Tannhäuser og söngkeppnin í Wartburg

Morgunblaðið, 29. apríl 1989

Ópera í þremur þáttum eftir Richard Wagner. Söngtexti (libretto) eftir Richard Wagner. Frumflutt í Dresden 19. október 1845 og stjórnaði Wagner sjálfur uppfærslunni, en endanleg gerð hennar, hin svonefnda Parísarútgáfa, frumflutt í Parísaróperunni 1861.

Frumflutt í New York 1859, í Covent Garden 1876 og í London 1882 svo nokkuð sé nefnt.

Sögupersónur:

 • Hermann, landgreifi af Thüiringen, bassi
 • Riddarar og mansöngvarar:
 • Heinrich Tannhäuser, tenór
 • Wolfram von Eschenbach, barítón
 • Walter von der Vogelweide, tenór
 • Biterolf, bassi
 • Heinrich der Schreiber, tenór
 • Reinmar von Zweter, bassi
 • Elísabet, frænka landgreifans, sópran
 • Venus, ástargyðjan, sópran
 • Ungur fjárhirðir, sópran
 • Fjórir riddarasveinar, sópran og alt
 • Aðalsmenn, riddarar, aðalsmeyjar, eldri og yngri pílagrímar, sírenur, dísir, vatnadísir, Bakkusardýrkendur og kynjavættir ýmsar.

Tími: Snemma á 13. öld. Sögusvið: Nærri Eisenach.

Sinfóníuhljómsveit Íslands, ásamt söngvurum, flutti Tannhäuser eftir Wagner í Háskólabíói á fimmtudagskvöldið. Tónleikarnir verða endurfluttir í dag (laugardaginn 29. apríl 1989).

Sagan af Tannhäuser gerist í og við Wartburg. En á þrettándu öld drottnuðu þar landgreifar Thüringendalsins. Þeir voru listelskir, en hneigðust sérstaklega að skáldskap og tónlist. Í Wartburgkastala var háð mörg friðsamleg keppni milli frægra mansöngvara eða ástarskálda eins og þýzkir trúbadorar á 12. -14. öld nefndust.

Frá flutningi í Háskólabíói
27. apríl 1989.

Í nánd við kastala þennan gnæfir Venusberg. Fornar sagnir herma að í fjallinu hafi búið vorgyðjan Holda, en þá fram líða stundir er hún talin vera ástargyðja. Við hirð hennar er krökkt af dísum og sírenum. En sírenur eru þekktar úr grískri goðafræði. Þær voru raddfagrar sjávardísir, að hálfu í fuglslíki, er seiddu svo sæfara og heilluðu með söng sínum, að þeim var glötun ein vís. Mesta ánægja ástargyðjunnar var að lokka Wartburgriddarana í fjallið og halda þeim þar föngnum af fegurð sinni.

Meðal þeirra sem hún hefur tælt í hina rósfögru afkima Venusbergs er Tannhäuser.

Sviðsmynd: Salarkynni ástargyðjunnar í Venusberg. Þar leika um sali rósrauð ský og hin höfga angan sterkra ilmefna. Ýmsar kynjaverur eru þar við hirðina sem leita og njóta ástar og munaðar af sívaxandi ákefð. Áberandi í sviðsmyndinni er mikil steinhvelfing. Vatnadísir og sírenur dansa gáskafullan dans í baksýn. Venus hvílir á glæstum beði og ástmaður hennar Tannhäuser hvílir höfuð sitt í keltu hennar. Syfjaðir ástarguðir liggja umhverfis þau eins og þreytt börn. Ungmenni með ölbikara halla sér á syllur og stalla.

Þegar Tannhäuser var frumfluttur í Parísaróperunni að boði Frakklandskeisara var Wagner orðinn píslarvottur þýzkrar menningar vegna róttækra stjórnmálaskoðana sinna og boðberi hennar. Þá var venja í Parísaróperunni að hafa mikinn ballett í miðri hverri óperu. Wagner var því falið að semja balletttónlist við Tannhäuser. Hann fékkst þó ekki til að hafa ballettinn í öðrum þætti, heldur umskrifaði m.a. upphaf óperunnar, sem gerist í Venusberg og margt af tónlistinni þar sem Venus kemur við sögu. Eftir þessa umritun eru mun skarpari skil milli hinna tveggja kvenímynda, goðheims og mannheims.

