Parsifal og meðlíðun

Hvar og hvenær birt?

Í óperunni segir af þroskasögu ungs manns, Parsifals, sem í upphafi er saklaus og fávís. Hann verður vitni að þjáningum hins synduga og særða Amfortas, yfirmanns riddarareglu hins heilaga Grals, en fær ekki skilið þær. Það er fyrst við koss hinnar afvegaleiddu Kundry, sem Parsifal öðlast skilning og finnur fyrir þeirri meðlíðun, sem er forsenda þess að hann geti orðið lausnari Amfortas og þar með allrar reglu Gralsriddaranna. Áður en af því getur orðið verður Parsifal að eigra um heiminn í mörg ár til að geta meðtekið skilning sinn til fulls. Í lokin snýr hann heim sem lausnari Amfortas, reglunnar og sjálfs sín.

Meðlíðun

Grundvallarhugtak óperunnar Parsifal er „meðlíðun“ (Mitleid) Í sumum skrifa sinna notaði Wagner einnig orðið „Mitleiden“, sem leggur e.t.v. enn betur áherslu á þann mikilvæga skilning orðsins að það þýði að geta „þjáðst með“ öðrum. Skilningur Wagners og samúð með búddisma og ekki ósvipuðum heimspekikenningum Schopenhauers koma hvergi betur fram en í Parsifal, hvað svo sem annars má segja um allar þær táknmyndir kristinnar trúar, sem fram koma í óperunni. Wagner vitnar óbeint til Schopenhauers í lykilkafla ritsins Trú og list (1880), en í því fjallar hann um kjarnann í Parsifal. Þar segir Wagner að hinn guðlega heim, þar sem enga þjáningu er lengur að finna (Nirvana), sé aðeins hægt að finna gegnum sjálfsafneitun. Slíkan sjálfsskilning sé á endanum aðeins unnt að öðlast með því að finna fyrir meðlíðun, sem fæðist af þjáningu.

Koss Kundry er sá hvati, sem vekur Parsifal til skilnings og fær hann til að gera sér ljósa grein fyrir innsta eðli þjáningarinnar. Hann finnur ekki aðeins til vorkunnar gagnvart Amfortas, – hann þjáist með honum. Á þessu örlagaríka augnabliki öðlast Parsifal um leið nýjan skilning á sjálfum sér. Þetta er upphafið að frelsun hans frá eigin sjálfi. Hann skilur að gerðir hans eru ekki einangraðar; þær hafa alltaf áhrif á aðra – jafnvel aðgerðarleysi getur skaðað aðra. Hinn sanni skilningur felst í að kasta af sér því oki sjálfsins, sem við öll erum sliguð af.
(Lauslega þýtt úr bók Barrys Millington: „Wagner“)

Halldór Laxness og samlíðun

Skilningur manna á þýska orðinu „Mitleid”, sem er lykilhugtak í Parsifal, hefur þvælst fyrir mörgum. Það hefur líka reynst erfitt að þýða orðið á aðrar tungur. Á ensku hefur það verið þýtt sem „compassion through suffering”, sem mætti útleggja sem samúð gegnum þjáningu. Orðin samúð og meðaumkun ein og sér ná tæpast að skýra Mitleid svo það verði að fullu skilið, sem Wagner átti við. Nauðsynlegt er að fram komi að Mitleid þýði það að „finna til með“ eða að „þjást með“. Orðið meðlíðun (að líða með) hefur verið notað, en er e.t.v. ekkert betra en hin nema hvað það hefur ekki verið algengt í málinu og má því „taka frá“ sem þýðingu á Mitleid.

Hér má benda á orðið samlíðun, sem Halldór Laxness notaði í verkum sínum. Með notkun orðsins virðist Halldór eiga við sams konar hugtak og Wagner átti við með Mitleid. Í bókinni „Hús skáldsins“ ræðir Peter Hallberg um hugtakið samlíðun hjá Laxness. Í umfjöllun um Sjálfstætt fólk segir Hallberg þetta um Nonna litla, bróður Ástu Sóllilju:

„Kynni hans [Nonna] við dauða og mannlegar þjáningar hafa ekki gert hann harðan, þau hafa þvert á móti gert samúð hans með meðbræðrunum dýpri og sárari. Dag einn liggur Ásta Sóllilja í grasinu og grætur sáran eftir fyrstu kynni sín við ástarsorgina. Litli bróðir hennar, sem samkvæmt spádómi móður hennar sálugu átti að verða söngvari og syngja fyrir allan heiminn, kemur til hennar og hlustar vandræðalega á sorgarkvein hennar:

Hann visst ekkert hvað hann átti að segja andspænis þessari sorg, heldur sat hann þögull við hlið systur sinnar í vorgrænkunni, of ungri; og hinir duldu strengir í brjósti hans byrjuðu að titra; og óma.

Það var í fyrsta sinn sem hann sá inn í völundarhús manns-  sálarinnar. Því fór fjarri að hann skildi það. En það sem meira var: hann leið með henni. Löngu seinna endurlifði hann þessa minningu í söng; bæði í sínum fegursta söng, og í fegursta söng heimsins. Því skilningurinn á umkomuleysi sálarinnar, á baráttunni milli hinna tveggja skauta, það er ekki uppspretta hins æðsta söngs. Samlíðunin er uppspretta hins æðsta söngs. Samlíðunin með Ástu Sóllilju á jörðinni.

Í þessum orðum um sönginn kemur vel fram hið viðkvæma viðhorf skáldsins sjálfs til lífsins. Ásta Sóllilja verður ímynd hins eilífa mannlega umkomuleysis, sem kallar svo ómótstæðilega á hluttekningu okkar, af því að við þekkjum þar okkur sjálf“.

Í umfjöllun sinni um persónu Ólafs Kárasonar bendir Peter Hallberg á að samlíðunin er lykilhugtak í lífi hans eins og t.d. hjá Myskjin fursta í Fávitanum eftir Dostojevskí. Ólíkt furstanum, sem virðist sætta sig við lífsafstöðu sína án mikillar innri baráttu, þá kostaði það Ólaf talsverð átök og þjáningu að lifa með sinni samlíðun. Ólafur er sér snemma meðvitaður um þetta: „Manneskjan er nefnilega einstæðingur í eðli sínu, og maður á að kenna í brjósti um hana og syrgja með henni“. Tilgangur lífs Ólafs Kárasonar virðist hafa verið að þjást fyrir aðra.

Hallberg bendir með ýmsum rökum á að Halldór Laxness hafi viljað undirstrika að samlíðunin er ófrávíkjanlega samrunnin eðli skáldsins og forsenda starfsemi þess. Sem skáld hafi Ólafur Kárason sárar en aðrir fundið þjáningar fólksins, því að „skáldið er tilfinning heimsins, og það er í skáldinu sem allir aðrir menn eiga bágt“.

Parsifal fær hugljómun við koss Kundry, á einu örskoti öðlast hann á óútskýranlegan hátt fullan skilning á hinstu rökum mannlegrar tilveru (sbr. skilning Brynhildar við lok Niflungahringsins). Það má ef til vill sem best átta sig á skyndilegri umbreytingu Parsifals við lestur þess hvernig Halldór Laxnes lýsir hugljómun Ólafs Kársonar:

„Áþekkast skindauðum manni skynjaði hann án þess að sjá og heyra, vissi án þess að rökleiða og hugsa; bleyðiskapur eða miskunn, hvað sem það er kallað: hann gekk ekki móti heitum sínum við lífið á úrslitastund; eða réttara sagt: gekk móti þeim. Hann var sannur maður“.