Uppáhalds óperan mín

Tristan und Isolde

Óperublaðið ? tbl 19??

Er hægt að velja úr eina óperu, af öllum þeim sem til eru, sem eitthvert uppáhald? Fljótt svarað, nei. Samt sem áður eru alltaf einhver tónverk í uppáhaldi, sem leitað er til aftur og aftur, þó svo að ný og spennandi verk reki á fjörurnar. Á síðum þessa tímarits hafa verið til umfjöllunar nokkrar af mínum „uppáhalds“ óperum og má þar nefna sem dæmi Ótello og Don Carlo eftir Verdi. Ég kýs því að ræða hér örlítið um Tristan og Isolde eftir Richard Wagner.

Magnús Lyngdal Magnússon

Það tók mig langan tíma að læra að meta Tristan og Isolde. Áður hafði ég heillast af óperum eftir Wagner svo sem Parsifal, Hollendingnum, Lohengrin, Götterdämmerung og Die Walküre en Tristan var mér erfið. Ég átti í nokkru basli með að sitja við í fyrstu, en eftir því sem tíminn leið lærði ég að meta þetta meistaraverk Wagners — og þá umfram flestar aðrar óperur hans.

Söguþráðurinn

Forleikurinn gefur okkur nasasjón af leiðarstefjum (Leitmotiv) óperunnar og strax í upphafi heyrum við hinn fræga Tristan-hljóm. Eftir forleikinn erum við stödd á skipi á leið frá Írlandi til Englands. Ungur sjómaður syngur um hina írsku prinsessu sem er um borð og gerir það heldur háðslega að hennar mati — Isolde: „Wer wagt mich zu höhnen?“

Riddarinn Tristan, sem Marke konungur ól upp, hefur verið fenginn til að fylgja Isolde til Englands þar sem hún á að giftast Marke. Áður hefur Tristan hins vegar orðið valdur að dauða írska prinsins Morolds, mannsins sem Isolde elskaði. Þó svo Tristan hafi reynt að leyna Isolde uppruna sínum veit hún hver hann er — Isolde: „Der »Tantris« mit sorgender List sich nannte, als Tristan Isold’ihn bald erkannte …“ Örlögin verða þess valdandi að þau verða ástfangin, en bæði líta til framtíðarinnar með vanlíðan einni saman. Isolde heldur að Tristan elski sig ekki og sjálfur getur hann ekki hugsað sér að sjá á eftir konunni sem hann elskar í arma annars manns. Þau ákveða því að drekka eitur og deyja saman. Brangäne, þjónustustúlka Isolde, blandar hins vegar ástardrykk í stað eiturblöndu. Fyrsti þáttur endar því á ástardúett um leið og skipið leggst að landi — Tristan og Isolde: „Du mir einzig bervußt, höchste Liebeslust!“

Í öðrum þætti ætlar Isolde að hitta Tristan á laun. Marke konungur hefur haldið á veiðar með hirð sinni. Hér fáum við að heyra annan ástardúett — Tristan og Isolde: „O sink hernieder, Nacht der Liebe“. Allt fer hins vegar út um þúfur þegar Marke birtist í miðjum atlotum þeirra. Hann syngur um svik og spyr Tristan: „Hvers vegna þú?“ — „Mir dies? Dies, Tristan, mir?“ Tristan svarar: — „O König, das kann ich dir nicht sagen“ og Isolde segist fylgja honum hvert sem er — „Wo Tristan Haus und Heim, da kehr’ Isolde ein“. Melot, riddari konungs, gengur hins vegar fram fyrir skjöldu og ætlar sér að verja heiður Markes. Tristan lætur sverðið sitt falla um leið og hann segir — „Wehr dich, Melot“. Tristan er særður til ólífis. Hér endar annar þáttur.

