Vituð ér enn ...

Um tilurð og rætur Niflungahringsins

Lesbók Mbl. 19. desember 1998

Hugmyndafræði Hringsins hefur orðið tilefni margra lærðra greina. Sannast sagna er þá oft leitað langt yfir skammt. Hugmyndir Völuspár og Snorra um bölvun gullsins eru rót verksins og sú lausn sem Wagner fann að lokum á endinum er sótt í lokaerindin í Völuspá.

Íslendingar eru oft hégómlega upp með sér þegar einhver útlendingur veitir þeim athygli eða nefnir þá á nafn fremur lofsamlega, hampar bókarfi þeirra eða sýnir honum einhverja ræktarsemi. Þó er hér gæðum misskipt. Mörgum yfirsést það sem stærst er og merkast í þessum efnum. Niflungahringur Richards Wagner byggist fyrst og fremst á íslenskum bókverkum, Eddukvæðum og Snorra, Völsungasögu og Þiðrekssögu af Bern. Tónskáldið saug í sig efni og andblæ, sameinaði og endurskóp sagnirnar á aðdáunarverðan hátt og samdi upp úr öllu dramatískt tónverk sem á sér engan líka í vestrænni menningu. Ég hef áður sagt að Niflungahringur Wagners væri dýrasti tollur sem íslenskri menningu hefði verið goldinn. Þau orð voru ekki ofmælt, heldur eru þau aðeins bláköld staðreynd.

Íslendingar eru ekki einir um að halda að þetta verk komi þeim lítið við. Þarna villir heiti verksins um fyrir mörgum. Þjóðverjar og fleiri virðast oftast halda að verkið sé mikið til samið upp úr riddarasagnakvæði því þýsku sem ort var á 12. öld og oftast er nefnt Das Nibelungenlied. Reyndin er hins vegar sú að Niflungahringurinn sækir nær ekkert efni til Niflungaljóðanna þýsku annað en nokkrar nafngerðir.

Í Niflungaljóðum er hin þýska gerð sagnarinnar um fall Gjúkunga endursögð sem riddarasaga. Wagner þekkti kvæðabálkinn vel, átti fleiri en eina útgáfu af honum og mun á sínum tíma hafa skoðað grannt möguleika á að gera óperu úr efni þaðan. Hann sá þó ekki leið til þess. Það er einungis á þremur stöðum sem efni Hringsins fer saman við Niflungaljóð, og á öllum stöðunum er að finna efnisatriði sem sýna að þar sækir Wagner ekki í það verkið, heldur í Þiðrekssögu af Bern.

Þiðrekssaga, Niflungahringurinn - og Íslendingasögur

Þiðrekssaga, eða Niflunga- og Vilkinasaga, eins og hún hét á þeim bókum sem til voru í Þýskalandi á þeim tíma, var rituð í Noregi á 13. öld eftir kvæðum sem höfð voru eftir þýskum kaupmönnum. Sagan er viðamikill bálkur, með miklu og fjölbreyttu efni, fremur illa rituð, en skrásetjarinn ekki ólíklegur að hafa verið íslenskur. A.m.k. eru ekki nein greinileg norsk sérkenni í málfari. Þarna er þýska gerðin af hinum miklu kappasögnum þjóðflutningatímans skráð niður á hrárri veg og frumstæðari en í Niflungaljóðum, og hinn alþýðlegi bragur frásögunnar er einmitt helsti styrkur hennar.

 

Það er ekki síst frásögnin af uppruna Sigurðar og uppvexti og af Mími smið sem hefur orðið Wagner fyrirmynd, en einnig fjöldi annarra atriða, svo sem útlit og uppruni Högna, Rínarmeyjar og margt fleira, sumt komið úr öðrum þáttum sögunnar. Af Brynhildi og fyrri kærleikum Sigurðar við hana eru næsta fáar sögur, en kvonbænir Gunnars ganga slétt fyrir sig, þar til kemur að brúðkaupsnótt. Þá leikur Brynhildur Gunnar bónda sinn hraklega, og verður Sigurður í dulargervi að svipta hana meydómi til að hún verði sem aðrar konur. Frásögn Þiðrekssögu er síðan helsta fyrirmynd Wagners að vígi Sigurðar. Brynhildur hverfur eftir það hljóðalaust úr sögunni, rétt eins og í Niflungaljóðum.

Wagner þekkti vel til efnis Þiðrekssögu, hafði bæði lesið hana sjálfa og eins Das Amelungenlied, eða Ömlungaljóð, kvæðaflokk Simroeks upp úr sögunni, sem hann orti til að endurskapa fornkvæðin sem hún er rituð eftir. Í Ömlungaljóði tekur hann að vísu upp nokkur minni úr hinni norrænu gerð sagnarinnar.

