Tónlistarmaðurinn Halldór Hansen

Óperublaðið, ?. tbl. ????

Í tilefni af sjötíu ára afmæli Halldórs Hansen þótti við hæfi að fá einn af fjölmörgum vinum hans, sem hann hefur kynnst í gegnum tónlistina, til að segja örlítið frá hinum mæta tónlistarunnanda. Halldór er kunnur af afskiptum sínum af tónlist og hefur, eins og það kallast á nútímavísu, verið sannur neytandi á tónlist um margra ára skeið. En neyslan hefur ekki einungis orðið Halldóri til góðs því ófáir íslenskir tónlistarmenn hafa sótt í smiðju Halldórs ýmis konar visku hvað varðar tónlistarlegan flutning og túlkun.

Sumir menn eru þannig að það er eins og þeir hafi alltaf vitað allt og skilið allt. Halldór Hansen er einn þessara manna. Ef lífinu mætti líkja við flókna skáldsögu þá er eins og Halldór hafi lesið bókina áður. Hann hefur djúpan skilning á lífi og eðli mannsins og er um leið haldinn óseðjandi forvitni og áhuga á að læra eitthvað nýtt. Það má vera að það sé vegna þessara eiginleika sem Halldóri hefur tekist svo vel að tileinka sér og njóta leyndardóma tónlistarinnar, en þekking hans og áhugi á henni eru löngu víðfræg.

Sambandi Halldórs við tónlist og söng má einna helst líkja við innilegt ástarsamband – þar sem ástin er áreiðanlega gagnkvæm! Þeir sem þekkja Halldór best geta vart ímyndað sér líf hans án tónlistar. Ekki aðeins vegna þess að hann hefur sótt fleiri tónleika í Reykjavík en nokkur annar í meira en hálfa öld, ekki af því að hann hefur verið á stöðugum ferðalögum um allan heim til að sækja tónleika og óperuhús, ekki af því að það er alltaf hægt að fletta upp í Halldóri um allt sem snertir tónlist og söng, ekki af því hann segir aldrei nei sé hann beðinn um að skrifa um þessi mál í blöð eða tímarit, ekki af því að hann þekkir persónulega nær alla íslenska söngvara og tónlistarmenn og fjölmarga fræga og minna fræga erlenda. Það er heldur ekki af því að heimili hans er svo stútfullt af hljómplötum að þar er vart ferðafært um ganga og stofur fyrir stöflunum, en þó veit Halldór alltaf upp á hár hvar hver plata liggur. Jú, kannski liggur það í öllu þessu, en einhvern veginn í svo miklu meiru. Samt hefur Halldór eiginlega ekkert lært á hljóðfæri og aldrei hef ég heyrt hann raula lagstúf fyrir munni sér.

Halldór hefur sjálfur sagt að hann muni ekkert eftir því hvenær áhugi hans vaknaði á tónlist. Einhvern veginn tengist þó upphafið veikindum hans á barnsaldri. Snáðinn lá þá mikið í rúminu og var svo heppinn að hafa tækifæri til að hlusta á tónlist. Svo heillaður varð hann að þegar hann síðar var sendur út í lönd til að leita sér lækninga þá leitaði drengurinn ekki síður uppi öll tækifæri til þess að hlusta á tónlist.

Halldór segist ekki hafa neinn tónlistarsmekk. Það stafar af því að hann er svo fordómalaus að fyrir honum gildir einu hvaða nafni tónlistin nefnist, ef hún aðeins er sönn og kemur frá hjartanu þá hefur Halldór gaman af henni. Þess vegna má sjá plötur með dægurlögum og tónlist úr söngleikjum í bunkunum innar um plötur með óperum, ljóðasöng og fleiru. Hann er þekktastur fyrir áhuga sinn á óperum og ljóðasöng, en það kemur enginn að tómum kofanum hjá honum t.d. í kammertónlist eða píanóleik. Allra mest hefur Halldór samt hrifist af mannsröddinni, af möguleikum mannsins til að tjá sig beint og umbúðalaust frá hjartanu.

Hann er svo djúpur að þegar komið var að Titanic voru þeir ekki einu sinni hálfnaðir að Halldóri.

Hann hvorki syngur né leikur á hljóðfæri, stjórnar ekki tónlist né semur, en samt er enginn meiri tónlistarmaður en einmitt hann.

Hann hvorki syngur né leikur á hljóðfæri, stjórnar ekki tónlist né semur, en samt er enginn meiri tónlistarmaður en einmitt hann.