Þriðji þáttur hefst á mögnuðum inngangi — Mässig Langsam. Skerandi strengirnir gefa okkur til kynna hversu alvarlegt ástandið er. Kurwenal hefur fært Tristan til Kareol kastalans og þar bíða þeir komu Isoldar. Tristan þjáist ekki einvörðungu vegna sára sinna heldur einnig vegna aðskilnaðarins frá Isolde. Vonin um að sjá hana aftur heldur þó í honum lifinu. Loks birtist Isolde, en um seinan. Tristan deyr í örmum hennar. Hún getur ekki lifað án hans og syngur „Mild und leise“ — eitthvert magnaðasta atriði óperusögunnar. Loks deyr hún hjá manninum sem hún elskar, og óði Wagners til ástarinnar líkur á mjúkum H-dúr hljómi.

Þriðji þáttur hefst á mögnuðum inngangi — Mässig Langsam. Skerandi strengirnir gefa okkur til kynna hversu alvarlegt ástandið er. Kurwenal hefur fært Tristan til Kareol kastalans og þar bíða þeir komu Isoldar. Tristan þjáist ekki einvörðungu vegna sára sinna heldur einnig vegna aðskilnaðarins frá Isolde. Vonin um að sjá hana aftur heldur þó í honum lifinu. Loks birtist Isolde, en um seinan. Tristan deyr í örmum hennar. Hún getur ekki lifað án hans og syngur „Mild und leise“ — eitthvert magnaðasta atriði óperusögunnar. Loks deyr hún hjá manninum sem hún elskar, og óði Wagners til ástarinnar líkur á mjúkum H-dúr hljómi.

Richard Wagner
líklega um 1860

Tilurð verksins

Óperan Tristan og Isolde var frumsýnd í München hinn 10. júní 1865, réttum  sextán árum eftir að Wagner viðraði fyrstu hugmyndir að verkinu í bréfi til Franz Liszts. Stjórnandi var þá Hans von Bülow. Hlutverk Isoldar söng Malvina Schnorr von Carolfeld og Tristans, maður hennar, Ludwig Schnorr von Carolsfeld. Um þetta leyti var von Bülow enn giftur Cosimu, dóttur Liszts, en skildi við hana ári seinna vegna framhjáhalds hennar með Wagner, sem Cosima giftist ári síðar.

Á árunum um og upp úr 1850 komst Wagner í kynni við rit þýska eimspekingsins Arthurs Schopenhauers. Wagner hreifst af kenningum hans, sem ýttu við honum að setja saman verk byggt á riddarasögunni um Tristan, sem er keltnesk að uppruna. Sagan var þýdd á norrænu árið 1226, að beiðni Hákonar gamla Hákonarsonar Noregskonungs, að því er kemur fram í stuttum formála í handriti Tristans sögu. Þýðandinn var munkur að nafni Róbert og talið er að frumtexti bróður Róberts hafi verið franskt kvæði, Roman de Tristan. Höfundur þess var normanskt skáld sem nefndist Tómas og starfaði við hirð Hinriks II. Englandskonungs seint á tólftu öld. Óvíst er hvenær Tristansögnin var fyrst færð í letur, en til eru tvær aðrar gerðir frá svipuðum tíma og kvæði Tómasar, önnur norðurfrönsk og hin þýsk. Kunnustu miðaldagerð sögunnar sandi svo þýska skáldið Gottfried frá Strassburg eftir kvæði Tómasar og hefur það varðveist ágætlega. Richard Wagner fylgdi kvæði Gottfrieds þegar hann samdi óperuna um Tristan og Isolde.

Því hefur verið haldið fram, að kenningar Schopenhauers hafi haft djúpstæð áhrif á þroskaferli Wagners sem tónskáld. Meðal annars var haft eftir heimspekingnum að tónlistin væri drottning allra lista, og það hafi hvatt Wagner til að leggja meiri áherslu á hlut hljómsveitarinnar en hann hafði gert í fyrri verkum, Hollendingnum, Tannhäuser og Lohengrin. Í Tristan er ekki lengur hægt að setja leiðarstefin — samkvæmt kenningum mótívista — auðveldlega í samband við leikrænan uppruna þeirra. Þau fjalli ekki lengur um hluti og atburði, heldur um hugmyndir og „ídealógíu“.