Óperan sem óx

Sjálfur sagðist Wagner fyrst hafa skynjað dauða Sigurðar sem óperuefni, þegar hann las Eddukvæðin sem fjalla um þann atburð. Síðar náði veröld Snorra og Völsungasögu að teyma hann lengra á veg og breyta hugmyndum hans. Honum fannst að hann þyrfti að skýra tilvist Sigurðar með öðru verki og að lokum urðu þau fjögur talsins, mikill bálkur um Æsi og hetjur, en um leið mögnuð dæmisaga um valdafíkn, ágirnd og bölvun gullsins, sem loksins er létt af með mætti heiðarleika og hreinnar ástar.

 

Íslenskir fræðimenn eru nú að vinna að rannsóknum á íslenskum rótum Niflungahringsins, ekki síst dr. Árni Björnsson, sem vonandi mun birta hluta af niðurstöðum sínum innan skamms. Þar mun hann rekja í einstökum atriðum hvernig Wagner nýtir sér og endurskapar Eddufræði og fornar sagnir, ekki síst þann flókna vef sem hann slær í fyrri hlutum verksins. Hér er hins vegar tæpt á ýmsum þáttum í tilurðarsögu verksins, ekki síst þeim sem varða meir seinni hluta þess.

Þegar reynt er að skoða þróun Niflungahringsins má ekki gleyma því að handrit verksins er skrifað aftur á bak, ef svo má að orði komast, þannig að fyrst var saminn textinn að „Siegfrieds Tod“, sem var frumgerðin að því sem síðar nefndist „Ragnarök“, síðan voru prjónuð framan við það drög að verki um uppvöxt Sigurðar Fáfnisbana og loksins textinn að tveimur fyrri óperunum.

Greina má sagnirnar um Völsunga og Gjúkunga í tvennt, annars vegar norrænu gerðina, eins og hún er í Völsungasögu, Eddukvæðum og Snorra-Eddu, og hins vegar þýsku gerðina, sem þekktust er af Niflungaljóðum og Þiðrekssögu af Bern. Þessar tvær gerðir eru um margt ólíkar, og þó ekki síst um þá atburði, sem gerast eftir að söguþræði Hringsins sleppir. Síðan er margt ólíkt milli einstakra frásagna af sama meiði.

Wagner skóp eigin goðafræði upp úr hinum ýmsu heimildum. Ýmislegt breyttist í meðförum hans, meðan á samningu verksins stóð, en þó hélst flest óhaggað sem hann setti upphaflega fram í ritsmíð um þetta efni árið 1848. Hún nefnist „Der Nibelungen-Mythus als Entwurf zu einem Drama“, og lýsir helstu dráttum þeirrar sagnar sem sögð er í Hringnum. Greinin fjallar auðvitað ítarlegast um efni seinasta verksins, en um leið er ljóst, hve fullburða mynd Wagner hefur gert sér af sögninni í heild.

 

Þær heimildir sem Wagner hafði til lestrar á þessum tíma voru með ýmsu móti og ansi ósamstæðar. Þær Edduþýðingar, sem þá lágu fyrir, voru sumar í óbundnu máli, sumar í bundnu, nokkrar með stuðlasetningu, sem ekki var alls staðar burðug. Fyrir Íslendinga er sú staðreynd líklega merkilegust að Wagner reyndi að stauta sig fram úr Völuspá í útgáfu Ettmullers og fleiri Eddukvæðum á frummálinu, með því að grúska í þeim útgáfum sem voru bæði með frumtexta og þýðingu.

 

Það er sérkennileg tilfinning að hafa í hendi sér eintak Wagners frá Dresdenarárunum af Völuspá Ettmullers, sem nú liggur á safninu í

Wahnfried, og komast að því að það opnast best á öftustu síðunum, þar sem íslenska orðasafnið er að finna. Það segir ótvíræða sögu.

Áhrif Simrocks - stuðlar og stíll

Wagner hafði samið textann að Siegfrieds Tod veturinn 1848-9. Síðan lá verkið í salti þar til sumarið 1851. Þá tók Wagner það skyndilega  til frekari úrvinnslu, gerði efnisútdrátt að nýrri óperu og um sumarið semur hann textann að Der junge Siegfried, og fyrstu drög að Rínargullinu og Valkyrjunni um haustið. Næsta árið lýkur hann síðan textanum að verkinu.

 

Hvað skyldi hafa komið honum að verki og teymt hann að fyrri þáttum sagnarinnar? Eitt er öllu öðru líklegra. Snemma árs 1851 kom út hin mikla Edduþýðing Karls Simrock, bæði Eddukvæðin og Snorra-Edda, á einni bók, með umtalsverðu efni sem ekki hafði legið á lausu áður, svo sem Svipdagsmálum og Lokasennu.

 

Það er ekki síst Lokasenna sem virðist hafa lokið upp ýmsum dyrum. Ekki er unnt að hugsa sér persónu Loka í Rínargullinu nema í ljósi þess kvæðis, en áhrifin ná víðar og dýpra. Afstaðan til goðanna breytist mjög frá því sem var í Siegfrieds Tod. Viðhorfið er gagnrýnna og neikvæðara, og brestir þeirra eru dregnir skýrar fram. Afstaða goðanna til Loka er líka greinilega mótuð af Lokasennu.

