Richard Wagner og gyðingar

Greinin birtist í Tímariti Máls og menningar,  
75. árgangi, 2. hefti (2014), bls. 89–131, 
með smávægilegum breytingum vegna útgáfuársins.

Á þessu herrans ári 2013 eru 200 ár liðin síðan tónskáldið Richard Wagner fæddist. Öll helztu blöð og tímarit um víða veröld keppast við að birta greinar í tilefni afmælisins. Eitt af því fyrsta sem sagt er í flestum þeirra er að Wagner sé umdeildur. Það er svo sem ekkert nýtt. Lengi hefur það þótt brot á góðum mannasiðum að skrifa um Wagner án þess að taka þetta skýrt fram. Hvers vegna ætli það sé? Nú eru 130 ár liðin síðan Wagner dó, og ætla mætti að sá tími væri nægur til að skipa honum þann sess í tónlistarsögunni sem ekki þyrfti um að deila.

Það er raunar ekki helzti vandinn. Vissulega var tónlist Wagners umdeild fyrst þegar hún heyrðist. Hann umbylti gömlum hefðum og samdi tónlist sem mörgum fannst afar framandi og jafnvel afkáraleg, og því varð hann auðvitað, rétt eins og aðrir frumkvöðlar í listum, fyrir árásum þeirra sem kunnu ekki að meta nýjungar. Árásirnar á Wagner voru kannski sérlega hatrammar; svo mjög að meðan hann var enn á lífi þótti vert að taka saman orðabók um skammaryrðin sem hann varð fyrir.[1] En Beethoven varð á sínum tíma líka fyrir heiftarlegu aðkasti gagnrýnenda, sem okkur finnst furðulegt að lesa nú til dags, og svo hefur verið um flesta brautryðjendur nýjunga í tónlist.[2] Nýjungar dagsins í dag verða hins vegar oftast gamlar lummur á morgun, þegar eitthvað ennþá nýstárlegra og ennþá furðulegra hefur tekið við. Engum dytti í hug nú að segja að Beethoven sé umdeildur. Og á tuttugustu öld kom svo sannarlega fram urmull af ennþá skrítnari og ennþá tormeltari tónlist en nokkuð sem Wagner lét frá sér fara. Fólk getur að sjálfsögðu haft ólíkan smekk fyrir tónlist hans eins og öðru, sumir dá hana og öðrum leiðist hún, en það er ekki það sem gerir hann umdeildan núna.

Það er líka orðið óumdeilt að Wagner er meðal helztu tónskálda sögunnar, örugglega í hópi þeirra tíu merkustu (og kannski má þrengja hringinn enn frekar); að síðustu óperur hans teljast allar meðal stórvirkja tónlistarsögunnar; að hann umbylti óperuforminu og hafði gífurleg áhrif á svo að segja alla síðari tónsmiði. Umfangsmesta og kannski þekktasta verk Wagners er Niflungahringurinn, fjórar óperur sem taka samanlagt um það bil fimmtán eða sextán klukkustundir í flutningi (lengdin fer dálítið eftir hvaða hljómsveitarstjóri heldur á tónsprotanum) og Wagner vann að í meira en 26 ár. Hann samdi bæði textann og tónlistina í öllum sínum verkum. Niflungahringurinn er án efa frægasta listaverk sem byggist að miklu leyti á íslenzkum bókmenntaarfi. Að svo sé hefur aldrei verið neitt leyndarmál, því að Wagner lýsti mikilvægustu heimildum sínum sjálfur. En vegna þess orðspors sem fer með réttu eða röngu af Wagner sem öfgafullum þýzkum þjóðernissinna virðist það vera algeng skoðun erlendis að efni Niflungahringsins sé einungis sótt í fornar þýzkar bókmenntir, einkum og sér í lagi í Niflungakvæðið, sem er frá því einhverntíma á áratugunum kringum 1200. Það er mikill misskilningur. Þótt eitthvað örlítið af efnivið Hringsins sé sótt í Niflungakvæðið er meirihlutinn fenginn úr íslenzkum heimildum: Samkvæmt talningu Árna Björnssonar eru fjórir fimmtu af „aðfengnum minnum“ í Niflungahringnum úr íslenzkum bókmenntum einum, einn sjötti er sameiginlegur þýzkum og íslenzkum fyrirmyndum, og aðeins einn tuttugasti úr þýzkum bókmenntum einum.[3]

Ennfremur verður varla um það deilt að vinsældir Wagners hafa aldrei verið meiri en nú, og þær fara vaxandi: Á nítjándu öld og langt fram eftir þeirri tuttugustu gat ekki hver sem vera skal hlustað á Wagner-óperu í heild. Til þess þurfti að búa í borg með óperuhúsi sem hafði burði til að setja slíka óperu á svið, eða þá að skipuleggja ferð til slíkrar borgar. En eftir að breiðskífan kom til sögunnar upp úr 1950 gátu æ fleiri leyft sér að hlusta á óperur Wagners, og það oftar en einu sinni, sem er bráðnauðsynlegt til að átta sig almennilega á þeim, og nú má líka horfa á þær af mynddiskum og sjá þær og heyra í kvikmyndahúsum í beinni útsendingu frá frægum óperuhúsum. Það er dýrt að flytja Wagner-óperu. Ný uppsetning Niflungahringsins taldist jafnan til tíðinda. En nú keppast óperuhús um víða veröld við að setja hann á svið. Á afmælisárinu var hann fluttur meira en fjörutíu sinnum víðs vegar um heiminn, og það er slegizt um miðana. Biðlistar eftir miðum á atburði sumarhátíðarinnar í Bayreuth, þar sem verk Wagners eru flutt í húsinu sem hann lét teikna eftir sinni forskrift og byggja sérstaklega til að láta flytja þar verk sín, eru það langir að biðtíminn er að sögn nálægt tíu árum.

En hvað getur það þá verið sem gerir Wagner umdeildan? Svarið er einfalt: Adolf Hitler.

Óvinir, vinir og aðdáendur

Ítalski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Umberto Eco segir frá því í nýlegu ritgerða­safni sínu[4] að fyrir einhverjum árum hafi hann lent í samræðum við leigubílstjóra í New York. Bílstjórinn var frá Pakistan og vildi vita hvaðan Eco kæmi. Hann sagðist koma frá Ítalíu. Bílstjórinn vildi vita hve margt fólk byggi þar og varð hissa þegar hann frétti hve fáir það væru og að tungumál þeirra væri ekki enska. Síðan spurði hann: Og hverjir eru óvinir ykkar? Þegar Eco hváði útskýrði bílstjórinn að hann vildi vita hvaða þjóð það væri sem Ítalir hefðu barizt við í aldanna rás, sem þeir ættu við að etja í stöðugum þjóðernisríg og landamæra­átök­um, hverjir væru stöðugt að drepa Ítali og Ítalir væru að drepa á móti. Þegar Eco svaraði að Ítalir hefðu háð sitt síðasta stríð fyrir meira en hálfri öld og ættu núna enga sérstaka óvini fannst bílstjóranum það alls ekki trúverðugt. Hvernig getur land ekki átt neina óvini? Eco segist hafa gefið honum ríflegt þjórfé þegar hann steig út úr bílnum til að bæta honum upp friðsemi Ítala og ekki hafa áttað sig á því fyrr en þá að hann hefði átt að svara því til að Ítalir ættu sér enga utanaðkomandi óvini vegna þess að þeir væru alltaf í stríði sín á milli. Þetta verður svo Eco tilefni til að velta því fyrir sér hvort þjóðir, hópar eða jafnvel einstaklingar hafi einhverja innri þörf fyrir að búa sér til óvini. Eftir að hafa velt fyrir sér mörgum dæmum, þar á meðal tilvitnunum í ritverk Wagners, virðist hann komast að þeirri niðurstöðu að svo hljóti að vera.

Það er auðvelt að eignast óvini, því að það getum við gert meira og minna einhliða: Við getum valið þá að eigin geðþótta. Við ráðum minna um það hverjir verða vinir okkar, það krefst gagnkvæmni: Við getum ekki ákveðið þá alveg upp á eigin spýtur, þótt við verðum að veita samþykki, ef svo má segja. En allra minnstu ráðum við um hvaða óvini eða þá hvaða vini og aðdáendur við kunnum að eignast eftir dauðann.

Það er vissulega eins og Richard Wagner hafi verið einn af þeim sem hafa þessa innri þörf fyrir að skapa sér óvini, og honum tókst að finna sér yfirnóg af þeim. Hann átti það til að búa sér þá til í stórum hópum. Þótt hatur hans á gyðingum sé illræmdast voru hóparnir fleiri sem hann hafði ímugust á; hann hafði horn í síðu Frakka, kaþólikka og sér í lagi Jesúíta, blaðaútgefenda og blaðamanna, allra sem fara illa með dýr, einkum vísindamanna sem stunda kvikskurði, svo að eitthvað sé nefnt. Vanþóknun hans beindist líka að einstökum mönnum, svo sem gagnrýnandanum Eduard Hanslick (sú vanþóknun var gagnkvæm) eða þá tónskáldum sem honum líkaði ekki við, og þau voru býsna mörg. Hann var ófeiminn við að lýsa þessari vanþóknun sinni í ræðu og riti, og sparaði ekki stór orð.

Wagner átti líka marga vini og aðdáendur meðan hann lifði, og síðustu árin hafði hann venjulega dálitla hirð þeirra kringum sig. Það vekur athygli hve margir þeirra voru gyðingar. Þótt hann hafi hatazt við gyðinga sem hóp virðist hann vel hafa kunnað að meta þá einn og einn. Þeir sem vilja gera sem allramest úr gyðingaandúð Wagners hafa á síðustu áratugum tekið upp þann leiða sið að úthúða þessum mönnum og gera lítið úr þeim. Nefnum aðeins eitt af fjölmörgum óviðfelldum dæmum: Í bókinni Wagner: Race and Revolution eftir Paul Lawrence Rose (London, 1992; sjá bls. 119 og áfram) eru þeir kallaðir húsgyðingar (House-Jews eða Haus-Israeliten) og sagðir haldnir „vel þekktu sálfræðilegu heilkenni“.[5] Meðal þeirra var hljómsveitarstjórinn Hermann Levi, sem stjórnaði frumflutningi óperunnar Parsifal. Rose vitnar í bréf Levis til föður síns, gamals rabbína, að „það dásamlegasta sem mér hefur hlotnast í lífi mínu eru þau forréttindi að vera náinn slíkum manni [Wagner], og ég þakka guði fyrir það á hverjum degi“ og segir þetta vera „sérkennilega æfingu í sjálfsniðurlægingu“, Levi er kallaður „óttafullur og ofurviðkvæmur“, „ávallt í örvæntingarfullri leit að ástúð“, og tilfinningar hans eru sagðar vera „næstum eins og hjá hundi“. Sagt er þó að Richard og Cosima Wagner hafi ekki haft óbeit á honum „persónulega“: „raunar deildu þau með sér sérkennilega ástríðufullri ástúð [peculiarly intense affection] til hans, sem var kannski af sama stigi og tilfinningar fólks til elskaðs fjölskyldugæludýrs.“ Og Rose er í bók sinni að saka aðra um að ófrægja gyðinga! Tónlistarfræðingurinn Laurence Dreyfus (sem er einnig gömbuleikari og hefur nokkrum sinnum heimsótt Ísland með gömbusveit sinni Phantasm) hefur tekið upp hanzkann fyrir Levi í ágætri og athyglisverðri grein.[6]

En allt tal um vini og óvini Wagners í lifanda lífi bliknar hjá þeirri staðreynd að einn aðdáandi Wagners að honum látnum var Adolf Hitler. Og svo er að sjá að orðstír þess sem hefur orðið fyrir sérstakri aðdáun Hitlers beri þess aldrei bætur.

Þótt Hitler hafi mistekizt sitt mikla ætlunarverk að mestu leyti hefur hann þó skilið eitt eftir sig: Nútímamönnum hættir til að lesa mannkynssöguna gegnum hugmyndafræðileg gleraugu þýzka nazistaflokksins. Og Wagner hefur ekki farið varhluta af að vera skoðaður gegnum þau gleraugu. Af því að Wagner hataðist við gyðinga og Hitler hataðist við gyðinga er dregin sú ályktun að gyðingahatur Wagners hafi verið af nákvæmlega sama sauðahúsi og Hitlers, og þar með eigna fjölmargir Wagner allan hugmyndafræðilegan bagga nazistaflokksins án nokkurrar umhugsunar eða gaumgæfingar staðreynda.

Byrjum á að athuga tvær staðreyndir, sem engir deila um. Hin fyrri er sú að Hitler hafði óperur Wagners í afar miklum metum, þótt ekki megi heldur gleyma því að hann hafði breiðan tónlistarsmekk og hélt líka mikið upp á önnur tónskáld: Bruckner var í sérlegu uppáhaldi, líka Beethoven, Schubert, Schumann, Weber, Grieg, Richard Strauss, og honum virðist einnig hafa líkað við Mendelssohn, svo að ekki sé minnzt á Franz Lehár. Seinni staðreyndin er sú að Wagner hafði megnustu andúð á Gyðingum, að minnsta kosti um það bil allan seinni helming ævi sinnar. Það eru varla miklar ýkjur að segja að hann hafi haft gyðinga meira og minna á heilanum síðustu árin, og hann kenndi þeim um flest sem honum fannst illa komið í þýzku samfélagi.

Náttúrlega hafa menn reynt að tengja þessar tvær staðreyndir saman. Að skrifa bækur og greinar um Hitler og Wagner, eða um Wagner og gyðinga er orðið svo algengt og útbreitt að tala má um skipulegan iðnað. Hvers vegna ætli þetta viðfangsefni sé svona gífurlega vinsælt? Kannski leyfist mér að vitna eftir minni í útvarpsviðtal við handhafa íslenzku bókmenntaverðlaunanna í ár, sem var spurður að því hvers vegna verðlauna­skáldsagan hefði selzt betur en fyrri bækur hans: Ein af meginástæðunum var að hans mati að „helförin selur“, eins og hann orðaði það.

Það er tvennt sem höfundar þessara rita um Wagner gera sér einna helzt far um að reyna að sýna fram á: Annað er að Wagner hafi verið einskonar hugmyndafræðilegur undanfari nazismans og að Hitler hafi lært gyðingahatur sitt af honum. Hitt er að gyðingaandúð Wagners sé ekki aðeins að finna í veraldlegum skrifum hans, heldur sjái hennar einnig merki í óperunum; sumir taka svo djúpt í árinni að segja að þær séu gegnsýrðar af gyðingahatri og jafnvel að gyðingahatur hans sé drifkraftur þeirra og meginástæðan fyrir að Wagner samdi þær. Einkum hafa Meistarasöngvararnir frá Nürnberg orðið fyrir þessum ásökunum, en líka aðrar óperur Wagners; mest Siegfried og Parsifal, og raunar flestar hinna líka, þótt í mismiklum mæli sé. Það er seinna atriðið sem ég ætla einkum að huga að í þessari ritgerð. Leyfið mér samt fyrst að víkja nokkrum orðum að fyrra atriðinu, hugsanlegum áhrifum Wagners á Hitler.

