Thomas Mann og Wagner

Fyrirlestur í Hannesarholti á aðalfundi  Wagnerfélagsins mars 2019

1.

Richard Wagner og Thomas Mann eru einhverjir frægustu útlagarnir í þýskri menningarsögu. Wagner var gerður útlægur frá Þýskalandi vegna pólitískra afskipta í tólf ár; í valdatíð Nazista gerðist Thomas Mann sjálfskipaður útlagi frá Þýskalandi meðal annars vegna skrifa sinna um Wagner.

Wagner dó árið 1883, nánar tiltekið 13. febrúar, í Feneyjum. Árið 1912 skrifaði Thomas Mann eina af sínum frægustu löngu smásögum: Dauðinn í Feneyjum. Árið sem Wagner dó var Thomas Mann 7 ára gamall, en Mann fæddist árið 1875. Eftir dauða Wagners greip um sig mikið Wagner-æði í Evrópu og Thomas Mann var undir mjög sterkum áhrifum frá Wagner og tónlist hans, á fyrri hluta starfsævi sinnar.

Thomas Mann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1929, ekki síst fyrir ætt­ar­­­­krón­­­íku sína Buddenbrooks sem fjallaði um hina virtu forfeður Thomasar Manns í fjóra ættliði – kaupmennina í þýsku Hansaborginni Lübeck, sem er reyndar ekki nefnd á nafn í verkinu. Buddenbrooks kom út árið 1901, 18 árum eftir dauða Wagners. Það er meðal annars tónlist Wagners, sem gerir það að verkum í Buddenbrooks að ætt Buddenbrooks-manna hnignar eða úrkynjast; undirtitill sögunnar er: Hnignunarsaga kaupmannsættar – síðasti afkomandi ættarinnar hneigist í átt til lista, ekki síst tónlistar og hefur ekki áhuga á verslun og viðskiptum eins og forfeður hans höfðu haft.

Í síðari hluta Buddenbrooks á sér stað samtal þar sem átök um tónlist Wagners koma vel fram; móðir Hannós litla (en Hannó, eða Jóhann, er að hluta til sjálfslýsing Thomasar Manns, eins og Tóníó Kröger síðar), móðir Hannós, Gerða Buddenbrooks, spilar á fiðlu og fær organistann herra Pfühl, til segja syni sínum til á píanó. Í íslenskri þýðingu Þorbjargar Bjarnar Friðriksdóttur hljómar þessi átakakafli um tónlist Wagners svona: (þessi tilvitnun er tvær blaðsíður að lengd).

Höldum áfram að vitna í þessa Nóbelsverðlaunasögu Thomasar Manns og skoðum áhrifin til ills fyrir kaupmannagenin í Buddenbrooks-fjölskyldunni, en til góðs fyrir listina, en þó ekki endilega til góðs fyrir líf listamannsins. (bls. 397- 399. Hér eru aftur tvær blaðsíður af tilvitnun).

Þarna gæti Hannó litli,  á sínum áttunda afmælisdegi, hafa fengið sína fyrstu líkamlegu fullnægingu. Og hvert leiðir þessi tónlistaráhugi hann þegar hann er orðinn 15 ára gamall?

Á bls. 582 í þriðja síðasta kafla sögunnar, segir í lok kaflans. (Hér höfum við þrjár blaðsíður af tilvitnun, og það nánast í einni málsgrein).

Tveir stuttir kaflar ljúka síðan sögunni um hnignun Buddenbrooks-ættarinnar. Strax á eftir setningunni „Svona var einn dagur í lífi Jóhanns litla“ kemur 3. kafli ellefta og síðasta hluta sögunnar, en þessi kafli er einn frægasti kaflinn í sögunni. Hann hefst svona: „Taugaveikin hagar sér eins og frá er greint hér á eftir.“ Nafn Hannós er ekki nefnt í þessum þriggja blaðsíðna kafla sem lýsir þróun taugaveiki. Niðurstaðan er sú að áhrifin frá tónlist Wagners leiða til dauða Hannós. Þar með er saga Buddenbooks-manna öll, enginn eftir til að taka við kaupmannaveldinu sem var hvort eð að niðurlotum komið. Svona var líka saga Thomasar Manns, sem hafði ekkert kaupmannagen í sér, ekki fremur en eldri bróðir hans Heinrich Mann, sem gerðist einnig rithöfundur en ekki kaupmaður fremur en Thomas Mann.

Kvikmyndin Blái engillinn með Marlene Dietrich frá árinu 1930 er byggð á sögu eftir Heinrich Mann.

2.

Smásaga Thomasar Manns Tristan kom út tveimur árum á eftir Buddenbrooks, árið 1903, og þar er það músikdrama Wagners sem spilar stóra rullu eins og við minntumst á hér fyrir ári síðan: rithöfundur myrðir veiklaða eiginkonu manns sem rithöfundurinn hatar, með því að fá hana til að spila á píanó. Og hvert var morðvopnið: ástardauði Wagners. Hin fræga píanóútsetning verksins, sem meðal annars lauk upp töfraheimi tónlistar Wagners fyrir hinum unga heimspekingi Friedrich Nietzsche, er eftir Hans von Bülow, sem Wagner gerði að einum frægasta kokkál menningarsögunnar.