 

Útgáfa Simrocks gerði líka mörg Eddukvæðin aðgengilegri, enda eru áhrif þeirra mun rækilegri í þeim texta, sem síðan var saminn, heldur en var í frumgerðinni að Siegfrieds Tod. Það gerist á margan veg. Ekki síst munaði hér um það að kvæðaþýðing Simrocks er á góðu og kjarnyrtu máli og þýðingin á sumum mikilvægustu kvæðunum er mjög þokkalega stuðluð.

 

Það er nú á síðustu árum að augu fræðimanna hafa beinst að áhrifum Simrocks á Niflungahringinn. Það er skammt um liðið síðan  mikilvægar upplýsingar fengust um bókakost Wagners og lesefni í Dresden, og enn er ekki fullunnið úr þeim upplýsingum. Því miður hefur víst enginn náð enn að rannsaka stílræn áhrif Simrocks á texta Hringsins. Við fljóta yfirsýn virðast þau vera umtalsverð. Tungutak verður markvissara og knappara, braglínur styttri og ótvíræð áhrif fornyrðislags og fleiri bragarhátta. Ekki síst verður stuðlasetningin ekki lengur skraut, heldur hluti af hrynjandi textans og þar með hluti af tónlistinni sem við hann var samin. Það er reyndar auðvelt að sjá með nokkurri nákvæmni hvað af textanum í Ragnarökum er úr frumgerðinni, Siegfrieds Tod, og hvað er  yngra, bara með því að leggja mat á stuðlasetninguna og bragvísi höfundarins.

 

Í Zürich kynntist Wagner líka einum helsta Eddufræðingi þeirra tíma, Ludwig Ettmuller, sem meðal annars hafði gefið út Völuspá með skýringum, þýðingu og orðalykli, eins og fyrr getur, og einnig fyrstu góðu þýðinguna á seinni hetjukvæðum Eddu. Wagner kallaði hann „Eddamuller”, og þarf því ekki að efa að samræður þeirra hafa verið mjög á því sviði. Það hefur verið háttur sumra eldri fræðimanna, að gera mikið úr áhrifum hans á smíði Hringsins, en líklegt er að lesefni Wagners hafi valdið enn meiru. En ekki hefur honum komið illa að mega á ráð þess manns leita.

 

Það var fyrst ætlun Wagners sumarið 1851 að prjóna gamanóperu um æsku Sigurðar Fáfnisbana framan við Siegfrieds Tod. Hún átti að heita „Der junge Siegfried”, og heitið sniðið – eftir Þiðrekssögu, þar sem hann er nefndur Sigurður sveinn.

 

Wagner leit á frumgerð verksins, Der junge Siegfried, sem hetjulega gamanóperu. Síðan bættist við meira efni framan við, harmleikur Valkyrjunnar og goðamál Rínargullsins. Þar með jókst alvaran í málum.

Harmleikur Óðins

Sú persóna sem flytur alvöruna inn í verkið er Óðinn sjálfur. Wagner hugðist láta Óðin í dulargervi ýta fram málum á tveimur stöðum í óperunni, og þó fyrst og fremst leggja á ráðin um smíði sverðsins. Þar með tók hann fljótlega að teygja sig lengra í að skýra tilvist Óðins og áhuga hans á Sigurði. Hann samdi textann að Der junge Siegfried í júní 1851 og gat þó ekki rifið sig frá efninu. Um haustið skrifar hann , vini sínum í Dresden, Theodor Uhlig, og biður hann um að útvega sér Völsungasögu. Þá hafði hann þegar, í fyrra bréfi til Uhligs, greint frá hugmynd sinni um að stækka verkið í þrjár fullburða óperur og inngangsverk að auki. Nú snerist áhugi hans allur að Óðni, kvöl hans og vanda, bölvun hringsins og örlögum heims. Gamanóperan varð kveikja að myrku örlagaverki.

 

Upphaflega verkið er hugsað sem harmleikur Sigurðar. Hann er andlag þess harmleiks, ef svo má að orði komast. Það er hins vegar Brynhildur sem er fremjandi harmleiksins og það er hún áfram, þegar skiptir um harmsögu. En valkyrjan Brynhildur sem við þekkjum úr Niflungahringnum er allt önnur en sú hefðbundna persóna sem lýst er í textanum að Siegfrieds Tod. Nú var orðið meira í húfi, grundvallarátök ástar og valds, örlög alls heims. Fyrri óperurnar voru ekki bara prjónaðar framan við. Þetta var orðið nýtt verk með nýjum áherslum.

