Niflungahringur Wagners

hluti af íslenskum menningararfi

Morgunblaðið, 15. september 2016

Íslendingum rennur blóðið til skyldunnar að takast á við Wagner en um leið að hlúa að nýsköpun listgreinarinnar

Fyrir tuttugu árum var stofnað Richard Wagner félag á Íslandi. Undirrituð var einn af stofnendum og formaður félagsins frá upphafi. Stofnunin átti þann helstan aðdraganda að árið 1994 var sett á svið stytt gerð Niflungarhrings Wagners af Listahátíð í Reykjavík í samvinnu við Þjóðleikhúsið, Íslensku óperuna og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Sýningin kom þannig til að undirrituð sat í stjórn Listahátíðar árið 1992 og var á leið á Wagnerhátíðina í Bayreuth. Valgarður Egilsson var þá nýtekinn við formennsku og bað hana að kanna möguleika á að fá Wagneróperu til landsins: „Náðu fyrir okkur í Wagneróperu“, voru orð hans. Undirrituð fékk viðtal við Wolfgang Wagner, stjórnanda Wagnerhátíðarinnar og barnabarn Richards og hann tók málaleituninni um Wagneróperu á Íslandi vel. Í framhaldi kom hann til landsins í janúar 1993 til að skoða aðstæður.

Lítill Hringur á lýðveldisafmælinu

Hugmyndin um að sviðsetja stytta gerð Niflungahrings, sem Wolfgang Wagner setti fram í janúar 1993, kom mjög á óvart. Flestir hefðu talið að Wagnerleikhúsið í Bayreuth myndi setja sig upp á móti slíkum hugmyndum, enda hafði þetta ekki verið gert áður. Wolfgang Wagner hafði verið sagt frá því að Wagneruppsetning yrði stærsti viðburður hátíðarinnar 1994, þegar haldið yrði 50 ára afmæli lýðveldisins. Honum fannst tilefnið og tengsl Niflungahringsins við íslenskar bókmenntir kalla á að það yrði einmitt Hringurinn sem yrði fyrir valinu en þó með þeim formerkjum sem hann taldi okkur ráða við miðað við tíma og aðstæður. Hann lagði línurnar  hvernig staðið skyldi að styttingunni, valin skyldu atriði úr Hringnum og þau tengd saman með töluðum texta, þannig að alltaf væri ljóst að ekki væri um samfellda sýningu að ræða.  Búist hafði verið við að stytta útgáfan kæmi frá Bayreuth en á endanum voru megindrög hennar gerð hér heima.

Íslenska styttingin vakti svo mikla ánægju í Bayreuth að Wolfgang gaf strax grænt ljós á það að fara á næsta reit, sem var að velja listamenn til uppfærslunnar. Hann lagði mikið upp úr því að við réðum íslenska listamenn að svo miklu leyti sem unnt væri, því hann taldi mikilsvert að sjá hvernig þeir tækjust á við þetta þetta stórvirki, sem átti sér svo djúpar rætur í íslensku menningarlífi. Sjálfur hafði hann listræna yfirumsjón og var til ráðgjafar um alla listamenn sem komu að sýningunni. Svo gæfulega tókst til að Þorsteinn Gylfason fékkst til að skrifa taltextana, sem tengdu atriðin og þau Þórhildur Þorleifsdóttir og Sigurjón Jóhannsson sáu um leikstjórn og leikmynd. Sautján íslenskir söngvarar tóku þátt í sýningunni og þrír erlendir gestasöngvararar.