Undir áhrifum?

Ég ætla mér ekki þá dul að reyna að gera því máli full skil. Það sem um það hefur verið skrifað er svo mikið að vöxtum að það tæki óratíma að kynna sér það allt og töluverðar fjárhæðir að afla sér allra heimilda sem til þarf, fyrir nú utan að þær eru upp til hópa enginn skemmtilestur. Þar að auki er sumt af þessum skrifum svo langt fyrir utan alla heilbrigða skynsemi að furðu vekur, eins og til dæmis bókin eftir Joachim Köhler sem heitir Wagners Hitler: Der Prophet und sein Vollstrecker (München, 1997), sem lítur við fyrstu sýn afskaplega fræðilega út, með 14 blaðsíðna heimildaskrá og 60 blaðsíður af aftanmálsgreinum [7] sem eru tilvísanir í heimildirnar; en þær gefa ritinu aðeins trúverðugleika ef þeim er ekki flett upp, eins og nafnlaus gagnrýnandi á netinu orðaði það; ef það er gert kemur í ljós að ekki alltaf allt með felldu. [8] Í bókinni heldur höfundurinn því fram að Hitler hafi eiginlega ekki haft neina sjálfstæða hugsun, heldur hafi hann verið viljalaust verkfæri í höndum Wagner-fjölskyldunnar, sem notaði hann til að koma í framkvæmd hugmyndum og áætlunum Richards Wagner um útrýmingu gyðinga. Svipaðar hugmyndir eru uppi í bók eftir Christopher Nicholson: Richard and Adolf: Did Richard Wagner Incite Adolf Hitler to Commit the Holocaust? (Jerúsalem, 2007). Látum slíkar fráleitar fantasíur liggja milli hluta.

[Í langri grein um Wagner sem birtist í fréttatímaritinu Der Spiegel [9] í tilefni afmælisársins er Joachim Köhler tekinn tali og hefur nú heldur betur dregið í land. Um það hvort Wagner beri sök á helförinni segir hann: „Varla meira en gyðingahatararnir [die Antisemiten] Hegel, Marx, Schopenhauer.“ Og síðar: „Ég sé ekki lengur bein áhrif á Hitler frá Wagner. Hitler varð ekki Hitler af því að hann hlustaði á ,Rienzi‘.“ — Við komum að Rienzi-sögunni von bráðar.]

Um áhrif Wagners á Hitler mátti áður fyrr telja tvær heimildir helztar. Hin fyrri er bókin Samræður við Hitler [Gespräche mit Hitler] eftir Hermann Rauschning.[10] En það er langt síðan efasemdir kviknuðu um þá bók, og flestir fræðimenn nú til dags líta svo á að hún hafi verið soðin saman í flýti og sé sambland af hreinum uppspuna og brotum sem hefur verið hnuplað héðan og þaðan úr ýmsum ritum, og er hún því úr sögunni. Hin heimildin er bók eftir mann að nafni August Kubizek. Hann var hljómsveitarstjóri, en var kallaður í herinn í fyrri heimstyrjöldinni, fann enga stöðu sem slíkur eftir stríðið og gerðist embættismaður á vegum sveitarstjórnar í Eferding í Austurríki, þar sem honum tókst með árunum að koma sér upp dálítilli hljómsveit. Bók hans heitir Adolf Hitler, æskuvinur minn.[11] Kubizek lýsir í bókinni sameiginlegri hrifningu og áhuga þeirra æskuvinanna á verkum Wagners og hve gagntekinn Hitler var af þeim. Hann segir að Hitler hafi lesið allt sem hann komst yfir, bæði um og eftir Wagner, ritgerðir, bréf, dagbækur, ævisögu og það sem hann kallar játningar [Bekenntnisse], hvað sem það kann að vera. En frægasta atvikið sem hann lýsir í bókinni er kvöldið örlagaríka þegar þeir sáu óperu Wagners Rienzi saman í fyrsta sinn, hve upphafinn og gjörbreyttur Hitler virtist vera eftir sýninguna, hvernig orð hans eins og brutust fram næstum endalaust. „Eins og uppsöfnuð flóðbylgja brýzt gegnum brestandi stíflugarða ruddust orðin út úr honum. Í stórkostlegum, hrífandi myndum kallaði hann fram hjá mér framtíð sína og þjóðar sinnar,“ segir Kubizek. Þetta var í Linz, og Hitler var þá sautján ára, segir Kubizek. Seinna fluttu þeir til Vínar og sáu þar margar Wagner-óperur saman, meðal annars undir stjórn Gustavs Mahler, sem þeir dáðu báðir mjög. Samband æskuvinanna rofnaði árið 1908 og þeir sáust ekki fyrr en eftir þrjá áratugi. Þegar Hitler var orðinn ríkiskanslari áræddi Kubizek að skrifa honum bréf til að minna á sig, og árið 1939, skömmu áður en seinni heimsstyrjöldin brauzt út, bauð Hitler Kubizek á Bayreuth-hátíðina. Kubizek rifjaði þá upp fyrir Hitler þetta kvöld í Linz eftir Rienzi-sýninguna, og Hitler virtist gleðjast yfir að einhver gæti staðfest endurminningar hans sjálfs um atburðinn. „Ég var einnig viðstaddur seinna,“ segir Kubizek, „þegar Adolf Hitler skýrði frú [Winifred] Wagner, sem við vorum gestir hjá, frá þessari reynslu, sem gerðist að lokinni „Rienzi“-sýningunni í Linz. […] Ógleymanleg eru mér líka orðin sem Hitler lauk frásögn sinni á. Hann sagði alvarlegur í bragði: „Á þeirri stundu hófst það.“ “

Það virðist engin tilviljun að Rienzi sé sú ópera Wagners sem hafði kannski mest áhrif á Hitler. Hann hefði eflaust, sautján ára unglingur, getað séð sjálfan sig í hlutverki alþýðuforingjans Rienzis sem bjargvætt þjóðar sinnar, en hefði varla séð fyrir að hann ætti sjálfur eins og Rienzi í óperunni eftir að láta lífið innanum logandi rústir. Hrifning hans á Wagner hafði það djúp áhrif á hann að hann byrjaði sjálfur, að sögn Kubizeks, að semja óperu byggða á uppkasti Wagners að leikverki um Völund smið; hann á til dæmis að hafa verið búinn að semja forleikinn, sem hann gat hamrað á píanó, en ekki skrifað niður, af því að hann kunni ekki nótur, það átti vinurinn Kubizek að gera (en lenti í erfiðleikum með).

Í afar athyglisverðri doktorsritgerð frá því í fyrra [12] hrekur Jonas Karlsson með sannfærandi hætti margar af þeim sögusögnum um samband Wagners, Hitlers og gyðinga sem fræðimenn hafa haldið fram sem staðreyndum og haft hver eftir öðrum án mikillar gagnrýni. Hann telur sig einnig geta sýnt með óyggjandi hætti að Rienzi-atvikið hafi ekki getað átt sér stað.

Rök Karlssons eru þessi: Kubizek segist hafa kynnzt Hitler haustið 1904. Samkvæmt Karlsson segir Kubizek einnig að atvikið hafi átt sér stað í nóvember 1905 eða 1906. (Kubizek segir vissulega að atvikið hafi átt sér stað „á dimmu og kaldranalegu nóvemberkvöldi“, en ég sé ekki að hann nefni ártalið. Hann segir hins vegar að Hitler hafi þá verið 17 ára, og það varð hann í apríl 1906, og að 33 ár hafi liðið frá atvikinu þangað til þeir Hitler hittust aftur í Bayreuth 1939.) En samkvæmt Franz Jetzinger,[13] sem taldi alla bók Kubizeks vera mestan partinn uppspuna, hafi Hitler ekki búið í Linz haustið 1904, heldur var hann sendur í skóla til Steyr, sem er um það bil 30 kílómetra í beina loftlínu fyrir sunnan Linz, og var þar frá september 1904 fram í júní 1905. Því hafi Hitler og Kubizek ekki getað kynnzt fyrr en haustið 1905. Karlsson bendir á að Kubizek segir að þeir Hitler hafi fyrst talazt við í sýningarhléi óperu eða leikrits og bætir við að það gæti hafa verið eitt af þremur verkum sem hann nefnir og voru öll sýnd í október 1905, en hvorki í október né nóvember 1904. Á árunum 1904 til 1907 var óperan Rienzi hinsvegar flutt aðeins fimm sinnum í Linz, nefnilega 3., 5., 10. og 19. janúar og 12. febrúar 1905, og því áður en Hitler og Kubizek gætu hafa kynnzt. Þeir gætu því ekki hafa séð hana saman.

Þetta virðist pottþétt niðurstaða, þótt dálítil ónotatilfinning sitji kannski eftir: Sagan gengur greinilega ekki upp miðað við þessar upplýsingar um dagsetningar, en samt finnst manni einhvernveginn að svo lítið vanti uppá. Mér finnst Karlsson vísa fullléttilega á bug þeim möguleika að Hitler hafi reglulega fengið leyfi til að heimsækja óperuna í Linz veturinn 1904–5; atvikið hefði þá þurft að gerast áður en Hitler varð 15 ára. Ljóst er þó að minnsta kosti að taka verður bók Kubizeks með mikilli varúð. Það hefði svo sem þurft að gera hvort sem er þótt þessar upplýsingar hefðu ekki komið fram, því að minningar í hugum fólks geta tekið róttækum breytingum á skemmri tíma en þeim fjörutíu til fimmtíu árum sem liðu frá því atvikið á að hafa átt sér stað þar til það var skrásett, væntanlega um eða upp úr 1950.

Eftir því sem ég veit bezt er bók Kubizeks líka eini staðurinn þar sem sagt er að Hitler hafi lesið einhver verk Wagners í lausu máli. Þótt ljóst sé að Hitler hafi hrifizt mjög af Wagner sem tónskáldi og höfundi leikverka virðast engar heimildir vera til um að hann hafi orðið fyrir áhrifum af pólitískum skrifum Wagners eða af skrifum hans um gyðinga. Hann talaði ævinlega um Wagner sem einn af mestu listamönnum í sögu Þýzkalands, gjarnan í sömu andrá og Goethe og Beethoven, en hann vitnaði aldrei í skrif hans á móti gyðingum. Ég veit ekki til að nokkrar heimildir séu til um að nazistar hafi beinlínis vitnað til skrifa Wagners um gyðinga eða gert sér mat úr þeim. Hér er ég vissulega að gera dálítið fínan greinarmun: Gyðingaandúð Wagners var alþekkt, og finna má skrif frá nazistatímanum þar sem honum er lýst sem sönnum föðurlandsvini sem hafi varið sönn þýzk gildi gegn lymskulegum árásum gyðinga. Það sem ég á við er að ekki var verið að kafa nákvæmlega í hvað hann hefði skrifað um þá. Hann var af nazistum hafinn á stall fyrst og fremst sem mikill listamaður sem væri innblásinn af þjóðlegum þýzkum anda.

Þekktasta heimildin um gyðingaandúð Wagners er hin illræmda grein hans Das Judenthum in der Musik (Gyðingdómur í tónlist). Hún birtist fyrst í tímaritinu Neue Zeitschrift für Musik árið 1850 undir dulnefni, en Wagner gaf hana svo aftur út í bæklingi örlítið breytta árið 1869 undir eigin nafni og bætti við hana stuttum formála og mjög löngum eftirmála. Upphaflega greinin hafði að geyma árás á Mendelssohn, sem er nefndur með nafni og var látinn þegar greinin birtist, og þó fyrst og fremst á Meyerbeer, sem er ekki nefndur og var þá bráðlifandi, en auk þess fær Heinrich Heine líka dálitla gusu, þótt hann hafi verið ljóðskáld en ekki tónskáld. Árásin er hins vegar sett í stærra samhengi og beinist að öllum gyðingum. Wagner byrjar á að segja það nauðsynlegt að útskýra þá ómeðvituðu tilfinningu sem birtist hjá þjóðinni sem andúð á gyðinglegu eðli. Eftirmálinn 1869 fjallar aðallega um hvernig blöð og tímarit hafi ráðizt látlaust á Wagner vegna fyrri birtingarinnar, og Wagner skýrir það þannig að gyðingar ráði yfir öllum blöðum og tímaritum í krafti auðs. Gagnrýnandinn Eduard Hanslick, sem Wagner taldi gyðing, fær líka sinn sérstaka skammt.

Ég ætla ekki að rekja innihald þessa heimskulega og ógeðfellda rits, heldur læt mér nægja að segja að meintar útskýringar Wagners eru það sem kalla mætti félagslegar; svo sem að gyðingum hafi ekki tekizt að aðlagast eða samsamast þjóðinni, séu einangraðir og hafi engin eðlileg menningarleg tengsl við fólkið í landinu. Því séu þeir ófærir um að skapa raunverulega tónlist frá eigin brjósti, því að slík tónlist verði að eiga rætur meðal fólksins, heldur verði þeir að láta sér nægja að herma eftir því sem aðrir gera. Það er ekki minnzt á kynþætti í ritinu, né að gyðingar séu það sem við mundum nú á dögum kalla genetískt frábrugðnir öðrum, heldur er þvert á móti gefið í skyn að þeir geti samlagazt þjóðfélaginu, fengið „endurlausn“ með því að hætta að vera gyðingar og gerast „raunverulegar manneskjur“ [wahrhafte Menschen] eins og Wagner orðar það, og þannig geti allir orðið sameinaðir og óaðgreinanlegir. Það er kannski ekki alveg ljóst hvernig Wagner taldi gyðinga vera afmarkaða sem hóp á þessum tíma: Það er ljóst að trúarbrögð nægðu ekki til að skilgreina gyðinga í hans augum; til dæmis var Mendelssohn áfram gyðingur þótt hann tæki kristna trú — það þurfti greinilega meira til. Líklega leit hann á gyðinga sem einhverskonar þjóðflokk sem væri dreifður innanum aðrar þjóðir. Það er því rangt að segja að í riti Wagners sé að finna kynþáttahatur, þótt það sé nú á dögum fullyrt aftur og aftur, — gyðingahatur er þar vissulega að finna, en hugmyndir um kynþætti voru ekki ennþá komnar til sögunnar í almennri umræðu. Það er því ljóst að Hitler og nazistar höfðu afskaplega lítið til þessa rits Wagners að sækja um gyðingleg efni, því að þeir þóttust byggja kenningar sínar um gyðinga á vísindalegum niðurstöðum um ólíka gerð kynþátta.