Þegar tjaldið er dregið frá dansa dísirnar seiðandi dansa en Bakkusardýrkendur hleypa tryllingi í samkomuna. Satýrar og skógarpúkar ganga í dansinn. Þokkagyðjurnar Evfrosyne, Aglaia og Þalía reyna að stilla dansinn en þegar það gengur ekki vekja þær litlu Amorana og taka að elta þá en þeir skjótast í skjól. Þaðan skjóta þeir örvum sínum að dansendum. Þeir sem verða fyrir amors-skotunum draga sig í hlé að njóta ástar og munaðar uns allir eru horfnir. Eftir eru Venus og Tannhäuser.

Richard Wagner

Þrátt fyrir fegurð Venusar er Tannhäuser engu að síður runninn ástarfjötur yndisþokka hennar og nú þráir hann að líta mannheima á ný. Hann ákallar Maríu Guðsmóður í von um að losna undan valdi gyðjunnar. Venus hverfur á sömu stundu og salir hennar og hirðin öll sömuleiðis.

1. þáttur, 2. atriði.

Sviðsmynd: Gróðursæll dalur milli Hörselberg (Venusbergs) og Wartburg. Heiður himinn og sól í heiði. Í forgrunni er helgidómur Maríu Guðsmóður. Tannhäuser liggur örmagna frammi fyrir stórum krossi. Wartburgkastalinn blasir við í fjarlægð. Á klettasyllu er fjárhirðir og syngur hjarðljóð.

Pílagrímar á leið til Róms fara fram hjá Tannhäuser. Hann hugleiðir að slást í för með þeim svo hann fái beðið sér syndaaflausnar í borginni eilífu fyrir glæp sinn; að láta glepjast í fjallið Venusberg.

Í sömu andrá koma þar landgreifinn og allmargir riddara hans með honum. Þeir eru á leið heim í kastalann af dýraveiðum. Þeir bera kennsl á Tannhäuser og reyna að fá hann af Rómarförinni og snúa heldur til Wartburg með sér. En fortölur þeirra megna ekki að telja Tannhäuser hughvarf.

Einn riddaranna er Wolfram von Eschenbach. Hann segir Tannhäuser að frænka landgreifans, Elísabet, sé í sorgum síðan Tannhäuser yfirgaf Wartburgkastala. Þá fyrst tekur Tannhäuser að hlusta. Greinilegt er að hann hefur elskað Elísabetu og það er sökum fegurðar hennar og kvendyggðar að hann harmar svo mjög að hafa látið glepjast í Venusberg. Orð Wolframs hafa greinilega mikil áhrif á Tannhäuser. Öllum til mikillar gleði samþykkir hann að snúa aftur til Wartburg. En þar hefur hann unnið margan sigur sem mansöngvari þegar söngkeppnin er háð.

 

2. þáttur.
Sviðsmynd: Salur mansöngvaranna í Wartburg.

Landgreifinn er þess fullviss að Tannhäuser muni sigra og hljóta verðlaun söngkeppninnar sem halda á innan tíðar. Hann ákveður að sigurvegarinn skuli hljóta hönd frænku sinnar að sigurlaunum.

Mansöngvaranir syngja af stillingu um fegurð hinnar dyggðugu ástar. En Tannhäuser minnist skyndilega hinnar seiðandi og töfrandi fegurðar í Venusberg. Hann hefur ekki stjórn á sér og tekur að syngja ákafan og gáleysislegan óð til dýrðar Venusi. Riddararnir hneykslast ákaflega af orðum hans, draga sverð úr slíðrum og vilja drepa hann. En Elísabet kastar sér milli hans og brugðinna branda.

Niðurbrotinn og iðrunarfullur stendur Tannhäuser að baki henni. Landgreifinn kemst við af fórnfýsi Elísabetar, að vilja láta lífið til að bjarga syndugum elskhuga sínum. Hann tilkynnir því að Tannhäuser verði leyft að slást í för með öðrum hópi pílagríma sem er á leið til Róms. Þar geti hann leitað á náðir páfa og beðið sér fyrirgefningar.

