Undirkaflar

Wagnerarfurinn,
fjölskylduerjur og tengslin við Ísland

Grein þessi er að stofni til erindi,
sem ég flutti á hátíðarfundi íslenska Wagnerfélagsins 24. október, 2009.

Sumarið 2006 sá ég Hring Niflungans í Festspielhaus Richards Wagners í Bayreuth, Bæjaralandi, Þýskalandi. Á vefsíðu minni www.bjorn.is er fátt sagt frá ferðinni en föstudaginn 11. ágúst stendur þó:

„Klukkan 17.00 vorum við [Rut Ingólfsdóttir kona mín] í Festspielhaus í Bayreuth og fórum þar með þeim hjónum Selmu Guðmundsdóttur og Árna Tómasi Ragnarssyni og fleiri vinum og hittum Wolfgang Wagner og konu hans Gudrun fyrir sýningu á Rínargullinu en þau hjón stjórna starfinu í Festspielhaus og hafa í mörg ár verið í vinahópi Árna Tómasar og Selmu. Wolfgang þurfti að hverfa á braut eftir um 20 mínútur til að taka á móti Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem var að koma á sýninguna, sem hófst klukkan 18.00.“

Á þennan veg voru fyrstu kynni mín af Wagner-fjölskyldunni. Ég lét þess  ógetið, að við vorum einnig kynnt fyrir Katharinu, dóttur þeirra Wolfgangs og Guðrúnar, sem þá var 28 ára og skaust inn í herbergið, líklega til að segja föður sínum, að Angela Merkel væri að koma.

Áður en það gerðist og á meðan Wolfgang sat við borðið með okkur og fékk sér brauðsneið, gaf hann Selmu gott ráð til að koma í veg fyrir, að brauðmylsna hrykki ofan á óperukjólinn. Hann benti henni á að setja eitt horn servíettunnar undir diskinn á borðinu og leggja síðan hinn hlutann í kjöltu sér. Síðan sagði hann í hálfum hljóðum, en þó svo fleiri heyrðu: Ég lærði þetta af gömlum fjölskylduvini, Adolf Hitler!

Líklegt er, að mér hafi þótt allt, sem bar fyrir augu og eyru þessa daga í Bayreuth of merkilegt og yfirþyrmandi til að setjast niður samdægurs og reyna að gefa af því einhverja mynd á vefsíðu minni. Auk þess var ég hvorki þá né nú í stakk búinn til að setja á langa orðræðu um Hringinn eða önnur verk Wagners.  

Að sjálfsögðu þekkti ég til Wagners og tónlistar hans og nokkrum árum áður en við fórum til Bayreuth sá ég sýningu á Tristan og Isolde í Vínaróperunni.  Ég áttaði mig á því, að lengd Hringsins væri samtals um 15 klukkustundir, því að til undirbúnings hátíðarferðinni hafði ég hlustað á Hringinn oftar en einu sinni í upptöku undir stjórn Sir Georg Solti.

Nánari kynni af Wagner, verkum hans og fjölskyldu hafa fært mér heim sanninn um, að það er ekkert áhlaupaverk að móta sér endanlega skoðun á þessu öllu saman.  Saga meistarans og fólks hans er svo margbrotin, að hver og einn getur fundið þar eitthvað við sitt hæfi.

Tilgangur minn er að líta til stjórnmálatengsla fjölskyldunnar og bregða ljósi á það, hvernig henni hefur tekist að halda hátíðinni í Bayreuth í eigin höndum, frá því að til hennar var efnt í fyrsta sinn árið 1876.  Enginn hefur verið lengur í forystu hennar en Wolfgang Wagner, í tæp 60 ár, frá 1949 til 2008, þegar hann leiddi hátíðina í hendur dætra sinna af tveimur hjónaböndum.

Undir lok ritgerðarinnar færi ég rök fyrir því, að hugmyndafræði Wolfgangs Wagners hafi orðið heilladrýgri fyrir tengsl okkar Íslendinga við Wagnerfjölskylduna og hátíð hennar en ef skoðanir Wielands, bróður hans, hefðu ráðið ferð.

Hringur Niflungans á Íslandi.

Þau Wolfgang og Guðrún Wagner komu til Íslands í janúar 1993, en árið 1992 höfðu Selma og Árni Tómas tekið að sér að reka það erindi við þau fyrir Listahátíð í Reykjavík að fá Wagneruppfærslu á hátíðina 1994 í tilefni af 50 ára afmæli lýðveldisins.

Selma sagði síðar, að Wolfgang hefði tekið bón þeirra  afar vel, minnst hve þýðingarmiklar íslenskar bókmenntir hefðu verið fyrir afa sinn og heitið liðsinni sínu við þessi áform. Í stormi og blindhríð kynntu hjónin sér aðstæður hér í Reykjavík og niðurstaða Wolfgangs „var ótrúlega frumleg og djörf en um leið sjálfsögð og augljós“, eins og Selma orðaði það. Hann gerði tillögu um, að Niflungahringurinn yrði slípaður á þann veg, að hann mætti sýna á einu kvöldi.

Þegar litið er til hinnar mögnuðu íhaldssemi, sem sett hefur svip sinn á afstöðu Wagnerættarinnar til verka meistarans,  lýsir orðið „ótrúlegt“  ákvörðun Wolfgangs best. Tillaga hans var framkvæmd og tókst með miklum ágætum.

Uppfærslunnar er enn minnst víða, meðal annars í The New York Times 9. september 2009. Þar er vitnað í Fred Plotkin, sem hefur séð Hringinn 44 sinum og ritað bók um hvernig njóta eigi óperutónlistar. Hann segir, að besta uppfærsla Hringsins, sem hann hafi nokkru sinni séð, sé hin stytta, átta tíma sýning í Reykjavík.  Hvergi hafi valkyrjunnar átt betur heima en á Íslandi.

Þau Guðrún og Wolfgang voru við frumsýningu Niflungahringsins í Þjóðleikhúsinu í júní 1994 og þá var Wolfgang spurður, hvort hann hefði  heimilað þessa einstöku uppfærslu á Hringnum, vegna þess að höfundarréttur á óperum Wagners væri að falla niður. Við það yrði Bayreuth-hátíðin og Wagner-fjölskyldan fyrir miklu fjárhagslegu tapi. Til að forða því hefði þurft að búa til nýja dramatúrgíu og skapa þannig nýjan höfundarrétt.

Blaðamaður Morgunblaðsins segir, að Wolfgang hafi orðið „einlæglega undrandi“ við spurninguna og svarað: „Þessi staðhæfing er út í hött. Höfundarréttur vegna flutnings á óperum Wagners féll niður árið 1913. Það getur hver sem er, hvar sem er í heiminum, sett upp verk hans án þess að svo mikið sem króna komi til Bayreuth eða fjölskyldunnar. Hátíðin í Bayreuth stendur fullkomlega undir sér. Á hverju ári eru 70.000 fyrirspurnir um miða – en aðeins áttundi hver maður kemst að.“

Frá því að þessi orð féllu fyrir 15 árum hefur síður en svo hallað undan fæti fyrir Bayreuth-hátíðinni.

Ótæmandi Wagnerbókmenntir.

30 manna hópur Íslendinga fór á Bayreuth-hátíðina 1995 og lýsir Þórður Harðarson, læknir, ferðinni og því, sem fyrir augu og eyru bar á greinargóðan hátt í 73. hefti tímaritsins Skjaldar haustið 2009. Þórður segir meðal annars:

„Framboð af Wagnerlitteratúr er nær ótæmandi í bókaverslunum borgarinnar, enda hefur enginn maður orðið tilefni jafnfjölskrúðugra bókmennta að Jesú Kristi og Napóleon einum undanskildum.“

Ég  efast ekki um sannleiksgildi þessara orða.  Að komast til botns í verkum og áhrifum Wagners er alls ekki einfalt og verður jafnvel enn flóknara, þegar litið er til fjölskyldulífs hans sjálfs og síðan afkomenda hans.

Bækurnar um þetta fólk eru af margvíslegum toga. Sjálfur skildi Wagner eftir sig  mörg ritverk, meðal annars handrit að ævisögunni Mein Leben og Cosima, kona hans, skrifaði dagbækur, meira en milljón orð að lengd. Afkomendur þeirra hafa síðan ritað ævisögur sínar eða uppgjörsbækur við fjölskylduna. Hér nefni ég þrjár bækur til sögunnar auk heimildarmyndar og tilvitnana í íslensk blöð.

