Wolfgang Wagner 100 ára

1919-2019

Árshátíð félagsins 2. nóvember 2019

Wolfgang Wagner hefði fagnað 100 ára afmæli þann 30. ágúst síðastliðinn. Af því tilefni langar mig að minnast hans og framlags hans til Wagnerhátíðarinnar í Bayreuth. Einnig vil ég rifja upp þau kynni sem ég hafði af honum þegar hann aðstoðaði við að setja styttan Niflungahring á svið á Listahátíð í Reykjavík 1994. Þessi uppfærsla Litla Hringsins á Íslandi, fyrsta leikuppfærsla Wagneróperu hér á landi, var gríðarlega mikilvæg. Hún braut fordóma gagnvart tónskáldinu á bak aftur og hristi áhugamönnum um Wagner saman. Síðast en ekki síst varð hún ákall til íslenska fræðasamfélagsins um að rannsaka mikilvægi íslenskra bókmennta fyrir Wagner og verk hans.

Wolfgang Wagner
í Perlunni 1993

Á þetta mikilvægi benti Jóhann J. Ólafsson nokkrum árum áður í blaðagrein eftir að hafa heimsótt Bayreuth og bókasafn Wagners. Í kjölfar sýningarinnar var Wagnerfélagið á Íslandi stofnað, árið 1995. Sú sem hér talar hefur verið formaður þess frá upphafi.

Wolfgang var barnabarn þeirra Richards Wagner og Cosimu, dóttur Franz Liszt. Siegfried var fæddur 1869 og var orðinn 45 ára, þegar því var komið um kring að hann kynntist Winifred Klindworth, stjúpdóttur píanistans Karls Klindworth, og var Winifred þá aðeins 17 ára. Siegfried hneigðist til beggja kynja og var ekki áfjáður í hjónaband og var því gripið í taumana til að tryggja að hann eignaðist afkomendur og hreinsaði sig af samkynhneigðarstimplinum. 

Richard Wagner
og Siegfried sonur hans

Þau Siegfried og Winifred eignuðust fljótlega fjögur börn. Elstur var Wieland, þá Friedelind, svo Wolfgang og yngst var dóttirin Verena, sem lést síðust þeirra systkina í apríl á þessu ári, 98 ára að aldri. 

Siegfried hafði tekið við stjórn Bayreuthhátíðarinnar árið 1908 af Cosimu móður sinni. En hann lést nokkuð skyndilega árið 1930 og tók þá Winifred ekkja hans við stjórn hátíðarinnar og stýrði henni allt til loka seinni heimstyrjaldarinnar. 

Flestum er kunnugt um vinfengi Winifred við Adolf Hitler, sem teygði sig allt tilbaka til ársins 1923. Hitler var mikill aðdáandi Richards Wagner og var tíður gestur Bayreuthhátíðarinnar og heimilisvinur í Villa Wahnfried

Siegfried og Winifred Wagner með börnum sínum

Í bók Wolfgangs, Lebensakte, segir hann frá því að Hitler hefði sagt Winifred fyrir sumarið 1936 að nú gæti hann ekki lengur heimsótt hátíðina, því hann hefði engan samastað lengur. Flokksmenn hans í Bayreuth hafi sagt sér að hann geti ekki lengur búið í húsinu við Parkstrasse, skammt frá Villa Wahnfried, þar sem eigandinn sé frímúrari. Winifred bauð honum þá að nota gestahús þeirra, sem gekk undir nafninu Siegfriedhaus, en þar höfðu annars gjarnan búið listamenn hátíðarinnar, þar á meðal Toscanini og Strauss. Wolfgang vitnar svo í annan þátt Lohengrin þar sem segir: „So zieht das Unheil in dies Haus“ eða „Þannig gerir ógæfan innreið sína í hús þetta“.  

Cosima, Daniela, Siegfried
og Winifred með Wieland

 Í Siegfriedhaus var Hitler síðan á hverju sumri til 1939 og fannst ekkert skemmtilegra en að halda partý fyrir listamennina eftir sýningar, þar sem áfengi var ríkulega veitt þótt hann bragðaði ekki vín sjálfur. Gyðingar í hópi listamanna voru víst líka velkomnir, enda hafði Winifred neitað því að sæta takmörkunum hvað varðaði aðkomu þeirra að sýningum.

Winifred, Hitler og Wieland
í Wahnfried 26. júlí 1938

Áhöld eru um hvort Winifred var ástfangin af Hitler en hins vegar var nokkuð ljóst að hún lagði mikla ást á Heinz Tietjen, óperustjóra við Staatsoper í Berlín, sem hún fékk til að stjórna hátíðinni með sér. Sjálf hvorki leikstýrði hún né stjórnaði hljómsveit eins og fyrirrennarar hennar. Winifred vonaðist eftir hjónabandi en Tietjen var ekki við eina fjölina felldur, giftur einni og bjó með annarri og vildi hvorugu sambandinu slíta, svo Winifred varð ekki að ósk sinni þrátt fyrir náið samstarf. 

Wahnfried í Bayreuth

Tietjen tók að sér leikstjórn flestra ópera á næstu árum og stundum stjórnaði hann líka hljómsveitinni. Aðrir hljómsveitarstjórar á þessu tímabili voru m.a. Toscanini, Furtwängler og  Richard Strauss.  Winifred og Furtwängler). Brigitte Hamann segir frá því í ævisögunni um Winifred að Toscanini hafi löngu seinna játað fyrir Friedelind dóttur Winifred  að hann hefði verið yfir sig ástfanginn af henni, en hann var í Bayreuth þegar Siegfried dó og næstu tvö ár. Kvaðst hann hafa hlakkað til þess á hverjum morgni að sjá hana og næstum fyrirgefið henni hvað hún var hliðholl nasistum. Allt fram á eldri ár hefði hann iðrast þess að hafa ekki haft kjark til að eiga með henni ástarævintýri. Toscanini hætti í fússi hjá hátíðinni 1932.