Áhrif frá Wagner í verkum Manns eru einnig í smásögu Manns Wälsungenblut eða „Völsungablóð“ sem Thomas Mann þorði ekki að gefa út lengi framan af. Fyrirmynd fjölskyldunnar í þeirri sögu var fjölskylda tengdaforeldra Manns, en þau voru af gyðingaættum. Þeim líkaði vel við söguna en hættan á mistúlkun sögunnar út frá gyðingafordómum gerði það að verkum að útgáfu sögunnar var frestað, en í dag, er þessi saga öllum aðgengileg sem áhuga hafa á að kynna sér hana. Sagan fjallar um tvíeggja tvíbura sem heita Siegmund og Sieglinde. Þau fara að sjá músikdrama Wagners Valkyrjuna og ákveða í kjölfar sýningarinnar að sofa saman í anda sifjaspellshugmynda Wagners í Valkyrjunni. Þetta gera þau vegna þess að Sieglinde er ætlað að giftast kristnum manni sem hún er ekki hrifin af og systkinin ná sér, með þessari framkvæmd niðri á Goyanum, þeas hinum kristna; þannig var upphaflegur endir sögunnar, en útgefandinn bað Thomas Mann, árið 1905, um að breyta lokasetningunni, ekki að nota gyðingaorðið goy í síðustu setningu sögunnar. Upphafleg lokasetning verksins var þannig að Siegmund sagði: „Við náðum okkur niður á honum, goyanum“; þannig endar sagan. En í smásagnasafni Manns Sögur frá þremur áratugum segir Siegmund um hinn kristna í lokasetningunum: „Hann ætti að vera okkur þakklátur. Héðan í frá verður tilvera hans ekki yfirborðsleg.“

End of story? Ekki aldeilis. Sagan fékk ekki að koma út fyrr en sextán árum eftir að hún var tilbúin, eða árið 1921 og þá í takmörkuðu lúxus upplagi; fyrstu þrjátíu eintökin voru með aukablaðsíðu þar sem upphaflegi endirinn fylgdi með.

Thomas Mann var afar ósáttur við þá frelsissviftingu sem hann varð þannig stundum að búa við sem skapandi listamaður: upphaflegi endirinn er bæði listrænni og meira í samræmi við anda sögunnar.

3.

Mikilvægasta ritgerð Thomasar Manns um Wagner heitir „Sorgir og snilld Richard Wagners“. Það var Goethe félagið í München sem bað Mann að setja saman erindi um Wagner í tilefni af því að 50 ár voru liðin frá dauða Wagners, 13. febrúar 1933. Frumflutningur Manns á þessu erindi fór fram við háskólann í München 10. febrúar 1933. Ritgerðin var síðan birt sem „Leiden und Grösse Richard Wagners“ í Die Neue Rundschau í Berlín, í apríl 1933.

Verkið er mikill dýrðaróður til Wagners og verka hans, en jafnframt viðvörun um hættur sem gætu leynst í hugmyndafræði í verkum Wagners ef menn nálgast þau á ógagnrýninn hátt; afstaðan í ritgerð Manns er í beinni andstöðu við þá helgun á verkum Wagners sem Nazistar stóðu fyrir í anda þess sem þeir kölluðu Macht og Kultur. Það var ekki góð tímasetning hjá Thomasi Mann að viðra þessar skoðanir þegar tæpar tvær vikur voru liðnar frá því Foringinn mikli, Der Fürer, varð kanslari Þýska ríkisins, auk þess sem Mann endurtók lesturinn í Amsterdam 13. febrúar, Brüssel 14. febrúar og París 18. febrúar.

27. febrúar kviknaði í þinghúsinu, Reichstag í Berlín og stuttu síðar, fékk Thomas Mann þau skilaboð þar sem hann var staddur í Sviss að ekki væri unnt að tryggja öryggi hans í Þýskalandi. 13. mars skrifaði hann í sendibréfi: „Ég er á lista yfir þá sem hafa gert sig seka um vitsmunaleg föðurlandssvik vegna öfgafulls friðarboðskapar.“ Vinir hans, ásamt börnum hans björguðu handritum hans, meðal annars Biblíusögunni um Jósef, og sendu, ásamt stórum hluta af bókasafni hans, á heimilisföng í Frakklandi og Sviss. Um haustið settist Thomas Mann að í Küsnacht nálægt Zürich, og svo í Bandaríkjunum fimm árum síðar, árið 1938.