Stundum er fullyrt að rit Wagners um Gyðingdóm í tónlist hafi verið lykilrit í andgyðinglegum skrifum í Þýzkalandi á nítjándu öld. Það var vissulega víðfrægt, eða öllu heldur alræmt, á sínum tíma, vegna þess að höfundurinn var frægur fyrir annað — sennilega langfrægasti listamaður sem þá var uppi, — og af sömu ástæðu er það alræmt enn þann dag í dag, þótt fáir lesi það. Það má því vissulega segja að ritið hafi hugsanlega hjálpað til að gera andgyðingleg ummæli og rit samkvæmishæf; einhverjir hafa kannski hugsað með sér: „Ef Wagner getur látið eitthvað svona út úr sér, þá hlýt ég að mega það líka.“ En í þeim straumi andgyðinglegra rita sem flæddu yfir landið var það ekki nema eins og dropi í hafið. Það er talið að upplag ritsins hafi varla verið meira en um það bil tvöþúsund eintök; Jonas Karlsson nefnir í ritgerð sinni andgyðingleg rit sem komu út á nítjándu öld í eintakafjölda sem nam tugum eða jafnvel hundruðum þúsunda.[14] Hver man nú eftir þeim eða höfundum þeirra? En þar á meðal voru vissulega rit sem féllu betur að seinni hugmyndum Hitlers og nazista en nokkuð það sem Wagner skrifaði.

Athugum að árið 1850, þegar Wagner birti ritgerð sína, var ekki einu sinni búið að finna upp aríska kynstofninn. Það var ekki fyrr en á árunum 1853–55 að Joseph Arthur Gobineau, sem kallaði sig jafnan greifa, birti rit sitt um ójöfnuð mannlegra kynþátta [15]. Í þessu riti skipti hann mannkyninu í þrjá kynstofna, hvíta, gula og svarta kynstofninn. Hvíti kynstofninn varð síðan að „aríska kynstofninum“, sennilega árið 1861, en áður hafði orðið „arískur“ verið málfræðihugtak, notað um indó-evrópska málaflokkinn. Kenning Gobineaus var sú að hvíti kynstofninn væri æðri hinum, og að mannkyninu stafaði hætta af blöndun kynstofnanna. Ástæðulaust er að rekja kenninguna frekar hér. Það vekur þó athygli að hjá Gobineau er ekki að finna neina andúð á gyðingum, þvert á móti hrósaði hann þeim sem „frjálsri, sterkri og greindri þjóð“.

Wagner hitti Gobineau stuttlega árið 1876, en kynntist honum ekki fyrr en 1880, og las þá einhver rit hans. [16] Rit Gobineaus um ójöfnuð kynþátta sá hann ekki fyrr en árið eftir (það var uppselt og illa gekk að leita það uppi hjá fornbókasölum). Honum fundust kenningar rptsins þá afar merkilegar, þótt hann væri ekki sammála þeim nema að litlu leyti. Hann skrifaði fáeinar heldur torskiljanlegar greinar um efnið á þessum síðustu árum. Í einni af allrasíðustu ritgerðum sínum, Heldenthum und Christenthum (1881), [17] rekur hann kenningar Gobineaus, að því er virðist með nokkurri velþóknun, en vill þó ekki samþykkja þær nema að hluta til, og alls ekki svartsýnar spár Gobineaus um hnignun aríska kynstofnsins vegna blóðblöndunar, heldur telur Wagner, ef ég skil hann rétt, að sú heimsskipan að „göfugasti“ kynstofninn ráði yfir hinum og arðræni þá sé siðlaus [unmoralisch], en að blóði Krists hafi verið úthellt jafnt fyrir alla kynstofna og að það geti gert alla menn jafna. En tökum fyrst og fremst eftir að á þeim tíma sem Wagner tók að lesa kynþáttarit Gobineaus var hann búinn að yrkja kvæðin við allar sínar óperur, gera lokauppkast að tónlistinni í þeirri síðustu, Parsifal, og um það bil hálfnaður með að setja hana út fyrir hljómsveit. Þannig er ljóst að kynþáttakenningar Gobineaus geta ekki hafa haft nokkur áhrif á Parsifal, hvað þá fyrri óperur Wagners, hversu oft sem því hefur verið haldið fram.

Ég ætla að láta þessar fátæklegu athugasemdir nægja um það almenna efni hvort Wagner hafi haft einhver áhrif á Hitler, en snúa mér heldur að hinni spurningunni, hvort finna megi vísbendingar um gyðingahatur í óperum Wagners.

Hér hófst það

Kenningin að svo sé er tiltölulega ný af nálinni. Hún verður til í sérkennilegri lítilli bók, Tilraun um Wagner, eftir Theodor W. Adorno frá árinu 1952.[18] (Hlutar úr bókinni birtust í tímariti árið 1939, en upplag þess var að mestu eyðilagt af nazistum.) Adorno segir sjálfur[19] að í bókinni megi finna „björgun Wagners“ — væntanlega björgun hans úr klóm nazista, án þess það sé tekið fram — en í flestra augum held ég bókin hljóti að teljast látlaus árás á Wagner á öllum vígstöðvum og með öllum meðulum, eða kannski ætti að segja öllum meðulum skæruhernaðar, því að lítið er um samfellda hvað þá sannfærandi röksemdafærslu; það er hlaupið úr einu í annað, og bókin er öllu heldur samsafn af glefsum. Eins og margt annað eftir Adorno er hún skrifuð í þeim þýzka heimspekistíl sem mætti kalla „véfréttarstíl“. Þar á ég ekki fyrst og fremst við að oft sé verulega torséð hvað höfundurinn er að fara, þótt það sé vissulega hluti af stílnum — hann reikar einatt næsta stefnulaust um á mörkum hins óskiljanlega og heldur sig alls ekki alltaf réttum megin [20], — heldur ekki síður hitt að textinn er skrifaður eins og fyrir guðlegan innblástur; höfundurinn fullyrðir hitt og þetta sem heilagan sannleik og telur sig ekki þurfa að færa fyrir því nokkur rök. Það nægir að Theodor Wiesengrund Adorno sjálfur hafi haldið einhverju fram; þá er það rétt, og þarflaust að mögla eða biðja um skýringar.

Adorno er þekktastur sem heimspekingur og félagsfræðingur, en hann var líka menntaður í tónlist. Hann lærði tónsmíðar hjá Alban Berg, og nú á dögum er hægt að hlusta á nokkur af tónverkum hans á Internetinu. Hann er sagður hafa verið ágætur píanóleikari, en kann líka að hafa átt sína slæmu daga í því fagi. („Afleitur píanóleikur [Schlechtes Klavierspiel] A[dorno]’s: Schubert og Chopin“ stendur í dagbók Thomasar Mann fyrir 12. nóvember 1944. [21])

Adorno skrifaði mikið um tónlist, og sagt hefur verið að þau skrif séu full af snilldarlegu innsæi. Ég treysti mér ekki alveg til að dæma um það; kannski er ekki alltaf gott að koma auga á innsæisstaðina inni í myrkviði stílsins (þótt ekki séu alveg öll skrif Adornos um tónlist á jafntyrfnu máli og stórir hlutar Wagner-bókarinnar); en einhvern veginn virðist stundum vera miklu auðveldara að finna undarlegar meinlokur og fordóma. Svo er ekki alltaf gott að segja hvað er hvað í þessum efnum: Telst til dæmis sú athugasemd að leiðarfrymi Wagners líkist auglýsingum[22] til innsæis eða lendir hún í einhverjum öðrum flokki?

Kveikjan að öllu saman er ein setning í fyrsta kafla bókar Adornos um Wagner. Þar stendur:

Nafnleysinginn ósýnilegi, Alberich, sem lætur greipar sópa um gullið, hinn sjálfumglaði, skeytingarlausi og málglaði Mímir, ypptandi öxlum, getulausi menningarvitinn og gagnrýnandinn Hanslick-Beckmesser, allir sem eru útskúfaðir í verkum Wagners eru gyðingaskopstælingar.

[Der Gold raffende, unsichtbar-anonyme, ausbeutende Alberich, der achselzuckende, geschwätzige, von Selbstlob und Tücke überfließende Mime, der impotente intellektuelle Kritiker Hanslick-Beckmesser, all die Zurückgewiesenen in Wagners Werk sind Judenkarikaturen.[23]]

Fyrsta spurningin sem hlýtur að vakna við lestur þessarar fullyrðingar er þessi: Ef þetta er rétt, hvers vegna var ekki búið að koma auga á það miklu fyrr? Hvers vegna þurfti mannkynið að bíða eftir að Theodor Adorno benti því á það?

Þessi spurning virðist kalla á svar og því hafa ýmsir reynt að halda því fram að vissulega hafi menn séð andgyðinglegan áróður í óperum Wagners miklu fyrr. Það hefur samt gengið illa að finna fyrir því heimildir. Í grein sem er andsvar við ritdómi eftir Hans Rudolf Vaget um bókina eftir Rose, sem kom við sögu hér á undan, halda Rasch og Weiner því fram að sú hugmynd að persónan Beckmesser í Meistarasöngvur­unum sé skopstæling á gyðingi hafi verið þekkt frá upphafi:

Er ekki marktækt að samtímamönnum Wagners fannst augljóst það sem Vaget á svo erfitt með að viðurkenna? Hvers vegna er það ekki áhugavert? Eins og Vaget veit mótmælti samfélag gyðinga í báðum borgum ákaflega þegar Die Meistersinger voru fyrst fluttir í Berlín og Vín, af því að þeim sárnaði framsetning Wagners á persónu sem var sett saman úr lista [repertoire] af andgyðinglegum staðalímyndum. Þar að auki könnuðust samtímamenn Wagners (og að auki þeir sem bjuggu í þýzkumælandi [hluta] Evrópu skömmu eftir dauða hans) við slík andgyðingleg einkenni ekki einungis í persónu Beckmessers. Framsetning meintra gyðinglegra eiginleika í tónlist Niflungadvergsins Mímis (í Hring-flokknum) vakti til dæmis athygli Gustavs Mahler, manns sem var afar meðvitaður um hlutverk gyðingaandúðar í evrópskri menningu 19. aldar og notkun tónlistar sem menningartáknmáls. Í kafla úr bréfi árið 1898 til Natalie Bauer-Lechner fullyrti Mahler það sem hann trúði að væri augljóst á þeim tíma: „Enginn vafi er á að með Mími ætlaði Wagner að gera gys að gyðingum (með öllum einkennandi eðlisþáttum — smásmugulegri greind og græðgi — blendings­mál þeirra er svo hugvitssamlega gefið í skyn í texta og tónlist) … “[24]

Sem heimild um það sem hér er haft eftir Mahler vísa Rasch og Weiner (eins og aðrir) í ævisögu hans á ensku sem mér hefur ekki tekizt að komast yfir, og því hef ég ekki getað rakið tilvitnunina þá leiðina; en þetta getur varla verið úr bréfi, því að þessi orð Mahlers (sem eru gefin á ensku hjá Rasch og Weiner) virðast vera lausleg þýðing á orðum sem Natalie Bauer-Lechner hefur eftir honum í endurminningum sínum og hann á að hafa sagt á æfingu í Vínaróperunni árið 1898 — en hún lék þá á lágfiðlu í hljómsveitinni:

Þótt ég sé sannfærður um að þessi vera [Mímir] sé ljóslifandi og frá hendi Wagners meðvituð skopstæling á gyðingi (með öllum þeim einkennum sem hann gaf henni: smásmugulegum klókindum, græðgi og öllu framúrskarandi blendings­mál­inu í tónlist og texta), þá má í guðanna bænum ekki ýkja það og smyrja jafnþykkt og Spielmann gerði — hvað þá í Vín, í „konungleg-keisaralegu hirðóperunni“, það væri hreint og beint hlægilegt og hneyksli fyrir Vínarbúa. Ég þekki bara einn Mími (við horfðum eftirvæntingarfull á hann): og það er ég! [25]

Þeir sem leita að skopmyndum af gyðingum í óperum Wagners þurfa að halda sig við textann en ekki dæma útfrá tilteknum sýningum. Söngvari gæti reynt að gera hlutverkið sem hann fer með að skopstælingu, eins og Julius Spielmann hefur kannski reynt að gera þegar hann söng hlutverk Mímis undir stjórn Mahlers í Vínaróperunni, svo að ekki sé talað um að leikstjóri getur nú til dags auðveldlega upp á eigið eindæmi troðið allskonar hugmyndum inn í sýninguna sem eiga sér enga stoð í textanum, til dæmis reynt að gera Beckmesser í Meistarasöngvurunum að því sem hann telur vera staðalskopmynd af gyðingi, klætt alla meistarasöngvar­ana í stormsveitarbúninga og látið Walther líkjast Adolf Hitler í útliti — og ég yrði ekki hissa á að lesa fréttir um slíka uppsetningu frá Þýzkalandi um þessar mundir — en það segir ekkert um hvað Wagner hugsaði sér.

Með fullri virðingu fyrir þýzkumælandi Evrópubúum held ég óhætt sé að fullyrða að þeir hafi upp til hópa ekki samskonar hugmyndaflug og Mahler, eða þá Adorno, ef því er að skipta. Og engar heimildir eru fyrir því að nokkrum manni öðrum en Mahler hafi dottið í hug að í óperum Wagners mætti finna skopmyndir af gyðingum — þangað til Adorno setti saman rit sitt.

Fyrrnefndur Marc Weiner telur sig að vísu hafa fundið enn eitt vitni, og það ekki af verri endanum: Engin önnur en Cosima Wagner, segir hann, „skrifaði í dagbók sína að Mímir væri “ein Jüdchen” eða “lítill gyðingur” “.[26] Hér er vísað í dagbókarfærslu frá 3. júní 1881. Þann dag voru Wagner-hjónin í Berlín til að vera viðstödd flutning alls Niflungahringsins þar í borg. Hér er dálítið meira af færslunni:

Um 11 Uhr fahren wir in die Probe, R. mit Mimi, ich mit Lusch. Erster Akt Siegfried, Mime »ein Jüdchen«, sagt R., aber vortrefflich, Vogl gleichfalls sehr gut, deutlich und bestimmt.

[Klukkan 11 ökum við á æfinguna, R. með Mimi, ég með Lusch. Fyrsti þáttur af Siegfried, Mímir »lítill gyðingur«, segir R., en frábær, Vogl einnig mjög góður, skýr og öruggur.]