Fleira kemur til. Peningaleysi og skuldir Wagners neyddu hann til að reyna að setja saman verk, sem tilbúið yrði fljótlega til sýningar og tæki aðeins eitt kvöld að flytja. Hann skaut því vinnu sinni á Niflungahringinn á frest, enda aðeins búnn með „Dauða Siegfrieds“ og átti eftir allt hitt, þótt frumdrögin að prósanum í að minnsta kosti þremur verkum, sem koma áttu á undan „Dauða Siegfrieds“ og mynda fjórleik, væru þegar til. Þetta voru Rínargullið (Das Reingold), Valkyrjan (Die Walküre) og Ungi Sigfreð (Der junge Siegfried), síðar aðeins nefndur Siegfried. Wagner hugðist setja saman verk sem yrði auðvelt í flutningi og minni leikhús réðu við að taka til sýningar. Hann hóf að semja Tristan og Isolde undir lok ársins 1856, og lauk verkinu tveimur árum síðar. Það reyndist hins vegar gífurlega erfitt í flutningi og það var ekki fyrr en sex árum eftir að Wagner lauk við óperuna að hún var frumsýnd, sem fyrr segir í München árið 1865.

Flestir sem skrifað hafa um Wagner eru sammála um að mikilvægur þáttur í tilurð Tristan og Isolde hafi verið vonlaus ást Wagners á skáldkonunni Mathilde Wesendonck. Þegar samband Wagners og Mathilde hófst, einhvern tíma upp úr miðri síðustu öld, átti Wagner sem fyrr í skuldabasli. Hann hafði líka hrifist af öldu sjálfræðis og frelsis, sem fór um Evrópu í kjölfar 1848 byltingarinnar. Með því móti kom hann sér illa við yfirvöld í Þýskalandi og forðaði sér til Sviss, þar sem hann kynntist Wesendonck hjónunum. Samband hans við Mathilde olli skilnaði Wagners frá Minnu (eða öfugt) og smám saman varð hann að forða sér frá Zürich vegna Mathildar. Maður hennar, Otto Wesendonck, var einn af velunnurum tónskáldsins þannig að líklegt er, að samband skáldkonunnar og tónskáldsins hafi aðeins verið „platónskt“ þar sem Wagner hafi forðast að styggja peningalindina. Á þann hátt hafi Wagner og Mathilde átt ýmislegt sameiginlegt með Tristan og Isolde.

Þegar Wagner fór frá Zürich til Feneyja í ársbyrjun 1858 hafði hann að mestu lokið við samningu fyrsta þáttar óperunnar. Annan þáttinn skrifaði hann að mestu í Feneyjum og talið er að honum hafi verið lokið 9. mars 1859. Þriðja og síðasta þáttinn lauk hann svo við í apríl, sama ár, í Lucerne í Sviss. Frumsýningin lét þó á sér standa. Wagner reyndi víða fyrir sér (Strassburg, Karlsruhe, París, Vínarborg, Dresden og Weimar) en árangurslaust.