„Sorgir og mikilleiki Richard Wagners“ fékk mjög jákvæð viðbrögð hjá flestum, en þó ekki hjá hópi Nazista sem tóku sig saman og undirrituðu skjal sem frægt er að endemum og birtist í Münchener Neueste Nachrichten, 16/17, í apríl 1933. Þarna var um að ræða íbúa í München sem stunduðu menningarhreinsanir, þar með talinn yfirmaður heilbrigðisnefndar borgarinnar; forystumaður í þessu ferli var hinn frægi hljómsveitarstjóri, prófessor Hans Knappertsbusch; Richard Strauss skrifaði einnig undir en bæði hann og Knappertbusch sáu víst fljótlega eftir þessari fljótfærni. Samtals voru það 45 aðilar sem undirrituðu bréfið sem þeir kölluðu: „Mótmæli frá München, heimaborg Richard Wagners“. Í bréfinu er minnst á hroka og snobb sem einkenni ritgerð Manns, móðgun við Wagner og lýðræðisskrum og þá miklu skömm að tengja verk Wagners við skrif austurríska gyðingsins og sálgreinandans Sigmund Freuds. Þá skammast bréfritarar út í það að Mann minnist á viðvaningshátt hjá Wagner í verkum hans og að það vanti dansinn í verk hans. Áhersluna á dansskortinn erfði Mann frá Nietzsche, sem tefldi Carmen eftir Bizet fram á móti hinum flóknu verkum Wagners. Viðvaningshátt Wagners útskýrir Mann þannig að ljóð Wagners geti ekki staðið undir sér á sjálfstæðan hátt, þau þurfti á tónlistinni að halda, en það var jú einmitt ætlun Wagners að skapa heildræn, marglaga listaverk, sem gerir það að verkum að kalla má mörg tónverka Wagners forvera listforms kvikmyndanna, enda hafa bestu tónskáld kvikmyndalistarinnar farið mjög svo í skó Wagners. En frá Nazistum kom enginn vitsmunalegur rökstuðningur fram á þessum tveim blaðsíðum frá hreingerningar­mönnunum í München, gegn skoðunum Thomasar Manns á verkum Wagners.

4.

Ekki er hægt að fullyrða að áhugi Thomasar Manns á sifjaspellum hafi komið til vegna beinna áhrifa frá Valkyrju Wagners og líkamlegra systkinaásta Sigmundar og Sieglindar. Þó er það svo að snilld Wagners við að selja áhorfendum og hlustendum þetta bannaða samband í Valkyrjunni er slík, að ekki er hægt að jafna til við neitt í heimsbókmenntunum nema Shakespeare, þegar enska skáldinu tókst að gera það sennilegt að Ríkharður III komist upp með það að festa sér eiginkonu þegar hann er nýbúinn að láta myrða eiginmann hennar.

Thomas Mann vildi meina að tónlistin í verkum Wagners hafi hjálpað Wagner við að gera handrit sín sennilegri – og það var því ögrun fyrir rithöfund, eins og Thomas Mann, sem ekki gat stuðst við tónlist í verkum sínum, að gera sifjaspell sannfærandi í ritverki og allt að því eðlilega atburðarás. Fyrsta sifjaspellsverk Thomasar Manns var smásagan Völsungablóð, sem ég minntist á áðan.

Næsta verk Thomasar Manns þar sem minnst er á sifjaspell er Dr. Faustus sem kom út árið 1940; það fjallar um tónskáld sem Mann kallar Leverkühn, en hann seldi  sál sína djöflinum svo hann gæti búið til merkileg framúrstefnu tónverk; verkið er að hluta byggt á ævisögu Nietzsches enda hlýtur Leverkühn sömu örlög að lokum, í geðveiki, eins og Nietzsche. Í Dr. Faustus  notar Leverkühn í einu tónverka sinna, sögu úr hinu forna latneska sagnaverki Gesta Romanorum; sagan heitir „Um fæðingu hins sáluga Gregoríusar páfa“. Thomas Mann lýsir sögunni svona í Dr. Faustus í þýðingu Þorsteins Thorarensens (hér í örlítið styttri útgáfu):

[Sagan] hefst á föðurlausum systkinum, og svo illa tekst til að bróðirinn elskar systur sína meira en hann ætti að gera, svo hann missir stjórn á sér og kemur henni í nokkuð athyglisverðar aðstæður, þar sem hann gerir henni barn og hún elur óvenju fallegan dreng. Síðan snýst sagan um þennan dreng sem er systkinabarn sjálfs sín í orðsins syndsamlegustu mynd. [Móðirin losar sig við drenginn og ábóti nokkur] finnur hann og skírir hann eigin nafni, sem var Gregoríus. [Þegar Gregoríus var kominn til manns, stakk hann] við fótum í borg móður sinnar [sem hann þekkir ekki]. Hann lætur [þá] vísa sér inn til hennar – og eins og sagt er „hún grandskoðar hann“ en þekkir ekki. […R]áðgjafar hennar leggja eindregið til að hún gangi að eiga hann [og hún] samþykkir þennan ráðahag. [Þannig stígur] hinn syndsamlega getni sonur […] í brúðarsængina með móður sinni – en ég ætla þó ekki að fara lengra út í þá sálma[,]

segir sögumaðurinn í Dr. Faustus; sálmarnir sem hinn pempíulegi sögumaður í Dr. Faustus veigrar sér við að minnast á, eru þeir að Gregoríus, sem síðar verður páfi, eignast í anda Ödipusar konungs, ekki bara eitt barn með móður sinni, heldur tvö.