Það er skrítið að það sé Cosima sem Weiner vill endilega fá í lið með sér, en ekki Richard Wagner sjálfur, því að ljóst er af samhenginu að það er hann sem talar um „lítinn gyðing“, en hún skráir það einungis eftir honum. En jafnljóst er af samhenginu að Wagner er hér alls ekki að tala um persónuna Mími í óperunni, heldur söngvarann sem söng hlutverkið í Berlín, því að í næstu andrá er strax talað um frammistöðu annars söngvara, [Heinrichs] Vogl. Sá sem söng Mími í Berlín árið 1881 hét Julius Lieban og var vissulega gyðingur; ég hef ekki enn fundið upplýsingar um hvort hann var lítill eða stór. Hann varð síðar víðsfrægur fyrir túlkun sína á hlutverki Mímis og hafði sungið það í 70 óperuhúsum áður en hann dó. Það var ekki fyrr en 1940, og því eru til upptökur með söng hans.

En nú ætti líka að vera ljóst að Weiner hefur lesið þessa dagbókarfærslu eins og skrattinn biblíuna. Það sem hún segir er þveröfugt við það sem hann virðist halda: Orðið „aber“ [„en“] skiptir hér sköpum: Wagner er að segja að söngvarinn sem syngur hlutverk Mímis sé smávaxinn gyðingur, en samt er hann frábær í hlutverkinu! Það er eins og Wagner sé steinhissa á að gyðingur geti passað í hlutverkið og sungið það vel. Ég sé því ekki betur en að þessi dagbókarfærsla gefi okkur sterk rök fyrir því að hlutverk Mímis sé einmitt alls ekki hugsað sem birtingarmynd af gyðingi! Mislestur Weiners er axarskaft af flausturslegustu gerð; það þarf ekki að hafa um það fleiri orð.

Við ættum einnig að vara okkur á að draga of fljótfærnislegar ályktanir: Jafnvel þótt einhver sem veit af gyðingaandúð Wagners láti sér detta í hug að Mímir eigi að vera skopmynd af gyðingi, þá þýðir það alls ekki að Wagner hafi hugsað persónuna þannig.

[Í dagbókarfærslu Cosimu Wagner 17. nóvember 1882, aðeins þremur mánuðum fyrir andlát Wagners, er að finna dálítið torskilda setningu: „In der Frühe heute gingen wir die Gestalten des R. des Nibelungen durch vom Gesichtspunkt der Racen aus, die Götter, die weiß, die Zwerge, die Gelben (Mongolen), die Schwarzen die Äthiopier; Loge der métis.“ Svo er að sjá að Wagner-hjónin hafi þá um morguninn gert sé það til gamans að raða persónum Niflingahringsins öðrum en mannfólkinu í kynþætti samkvæmt skiptingu Gobineaus. Ljóst er að guðirnir hafi lent í hvíta kynstofninum, dvergarnir í þeim gula, en Loki er flokkaður sem kynblendingur. En hverjir eru þeir svörtu? Sennilegasta skýringin sem mér dettur í hug er að það séu risarnir, að Cosima hafi einfaldlega gleymt að skrifa tvö orð og í stað „die Schwarzen die Äthiopier“ hafi átt að standa eitthvað í líkingu við „die Riesen, die Schwarzen (die Äthiopier)“. En hvað sem um það má segja er alveg skýrt að þeim hjónunum hefur ekki dottið í hug að flokka dvergana sem gyðinga.]

Hvað ólæti við fyrsta flutning Meistarasöngvaranna í Berlín og Vín varðar, þá er ekkert sem bendir til að þau hafi stafað af því að áheyrendur hafi orðið varir við andgyðinglegan áróður í óperunni. Í andsvari við greininni eftir Rasch og Weiner sem er birt strax á eftir henni í sama tímaritshefti segir Vaget:

En hvað vitum við um þessi mótmæli? Beindust þau í raun að lýsingu Beckmessers sem gyðings? Eða var þeim frekar beint að alræmdri gyðingaandúð Wagners sem (einmitt þá, 1869) hafði endurbirt ömurlegan bækling sinn Das Judentum in der Musik? Mér virðist við þurfa að læra talsvert meira um þessa atburði — nákvæmt sögusvið þeirra, nákvæmar ástæður — áður en við getum notað þá sem sönnun þess að [óperan] Die Meistersinger hafi verið skilin sem miðill til að breiða út gyðingahatur.

Þótt margt hafi verið skrifað um málið síðan virðist þó enginn hafa haft fyrir að athuga það gaumgæfilega fyrr en Jonas Karlsson í fyrrnefndri doktorsritgerð frá því í fyrra. Meistarasöngvararnir voru frumfluttir við frábærar undirtektir í München 21. júní 1868 og síðan sýndir næsta ár í Dresden, Dessau, Karlsruhe, Hannover, Mannheim og Weimar, aftur við frábærar undirtektir áheyrenda (en ekki allra gagnrýnenda). Þá kemur bæklingurinn um Gyðingdóm í tónlist út, og eftir það kom að fyrstu sýningunni í Vínarborg. Hún var 27. febrúar 1870, eftir að henni hafði verið frestað margsinnis vegna veikinda söngvara. Karlsson hefur nú tekið sig til, lesið umsagnir Vínarblaðanna frá þessum tíma og hann getur því gefið gott yfirlit um hvað gerðist.[27] Mótmæli hófust undir lok annars þáttar (sem mörgum þótti langdreginn og leiðinlegur) þegar kvöldlokka Beckmessers hófst, en hún þótti mörgum afkáraleg. Þau héldu síðan áfram út þáttinn, en þriðji þáttur virðist hafa sloppið. Í einu blaði stendur að vinir og andstæðingar tónskáldsins hafi þekkzt af lit sínum (þýzka orðið er Färbung), en af öðrum virðist mega álykta að skiptingin hafi alls ekki ráðizt af því hverjir voru gyðingar og hverjir voru „germanir“ (eins og það var kallað). Það sem máli skiptir fyrir okkar athugun er að hvergi örlar á grunsemdum um að í óperunni komi í ljós andúð á gyðingum, né að Beckmesser hafi verið túlkaður sem skopstæling á gyðingi. (Þótt fyrstu sýningarnar í Mannheim hafi verið áfallalausar urðu mótmæli á seinni sýningum, eftir að bæklingurinn kom út.)

Við þetta má bæta að ekki einu sinni nazistum tókst að finna andgyðinglegan anda í óperum Wagners. David B. Dennis hefur farið í gegnum fjöldann allan af ritum frá nazistatímanum og áratugunum þar á undan til að athuga hvort þar megi finna einhverja umfjöllun um andgyðinglegar tilvísanir í Meistarasöngvurunum. Upptalning þessara rita í grein hans [28] er hátt á aðra blaðsíðu og endar á tveimur helztu dagblöðum nazista, Völkischer Beobachter og Der Angriff, en í þeim einum fann hann næstum 300 greinar um Wagner og þar af yfir 30 um Meistarasöngvarana. Niðurstaðan er sú að hvergi sjái þess stað allt þetta tímabil að neinn hafi litið svo á að finna megi svo mikið sem örlítinn vott af gyðingaandúð í óperum Wagners.

Við hljótum því að álykta að þetta hafi allt hafizt með véfrétt Adornos: „allir sem eru útskúfaðir í verkum Wagners eru gyðingaskopstælingar.“

Það er varla orðum aukið að segja að höfundar og fræðimenn hefi kastað sér yfir þessi orð Adornos eins og hungraðir úlfar og hugsað sér gott til glóðarinnar, sumir til að gera efnið að sölubókum, aðrir til að nota það í hugmyndir fyrir fræðilegar greinar. Allt sem út úr þessu kemur á þó eitt sameiginlegt; það stendur á brauðfótum, af því að orð Adornos standa á brauðfótum.

Fjöldinn allur af hugverkum hafa sprottið upp úr jarðveginum sem Adorno plægði í bók sinni um Wagner, og fróðlegt væri að athuga sem flest þeirra, þó ekki væri nema til að sjá hvernig vinnubrögð þykja boðleg í þessum fræðum. Örfá dæmi verða þó að nægja. Þau ganga öll út á að sýna fram á að gyðingahatur birtist í Meistarasöngvurun­um í Nürnberg.

Stórhættuleg Maríumynd

Hvers vegna Meistarasöngvararnir hafa orðið að sérstökum skotspæni þeirra sem eltast við og jafnvel taka laun sín fyrir að finna gyðingahatur undir hverjum steini er hulin ráðgáta, því að varla virðist nokkur ópera, að minnsta kosti við fyrstu sýn, vera jafngjörsamlega laus við nokkrar tilvísanir til gyðinga.

Rifjum upp örfá atriði úr söguþræðinum, rétt til að lesandinn átti sig, en sleppum fjölmörgu. Beinagrindin er hefðbundin gamanóperusaga, sama grunnstef og í ótal öðrum óperum (til dæmis Rakaranum í Sevilla eftir Rossini), um ungan og myndarlegan mann sem verður ástfanginn af ungri og fallegri stúlku; en hann á sér meðbiðil, eldri, óásjálegan og hlægilegan karl, og leikfléttan snýst um að snúa þannig á meðbiðilinn að ungi maðurinn og unga stúlkan fái að eigast. Riddarinn Walther von Stolzing kemur til Nürnberg og verður samstundis ástfanginn af Evu, dóttur gullsmiðsins Pogners. Fyrir dyrum stendur söngkeppni milli meistarasöngvaranna í Nürnberg, og Pogner hefur ákveðið að gefa sigurvegaranum hönd Evu (að því gefnu að hún samþykki ráðahaginn þegar þar að kemur). Meistarasöngvararnir eru félagsskapur iðnaðarmanna sem iðka sönglist og hafa sett sér flóknar reglur um hvernig söngvar eigi að vera, og enginn fær inngöngu í hóp þeirra án þess að gangast undir próf. Í þeirra hópi er prófdómari, kallaður merkjari [Merker], af því að hann merkir við villurnar sem umsækjendur gera í prófinu og mega ekki vera fleiri en sjö. Merkjarinn er borgarritarinn Sixtus Beckmesser, og hann hefur einsett sér að vinna sjálfur söngkeppnina og hönd Evu. Þegar riddarinn Walther þreytir prófið til að geta komizt í keppnina grunar Beckmesser hver tilgangur hans er, og Walther fellur á prófinu. Enginn meistarasöngvaranna kann að meta söng hans nema skóarinn Hans Sachs. Hann tekur Walther að sér, segir honum dálítið til, og með hjálp hans (svo að ofurhratt sé farið yfir sögu) fær Walther tækifæri til að syngja aftur, og nú fyrir allt fólkið í Nürnberg, sem fellur í stafi af hrifningu og krefst þess að Walther fái sigurlaunin.

Þeir sem hafa reynt að sýna að Meistarasöngvararnir séu andgyðinglegt verk virðast almennt telja að það markmið geti náðst með því að tína til einhver atriði sem eiga að benda til að Beckmesser sé skopmynd af gyðingi. Nákvæmlega hvernig það eitt á að sanna jafnkrassandi fullyrðingar og að gyðingaandúð (anti-semitism) sé „ofin inn í hugmyndafræðilegan vefnað Meistarasöngvaranna“,[29] er aldrei skýrt út.

Allflestir sem reyna að sýna fram á að Beckmesser sé gyðingur gera sér fulla grein fyrir að það er einmitt það sem borgarritari í Nürnberg á miðri sextándu öld hefði ekki með nokkru móti getað verið: Gyðingar höfðu verið gerðir brottrækir úr borginni árið 1499, og hefðu hvort sem er ekki mátt gegna slíkri stöðu fyrir þann tíma, hvað þá eftir. Hvaða merkingu getur það haft að persóna í óperu, sem getur augljóslega ekki verið gyðingur, eigi samt einhvernveginn að vera það? Þegar Charles Rosen (sem var píanóleikari, höfundur margra frábærra bóka um tónlist og lézt í hittifyrra, hálfníræður), skrifaði ritdóm um nýju Grove-alfræðibókina um óperu vék hann að kenningum Barrys Millington um Beckmesser: „Sú staðhæfing Millingtons að Beckmesser, tónlistardómarinn smásmugulegi í Die Meistersinger hafi átt að skiljast sem skopstæling á gyðingi hefur vakið heilmikla eftirtekt, en í henni er einungis litlu meira en korn af sannleika.“[30] Millington brást ókvæða við:

Ég hef aldrei fullyrt að „Beckmesser [í Die Meistersinger] sé gyðingur“, eða að persónan „hafi átt að skiljast sem skopstæling á gyðingi.“ Það sem ég hef haldið fram, í langri grein með ítarlegum heimildum í Cambridge Opera Journal (nóvember 1991) er að „gyðingaandúð sé ofin inn í hugmyndafræðilegan vefnað Die Meistersinger og að framsetning Beckmessers feli í sér andgyðingleg einkenni svo að ekki verði um villzt.“ Niðrandi framsetning Rosens misþyrmir fullyrðingu minni næstum jafnafkáralega og Beckmesser misþyrmir söng Walters í óperunni.[31]

En hver, með leyfi, er nákvæmlega munurinn á að halda því fram að persóna í leikverki sé gyðingur og því að hún hafi nógu marga gyðinglega (eða „andgyðinglega“) eiginleika til að ekki verði um villzt að það eigi að skilja hana sem gyðing? Eins og Rosen segir (raunar í allt öðru samhengi) í upphaflegu greininni, þá er rétt eins og Millington ímyndi sér að Beckmesser sé raunveruleg manneskja, en ekki persóna í leikverki. Sama virðist gilda um miklu fleiri sem líta á Beckmesser sem einhverskonar gyðing, en þó ekki. Hugsa þeir sér að hann sé ekki gyðingur samkvæmt fæðingarvottorði, en leiki gyðing á sviðinu? Hættir hann því þegar hann er ekki að koma fram í óperunni? Andsvar Rosens við umkvörtun Millingtons var einfalt: „Annaðhvort fullyrðir Millington að samtímamenn Wagners hefðu átt að skilja Beckmesser sem skopstælingu á gyðingi, eða hann gerir það ekki.“

Áður en við lítum á nokkra af þeim eiginleikum sem sagt er að geri Beckmesser að (einhverskonar?) gyðingi skulum við líta á eitt atvik sem á að sanna, svo að ekki verði um villzt, að Meistarasöngvararnir séu frá upphafi hugsaðir sem þáttur í „stríði Wagners gegn gyðingum“:

Haustið 1861 var Wagner heldur niðurdreginn; fyrr á árinu var hin alræmda Tannhäuser-sýning í París, sem hafði ekki orðið honum til mikillar uppörvunar; allt árið hafði hann verið að gera árangurslausar tilraunir til að fá Tristan settan á svið og var í þann mund að gefast upp. Til að hressa hann við bauð velgerðarfólk hans, Wesendonck-hjónin Matthilde og Otto, honum að hitta sig í Feneyjum. Þar dró Otto Wesendonck hann hálfnauðugan með sér að skoða listaverk víðs vegar í borginni. Í Mein Leben segir Wagner að meðal annars hafi þeir farið í Doge-höllina, sem hann hafi áður aðeins séð að utanverðu:

Þrátt fyrir allt áhugaleysið af minni hálfu verð ég þó að viðurkenna að mynd Tizians af uppstigningu Maríu í stóra Doge-salnum hafði svo magnþrungin áhrif á mig að mér fannst að eftir þennan innblástur [Empfängnis] hefði minn gamli kraftur lifnað við að nýju næstum eins og í einu vetfangi.

