Úr heimi óperunnar

Erindi flutt hjá Rótarýklúbbi Reykjavíkur, miðvikudaginn 16. ágúst 2017

Sparnaður
Eg er kominn upp á það
– allra þakka verðast –
að sitja kyrr í sama stað,
og samt að vera’ að ferðast.
Jónas Hallgrímsson 1845

Hér vísar Jónas væntanlega í ferðasögur, sem fæstar voru myndskreyttar á hans dögum. Undantekning er þó Ferðabók Gaimards. Í sumum tilvikum höfðu teiknarar ferðabóka ekki komið á staðinn og urðu að ímynda sér af lýsingum hvernig hann liti út. Dæmi um slíkar myndir frá Íslandi er að finna í Listasafni Íslands. Áður fyrr var lítið um myndskreyttar barnabækur, en sumar myndir í Grimms-ævintýrum voru ógnvekjandi. Börn og unglingar hafa ekki sett fyrir sig að bækurnar um Harry Potter væru ekki með myndum, og þau hafa orðið að ímynda sér hvernig umhorfs væri, áður en kvikmyndirnar voru gerðar. Á hliðstæðan hátt hafa óperuunnendur reynt að gera sér í hugarlund hvað gerðist á sviði, meðan þeir hlustuðu á plötur eða geisladiska, fyrir daga myndbanda og mynddiska.

Jónas Hallgrímsson
1807-1845

En á örfáum árum hefur orðið ótrúleg bylting í fjarskipta- og tölvutækni. Það
er vandalítið að panta miða í erlendum óperuhúsum á netinu og kynna sér sýningar langt fram í tímann. Myndgæði í sjónvarpstækjum og tölvum hafa batnað mjög mikið.

Óperusýningar í kvikmyndahúsum njóta mikilla vinsælda. Metropolitan-óperan reið á vaðið fyrir rúmum áratug, og Covent Garden fylgdi á eftir. Við getum notið þeirra sýninga hérlendis. Fleiri óperuhús komu í kjölfarið. Unnt er að sjá óperur á netinu, oft ókeypis, t.d. frá Glyndebourne og München, og margir horfa á sýningar frá tónlistarog menningarstöðvum. Ég fylgist vel með því sem er í boði, er með um 200 manns á póstlista, og þeir fá heilmiklar upplýsingar frá “óperumömmu lýðveldisins”. Já, nú er unnt að sitja kyrr í sama stað og samt að vera að ferðast.

Grípum niður í Ferðarollu Magnúsar Stephensen, 30. janúar 1826:
„í minningu kóngs fæðingardags.“ (Friðriks VI)
„Svo byrjaði comoedia ný, Trylleflöjten nefnd, söngstykki dýrðlegt í 4 öktum með
óviðjafnanlegri músík … Komu árar upp úr loganda víti svartir sem bik …“

Magnús Stephensen
1762-1833

Upp úr miðri 19. öld voru sumir íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn iðnir við
að sjá óperusýningar. Í Dagbók í Höfn kemur fram að Gísli Brynjúlfsson, sem nú má teljast “hálfgleymt skáld”, sá nokkrar ítalskar óperur árið 1848. Fróðlegt væri að kanna bréf og dagbækur Hafnarstúdenta með tilliti til aðsóknar þeirra að tónleikum og óperum. Árni Thorsteinson tónskáld sá Aidu 17 sinnum og þreyttist aldrei að horfa á hana. Carmen sá hann 14 sinnum, Faust eftir Gounod 12 sinnum og Lohengrin 10 sinnum. Tónlistin átti hug hans allan, og landfógetasonurinn lauk aldrei námi í lögfræði.

Gísli Brynjúlfsson
1827-1888
Árni Thorstenisson
1870-1962

Ég sá Töfraflautuna í Þjóðleikhúsinu snemma árs 1957, þá 14 ára og skemmti mér mjög vel, en um þær mundir voru liðnar tvær aldir frá fæðingu Mozarts. Í Þýskalandi er mikil óperuhefð, en fyrsta óperan sem börn sjá þar er samt ekki Töfraflautan, heldur Hans og Gréta eftir Engelbert Humperdinck. Rík hefð er fyrir því að sýna hana á aðventu. Ég sá Hans og Grétu í München í desember 1982. Hápunktur sýningarinnar var þegar nornin fór inn í sætabrauðshúsið og kom síðan út aftur sem fjölleikahúsmaður í nornargervi og lék hinar ótrúlegustu listir, m.a. línudans. Mér er sagt að sýningin hafi nú vikið fyrir “nútímalegri” sviðsetningu.