3. þáttur.
Svjðsmynd: Wartburgdalurinn.

Sama svið og 11. þætti, 2. atriði. Það er haust og tekið að kvölda. Elísabet er á bæn við helgidóm Maríu Guðsmóður.

Elísabet biður þess að Tannhäuser snúi heim og biður honum bæði velgengni og blessunar. Þar sem hún krýpur við krossinn fara pílagrímarnir hjá. Ekki sér hún elskhuga sinn meðal þeirra. Hægt og hljótt snýr hún heim í kastalann að deyja. Raddir pílagrímanna fjara út. Eftir stendur Wolfram, sem einnig ann Elísabetu hugástum. Hann syngur óð sinn til kvöldstjörnunnar.

Tannhäuser birtist, örþreyttur og raunamæddur. Hann hefur leitað eftir fyrirgefningu án árangurs. Páfi hefur útskúfað honum að eilífu og lýst því yfir að Tannhäuser geti ekki vænst fyrirgefningar fremur en að bagall páfa laufgist.

Tannhäuser hefur snúið aftur til að ganga öðru sinni í fjallið Venusberg. Wolfram reynir að halda aftur af honum, en það er ekki fyrr en hann nefnir Elísabetu, að bráir af Tannhäuser. Líkfylgd gengur hjá. Tannhäuser sér að líkami Elísabetar er á líkbörunum. Hann kastar sér niður við líkama hennar og deyr. Í sömu mund ber þar að annan hóp pílagríma. Þeir eru með bagal páfa sem nú hefur laufgast. Þá má augljóst vera að syndir Tannhäusers eru honum fyrirgefnar.

Forleikurinn

Forleikur óperunnar hefur verið afar vinsæll á efnisskrá sinfóníuhljómsveita um langt skeið. Líkt og forleikurinn að Hollendingnum fljúgandi er Tannhäuserforleikurinn öll saga óperunnar sögð í tónum. Þetta er án efa með glæsilegustu og áhrifamestu hljómsveitartónlist sem leikin er og vinsældir hennar auðskildar.

Forleikurinn hefst á laglínunni úr söng pílagrímanna, hægt og þýtt — eins og hún komi úr fjarska. En kraftur hljómanna vex uns við heyrum laglínuna í öllum sínum stórbrotna glæsileika. Þegar hámarki er náð fjarar hún út og skyndilega hljómar dramatísk andhverfa:      

1. Okkur birtast seiðandi töfrar Venusbergs í tónum. Og þessi tónlist er svo yndislega lífleg og ljómandi að hún dregur á undraverðan hátt upp litríka mynd af hirð hinnar heiðnu gyðju og veitir átakalaust útrás þeim synduga ástarbríma sem ræður ríkjum í Venusberg. Það er einsog við sjáum það sem við í raun heyrum aðeins.

2. Þegar þessi tónmynd er dregin tekur við alvöruþrunginn söngur Tannhäusers, þar sem hann lofar Venus ákaflega, en síðan er

3. fyrirgangssöm og þróttmikil tónlist sem fylgir því er landgreifinn og riddarar hans draga sverð úr slíðrum gegn Tannhäuser til að refsa honum fyrir yfirsjón sína.

Á þessum þremur atvikum dramans byggist forleikurinn. En í lokin má ljóst vera, að Tannhäuser hefur loks hlotið fyrirgefningu.

Nánar um söguþráðinn

1.þáttur, 1. atriði.

Tjaldið rís og við blasa hinir seiðandi töfrar Venusbergs.

Tannhäuser hvílir höfuð sitt í keltu Venusar, sem hallar sér aftur á blómum skrýddan beð. Dísir, sírenur og satýrar dansa kringum þau og í fjarska eru miklar steinhvelfingar og verða þar ýmis ástarævintýr. Fyrirmyndin er sótt í forngrísk minni sbr. sögnin um Ledu og svaninn. Tónlistin í þessu atriði er kunnugleg úr forleiknum en henni eru gefin aukin áhrif af fjarlægum röddum sírenanna og vitaskuld af dansi þeirra kynjavera sem eru við hirð ástargyðjunnar.