 

Í hinu nýja verki er það harmleikur Óðins sem er aðalatriðið, harmleikur stjórnmálamannsins, sem reynir að ráða ráðum veraldar, en dregur að lokum allt niður með sér. Gegn þeirri tvöfeldni rís Brynhildur, dóttir hans, og öllum þremur meginhlutum Hringsins lýkur með sigri hennar á mismunandi vegu. Í þessu felst um leið endanlegur ósigur Óðins og þeirrar heimsmyndar sem hann reyndi að byggja upp. Í Valkyrjunni og Sigurði snúast öll ráð hans og ætlan um að sjá til að fram komi sú hetja sem leysi goðin og veröldina undan álögum hringsins og komi gullinu aftur í hendur Rínarmeyjum. Hið sérkennilega er að þegar hetjan kemur að lokum fram reynist hún önnur en ætluð var, bæði af röngum stofni og af röngu kynferði. Það er eins og Wagner hafi sjálfur ekki áttað sig á að það er Brynhildur sem reynist hin frjálsa hetja sem Óðinn leitar að til að færa aftur hringinn og frelsa heiminn.

Sumir hafa talið Óðinsmynd Niflungahringsins vera undir áhrifum frá kenningum Arthurs Schopenhauers, en það fær ekki staðist. Wagner kynntist verkum Schopenhauers fyrst 1854, meir en ári eftir að hann lauk við að semja textann að Hringnum. Það er hins vegar ekki að sjá að hann hafi þurft að endurskoða persónuna eftir þennan lestur. Þar stendur allt áfram sem áður. Því er nærtækara að halda að viðhorfin sem þegar voru komin fram í Hringnum, og reyndar öðrum verkum, hafi gert hann móttækilegri fyrir hugmyndum Schopenhauers. Það er full ástæða til að taka til vitnis orð Wagners sjálfs í þessu efni. Hann segir svo um lestur sinn á Die Welt als Wille und Verstellung eftir Schopenhauer: „Ég fann, mér til undrunar, að það sem hreif mig í kenningu Schopenhauers hafði fyrir löngu verið mér meðvitað í skáldskap mínum. Nú loksins skildi ég Óðinsmynd mína“. Kenning Schopenhauers var honum með öðrum orðum eins og framsetning á því sem hann hafði sjálfur skynjað og tjáð fyrr.

Strákurinn sem kunni ekki að hræðast

Það er full þörf að ítreka hér að texti verksins var saminn aftur á bak, ef svo má að orði komast, fyrst Siegfrieds Tod, sem er frumgerðin að Ragnarökum, næst Sigurður, þá Valkyrjan og loksins inngangsverkið, Rínargullið. Að lokum var texti Ragnaraka endurskoðaður og samhæfður.

Efnisdrættir þeir í Sigurði er varða uppvöxt hans fara í flestu eftir Þiðrekssögu. Hann elst upp hjá Mími smið og er hinn ódælasti. – Hér fær Wagner eina snjöllustu hugmynd sína. Hann dregur inn í mynd Sigurðar drætti úr þjóðsögunni um strákinn sem kunni ekki að hræðast, og eins og í þeirri sögu er það kona sem nær að valda honum ótta í lokin, þegar hann vekur Brynhildi á fjallinu.

 

Í heimildum Wagners segir á næsta mismunandi veg frá ýmsum efnisþáttum, og þær gefa okkur harla ólíka mynd af eðli persónanna. Í óperunni er farið næst frásögu Þiðrekssögu af uppvexti Sigurðar. Wagner leitar hins vegar fanga víðar í Þiðrekssögu og t.d. dregur sverðssmíðin í óperunni í vissum atriðum mjög

dám af sögunni um það er Velent smíðaði sverðið Mímung.

 

Þrátt fyrir þessi aðföng úr Þiðrekssögu er Siegfried mesta Eddukvæðaverkið í Hringnum. Gátuleikurinn í fyrsta þætti er fyrst og fremst sniðinn eftir Vafþrúðnismálum, og Óðinn vinnur leikinn með því að spyrja að lokum þess sem andstæðingurinn á ekkert svar við. Þarna má reyndar þekkja minni úr fleiri Eddukvæðum, ekki síst Alvísmálum, en sumar spurningarnar eru reyndar beinlínis úr þeim komnar. Frásögnin um Gestumblinda og gátur hans í Hervararsögu og Heiðreks er auðvitað af sama tagi.

 

Seinni hluti annars þáttar fylgir í mörgum efnum Fáfnismálum, bæði um orðræður Sigurðar og Fáfnis, og eins um það sem Sigurður nemur af máli fuglanna. Og eins og í Fáfnismálum lýkur þættinum með því að fuglinn vísar Sigurði á valkyrjuna sem sefur álagasvefni á fjallinu. Upphaf þriðja þáttar, þegar Óðinn vekur upp völuna, er síðan spunnið saman úr Vegtamskviðu (Baldurs draumum) og sjálfri Völuspá. Þannig fer bæði upphaf atriðisins, þegar völvan vaknar, og lokin, þegar hún þekkir Óðin, mjög nærri fyrirmyndinni í Vegtamskviðu. Og þá er síðasta og glæsilegasta tilvísunin í Eddukvæðin eftir, upphaf Sigurdrífumála í þriðja þætti, þegar valkyrjan er vakin og fagnar sólbjörtum degi.

