Um Wagner

Tónlistin – Leiðarvísir til skilgreiningar

Bókasafn Þjóðvinafélagsins, IX – Reykjavík 1937
Fimm atriði í sögu tónlistarinnar

Hljómkviðan og hljómdrápan skipuðu líka allmikið  sæti hjá dreymu tónskáldunum [1]. Einkum kunnu Schubert og Brahms meðferð þessa forms og hafa gefið oss mikil og gild verðmæti á þessu sviði, en í höndum ýmissa annarra dreymu tónskáldanna varð það svo að kalla stórt og tómt form, sem þeir megnuðu ekki að fylla efni. Auk þess að hin eiginlega hugsjón dreymistefnunnar kom fram í hljómdrápukveðskap og hermitónverkum fyrir flygil, náði hún mestum þroska í söngverkum, sérstaklega í söngleikum. Þar er Richard Wagner einkennilegastur maður, og með honum náði dreymitónlistin raunar tindi sinum. Sá, sem vill skilja hið innsta og dýpsta í hugsjón dreymitónlistarinnar, verður að snúa sér að þessu tónskáldi, einkum að síðustu söngleikum hans: Tristan og Isolde, Niflungshringnum og Parsifal. Þeim lesanda, er vill kynnast þessu atriði tónlistarsögunnar, má vísa á hina ágætu Wagnersfyrirlestra Guidos Adlers, sem eru fyrirtaks inngangur að þessum hluta tónlistarsögunnar. Um nokkra greinargerð þessa efnis í þessari bók getur auðvitað ekki verið að ræða. Tilgangur þessa kafla um „fimm atriðin” er að eins sá, að gefa örstuttar bendingar um fimm greiðfærustu inngangana að tónlistarsögunni; þó skal hér með fáum orðum vikið að helztu einkennum þeirra söngleika Wagners, er nú voru nefndir.

Ef menn vilja rannsaka þessi verk og sökkva sér niður í þau, verða þeir fyrst og fremst að gera sér ljóst, að Wagner hefir vikið frá hinu „fornlega” sniði söngleika með „ljóðsöngvum”, „mansöngvum”, „lesi” o. s. frv. Söngleikar Wagners – hér er allt af átt við hina síðustu þeirra — eru ekki gerðir eftir neinu fyrir fram ákveðnu sniði, tónlistarform Wagners á rót sína í formi textans, sem allt af heldur áfram, og í skáldlegu og leikrænu efni hans, sem hvert skiptið er nýtt. Svo sem kunnugt er, samdi Wagner sjálfur texta söngleika sinna.  Hann hefir að sjálfsögðu undir eins, er hann samdi textann, vikið frá hinu gamla sniði söngleikatexta og þar með búið svo um, að hann gat vikið frá tónformi eldri söngleika.

Tónlistin
Leiðarvísir til skilgreiningar

Ef menn vilja rannsaka þessi verk og sökkva sér niður í þau, verða þeir fyrst og fremst að gera sér ljóst, að Wagner hefir vikið frá hinu „fornlega” sniði söngleika með „ljóðsöngvum”, „mansöngvum”, „lesi” o. s. frv. Söngleikar Wagners – hér er allt af átt við hina síðustu þeirra — eru ekki gerðir eftir neinu fyrir fram ákveðnu sniði, tónlistarform Wagners á rót sína í formi textans, sem allt af heldur áfram, og í skáldlegu og leikrænu efni hans, sem hvert skiptið er nýtt. Svo sem kunnugt er, samdi Wagner sjálfur texta söngleika sinna. Hann hefir að sjálfsögðu undir eins, er hann samdi textann, vikið frá hinu gamla sniði söngleikatexta og þar með búið svo um, að hann gat vikið frá tónformi eldri söngleika. Það má því ekki búast við að hitta hjá Wagner hin miklu „ljúflingslög”, sem vér þekkjum í svo mörgum öðrum söngleikum. Allt streymir áfram, lagið teygir stöðugt úr sér, án þess að fylgja  ákveðnu sniði, oftast án þess að endurtaka lotur, allt af áfram og áfram, ávalt í innilegu sambandi við þann texta og það textaefni, sem er þráðurinn í söngleiknum.

Það hefir verið talað um „óendanlegt lag” hjá Wagner. Það orðalag á ef til vill ekki alls kostar við, en það gefur að minnsta kosti allgóða „mynd” af stíl Wagners, ef maður þekkti hann ekki og ætti að fá lýsingu af honum í tveim orðum.