Ég ákvað að koma Meistarasöngvurunum í verk.[32]

Er þetta ekki bara dálítið falleg frásögn? Má ekki líta á orð Wagners sem heillandi dæmisögu um lækningarmátt mikillar listar? Hann sér þessa stóru og stórkostlegu mynd; hún opnar augu hans fyrir hverju mikill listamaður fær áorkað, hún dregur hann upp úr þunglyndinu og blæs honum í brjóst kraft og löngun til að skapa sjálfur stórkostlegt listaverk. Uppstigning Maríu er ein frægasta mynd Tizians. Ekki fer á milli mála um hvaða mynd er að ræða; hún er „vissulega bezta myndin á Ítalíu“, sagði Oscar Wilde um hana á sínum tíma. Núna, eins og upphaflega, er hún í kirkjunni Basilica di Santa Maria Gloriosa dei Frari í Feneyjum, en á árunum 1818 til 1919 var hún geymd í safni Listaakademíunnar í Feneyjum, Gallerie dell’Accademia.

En Ulrich Drüner sér í þessari frásögn myrkan og óhugnanlegan boðskap: [33] Í augum hans sýnir hún að með Meistarasöngvurunum hafi Wagner að nýju „hafið krossferð gegn gyðingum“. Og hvernig kemst hann að þeirri niðurstöðu? Það sem raunverulega gerist, segir Drüner, er að hér fellur Wagner fyrir holdlegri útgeislun Maríumyndarinnar, og við það endurvaknar hjá honum Maríutilbeiðsla miðalda, en erótískur þáttur þeirrar tilbeiðslu leitaðist við að umbreytast í hatur á þeim sem kvöldu guðsmóðurina, nefnilega á gyðingum. Þetta útskýrir (skýrir Drüner út fyrir okkur) hvers vegna Wagner talar um gamlan kraft. Frásögnin sannar svo að ekki verður um villzt að í Meistarasöngvurunum eru djöflar miðalda vaktir upp gegn Beckmesser.

Nú er það svo að Wagner átti til að fegra æviatriði sín dálítið, þannig að þau komi betur út fyrir hann sjálfan, og þessi saga er kannski einum of falleg til að því sé treystandi að hún sé allskostar rétt. Það getur hún reyndar alls ekki verið í öllum atriðum, því að Maríumyndin var, eins og áður sagði, alls ekki í Doge-höllinni, heldur í safni Listaakademíunnar, og þar hefur Wagner séð hana. Þeir sem sáu um fyrstu opinberu útgáfuna af Mein Leben, sem birtist ekki fyrr en 1911 og var ritskoðuð af Wagner-fjölskyldunni, breyttu „Dogenpalast“ í „Kunstakademie“ og slepptu orðunum „im großen Dogensaale“, af því að þeir hafa séð að frásögnin stóðst ekki. Drüner getur sér þess til í athugasemdum við tilvitnunina í bók sinni að Wagner sé að tala um einhverja mynd sem sé „lík“ myndinni í Listaakademíunni, en hvernig í ósköpunum ætti slík mynd að vera? Víst er að enga slíka mynd er að finna í stóra Doge-salnum. Við getum því gengið útfrá að Wagner hafi misminnt um staðsetningu myndarinnar, og er þá ekki eins víst að frásögnin sé ótrúverðug í fleiri atriðum? Í sporum Drüners mundi ég ekki þora að byggja hátimbraðar kenningar á henni. En kannski skiptir það engu máli, því að útlagning Drüners er hvort sem er hreinn heilaspuni hans sjálfs. Hann skáldar upp orsakasamhengi sem getur ekki átt sér neinn stað í raunveruleikanum og virðist ekki gera sér grein fyrir hve fráleitt það er: Nákvæmlega hvernig eigum við að ímynda okkur að miðaldatengslin sem hann gengur útfrá hafi verkað? Verka þau með yfirnáttúrlegum hætti gegnum rúm og tíma, eða eigum við að gera ráð fyrir að Wagner hafi drukkið í sig miðaldasögu svo rækilega að hún hafi komið sér svo fyrir í sálarfylgsnum hans að hún stjórni öllum hans gerðum? Eigum við þá að gera ráð fyrir að í hvert sinn sem Wagner horfði á Maríumynd hafi kviknað hjá honum þörf til að hefja krossferð gegn gyðingum, eða var það bara í þetta eina skipti? Og hvers vegna ætti þetta bara að eiga við um Wagner, ættu Maríumyndir þá ekki almennt að vekja upp fyrirætlanir um krossferðir gegn gyðingum hjá hverjum sem er? Þetta minnir helzt á brandara úr einni kvikmynd Woodys Allen [34] um manninn sem getur ekki hlustað mikið á tónlist eftir Wagner, af því að hún vekur hjá honum löngun til að leggja undir sig Pólland. Munurinn er sá að Allen veit að hann er að segja brandara, en Drüner ekki.

Ilmur og óþefur

Flestar röksemdir sem eiga að sýna að Beckmesser sé gyðingur (eða þannig séð) eru á þessa leið: Sagt er að hann hafi einhvern tiltekinn (yfirleitt neikvæðan) eiginleika sem á að hafa verið eignaður gyðingum og er annaðhvort sagður vel þekktur úr andgyðinglegum hatursskrifum, oftast allt frá miðöldum, eða er jafnvel tiltekinn í riti Wagners Das Judentum in der Musik. Af því er svo sú ályktun dregin að Beckmesser hljóti að vera gyðingur. Þetta er auðvitað einföld rökvilla: Þótt, svo dæmi sé tekið, sagt hafi verið að gyðingar séu sídeplandi augunum er ekki þar með sagt að hver sá sem deplar augunum sé gyðingur, ekki frekar en sú staðreynd að allir þorskar synda í sjó leyfir okkur að álykta að hver sem syndir í sjó sé þorskur. (Barry Millington telur það til „andgyðinglegra einkenna“ Beckmessers að á einum stað í Meistarasöngvurunum segir að Beckmesser depli augunum vandræðalega, nefnilega þegar Eva Pogner snýr sér undan í stað þess að gefa hneigingu hans fyrir henni gaum.[35])

Sá sem hefur verið einna iðnastur við að halda fram „andgyðinglegum einkennum“ persóna í Wagner-óperum er Marc A. Weiner, prófessor í þýzkum fræðum, kvikmyndafræði og samanburðarbókmenntafræði við Indiana-háskólann. Hann hefur skrifað heila bók um efnið,[36] sem hlaut verðlaun, Eugene M. Kayden National University Press Book Award, fyrir „beztu bókina í hugvísindum“ árið 1995. Í bókinni tínir hann til ýmsa eiginleika sem hann segir að gyðingum hafi verið eignaðir fyrr á öldum og reynir að sýna (eða kannski bara staðhæfa) að ýmsar persónur í óperum Wagners hafi þessa eiginleika. Einn kafli fjallar um augu, annar um rödd, enn annar um fætur. Við skulum líta á kaflann um óþef og ilm. Kaflinn er að stofni til grein sem Weiner birti í tímariti undir titlinum Nef Wagners og hugmyndafræði skynjunarinnar.[37] Það mætti ætla að hér sé nú aldeilis feitan gölt að flá, því að nef Wagners er örugglega rannsóknar virði. Rifjum upp að hann þurfti að hafa allt angandi í kringum sig þegar hann var að semja tónlist; baðker með amburolíum beint fyrir neðan vinnuherbergið svo að ilmurinn gæti stigið upp. Ritgerð Weiners lítur á yfirborðinu út fyrir að vera fræðilega vel unnin, 25 blaðsíður með rúmum tveimur blaðsíðum af eftirmálsgreinum og tilvísunum.

Kenning Weiners í greininni og bókarkaflanum er sú að í óperum Wagners getum við þekkt persónur sem eiga að vera gyðingar á því að þær lykti illa, en germönskum persónum „tengist ljúfur ilmur“. Við fáum langan og að því er virðist lærðan kafla sem útlistar hvernig Wagner hljóti að byggja á fornum miðaldakenningum, en líka nýjum, um sérstaka ólykt af gyðingum, foetor judaicus upp á latínu. Weiner rekur dæmi um hvernig aðalpersónur í verkum Wagners syngja um ljúfan ilm, Tannhäuser syngur um „holde Düfte“, Lohengrin um „süße Düfte“, Isolde um „wonnige Düfte“. „Germönsku“ persónurnar verða að láta sér nægja að anda að sér ilmi, væntanlega af því að Weiner finnur engin dæmi þess að þær ilmi sjálfar, þótt síðar í greininni tali hann um að germanskt samfélag í óperum Wagners ilmi sætlega. Kannski áttar Weiner sig á að rómantísk orð um ljúfan ilm séu ekkert einsdæmi í rómantískum kveðskap og að varla sé nýstárlegt að benda á það, og auðvitað getur hann ekki leyft okkur halda að Wagner eigi það til að fjalla sakleysislega um eitthvert efni. Þess vegna trúir hann okkur fyrir því leyndarmáli að ljúfur ilmur hjá Wagner tengist sifjaspellum [38]. Ekki er skýrt hvernig. Sifjaspell eru auðvitað partur af söguþræðinum í Niflungahringnumæðn Spießbjaspell eru nn.“erið eignaðir fyrr persönlichen Ausdruck gab.

chen Spießb (og kannski afar óbeint annarsstaðar), en kenningin um tengsl ilms við þau gengur illa upp, til dæmis er erfitt að sjá hvernig það á að gerast í dæminu úr Lohengrin, sem Weiner ræðir í bókinni einmitt rétt áður en hann setur kenninguna fram. Þegar hann svo löngu seinna talar um sönginn sem Hans Sachs syngur í öðrum þætti Meistarasöngvaranna um ilminn af yllinum, þá hefur ilmur fengið allt annað hlutverk, en ekki síður skuggalegt. Í frægri einræðu í þriðja þætti veltir Sachs fyrir sér hvað geti valdið ófriðaræði sem rennur á mannfólkið eins og í götuslagsmálunum sem brutust út kvöldið áður (í lok annars þáttar), þar sem Beckmesser varð fyrir barsmíðum, og svarar sjálfum sér eins og út í hött, af því að hann finnur enga skýringu:

Hrekkjaálfur hefur víst hjálpað til: —
Glóormur fann ekki maka sinn,
hann hefur valdið skaðanum.
Það var yllirinn: — Jónsmessunótt!

Weiner þarf ekki meira til að álykta sem hér segir: „Með töfrailmandi andblæ hefur yllitréð losað Þýzkaland undan ósvífnum óvini sínum, og illur andi Nürnberg-borgar, hinn djöfullegi Beckmesser, hefur verið særður burt.“[39]

Hann kemst hins vegar í nokkurn bobba þegar finna á dæmi um illa lyktandi gyðinga í óperunum, því að sönnunargögnin láta dálítið á sér standa: Weiner getur aðeins nefnt þrjú dæmi sem honum hefur tekizt að grafa upp í öllum óperum Wagners til samans. Fyrsta dæmið er að Rínardóttirin Wellgunde kallar Alberich Schwefelgezwerg, brennisteinsdverg, sem Weiner álítur að þýði að Alberich lykti illa, og raunar allir Niflungar, því að seinna sé minnzt á Schwefeldampf, brennisteinsgufu, þegar Óðinn og Loki stíga niður til Niflheima. Dæmi númer tvö er að Siegfried neitar að borða matinn sem Mímir eldar handa honum. Hvernig getur það verið dæmi um illa lyktandi gyðing? Jú, Weiner segir að það sé af því að maturinn sé bragðvondur, og hjá Wagner þýði óbragð ávallt ólykt líka. Ekki veit ég hvaðan sá vísdómur kemur (Weiner nefnir engin önnur dæmi); en í texta óperunnar er hvorki minnzt á óbragð né ólykt. Ég játa að ég á erfitt með að sjá að þetta seinna dæmi komi ólykt nokkuð við, og hef miklar efasemdir um hið fyrra líka. Áður en ég kem að þriðja dæminu ætti ég, svo að allrar sanngirni sé gætt, að nefna enn eitt dæmi sem Weiner tilgreinir, en mér finnst ekki eiga hér heima, því að það er ekki beinlínis úr óperu, heldur frásögn af hvað Wagner á að hafa sagt á æfingu á Rínargullinu árið 1876. Weiner lýsir þessu svo: Þegar Carl Schlosser, sem söng Mími, gat ekki „haltrað um“ og klórað sér á bakinu nægilega trúverðuglega á Wagner að hafa sagt: „Þú getur teygt úr bakklórinu og klórað þér á rassinum af hjartans list! Pikkólóflautan hefur hvort sem er svo grunsamlega smátrillu.“ Ég læt lesandanum eftir að dæma hvort þetta sýnir að Wagner hafi hugsað sér að Mímir lykti öðruvísi en „germanir“.

[Í grein sinni um nef Wagners frá árinu 1989 tekur Weiner tilvitnunina beint upp úr ævisögu Wagners eftir Gregor-Dellin[40] og hefur á þýzku: „Sie können das Streichen des Rückens schon weiter ausdehnen und sich herzhaft am Arsch streichen! Die Piccolo-Flöte hat ohnedies so verdächtige Trillerchen.“ Hér er sagt að Mímir strjúki á sér bakið. Þegar Weiner birti svo bók sína árið 1995 vitnar hann í enska þýðingu ævisögunnar, þar sem beina tilvitunin er stytt og það sem á vantar endursagt; þar er talað um að Mímir nuddi á sér bakið [rubs his back];[41] Weiner vitnar til þeirrar þýðingar, en birtir sína eigin („I have modified this translation.“): „You can extend the scratching of your back and heartily scratch your ass! The piccolo flute has such suspicious little trills anyway.“ Hér klórar Mímir sér á bakinu. Weiner segir þessa frásögn koma frá Heinrich Porges (eins og einnig er gefið í skyn hjá Gregor-Dellin). Porges skrifaði bók um sviðsæfingarnar fyrir frumflutning Niflungahringsins 1876. Þar er þessa lýsingu þó ekki að finna, enda virðist hún heldur vera komin úr dagbókum hljómsveitarstjórans Felix Mottl,[42] sem sá um píanó­æfingarnar. Þar er þó (ranglega) talað um óbó í stað pikkólóflautu. Í raddskrá Rínargullsins stendur um Mími: „Er streicht sich den Rücken“ [„Hann strýkur sér um bakið“]. Þá er Alberich nýbúinn að hýða Mími með svipu, og því hlýtur Mímir að vera að strjúka sér um aumt bakið ofurvarlega meðan hann segir Óðni og Loka frá hýðingunni, en þeir bresta í hlátur. Rétt er að löng trilla heyrist í pikkólóflautu: Það er hluti af (og drukknar dálítið í) hláturskasti allrar hljómsveitarinnar, sem tekur undir með þeim Óðni og Loka. Hvergi segir að Mímir sé að „haltra um“ [hobble about]. Því hefur Weiner væntanlega bætt við frá eigin brjósti, því að eitt af þeim „andgyðinglegu“ einkennum sem hann vill troða upp á meinta gyðinga í óperunum er að þeir haltri, og eins gott er að búa sönnunargögnin til ef þau finnast ekki öðruvísi.]