 

Vera má að sumum þyki tónlistin í Sigurði, einkum framan af, lakari en í Valkyrjunni. Þá má að vísu kenna efninu að nokkru um. Atburðirnir eru hér óneitanlega á lægra tilfinningasviði. En allt um það var Wagner sjálfur ekki ánægður með framvindu mála, þegar hér var komið. Því lagði hann verkið til hliðar um árafjöld, að loknum öðrum þætti, og sneri sér að öðru. Þegar hann tók til við það aftur hafði hann bæði lokið Tristan og Isold og Meistarasöngvurunum. Að auki hafði hann endurskoðað Tannhäuser og að baki var óperuhneykslið mikla við frumflutning endurskoðuðu gerðarinnar í París árið 1861.

 

Því þarf engum að koma á óvart að hann kemur tvíefldur til verka er hann semur þriðja þáttinn, átta árum síðar. Þegar í forspilinu er ljóst að tónmál Wagners er orðið viðameira, samofnara og flóknara en áður. Í atriðinu milli Óðins og völvunnar, sem næst kemur á eftir, nær verkið á margan veg dramatískum hátindi sínum. Að minnsta kosti rís hér hæst harmleikurinn um Óðin og um bölvun guðanna. Eftir þetta hefur Óðinn það eitt hlutverk eftir að prófa hugdirfð Sigurðar og vita hvort hann sé þess verðugur að vaða eldinn á fjallinu. Óðinn er fulltrúi fortíðar og fyrri misgerða. Hann verður að víkja til hliðar og vona að hin nýja kynslóð, Sigurður og Brynhildur, séu þess umkomin að leysa veröldina undan bölvun hringsins.

 

Hið einkennilega er að það eru fávísi Sigurðar og sakleysi sem veita honum sjálfum nokkra vernd fyrir bölvun hringsins. En við alla aðra leikur hringurinn hinn myrka leik sinn og inn í þann hrunadans dregst Sigurður með fyrir þeirra verk.

 

Það er ýmislegt sem breytist í tónlistinni eftir átta ára hlé. Sumt af því á sér rætur í tilurðarsögu textans og þeim viðhorfsbreytingum sem urðu með Wagner á þeim árum. Eins og áður getur, hafði Wagner öðlast sífellt meira vald yfir stuðlasetningu og annarri braglist, eftir því sem fram leið samningu textans. Þannig er stuðlasetning mun skárri í fyrri óperunum. Þar ofstuðlar Wagner að vísu,- og margt fleira kann að særa brageyra sumra Íslendinga, en þó leysir hann sumar bragþrautir mjög skemmtilega. Tónlistin er síðan samin með fullu tilliti til stuðlasetningar. Stuðlarnir, og áherslur textans sem þeim fylgja, eru augljóslega hluti af hrynjandi verksins. Því miður er þessi þáttur lokuð bók fyrir marga flytjendur Hringsins, bæði söngvara og stjórnendur, og mætti í því samhengi nefna stór nöfn og fræg.

 

Það væri hægt að fylla í stærstu eyðuna í Wagnerfræðum, ef íslenskur tónlistarmaður með gott brageyra tæki að sér að greina bragliði og rétta stuðlasetningu textans, með tilliti til laglínu söngsins og tónlistarinnar í heild. Þarna er að mörgu að gá, því Wagner beitir mörgum brögðum. Sums staðar, ekki síst í Valkyrjunni, er t.d. að finna aukastuðlun, sem gengur þvert á meginstuðlunina, en á samt sinn þátt í laglínu og hrynjandi.

 

Þegar kemur fram í þriðja þátt Sigurðar, er víða komið í eldri gerð textans með ófullkomnari stuðlun. Því tekur Wagner að draga úr vægi stuðlasetningar í tónlistinni, og þó enn frekar í lokaverki Hringsins, Ragnarökum eða Götterdämmerung.

 

Okkur er tamt að líta á Richard Wagner sem fulltrúa hinna stóru forma í tónlist, en það er þó ekki alls kostar rétt. Að vísu eru óperur hans með þeim lengstu og viðamestu sem samdar hafa verið, en framan af mega þær heita samsettar úr frekar smáu brotasilfri. Notkun Wagners á leiðsögustefjum, og kunnátta hans í að raða þeim saman og spyrða, nær hámarki í fyrri hluta Hringsins, og ekki laust við að hann sé kominn í þrot með nýja og frjóa túlkun þegar kemur fram í óperuna um Sigurð. Hléið langa var honum því vafalaust nauðsyn. Þegar hann hefst handa á ný, átta árum síðar, er það nýr og reyndari maður sem sest að verki. Hann hafði á þeim árum lært að vinna tónlistina saman í stærri heildir, ekki síst þegar hann fékkst við Tristan og Isold. Það kveður því við nýjan tón í forspilinu að þriðja þætti, sem myndar eina og sterka sinfóníska heild, en um leið er stefjunum sem áður höfðu birst, fléttað saman í flókinn vef, þar sem sagan er nú sögð með dýpt sem orð ein fá varla náð, því tónlistin nær að kalla fram minnis- og hugrenningatengsl hraðar og víðar en gerist í orðum texta einum saman.