Í fyrsta lagi nefni ég The Wagner Clan eftir eftir Jonathan Carr, sem kom út árið 2007. Carr er blaðamaður og hefur starfað fyrir The Economist  og Financial Times meðal annars um árabil í Þýskalandi.  Hann hefur því víðtæka reynslu af því að setja menn og málefni í pólitískt samhengi. Að því leyti höfðar bók hans frekar til mín en bækur þeirra, sem velta Wagner og fjöldskyldu hans fyrir sér frá sjónarhóli verka hans og hugmyndafræði þeirra.

Í öðru lagi er bók eftir Nike Wagner, bróðurdóttur Wolfgangs, dóttur Wielands. Bók Nike The Wagners – the Dramas of a Musical Dynasty kom út á ensku árið 2000. Hún segir ritun bókarinnar hafa gefið sér tilefni til að kafa dýpra en áður í tónlist og verk langafa síns en það hafi þó ekki síður hvatt sig til dáða,  að líta megi á fjölskyldusöguna sem fimmta hluta Hringsins. Ættarsagan sé ekki síður stórbrotin en listaverkin.

Í þriðja lagi hef ég kynnt mér bókina Winifred Wagner a Life at the Heart of Hitler’s Bayreuth eftir Brigitte Hamann, austurrískan sagnfræðing, frá 2005.  Þar er sögð saga tengdadóttur Wagners, eiginkonu Siegfrieds, en hún var 28 árum yngri en hann og tók við stjórn Bayreuth-hátíðarinnar í ágúst 1930 við andlát eiginmanns síns.

Bókin eftir Hamann um Winifred veitir góða sýn á lífið í Wahnfried, Wagnerheimilið í Bayreuth, og ættarsöguna. Önnur einstök heimild um þessa umdeildu konu er um fimm klukkustunda kvikmynd Winifred Wagner und die Geschichte des Hauses Wahnfried 1914-1975, en þar segir Winifred sögu sína fyrir framan kvikmyndavél og er bæði sýnt það, sem hún vildi, að yrði birt, og einnig hitt, sem hún sagði, þegar slökkt hafði verið á vélinni. Hún fór vinsamlegum orðum um Hitler og vináttu þeirra og sagði, utan formlegs samtals, að hún mundi fagna honum innilega, ef hann bankaði á dyr hjá sér. Þegar Albert Speer var spurður að hinu sama, við annað tækifæri, sagðist hann mundu kalla á lögregluna.

Hans Jürgen Syberberg gerði heimildarmyndina um Winifred á fimm dögum, þegar hún var 77 ára, og ávann sér traust gömlu konunnar með aðstoð Gottfrieds sonar Wolfgangs. Gottfried faldi upptökutæki á sér og á því er til dæmis að finna fyrrgreindu orðin, sem amma hans lét falla um Hitler, eftir að slökkt hafði verið á myndavélinni.

Carr segir í bók sinni, að af öllum heimildum um Wagnerættina á tuttugustu öldinni megi menn síst vera án samtalsmyndarinnar við Winifred .  Ég get borið um, að frásögn gömlu konunnar nær fljótt tökum á áhorfandanum vegna einlægni hennar og þess hve miklu hún hefur að miðla.

Eftir frumsýningu myndarinnar ritaði þýska vikuritið Die Zeit svo harða gagnrýni á ummæli Winifred um Hitler og nasista, að Wolfgang lýsti yfir því á blaðamannafundi fyrir hátíðina sumarið 1975, að hann hefði beðið móður sína að halda sig fjarri óperuhúsinu, þar til hann byði hana velkomna að nýju. Wolfgang hafði áður sett samskonar bann á eldri systur sína,  Friedelind, og beitti því síðar gagnvart Gottfried syni sínum.

Börn Cosimu.

Auk Siegfrieds eignuðust þau  Richard og Cosima Wagner, en faðir hennar var Franz Lizst, dótturina Evu, hjálparhellu móður sinnar til margra ára. Cosima átti tvær dætur með fyrri manni sínum, Hans von Bülow.

Þau Wagner og Cosima giftust árið 1870 eftir að hafa átt í ástarsambandi í nokkur ár, en 1865 ól Cosima dóttur, sem skírð var Isolde og eignaðist hún soninn Franz Wilhelm árið 1901. Isolde leit á sig sem dóttur Wagners og vildi fá sannað fyrir rétti, að hann væri faðir sinn. 1914 komst dómari í Bayreuth að þeirri niðurstöðu, að Isolde væri dóttir von Bülows, enda hefði móðir hennar verið gift honum við fæðingu hennar auk þess sem hún hefði tekið arf eftir hann.

Cosima var ekki kölluð fyrir dómarann og sýndi dóttur sinni sanna óvild á þessum tíma, þótt áður hafi verið náið með þeim. Isolde dó úr berklum árið 1919 og segir Carr, að í ættarsögu Wagners séu örlög Isolde þau dapurlegustu.

Málaferli Isolde, sem hún sagði í þágu sonar síns, vöktu Cosimu og Evu, dóttur hennar, enn betur til vitundar um nauðsyn þess, að Siegfried eignaðist erfingja til að halda merki ættarinnar lifandi.

Inn í þetta andrúmsloft kom hin 17 ára, munaðarlausa, enska stúlka, Winifred, með öldruðum fósturföður og Wagnervini frá Berlín til Wahnfried árið 1914. 18 ára giftist hún Siegfried árið 1915. Sagði Winifred sjálf, að trúlofun þeirra og hjónabandi hefði verið flýtt til að Cosima Wagner gæti dáið fullviss um, að hún ætti barnabörn til að taka við hátíðinni og Wagnerarfinum. Þau Winifried og Siegfried eignuðust fjögur börn 1917, 1918, 1919 og 1920, tvær dætur og tvo syni.

Cosima kynntist barnabörnum sínum vel, því að hún bjó með þeim í Wahnfried, þar til hún andaðist í apríl 1930, 93 ára, nokkrum mánuðum á undan Siegfried, syni sínum.

Wahnfried, Wagnerheimilið,  var reist á árunum 1872 til 1874 fyrir fé Lúðvíks II. Bæjarakonungs, aðdáanda Wagners. Fyrir framan húsið er stytta af konungi í þakklætis- og virðingarskyni. Á útvegg þess við anddyrið lét Wagner greipa:  Hier wo meinen Wähnen Frieden fand – Wahnfried – sei dieses Haus von mir benannt.  – Hér þar sem hugarórar mínir fundu frið, nefni ég þetta hús: Hugfrið.

Húsið varð fyrir loftárás í stríðinu. Winifred gaf  það 1973 frá sér og var það endurreist af  Bayreuthbæ. Þar var opnað Wagnersafn við hátíðlega athöfn árið 1976, þegar þess var jafnframt minnst, að 100 ár voru liðin frá fyrstu Bayreuth-hátíðinni.

Wolfgang bannaði Winifred, móður sinni, að vera viðstödd hátíðarhöldin í Festspielhaus og Wahnfried árið 1976. Sást skugga hennar bregða fyrir í næsta húsi, SiegfriedWagner-húsinu, einnig í eigu fjölskyldunnar, þar sem hún stóð bakvið gluggatjöld og fylgdist með ferðum gesta. Hitler hafði einmitt fengið leyfi Winifred til að nota Siegfried Wagner-húsið á fjórða áratugnum. Eftir stríðið og fram að andláti sínu árið 1980 talaði Winifred gjarnan um Hitler sem USA, til að espa engan með nafni hans – skammstöfunin stóð fyrir Unser seliger Adolf­ – Adolf okkar sálugi.

Hátíðin 100 ára, 1976.

Walter Scheel, þáverandi forseti Vestur-Þýskalands, flutti hundrað ára afmælisræðu í Festspielhaus 23. júlí 1976. Hann sagðist í upphafi hennar ekki hafa neina brýna þörf til að sverja „hollustueið“ í  Bayreuth og því síður þurfa að fara þangað sem „pílagrímur“. Hann líkti Wagner við Mozart, Goethe, Dante og Shakespeare, hann hefði verið „einn af mikilvægustu tónskáldum Þýskalands“ en það gerði Bayreuth ekki að „andlegri miðju heimsins“.

Í Bayreuth hefðu menn orðið vitni að listrænum sigrum í áranna rás, en þar hefðu menn einnig villst af leið, eins og sannaðist undir vernd Hitlers. Í því efni væri ekki aðeins við þá að sakast, sem töldu sig vera að þjóna menningunni, án þess að veita því eftirtekt, að verið var að nota þá í þágu grimmdarstefnu, heldur ætti einnig að líta til allra lýðræðissinnanna, sem hefðu áður snúið baki við hátíðinni og látið hana í hendur öfgaöflum. Scheel sagðist ekki telja, að gyðingahatur Wagners hefði kveikt þetta hatur hjá Hitler, eins og sumir teldu, en í Bayreuth gætu Þjóðverjar horfst í augu við sjálfa sig og villan í Bayreuth hefði náð til heillrar þjóðar.

