Í bók Wolfgangs, Lebensakte, segir hann frá því að Hitler hefði sagt Winifred fyrir sumarið 1936 að nú gæti hann ekki lengur heimsótt hátíðina, því hann hefði engan samastað lengur. Flokksmenn hans í Bayreuth hafi sagt sér að hann geti ekki lengur búið í húsinu við Parkstrasse, skammt frá Villa Wahnfried, þar sem eigandinn sé frímúrari. Winifred bauð honum þá að nota gestahús þeirra, sem gekk undir nafninu Siegfriedhaus, en þar höfðu annars gjarnan búið listamenn hátíðarinnar, þar á meðal Toscanini og Strauss. Wolfgang vitnar svo í annan þátt Lohengrin þar sem segir: „So zieht das Unheil in dies Haus“ eða „Þannig gerir ógæfan innreið sína í hús þetta“. Í Siegfriedhaus var Hitler síðan á hverju sumri til 1939 og fannst ekkert skemmtilegra en að halda partý fyrir listamennina eftir sýningar, þar sem áfengi var ríkulega veitt þótt hann bragðaði ekki vín sjálfur. Gyðingar í hópi listamanna voru víst líka velkomnir, enda hafði Winifred neitað því að sæta takmörkunum hvað varðaði aðkomu þeirra að sýningum. (6. Villa Wahnfried).