1. – Naht euch dem Strande –
Atriðið milli Venusar og Tannhäuser er afar áhrifamikið. Gyðjan hvílir á glæstum beði og riddarinn liggur sofandi og hvílir höfuð sítt í keltu hennar. Þegar hann vaknar lítur hann í kring um sig forviða. Venus spyr hvað glepji hug hans.

2. – Im Traum war mir’s –
Tannhäuser hefur dreymt heimahaga sína og er fullur heimþrár. Venus minnir hann á allt sem hún hefur gert fyrir hann og hversu ljúft og munaðarfullt líf hans hefur verið i sölum hennar. Hún biður hann taka lýru sína og vegsama ástina í söng og ljóði eins og hann er vanur.

Tannhäuser syngur henni dýrðaróð: — en um leið lýsir hann löngun sinni að hverfa aftur til mannheima.

3. – Dir töne Lob! –
En jafnfram segir hann að eilífur munaður og ástarsæla séu ekki það hlutskipti sem hann kjósi sér heldur átök, þjáning og jafnvel dauði ef þörf krefur. Hann þráir að hverfa aftur til mannheima.

Hún þrábiður hann að verða um kyrrt.

4. Geliebter komm! –
Og með lokkandi söng sínum reynir hún að freista hans, telja honum hughvarf og fá hann til að dvelja áfram hjá sér. Hann lofar að dásama ávallt fullkomleik hennar.

Í þriðja sinn segir Tannhäuser Venusi að hann verði að fara.

Þá verður henni loks ljóst að hann er ákveðinn að fara á brott og bænir, loforð og fortölur gagna ekki. Gyðan reiðist mjög og spáir honum að raunir, ógæfa og mótlæti bíði hans í mannheimum. Hún spáir því að dag nokkurn muni hann snúa aftur til sín og biðja þess fullur iðrunar að hún hleypi sér aftur í ríki sitt En Tannhäuser svarar hann muni aldrei snúa til hennar á ný. Stolt sitt sé meira en svo.

Þetta atriði var afar áhrifamikið og dramatískt í frumgerð sinni en er nú kraftþrungnara eftir þær breytingar og viðbætur sem Wagner gerði fyrir sviðsetningu verksins í París 1861.

Í Parísarútgáfunni endar forleikurinn ekki með glöggum skilum heldur umhverfist yfir í Venusbergsatriðið. Dansarnir eru viðameiri og líkingamálið eða allegórían sterkari. Tónlist Venusar er mun sterkari frá dramatísku sjónarhorni.

Þannig er atriðið þegar hún þrábiður Tannhäuser að vera um kyrrt og varar hann því næst við þeim sorgum og raunum sem hann muni rata í — með því besta sem Wagner hefur samið og stenst samanburð við bestu verk hans síðar á ævinni.

En þegar Venus sér hversu Tannhäuser er fastur fyrir þá söðlar hún um. Gyðjan biður hann neita sér ekki um þá ánægju að veita honum inngöngu í sali sína ef á hann sæki löngun að snúa aftur. „Komdu til mín ef þú þráir frelsun“, segir hún.

En sem fyrr segir er Tannhäuser runninn ástarfjöturinn. Hann þráir að snúa aftur til mannheima þó honum virðist ljóst að það verði dauði hans. Hann ákallar Maríu Guðsmóður.

Venus hverfur á sömu stundu og hin glæstu salarkynni hennar sömuleiðis. Um leið kveður við þrumugnýr.

Þekking Wagners á leiksviðinu sést glöggt af hinum stórfenglegu dramatísku áhrifum sem við upplifum þegar sviðsmynd Venusbergs hverfur og við tekur landslagið í Wartburgdalnum.

Fyrst eru litríkar freistingar við hirð sjálfrar ástargyðjunnar,  dansandi nymfur, sírenur og satýrar ásamt hinum miklu steinhvelfingum.

1. þáttur, 2. atriði.