Enn einu sinni gripu forlögin inn í líf Wagners. Nú birtist bjargvætturinn í líki hálfruglaðs og taugaveiklaðs smákonungs í Bæjaralandi, Lúðviks II. Hann var aðeins 18 ára gamall er hann settist á konungsstól. Hann var mikill aðdáandi Wagners og bauð honum að setjast að í München; fékk honum hljómsveit og síðar óperu, einbýlishús og þjóna og styrkti síðan veglega byggingu óperuhallar Wagners í Bayreuth. Lúðvík þessi beitti sér fyrir uppsetningu á Tristan og Isolde en ekki voru allar raunir Wagners á enda. Daginn fyrir frumsýninguna missti Isolde röddina og um svipað leyti og Wagner fréttir það birtust embættismenn sýslumannsins og hirtu innbú hans upp í skuldir. Denis Forman segir það ekki ófyrirsynju að Malvina Schnorr von Carolsfeld hafi misst röddina. Sú staðreynd að enginn hafði áður sýnt að mögulegt væri að syngja þetta hlutverk, hljóti að hafa verið ógnvekjandi og raunar dugað ein og sér til að missa bæði kjark og rödd. Nafn þessara heiðurshjóna hefur hlotið náð fyrir augum höfunda uppsláttarrita, jafnvel í styttum útgáfum. Meira stendur þó um eiginmanninn, tenórinn Ludwig. Hann dó nefnilega hinn 21. júlí 1865, aðeins 29 ára gamall. Dánarmein er sagt vera áreynsla við sýningarnar á Tristan og Isolde (magnað verk!).

Dómarnir sem Tristan og Isolde fékk voru misjafnir. Skiptust raunar í tvennt: „pro-Wagner“ og „anti-Wagner“. Þeir fyrri hófu verkið til skýjanna, en hinir síðari fundu því flest til foráttu. Í þeirra hópi eru nú taldir hafa verið menn sem raunar voru að mótmæla bruðli konungs, gyðingasinnar og sannir íhaldsmenn, sem ekki þoldu nýjungar. Smám saman hefur Tristan síðan styrkt stöðu sína og er nú líklega það verk Wagners sem oftast er á fjölum óperuhúsa þótt oft geti reynst erfitt að manna allar rullurnar vel. Löngu er hætt að níða verkið niður og í dag er einungis dæmt um frammistöðu einstakra flytjenda.

Upptökur

Til eru nokkrar ágætar upptökur af Tristan og lsolde eftir Richard Wagner. Hér verður bent á þær helstu, en enginn „salómonsdómur“ kveðinn upp um hver sé sú besta, enda smekkur hlustenda misjafn. Fyrsta upptakan sem ég eignaðist var hin fræga Karl Böhm útgáfa (DG) frá Bayreuth, með Birgit Nilsson, Wolfgang Windgassen og Martti Talvela í aðalhlutverkum. Karl Böhm er, eins og þeir vita sem til þekkja, hraður. Túlkunin er hvöss og á köflum nokkuð stíf og jafnvel gróf. Söngvararnir eru ágætir og verður þessi upptaka alltaf meðal þeirra bestu þó svo margar hafi bæst í hópinn. Hljóðritunin var gerð á tónleikum árið 1966 og hljóðið er gott. Nú befur Deutsche Grammophon gefið þessa hljóðritun út í svokallaðri „Originals“ útgáfuröð, sem er á lágmarksverði. Við það bætist að þetta er eina upptakan sem rúmast fyrir á þremur hljómdiskum, einn þáttur á hverjum diski.

Sir Georg Solti (DECCA) hafði sex árum áður hljóðritað verkið með Fílharmóníusveit Vínarborgar. Er sú upptaka nokkuð umdeild. Í gagnrýni sinni í Gramophone telur Alan Blyth Solti ekki gæta innra jafnvægis í óperunni og því sé ekki hægt að mæla með þessari upptöku. Hins vegar fer hann lofsamlegum orðum um aðra sem að upptökunni standa, bæði einsöngvara og hljómsveit. Birgit Nilsson og Fritz Uhl eru í aðalhlutverkum og í henni er margt spennandi sem gleður eyrað. Sérstaklega má benda á magnaða túlkun Soltis á lokum fyrsta þáttar svo og á upphafi þriðja þáttar. Hljóðið er ágætt sem og verðið.