Thomas Mann hélt áfram með þetta sifjaspells-systkinastef í skáldsögunni Hinn útvaldi (Der Erwählte, 1951); í ensku þýðingunni er sagan kölluð The Holy Sinner. Á titilblaði verksins segir: „Þessi saga byggir að miklu leyti á ljóðabálkinum Gregorius vom Stein eftir þýska síðmiðalda ljóðskáldið Hartmann von Aue (s. 1165-1210) sem nam þessa riddarasögu frá Frökkum“. Eins og sjá má af ártölum Hartmanns var hann samtímamaður þeirra sem rituðu Íslendingasögurnar.

Í Hinum útvalda eru það alsystkinin Sibylla og Wiligis, sem eignast saman hinn útvalda og heilaga syndara Gregoríus, sem verður páfi, en eignast þó fyrst tvær dætur með móður sinni. Þessa snöfurlegu kaþólsku sögu segir Mann á rúmlega 200 blaðsíðum.

5.

Fyrstu kynni mín af verkum Thomasar Manns áttu sér stað þegar ég var í Mennaskól­anum við Hamrahlíð. Í íslenskunáminu áttum við að kynna okkur heimsbókmenntir og ég taldi að ég gæti komist létt frá slíku verkefni með því að velja mér stystu söguna sem ég fann á listanum yfir verkin sem við gátum valið um. Þetta reyndist vera alröng ályktun hjá mér því ég neyddist til að fara yfir þau mörk sem kennarinn hafði gefið upp um lengd ritgerðanna sem við áttum að skrifa, svo heillandi fannst mér sagan um Tóníó Kröger. Þegar ég fékk ritgerðina til baka frá kennaranum blasti við mér talan 9,8 – og útskýringin á þessum 0,2 sem upp á vantaði: það leyndust tvær stafsetningavillur í verkinu. Sem minnti mig á einkunn sem ég hafði fengið í handavinnu í landsprófi, í Gagnfræðaskóla Kópavogs: einkunnin var 9,9 –, vinur minn fékk 9,8 en gerðist þó handavinnukennari. Kennarinn sem gaf okkur þessar einkunnir var ungur að árum og það kom flatt upp á mig nokkrum árum síðar þegar þessi sami kennari kom æðandi til mín ofan í grunn á húsi sem ég var að vinna við í Auðbrekkunni í Kópavogi og ég sá að blessaður kennarinn var með útbólgið samviskubit, svo ég leyfði honum að tjá sig um það og hann sagði: „Árni minn. Ég er ennþá með samviskubit yfir því að gefa þér ekki 10 í einkunn fyrir handavinnu; en ég var bara svo nýbyrjaður að kenna og mér fannst 10 vera svo stór einkunn.“ Ég bað hann blessaðan að hafa ekki áhyggjur af þessu, ég væri löngu búinn að gleyma þessu – sem var reyndar lygi. Líklega er það vegna þessarar smásmygli í kennurum mínum sem ég þyki, sem kennari, nokkuð örlátur á töluna 10 þegar nemendur mínir standa sig einstaklega vel í námi. Stundum gef ég meira að segja 11, en það er önnur saga. Þegar ég hóf nám í Háskóla Íslands fékk maður stundum einkunnina 13, sem mér þykir enn ákafleg vænt um.

Og hvernig tengjast svona tölur svo Thomasi Mann? Jú, honum gekk einkar illa í skóla, féll þrisvar um bekk en var síðar gerður að heiðursdoktor við háskólann í Bonn, sem Nazistar reyndar rifu af honum um leið og þeir tóku af honum þýska ríkisborgararéttinn. Heiðurdoktorsnafnbót hlaut TM líka hjá Harvard háskóla og Cambridge, reyndar undir lokin samanlagt 7 heiðursdoktorsgráður.

Það var ekki nóg með að Mann gengi illa í skóla, heldur gekk flestum börnunum hans líka illa í skóla, nema Golo Mann, sem Thomas Mann hélt þar af leiðandi ekki sérlega mikið upp á, enda hafði Golo hlotið námsgáfurnar frá móður sinn; Golo lauk doktorsprófi 23 ára gamall.

Sem sé: einkunn – 9,8 fyrir ritgerð um verk eftir Thomas Mann, sem mig grunar að formaður okkar hér í Wagnerfélaginu hafi vitað af, enda vorum við árum saman samskipa í skóla frá tólf ára aldri. Þrátt fyrir þessa skaðræðiseinkunn, stakk Selma upp á því við mig að ég mundi fjalla um Thomas Mann, og tengsl hans við Wagner. Sem hefur gert það að verkum undanfarnar vikur að ég hef gefið mér langþráðan tíma til að lesa nokkur verka Thomasar Manns sem ég hafði ekki lesið áður.