Í næstu andrá er þetta allt horfið og við erum í einu vetfangi færð yfir í friðsæla sviðsmynd í Wartburgdalnum. Og áhrif þessarar sviðsmyndar verða enn magnþrungnari af krossinum í forgrunninum, þar sem Tannhäuser krýpur í iðran. Friðsæld og kyrrð fá enn aukin áhrif — því á klettasyllu tv. á sviðinu birtist ungur fjárhirðir Hann leikur á flautu sína og syngur hjarðljóð:

5. – Frau Holde kam aus dem Berg hervor. –
En áður en hann hefur lokið söng sínum heyrast raddir pílagrímanna úr fjarlægð:

6. – Zu dir wall’ich. –
Alvaran sem þeim fylgir er stundum rofin af stuttum hljómum, sem hjarðsveinninn leikur á flautu sína.

Þegar pílagrímarnir nálgast verður söngur þeirra hljómmeiri. Þegar þeir ganga yfir sviðið og lúta krossinum verður lofsöngur þeirra kraftþrungnari og umhverfist i hástemmdan sálm tilbeiðslu og tignunar.

Tannhäuser er djúpt snortinn og gefur tilfinningum sínum lausan tauminn í harmljóði. Saman við það fléttast raddir pílagrímanna þegar þeir hverfa í fjarlægð.

Fegurð þessa atriðis er magnþrungin og skapar andstæður þess annars vegar en upphafs óperunnar og atriðisins í Venusberg hins vegar. Þessar andstæður verða enn áhrifameiri vegna þeirrar trúarlegu kyrrðar sem er ríkjandi yfir atburðarásinni og sjálfri tónlistinni.

Friðsældin er rofin er veiðihorn taka að óma og landgreifinn og veiðifélagar hans ganga fram á Tannhäuser.

Þeir eru furðu slegnir er þeim verður ljóst hver þar er kominn:

7. – Du bist es wirklich. –
Þeir spyrja hann hvort hann sé þar kominn sem vinur eða óvinur. En Wolfram von Eschenbach sem áður var náinn vinur Tannhäusers ávítar þá og segir: Er þessi auðmjúki og hrakti maður þesslegur að hann sé óvinur?

Tannhäuser greiðir lítt úr spurningum þeirra um farir sínar en lætur á sér skiljast að hann hyggist ekki dvelja um kyrrt en sé á förum. Þeir hvetja hann ákaft að fara hvergi.

Þegar Wolfram kemst að því að Tannhäuser er ákveðinn að fylgja pílagrímunum til Róms, biður hann landgreifann að leyfa sér segja Tannhäuser þau áhrif sem hann hefur haft tilfinningar Elísabetar. Þetta gerir hann í kliðmjúkri einræðu:

8. – Als du in kuhnem Sange. –
Tannhäuser kemst við af ást Elísabetar.

9. – Ha, jetzt erkenne ich. –
Hann samþykkir að snúa aftur til þeirra glæstu sala sem hann hefur verið fjarri svo lengi. Þessi ákvörðun hans er öllum mikill fögnuður og menn hrópa af gleði:

10. – Ein Wunder hat ihn gebracht. –
Þessu atriði lýkur með hástemmdum samsöng. Nú streyma að fleiri veiðifélagar. Landgreifinn blæs í horn sitt og þá hljómar fjöldi veiðihorna víða um dalinn. Halda menn nú glaðir í bragði til hirðar landgreifans í Wartburgkastala.

Það er stórfengleg tónlist, glæsileg og tilþrifamikil. Hún er afar fögur og heillandi — einkum þegar vel tekst til. Þ.e. þegar sá sem syngur Tannhäuser er það raddsterkur að hann nær að gnæfa hátt ofar öðrum röddum.

2. þáttur.

Salur mansöngvaranna í Wartburg. Elísabet gengur inn full gleði, og beinir orðum sinum að auðum salnum. Hún lýsir fögnuði sínum yfir því að Tannhäuser hefur snúið heim.

Um leið og tjaldið er dregið frá gengur hún í salinn og syngur glöð um fyrri sigra Tannhäusers. Þá gengur Wolfram inn og leiðir Tannhäuser á fund hennar. Elísabet virðist altekin gleði að sjá hann, en hemur tilfinningar sínar. Kvenleg hógværð hennar dylur að nokkru gleði endurfundanna, en sú gleði fær þó nokkra útrás í hikandi en afarfögrum hendingum:

11. – So steht auf. . . Fern von hier. –
Hún spyr Tannhäuser hvar hann hafi dvalið, en að sjálfsögðu eru svör hans býsna óræð. Loks segir hann henni að hún sé sú, er hafi heillað hann heim í kastalann.