Reykjavíkur-Hringurinn 1994

Hringnum skilað þangað sem rætur hans liggja

Frumsýningin var 27. maí og var þessi eins kvölds langi Niflungahringurinn sýndur 5 sinnum fyrir fullu húsi við mikla hrifningu.  Atburðurinn vakti athygli langt út fyrir landsteinana, ekki síst fyrir aðkomu Wagnerhátíðarinnar í Bayreuth að henni og komu fjölmargir erlendir gestir gagngert til að sjá sýninguna auk margra blaðamanna og gagnrýnenda sem fjölluðu um sýninguna eftir á, flestir á mjög lofsamlegum nótum. Ritsjóri Opera Now, Graeme Kay  komst svo að orði: … „Þegar íslenskt óperusamfélag tilkynnti áform um uppsetningu Niflungahrings, sem hluta af afmælishaldi vegna 50 ára lýðveldis landsins, varð enginn undrandi, amk ekki utanlands, Wagner hafði jú við gerð Hringsins látið greipar sópa í 13. aldar bókmenntum landsins, Íslendingasögunum, Eddukvæðunum, Völsungasögu og Snorra-Eddu. Að koma með Wagner til Íslands jafngilti því að skila Hringnum aftur þangað sem rætur hans liggja.“

Meiri Wagner

Þessi sviðssetning Niflungahringsins á einu kvöldi var hin fyrsta í heiminum sem undirritaðri er kunnugt um, áður er aðeins vitað um styttingar í konsertuppfærslum. Tíu árum síðan tókst aftur samstarf Listahátíðar við Þjóðleikhús og Sinfóníuhljómsveit um uppsetningu Hollendingsins fljúgandi. Aðrar Wagneróperur hafa ekki verið settar upp hér, njóta þó óperur hans vinsælda sem aldrei fyrr og eru sýndar hvarvetna í heiminum, í litlum óperuhúsum sem stórum. Margir hafa komið að máli við mig á undanförnum árum til að hvetja til þess að Litli Hringurinn verði settur upp aftur. Margir láta sig líka dreyma um að sjá aðrar óperur meistarans á íslensku sviði, með okkar frábæru söngvurum, sem hafa verið mjög liðtækir í að syngja Wagner erlendis. Þrátt fyrir þá staðreynd að Íslenska óperan hefur mátt búa við mjög þröngan rekstrarramma árum saman er samt erfitt að leggja fingur á hver ástæðan er fyrir því að sýna ekki Wagner. Sumar óperur hans eru kannske  ívið lengri en þær sígildu óperur sem hafa verið settar upp hér, margar oftar en einu sinni,  hljómsveitin er í sumum tilvikum stærri. Þessir tveir þættir gera uppsetninguna dýrari. Ekki er þó afgerandi munur í lengd, ef horft er t.d. til ópera eins og Don Carlo. Hvað hljómsveitarstærð varðar, þá er það mjög algengt erlendis að nota minnkaðar hljómsveitargerðir. Það var gert hér heima þegar Litli Hringurinn var sýndur. Benda má á að margar óperur Wagners eru nánast kammeróperur, hvað varðar fjölda söngvara og hafa engan kór. Það gildir til að mynda um Rínargullið, Valkyrjuna og Siegfried.

Mikilvæg tengsl við menningararfinn

Eitt af aðal markmiðum Wagnerfélagsins frá upphafi hefur verið að beita sér fyrir rannsóknum á mikilvægi íslenskra fornbókmennta fyrir Wagner. Niðurstöður rannsókna dr. Árna Björnssonar um þetta efni birtust í bókinni Wagner og Völsungar (MM 2000), sem komið hefur út á íslensku, ensku og þýsku. Þar kemst hann m.a. að þeirri mikilvægu niðurstöðu, sem hefur vakið mikla athygli, að 80 prósent aðfenginna minna eða efnishugmynda Hringsins séu fengin úr íslenskum bókmenntum eingöngu, fimmtán prósent finnist bæði í íslensku bókmenntunum og þýskum heimildum eða séu þeim sameiginleg en eingöngu um fimm pósent fyrirfinnist bara í þýskum heimildum.  Niflungahringurinn er óumdeilanlega eitt af höfuðverkum óperulistarinnar og ljóst er að þessi mikilvægu tengsl við íslenskar bókmenntir gera verkið nánast að hluta af íslenskum menningararfi, sem ber að rækta og halda á lofti. 

Það er því löngu tímabært að hafist verði handa um að setja þetta stórvirki á svið hérlendis í heild sinni. Það er leit að því óperuhúsi erlendis, smáu sem stóru, sem ekki hefur tekist á við þessa áskorun. Aðferðin er oftast sú að safnað er í Hring. Fyrst er Rínargullið sýnt, ári síðar eða tveim Valkyrjan og svo koll af kolli. Að lokum er svo kominn heill Hringur til sýningar.