 

Dauði Sigurðar verður að Ragnarökum

Þeir staðir í Niflungahringnum sem eiga hliðstætt efni við Niflungaljóð eru aðeins þrír talsins, allir í þriðja þætti Ragnaraka. Það er samræða Sigurðar við hafgúurnar, sem byggist á orðræðu Högna við svipaðar aðstæður síðar, þegar þeir Gjúkungar halda til hinstu veislu sinnar hjá Húnakóngi, dauði Sigurðar og það þegar lík Sigurðar er flutt heim í konungsgarð. Í öllum tilvikum er hins vegar að finna efnisþætti í þessum atriðum, sem komnir eru úr Þiðrekssögu, en ekkert efni sem rekja má til Niflungaljóða einvörðungu.

 

Wagner fylgir Þiðrekssögu um ætterni Högna, að hann sé getinn af svartálfi við drottningu Gjúkungakonungs, og gerir hann um leið að syni Andvara og hinni myrku hliðstæðu við þá Völsunga. Lýsingin á Högna, svarthærðum, fölleitum, tröllslegum á svip og kaldranalegum í fasi, er einnig sótt í Þiðrekssögu.

 

Óminnisdrykkurinn, sem fær Sigurð til að gleyma Brynhildi, er hins vegar sóttur í norrænar sagnir, og eins það er Sigurður skiptir litum við Gunnar til að vaða eldinn til Brynhildar. Reyndar er þar ekki talið að Gunnar brysti hug til þess, heldur að Grani Sigurðar hafi einn hesta verið fær um að vaða eldinn, og þann hest gat Sigurður einn setið. Eftir dauða Sigurðar fylgir Wagner að mestu hinni norrænu gerð sögunnar.

 

Ýmsum sögnum fer af hestinum Grana. Wagner gerir ráð fyrir því að Sigurður hljóti hann af Brynhildi, en í norrænum sögnum er hans getið fyrr, eins og segir í Grípisspá, og eins og segir í viðkvæðinu að færeyska dansinum: „Grani bar gullið frá heiði”. Í Þiðrekssögu er Grani hins vegar hestur „í stóði Brynhildar”, 4 og fer Sigurður þangað til þess eins að sækja hestinn að tilvísan Mímis, en ekkert segir þar frekar af skiptum þeirra Brynhildar að því sinni. Wagner gagnaði víst lítið svo alger skortur á rómantík.

 

Í óperunni er öllum atburðum þjappað mjög saman. Reyndar eru allar óperur Hringsins því marki brenndar að fylgja lögmálum Aristótelesar, og gerast hver um sig með sömu persónum á sama tímamarki. Í óperunni gefur Sigurður Brynhildi hringinn í upphafi. Þar með er hún orðin háð bölvun hans. Þegar hann ríður vafurlogann til hennar í gervi Gunnars, tekur hann af henni hringinn með valdi. Þegar hún sér síðan hringinn á hendi Sigurðar, í öðrum þætti, er henni ljóst að brögð eru í tafli. Í báðum aðalgerðum sagnarinnar er það hins vegar rimma þeirra Brynhildar og Guðrúnar, sem öllu kemur af stað, þegar Guðrún kemur upp um hver þáttur Sigurðar hafi verið, þegar Brynhildur var gefin Gunnari. Í þýsku gerð sagnarinnar hafði Sigurður reyndar skipt litum við Gunnar til að svipta Brynhildi meydómi, en hún var með þeim ósköpum að vera afrennd að afli meðan hún var óspjölluð. Neitaði hún Gunnari hvílubragða og lék hann á allan hátt grátt. En þegar Sigurður hafði þvingað hana til samræðis, hafði hún ekki meira afl en öðrum konum var áskapað.

 

Lok óperunnar vöfðust lengi fyrir Wagner. Í upphaflegu gerðinni, „Siegfrieds Tod“, gengur Brynhildur á bálið til að sameinast Sigurði í Valhöll. Þegar verkið tók að hlaða utan um sig fór viðhorf Wagners til ástarinnar í því að snúast. Fyrst jók hann enn á ástarjátningu Brynhildar í lokaatriðinu. Ást hennar á Sigurði er þá það eina sem skiptir máli. Hann tók þó síðar að líta á ástina, eins og hún birtist í Hringnum, – sem tvírætt afl. Seinni gerð textans, sem hann samdi árið 1856, er með afneitun Brynhildar á veröldinni, bæði mannheimum og goðheimum, eftir bestu forskriftum Sehopenhauers. Þær línur voru felldar niður við samningu tónlistarinnar, en standa hins vegar í prentaðri gerð textans.

 

Í fullnaðargerð textans höfðu viðhorfin því enn breyst. Eldurinn af bálinu teygir sig til himins og eyðir líka Valhöll og goðunum. Þetta  verða Ragnarök. Hið gamla og spillta verður að eyðast. Wagner virðist hafa staðið í nokkrum vanda við að skýra þennan endi út í orðum, en tónlistin flytur okkur merkinguna ótvírætt.

