Undirkaflar
Minnisstæðar söngkonur sem La traviata
Halldór Hansen
Óperublaðið ??
Fáar óperur eru vinsælli en La traviata eftir Verdi og það eru ekki mörg óperuhlutverk sem þykja eftirsóknarverðari en hlutverk Violettu. Flestar söngkonur dreymir um að syngja þetta hlutverk á sviði, en tiltölulega fáum tekst að gera því sannfærandi skil. Þetta er engin tilviljun því hlutverkið gerir ótrúlegar kröfur til flytjandans. Raddlega krefst það þess að söngkonan sé jafnvíg á flúrsöng sem lýrískan og dramatískan söng, en það er fæstum gefið. Auk þess krefst hlutverkið afburða leikhæfileika og útlits, sem samræmist ímynd hinnar fögru gleðikonu, sem lagði „milliheima” Parísarborgar að fótum sér sakir glæsileika.
Kamelíufrúin
Eftir að saga Alexander Dumas, Kamelíufrúin, hafði verið færð í leikbúning, sóttust frægustu leikkonur eftir að leika hlutverk Marguerite Gauthier, en því nafni heitir Kamelíufrúin í skáldsögunni. Þeirra frægastar urðu franska leikkonan Sarah Bernard og ítalska leikkonan Eleanora Duse. Þegar kvikmyndir komu til sögunnar, var það hins vegar Gréta Garbo, sem varð fyrirmynd annarra um það hvernig leika ætti hlutverkið þannig að það hitti beint í mark. Það þótti alls ekki heiglum hent að leika þetta hlutverk og þurfti þó engin leikkvennanna að syngja eða sanna sig raddlega.
Kóloratúrsöngkonur í fyrstu
Í óperunni hefur nafni Marguerite Gauthier verið breytt í Violettu Valéry. Í fyrsta þætti þarf rödd Violettu að vera létt og leikandi og um fram allt sveigjanleg. Upphaflega var hlutverkið því oft falið söngkonum með léttar og liprar raddir, enda var sú raddgerð öðrum vinsælli á þeim tíma. Margar söngkonur gerðu garðinn frægan í hlutverki Violettu framan af öldinni.
Það nægir að minna á Adelinu Patti, Nellie Melba, Marcellu Sembrich, Luisu Tetrazzini, Friedu Hempel, Selmu Kurz og Amelitu Galli-Curci. Þær voru allar fyrst og fremst kólóratúrsöngkonur og áherslan var lögð á glæsisöng. Það var auðvelt fyrir þessa raddgerð að gera flúrsöngnum í fyrsta þætti óperunnar stórkostleg skil, en mun erfiðara að túlka dramatísku tilþrifin í öðrum þættinum eða skila hinni ljóðrænu angurværð í þeim þriðja. Auk þess voru flestar þessar söngkonur lítt sannfærandi í leik og sumar þurftu að glíma við útlit, sem var í hæsta máta óhagstætt fyrir hlutverkið.
Toscanini og dramatísk Violetta
Þegar frá leið, urðu ýmsir ósáttir við að fela kólóratúrsöngkonum hlutverk Violettu. Hljómsveitarstjórinn Arturo Toscanini var þar í broddi fylkingar. Hann taldi að þegar Verdi samdi fyrsta þátt óperunnar La Traviata hafi hann haft allt annað í huga en að veita söngkonum tækifæri til að sanna færni sína í flúrsöng.
Flúrið hefði miklu fremur haft þann tilgang að stilla upp andstæðum; annars vegar hins gjálífa lífstíls, sem Violetta hafði tileinkað sér, og hins vegar þeirrar saklausu einlægni, sem einkenndi Alfredo og þá tónlist, sem honum er tileinkuð. Auk þess lýsti flúrsöngurinn þeim hvirfilvindi af kæruleysi, léttúð og yfirborðskenndri skemmtanafíkn, sem Violetta hrærðist í til að forðast það að horfast í augu við eigin örlög eða skyggnast undir yfirborðið í eigin sál.