 

Wolfgang Windgassen sem Tristan

Wilhelm Furtwängler (EMI) hefur lengi verið í uppáhaldi hjá aðdáendum Wagners. Upptaka hans af Tristan og Isolde veldur engum vonbrigðum þar sem hljómsveitin Fílharmónía í Lundúnum leikur. Hér eru þau Kirsten Flagstad og Ludwig Suthaus í aðalhlutverkum og þýski bassinn Josef Greindl er í hlutverki Markes konungs. Hlutverk Kurwenals syngur Dietrich Fischer-Dieskau, þá einungis 28 ára gamall. Réttum 40 árum seinna tók hann þetta hlutverk upp aftur og þá undir stjórn annars þýsks meistara, Carlosar Kleibers. Túlkun Furtwänglers er mjög ólík þeirra Soltis og Böhms, miklu mykri og nokkuð hægari. Þrátt fyrir að vera tekin upp árið 1953 er hljóðið merkilega gott. Ein sú besta á markaðnum í dag, en er dýr.

Birgit Nilsson sem Isolde

Upptaka Herberts von Karajans (EMI) hefur ávallt verið talin meðal hinna ágætustu. Hún er vissulega nokkuð yfirdrifin á köflum, en er mjög vel sungin með Jon Vickers og Helgu Dernesch í aðalhlutverkum. Walter Berry (Kurwenal) og Christa Ludwig (Brangäne) standa fyllilega fyrir sínu. Fílharmóníuhljómsveit Berlínar leikur afar fallega undir stjórn von Karajans, en kannski er það einn helsti gallinn við upptökuna að það er lítið sem kemur á óvart. Upptakan er langt frá því að vera eins gróf og Böhm, hægari en Kleiber og ekki eins spennandi hvað snertir hljómsveitarleik og Bernstein. Samt sem áður er fyllilega hægt að mæla með þessari upptöku, sérstaklega hvað snertir söngvara. Þar tekur hún t.a.m. Bernstein langt fram; á miðlungsverði.

Leonard Bernstein (Philipps) var ákaflega umdeildur hljómsveitarstjóri. Mörgum þótti hann ýkja túlkanir sínar um skör fram og útkoman væri því yfirdrifin og jafnvel ósmekkleg. Kann því upptaka hans af Tristan og Isolde að vekja blendin viðbrögð hjá mörgum. Hér tókst Bernstein hins vegar frábærlega upp. Ef litið er fram hjá söngnum — kann að hljóma undarlega þegar um óperu er að ræða — er þetta, að mínum dómi, besta hljóðritunin sem er fáanleg í dag.