Ræða Scheels vakti blendnar tilfinningar segir Carr. Sumir töldu hann hafa gefið réttan tón á réttum tíma, aðrir, einkum gamlir Wagneraðdáendur, sögðu ræðu hans hneyksli. Í stað þess að flytja hátíðlega afmælisræðu hefði hann flutt pólitískan boðskap þvert á ákvörðun bræðranna Wielands og Wolfgangs frá 1951 um að pólitík ætti ekki heima í Festspielhaus.

Margir Wagnervinir höfðu kviðið öðru meira vegna þessarar hátíðar en ræðu Scheels, því að þeim þótti með ólíkindum, að Wolfgang hefði dottið í hug að fá tvo Frakka, leikstjórann Patrice Chéreau  og hljómsveitarstjórann Pierre Boulez til að setja upp Hringinn. Carr segir, að fordómar í garð sýningarinnar og and-kapítalískra sjónarmiða stjórnenda hennar hafi þótt sannast strax í upphafsatriði Rínargullsins, þegar Rínarmeyjar eru kynntar sem gleðikonur á sveimi á vatnsaflstíflugarði. Við vitum, að síðan hefur þessi uppfærsla þótt marka söguleg og jákvæð þáttaskil auk þess sem hún er aðgengileg öllum á geisladiskum. Henni var hins vegar tekið með hrópum, púi og krepptum hnefum á frumsýningunni.

Wagner og Lúðvík II.

Stjórnmál hafa aldrei verið fjarri Bayreuth-hátíðinni og Hringurinn frá 1976 er einmitt talinn til marks um, að stjórnendur hennar hafi viljað taka mið af því, sem gerðist í stúdentaóeirðunum í París árið 1968.  

Wagner hefði aldrei getað komið sér fyrir á þann hátt, sem hann gerði í Bayreuth hefði hann ekki haft stjórnmálaleg tengsl og notið Lúðvíks II. Bæjarakonungs, en honum og samskiptum hans við Wagner var lýst á þennan hátt í Skírni árið 1887:

„Hann (Lúðvík) var 18 vetra þegar hann kom til ríkis (1864). Hann hafði þá þegar kynnzt Richard Wagner, tónaskáldinu fræga, og list hans kom á hug hins unga konungs þeim töfrafjötrum, að hann sinnti ekki öðru, en firtist allar stjórnlegar og alvarlegar athafnir. Hann jós út stórfje til sjónarleika, leikhússgerða og nýrra halla, og sökkti sjer svo öllum niður í minningar Niflungatíma, í tóna og ljóðabúningi Wagners, að þær urðu honum að vakanda draumi. Í skrúð Wagnersleika færði hann suma sali halla sinna, og sjálfan sig í þeirra riddarabúninga, einkum Lohengrins. Á öðru lopti konungshallarinnar í München ljet hann gera stöðuvatn, lita það sægrænt með vitríóli, og hjer sat hann í skrautbáti sem svanir drógu, og í búningi Lohengrins. Þetta til dæmis af ótal mörgu, sem er að segja af háttalagi þessa konungs, en hallagerðir og hallaskreytingar komu honum í botnlausar skuldir upp á síðkastið, og peningana — seinast 20 millíónir marka — heimtaði hann harðri hendi. Þar kom, að stjórnin rjeð af að taka af honum ríkisvöldin, og fá þau Luitpold föðurbróður hans i hendur. Rjett á undan hafði hann beðið rakara sinn setja nýtt ráðaneyti saman, en dæmt ráðherrana af lífi. — Til varðhaldsvistar var konungur færður til hallargarðs — langt frá höfuðborginni — sem Berg heitir og liggur við Starnbergervatnið. Þegar hjer var komið, ljet konungur spaklega og brá á sig ljettum svip og glaðlegu viðmóti. Þetta dró lækni hans, Gudden að nafni, á tálar, og hann fylgdi konungi einn saman út i aldingarðinn og fram með vatninu. Allt í einu snaraði konungur af sjer hattinum og frökkunum og stökk út í vatnið. Læknirinn, gamall maður, stökk á eptir honum til bjargar, en báðir fengu bana. Það sást á traðkinu í botninum, þar sem stætt var, að þeir höfðu átzt lengi við, áður konungur bar hann ofurliði. — þau eru nú konungaskiptin orðin, að tignarnafnið ber Ottó, yngri bróðir Loðvíks annars, en hann er líka vitfirringur, og af honum ýmsar fíflssögur sagðar. Hann er þó meinlaus og viðráðanlegri enn hinn var.“

Wagner var allur þegar þetta birtist í Skirni og Cosima, ekkja hans, réð ríkjum í konungsgjöfinni, Wahnfried, og leiddi hátíðina í Festspielhaus, sem reist var fyrir lán frá konungi.  Í þakklætisskyni hafði Wagner gefið Lúðvík II. Hringinn og Parsifal, sem aftur framseldi verkin til Wagners. Við andlát konungs 1886 vildi ríkisstjórn Bæjaralands heimta til sín handrit Hringsins og Parsifal. Þá hélt Adolf von Gross, hægri hönd Cosimu og fjárhaldsmaður barna Wagners, á fund ráðherra í München til að gæta réttar fjölskyldunnar. Þegar ráðherrann sagði Gross, að ekki væri unnt að byggja á gjafabréfi konungs við ráðstöfun hans á Hringnum og Parsifal, þar sem hann hefði verið geðveikur, sagði Gross, að hið sama gilti þá um skipunarbréf konungs til ráðherrans. Var málið þá látið niður falla.

Forræði Wagnerarfsins tryggt.

Carr segir, að Alfred von Gross eigi skilið, að rituð sé saga hans, því að án stuðnings frá honum hefði Cosimu ekki tekist að halda öllum þráðum Wagnerarfsins í hendi sér og leggja á þann hátt grunn að öllu því, sem síðan hefur gerst í Bayreuth og tengt er meistaranum.  Gross hafði einnig ráðlagt Isolde að krefjast föðurarfs eftir von Bülow, sem kom henni í koll, þegar hún vildi, að dómari staðfesti, að Wagner væri faðir hennar.

Cosima lifði í 47 ár eftir andlát manns síns og stjórnaði hátíðinni í 20 ár, þar til sonur þeirra Siegfried tók við af móður sinni, en hún lét áfram að sér kveða frá efri hæðinni í Wahnfried sem die Hohe Frau. Lýsir Winifred sambandi sínu við tengdamóður sína á innilegan hátt og segir, að aldrei hafi borið þar á skugga, hið sama verði ekki sagt um mágkonur sínar. Þær hafi gert sér lífið leitt með sífelldu kvabbi sínu og baknagi og ekki þolað sér að setjast í sæti móður þeirra sem húsmóðir í Wahnfried.

Wagner hafði ekki gert erfðaskrá, enda alltaf skuldum vafinn. Gross sá hins vegar til þess, að gerð var einskonar afturvirk erfðaskrá, um að Cosima og Siegfried, sem þá var 13 ára, yrðu einu erfingjar Wagners. Þá ráðlagði Gross Isolde að taka arf úr búi von Bülows, sem veikti stöðu hennar í faðernismálinu.

Áður var nefnd spurningin um, hvort uppfærsla Niflungahringsins í Þjóðleikhúsinu tengdist tilraun til að halda höfundarrétti í höndum Wagner-fjölskyldunnar. Wolfgang sagði réttilega, að rétturinn hefði horfið 1913. Um áratug áður eða 1901 reyndi Cosima hins vegar að fá hann lengdan úr 30 árum í 50 ár með bréfi til þýska þingsins, en þar óskaði hún einnig eftir því, að bannað yrði að flytja Parsifal utan Bayreuth. Hvoru tveggja var hafnað.

1903 tóku Bandaríkjamenn, sem ekki voru aðilar Bernarsáttmálans um höfundarrétt, sér það bessaleyfi að flytja Parsifal í New York. Cosima lagði blátt bann við því, að nokkur listamaður í sýningunni stigi á svið í Bayreuth.

Með dyggri aðstoð Gross tókst að halda svo vel utan um tekjur af höfundarrétti og rekstur hátíðarinnar, að  á 30 ára afmæli hennar 1906 hafði lánið frá Lúðvík II. vegna Festspielhaus verið endurgreitt og 1913 námu tekjur vegna höfundarréttargreiðslna meira en sex milljónum marka og eignir Wagnerfjölskyldunnar rúmum sjö milljónum.