Þegar Arturo Toscanini stjórnaði sýningum á La Traviata á La Scala óperunni í Mílanó árið 1924, valdi hann Gildu Dalla Rizza til að syngja aðalhlutverkið. Gilda Dalla Rizza var forkunnarfögur og afbragðs leikkona, en hafði þunga, dökka og dramatíska rödd enda þekktust fyrir að túlka verismo hlutverk í ítölskum óperum. Henni hraus hugur við að þurfa að syngja fyrsta þáttinn í La Traviata með öllum þeim flúrsöng, sem hann gerir kröfur til, enda liggur flúrsöngur einstaklega illa fyrir þessari tegund af rödd. En Toscanini gaf sig hvergi heldur æfði þessi atriði með Gildu Dalla Rizza mánuðum saman þar til henni tókst að ná valdi á flúrsöngnum á þann hátt, sem Toscanini var að sækjast eftir og taldi samræmast því, sem Verdi hafði ætlast til. Sú leið átti ekkert skylt við skrautsöng í venjulegum skilningi. Árangurinn þótti frábær og stórt skref í þá átt að gera hlutverk Violettu trúverðugt.
Claudia Muzio og Bidú Sayao
Þó var það ekki Gilda Dalla Rizza, sem varð dáðasta Violetta á allri Ítalíu. Sá heiður féll annarri söngkonu í skaut, Claudiu Muzio. Ítalir voru á einu máli um, að Claudia Muzio væri fædd til að syngja hlutverk Violettu og kölluðu hana Eleanoru Duse óperusviðsins. Claudia Muzio hafði til að bera klassíska rómverska fegurð og sérkennilega dökka sópranrödd með þunglyndislegum raddblæ, sem hentaði einstaklega vel í öðrum og þriðja þætti La Travita. Hún var auk þess frábær leikkona. Þegar öðrum söngkonum var hælt í hlutverkinu sögðu rosknir Ítalir gjarnan: „En þú hefðir átt að heyra Muzio”. Claudia Muzio söng hlutverk Violettu mjög oft í Suður-Ameríku, einkum í Buenos Aires. Hún lést um aldur fram og þegar setja átti La traviata aftur á svið á Teatro Colon í Buenos Aires, voru góð ráð dýr. Það var kornung söngkona frá Brazilíu, Bidú Sayao, sem varð fyrir valinu. Hún hafði nýlega sungið hlutverkið við góðan orðstír í Rio de Janeiro. Hæfileikar hennar voru þó allt annars eðlis en Claudiu Muzio. Röddin var fögur en ákaflega fíngerð og í fullu samræmi við útlit Bidú Sayao, sem var falleg kona, nett og smávaxin. Hana dreymdi alla ævi um að takast á við dramatísk hlutverk og skorti heldur ekki dramatíska hæfileika, en röddin var aldrei til þess fallin. Á því sviði gat hún ekki keppt við Muzio, en var þeim mun betur fallin til að túlka Violettu sem veikburða og varnarlausa konu, sem hafði enga burði til að verjast eða standa af sér holskeflur óblíðra örlaga. Þetta tókst fáum betur en einmitt Bidú Sayao, sem síðar varð ein af skærustu stjörnum Metropolitan óperunnar í New York og arftaki spænsku söngkonunnar Lucreziu Bori.
Lucrezia Bori og Geraldine Farrar - leikhæfileikar
Lucrezia Bori hafði á vissan hátt verið brautryðjandi fyrir nýja stefnu í óperusöng, hún leiddi alla vega þá stefnu til sigurs. Samanborið við ýmsar aðrar söngkonur, sem drottnuðu á sviði Metropolitan óperunnar á þeim tíma, hafði Lucrezia Bori engan veginn merkilegustu röddina. En hún var listamaður fram í fingurgóma og tengdi söng og leik betur en flestar aðrar. Þótt hún væri ekki sérstaklega falleg kona, tókst henni að sannfæra áheyrendur um að hún væri öðrum fegurri, enda framkoman öll tíguleg, allt að því „aristókratísk”.
Lucrezia Bori var reyndar af aðalsættum og bar það einhvern veginn með sér jafnt á leiksviðinu sem utan þess. Hún hafði frábærlega fagrar hreyfingar og hvaða ballettstjarna sem er hefði mátt öfunda hana af handahreyfingunum. Með þeim einum tjáði hún oft meira en aðrir með öllum líkamanum.