Líklega má einnig segja að Halldór hafi ósköp lítinn söngvarasmekk. Við hin eigum okkur flest einhvern uppáhaldssöngvara og finnst aðrir blikna í samanburðinum. Halldóri finnst svo sem gaman að hlusta á Callas, Björling, Pavarotti, Sutherland og allt það uppáhaldsfólk annarra, en svo lítinn „smekk“ hefur hann í söngvurum að aldrei hefur hann heyrst hallmæla neinum þeirra, heldur finnur hann eitthvað gott hjá flestum. En hvað sem segja má um víðsýni, umburðarlyndi og yfirburðaþekkingu Halldórs á söngvurum, þá skal því ljóstrað upp hér að hann á sér nú samt eitt mikið uppáhald. Um þá söngkonu var sagt að hún hafi sungið svo að „stjörnurnar komust við“. Þetta var söngkonan góða, Lotte Lehmann, sem kannski hefur sungið meira frá hjartanu og til hjartans en nokkur annar söngvari.

Fyrir þá sem hafa brennandi áhuga á menningu og listum verður Ísland stundum nokkuð lítið. Á barnsaldri dvaldist Halldór um tíma í Kaupmannahöfn og Vínarborg. Síðar bjó hann langdvölum í París og árum saman í New York á meðan hann var að læra að lækna börn. Þótt það hafi síðan orðið að ævistarfi hans í Reykjavík þá hefur hann eilíflega verið að ferðast til útlanda til að leita uppi það sem hæst hefur borið í tónlistarheiminum. Þegar rætt er við Halldór er ekki aðeins viðbúið að hann sé nýbúinn að sjá nýjustu uppfærslur í Metropolitan eða Vínaróperunni. Nei, líf hans er mun ævintýralegra en svo. Hitt er alveg eins líklegt að hann sé að koma frá Mexícóborg úr „tónleikaferðalagi“ og hafi dvalist þar um skeið hjá ítalskættaðri söngkonu, sem hann kynntist í Vínarborg fyrir 30 árum, en er nú gift argentínskum tenór, sem Halldór heyrði við Metropolitan 1953. Það vekur ávallt furðu hvernig þessum hægláta og hógværa manni hefur á ferðum sínum tekist að kynnast og bindast vináttuböndum við heil ógrynni mikilsmetinna tónlistarmanna. Margir þessara vina Halldórs hafa síðan fyrir hans orð heimsótt Ísland og auðgað tónlistarlíf okkar með söng sínum og hljóðfæraleik.

Samantekt: Halldór Hansen er ágætis náungi með algera söngdellu.

Samantekt:
Halldór Hansen er ágætis náungi með algera söngdellu.

Það hafa margir lagt hönd á plóginn við að gera íslenskt tónlistarlíf að því sem það er í dag. Flestir eru sjálfir tónlistarmenn eða forkólfar félaga eða stofnana og eru oft með starfi sínu að gæta hagsmuna sjálfra sinna eða annarra. En Halldór hefur enga hagsmuni aðra en þá að fá tækifæri til að hlusta á sem mesta og besta tónlist í sem fjölbreyttastri túlkun – og leyfa öðrum að fá að njóta með sér. Það er alveg víst að tónlistarlífið á Íslandi væri ekki það sem það er án slíkra hlustenda og það má fullyrða að fáir hafi lagt meira af mörkum úr þeim hópi fyrir íslenska tónlist og tónlistarmenn og af jafn mikilli óeigingirni og einmitt Halldór Hansen.

Uppeldisstarfs Halldórs fyrir unga íslenska söngvara er enn ógetið. Heilar kynslóðir þeirra hafa fært sér það í nyt að fá að leita ráða hjá Halldóri um hvaðeina sem snertir sönglistina. Hann hefur alltaf verið reiðubúinn til að gefa þeim góð ráð um túlkun og tækni í söng, leyft þeim að heyra af hljómplötum sínum hvernig eldri söngvarar báru sig að, bent þeim á heppileg viðfangsefni fyrir rödd hvers og eins og komið ungum söngvurum í kynni við góða kennara erlendis til að sækja sér framhaldsmenntunar. Þannig hefur mikil þekking Halldórs á söng og hin góðu sambönd hans við mikilsmetna listamenn erlendis nýst svo mörgum fleirum en honum sjálfum.

Oft er spurt hver sé tilgangur listarinnar. Svörin eru margbreytileg, en kannski er tilgangur listarinnar eins og lífsins að leita sannleika og fegurðar. Hvar þetta er að finna veit enginn fyrir víst. En það skiptir þó ekki höfuðmáli heldur er það leitin sjálf og við hana er mest um vert að hafa opinn hug og hjarta. Þessir eiginleikar eru einmitt það sem einkennir sanna listamenn, en eiga oft jafnt við um þá sem fögrum listum unna. Og þeir eiga svo sannarlega við um Halldór Hansen.

Til frekari glöggvunar skal bent á fróðlegt viðtal við Halldór um líf hans og tónlistaráhuga í Óperublaðinu í nóvember 1994 og mars 1995. Einnig hafa fjölmargar greinar um söngvara og söngröddina birst í sama blaði á undanförnum árum.