Cosima lagði höfuðkapp á að halda öllu tengdu Wagner í höndum fjölskyldunnar og gætti þess samviskusamlega, að sem minnst eða alls ekkert kæmist til annarra. Gripir tengdir Wagner voru seldir háu verði. Til marks um það má nefna þessa frétt í Morgunblaðinu frá 31. maí 1914:

„Vasaklútur, sem tónskáldið mikla, Richard Wagner átti, og með upphafsstöfum hans, var nýlega seldur í München fyrir 13.000 kr.“

Carr segir hið eina, sem megi finna að Gross, sé, að hann hafi ekki búið Siegfried nógu vel undir að taka við rekstri hátíðarinnar úr höndum móður sinnar árið 1906.  Við andlát Siegfrieds árið 1930 var fjárhagurinn í kalda koli. Vegna heimsstyrjaldarinnar lá hátíðin niðri 1914 til 1924. Að stríðinu loknu sættu Þjóðverjar afarkostum Versalasamninganna og óðaverðbólga gróf undan öllum efnahag.

Hitler til Bayreuth.

Árið 1908 giftist Eva Wagner, 41 árs, Bretanum Houston Stewart Chamberlain, sem var 12 árum eldri  en hún.  Hann hafði hrifist af föður Evu mörgum árum áður og verið á annarri Bayreuth-hátíðinni árið 1882 með Önnu, þáverandi konu sinni, og sáu þau Parsifal sex sinnum. Verkið var þá frumflutt undir stjórn Wagners, sem samdi Parsifal sérstaklega fyrir Festspielhaus.

Eftir þessa hugljómun varð Bayreuth uppspretta sannrar menningar í huga Chamberlains og aðdáun hans á Wagner magnaðist.

Cosima frétti sér til gleði af  lofsamlegri grein Chamberlains um samband Wagners og Franz Liszts, föður hennar. Með henni svaraði hann orðrómi um, að Wagner hefði reynst tengdaföður sínum illa.  Fyrir tilstilli Cosimu varð Chamberlain einn öflugasti almannatengill Wagners og hátíðarinnar í Bayreuth.  Eva kynntist honum sem einkaritari móður sinnar. Chamberlain sendi árið 1899 frá sér 1100 blaðsíðna, tveggja binda verk  Die Grundlagen des 19en Jahrhunderts, Undirstaða 19. aldar, sem Carr segir, að byggist á rasísku viðhorfi til menningarlegrar þróunar í aldanna rás.  Þar sé að finna dýrkun á aríum á kostnað gyðinga. 

Bækurnar snertu viðkvæman streng í brjóstum Þjóðverja og þýska útgáfan ein var prentuð í tíu upplögum fyrir fyrri heimsstyrjöldina. Vilhjálmur II. Þýskalandskeisari  varð einlægur aðdáandi Chamberlains og taldi guðlega forsjón ráða því, að þýska þjóðin hefði fengið að njóta skoðana hans.

Adolf Hitler, annar aðdáandi Chamberlains, lagði í fyrsta sinn leið sína til Bayreuth haustið 1923 og flutti þar ræðu á degi Þýskalands. Chamberlain var rúmfastur vegna langvinnra veikinda á heimili sínu skammt frá Wahnfried. Hitler vottaði honum virðingu sína við sjúkrabeðinn. Um kvöldið var boð inni á hótel Anker og var þeim Winifred og Siegfried stefnt þangað, hún fór en hann ekki. Þar hittust þau Winifred og Hitler, bauð hún honum í morgunverð í Wahnfried daginn eftir, þegar hún heyrði, hve mjög hann dáði Wagner.

Hún segir þau Siegfried hafa leitt hann um húsið og síðan hafi Hitler gengið einn að gröf  Wagners og heitið því, þegar hann sneri aftur, að fengi hann því ráðið yrði Parsifal fluttur aftur til Bayreuth. Með því átti hann við, að orðið yrði við ósk Cosimu, sem var hafnað 1901 um, að ekki mætti flytja Parsifal annars staðar en í Bayreuth.

Uppfærslan á Parsifal í Bayreuth var óbreytt frá 1882  til 1934, þegar Winifred hafði tekið við stjórn hátíðarinnar og fékk Hitler í lið með sér til að stuðla að nýrri uppsetningu.

Vegna breytinganna á Parsifal lenti Winifred í hörðum átökum við mágkonur sínar, sem hófu söfnun undirskrifta í því skyni að varðveita upprunalegu sýninguna meðal annars með þeim rökum, að hún væri eins og Wagner sjálfur hefði séð hana og samið sérstaklega fyrir Festspielhaus.

Winifred og Hitler blésu á þessi rök og í kvikmynd Syberbergs segist Winifred einnig hafa komið í veg fyrir áform Hitlers um að flytja Parsifal að nýju til Bayreuth.

Í nóvember 1997 birtist grein eftir Björn Jakobsson í Lesbók Morgunblaðsins  undir fyrirsögninni: Uppgjörið í fjölskyldu Richards Wagners – nýr Niflungahringur.  Höfundur segir frá því, að snemma sama ár hafi Gottfried Wagner, sonur Wolfgangs, sent frá sér bók, þar sem hann „opinberar hin nánu tengsl Wagner-fjölskyldunnar við Adolf Hitler og nasismann frá upphafi.“

Greinin einkennist af óvild í garð Wagners og Bayreuth-hátíðarinnar, Winifred og Wolfgangs.  Í greinni er Festspielhaus kallað „blóthof Hitlers og nasistaflokksins“ og þar segir meðal annars:

„Winifred var mikill aðdáandi Hitlers og nasismans og gekk í nasistaflokkinn þegar 1926. Hún lét reisa sérstaka íbúðarálmu fyrir Adolf Hitler við hið íburðarmikla hús fjölskyldunnar, Villa Wahnfried, en Hitler sótti jafnan Wagner-hátíðarnar í Bayreuth og kom í raun og veru fram sem kjörfaðir bræðranna Wielands og Wolfgangs eftir lát föður þeirra, Siegfrieds Wagners 1930.“

Við þetta er ýmislegt að athuga. Winifred reisti ekki nýtt hús fyrir Hitler heldur lét honum í té hús, sem hafði verið heimili Siegfrieds manns hennar, áður en þau giftust, og varð síðan vinnustaður hans.  Winifred bjó einmitt í þessu húsi árið 1976, eins og áður er getið.

Fjölskylduvinurinn Hitler.

Of fast er að orði kveðið hjá Birni Jakobssyni, að Hitler hafi verið kjörfaðir þeirra bræðra, Wielands og Wolfgangs. Á hinn bóginn voru kynni Hitlers af börnum Winifred þess eðlis, að þau kölluðu hann gjarnan „Onkel Wolf“. Væri hann á ferð milli München og Berlínar, gisti hann ekki alltaf í Bayreuth heldur sótti Winifred hann út fyrir bæinn eftir myrkur og fékk hann þá að líta til barnanna, hvort sem þau voru vakandi eða sofandi.

Þegar Wieland varð átján ára 1935 og fékk bílpróf, bauð Hitler honum að hitta sig í München og gaf honum silfurgáan Mercedes Benz, blæjubíl með aukabúnaði, sem hann lét Jakob Werlin, forstjóra Daimler Benz afhenda honum. Wolfgang, sextán ára, fékk fararleyfi móður sinnar til München til að sjá bíl bróður síns og aka með honum til baka. Snæddu þeir bræður kvöldverð einir með Hitler og fengu að gista í íbúð hans, eftir að hann hélt um kvöldið til Berlínar. Til öryggis sendi Hitler einkabílstjóra sinn í nýja bílnum með þeim bræðrum til Bayreuth.

Lieselotte Schmidt, aðstoðaði Winifred, eftir að hún tók að sér að stjórna hátíðinni. Hún skrifaði reglulega til foreldra sinna og lýsti lífinu í Wahnfried. Þar segir hún meðal annars frá því, að í maí 1936 hafi Hitler komið óvænt í heimsókn og sest að teborði. Hann hafi misst brauðsneið með smjöri á „fallegar ljósgráar buxur “ sínar og í hennar hlut kom að hreinsa buxurnar á læri foringjans með volgu vatni og vasaklút.  Bletturinn hafi horfið og segir Liselotte þetta mestu dásemdarstund lífs síns.