Undanfari Lucreziu Bori í afstöðunni til söngs og leiks, var bandaríska söngkonan Geraldine Farrar, sem rómuð var fyrir fegurð. En hún var það miklu fyrr á ferðinni að áheyrendur voru ekki tilbúnir að taka við túlkun hennar á La traviata þar eð það skein í gegn hver atvinna Violettu Valéry var í raun og veru. Þó að sögnin „traviare” í ítölsku máli þýði að „víkja út af brautinni”, þá vildu áheyrendur þeirra tíma lítt vita af því að örlögin hefðu knúið Violettu Valéry út af hinni þröngu braut dyggðarinnar. Þeir vildu heldur hafa hana sakleysið uppmálað og gera hana þar með að óverðskulduðum leiksoppi örlaganna.
Undanfari Lucreziu Bori í afstöðunni til söngs og leiks, var bandaríska söngkonan Geraldine Farrar, sem rómuð var fyrir fegurð. En hún var það miklu fyrr á ferðinni að áheyrendur voru ekki tilbúnir að taka við túlkun hennar á La traviata þar eð það skein í gegn hver atvinna Violettu Valéry var í raun og veru. Þó að sögnin „traviare” í ítölsku máli þýði að „víkja út af brautinni”, þá vildu áheyrendur þeirra tíma lítt vita af því að örlögin hefðu knúið Violettu Valéry út af hinni þröngu braut dyggðarinnar. Þeir vildu heldur hafa hana sakleysið uppmálað og gera hana þar með að óverðskulduðum leiksoppi örlaganna.
Licia Albanese - mikil innlifun
Um og upp úr síðari heimstyrjöldinni fóru svo aðrar söngkonur að hasla sér völl í hlutverki Violettu á Metropolitan óperunni þó að Bídú Sayao héldi vinsældum sínum óskertum. Efst á blaði í því sambandi má nefna ítölsku söngkonuna Liciu Albanese, sem á vissan hátt varð einnig arftaki Lucreziu Bori líkt og Bídú Sayao. Hún hafði þó kraftmeiri rödd og gat því einnig sungið hlutverk, sem raddlega hentuðu hvorki Bídú Sayao né Lucreziu Bori. Licia Albanese hafði þó tæplega til að bera þá miklu raddtækni, sem Bídú Sayao og Lucrezia Bori höfðu á valdi sínu, heldur var aðalsmerki hennar mikill innlifunarhæfileiki af mjög persónulegri gerð. Þegar um það samdist að NBC útvarpsstöðin í New York útvarpaði óperunni La traviata undir stjórn Arturo Toscaninis í desember 1946, þá valdi hann Liciu Albanese til að syngja hlutverk Violettu, Það þótti mikil viðurkenning á ágæti hennar. Sjálfur minnist ég Liciu Albanese fyrst og fremst sem hrífandi fulltrúa hins „ítalska” í leik, stíl og söng. Fáir söngvarar hafa farið jafn vel með ítalska tungu.
Jarmila Novotná - hin fagra
Nokkuð löngu áður en þetta var, hafði komið til tals að Toscanini stjórnaði uppfærslu á La traviata á heimssýningunni í New York árið 1939 og jafnvel nokkru áður á tónlistarhátíðinni í Salzburg. Ekkert varð þó úr þessum fyrirætlunum þar eð hávaðinn á heimssýningarsvæðinu reyndist of mikill og valdataka nazista í Austurríki varð til þess, að Toscanini þverneitaði að taka þátt í Tónlistarhátíðinni í Salzburg. En hann hafði fengið augastað á tékknesku söngkonunni Jannilu Novotná í hlutverk Violettu og varð það óbeint til að bjarga Jarmilu Novotná og fjölskyldu hennar undan oki nazismans í Austurríki og Tékkóslóvakíu. Jarmila Novotná var enginn nýgræðingur í hlutverki Violettu. Hún hafði fyrst sungið það 17 ára gömul í Prag, en síðar haldið áfram frægðarferli sínum um flest ríki Evrópu, auk þess sem hún hafði leikið í nokkrum kvikmyndum við góðan orðstír.
