Stefán Íslandi 1907-1994

Undirtitill

Óperublaðið ??.??.???

Áfram veginn í vagninum ek ég
inn í vaxandi kvöldskuggaþröng.
Ökubjöllunnar blíðróma kliður
hægur blandast við ekilsins söng.

Þann 1. janúar s.l. andaðist Stefán Íslandi, einn ástsælasti söngvari Íslendinga fyrr og síðar. Eftirfarandi byggir á minningargrein sem Jón Þórarinsson tónskáld ritaði um Stefán í Morgunblaðið.

Stefán Guðmundsson var fæddur í Krossanesi í Skagafirði. Það var mikið sungið í Skagafirði á þeim árum sem Stefán ólst þar upp og hann var ekki gamall þegar hann var orðinn hlutgengur söngmaður og þekktur í héraðinu fyrir sönggleði og raddfegurð. Fyrstu opinberu tónleika sína hélt Stefán á Siglufirði sumarið 1926

Í söngnám til Reykjavíkur

Stefán hélt til Reykjavíkur haustið 1926 og var hann brátt tekinn í Karlakór Reykjavíkur, sem Sigurður Þórðarson hafði stofnað sama ár. Að ráði Páls Ísólfssonar fór Stefán í söngnám til Sigurðar Birkis, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, sem um þetta leyti var að hefja söngkennslu. Hann var síðan um áratuga skeið aðalsöngkennari þjóðarinnar og mikill örlagavaldur mörgum ungum söngmönnum. Stefán varð einsöngvari með Karlakór Reykjavíkur árið 1929 og sló strax í gegn með söng sínum á Ökuljóði („Áfram veginn”), sem síðar var hljóðritað og leikið allra laga mest í Ríkisútvarpinu um áratuga skeið. Fyrstu sjálfstæðu tónleika sína í Reykjavík hélt Stefán árið 1929 á vegum Söngskóla Sigurðar Birkis og eftir það blandaðist mönnum ekki hugur um að hér var óvenjulegt listamannsefni á ferð.

  • Stefán Íslandi sem hertoginn af Mantúa í Rigoletto í Þjóðleikhúsinu 1951.

/* Stefán og Kjarval

Stefán var mikill vinur margra bestu listamanna okkar, svo sem Páls Ísólfssonar og Davíðs Stefánssonar. Og samband hans við Kjarval var sérstakt. Í ævisögu Stefáns „Áfram veginn”, segir svo frá einum fundi þeirra:

„Heyrðu laggi”, sagði hann, „ég þarf að tala við þig á morgun”. Ég spurði hvar og hann sagði: „Hérna á Strauinu”, en svo kallaði hann Austurstræti. Daginn eftir var ég til taks á Strauinu og hitti Kjarval. Hann var með pakka undir hendinni, sem bundið var um sveru seglgarni. Hann rétti mér pakkann og sagði: „Ég veit þú ert að sigla”. Svo leit hann á mig alvarlegur í bragði og sagði: „Hvert sem þú ferð, þá skaltu ekki gleyma Íslandi. Það er stórt atriði.” Í þessum pakka var olíumálverk á fjöl af Esjunni í glampandi sólskini. Og þessa mynd hafði ég uppi öll mín námsár. Maður gleymdi ekki Íslandi á meðan.

Stefán hélt ætíð þeirri venju, þegar hann efndi til konserta í Reykjavík, að senda Kjarval tvo boðsmiða. Miðar voru ekki númeraðir og gestir gátu valið sér sæti að vild. Kjarval notaði alltaf þessa boðsmiða. Skömmu áður en konsertar hófust var hann sestur á fremsta bekk, en sérlegur gestur og fylgdarmaður á konsertana var Óli Maggadon. Sátu þessir tveir heiðursmenn og klöppuðu ákaft eftir hverju lagi. */

Nám og starf á Ítalíu

Um þessar mundir réðist það fyrir milligöngu Magnúsar Jónssonar guðfræðiprófessors, að Richard Thors, forstjóri Kveldúlfs, ákvað að styrkja Stefán til söngnáms á Ítalíu. Leiðin lá til Mílanó þar sem Stefán hóf nám hjá Ernesto Caronna og þroskaðist rödd Stefáns undir leiðsögn hans með undraverðum hætti. Stefán þreytti frumraun sína á óperusviði í hlutverki Cavaradossis í óperunni Tosca 12. febrúar 1933 í Dante leikhúsinu í Flórens. Þar söng hann fjórar sýningar og hlaut mikið lof fyrir. Skömmu síðar söng hann hlutverk Pinkertons í Madam Butterfly og í umsögn um þá sýningu kemur í fyrst skipti fram nafnið „Stefano Islandi”, sem Stefán tók síðan upp. Næst á eftir söng Stefán hlutverk hertogans í Rigoletto og Alfredos í La Traviata á ýmsum stöðum á Ítalíu, en uppgangur fasismans kom í veg fyrir frekari frama Stefáns á Ítalíu og sneri hann heim á leið vorið 1935.

Sigurganga - heima og erlendis

Stefán hélt debut-tónleika sína á Íslandi í Gamla bíói 7. apríl 1935 og söng þá íslensk lög og óperuaríur við taumlausa hrifningu áheyrenda. Söngskemmtanirnar urðu alls fjórar að þessu sinni og þar með hófst sigurganga Stefáns á heimaslóðum. Að því loknu fór Stefán í söngför til Norðurlanda með Karlakór Reykjavíkur og Sigurði Þórðarsyni og varð það mikil frægðarför eins og fleiri ferðir sem hann fór með kórnum víða um lönd á næstu árum. Eftir heimkomuna fór Stefán fyrstu tónleikaför sína til norðurlands og síðan fylgdu fleiri söngskemmtanir í Reykjavík.

Næstu árin var Stefán á faraldsfæti. Hann söng í Kaupmannahöfn og víðar á Norðurlöndum og um skeið dvaldist hann í Þýskalandi. Sumarið 1936 gerði hann samning við hljómplötufyrirtækið „His Masters Voice“ í Lundúnum og tók upp fyrstu tvær hljómplötur sínar.

Vantar framhald