Atvikið vegna brauðsins, Lieselotte og Hitlers hefur kannski komið í huga Wolfgangs, þegar Selma missti brauðið í ágúst 2006, og þar með ráð Hitlers til barnanna um, hvernig þau ættu að setja servítettuna, til að komast hjá svona óhappi.

Hitler var fjölskylduvinur og velgjörðarmaður Winifred, því að hann gerði henni kleift að reisa hátíðina að nýju á réttan fjárhagslegan kjöl. Það gerði hann meðal annars með fyrirmælum um kaup á óperumiðum fyrir hermenn og þá, sem unnu við hergagnaiðnað í stríðinu. Var þetta gert í nafni áætlunarinnar Kraft durch Freude – Gleði veitir styrk ­– undir stjórn SS-mannsins Bodo Lafferentz, sem giftist Verönu dóttur Winifreds árið 1943. Hann  stofnaði Volkswagen fyrir stríð og rak meðal annars rannsóknarstöð í þágu eldflaugasmíði í Bayreuth og í tengslum við fangabúðir þar í nágrenninu. Síðustu ár stríðsins fékk Wieland vinnu í þessari stöð.

Wieland var í meiri metum hjá Hitler en Wolfgang, enda almennt talinn best til þess fallinn að stjórna Bayreuth-hátíðinni. Sá Hitler til þess, að Wieland þyrfti ekki að fara á vígvöllinn í stríðinu. Wolfgang særðist hins vegar í Póllandi og var sendur á Charité-sjúkrahúsið í Berlin og færði Hitler honum blóm, þegar hann heimsótti hann þangað, Winifred til sannrar gleði.

Skömmu áður en Siegfried andaðist, árið 1930, hafði hann kynnt Winifred erfðaskrá, þar sem hann mælti fyrir um stjórn hennar á hátíðinni eftir sinn dag, enda gengi hún ekki í hjónaband að nýju. Síðan félli hátíðin í hendur barna þeirra fjögurra.

Stríðslok, eyðilegging og uppgjör.

Eftir loftárásina á Dresden í febrúar 1945 boðaði Winifred til fjölskyldufundar í Bayreuth og lagði á ráðin um öryggi barna sinna. Ákveðið var, að Gertrud, kona Wielands, og Verena Wagnersdóttir, en þær gengu báðar með barni, og ungabörn þeirra þrjú skyldu fara í sumarhús Winifred í Nussdorf við Bodensee. Friedelind Wagnersdóttir var í New York. Synirnir og tengdasonurinn ásamt Ellen, konu Wolfgangs, sem einnig var þunguð, yrðu áfram með Winifred í Bayreuth.

Wolfgang ók konunum til Nussdorf , handritið af Tristan og Isolde og bréf Wagners og Liszts voru með í bílnum. Skyldu hin dýrmætu skjöl falin fjarri Bayreuth en 5. apríl gerðu Bretar loftárás á borgina og eyðilagðist Wahnfried í henni. Winifred hélt daginn eftir í helgarhús sitt í Warmensteinach skammt frá Bayreuth ásamt Ellen og þar fæddist Eva, dóttir þeirra Wolfgangs, 14. apríl, sama dag og Bandaríkjamenn hertóku Bayreuth. Winifred tók sjálf á móti barninu, því að hvorki var unnt að kalla í lækni né ljósmóður. Bjó hún sig undir að flýja með það út í skóg að hætti valkyrja, ef í nauðir ræki.

Hitler átti dýrmæt handrit af óperum Wagners, sem samtök atvinnulífs og iðnaðar höfðu gefið honum, þegar hann varð fimmtugur, en Wagner hafði mörgum árum árum gefið Lúðvík II. þessi handrit. Hinn 6. apríl héldu þeir Lafferentz og Wieland akandi til Berlínar í von um að geta bjargað Wagnerhandritum Hitlers. Þeir náðu aldrei til Hitlers og handritin eru ófundin til þessa dags. Mágarnir sneru fljótt frá Berlín og héldu til eiginkvenna sinna í Nussdorf með viðdvöl í Bayreuth 8. apríl, þaðan sem þeir tóku nokkur árituð skjöl Wagners.

Frakkar hernámu Nussdorf  við Bodensee. Hinn 21. apríl reyndu þeir Wieland og Lafferentz að flýja um vatnið til Sviss en voru reknir til baka af svissneskum landsmæravörðum. Wolfgang sagði síðar, að þeir hefðu hirt Wagnerskjölin til að framfleyta sér, ef í nauðir ræki.

Festspielhaus féll ekki í stríðinu. Segir sagan, að breskir sprengjuflugmenn hafi talið rautt óperuhúsið vera brugghús og ekki séð ástæðu til að varpa á það sprengju.

Hernámsliðið tók stjórn mála í eigin hendur. Skipulega var gengið til uppgjörs við nasista og fylgismenn þeirra. Winifred og Wieland voru kölluð fyrir rétt. Wieland laut lögum franska hernámssvæðisins.  Winifred sagði það skýra, hve vel hann hefði sloppið, þrátt fyrir fortíð sína og nasisma, en Wieland fór með tengsl sín við Hitler sem mannsmorð.

Í undirrétti voru 60% eigna Winifred gerðar upptækar auk þess sem henni dæmt að gegna samfélagsþjónustu í 450 daga. Winifred áfrýjaði og segir Carr, að á þeim 18 mánuðum, sem liðu þar til áfrýjunarétturinn felldi úrskurð sinn hafi áhugi á því að ná sér niðri á fólki í hennar stöðu minnkað. Athyglin beindist sífellt meira að hættunni af Stalín. 2. desember 1948 féll mun vægari dómur í máli hennar, Winifred var gert að greiða 6000 marka sekt en bannað að stunda stjórnunarstörf eða rekstur í tvö og hálft ár. Wieland hlaut aðeins 100 marka sekt.

Hátíðin hefst að nýju.

Samkvæmt uppgjörsdóminum var Winifred svipt stjórn hátíðarinnar en bæjarstjórnin í Bayreuth virti eignarrétt hennar á Wahnfried og Festpielhaus.  Fól hún árið 1949 sonum sínum hátíðina í hendur og hófst hún að nýju sumarið 1951.  Wilhelm Furtwängler stjórnaði 9. sinfóníu Beethovens, eins og Wagner hafði gert, þegar hornsteinn var lagður að Festpielhaus, Hans Knappertsbusch stjórnaði Parsifal og Herbert von Karajan Hringnum og Meistarasöngvurunum.

Ákvörðun Winifred um að fela Wieland og Wolfgang stjórn hátíðarinnar sætti gagnrýni systra þeirra, Verenu og Friedelind. Þær minntu á, að öll systkinin fjögur skyldu taka við af móður sinni. Synirnir greiddu Winifred leigu, 1.250 mörk á mánuði, fyrir afnot af Festspielhaus til að árétta, að þeir hefðu ekki tekið við arfi, heldur hefði hún falið þeim stjórn og rekstur og væri það ekki brot á erfðaskrá Siegfrieds.

Friedelind Wagnersdóttir bjó eins og áður sagði í Bandaríkjunum, ógift og barnlaus, og ætlaði að hasla sér völl á tónlistar- og óperusviðinu, án þess að heppnast það. Hún ritaði bók The Heritage of Fire, sem kom út 1945 og sagði þar meðal annars frá einkalífi Hitlers auk þess að fordæma nasismann. Í upphafi stríðsins var hún í Sviss, síðan hélt hún til Bretlands og ritaði þar greinar í blöð gegn Hitler. Greinarnar vöktu litla gleði Göbbels eða annarra nasistaforingja. Winifred sagði, að Wagnernafnið eitt hefði bjargað fjölskyldunni í Þýskalandi frá því að verða send í fangabúðir.  Eftir ferðalag til Agentínu settist Friedelind loks að í New York.

Bræðurnir, Wieland og Wolfgang, óttuðust, að Friedelind tækist að beita áhrifum sem andnasisti til að ná forystu fyrir hátíðinni. Hún glímdi hins vegar við þann vanda, að vera reynslulaus, auk þess var hún sökuð um að hafa stolið skartgripum, sem henni hafði verið trúað fyrir af óvandabundnum, þegar hún hélt frá Sviss. Var henni stefnt fyrir dómara vegna þessa, án þess að móðir hennar eða bræður réttu henni hjálparhönd. Winifred þótti henni þetta mátulegt og bræðrunum þægilegt, því að málavafstrið hélt henni frá stjórn hátíðarinnar.