Og þá kemur að þriðja dæminu, sem á að snerta Beckmesser. Ég undanskil athugasemd Weiners um að í Meistarasöngvurunum sé látið að því liggja að Beckmesser hafi þörf fyrir gott bað, því að eftir því sem ég fæ bezt séð er það hreinn uppspuni, enda engin tilvísun gefin í texta óperunnar. Þriðja dæmið er því einungis eftirfarandi: Þegar Eva heimsækir Sachs á skósmíðaverkstæði hans í öðrum þætti óperunnar og kemst að því að hann sé að gera skó handa Beckmesser segir hún: „Settu bara í þá nóg af tjöru svo að hann límist fastur í þeim og láti mig í friði!“. Skömmu seinna segir hún við Magdalenu: „Ég er alveg að koma! […] Hér er tjörulykt, svo hjálpi mér guð.“ Hér, segir Weiner, er Eva að tala um ýldulykt [rotten smell] af tjöru og ekki bara að vísa til Sachs, heldur Beckmessers líka. Og hér hef ég rakið allt þriðja dæmið! Allar hinar miklu og lærðu orðræður um foetor judaicus vísa bara til þess að það stendur til að Beckmesser fái nýja skó. Það er aldrei minnst á neina aðra lykt sem tengist Beckmesser. Weiner minnist ekki á að í þriðja þætti segir Sachs um sjálfan sig að hann lykti af tjöru; er hann þá ekki gyðingurinn? Nei, rökin mega alls ekki eiga við hann, því að það er ekki það sem Weiner vill að komi út. Sömuleiðis hlýtur aðferð Weiners að sýna að allir karlkyns viðskiptavinir skóarans séu gyðingar; en aftur er það ekki ályktun sem hann kærir sig um. (Fyrir kvenskó notar Sachs ekki tjöru, heldur vax, sem gefur Wagner tilefni til að ríma orðin „Sachs“ og „Wachs“ látlaust gegnum alla óperuna.)  Svo leyfir Weiner sér að tala um ólyktina af Beckmesser [Beckmesser’s stench] eins og hún sé eitthvað sem honum hefur tekizt að sýna fram á, þótt hún geti ekki verið annað en venjuleg lykt af glænýjum skóm.

Þótt meint dæmi um ólykt í óperum Wagners séu ekki fleiri er grein Weiners ekki alveg búin; hann á eftir að tala um Parsifal, en þar eiga Kundry og Klingsor að vera gyðingarnir hötuðu. En nú bregður svo við að bæði Kundry og blómastúlkur Klingsors ilma bara ágætlega. Kollvarpar þetta ekki kenningunni? Nei, engan veginn, segir Weiner, og það er engu líkara en hann hafi sjálfur verið á staðnum til að anda að sér lyktinni. Þetta er, segir hann, af því að þær hafa brugðið yfir sig ilmgrímu [olfactory mask]. Í fyrri verkum Wagners var óþefur af gyðingum, segir Weiner (og við höfum nú þegar greint frá öllu því sem hann hefur fram að færa til að styðja þá fullyrðingu), en nú bregða gyðingarnir yfir sig „sjúklega sætri lykt veraldar sem er í órafjarlægð frá angan hreinlífis og háleitra hugsjóna“. Það eru orð Weiners, og þau falla af sjálfsdáðum niður í hyldýpi fáránleikans; það þarf ekki mína hjálp til að ýta þeim fram af brúninni. En ég vil samt fá að bæta við að ég hef sjaldan séð jafnmetnaðarfullar markmiðsyfirlýsingar lyppast niður í jafnaumingja­legu rökþroti og í þessu mesta afreki hugvísindanna í Bandaríkjunum árið 1995.

Gamaldags mansöngur

Eitt af því sem stundum er haldið fram er að söngstíll Beckmessers eigi að minna á staðalímyndir af tali og söng gyðinga. Í fyrstu Beckmesser-grein sinni eyðir Barry Millington þremur blaðsíðum [43] í að tala um hebresku, jiddísku og Mauscheln (það orð var notað um jiddískt tal, oft í niðrandi tóni, og kannski stundum um jiddískumælandi gyðinga að tala þýzku); ég veit ekki til hvers, því að Beckmesser talar ævinlega óaðfinnanlega þýzku (ef við lítum framhjá því að ljóðformið þvingar Wagner oft til að nota dálítið óeðlilega og klaufalega setningaskipan, bæði hjá Beckmesser og öðrum persónum), enda nefnir Millington engin dæmi um annað. Samt talar hann um að Beckmesser „einkennist“ af „skemmdu málfari“ [damaged language], en það er óútskýrt og mér hulin ráðgáta hvað átt er við. Annað sem á að tilheyra staðalímynd gyðinga er að þeim liggi hátt rómur; og Millington segir (bls. 256) að hlutverk Beckmessers sé skrifað [designated] fyrir bassa, en liggi svo hátt að jafnvel baríton eigi oft erfitt með það; og að hátt tónsvið eigi að aðskilja gyðinga frá germönum í óperum Wagners. En Beckmesser er einfaldlega baríton-hlutverk, þótt vissulega standi „bassi“ við hlutverkið fremst í raddskránni. En það skýrist af því að Wagner kallar öll karlhlutverkin í óperunni annaðhvort bassa eða tenór án frekari aðgreiningar, þótt þau hafi ólík tónsvið; það virðist einungis fara eftir því hvort hlutverkið er skrifað í bassalykli eða tenórlykli. Bakarinn Kothner hlýtur líka að teljast baríton-hlutverk enda í svipaðri tónhæð og Beckmesser. Hlutverk Hans Sachs liggur einnig hátt; hann er gjarnan flokkaður sem bassa-baríton. Beckmesser þarf einu sinni að syngja hátt (einstrikað) a, nefnilega þegar hann fer dansandi út úr verkstæði Sachs í þriðja þætti; allar aðrar háar nótur hlutverksins þarf Sachs líka að syngja (en ekki nándar nærri jafnoft). Wagner hefur almennt tilhneigingu til að halda söngvurum á tiltölulega háu tónsviði í langan tíma þegar þeim á að vera mikið niðri fyrir; til dæmis Tristan í lokaþættinum úr Tristan og Ísold; samt hefur mér vitanlega ennþá engum dottið í hug að halda því fram að það geri Tristan að gyðingi.

Eitt helzta sönnunargagnið í röksemdafærslunni fyrir gyðingdómi Beckmessers er mansöngur hans eða kvöldlokka í öðrum þætti. Því er haldið fram að hún sé skopstæling á söng gyðinga. Oftast er þá tínt til að Cosima Wagner nefnir í dagbók sinni 14. marz 1870 að samkvæmt „tónlistarblaðinu“ eigi gyðingar að hafa breitt út þann orðróm að kvöldlokkan sé skopstæling á gömlu sönglagi gyðinga, og að það skýri lætin á sýningunni í Vínarborg (sem við nefndum hér á undan). En þetta eru augljóslega viðbrögð hennar við frétt í Neue Zeitschrift für Musik frá 11. marz, þar sem segir að með alveg sérstökum klókindum [ganz besonderem Raffinement] hafi sú ranga [irrthümliche] frétt verið breidd út að kvöldlokkan byggist á gyðinglegu lagi og tónskáldið hafi valið það til að hæða gyðinga og tónlist þeirra.[44] Aldrei hefur verið bent á hver fyrirmyndin að þessari meintu skopstælingu hefði átt að vera. Barry Millington telur að frekar eigi að leita fyrirmyndar í söng kantoranna í bænahúsum gyðinga, og hann tilgreinir ákveðna fyrirmynd í „Nuremberg“-grein sinni.[45] Hann telur að með því að hafa nóturnar að hvoru tveggja til samanburðar sé varla unnt að efast um að um skopstælingu sé að ræða.

Hér er þá fyrsta erindið í kvöldlokku Beckmessers:

Og hér er fyrri helmingurinn, svona um það bil, af dæmi Millingtons (seinni helmingurinn skiptir engum sköpum fyrir samanburðinn):

Fyrstu viðbrögðin við þessum dæmum hljóta að vera að þau séu alveg gerólík og eigi varla neitt sameiginlegt. En Millington segir að auðvitað eigi ekki að bera saman laglínurnar, heldur eigum við að horfa á langt kveinstafakennt [wailing] söngflúrið; rof hrynjandinnar vegna hvílda í lok hendinga; „víxlsöng“ [antiphony], eins og hann kallar það (lútutónflúri er skotið inn milli hendinga í kvöldlokku Beckmessers; kantornum svarað af kór eða söfnuði — í dæminu eiga hljóðfærainnskot að koma í stað kórsins); og að lokum hátt tónsvið. Þessu má svara þannig: Söngflúrið í hressilegri kvöldlokku Beckmessers minnir sízt af öllu á kveinstafi og er auk þess gjörólíkt því sem er í dæmi Millingtons; það líkist raunar ekki heldur söngflúri í ítalskri óperuaríu, þótt því hafi líka verið haldið fram.[46] Hvíldir í lok hendinga koma víða fyrir í ýmsum tegundum söngs, ekki bara gyðinglegum. Nærtækt er að taka dæmi af lúterskum sálmalögum, þar sem slíkar hvíldir eru algengar, og þá sér í lagi sálmalaginu sem fyrsti þáttur Meistarasöngvaranna hefst á: Ef kenning Millingtons ætti að ganga upp, þá ætti guðsþjónustan í Katrínarkirkjunni í Nürnberg að vera skopstæling á helgiathöfnum í bænahúsum gyðinga, því að í sálminum eru hvíldirnar langar, og ekki vantar að „víxlsöng“ frá hljómsveitinni sé skotið inn á milli hendinganna; en sú ályktun hentar ekki. Loks liggur kvöldlokka Beckmessers ekki tiltakanlega hátt. Hæsta nóta hennar er heilli ferund undir hæstu nótu kantorsins í dæmi Millingtons. Niðurstaðan er að enginn fótur er fyrir því að kvöldlokka Beckmessers eigi sér fyrirmynd í söng gyðinga, hvorki í einstökum sönglögum né í almennri hefð.

Enda er ekki tiltakanlega erfitt að átta sig nokkuð vel á kvöldlokkunni á allt öðrum forsendum. Fyrst getum við borið hana saman við annað sönglag í sömu óperu, nefnilega söng Davids í þriðja þætti. Það er partur af prófi hans hjá Sachs sem færir honum sveinsnafnbót:

Þótt laglínan sé önnur og söngur Davids sé ekki jafnflúrskreyttur og kvöldlokka Beckmessers er ljóst að stíllinn er næsta keimlíkur. Raunar bendir Wagner okkur beinlínis á það þegar hann lætur David rugla þessum tveimur lögum saman og byrja að syngja kvöldlokkuna í stað síns eigin lags. Og hvað eiga þessi lög sameiginlegt? Þau eru fyrst og fremst gamaldags. Meistarasöngvarinn Beckmesser fer að sjálfsögðu eftir öllum settum reglum, og David, lærlingurinn iðni, hefur lært sínar reglur fullkomlega (eins og hann útlistar í löngu máli í fyrsta þætti óperunnar) þannig að söngvarnir verða að vísu ekki eins, en afar keimlíkir. Og hvernig fer Wagner að því að láta lögin hljóma gamaldags? Hann lætur þau minna á barokktónlist. Hann sjálfur hafði örugglega kynnt sér nótur af meistarasöng frá sextándu öld í þeim heimildum sem hann notaði, og var raunar alls ekki ókunnugur tónlist frá eldri tímaskeiðum en barokktímanum — hafði til dæmis séð um útgáfu á Stabat mater eftir Palestrina — þótt hann hafi kannski ekki sökkt sér jafndjúpt í að kanna forna tónlist og höfuðandstæðingur hans í tónskáldastétt, Johannes Brahms. En hann gat varla búizt við að áheyrendur á hans tíma þekktu vel til miklu eldri tónlistar en tónlistar Bachs, og auðvitað gat hann ekki farið að setja brandara inn í óperuna sem enginn gat skilið nema Brahms, svo að hann valdi að setja barokk-blæ á þessa söngva. Hrynjandin (sjá hér fyrir neðan) í lögunum minnir á barokk-tímann (sjá til dæmis Gavotte II í hljómsveitarsvítu nr. 3 í D-dúr eftir Bach), og er ekki einhvernveginn eins og þau séu sprottin af sama meiði og þessir tveir lagstúfar úr Bændakantötu Bachs?

Hrynjandinn

En það er að fleiru að hyggja. Afar áberandi í kvöldlokkunni eru tónarnir á orðunum „scheinen“ og „einen“. Tökum eftir að þeir eru líka upphafstónar þess leiðarfrymis í óperunni sem hefur verið kallað Liebeswerben-Motiv, sem í beinni og klunnalegri þýðingu yrði „ástarbiðlunarfrymi“:

Tökum líka eftir að þessir tónar mynda uppistöðuna í söngflúrinu skringilega sem við heyrum seinna í laginu, röð af fallandi ferundum sem þokast niður um tvíund í hverju þrepi. Slíkar ferundaraðir koma oft fyrir í stefjum Wagners; Liebeswerben-stefið hefst á tveimur slíkum ferundum. Annað þekkt dæmi er stef úr lokaatriði óperunnar Siegfried, þar sem Brynhildur og Sigurður Fáfnisbani syngja eldheitan ástaróð hvort til annars; þetta stef hefur verið kallað Liebesbund-Motiv, eða ástarsambandsfrymi, og Wagner notaði það aftur í Siegfried Idyll, sem var hugsað sem ástaróður til konunnar hans, Cosimu. Það hefst á þremum fallandi ferundum:

Mörg fleiri dæmi mætti telja. Öll eða að minnsta kosti allflest þau stef og stefjafrymi Wagners sem byggjast með þessum hætti á röð af fallandi ferundum virðast tengjast ástinni með einhverjum hætti. Er þá ekki komin ósköp blátt áfram en eðlileg skýring á kvöldlokku Beckmessers? Hann er einfaldlega ástfanginn, og kvöldlokkan er ekkert annað en eldheitur ástarsöngur, bara dálítið klaufalegur og ósköp gamaldags.