Jarmila Novotná var ráðin að Metropolitan óperunni fyrir tilstilli Toscanini og hún söng í La traviata nokkuð oft til skiptis við Liciu Albanese og Bidú Sayao. Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki sungið La traviata oftar í New York en raun bar vitni, sagðist hún einfaldlega alltaf hafa sungið það sem hún var beðin um, en aldrei sóst eftir hlutverkum. Sér hafi fallið ágætlega að syngja hlutverkið til skiptis við sínar góðu vinkonur Liciu Albanese og Bidú Sayao, enda hafi hver í sínu lagi sett sinn „stimpil“ á hlutverkið.
Hún var kvenna fegurst og listakona af Guðs náð. Hún var svo eðlileg á sviði að mönnum gleymdist að hún væri að leika og óvíða kom þessi eiginleiki henni að betri notum en í hlutverki Violettu í La traviata. Röddin var ákaflega persónuleg og þekktist strax innan um þúsundir annarra og hún hafði persónutöfra af þeirri gerð, sem engin skýring er til á.
Maria Cebotari - mannleg túlkun
En þó Jarmila Novotná og Licia Albanese hafi verið svo heppnar að sleppa undan oki nazismans í tæka tíð, þá gilti það ekki um alla. Ein af þeim söngkonum, sem lokuðust inni á bak við víglínu möndulveldanna, var ein eftirminnilegasta La traviata í manna minnum, rúmenska söngkonan,Maria Cebotari. Hún fæddist á landamærum Rúmeníu og Rússlands en gekk síðar að eiga rússneska leikstjórann Viruboff. Viruboff var þá maður á miðjum aldri, en Maria Cebotari kornung. Hjónabandið átti að vera trygging fyrir því að Maria Cebotari kæmist með Viruboff og leikflokki hans til Parísar til að setjast þar að. En ekki gekk allt sem skyldi og Viruboff og leikflokkurinn fluttu til Þýskalands. Þar fékk Maria Cebotari loks tækifæri til að þroska rödd sína. Hún snéri sér að óperunni og söng við góðan orðstír bæði í Dresden og Berlín.
Þegar Maria Cebotari hitti kvikmyndaleikarann Gustav Diessl frá Vínarborg, varð það ást við fyrstu sýn af beggja hálfu og þau gengu í hjónaband eftir að þau Viruboff slitu samvistum, en í fullri vinsemd þó. Maria Cebotari og Gustav Diessl urðu ekki langrar hamingju aðnjótandi í hjónabandi sínu því Diessl veiktist og lést eftir stutta sambúð. Eftir miklar hörmungar í lok síðari heimsstyrjaldarinnar komst Maria Cebotari til Vínarborgar með tvo syni sína og Diessls. En þá hafði gæfan snúið baki við Mariu Cebotari að fullu og öllu því að hún veiktist af krabbameini og lést einungis 39 ára gömul.
Þeir sem sáu Mariu Cebotari í hlutverki Violettu gleyma því seint. Hún var undurfögur og ungæðisleg í útliti, en rödd hennar var í nokkurri mótsögn við ytra útlit. Hljómur raddarinnar var mjög sérkennilegur, en í rauninni var ekkert ungæðislegt við raddblæinn og deildu menn nokkuð um hvort rödd hennar væri fögur eða ekki. En líkt og Novotná lifði Maria Cebotari sig svo trúverðuglega inn í hvert það hlutverk sem hún söng, að áheyrendum gleymdist að um leik væri að ræða. Hafi Novotná verið „aristókraísk” í nálgun sinni á hlutverkinu, þá var Maria Cebotari auðsæranleg og mannleg.
Maria Callas og fleiri eftir stríð
Á eftirstríðsárunum komu fram ýmsir frábærir túlkendur á hlutverki Violettu. Margherita Carosio var að vísu engan veginn ný af nálinni og nálgaðist lok söngferils síns. Hún var eiginlega hið ítalska ígildi Bidú Sayaou og nálgaðist fullkomnun í söng og leik. Renata Tebaldi reyndi við hlutverkið og söng það frábærlega, en tókst einhvern veginn ekki að koma því leikrænt til skila. Þótt Victoria de los Angeles hafi sungið með afburðum vel, þá var hún heldur ekki kjörin Violetta frá náttúrunnar hendi. Það var hins vegar Maria Callas. Hún hafði alla burði til að vera fyrirmynd annarra svo vel sem hún sameinaði og samhæfði leik og söng, enda þótt hún stæðist ekki samanburð við hinar tvær að raddfegurð. Maria Callas komst hins vegar að kjarna persónuleika Violettu á þann hátt, sem engin hefur enn leikið eftir að mínu mati. Hún söng hlutverkið á Scala undir stjórn Carlo Maria Giulini og Visconti í uppfærslu sem enn er minnst.