Ólíkir bræður

Bræðurnir voru ólíkir. Wieland var þungur, íhugull, tilfinningaríkur hugsjónamaður.  Wolfgang hins vegar glaðlyndur, jarðbundinn og útsjónasamur í viðskiptum. Hann fór á mótórhjóli um Þýskaland við endurreisn hátíðarinnar og safnaði styrkjum og ýtti undir stofnun eða endurreisn Wagnerfélaga.  Er Wolgang lýst sem „vinnuhesti með fílsminni“. Brigitte Hamann segir Wieland hafa sloppið betur en ætla hefði mátt undan gagnrýni vegna nasistatengslanna, vegna þess að vinstrisinnaðir fjölmiðlamenn töldu hann skoðanabróður sinn.

Carr segir Wolfgang hafa öfundað eldri bróður sinn vegna dálætis Hitlers á honum og við stjórn hátíðarinnar vegna þess að menningarvitar sátu um að njóta návistar hans.

Wieland byggði fjölskyldu sinni hús í rústum Wahnfried, þegar hann tók við stjórn hátíðarinnar 1949, og braut þá meira niður af gamla húsinu en gerðist í sprengjuárásinni, Winifred til mikillar gremju.  Hún bjó í Warmensteinach til ársins 1957, þegar hún flutti í Siegfried Wagner-húsið við  hliðina á Wahnfried. Lét Wieland þá reisa múr í garðinum á milli sín og móður sinnar.

Wolfgang var með móður sinni og fjölskyldu í Warmensteinach, Árið 1955 flutti hann í eigið hús skammt frá Festspielhaus og hefur búið þar síðan. Hann bannaði börnum sínum, Evu og Gottfried, að leika sér við börn Wielands, Iris, Wolf Siegfried, Nike og Daphne. Bræðrunum sinnaðist oft við móður sína og náðu sér niðri á henni með því að halda börnum sínum frá henni.

1962 sömdu bræðurnir sín á milli um, að sá, sem lengur lifði, mundi einn taka að sér hátíðina og greiða ekkju hins eftirlaun. Wieland andaðist 1966 og Wolfgang rak Gertrud, ekkju hans, með börn þeirra úr Wahnfried.

Winifred yppti öxlum og sagði, að við andlát skógarvarðarins yrðu skógarvarðarbörnin að flytja.

Winifred gætir arfsins.

Líf Wieland-fjölskyldunnar í Wahnfried þótti „skrautlegt“ ef þannig má orða það. Faðirinn var síðustu ár sín öllum stundum með ungri söngkonu Önju Silja, börnin gengu sjálfala og unglingapartýin í húsinu urðu alræmd í Bayreuth. Wolf Siegfrid, einkasonurinn, tók 1965 mynd af Liszt, langalangafa sínum, eftir Ingres ófrjálsri hendi og laumaði henni til uppboðshaldara í München. Winifred brást hin versta við og heimtaði myndina til baka. Uppboðshaldarinn neitaði, setti 25.000 marka verð á myndina en Winifred neyddist til að kaupa hana á uppboði fyrir 100 þúsund mörk. Uppboðshaldarinn hafði þannig í 36.000 mörk upp úr krafsinu.  Óskaði Winifred þess af Wieland, að hann endurgreiddi sér fjárhæðina fyrir hönd sonar síns. 

Fjárhagur Wielands var í rúst og hafði hann meira að segja smyglað handriti Wagners af Tristan frá Nussdorf til Barcelona í því skyni að selja það þar. Þýsk lög bönnuðu sölu skjala og handrita Wagners úr landi. Winifred frétti af uppátæki sonar síns og stöðvaði hann.

Winifred sagði síðar, að eftir þetta atvik hefði hún farið að hugsa um sérstaka Richard Wagner stofnun og í ársbyrjun 1968 boðaði hún fjölskyldufund um málið. Stofnunin skyldi eiga rætur í Bæjaralandi, hlutverk hennar yrði að endurreisa Wahnfried, varðveita skjala- og handritasafnið og leigja starfandi forstjóra Festspielhaus. Þar sem fjölskyldan yrði alltaf með meirihluta í stjórn stofnunarinnar mundi hún hafa úrslitavald um komandi forstjóra. Wolfgang væri æviráðinn og vafalaust mætti finna eftirmann hans í hópi yngri kynslóðarinnar.

Nefnt var, að fyrir skjala- og handritasafnið fengjust fimm til sex milljónir marka, það er rúm ein milljón til Winifred og hvers barna hennar eða erfingja þeirra. Á þennan hátt yrði hlutur dætranna leiðréttur. Mikil spenna var í aðdraganda fundarins, þar sem Gertrud, ekkja Wielands, gerði kröfu um að koma að stjórn hátíðarinnar og einnig Friedelind, sem hafði nýlokið við að setja Lohengrin upp í Bielefeld, við frekar dræmar undirtektir.

Í stuttu máli sprakk fjölskyldufundurinn í loft upp. Barnabörnin réðust á Wolfgang og töldu hann óhæfan til að stjórna hátíðinni. Í blöðum var haft eftir áreiðanlegum heimildum, að Wolfgang hefði kallað Friedelind, systur sína,  „gagnslausa tík“ og hann hefði spurt Gertrud, mágkonu sína: „Hvers vegna ætti ég að ráða einhvern að hátíðinni, sem lamaði bróður minn, á meðan hann lifði?“  Þetta var haft eftir Friedelind: „Winifred er hinn illi andi þessarar fjölskyldu. Það næst enginn friður, á meðan hún er á lífi!“

Wolfgang reiddist Friedelind fyrir að leka fréttum af fjölskyldufundinum.  Í refsingarskyni bannaði hann systur sinni að sækja sýningar í Festpielhaus.

Dætur Wielands báru illan hug til ömmu sinnar, Winifred, og árið 1972, þegar hún varð 75 ára, sendu þær henni þetta skeyti: „Drekar hafa alltaf orðið gamlir – sjaldan hefur þó nokkur þeirra (eftir því sem sögur herma) lifað sinn Siegfried – til hamingju með að hafa gert það, dætur sonar þíns Wielands – Iris, Nike og Daphne, langt í burtu frá Wahnfried og Bayreuth, eins og þú vildir.“ 

Nike skýrði skeytið á þann veg, að þær systur vildu ömmu sína dauða sem fyrst. Þær vissu um óvild hennar í garð Wielands, sem náði út yfir gröf og dauða. Á meðan hann var enn á lífi árið 1959, sagði Winifred í blaðaviðtali: „Vegna þess að germanskar goðsagnir eru ekki vinsælar nú á dögum, reynir Wieland að breyta þeim í grískar goðsagnir, hans Óðinn er eins og Seifur. Það er brot á öllu.“ Blaðakona spyr: „En byggist þetta ekki á sannfæringu hans?“ Winifred svarar: „Ekki sannfæringu, þetta er uppgjöf gagnvart þeim tímum, sem við lifum.“

Snemma árs 1973 veiktist Winifred alvarlega og eftir það tók hún af skarið um Stofnun Richards Wagners og varð hún til við hátíðlega athöfn 27. apríl 1973 undir forystu bæjarstjórans í Bayreuth. Bærinn tók við húsunum tveimur og skjala- og handritasafninu úr hendi Winifred og framseldi samtímis til hinnar nýju stofnunar. Bæjarstjórnin skuldbatt sig til að endurreisa Wahnfried og reka þar Wagnersafn ásamt Þjóðarskjalasafni stofnunar Richards Wagners, Bayreuth. Winifred fékk búseturétt í Siegfried-húsi til æviloka og í þakklætisskyni fyrir þann stórhug sinn að leggja grunn að stofnuninni var henni afhentur sjóður, 12,4 milljónir marka, sem hún skipti jafnt milli afkomenda sinna og sagði hróðug: „Með því að færa þessa gjöf hef ég sparað erfingjunum 800 þúsund mörk í skatta.“

Winifred settist ekki í helgan stein eftir þetta, því að nokkru síðar veitti hún kvikmyndaviðtalið fræga og Wolfgang vísaði henni á dyr í Festspielhaus. Hún andaðist  82 ára og södd lífdaga 5. mars 1980 á sjúkrahúsi í Überlingen við Bodensee en um jólin 1979 hafði hún farið til Verönu, dóttur sinnar, sem orðin var ekkja og bjó í gamla sumarhúsinu í Nussdorf við vatnið. Winifred var lögð til hinstu hvílu við hlið Siegfrieds og Wielands í Bayreuth-kirkjugarði.

Fyrir andlát sitt hafði Winifred sent einkaskjöl sín til geymslu í München hjá Amélie Lafferentz, dótturdóttur sinni, sagnfræðingi og skjalaverði, en hún er elst af fimm börnum Verönu. Er skjalasafn Winifred enn lokað en líklegt er, að rekja megi sögu nasistatengsla fjölskyldunnar best með athugun á því. Verana er enn á lífi, 89 ára, og er oft fulltrúi fjölskyldunnar við athafnir til minningar um afa sinn.