Ég hef keypt tímaritið Opera frá 1981, og einhverju sinni var sagt þar frá sýningu á Töfraflautunni í Þýskalandi, að því er mig minnir. Þegar Papagenó ætlaði að fara að hengja sig, stóð 10-12 ára drengur í salnum upp og kallaði: “Nei, ekki gera það!” Ég efast um að leikstjórar á þeim árum hafi haft hugarflug til þess að hafa þetta undirbúin viðbrögð.

Þriðja óperan sem börn og unglingar í Þýskalandi sjá, er Töfraskyttan (Der Freischütz) eftir Carl Maria von Weber, sem mér finnst nokkuð vanmetið tónskáld. Veiðimaðurinn Max vill sigra í keppni í skotfimi og fá að ganga að eiga dóttur skógarvarðarins. Hann fer með félaga sínum, sem hefur samið við myrkraöflin, upp í Úlfagil að steypa töfrakúlur, sem missa aldrei marks. Stundum er Töfraskyttan bönnuð innan tíu eða tólf ára. Það fer eftir því hve geigvænlegt atriðið í gilinu er gert.

Ég sá kvikmynd frá óperunni í Hamborg á námsárum mínum í Lundúnum og var mjög hrifinn. Ég sá Töfraskyttuna ekki á sviði fyrr en í september 1982 í Hamborg. Ég hafði hlakkað til eins og barn og vonaðist til að verða dálítið hræddur þegar að þessu atriði kom. En hvílík vonbrigði! Þegar ég las smáa letrið í leikskrá, kom skýringin. Það hafði orðið alvarlegt slys á sýningu, og mér var sagt að vinnueftirlitið bannaði jafnvel að Cherubino hoppaði niður af stól. Seinna sá ég sýningu í Heidelberg, en þar var atburðarásin færð til í tíma, sem var alls ekki til bóta. En ég er samt ekki frá því að Il trovatore batni við að vera færð til í stað og tíma. En loksins sá ég alvörusýningu á Töfraskyttunni í München 6. júlí 1996. Dorothea Röschmann var Ännchen og Kurt Moll, sem er nýlátinn, var einsetumaðurinn. Já, og atriðið í Úlfagili skaut mér skelk í bringu.  Leikstjóraleikhúsið, “Regietheater”, er mjög öflugt í Þýskalandi. Hver veit nema börn og unglingar þar sjái ekki nema slíkar sýningar nú. En kannski hafa þau þá sama hátt og foreldrarnir og afi og amma, að púa hressilega í lok sýningar, en það er ótrúlega algengt þar í landi.

Ég var í framhaldsnámi í Lundúnum 1966-1971. Snemma árs 1967 var ég svo heppinn að komast inn á stúdentagarð fyrir nemendur í framhaldsnámi og var þar í tvö ár. Hann var ætlaður báðum kynjum, og þar var meira að segja bar. Hvort tveggja var veruleg nýlunda í Bretlandi árið 1967. Margir garðbúar höfðu áhuga á tónlist og
óperum.

Lillian Penson
Hall, London

Við fórum oftast nokkur saman í Covent Garden, pöntuðum miða með góðum fyrirvara og sátum ævinlega í mjög ódýrum sætum aftan við miðju á efstu svölum (Rear Amphitheatre).

Royal Opera
HouseCovent Garden
Covent Garden - Salur
Rear Amphitheatre
efst hægra megin

Fyrsta óperan sem ég sá í Covent Garden var Rakarinn í Sevilla, þriðjudaginn 11. apríl 1967, og nú hef ég verið fíkill í fimmtíu ár. Hvers vegna getur óperufíkillinn séð sumar óperur margsinnis? Samt eru til óperur sem er gott að hafa séð, en það var kannski ekki eins gaman að sjá þær. Það eru líka til óperur sem mér þykja  leiðinlegar, en ég hef samt aldrei gengið út né púað.