Leonard Bernstein
Leonard Bernstein (Philipps) var ákaflega umdeildur hljómsveitarstjóri. Mörgum þótti hann ýkja túlkanir sínar um skör fram og útkoman væri því yfirdrifin og jafnvel ósmekkleg. Kann því upptaka hans af Tristan og Isolde að vekja blendin viðbrögð hjá mörgum. Hér tókst Bernstein hins vegar frábærlega upp. Ef litið er fram hjá söngnum — kann að hljóma undarlega þegar um óperu er að ræða — er þetta, að mínum dómi, besta hljóðritunin sem er fáanleg í dag. Til að mynda hafði Karl Böhm á orði, þegar æfingar stóðu yfir fyrir upptökuna, að „hér væri loksins kominn einhver sem þyrði að túlka Wagner eins og hann væri skrifaður“. Túlkun Bernsteins er hæg, mjög hæg. Á heildarlengd hans og Böhms munar um 50 mínútum! Hins vegar líður þessi upptaka tilfinnanlega fyrir söngvara í aðalhlutverkum. Hildegard Behrens hefur á köflum litla stjórn á víbratóinu og Peter Hofmann er afar ósannfærandi í hlutverki hetjunnar Tristans (hér sem svo oft áður). Yvonne Minton (Brangäne), Hans Sotin (Marke) og Bernd Weikl (Kurwenal) eru þó betri og syngja á köflum frábærlega vel. Útvarpshljómsveitin í Bæjaralandi leikur einnig ágætlega. Fyrir þá sem eru mjög hrifnir af Tristan og Isolde er þessi upptaka að mínum dómi ómissandi; dýr. Carlos Kleiber (DG) gerði sína hljóðritun arið 1982. Hann velur oftast hröð tempó, en er samt sem áður hægari í heildina en Böhm. René Kollo og Margaret Price eru í hlutverkum Tristans og Isoldar og get ég tekið heils hugar undir dóm gagnrýnenda, að hvergi er að finna fallegri rödd í hlutverki Isoldar en á þessari hljóðritun. Price hefur ekki sama kraft og Nilsson en syngur nánast óaðfinnanlega, með mjög hæfilegu víbratói (oft vandamal hjá reyndum Wagnersöngvurum). Kollo er einnig sannfærandi þó svo hann hafi ekki sömu dramatík og einkennir túlkun Windgassens hjá Böhm eða Vickers hjá Karajan. Ekki verður látið hjá líða að minnast á ágæta túlkun Kurts Molls á hlutverki Markes og Dietrich Fischer-Dieskau sem Kurwenal. Eins og áður er minnst á skilja rétt 40 ár upptökur Furtwänglers og Kleibers að, en Fischer-Dieskau er mjög sannfærandi á þeim báðum. Ríkishljómsveitin í Dresden leikur agætlega og má þar sem dæmi nefna upphaf þriðja þáttar. Þegar á heildina er litið hygg ég þessa útgafu vera þá, sem frekast er hægt að mæla með ætli viðkomandi sér aðeins eina hljóðritun í safnið, en hún er alls ekki gallalaus. Helst má kvarta undan misjöfnu hljóði og hljóðritunin er dýr. Þegar Daniel Barenboim (Teldec) hljóðritaði Tristan og Isolde í Berlín 1994 valdi hann tvo vel þekkta Wagner-söngvara í aðalhlutverkin: Waltraut Meier og Siegfried Jerusalem. Fílharmóníuhljómsveit Berlínar leikur og í hlutverkum Brangäne og Marke eru hau Marjana Lipovzek og Marti Salminen. Hefur þessi upptaka fengið einróma lof gagnrýnenda, enda hafði Barenboim að baki margra ára reynslu frá Bayreuth áður en þessi hljóðritun var gerð. Ég get þó varla mælt með Waltraut Meier. Röddin leitar oft aftur í kok og verður á köflum jafnvel Ijót; margar betri en hún í þessu hlutverki. Hljóðið er frábært, en verðið ekki. Dýrasti Tristan-inn á markaðnum í dag.

Hér hefur verið minnst á sex upptökur en undan því verður vart vikist að benda á eina til viðbótar, þó svo undirritaður hafi ekki heyrt hana. Sir Reginald Goodall (DECCA) hefur hljóðritað Tristan og Isolde með ágætum árangri að mati gagnrýnenda. Í aðalhlutverkum eru engir heimsfrægir Wagner-söngvarar en útkoman er að sögn með besta móti. Sérstaklega er farið hlýjum orðum um Gwynne Howell í hlutverki Markes, og hljómsveit Velsku þjóðaróperunnar leikur af fingrum fram; á miðlungs verði.

Karl Böhm

Tristan og Isolde er ekki auðveld ópera, langt í frá, en þeir sem læra að meta hana verða ekki fyrir vonbrigðum. Sagan er einfold, forboðin ást, en Wagner gerir mikið úr litlu. Sum af þeim atriðum sem koma fyrir í þessari óperu eru einhver hin mögnuðustu sem finnast í Wagneróperum, og víðar. Nægir þar að nefna lok fyrsta og annars þáttar, upphaf þess þriðja, ástardúettana og síðast en ekki síst endinn (Isoldes Liebestod) – Mild und leise.

Helstu heimildir

Forman, Denis: The Good Opera Guide. Lundúnir 1994.
Jónas Kristjánsson: „Bókmenntasaga.“ Saga Íslands. Reykjavík, 1990.
Millington, Barry: Wagner. New Jersey, 1984.
The Wagner Compendium. A guide to Wagner’s life and music. Barry Millington ritst. Lundúnir, 1990.