Hér er þó ekki átt við það, að hin leikrænu tónverk Wagners vanti form.  Auðvitað er form í þessari tónlist, ef form táknar lífrænt snið, eðlissamhengi, „rauðan þráð stefja” — eins og t. d. er i gregorsku lagi, sem áður hefir verið minnzt á og sýnt dæmi um. Þarna er „óendanlegt” lag, sem þróast á lífrænan hátt, af rökum, allt af með samkvæmum og rökréttum gangi tónanna í laginu, óbundið af aðkominni formreglu. Einmitt í þessum rithætti birtist sumt af því, sem dýpst er hinni sönnu dreymu tónhugsjón — að leysa upp formheim heiðstefnunnar (sú upplausn hefir undirbúið skynjastefnuna (Impressionismen) og seinni stíltilraunir nýrri tónlist), losna við formreglur heiðstefnunnar, þar sem stúfum var skipt í liði eftir deildaskipan, hafna smíðarhugsjón heiðstefnunnar og sökkva sér niður í tónform, er eingöngu styðst við lífrænt eðlissamhengi. Í þessari upplausn formsins, er styðst við upplausn strangari hljóma heiðstefnunnar, kemur tónakennd hinna dreymu tónskálda ef til vill allra skýrast fram. Þar birtist þráin eftir því, sem draumkennt er, hugarburðum, þeirri háleitu víðáttu, sem ekki má yfir sjá, aðdáunin á því, sem er dularfullt, myrkt, óskýrum ummörkum, hinu ótakmarkaða, eilífa. Þessa þrá, sem birtist í tónunum, styður textinn, því að efni hans er hið fjarlæga og  óvirka, andlega, himneska. Á furðulegan hátt rennur draumrænan og dulrænan í texta og tónum saman, og þar með verður til hin dreyma „listarheild” texta og tóna, sem Wagner einmitt ætlaði að skapa.

Menn verða þar næst að vera við því búnir, að athuga hinn merkilega tónaleik, sem einkum fer fram í hljómsveitinni. Eg hefi hér ekki eingöngu í huga hina óendanlega hugvitsamlegu hljómsetningu, hina kynlegu mishljóma, sem auðvitað eru vottur um geysilega rýmkun á tónamáli heiðstefnunnar, eða hina slungnu hljóðfæraskipan; eg á einkum við hin einkennilegu leiðsögustef og meðferð þeirra. Hugmyndina um þau hafði Wagner fengið frá öðrum, en í þessum söngleikum beitti hann þeim af frábærri frumsnilld. Wagner lætur stefjur tákna ekki aðeins persónur, heldur líka oft hugtök og atvik. Hér hittum vér þá einmitt aðra meginhugsjón dreymistefnunnar, að tónlistin á hvað sem kostar að „merkja eitthvað” — eitthvað meira en fólgið er tónunum sjálfum. Það skal tekið fram, að Wagner að vísu mun hafa verið dreymastur allra tónskálda dreymistefnunnar, en engu að síður var hann sá þeirra, er langbezt kunni sér hóf í því að beita tónlistinni til hermu. Leiðsögustefin eru fyrst og fremst tónlist. Tónlist í orðsins eiginlegu merkingu er einnig sú meðferð stefjanna, sem Wagner hefir í söngleikum sínum. Sá hljómdrápukveðskapur, sem birtist þegar leiðsögustefjafesti ómar frá hljómsveitinni, er hljómdrápukveðskapur, sem er hátt hafinn yfir þau tónverk, er annars ganga undir því nafni. Hann er fyrst og fremst hljómdrápa í þessa orðs víðtækustu merkingu.

Leiðsögustefin eru nú, eins og bent var á, notuð þannig, að hvert þeirra kemur fram þegar sú persóna, er það táknar, kemur á leiksviðið, hefst eitthvað að, segir frá öðrum, sem líka eru þá táknaðir hver með sínu leiðsögustefi. Þarf þá auðvitað að vera fyrir fram dálítið kunnugur þeim leiðsögustefjum, er koma fyrir í söngleiknum, kannast við þau og hafa merkingu þeirra huga, ef menn eiga að hafa gagn af þessum söngleikum. Þegar leikni er fengin í þessu, geta menn haft mikla ánægju af að kynna sér söngleika Wagners. Texti þeirra virðist þá ekki eini skáldskapurinn í verkinu, heldur verður reyndin sú, að lögin i söngþáttunum, í ýmsum röddum hIjóðfæranna virðast, vegna leiðsögustefjanna vera eins konar undirhleðsla skáldskaparins í textanum, og mætti jafnvel segja, að hið skáldlega efni textans væri þar dýpkað og fært lengra.

Auk þess má maður vera við því búinn, að lag Wagners (óendanlega lagið) verði oft eins konar „talsöngur”. Það var hugsun Wagners, að orð og tónar ættu að njóta jafnréttis, tónverkið mætti ekki hafa yfirráðin í söngleikum (hann er hér í samræmi við hugmyndir þeirra, er lögðu grundvöll að söngleik í Flórens, og við Gluck). Þegar af þessari ástæðu er hinu sérstaka formi heiðtónlistarinnar sleppt. Heiðu formin mundu hafa lagt allt of miklar hömlur á textann. En þar með fær lagmeðferð Wagners hálfgerðan framsagnarblæ, er einkennir söngleika hans. Wagner þóttist með þessum talsöng hafa fengið jafnvægi milli skáldskapar og tóna. Þó að honum skjátlaðist í þeirri skoðun, verður að dást að því hugrekki og þeirri samkvæmni, er hann sýndi í tilraun sinni til að framkvæma þessa hugsjón sína, er hefir í aðalatriðum sett svip sinn á öll hin síðari verk hans.

[1] Hér er líklega átt við rómantík (JRH)