Það sem heillaði mig hvað mest við kynni mín af Tóníó Kröger var innri barátta hans þegar hann var að reyna að komast að niðurstöðu um það hvert hann ætti að stefna í lífinu: átti hann að verða listamaður í anda hinnar suðrænu móður sinnar, eða borgari eins og hinn agaði norðanmaður pabbi hans? Listagenið kom frá móðurinni, eins og Mann hafði áður lýst í Buddenbrooks og segja má að æskuárum Tóníós sé lýst í Buddenbrooks í gegnum Hannó. Svo mikil var örvænting mín, í anda Tóníó Krögers, um framtíð mína að ég gat ekki áttað mig á hvort ég ætti, eftir stúdentspróf, að gera úr mér listamann, eða borgara og fara í háskóla. Eina ráðið sem mér datt í hug til að reyna að finna út úr þessu, var að fara á fund leikara sem hafði leikstýrt mér í gagnfræðaskóla, ásamt verðandi lögfræðingunum Gesti Jónssyni og Eiríki Tómassyni (sem eins og menn þekkja þá hefur Eiríkur Tómasson verið mikill verndari réttinda tónlistarmanna á Íslandi). Þessi leikari hafði leikstýrt okkur í Gagnfræðaskóla Kópavogs og það var í eina skiptið sem þessi landsfrægi leikari leikstýrði leikriti: Frænku Charleys, sem við sýndum í Lídó, en þessi atvinnuleikari hafði sjálfur slegið í gegn þegar hann lék konu í þessum vinsæla gamanleik. Þarna var sem sé um að ræða Árna Tryggvason. Ég heimsótti hann í Þjóðleikhúsið og spurði hann hvað ég ætti að gera: verða leikari, eða fara í akademískt nám. Svar hans var eftirfarandi: „Ég get ekki ráðlagt þér neitt nafni minn, en ég get sagt þér frá minni  reynslu. Mín reynsla er sú, að ég hef alltaf haft minnimáttarkennd yfir því, að vera lítið menntaður.“ Ég þakkaði nafna mínum kærlega fyrir þetta einlæga svar og taldi mig þarna hafa fengið ráð til að forðast minnimáttarkennd: fór sem sé beint upp í Háskóla Íslands og skráði mig í nám.

Eina verkið eftir Thomas Mann sem hann minntist á í Nóbels-ræðu sinni árið 1929 var Tóníó Kröger. Hann tengdi það við þennan heiður sem honum var þarna sýndur á norðlægum slóðum, en í bæði í Buddenbrooks og í Tóníó Kröger er það hinn norðlægi, borgaralegi arfur sem Mann tengdi við verslunarmanninn og borgarfulltrúann föður sinn, sem hinir öguðu norðanmenn telja eina virðingarverðustu stöðu sem hægt er að öðlast í lífinu og þeir hatast hins vegar við  tatara í grænum vögnum sem slóra við einhverjar sígaunafiðlur og annað listadrasl. Þegar Thomas Mann var heiðraður í bak og fyrir bæði með og án peningastyrkja undir lok ævi sinnar nefndi hann að það hefði verið gaman ef faðir hans hefði orðið vitni að velgengni hans. Hann minnist hins vegar ekkert á móður sína, hvaðan hann hafði erft listagenin.

6.

Hér má ég til að geta þess að nánast á banabeði íslenskukennarans okkar Selmu sem kenndi okkur í Menntaskólanum við Hamrahlíð, þar sem hann, hinn virti kennari Jón Böðvarsson lá fyrir tilviljun í rúmi við hlið föður míns á Borgarspítalanum – Jón þá búinn að missa nokkra tær vegna sykursýki og svo framvegis; þarna sagði Jón við mig orðrétt: „Hún Selma mín hefði getað orðið mjög góður rithöfundur, enda frænka Laxness. Þegar hún skrifaði ritgerð hjá mér í Menntaskóla hefði sú ritgerð getað gilt sem BA-ritgerð í Háskóla. En því miður, þá misstum við Selmu, yfir í tónlistina.“

Ég tók að sjálfsögðu heilshugar undir þetta hjá Jóni, en var þó til vara, með lygaramerki á tánum.

7.

En áfram með Wagner og Thomas Mann:

Það er skemmst frá því að segja að miklir áhrifavaldar í lífi og í verkum Thomasar Manns voru þeir vinirnir, og síðar fjandvinir, Wagner og Nietzsche. Ég er ekki viss um að Nazistar hefðu verið svona harðir við Mann ef hann hefði ekki túlkað Wagner og verk hans í gegnum Nietzsche. Að vísu voru Nazistar auk þess ekki ánægðir með að Thomas Mann skyldi giftast konu af gyðingaættum. Þeir voru heldur ekki ánægðir með að strax árið 1923 var Mann farinn að kalla München borg fasistans Hitlers og swastíkunnar. Og alla heimsstyrjöldina síðar flutti Mann útvarpserindi þar sem hann talað gegn Hitler og groddalegra hugmynda hans.