Ást þeirra fær útrás í hvikum, hraðstreymnum dúett, sem því miður er sjaldan leikinn í heild. En þessi fagra tilfinningaríka útrás í formi tónlistar á sannarlega skilið að vera leikin nákvæmlega í þeirri lengd og með þeim hætti, sem tónskáldið ætlaðist til er verkið var fullsamið:

12. – Der Sanger klugen Weisen . . . Den Gott der Liebe. –
Wolfram sér að hann á enga von að vinna ástir Elísabetar. Landgreifinn gengur í salinn.

13. – Dich treffe ich hier. –
Hann gleðst mjög að sjá Elísabetu í salnum, en hún hefur forðast að koma þar síðan Tannhäuser hvarf á brott. Hún á erfitt með að tjá hamingju sína á þessari stundu, en landgreifinn skilur fyrr en skellur í tönnum. Hann segist munu hafa hljótt um leyndarmál hennar um sinn:

14. – Noch bleibe denn tinaus- gesprochen. –
Það á að halda söngkeppni í hinum glæsta sal. Þangað hefur verið boðið fyrirfólki víða að — og Elísabet á að afhenda sigurlaunin. Gestirnir taka að streyma að og eru miklir fagnaðarfundir.

15. – Freudig begrüssen wir. –
Þegar viðstaddir eru sestir tilkynnir landgreifinn hvaða viðfangsefni söngvurunum er ætlað að tjá. Sá sem best gerir skil í ljóði og lagi hinu sanna eðli ástarinnar skal hreppa sigurlaunin úr hendi Elísabetar og skal hafa sjálfdæmi um verðlaun sín.

Þá draga söngvararnir um það hver eigi að byrja. Það kemur í hlut Woframs. Hann syngur um helga ást, háleita og hreina. Gera menn góðan róm að túlkun hans:

16. – Blick ich umher. –

Sjálf söngkeppnin er ekki mikil að tónlistargildi í samanburði við aðra hluta verksins. Og skilji menn ekki hinn sungna texta er hætt við hann verði ýmsum langdreginn.

En þar vegur á móti að dramatísk spenna vex smám saman. Tannhäuser hefur setið annars hugar. Nú sprettur hann skyndilega á fætur og lætur í ljós fyrirlitningu sína á ástarsöngvum mansöngvaranna, sem honum þykja bæði daufir og litlausir. Hann minnist Venusar og lofsyngur hina munaðarsamlegu ást.

17. – O Wolfram, der du also sangest. –
Þessi spenna vex stöðugt og nær hámarki er Tannhäuser fær ekki lengur hamið tilfinningar sínar og tekur að syngja af ákafa óð sinn til dýrðar hinum vanhelgu og heiðnu töfrum Venusar, segir af dvöl sinni í Venusberg:

18. – Dir Göttin der Liebe. –
Þetta veldur mikilli hneykslan:

19. – Ha, der Verrüchte. –
Viðstaddar hefðarkonur hrópa upp yfir sig af hneykslan og viðurstyggð. Þær hraða sér allar úr salnum nema Elísabet. Landgreifinn og riddarar hans draga sverð úr slíðrum og ráðast gegn Tannhäuser.

Þar er komið að því hádramatíska augnabliki þegar Elísabet hrópar upp yfir sig af skelfingu og kastar sér milli Tannhäusers og hinna brugðnu branda:

20. – Zurück von ihm. –

Hún bjargar honum — þrátt fyrir að hann hafi brugðist ást hennar. Hún segir þá réttlausa að að neita honum um tækifæri til að leita sér fyrirgefningar þessa heims með iðrun og yfirbót. Viðstaddir undrast að hún skuli bera í bætifláka fyrir slíkan mann. Karlmennirnir hafa formælt Tannhäuser og álasað honum fyrir þann glæp að hafa dvalið í dyngju Venusar.

Þegar Tannhäuser verður ljóst hve alvarlegur glæpur hans er, þá er sem sektarkenndin yfirbugi hann gersamlega. Þá hljómar fagur sjöradda söngur.