Nú mun ég segja frá nokkrum minnisverðum óperusýningum erlendis undanfarna hálfa öld. Sýningarnar voru í Covent Garden, nema annað sé tekið fram. Ég mun einkum nefna söngvarana, en yfirleitt ekki hljómsveitarstjóra eða leikstjóra.
Í áðurnefndri sýningu á Rakaranum í Sevilla var Luigi Alva í hlutverki Almaviva, Teresa Berganza var Rosina og Geraint Evans var í hlutverki doktors Bartolo. Hann var óvenju fjölhæfur söngvari og gæddur frábærum leikarahæfileikum. Ég sá hann sem Papageno 18. janúar 1968, Scarpia 22. mars 1968, Falstaff 31. maí 1968 og Beckmesser 29. janúar 1971. Enn í dag á ég erfitt með að trúa því að sami maður hafi farið með þessi hlutverk, einkum Papageno og Scarpia.

Geraint Evans sem Falstaff
1922-1992

Rigoletto sá ég með Þorsteini Gylfasyni 17. apríl 1971. Við sáum nokkrar óperur saman meðan hann var í Oxford, og oft borðuðum við fyrir sýningar á ítölskum veitingastað við Leicester Square, en hann er nú löngu horfinn. Kostas Paskalis fór með titilhlutverkið, en í hlutverki hertogans var Placido Domingo. Ég sá hina rómuðu sviðsetningu Jonathans Miller í English National Opera 12. október 1982, þegar hún var nýkomin á svið. Miller lét óperuna gerast meðal Ítala í New York
á árunum milli 1950 og 1960. Tilfærslan var algjör snilld, leigumorðinginn Sparafucile var trúverðug persóna, og enginn sem séð hefur, gleymir því þegar hertoginn syngur La donna è mobile í seinna skiptið, baksviðs, en úr glymskratta.

Brúðkaup Fígarós sá ég 7. nóv. 1970 með Elisabeth Söderström í hlutverki greifynjunnar. Þegar ég kom út úr Covent Garden það kvöld, sá ég gljáfægða, svarta glæsibifreið sænska sendiráðsins fyrir utan. Aftur sá ég Brúðkaupið 7. des. 1971, og þá var hin kornunga Kiri Te Kanawa greifynjan. Geraint Evans brást ekki sem Fígaró. Í München sá ég Brúðkaupið 13. júlí 1983. Hermann Prey fór á kostum í hlutverki Fígarós. Hann var kallaður margsinnis fram í lok sýningar. Dama sem sat á hliðarsvölum kastaði til hans blómvendi, sem Prey greip á lofti við mikinn fögnuð.

Hermann Prey
1929-1998

Meistarasöngvarana frá Nürnberg hef ég séð nokkrum sinnum, meðal annars í Covent Garden 9. apríl 1990 og var í góðu sæti í sal, löngu hættur að sitja í Rear Amphitheatre. Þegar ég fór úr fatahenginu fyrir sýninguna gekk ég beint í flasið á óperuvininum Normu Major og eiginmanni hennar, John, þáverandi fjármálaráðherra Breta. Hermann Prey var ógleymanlegur Beckmesser. Ég sá Meistarasöngvarana í Bayreuth föstudaginn 2. ágúst 2002. Það var síðasta árið sem sviðssetning og leikmynd Wolfgangs Wagner voru á fjölunum þar. Leikstjórn og leikmynd voru afar hefðbundin, og það var erfitt að finna að nokkru. Beckmesser var Andreas Schmidt, en hann hefur sungið margsinnis hér á landi. Niflungahringinn sá ég í Lundúnum í október 1982, pantaði miða á besta stað, sem ég gaf mér í fertugsafmælisgjöf. Ég sá Hringinn aftur í Bayreuth 2002.