 

Hugmyndafræði Hringsins hefur orðið tilefni margra lærðra greina. Sannast sagna er þá oft leitað langt yfir skammt. Hugmyndir Völuspár og Snorra um bölvun gullsins eru rót verksins og sú lausn sem Wagner fann að lokum á endinum um er sótt í lokaerindin í Völuspá.

Stutt efnisyfirlit Niflungahringsins

Rínargullið
 1. atriði: Rínarmeyjar gæta gullsins í djúpum fljótsins. Dvergurinn Andvari leitar eftir ástum þeirra, en þær leika hann grátt. Hann kemst að því að sá sem afneitar ástinni getur smíðað sér þann hring úr gullinu, sem færa mun honum vald og auð. Þá rænir hann gullinu og hefur á brott með sér.
 1. atriði: Jötnarnir hafa smíðað Óðni höll og eiga að fá Freyju fyrir. Hann hefur treyst á að Loki finni ráð til að gjalda borgarsmíðina á annan veg. Loki segir viðstöddum frá ráni gullsins og smíði hringsins og jötnarnir segjast gera sér þau laun að góðu. Þeir taka þó Freyju með til tryggingar og þá þegar gerast goðin gömul og grá. Því er það eitt til ráða að Óðinn tekur Loka með sér til Niflungaheims til að freista þess að ná gullinu.
 1. atriði: Andvari hefur smíðað sér hringinn og kúgar svartálfa alla. Mímir, bróðir hans, hefur orðið að gera honum ægishjálm, en sá sem ber hann fær breytt sér í allra kykvenda líki. Þeir Óðinn og Loki ná að ginna Andvara og hneppa hann í bönd. Síðan flytja þeir hann með sér til uppheima.
 1. atriði: Andvari verður að gjalda fyrir frelsi sitt, fyrst glóanda gull, síðan ægishjálminn og loks hringinn. Þá leggur hann á að hringurinn verði hverjum þeim höfuðsbani er eigi. Óðinn tekur til sín hringinn og hyggst halda honum eftir þegar æsir gjalda gullið fyrir Freyju, en lætur hann af hendi nauðugur þegar völvan Jörð varar hann við álögunum. Jötnarnir deila um gullið, Fáfnir drepur bróður sinn og sölsar allt til sín, og þegar goðin halda um Bifröst til Valhallar heyrast kveinstafir Rínardætra neðan úr dalnum.

Valkyrjan

 1. þáttur: Í vonskuveðri kemst Sigmundur

Völsungsson vopnlaus við illan leik til húsa Hundings. Húsfreyja veitir honum beina, en þegar bóndi hennar kemur verður honum brátt ljóst að gesturinn er banamaður ættmenna hans. Náttvíg eru morðvíg og því fær gesturinn að bíða morguns. Húsfreyja stingur bónda sinn svefnþorni og heldur til náttfundar við gestinn. Hún segir honum frá sverðinu sem karl einn eineygur hafði komið með í brúðkaup hennar og rak í stokkinn sem bar húsin uppi, en enginn náði að draga það út. Að lokum þekkir Sigmundur aftur Signýju, systur sína, og þegar hann hefur brugðið sverðinu úr stokknum halda þeim engin bönd eða siðir lengur.        

 1. þáttur: Þau Völsungasystkin eru börn Óðins við mennskri konu, ætluð til að ná hringnum aftur, svo að honum verði skilað í Rínardjúp á ný. Valkyrjurnar gat Óðinn við Jörðu til að safna saman hetjum gegn hinum myrku öflum. Frigg krefst þess hins vegar að Sigmundi sé refsað fyrir þá blóðskömm sem hann drýgði, sverðinu sé eytt fyrir honum og hann hljóti bana. Óðinn verður undan að láta, en Brynhildur valkyrja, dóttir hans, óhlýðnast og hyggst veita Sigmundi sigur. Óðinn verður þá sjálfur að grípa í taumana, sundra sverðinu og veita syni sínum bana. 

3. þáttur: Brynhildur kemur með Signýju á fund valkyrjanna, systra sinna, og leitar ásjár. Hún segir Signýju að hún beri son undir belti eftir bróður sinn, og sá verði allra kappa fremstur. Því skuli hún forða sér, en sjálf kveðst hún bíða refsingar Óðins. Hann leggur það á hana að sofa á fjallstindi umlokin vafurloga, þar til sá kappi vaði logann til hennar sem ekki óttast neitt.