21. – Ein Engel stieg aus lichtem Ather. –

Hann rís að tignarlegu hámarki. Sannarlega með því besta í dramatík Wagners en því miður æði oft misþyrmt með vondum söng.

Nú deila menn um þetta uns landgreifinn býður fram lausn:

22. – Ein furchtbares Verbrech- en . . . Versammelt sind. –
Raddir pílagrímanna hljóma nú í dalnum. Landgreifinn kunngerir skilyrði þess að Tannhäuser megi á ný hljóta fyrirgefningu:

Hann á að slást í för pílagrímanna til Róms:

23. – Mit ihnen sollst du wallen. –
Þar geti hann leitað á náðir páfa og beðið sér fyrirgefningar. En hljóti hann ekki syndaaflausn má hann aldrei snúa aftur og skal vera réttdræpur ef hann brýtur gegn því. Við heyrum söng pílagrímanna er þeir halda af stað:

24. –  Nach Rome. –
Tannhäuser gengur af stað með pílagrímunum og hefur Rómargöngu sína.

3. þáttur.

Enn erum við í Wartburgdalnum. Sama svið og í 1. þætti, 2. atriði. Það er haust — og tekið að kvölda.

Elísabet er hvítklædd (ath. vísun í brúðarklæði) og krýpur við krossinn í innilegri bæn. Wolfram stendur álengdar og horfir á hana ástúðlegum augum. Hann syngur dapurlegt resetatív (sunginn framsagnarkafli, eins konar söngles). Hann vonar að bænir hennar um að Tannhäuser snúi aftur megi rætast:

25. – Wohl wusst’ich hier. –
Söngur pílagrímanna heyrist í fjarlægð. Þeir hafa snúið aftur frá Rómaborg:

26. – Beglíickt darf nun dich. –
Þeir syngja stefið sem gaf að heyra í forleiknum og í fyrsta þætti. Við heyrum þá nálgast þegar tónlistin magnast og vex að styrkleika í stórbrotnu cresendo er þeir koma á sviðið — og hverfa svo á braut.

Elísabet er full angistar og sorgar. Hún virðir pílagrímana nákvæmlega fyrir sér hvern og einn er þeir fara hjá — til að sjá hvort Tannhäuser er meðal þeirra. Þegar síðasti pílagrímurinn er farinn gerir hún sér ljóst að hann hefur ekki snúið aftur. Aftur fellur hún á kné frammi fyrir krossinum og syngur bæn sína: „Volduga Guðsmóðir, heyr mínar sorgir”.

27. – Allmacht’ge Jungfrau. –
Þessi tónlist sameinar undurfagurt djúpa sorg en þó um leið trú og traust á vilja almættisins. Hún rís á fætur og snýr aftur í kastalann. Hún biður Guðsmóður taka líf sitt svo hún megi deyja og fara til himna. Þar ætlar hún að biðja Tannhäuser náðar.

Hinn tryggi Wolfram spyr hana hvort hann megi fylgja henni til kastalans — en hún hafnar því og gengur ein þungum skrefum upp fjallið.

Það er kvöldsett — og kvöldstjarnan blikar mildu skini yfir kastalanum. Þá syngur Wolfram hinn undurþýða og fagra óð til kvöldstjörnunnar: „0, du mein holder Abendstern” og leikur undir á lýru sína. Þar játar hann ást sína hinni dyggðugu Elísabetu.

28. – Wie Todesahnung . . . O, du mein holder Abendstern. –
Hann syngur um þrá Elísabetar að hverfa burt úr þessum heimi og biður kvöldstjörnuna að bera hinni flýjandi sálu kveðju þess sem ávallt ann henni.

Þá birtist Tannhäuser, raunamæddur, fótsár og örþreyttur:

29. –  Ich hörte Harfenschlag. –
Wolfram þekkir hann ekki í fyrstu — en Tannhäuser þekkir hann. Þá spyr Wolfram hann hvernig honum hafi vegnað í Rómarför.

Tannhäuser biður Wolfram hálfbrostinni röddu að vísa sér veg í Venusberg.