Nazistar voru ánægðir með hvað Thomas Mann hafði verið hrifinn af stríðsbrölti Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni, hann hafði þá skrifað 600 blaðsíðna skruddu sem hann kallaði, Stjórnmálahugleiðingar leikmanns, til að styðja við bakið á stríðsbröltinu. En Nazistar voru hins vegar ekki ánægðir með það þegar Mann gaf þetta verk út í annað sinn, en hafði þá stytt það um  rúmlega þrjátíu blaðsíður – þeir töldu að þá hefði hann svikið stríðsgraða íhaldssemina. Sem hann gerði reyndar síðar að einhverju leyti þegar hann fór að styðja við bakið á lýðræðislegri hugmynda­fræði Weimar lýðveldisins eftir 1918.

Þótt Nietzsche elskaði Wagner alla ævi, var aðdáun hans á listamanninum Wagner málum blandin og þó Nietzsche fjallaði mikið um list og listamenn, var það þó Thomas Mann sem fór ennþá dýpra í þá köfun, enda lýsir hann þjáningum listamanna út frá nánast öllum mögulegum sjónarhornum í verkum sínum. Við höfum þegar séð hvað listin getur verið banvæn, eins og Mann lýsti í Buddenbrooks og Tristan og hvað listin getur verið tætandi í lífi listamannsins, sem vill kannski bara fá að vera í friði í sínu borgarlega jafnvægi eins og Thomas Mann; í Dr. Faustus neyddist listamaðurinn til að selja skrattanum sál sína til að ná árangri í listinni sem kostaði hann vitið og svo framvegis.

Það sem heillaði mig líka þegar ég las Tóníó Kröger í fyrsta sinn var sú sálfræðilega dýpt sem Thomas Mann sýnir í verkinu til dæmis hvað Tóníó kvelst sem unglingur yfir því að ljóshærður og bláeygur vinur hans skilur Tóníó, hinn dökkhærða og brúneygða, illa ekki síst  listaáhuga hans. Þegar dagbækur Manns voru afhjúpaðar, kom í ljós að innri baráttan í sál hans, snerist ekki síst um bisexúalitet hans, sem hann hélt eins leyndu fyrir heiminum og hann framast gat. Thomas Mann eignaðist sex börn með eiginkonu sinni og tvö fósturlát varð sú úthaldsmikla kona að ganga í gegnum. En heilsan var stundum tæp hjá henni Katiu Pringsheim, síðar Katiu Mann og eitt sinn var hún misgreind með berkla og var send á heilsuhæli. Þangað heimsótti Mann hana og var hjá henni í þrjá vikur. Í einu virtasta verki Manns, Töfrafjallinu, fer söguhetjan í heimsókn til vinar síns á heilsuhæli uppi í fjöllum og ætlar að vera í þrjár vikur en ílendist þar í sjö ár. Þannig nýtti Thomas Mann sér gjarnan atburði úr eigin lífi í verk sín.

Töfrafjallið, eitt virtasta verk Manns, kom út árið 1924, Mann fékk Nóbelsverðlaunin fimm árum síðar, en þó var aðallega minnst á verk hans Buddenbrooks hjá sænsku akademíunni árið 1929, en Buddenbrooks kom út 28 árum áður. Það voru fleiri en Thomas Mann sem veltu því fyrir sér hvers vegna hann hefði þá ekki fengið Nóbelsverðlaunin fyrr. En það var víst einhver meðlimur í hinni mistæku nefnd sem kennd er við dýnamít-uppfinningamanninn Nóbel, sem var illa læs á Töfrafjallið, og sá aðili fékk að halda velkomendaræðuna. Þess má geta að loksins núna er verið að vinna í því að þýða Töfrafjallið á íslensku, en myndlistarmenn á Íslandi heiðruðu þó Mann og Töfrafjallið með því að bjóða upp á Töfrafjallssýningu þar sem aðgöngumiðinn á sýninguna gekk að heilsuhæli í Ölpum Íslands.

Í stuttri ræðu sinni við afhendingu Nóbelsverðlaunanna árið 1929 vitnaði Mann tvisvar í hið mikla heiðursskáld Þjóðverja Jóhann Wolfgang von Goethe. Og tíu árum síðar gerði Mann enn betur og skrifaði heila skáldsögu um Goethe. Þegar ég fór með kollegum mínum til Þýskalands, þar sem við vorum að kynna okkur skóla, tók borgarstjórinn í Weimar á móti okkur með heiðursmóttöku. Ég hafði dundað mér við það áður en ferðin var farin að lesa verk Thomasar Manns Lotta í Weimar og þegar borgarsjórinn í Weimar frétti af þessum vandaða undirbúningi fyrir heimsóknina, þá benti hann á næsta hús og sagði: „Þarna er Hótel Elefant, þar sem sagan gerist.“ Síðar frétti ég að byggð hefði verið heil hæð ofan á þetta fallega hvíta hótel, til þess að brjáluð tildursrófa gæti veifað til fólks úr mikilli hæð. Þessi  skaðræðismaður hét Adolf Hitler. Einn erfiðasti óvinur þessa Austurríkismanns var Thomas Mann því hann skrifaði svo beinskeyttar ritgerðir og áhrifamikil útvarpserindi gegn Hitler og smjöðrurum hans að illt var við að eiga. Dæmi um dugnað Manns við að skrifa vitsmuna­legar ritgerðir eru árin níu, 1937-1945, þegar hann skrifaði meira en 300 rit­gerðir.