En aðrar söngkonur voru líka eftirtektarverðar í hlutverki Violettu. Á La Scala óperunni var til dæmis hin kornunga Rosanna Carteri, sem ekki var nema á þrítugsaldri. Hún dró sig samt fljótt í hlé frá óperusviðinu til að annast eiginmann og börn. Anna Moffo og Virginia Zeani voru að vissu leyti keppinautar sín á milli og einnig við Mariu Callas í hlutverki Violettu. Þegar Herbert von Karajan stjórnaði La traviata á La Scala óperunni valdi hann eina bestu og vinsælustu söngkonu á Ítalíu, Mirellu Freni, í hlutverk Violettu. Öllum til undrunar féll Mirella Freni í þessu hlutverki engan veginn í smekk áheyranda La Scala óperunnar.
Anna Moffo var þá tilkölluð í flýti til að taka við hlutverkinu og söng það til sigurs. Hún hafði allt til að bera sem hlutverkið krafðist, líkamsfegurð, frábæra rödd og ótvíræða leikhæfileika. Hún bjargaði því sýningunum og heiðri Karajans. Virginia Zeani var ekki síður glæsileg í hlutverki Violettu. Hún var einnig fögur og sannfærandi leikkona og með rödd, sem gerði öllum þáttum óperunnar jafn góð skil. Ég hef enga söngkonu heyrt, sem jafnótvírætt hafði réttu röddina til að syngja La traviata frá upphafi til enda. Þegar Maria Callas brást á mikilli hátíðarsýningu í Vínarborg var það Virginia Zeani, sem hljóp í skarðið. Enginn sem það heyrði varð fyrir vonbrigðum. Hún var einfaldlega traviata fram í fingurgóma.
Túlkendur síðustu ára
Söngkonan Teresa Stratas hefur látið þau orð falla að að sínu mati hafi engin skilað hlutverkinu betur en Virginia Zeani og þó var Teresa Stratas sjálf mjög sannfærandi traviata og söng meira að segja hlutverkið í rómaðri kvikmynd Zeffirellis. Á Ítalíu var og Renata Scotto, sem einnig var gædd frábærum listrænum hæfileikum; bæði mikilli innlifun og góðum leik. Á yngri árum var hún mjög sannfærandi traviata, þó að útlitið væri í hæsta máta góðborgaralegt og í sjálfu sér lítt fallið til að veita gleðikonu brautargengi. En Renata Scotto var nógu mikil listakona til að yfirstíga allar slíkar takmarkanir.
Síðast en ekki síst má nefna rúmensku söngkonuna Ileana Cotrubas. Í æðum hennar rann ekta leikhúsblóð og lyfti það henni yfir ýmsa örðugleika, sérstaklega raddlegar takmarkanir. Hún hafði létta rödd frá náttúrunnar hendi, en skorti tæknilega yfirburði t.d. Bídú Sayao til að tryggja það að röddin fyllti stóran sal og gæti keppt við stóra hljómsveit og hljómmeiri raddir.
En Ileana Cotrubas var nógu mikil listakona til að yfirstíga þann vanda; henni tókst jafnvel að notfæra sér þetta. Þannig tókst henni flestum betur að túlka hina ungu konu með sundurkramið hjarta, sem skorti þrek til að rísa gegn grimmum örlögum. Og hvað sem um Rúmeníu má segja að öðru leyti þá hefur landið séð heiminum fyrir ótrúlega mörgum túlkendum á hlutverki Vioiettu í La traviata – Mariu Cebotari, Virginiu Zeani, Ileana Cotrubas og nú síðast Angelu Gheorgiu, sem alveg nýlega sló í gegn í La traviata í uppfærslu Covent Garden óperunnar undir stjórn Georg Solti.
Tóndæmi
Eftirfarandi er listi yfir þær söngkonur sem nefndar eru í greininni og krækjur á hlutverk þeirra í La traviata, þar sem upptökur fundust, annar á önnur tóndæmi. VIð nöfn eru krækjar á frekari upplýsingar á Wikipedia