist kona nokkur á sviðinu og tilkynnti að Thielemann myndi stjórna hljóm-sveitinni þetta kvöldið. Áhorfendur brugðust við með svo feiknalegu lófaklappi að því ætlaði seint að linna. Sem sýnir vinsældirnar og virðinguna sem Thielemann nýtur í óperuheiminum.