Árið 1913 byrjaði Mann að skrifa Töfrafjallið, en varð að fresta skrifunum um eina heimsstyrjöld, því þá skrifaði hann bara ritgerðir til að styðja við bakið á þýskri hernaðarstefnu. En ein umdeildasta ritgerð hans, eins og hjá Wagner, fjallaði um gyðinga. Þá ritgerð skrifaði hann árið 1907, tveimur árum eftir að honum tókst loks að giftast inn í hina ríku Pringsheim gyðinga-fjölskyldu.

Þegar Richard Wagner ákvað að gefa út sína, að endemum, frægu ritgerð um gyðinga í annað sinn, og þá undir nafni, ráðlagði síðari eiginkona hans honum, að gera það ekki. En Wagner hlustaði ekki á eiginkonu sína og gaf verkið út, því miður. En hvað gerði eiginkona Thomasar Manns, þegar hann ætlaði að gefa út ritgerð sína um lausnina á gyðingavandamálinu: Hún gerði eins og Cosima og ráðlagði manni sínum að gefa verkið ekki út. Og hvað gerði Mann? Hann hlýddi eiginkonu sinni.

Wagner var tilbúinn að vinna með gyðingum ef þeir höfðu mikla hæfileika. Thomas Mann gekk ennþá lengra og sagði um gyðinga, meðal annars, að engir hefði tekið betur á móti honum en gyðingar þegar hann var á sínum mörgu fyrirlestraferðum.

8.

Skáldsaga Thomasar Manns, Lotta í Weimar, sem kom út árið 1939, fjallar um Goethe og Lottu á gamals aldri, en Lotta var sú sem Werther (eða Goethe) var ástafanginn af þegar þau voru ung eins og Goethe lýsti í hinu sjálfsævisögulega skáldverki, Þjáningum unga Werthers, sem kom út árið 1779 – Goethe lét Werther fremja sjálfsvíg í verkinu vegna þess að hann fékk ekki Lottu (en Goethe sjálfur lifði reyndar af). Mann hlífir ekki Goethe í þessari skáldævisögu um Lottu í Weimar, en bendir líka á að þótt Lotta hafi mátt þola ýmislegt ónæði af því að vera fyrirmynd í skáldsögu eftir Goethe, þá hafi hún þó fengið ýmislegt út úr því líka. Og Mann bendir einnig á að Goethe hafi reyndar mátt þola ýmislegt líka vegna þessara samskipta og skrifa. Þarna er Thomas Mann meðal annars að réttlæta það hvað hann var djarfur í að nota ævi lifandi fólks í verkum sínum þó hann að vísu notaði mest sjálfan sig þar – og sínar eigin áhyggjur.

Gott dæmi er verkið Dauðinn í Feneyjum þar sem Mann glímir við bisexúalítetið í eigin brjósti sem fæstir vissu af fyrr en dagbækur hans, (þær sem hann eyddi ekki), voru gefnar út. Tvennt olli þessu grunleysi almennings um áhuga Manns á ungum karlmönnum: Maðurinn var jú giftur og sex barna faðir auk þess sem hann stundaði aldrei homosexúelt líferni, líklega aðallega vegna feimni og bælingar. Þar að auki vefur hann söguna um dauðann í Feneyjum inn í goðsögulegar vísanir sem draga athyglina frá áhuga gamla rithöfundarins í sögunni á unga, fallega drengnum frá Póllandi.

9.

Stíll Thomasar Manns getur á köflum verið talsvert langdreginn, stundum uppfullur af því sem virðast vera aukaatriði; framanaf skirrðist Mann þó við að lýsa nánum líkamlegum samskiptum kynjanna. En árið 1954, ári áður en Thomas Mann dó, en hann náði að verða áttræður, þá kom út fyrsti hluti játninga glæframannsins Felix Krull. Mann samdi fyrsta hluta þessarar sögu árið 1911, en sá hluti kom þó ekki út sem smásaga fyrr en í smásagnasafni hans árið 1936; það safn heitir Sögur frá þremur áratugum. Sú hreinskilna lýsing sem ég enda þetta erindi á, gæti hafa átt sér fyrirmynd í verki sem Mann byggði verk sitt um Felix Krull á, en það voru tvö sjálfsævisöguleg verk rúmenska svindlarans Georges Manolescu sem uppi var á árunum 1871 til 1908 en ævisögubindin heita Þjófaprinsinn og Mistök.