Gyðingurinn í þyrninum

Endloser Grimm!
Ewiger Gram!
Die Walküre, 2. þáttur

Mér finnst ég verði að nefna eitt dæmi enn, vegna þess að tveir gagnrýnendur, Charles Rosen og Thomas-Mann-sérfræðingurinn Hans Rudolf Vaget, sem eru venjulega ekki ginnkeyptir fyrir gervirökum, hafa með semingi viðurkennt að eitthvað sé til í því, og Vaget meira að segja skrifað um það heila grein.[47] Það er dæmið um gyðinginn í þyrnirunnanum. Þetta er sú kenning að í prófsöng Walthers í fyrsta þætti Meistarasöngvaranna megi lesa tilvísun í eitt af ævintýrum Grimm-bræðranna, nefnilega ævintýrið Der Jude im Dorn (Gyðingurinn í þyrninun) og sú tilvísun ein á að nægja til að setja gyðingastimpil á Beckmesser. Ég ætla ekki að endursegja ævintýrið allt, en í því segir frá pilti sem eignast töfragripi, byssu sem hittir allt sem hann miðar á og fiðlu sem fær hvern þann til að dansa sem á hana hlýðir. Pilturinn gengur fram á gyðing sem er að hlusta á syngjandi fugl á trjágrein. „Ef ég bara ætti þennan fugl!“ hrópar gyðingurinn. Pilturinn tekur upp byssuna og skýtur á fuglinn, sem fellur niður í þyrnigerði. Gyðingurinn skríður inn í þyrnigerðið til að ná í fuglinn. Þá tekur pilturinn upp fiðluna og leikur á hana og gyðingurinn neyðist til að dansa inni í þyrnigerðinu, þyrnarnir rífa föt hans og hann sjálfan þangað til hann lofar piltinum að gefa honum poka fullan af gulli. Gyðingurinn ber það svo seinna á piltinn að hann hafi stolið gullpokanum. Pilturinn er dæmdur til hengingar, en fær fyrst að leika á fiðluna; allir viðstaddir, þar á meðal dómarinn og gyðingurinn, neyðast til að dansa þangað til gyðingurinn gefst upp og játar að hafa sagt rangt frá; og hann er svo hengdur í staðinn fyrir piltinn. Þetta er flökkusaga sem er til í ýmsum gerðum; í sumum hinna eldri er munkur í stað gyðings; í öðrum er það kölski sjálfur.

Aftur virðist það hafa verið Adorno sem kveikti hugmyndina í kollinum á fólki, án þess þó í þetta sinn að hafa haldið henni fram sjálfur. Í Versuch über Wagner minnist hann á þetta ævintýri; hann talar um sadistískt skopskyn Wagners, sem hann segir að fari svo illa með þorparana í óperum sínum að það minni á söguna um gyðinginn í þyrnirunnanum; Adorno segir ekkert um að Wagner sjálfur sé að vísa í þetta ævintýri, en heldur því hins vegar fram (án þess, að því er virðist, að hafa neitt fyrir sér) að það hafi verið honum kært. Enginn hefur mér vitanlega gengizt við að hafa fengið hugmyndina. Bæði Karl A. Zaenker og Barry Emslie segja að upphafsmaðurinn hafi verið Thomas Mann og vísa í bréf sem Mann skrifaði Emil Preetorius 6. desember 1949.[48] En það er rangt, því að þar stendur ekkert um gyðinginn í þyrninum nema eftirfarandi setning: „Getið þér ennþá þolað leikhúshyggindi Hans Sachs, gæsina, Evu litlu geðþekku, „gyðinginn í þyrninum“, Beckmesser?“[49] Hér stendur ekkert um að Wagner hafi vísað í ævintýrið, heldur er Mann augljóslega sjálfur að vísa í bók Adornos, sem var að vísu ekki komin út á þessum tíma, en Mann hafði árið 1944 lesið þá fjóra kafla hennar sem áður höfðu birzt.[50] Barry Millington segir hugmyndina komna frá Egon Voss og vísar í ritgerð eftir hann.[51] En þar er heldur ekkert annað að finna en enduróm frá Adorno: „Hann [Beckmesser] tekur ekki eftir að hann er farinn að garga frekar en syngja til að yfirgnæfa hamarshöggin, og er að lokum eins og undir þrýstingi að ljúka söng sínum, hvað sem það kostar, alls ekki ólíkt gyðingnum í þyrninum, sem gat ekki hætt að dansa — eins og Grimm-ævintýrið segir frá — meðan leikið var á fiðluna.“[52]

Mér virðist einsýnt, þar til annað kemur í ljós, að hugmyndin birtist fyrst í „Nuremberg“-grein Millingtons. Hann bendir á að orðið Dornenhecke komi tvisvar fyrir í prófsöng Walthers í fyrsta þætti Meistarasöngvaranna. Þegar Walther er búinn að syngja um vorið og fuglakvakið heyrir hann Beckmesser inni í merkjaraklefa sínum kríta látlaust á töflu sína. Þá syngur hann:

In einer Dornenhecken
von Neid und Gram verzehrt,
mußt’ er sich da verstecken
der Winter, grimmbewehrt.

Inni í þyrnigerði,
tærður af öfund og gremju
varð hann að fela sig,
veturinn, brynjaður [eða vopnaður] grimmd.

Og seinna, þegar Beckmesser hefur komið fram úr klefanum, allir meistararnir nema Sachs hafa hneykslazt með honum á söng Walthers, en Sachs fær Walther til að ljúka við sönginn, þrátt fyrir mótmæli hinna meistaranna, þá syngur Walther:

Aus finst’rer Dornenhecken
die Eule rauscht hervor,
tät rings mit Kreischen wecken
der Raben heis’ren Chor:

Úr myrku þyrnigerði
þýtur uglan fram
og vekur með gargi
hásan hrafnakórinn allt um kring.

Millington heldur því fram að hér sé Wagner vísvitandi að vísa í ævintýrið, og það á svo (með einhverjum dularfullum hætti) að sanna að Wagner hafi gefið Beckmesser einkenni gyðinga. Meginrökin eru að orðið „grimmbewehrt“, sem ég hef þýtt lauslega sem „brynjaður [eða vopnaður] grimmd“, sé orðaleikur og megi einnig lesa „Grimm-bewährt“, nefnilega „Grimm-vottaður“, og þá í merkingunni „eins og Grimm-bræðurnir hafa vottað (eða staðfest)“. „Enginn,“ segir Millingon, „sem er kunnugur ritstíl Wagners getur í alvöru gefið í skyn að orðaleikurinn sé tilviljun.“ Auk þess bendir hann á að í ævintýrinu fljúgi fugl inn í þyrnigerðið (sem er að vísu alls ekki rétt hjá honum), en í söng Walthers fljúgi fugl út úr því, og loks að Walther stökkvi upp á stól þegar hann syngur seinna erindið og horfi niður á meistarana, rétt eins og pilturinn í ævintýrinu horfir niður á mannfjöldann frá gálgapallinum. 

Eftir að hafa brotizt í gegnum marga Wagner-texta, sem skrifaði í fræðilegum skrifum sínum einhverja tyrfnustu, knúsuðustu, þunglamalegustu og torræðustu þýzku sem völ er á, og jafnvel reynt að þýða ýmis brot úr þeim, tel ég mig vera nægilega kunnugan ritstíl Wagners til að fullyrða að orðaleikir á borð við þann sem hér er verið að reyna að þröngva upp á hann eiga sér fáar hliðstæður ef þá nokkrar í ritum hans. Orðin „bewehrt“ og „bewährt“ hafa ekki sama framburð; annað er nokkurnveginn með i-hljóði, hitt nokkurnveginn með e-hljóði. Ég reyndi að finna einhverja hliðstæðu á íslenzku við þannan meinta orðaleik „bewehrt-bewährt“ en kom í fljótu bragði ekki upp með neitt skárra en að hann sé álíka sannfærandi og að skilja eigi orð Grettis-sögu „Orða sinna á hver ráð“ sem orðaleik og höfundur sögunnar ætlist til að lesendur skilji setninguna sem „Orðasenna á hver ráð“ og beri því að túlka þannig að orðaskak taki öll ráð af þeim sem í deilum standa.

En eins og vant er hafa margir þessa tilgátu Millingtons eftir honum sem heilagan sannleik. Það vekur þó athygli að þeir eru yfirleitt ekki þýzkumælandi. Vaget sem, eins og áður sagði, tekur undir að Wagner sé meðvitað að vísa í ævintýrið (þótt það nægi að hans mati ekki til að sanna „andgyðinglegt innihald“ óperunnar), telur að Millington „skjóti yfir markið“ með því að halda fram þessum „tilgerðarlega“ [angestrengt] orðaleik.[53] Dieter Borchmeyer, sem viðurkennir ekki neina slíka tilvísun, segir að með þessum meinta orðaleik sé textatúlkun Millingtons orðin að „óviljandi sjálfsskopstælingu“ og endi í fáránleika.[54]

Millington hefði kannski átt að treysta þýzkumælandi fræðimönnum betur en sjálfum sér fyrir að dæma um þýzka orðaleiki; í staðinn brást hann ókvæða við, kallar grein Borchmeyers „stórfurðulega“ [extraordinary], segir hann inna af hendi „rökfræðileg kraftaverk“ og „klifra upp á sápukassa til að hrópa“.[55] En í raun hefur Millington ekkert annað andsvar en að Borchmeyer vilji ekki viðurkenna kenninguna um orðaleikinn góða „þótt sannleikurinn blasi við honum“ [even though the truth is staring him in the face]. Ætli þetta sé ekki líka eina hugsanlega svarið sem mætti gefa barninu í ævintýrinu sem segir að keisarinn sé ekki í neinu: „Þú sérð ekki það sem blasir við þér“?

[Margar mistúlkanir texta í Wagner-óperum koma til af því að túlkendurnir hafa ekki gott vald á þýzku. Orðin „Ehrt eure deutschen Meister“ í lokaatriði Meistarasöngvaranna hljóma dálítið öðruvísi þegar búið er að þýða þau á ensku „Honour your German masters.“ „Hitler hefur verið aldeilis ánægður að heyra þetta“ hef ég lesið um þessi orð í ritgerð hjá einhverjum sem hefur ekki áttað sig á að „Meister“ í þýzku hefur alls ekki þá valdsherramerkingu sem otðið „master“ hefur í ensku. „Master race“ er ekki „Meisterrasse“ á þýzku, heldur væri bein þýðing „Herrenrasse“, en orðin „master race“ eru þó kannski frekar Meistarasönvurunumckmesser útlagning ar sse“ heldur „Herrenrasse“. mmbewehrt”, sem er af þvþýðing á orðinu „Herrenvolk“, sem nazistar notuðu gjarnan. — Í útbreiddri enskri þýðingu Parsifal-textans eru orðin „Ich sah sie welken, die einst mir lachten“ þýdd sem „I saw them wither, those who once laughed at me“, eða með öðrum orðum „Ég sá þær visna sem eitt sinn hlógu að mér“, og það hef ég svo séð túlkað þannig að hér sé Parsifal að hlakka yfir hve illa fór fyrir þeim sem gerðu grín að honum og það svo borið saman við álíka tilvitnanir í ræður Hitlers. En réttari þýðing væri „Ég sá þær visna sem eitt sinn hlógu við mér.“ — Það fráleitasta sem ég hef rekizt á í þessum efnum er þó útlagning á lokaorðunum um Beckmesser í Meistarasöngvur­unum, „Er stürtzt wüthend fort und verliert sich unter dem Volke“, „Hann þýtur fokreiður í burt og hverfur innanum mannfjöldann.“ Einhver spakur fræðimaðurinn vildi lesa orðið „unter“ í setningunni sem „undir“ og taldi að Beckmesser hverfi undir mannfjöldann; með öðrum orðum að hann sé troðinn undir, og að þetta beri að skilja sem ákall Wagners um að aríski kynstofninn eigi að fótumtroða gyðinga.]

Jafnvel þótt við gengjumst inn á að í söng Walthers megi finna tilvísun til Grimm-bræðranna er ekki gott að sjá nein tengsl söngtextans við söguna um gyðinginn í þyrnigerðinu. Að veturinn hafi tekið sér bólsetur í þyrnigerði (eins og Beckmesser í merkjaraklefanum) og bíði þar í leyni, væntanlega til að geta ráðist á einhvern, og að uglan fljúgi út úr þyrnigerðinu til að vekja hrafnakórinn virðist ekki eiga neitt skylt við ævintýrið um gyðinginn, þar sem þyrnigerðið er ekki bústaður, heldur kvalastaður. Raunar virðist aðeins eitt vera sameiginlegt báðum textum, og það er orðið „Dornenhecke“, „þyrnigerði“. Í Meistarasöngvurunum á það greinilega að vísa til merkjaraklefans. Ef við vildum leita að tilvísunum til Grimm-bræðra, væri þá ekki eðlilegra að leita til miklu þekktara ævintýris, þar sem þyrnigerði hóf sig hátt, nefnilega ævintýrisins um Þyrnirós? Þyrnigerðið í þeirri sögu er ennþá hættulegra en í sögunni um gyðinginn, því að það er fullt af dauðum kóngssonum sem létu þar lífið í leit að sofandi kóngsdóttur. En slík túlkun gengur alls ekki — ekki vegna þass að hún sé nokkuð fráleitari en hin, heldur af því að hún styður ekki fyrirfram gefna fordóma fræðimannanna sem um málið fjalla.

Hver er þá Beckmesser?

Er Beckmesser kannski skopmynd af gagnrýnandanum Eduard Hanslick, eins og margir halda fram? Eitt sem gæti bent til þess er að Wagner ætlaði einhverntíma að gefa Beckmesser nafnið „Veit Hanslich“, en hætti við. Auðvitað er ljóst að einn tilgangurinn með persónu Beckmessers er að gefa olnbogaskot þeim gagnrýnend­um sem voru gamaldags og kunnu ekki að meta nýjungar í tónlist, eins og í tónlist Wagners. Hanslick var fremstur í flokki gagnrýnenda á þessum tíma. Hann skrifaði frekar vel um Wagner til að byrja með; það er fyrst með gagnrýni sýningarinnar á Lohengrin í Vín árið 1858 (eftir að söguþráðurinn í Meistara­söngvurunum var fullmótaður) sem hann fór að verða hvassyrtari. Það virðist þó ekki vera fyrr en eftir að Hanslick birti dóm sinn um Meistarasöngvarana sem Wagner fór að leggja verulegt hatur á hann; sumir telja að sá dómur hafi verið meginástæða þess að Wagner gerði þá reginskyssu að endurbirta Das Judentum in der Musik skömmu seinna með eftirmálanum langa þar sem hann réðst sérstaklega að Hanslick.