Wolfgang Wagner skoðar Edduhandrit á Árnastofnun

Íslenskur Hringur í New York

Þegar kanadíski kvikmyndagerðarmaðurinn og leikstjórinn, Robert Lepage, hafði árið 2009 verið ráðinn til að setja upp nýjan Niflungahring á Metropolitan Opera í New York var haft eftir honum í viðtali við Wall Street Journal að Ísland veitti honum mestan innblástur við uppsetningu Hringsins, landið sjálft og jarðfræði þess. Hann lýsir fjálglega jarðfræðilegum sérkennum landsins sem séu forsenda þess að þegar maður komi til Íslands hugsi maður um Hringinn, maður geti bara hugsað um Hringinn, í heimi sem sé allt öðruvísi en allt annað. Í heimildarmyndinni, Wagner‘s Dream, sem gerð var um uppfærsluna eftir á, segir Lepage einnig frá því þegar hann komst í tæri við íslensku Eddurnar á safni í Reykjavík og hvernig hann hefði heillast bæði af bókunum og myndefninu enda séu 85 prósent Hringsins beint úr Eddunum. Fyrir sig hafi það verið lykilatriði til að setja upp nýjan og ferskan Hring að koma til Íslands þar sem rætur hans liggi.

Fólki er ef til vill minnisstætt að það lá við að Metropolitan óperan færi á hausinn vegna leikmyndar Lepage, sem var mjög umfangsmikil og vóg 45 tonn þannig að styrkja þurfti allar undirstöður sviðsins á Met.  Innblásturinn að flekaskiptu leikmyndinni var með öllu íslenskur, og endurspeglaði, að sögn Lepage, flekaskilin og stöðugan hreyfanleika og breytileika landsins. Þegar að „sprunga myndast skyndilega í jökulinn og glóandi hraun byrjar að streyma eru guðirnir að tjá sig“.

Valkyrjan Met Opera 2009 í uppsetningu Lepage

Niflungahringurinn allur á Íslandi

Kannske mætti segja að Robert Lepage sé búinn að stela af Íslendingum glæpnum með því að setja upp íslenska uppfærslu á Niflungahringnum í New York en miklu fremur ætti fordæmi hans að veita okkar landsmönnum innblástur til að fást við verkið á eigin forsendum. Hér á Íslandi er einvalalið bæði leikhúsfólks og söngvara. Einn þekktasti leikstjóri okkar af yngri kynslóðinni, Þorleifur Örn Arnarsson hefur sett Lohengrin á svið í Augsburg og mun setja Siegfried, úr Niflungahringnum, upp á næsta ári í Karlsruhe. Þar setja menn nú upp nýjan Hring í áföngum og hafa fengið til þess fjóra unga leikstjóra, sem er enn ein aðferðin til að nálgast Niflungahringinn.

Framtíð óperuflutnings á Íslandi

Ég óska Íslensku óperunni alls hins besta í að styrkja stoðir fyrir óperuflutning hér heima. Ríkisframlög hafa verið of lág og fyrir löngu hefði ríkið átt að sjá til þess að Sinfóníuhljómsveitin og Óperan styrktu hvor aðra í samstarfi. Aðeins í milljónaborgum hafa óperuhús sína eigin hljómsveit. Annars staðar vinna hljómsveit og ópera saman. Margar bestu hljómsveitir í heimi koma líka að óperuflutningi, t.a.m. Berlínarfílharmonían og Vínarfílharmonían. Erfið fjárhagsstaða Íslensku óperunnar hefur komið niður á verkefnavali, sem er of fábrotið og lítið sem ekkert svigrúm til að takast á við djörf verkefni. Íslendingum rennur blóðið til skyldunnar að takast á við Wagner en um leið að hlúa að nýsköpun listgreinarinnar. Megi ráðamönnum bera gæfa til að sjá til þess að þannig megi verða í framtíðinni svo þessi vinsæla listgrein blómstri.