Ef ykkur þóttu tilvitnanirnar í verk Manns langar, í upphafi þessa erindis, þá er það nú svo með þessa síðustu tilvitnun mína í verk Manns í þessu erindi, að hún er sönnun þess að þegar maður byrjar að lesa verk Manns, veit maður ekki hvar maður á að hætta, þannig að það er ekki vert að hafa þessa síðustu tilvitnun í verk Thomasar Manns styttri en þrjár blaðsíður. Og hér koma þessar þrjár síður í þýðingu Kristjáns Árnasonar: (bls. 139-142).

Thomas Mann bar sig gjarnan saman við Wagner, þakkaði honum meðal annars þá góðu fyrirmynd í Wagner, í tengslum við vinnuaga og sjálfsvirðingu við gerð listaverka, dáðist til dæmis mjög að listrænu útliti handrits Wagners að Tristan og Ísold. Mann hefði sjálfsagt aldrei lokið við hinn langa bálk sinn um Jósef og bræður hans, sem er 1500 blaðsíður, ef hann hefði ekki haft sem fyrirmynd hinn fjórskipta Niflungahring Wagners: Jósef og bræður hans kom út í fjórum bindum á mismunandi tímum. Á miðjum aldri spáði Thomas Mann því að hann mundi lifa jafn lengi og móðir hans, en hún dó sjötug. Mann varð hins vegar áttræður og taldi sig hafa lifað of lengi; Wagner hefði hins vegar dáið sjötugur og náð að skila af sér miklu meistaraverki áður en hann dó, þeas Parsifal. Mann lauk hins vegar ekki við söguna um blekkingameistarann Felix Krull en skilaði þó af sér fyrra bindi sögunnar ári áður en hann dó.

Thomas Mann vissi ekki, þegar hann velti þessum málum fyrir sér, að saga hans um glæframanninn Krull yrði ein vinsælasta saga hans, auk þess sem hann setti nýjan og frumlegan svip á þetta gamla form prakkara eða picaro sagna, með því að gera Felix að listamanni, að vísu fyrst og fremst í blekkingalistum.

Mann hefði verið sáttur við að deyja eftir að hann lauk við Doktor Faustus árið 1947. Hann taldi að þá hefði hann dáið eins og Wagner, eftir að hafa samið mikið meistaraverk.

Rit eftir Thomas Mann

Der kleine Herr Friedemann (smásögur), 1898
Buddenbrooks, 1901
Tristan (smásögur), 1903
Königliehe Hoheit, 1909
Der Tod in Venedig, 1912
Das Wunderkind (smásögur), 1914
Betrachtungen eines Unpolitischen, 1918
Herr und Hund, 1919
Der Zauberberg, 1924
Unordnung und frühes Leid, 1925
Bemühungen (ritgerðir), 1925
Die Forderung des Tages (ritgerðir), 1930
Das Goethejahr (ritgerðir), 1932
Joseph und seine Brüder, 1933—43
Achtung Europa (ritgerðir), 1938
Lotte in Weimar, 1939
Die vertauschten Köpfe, 1940
Das Gesetz, 1944
Adel des Geistes (ritgerðir), 1945
Doktor Faustus, 1947
Der Erwählte, 1951
Altes und Neues (ritgerðir), 1953
Die Betrogene, 1953
Bekenntnisse des Hochstaplers Felix Krull, 1954
Versuch Über Schiller (ræða), 1955

Á íslensku hafa birst:
Tónío Kröger (úr safninu „Tristan“)
Maríó og töframaðurinn og fleiri sögur (úr safninu „Tristan“), Mál og menning, Reykjavík, 1970

Chronology of Important Dates

Year Event
1875 Born in Lübeck, June 6
1893 Moves to Munich; works first in a fire insurance company, then on the satiric magazine Simplicissimus.
1896 To Italy for about a year (spent largely with his brother Heinrich).
1898 Little Herr Friedemann (collection of novellas)
1901 Buddenbrooks
1903 Tristan (collection of novellas, including Tonio Kröger)
1905 Marriage to Katja Pringsheim
1909 Royal Highness
1912 Death in Venice
1918 Reflections of a Nonpolitical Man
1924 The Magic Mountain
1929 Awarded the Nobel Prize, mainly for Buddenbrooks.
1930 Mario and the Magician
1933 Emigrates to Switzerland.
1933-43 Joseph and His Brothers (tetralogy)
1938 Moves to the United States, living first in Princeton, then in Pacific Palisades, California.
1939 The Beloved Returns: Lotte in Weimar
1947 Doctor Faustus
1951 The Holy Sinner
1952 Returns to Europe; lives in Kilchberg near Ziirich.
1954 Confessions of Felix Krull, Confidence Man, Part I
1955 Essay on Schiller
1955 Dies in Zurich, August 12.