Það er heldur engin tilraun gerð til að skopstæla Hanslick sem persónu í Meistarasöngvurunum, enda er Beckmesser ekki bara gagnrýnandi: Hann er bæði skáld og sönglagatónskáld, og Wagner gerir hann ekki síður fáránlegan sem slíkan. [Thomas Grey, sem telur Beckmesser vera skopmynd af Hanslick, virðist gera sér grein fyrir að það gengur ekki alveg nógu vel upp og gefur í skyn — eins og hálffeimnislega — að það eigi kannski bezt við um fyrsta þáttinn, í öðrum þætti gæti Beckmesser verið skopmynd af Mendelssohn og í þriðja þætti af Meyerbeer![56]]

En við þurfum ekki að fara í grafgötur með hvað Wagner hugsaði sér með Beckmesser: Hann segir okkur það sjálfur í ritgerð sinni Eine Mittheilung an meine Freunde frá 1851 í eftirfarandi tilvitnun, sem hefur oft verið dregin fram í dagsljósið, til dæmis að hluta til í nýnefndri grein eftir Borchmeyer:

Ég hugsaði mér Hans Sachs sem síðustu birtingarmynd listrænt skapandi þjóðaranda, og stillti honum í þessu hlutverki upp á móti broddborgaraskap meistarasöngvaranna, en sannlega skoplegri smá­smygli þeirra um rígbundið regluverk skáldskaparins gaf ég alveg persónulega framsetningu í leikpersónu „merkjarans“. Þessi „merkjari“ var eins og kunnugt er (öllum nema ef til vill gagnrýnendunum okkar) sá sem söngvaragildið skipaði sem gæslumann og átti að „merkja“ við þær villur sem flytjendum urðu á, og einkum þeim sem sóttu um upptöku í gildið, og teikna þær upp með strikum: sá sem hafði fengið einhvern tiltekinn fjölda af strikum hafði „sungið af sér“ [„versungen“]. [57]   

Getur það verið skýrara að Beckmesser er hugsaður sem rammþýzkur broddborgari? Og hvað gæti verið fjær hugmyndum Wagners um gyðinga?

Ég hef nú rakið nokkur dæmi um röksemdafærslur sem eiga að sýna að gyðingahatur sé með einhverjum hætti til staðar í Meistarasöngvurunum og raunar nokkrum öðrum óperum Wagners. Það kemur í ljós að þessar röksemdafærslur gufa upp og skilja ekkert eftir um leið og dagsbirtan fær að skína á þær. Ég fullyrði að allar aðrar röksemdafærslur af sama tagi séu sama marki brenndar; það er einfaldlega enginn fótur fyrir þeim.

En mesti gallinn við þær er ekki að þær fái ekki staðizt, heldur að fjöldi fólks trúir að þær hljóti að vera réttar, af því að þær koma frá fræðimönnum sem eiga að hafa kynnt sér efnið. Reglulega sjást skrif sem sýna að um víða veröld er þeim trúað eins og nýju neti, og hvað eftir annað má rekast á fullyrðingar eins og þessa, sem ég vel af handahófi úr mörgum svipuðum: „Það er varla unnt að efast um að persóna Beckmessers lætur í ljós andgyðinglega staðalímynd Wagners af gyðinglegum listamönnum og gyðinglegri tónlist.“ [58] Þessari fullyrðingu fylgir svo tilvitnun í bók Weiners. Það dettur ekki öllum í hug að grafast þurfi djúpt fyrir um hvað er hæft í rökum fræðimanna, hvað þá þeirra sem skrifa „beztu bókina í hugvísindum“ eitthvert árið. Ég held það sé vel við hæfi að enda þessa lesningu á tilvitnun í orð annars afmælisbarns ársins, Árna Magnússonar, fræðimanns og handritasafnara, en nú eru 350 ár liðin frá fæðingu hans. Þau orð komu mér oft í hug þegar ég var að lesa mér til um þetta efni, eins og svo oft áður á lífsleiðinni: „Svo geingur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aptur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverir tveggju nockuð að iðja.“[9]

Tilvísanir

[1] Wilhelm Tappert: Ein Wagner-Lexicon. Wörterbuch der Unhöflichkeit enthaltend grobe, höhnende, gehässige und verläumderische Ausdrücke welche gegen den Meister Richard Wagner, seine Werke und seine Anhänger von den Feinden und Spöttern gebraucht worden sind. Leipzig, 1877.
[2] Sjá t. d. Nicolas Slonimsky: Lexicon of Musical Invective. Critical Assaults on Composers since Beethoven’s Time, 2. útgáfa. New York, 1965.
[3] Árni Björnsson: Wagner og Völsungar. Niflungahringurinn og íslenskar fornbókmenntir. Reykjavík, 2000, bls. 193.
[4] Umberto Eco: Construire il nemico e altri scritti occasionali, Milano, 2011. Hér er farið eftir enskri þýðingu: Inventing the enemy and other occasional writings, London 2012.
[5] Það mun eiga að vera „gyðinglegt sjálfshatur“: Rose vísar hér í bókina Jewish Self-Hatred: Anti-Semitism and the Hidden Language of the Jews (Baltimore, 1986) eftir Sander L. Gilman. Aðra sýn á hugtakið má hins vegar finna hjá Paul Reitter: On the Origins of Jewish Self-Hatred, Princeton, N. J., 2012.
[6] Laurence Dreyfus: „Hermann Levi’s shame and Parsifal’s guilt: A critique of essentialism in biography and criticism.“ Cambridge Opera Journal 6, 2 (1994), 125–145.
[7] Ég hef einungis haft uppi á ensku þýðingunni (Wagner’s Hitler: the Prophet and His Disciple, Cambridge, 2000), og þessar tölur eiga við hana.
[8] Samkvæmt Daniel Dennis: „Crying “Wolf”? A Review Essay on Recent Wagner Literature“, German Studies Review 24, nr. 1, 2001, 145–158; bls. 147, hefur meðferð Köhlers á tilvitnunum verið kölluð „Zitatenverknüpfungstechnik” sem mætti þýða „tilvitnanasam­skeytinga­tækni“.
[9] Nr. 14, 30.3.13, bls. 112–120.
[10] Bókin kom fyrst út á frönsku í desember árið 1939 í París og í sama mánuði á ensku í Lundúnum. Fyrsta þýzka útgáfan kom út í janúar 1940 í Sviss. Það ár kom bókin líka út á íslenzku í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar og nefndist Hitler talar: nokkur samtöl við Adolf Hitler um stefnu hans og markmið, Reykjavík, Menningar- og fræðslusamband alþýðu, 1940.
[11] Adolf Hitler, mein Jugendfreund, Graz, 1953.
[12] Jonas Karlsson: Richard Wagner and the Rise of German Anti-Semitism. UMI Dissertation Publishing, ProQuest, Ann Arbor, MI, 2012.
[13] Franz Jetzinger: Hitlers Jugend: Phantasien, Lügen — und die Wahrheit. Vín, 1956.
[14] Richard Wagner and the Rise of German Antisemitism, bls. 5–6.
[15] Joseph Arthur Comte de Gobineau: Essai sur l’inégalité des races humaines, I–IV, París, 1853–55.
[16] Einkum skáldrit. Ítarlega frásögn um samskipti Wagners og Gobineaus má lesa hjá Éric Eugène: Wagner et Gobineau. Existe-t-il un racisme wagnérien? París, 1998.
[17] Richard Wagner Gesammelte Schriften und Dichtungen. Zehnter Band. Leipzig, 1883, bls. 351–362.
[18] Versuch über Wagner, Berlín og Frankfurt am Main, 1952.
[19] Theodor W. Adorno: „Selbstanzeige des Essaybuches »Versuch über Wagner«“, Gesammelte Schriften, Band 13, Die Musikalischen Monographien, Frankfurt am Main, 1997, bls. 504–508; bls. 506.
[20] Fá má nokkra hugmynd um erfiðleikana við að skilja og þýða skrif Adornos um tónlist hjá Rose Rosengard Subotnik: „The Unwritable in Full Pursuit of the Unreadable: Adorno’s Philosophie der neuen Musik in Translation.“ Music Analysis 30, nr. 1, 2012, 89–139 og viðauka („Supplement“) við þá grein í Music Analysis 30, nr.2–3, 2012, 397– 466.
[21] Thomas Mann: Tagebücher 1944–1.4.1946, Frankfurt am Main, 1986, bls. 100.
[22] Versuch über Wagner, bls. 34.
[23] Versuch über Wagner, bls. 23–24.
[24] William Rasch og Marc A. Weiner: „A Response to Hans Rudolf Vaget’s “Wagner, Anti-Semitism, and Mr. Rose”. The German Quarterly, 67, nr. 3 (1994), 400-408; bls. 405.
[25] Gustav Mahler in den Erinnerungen von Natalie Bauer-Lechner. Útg. Herbert Killian. Hamborg, 1984, bls 122. Atvikinu er ekki lýst í fyrri útgáfu endurminninganna frá 1923, en hún var stytt.
[26] Marc A. Weiner „Reading the Ideal“. New German Critique, 69, 1996, 53–83; bls. 80.
[27] Sjá ítarlega frásögn í Richard Wagner and the Rise of Anti-Semitism, bls. 92–100.
[28] David B. Dennis: „“The Most German of all German Operas”: Die Meistersinger through the Lens of the Third Reich.“ Í Wagner’s Meistersinger. Performance, History, Representation. Útg. Nicholas Vazsony, Rochester, NY, 2002, bls. 98–115.
[29] Barry Millington, „Nuremberg Trial: Is There Anti-Semitism In Die Meistersinger?“, Cambridge Opera Journal 3 (1991), 247–260; bls. 247.
[30] Charles Rosen: „The Ridiculous & Sublime“, The New York Review of Books, 22. apríl 1993, 10–15; bls. 11.
[31] Barry Millingon: „Wagner’s Anti-Semitism“, The New York Review of Books, 10. júní 1993.
[32] Richard Wagner: Mein Leben II. München 1911, bls. 787. Í þeirri útgáfu vantar orðin í hornklofunum.
[33] Ulrich Drüner: Schöpfer und Zerstörer: Richard Wagner als Künstler. Köln, 2003, bls. 267.
[34] Woody Allen: Manhattan Murder Mystery, 1993.
[35] Barry Millington „Nuremberg Trial“, bls. 249.
[36] Marc A. Weiner: Richard Wagner and the Anti-Semitic Imagination. Lincoln, Nebraska, 1995. Endurprentuð með nýjum eftirmála (Postscript) 1997.
[37] Marc A. Weiner: „Wagner’s Nose and the Ideology of Perception.“ Monatshefte 81 nr. 1, 1989, 62–78.
[38] Að minnsta kosti „í rómantískum kringumstæðum“; sjá „Wagner’s Nose“, bls. 66; í bókarkaflanum er þessi fyrirvari orðinn óljósari.
[39] Ég er ekki að búa þetta til! „With a magical aromatic breeze the elder tree has rid Germany of its presumptuous foe, and Nuremberg’s evil spirit, the devilish Beckmesser, has been exorcised.“ Sjá Richard Wagner and the Anti-Semitic Imagination, bls. 217.
[40] Martin Gregor-Dellin: Richard Wagner. Sein Leben, Sein Werk, Sein Jahrhundert, München, 1980, bls. 710.
[41] Martin Gregor-Dellin Richard Wagner. His Life, His Work, His Century, San Diego–New York–London, 1983, bls. 426.
[42] Willy Krienitz: „Felix Mottls Tagebuchaufzeichnungen aus den Jahren 1873 – 1876“. Í Neue Wagner-Forschungen. Veröffentlichungen der Richard-Wagner-Forschungsstätte Bayreuth. 1. Folge, útg. Otto Strobel, Karlsruhe, 1943, 167–208, bls. 197.
[43] „Nuremberg Trial“, bls. 255–258.
[44] Lengri bútur úr fréttinni er hjá Karlsson, Richard Wagner and the Rise of German Anti-Semitism, bls. 101.
[1] „Nuremberg Trial“, bls. 252–254.
[46] Egon Voss: „Wagners «Meistersinger» als Oper des deutschem Bürgertums.“ Í Die Meistersinger von Nürnberg. Texte. Materialien. Kommentare. Ritstj. Attila Csampai og Dietmar Holland. Hamburg, 1981, 9–31; bls. 27.
[47] Hans Rudolf Vaget: „Der Jude im Dorn oder: Wie antisemitisch sind Die Meistersinger von Nürnberg?Deutsche Vierteljahrsschrift für Litereturwissenschaft und Geistesgeschichte 69, nr. 2, 1995, 271–299.
[48] Karl A. Zaenker: „The Bedeviled Beckmesser: Another Look at Anti-Semitic Stereotypes in “Die Meistersinger von Nürnberg” “, German Studies Review, 22, nr. 1 (1999), 1–20; bls 4; og Barry Emslie: „Wagner: Race, Nation, Culture“. The Wagner Journal, 2, nr 1 (2008), 3–19; bls. 6.
[49] Thomas Mann: Wagner und unsere Zeit. Aufsätze. Betrachtungen. Briefe. Frankfurt am Main, 1983, bls. 168.
[50] Thomas Mann: Tagebücher 1944–1.4.1946, bls. 106–107, og Hans Rudolf Vaget: „Thomas Mann. Pro and Contra Adorno.“ Í Sound Figures of Modernity. German Music and Philosophy.
[51] „Nuremberg Trial“, bls. 258.
[52] Egon Voss: „Wagners «Meistersinger» als Oper des deutschem Bürgertums,“ bls. 25–26.
[53] „Der Jude im Dorn“, bls. 293.
[54] Dieter Borchmeyer: „Beckmesser — der Jude im Dorn“. Bayreuther Festspiele 1996. Das Festspielbuch 1996, 89–99; bls, 94.
[55] Barry Millinton: „Wagner washes whiter“. The Musical Times, 137, nr. 1846, 1996, 5–8.
[56] Thomas S. Grey: „Masters and their Critics: Wagner, Hanslick, Beckmesser, and Die Meistersinger.“ Í Wagner’s Meistersinger. Performance, History, Representation. Útg. Nicholas Vazsony, Rochester, NY, 2002, bls. 165–189, bls.168.
[57] Gesammelte Schriften und Dichtungen. Vierter Band. Leipzig, 1872, bls. 349–350.
[58] Patricia Herzog: „Akrasia and Aesthetic Judgment“, The Journal of Aesthetics and Art Critisism, 58, nr.1, 2000, 37–49; bls. 42.
[59] Jón Helgason: Handritaspjall. Reykjavík, 1958, bls. 115 og mynd af handriti Árna móti þeirri síðu. Jón Helgason tilgreinir á sömu blaðsíðu aðra tilvitnun í sama handrit: „Svo dreifist vanvizkan um heiminn, eins vel sem vizkan.“