Gottfried snýst gegn ættinni.

Wolfgang skildi við Ellen konu sína, móður Evu og Gottfrieds, afmælisárið 1976 og kvæntist Guðrúnu Mack, einkaritara sínum og aðstoðarkonu við hátíðina, en hún var 25 árum yngri en Wolfgang. Eva hafði veitt föður sínum aðstoð um árabil en vék nú til hliðar og kólnaði á milli þeirra Wolfgangs.

Gottfried var áður nefndur til sögunnar vegna kvikmyndaviðtalsins við ömmu hans. Gottfried kom í apríl 1989 til Íslands, flutti fyrirlestur á vegum Goethe Institut og sýndi stuttmynd um Hringinn. 16. apríl 1989 var viðtal við hann í Morgunblaðinu og þá sagði hann um föður sinn:

„Okkur semur mjög vel og ég fer oft til Bayreuth, en mér dytti aldrei í hug að vinna sem aðstoðarmaður hans. Það verða allir að geta farið sínar eigin leiðir. Auk þess er Bayreuth ekki efst á baugi hjá mér nú. Faðir minn er mjög sterkur persónuleiki, hann er sjötugur núna, mjög heilsuhraustur og gæti þess vegna stjórnað leikhúsinu áfram næstu tuttugu árin. Það er því ósmekklegt að ræða um eftirmann meðan hann enn lifír. Og sem sonur finnst mér ógeðfellt að hugsa um hvað verður að honum látnum. En auðvitað er ég heillaður af Hátíðarleikhúsinu í Bayreuth og það væri gaman að fá einhvern tíma að starfa þar. Ef ég tæki að mér stjórnina yrði öllu umbylt eins og Wieland Wagner gerði 1951. Ég mundi gjörbreyta öllu, en tími minnar kynslóðar er ekki enn kominn í Bayreuth.”

Gottfried er sannspár um heilsuhreysti og langlífi föður síns, sem varð níræður  í í ágúst 2009. Hitt er ekki síður forvitnilegt, hvernig hann talar um samband þeirra og lætur eins og hann sjálfur kunni einhvern tíma að verða gjaldgengur sem forstjóri Bayreuth-hátíðarinnar. Sá tími er liðinn og fullur fjandskapur er á milli þeirra feðga, eftir að Gottfried réðst árið 1997 að ætt sinni og uppruna í bókinni Wer nicht mit dem Wolf heult – Sá, sem ýlfrar ekki með úlfinum. Winifred og börn hennar kölluðu Hitler, Wolf, en Gottfried ýlfrar ekki með honum. Eftir útgáfu bókarinnar bannaði Wolfgang syni sínum að stíga fæti í Festpielhaus.

Sagt er frá þessum deilum innan Wagner-fjölskyldunnar í Alþýðublaðinu 17. júlí 1997. Þar er haft eftir Gottfried: „Ég hef ýmislegt alvarlegt að athuga við innihald allra Wagneróperanna. Þær eru fullar af rasisma og kvenfyrirlitning þeirra er tímaskekkja og í raun ómannleg.”

Wolfgang boðar starfslok.

Í mars 1999 sagði Wolfgang, að nú væri tímabært að hefja formlega leit að eftirmanni sínum. Yfirlýsingin kom eins og þruma úr heiðskíru lofti og var túlkuð á þann veg, að hann hefði í hyggju að tryggja Guðrúnu, konu sinni, 54 ára, stöðuna og hún héldi um stjórnartaumana, þar til Katharina, dóttir þeirra, sem þá var 21 árs, gæti tekið við þeim. Sjálfur stæði hann til hliðar og rétti hjálparhönd, ef nauðsyn krefði.

Í reglum stofnunarinnar segir, að ekki skuli ráða neinn utan fjölskyldunnar til að leiða hátíðina, ef einhver innan hennar sé til þess hæfur. Auk Guðrúnar, sem talin var falla undir þetta ákvæði, sóttu Eva Wolfgangsdóttir og Nike Wielandsdóttir um starfið. Í bók sinni, sem kom út á þýsku 1998, gerir Nike í senn upp við Wolfgang og kynnir framboð sitt í stöðu hans. Snýst lokakaflinn um, hvernig brjóta megi hátíðina úr fjötrum Wolfgangs.

Tveimur árum eftir að Wolfgang lét vilja sinn til afsagnar í ljós, eða í mars 2001 samþykkti stjórnin einróma að mæla með Evu dóttur hans sem arftaka og skyldi Wolfgang láta af störfum eftir hátíðina sumarið 2002. Gamli maðurinn taldi hins vegar engan umsækjanda hæfan, hann væri æviráðinn og ætlaði að sitja áfram. Stjórnin, undir formennsku menningarmálaráðherra Bæjaralands, sætti sig illa við þetta og var meðal annars kannað, hvort svipta mætti Wolfgang forræði yfir Festspielhaus en ákvæði leigusamningsins heimiluðu ekki uppsögn hans.

Guðrún Wagner andaðist haustið 2007 63 ára að aldri. Vorið 2008 tilkynnti Wolfgang þá 88 ára, að hann mundi láta af stjórn hátíðarinnar að henni lokinni það sumar.

Árni Tómas Ragnarsson lýsti aðdraganda þessarar yfirlýsingar Wolfgangs á þennan hátt í Morgunblaðinu  10. maí 2008:

„Það er orðin venja að um leið og hinn listræni undirbúningur [undir hátið sumarsins] fer að sýna lífsmark að vori þá æsast leikar í umræðunni um eftirmann Wolfgangs. Svo hefur einnig verið nú í vor, en þær frænkur Nike og Eva Wagner tilkynntu óvænt sameiginlegt framboð sitt og stefnuskrá síðla vetrar. En sá gamli lét enn ekki slá sig út af laginu og fann mótleik í stöðunni. Hann boðaði Evu eldri dóttur sína heim á sinn fund eftir áratuga aðskilnað, tók hana í sátt og kom því til leiðar að hún dró sig út úr samkrullinu með Nike. Síðan tilkynnti Eva að hún tæki höndum saman við Katharinu systur sína og gáfu þær systur næst út yfirlýsingu um að þær vildu taka sameiginlega við yfirstjórn hátíðarinnar við starfslok Wolfgangs. Þá var loksins kominn tími fyrir gamla manninn til að gefa út yfirlýsingu um að hann léti af störfum 31. ágúst nk. Einn hængur er þó enn á, en hann er sá að stjórn hátíðarinnar er engan veginn skylt verða við óskum Wolfgangs um að velja dætur hans tvær svo þessu mikla óperudrama er enn ekki alveg lokið…“

Því er við þessi orð Árna Tómasar að bæta, að stjórn stofnunarinnar ákvað 1. september 2008 með 22 samhljóða atkvæðum, en tveir sátu hjá, að fela hálfsystrunum Katharinu Wagner og Evu Wagner-Pasquier sameiginlega stjórn hátíðarinnar að minnsta kosti næstu sjö ár. Ástæða er til að benda á, að ráðning þeirra er tímabundin en ekki til æviloka eins og ráðning Wolfgangs.

Í ákvörðun stjórnarinnar fólst einnig, að hljómsveitarstjórinn Christian Thielemann yrði með sem sérstakur ráðgjafi í stjórnendahópnum.  Hann stjórnaði Hringnum árið 2006 við lofsamlegar undirtektir. Þótt Thielemann sé umdeildur vegna einþykkni, þykir hann í fremstu röð þýskra hljómsveitastjóra og fer árið 2012 til Dresden frá München og verður stjórnandi Staatskapelle Dresden, en margir hljóðfæraleikarar þaðan eru einmitt í Bayreuth-hátíðarhljómsveitinni.

Menningarmálaráðherra Þýskalands fagnaði niðurstöðu stjórnarinnar og taldi hana til marks um, að hátiðin yrði áfram í góðum höndum. Sambandsstjórnin þýska leggur hátíðinni fjárhagslegt lið eins og ríkisstjórn Bæjaralands og sveitarstjórnir, samtals nemur opinber stuðningur 30% af heildarkostnaði við hana.

Sögunni ekki lokið.