Stundum hef ég verið heppinn að fá miða. Ég var nokkra daga í Lundúnum 1975 og fór þá í miðasölu Glyndebourne-óperunnar. Óperuhúsið er úti í sveit í Sussex. Það var ekki mjög erfitt að fá miða á Intermezzo eftir Richard Strauss, en Elisabeth Söderström var í hlutverki Christine. Ég spurði um miða á Così fan tutte og konan í miðasölunni sagði að það væri allt uppselt. Ég spurði hvort hún væri alveg viss, og hún sagði að hún gæti svosem gáð, sem hún og gerði. Hún kom til baka og sagði að ég væri mjög heppinn. Hún hafði brugðið sér frá í kaffi, og á meðan hafði einhver á undan mér í biðröðinni skilað miðum. Í hlutverki Guglielmos var ungur söngvari, Thomas Allen að nafni, sem þá var að hefja glæsilegan feril.

Vorið 1990 las ég í tímaritinu Opera að Intermezzo yrði sýnt í hinu gullfallega rókókó-leikhúsi Cuvilliés Theater í München sunnudaginn 8. júlí, en þangað hafði ég aldrei komið. Það var aðeins þessi eina sýning að þessu sinni.

Vorið 1990 las ég í tímaritinu Opera að Intermezzo yrði sýnt í hinu gullfallega rókókó-leikhúsi Cuvilliés Theater í München sunnudaginn 8. júlí, en þangað hafði ég aldrei komið. Það var aðeins þessi eina sýning að þessu sinni.

Ég vissi að ég yrði á fundi í Heidelberg 3. júlí. Ég hringdi strax héðan í miðasöluna í Nationaltheater, en mér var sagt að allt væri uppselt. Ég hringdi aftur frá Heidelberg, og var sagt að það væri hætt að taka niður nöfn á biðlista. Völlig, ganz und hundert Prozent ausverkauft.

Cuvilliés Theater, München

En svo breyttist allt. Um sömu mundir fór fram heimsmeistarakeppni í fótbolta á Ítalíu. Í undanúrslitum sigruðu Þjóðverjar Englendinga 4. júlí, sem þýddi að þeir myndu mæta Argentínumönnum í úrslitaleik sunnudagskvöldið 8. júlí. Þetta þóttu mér góðar fréttir, en það var ekki af neinni umhyggju fyrir þýska landsliðinu, heldur fyrir sjálfum mér. Ég kom til München föstudaginn 6. júlí og fór í miðasölu í Nationaltheater daginn eftir. Og það var eins mig grunaði. Það var nóg til af miðum. Ég fékk gott sæti í sal og greiddi 153,50 DM fyrir. Felicity Lott var í hlutverki Christine, og Hermann Prey í hlutverki Roberts Storchs eiginmanns hennar. Intermezzo fjallar um forræðisdeilu hjóna og tólf ára sonur þeirra, Franzl, fer með talhlutverk, en syngur ekki. Í hléi voru gengilbeinur spurðar hver staðan væri í leik Þjóðverja og Argentínumanna. Það var fátt um svör, enda fyrir daga farsímanna.

Í sýningarlok var listafólkið kallað fram, einnig drengurinn. Hann fór síðan út af sviðinu, en kom aftur með risastórt plakat um hálsinn, og á því stóð: D1:A0. Enginn fékk meira lófatak en hann, og allt ætlaði um koll að keyra.

Í fyrra fór ég í aðventuferð til Austurríkis. Ég kynnti mér hvað væri í boði í Vínaróperunni og ákvað um miðjan júlí að fara í ferðina og sjá La traviata með Dmitry Hvorostovski sem Giorgio Germont hinn 29. nóvember. En lítt grunaði mig og aðra sýningargesti að þetta væri í síðasta sinn sem hann kemur fram á óperusviði. Hann hefur náð sér vel eftir meðferð við heilaæxli, en truflun á jafnvægisskyni veldur því að sviðsmyndir gera honum erfitt um vik, en hann ætlar að syngja áfram á tónleikum.

En nú væri samt gott að sitja ekki kyrr í sama stað, geta ferðast og séð heimsfrumsýningu á nýrri óperu Daníels Bjarnasonar, Brothers (Brødre), í  rósum í kvöld, eins og lesa má um í Morgunblaðinu í dag. Þið megið geta einu sinni hver benti blaðinu á þennan viðburð.