Sigurður

 1. þáttur: Mímir, bróðir Andvara, hefur alið Sigurð upp í helli einum í skógi, en móðir hans lést er hún ól son sinn. Hann væntir þess að Sigurður nái að vinna Fáfni, sem liggur í drekalíki á gullinu. En áður þarf hann að smíða á ný sverðið sem brast. Til þess skortir hann kunnáttu. Þá kemur til hans karl eineygur, er Vegtamur nefnist, ginnir hann til gátuleiks og vinnur þar höfuð hans. Hann skilur við Mími með þeim orðum að sá einn geti smíðað sverðið, sem ekkert óttast. Það er því Sigurður sem smíðar sverðið í fávisku sinni, en Mímir leggur á ráð um að drepa fóstursoninn þegar drekinn er unninn.
 1. þáttur: Andvari bíður við bæli Fáfnis í von um að fá einhvern veg færi á hringnum, þegar Vegtamur karl, sem er Óðinn í dulargervi, kemur og segir þá Sigurð og Mími á leiðinni. Mímir skilur Sigurð eftir við hellismunnann og gauragangurinn í stráksa vekur Fáfni af blundi. Fer svo að Sigurður vinnur á drekanum, en er hann sleikir blóð hans af hendi sér fær hann numið hugsun manna og eins fuglamál. Hann kemst að því að Mímir situr um líf hans og drepur því ófétið, og að ráði söngfugls á grein hirðir hann hringinn og ægishjálminn og heldur á brott til að finna meyna sem liggur sofandi innan loganna háu.
 1. þáttur: Vegtamur ríður loft og láð til að leita spásagnar hjá völvunni, en hún vill fátt segja honum. Hann kveðst þá munu láta hinni nýju kynslóð eftir vald sitt til endurlausnar heiminum. Völvan sekkur í jörðu en sá eineygi stendur eftir til að mæta Sigurði. Sigurður sundrar óttalaus spjóti hans og veður logana ótrauður. Hann vekur valkyrjuna með kossi og saman fagna þau sólbjörtum degi.

Ragnarök

 1. þáttur: Örlaganornirnar þrjár vita að komið er að skapadægrum. Sigurður kveður Brynhildi, veitir henni hringinn sem tryggðagjöf og heldur suður um Rín. Þar ríkir Gunnar yfir ætt Gjúkunga, en Högni, bróðir hans sammæðra, er sonur Andvara, getinn til að ná hringnum á vald föður sínum. Þeir bera Sigurði óminnisdrykk. Ginna hann til að skipta litum við Gunnar og vaða síðan vafurlogann til að vinna Brynhildi sem brúði til handa Gunnari.

Ein af valkyrjunum kemur til Brynhildar og biður hana láta af hendi hringinn í hendur Rínarmeyjum, svo veröldin megi bjargast. En hún vill ekki selja af hendi gjöf Sigurðar. Þá kemur Sigurður í líki Gunnars, veður logana og nemur Brynhildi brott með sér. Hringinn tekur hann af henni.

 1. þáttur: Nú þykir þeim feðgum, Högna og Andvara, allt ganga sér í hag. Gunnar færir Brynhildi heim sem brúðarefni, en Sigurður kemur fyrr og fagnar þeim með heimamönnum. Brynhildur þykist illa svikin, og þeim mun meir er hún sér að Sigurður ber hringinn á hendi. Hún krefst hefnda og Högni heitir þá atbeina sínum. Gunnar verður nauðugur viljugur að gjalda því samþykki.
 1. þáttur: Sigurður er ginntur á veiðar og Rínarmeyjar reyna að fá hann til að láta hringinn af hendi, en árangurslaust. Högni ber honum drykk sem færir honum minnið á ný, og er Sigurður minnist þess hvernig hann vakti Brynhildi af svefni rekur Högni hann spjóti í bakið. Þeir Gjúkungar bera lík Sigurðar heim, en Brynhildur lætur hlaða bálköst. Þá segir hún öllum að Sigurður var frumver hennar, gengur á bálið til hans og lætur brenna sig með honum. Högni reynir að ná hringnum, en þær Rínarmeyjar draga hann og hringinn með sér í árdjúpin. Eldurinn teygir sig til himins og logum slær um Valhöll. Allt hið gamla brennur, en lokatónar verksins boða nýjan og betri heim.

Myndatexta:

 • WAGNER sat fyrir hjá franska málaranum Auguste Renoir í Palermo hinn 15. janúar 1882, tveimur dögum eftir að hann setti punktinn aftan við Parsifal. – Ævistarfinu er lokið og eftir stendur aðeins þreyttur öldungur.
 • SVIÐSETNINGAR á Wagnerhátíðinni í Bayreuth hafa á seinni áratugum oft verið nýstárlegar og umdeildar. Þetta er sviðsmyndin í lok Valkyrjunnar í nýjustu uppfærslunni, sem oftast er kennd við hönnuðinn Rosalie.
 • MÁLARINN Julius Schnorr von Carolsfeld gerði flokk málverka og myndskreytinga við Niflungaljóðin þýsku, og það er sérkennilegt að þessar myndir virðast hafa haft meiri áhrif á Wagner en texti ljóðanna. Þessi mynd sýnir þann atburð er Hagen vegur Siegfried í veiðiför
 • LOKAATRIÐI Niflungahringsins í hinni frægu uppfærslu Patrice Chéreau. Brynhildur gengur á bálið með Sigurði.
 • FÁAR uppfærslur Niflungahringsins hafa reynst umdeildari en aldarafmælisuppfærslan í Bayreuth 1976 í leikstjórn Patrice Chéreau. Hér sjást lok Valkyrjunnar. Óðinn hefur svæft Brynhildi og slær um hana vafurloga, sem enginn fær vaðið nema sú hetja sem ekki getur óttast.

///