Hinn 13. september 2009 var frumsýnd í London ný heimildarmynd, hin fyrsta af nokkrum, í sjónvarpsþáttaröð um ættina og hátíðina í Bayreuth eftir leikstjórann Tony Palmer.  Hann er frægur fyrir myndir sínar um tónskáld, tónlistarmenn og tónverk. 1983 gerði hann átta tíma þáttaröð um Wagner með Richard Burton í aðalhlutverki og Vanessu Redgrave sem Cosimu. Nú snýr hann sér að Festpielhaus, hátíðinni og ættarátökunum. Vakti myndin mikla hrifningu breskra gagnrýnenda.

Í  fyrsta hluta myndarinnar hafa einkum gagnrýnendur Wolfgangs orðið, ef marka má lýsingar. Wolfgang hefur dregið sig í hlé og veitir engin viðtöl. Á hinn bóginn hefur Palmer sagt, að hann vænti þess, að Eva og Katharina skýri sína hlið mála í næsta þætti eða þáttum.

Katharina hefur nýlega tilkynnt, að skjalasafn Stofnunar Richards Wagners verði opnað fræðimönnum.  Eins og áður sagði flutti Winifred ekki síður merk skjöl  til dótturdóttur sinnar í München árið 1976. Þar hafa þau legið lokuð fram til þessa dags. Skjöl Friedelind, sem andaðist í Þýskalandi 1991, eru í vörslu gamals píanónemanda hennar frá Yorkshire, Neills Thornborrows, sem býr í Düsseldorf og er þar umboðsmaður leikara.

Þýska sambandsstjórnin ákvað í sumar að veita 500 þúsund evrur til endurbóta á safninu í Wahnfried og er meðal annars ætlunin að bæta úr skorti á upplýsingum í því um nasistaárin og tengslin við Hitler. Til þessa hefur stækkunargler verið nauðsynlegt til að finna eitthvert smáræði um þetta tímabil í safninu.

Saga Wagnerfjölskyldunnar  hefur alls ekki verið skráð til enda, þrátt fyrir óteljandi bækur og kvikmyndir. Efniviðurinn er enn nægur og spennandi. Hinu má velta því fyrir sér, hvort óhjákvæmilegt sé fyrir arfleifð Wagners og hátíðina í Bayreuth, að fjölskyldan sjálf beri hana á herðum sér. Eitt er víst: án fjölskyldunnar væri sagan bragðdaufari, svo að ekki sé meira sagt.

Bræðurnir ákváðu 1951, að stjórnmálum skyldi haldið utan Festpielhaus. Eins og ég nefndi í upphafi var Angela Merkel, kanslari, meðal gesta á hátíðinni sumarið 2006 og sá hún allan Hringinn. Fylgst var með henni í blöðum og komu ráðherrar til fundar við hana í Bayreuth. Nokkur spenna var í stjórnmálalífinu og birtist leiðari í einhverju þýsku blaðanna, að vel væri við hæfi, að Merkel sæti í Bayreuth, því að hún stæði jafnvel frammi fyrir sínum pólitísku Ragnarökum, sem reyndist rangt, eins og við vitum.

Þátttaka Merkel í hátíðinni sýnir, að þýskir stjórnmálamenn hafa annað viðhorf til hennar en  til dæmis á tímum Adenauers, sem lét aldrei sjá sig í Bayreuth. Stjórn kommúnista í Rúmeníu bauð Winifred í heimsókn og þótti henni höfðinglega á móti sér tekið, menningarmálaráðherrann hefði meira að segja boðið sér í kvöldverð, það væri meira en hún hefði kynnst í Vestur-Þýskalandi.

Vinátta við Íslendinga.

Frá því að þau Selma og Árni Tómas hittu Wolfgang og Guðrúnu árið 1992  hafa Wagner-hjónin sýnt Íslendingum sérstaka ræktarsemi. Dró ekki úr áhuga þeirra á landi og þjóð, að árið 2000 gaf Mál og menning út bókina Wagner og Völsungar – Niflungahringurinn og íslenskar bókmenntir eftir Árna Björnsson, þjóðháttafræðing.  Fremst í bókinni er birt tilvitnun í ávarpsorð Wolfgangs í leikskrá Hringsins í Þjóðleikhúsinu 1994, þar sem segir:

„Það er merkilegt að í bókasafni Richards Wagners var að finna sömu íslensk-þýsku orðabókina og notuð hefur verið allt til þessa dags. Eintakið ber glögg merki þess, að það hefur ekki legið óhreyft. Þetta er til vitnis um þær rannsóknir sem Wagner lagði á sig til að komast til botns í hinu ósvikna eðli goðsögunnar, komast fyrir hinar dýpstu rætur.“

Wagnerfélagið á Íslandi hvatti til þess á sínum tíma, að Árni Björnsson ritaði bók sína og hefur hún að tilstuðlan félagsins verið þýdd á ensku og þýsku. Árni hefur flutt fyrirlestra um málið erlendis. Þótti forráðamönnum Wagnerfélagsins Þjóðverjar sýna bókinni minni áhuga en vænst hafði verið en hann vex ár frá ári og tilmælum um fyrirlestra um málið í Þýskalandi fjölgar jafnt og þétt.

Af orðum Winifred hér að framan má geta sér til um, að Wieland, sonur hennar, hafi ekki haft áhuga á að halda norrænum arfi í verkum afa síns á lofti. Raunar segir Carr, að Wieland hafi fyrst áttað sig á samsvörun milli grískra og norrænna goðsagna í Hringnum, þegar hann fékk næði til að kafa í verk Wagners í Nussdorf eftir stríðið.  Einmitt þá var Wieland efst í huga að strika yfir nasíska fortíð sína og þar með líklega hin norrænu tengsl. Hið sama átti við um marga Wagnervini. Þeir vildu afmá öll tengsl meistarans við Hitler. Liður í því var að draga úr áherslunni á hið norræna.

Leiða má líkur að því, að Wolfgang hafi verið meira í mun en Wieland að leggja rækt við norræna arfinn í verkum afa síns.  Einmitt þess vegna hafi hann tekið erindi Íslendinga jafnvel og raun bar vitni árið 1992.  Hin aukni áhugi í Þýskalandi um þessar mundir á bók Árna Björnssonar og fyrirlestrum tengdum henni kann að vera til marks um, að sjónarmið Wolfgangs, og þar með einnig Winifred, því að hún hrósaði afstöðu Wolfgangs en gagnrýndi Wieland, varðandi túlkun á verkum Wagners megi sín nú meira en áður.

Í fyrrnefndri grein Árna Tómasar Ragnarssonar frá maí 2008 segir, að það geti skipt Íslendinga verulegu máli, hver taki við stjórn Bayreuth-hátíðarinnar, því að Wolfgang-hjónin hafi veitt Íslendingum árlegan kvóta af miðum á hátíðina.  Frá árinu 1995 hafi allt að 30 Íslendingar heimsótt Bayreuth á hverju sumri til að fara í Festspielhaus. Telur Árni Tómas líklegt, að hin nánu samskipti Íslendinga við Bayreuth haldist, ef Katharina og Eva Wolfgangsdætur taki við stjórntaumunum, annars verði Íslendingar að fara í biðröðina eftir miðum eins og hverjir aðrir og almennt sé biðin 10 ár!

Hér skal engu spáð um afstöðu dætra Wolfgangs í þessu efni. Meistarasöngvararnir í uppfærslu Katharinu frá 2007 hafa sætt mikilli gagnrýni og samkvæmt lýsingum felst nýsköpun hennar í allt öðru en því að leggja rækt við ræturnar.  Hitt er staðreynd, að tök Wagnerfjölskyldunnar á Bayreuth-hátíðinni eru enn þess eðlis, að hún en ekki aðrir ræður, hvernig hagað er sölu miða á hátíðina og hvort einhverjum er hleypt fram fyrir í biðröðinni miklu.

Lokaorð

Af þeim heimildum, sem hér hafa verið nefndar til sögunnar, þótti mér ævisaga Winifred eftir Brigitte Hamann og fimm klukkustunda kvikmyndin með Winifred veita mesta nálægð við hið einstæða söguefni.

Þótt hér hafi verið dregið saman efni til að árétta spennu innan Wagner-fjölskyldunnar vegna arfsins mikla, geymir sagan einnig dæmi um góðvild þessa fólks hvert í annars garð.

Einstakt og ógleymanlegt andrúmsloft á Bayreuth-hátíðinni sýnir, hve vel Wagnerfjölskyldunni hefur tekist að leggja rækt við hinn einstæða arf, en nú eru aðeins fjögur ár, þar til 200 ár verða liðin frá fæðingu Richards Wagners. Að verða í eina viku hluti af andrúmsloftinu og verkum meistarans á þessum stað, jafnast á við það eitt í mínum huga að fara á Olympíuleikana.