Wolfram biður hann staldra við og fær talið hann á að segja sér af pílagrímsgöngu sinni til Róms. Tannhäuser fellst loks á það:

30. – Inbrunst um Herzen. –
Í eldheitum söng sínum segir Tannhäuser frá öllum þeim raunum og mótlæti sem hann hefur mátt reyna á leið sinni til borgarinnar eilífu. Þúsundir hlutu fyrirgefningu. En þegar páfi heyrir af för hins ólánssama manns og dvöl hans í Venusberg þá kveður hann upp hinn ógurlega úrskurð sinn:

Tannhäuser geti ekki vænst fyrirgefningar fremur en að bagall páfa taki að laufgast.

Þetta er afar áhrifamikið atriði og greinilegur vísir þess hvernig Wagner hefur söngles eða sunginn framsagnarkafla er hann semur síðari verk sín. Aðeins allrabestu söngvarar geta gert þessu söngformi verðug skil.

Tannhäuser lýsir því yfir að þar sem hann eigi sér enga von um sáluhjálp vilji hann enn á ný gefa sig á vald munaðarfullu lífi í Venusberg.

31. –  Zu dir, Frau Venus. –
Wolfram gerir hvað hann getur til að telja vini sínum hughvarf:

32. – Halt ein! Halt ein!. –
Rósrauðri birtu bregður á fjallið Venusberg í fjarska og heiðnum vættum sem skipa hirð gyðjunnar bregður fyrir í svip. Venus teygir fram arma sína mót Tannhäuser og fagnar honum. Tannhäuser virðist ekki fá staðist seiðandi rödd Venusar öllu lengur og ekkert geta orðið honum til bjargar.

Á síðustu stundu minnir Wolfram hann á hina flekklausu Elísabetu. Þá bráir af Tannhäuser. Villuljósið dofnar og töfraljómi Venusbergs hverfur ásamt gyðjunni, sem öðru sinni hefur orðið af bráð sinni.

Nú lýsist sviðið upp af logandi kyndlum. Við heyrum klukknahljóm og sorgþrungnar raddir. Líkfylgd kemur gangandi niður fjallið, skipuð riddurum og aðalsmönnum.

Wolfram leiðir Tannhäuser að líkbörunum og hinn ógæfusami maður þekkir þar Elísabetu. Hann er að dauða kominn og hnígur niður við líkama hennar og deyr. Í sömu mund ber þar að annan hóp pílagríma:

33. – Heil! Heil! Der Gnade Wunder Heil! –
Þeir eru með bagal páfa og þau stórmerki orðin að hann hefur nú laufgast. Þá má augljóst vera að syndir Tannhäusers eru honum fyrirgefnar. Pílagrímarnir syngja hástemmt halelúja, lofa Drottinn Guð — og þar með lýkur óperunni.

Orðaskýringar

Wartburg: Kastali í A-Þýzkalandi í Thüringen, rétt hjá Eisenach; þar þýddi Lúter Nýja testamentið 1521—1522.

Landgrave: Landgreifi — þýzkur greifi á miðöldum, sem réð töluverðu landsvæði og var oft settur yfir aðra greifa.

Venusberg: Fjall í  Mið-Þýzkalandi. Skv. miðaldasögnum hélt ástargyðjan Venus þar hirð sína.

Nymfur: Sbr. grískar og rómverskar goðsögur; dísir.

Sírenur: Sbr. gríska goðafræði; raddfagrar sjávardísir, að hálfu í fuglslíki, er seiddu sjófarendur með söng sínum og var þeim þá glötun ein vís ef þeir brutu skip sín á klettum, sbr. Ódiseif.  Satýri: Sbr. gríska goðafræði; heiti náttúruvætta, sem eru að hluta til menn og að hluta geithafrar; fylgifiskar Bakkusar, kunnir fyrir kerskni, svall og kvennaveiðar.

Leda: Sbr. gríska og rómverska goðafræði. Gyðjan Leda átti með manni sínum Tyndareusi þau Castor og Clyxtemnestu; og með Seifi sem var í svanslíki átti hún Pollux og Helenu.

Allegória: Líkingasaga, táknsaga, launsögn. Saga (í máli eða myndum) þar sem persónur og atvik hafa aðra merkingu samhliða þeirri sem tjáð er með beinum orðum.

Samantekt byggð á ýmsum heimildum og grúski, gerð í tilefni af konsertuppfærslu á Tannhäuser hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands 27. apríl 1989.