Winifred Wagner og Wilhelm Furtwängler

Winifred vildi aldrei afneita Hitler seinna meir, þótt hún gæti ekki horft framhjá illvirkjum hans. Í frægu viðtali í heimildarmynd, gerðri af kvikmyndagerðarmanninum Hans Jörgen Syberberg árið 1975 kvaðst hún myndu taka honum fagnandi ef hann gengi inn í stofuna á því augnabliki. Eftir að þetta var birt opinberlega var hún gerð persona non grata í Festspielhaus og fékk ekki að stíga þangað fæti. Hún ásakaði Gottfried, son Wolfgangs, um að hafa svikið loforð um að þessi hlutur viðtalsins yrði ekki tekinn upp og er það líklega rétt. Winifred lifði til ársins 1980. Hún þurfti að svara fyrir dómstólum fyrir stuðning sinn við nasistaflokkinn en fékk skilorðsbundinn dóm og sekt. Það reiknaðist henni til mildandi kringumstæðna að hafa getað verndað marga gyðinga og komið þeim undan ofsóknum nasista. Wolfgang segir frá því í bók sinni, þegar Klaus Mann kom til Bayreuth til að yfirheyra Winifred á vegum Bandamanna að það fyrsta sem hún hefði sagt hefði verið: „Einni spurningu þurfið þér ekki að beina til mín Herra Mann, – ég hef ekki sofið hjá Adolf Hitler“.

Þegar samið var um enduropnun Bayreuthhátíðarinnar eftir seinni heimsstyrjöldina kom ekki til greina að Winifred kæmi aftur að stjórn hennar vegna náinna tengsla við nazistaflokkinn og Hitler. Siegfried hafði gengið þannig frá í erfðaskrá að Winifred tæki við hátíðinni en eftir hennar dag börnin fjögur, öll jafn rétthá. Það fór samt svo að það voru bara bræðurnir, Wieland og Wolfgang, sem treyst var fyrir hátíðinni, þegar hún opnaði aftur 1951.

Þegar samið var um enduropnun Bayreuthhátíðarinnar eftir seinni heimsstyrjöldina kom ekki til greina að Winifred kæmi aftur að stjórn hennar vegna náinna tengsla við nazistaflokkinn og Hitler. Siegfried hafði gengið þannig frá í erfðaskrá að Winifred tæki við hátíðinni en eftir hennar dag börnin fjögur, öll jafn rétthá. Það fór samt svo að það voru bara bræðurnir, Wieland og Wolfgang, sem treyst var fyrir hátíðinni, þegar hún opnaði aftur 1951.

Festspielhaus í Bayreuth

Báðir höfðu þeir þá þegar aflað sér töluverðrar reynslu. Wieland hafði lært myndlist og gert leikmynd við eina af óperum föður síns og Wolfgang menntað sig við Staatsoper unter den Linden í Berlín í leikstjórn, tónlist og leikhúsfræðum frá árinu 1940. Horft var fram hjá því að Wieland hafði verið meðlimur  í Nazistaflokknum og sérstakt uppáhald Hitlers.

Hitler hélt yfir honum hlífiskildi þannig að hann fékk mörg tækifæri upp í hendurnar og þurfti ekki að fara í herinn. Sama var ekki með Wolfgang,  sem gekk ekki í flokkinn. Hann var sendur  á vígvöllinn í upphafi stríðs og slasaðist illa á framhandlegg, sem m.a. kom í veg fyrir frekari ástundun sem hljóðfæraleikari eða hljómsveitarstjóri.

Knappertsbusch, Wieland, Karajan og Wolfgang 1950

Richard Wagner lifði ekki nema tvær hátíðir í Bayreuth, opnunarhátíðina 1876 með Niflungahringnum og Parsifal 1882,  en þá óperu samdi hann sérstaklega fyrir húsið. Það var opnunarhátíðin 1876 með Niflungahringnum og Parsifal 1882. Þrátt fyrir það að leikhúsið uppfyllti allar hans vonir var hann afar óánægður með fyrstu leikuppfærsluna á Hringnum og var hún aldrei sýnd aftur. Þegar hann féll frá svo stuttu síðar, árið 1883, aðeins 69 ára  og hátíðin hélt áfram í höndum Cosimu setti hún upp bæði Tristan og Isolde, Tannhäuser og Lohengrin og loks nýjan Hring auk þess sem Parsifal frá 1882 var sýndur aftur. Ég vitna aftur í Wolfgang og Lebensakte: Í uppfærslum Cosimu hafi hún ætlað sér að viðhalda hugmyndum og anda Richards en raunin varð allt önnur. Hreinn misskilningur af hennar hálfu varð til þess að verk hans voru færð í sögulegt samhengi og virtust upphefja hið þjóðlega. Það gekk þvert á hugmyndir hans um goðsögnina og hið tímalausa og leiddi þær á villigötur pólitískrar hugmyndafræði þar sem þær voru gripnar á lofti. Þetta var skaðlegt fyrir bæði Wagner og Bayreuth. Richard Wagner fjallaði í verkum sínum um sammannleg efni eins og ást,völd, svik, samkennd, tryggð, umburðarlyndi og trú. Hann fann þessum sammannlegu og tímalausu yrkisefnum birtingarmynd í goðsögninni. Hann hafnaði sögulegum yrkisefnum með örfáum undantekningum. Oswald G. Bauer  lýsti því sem svo að eftir fráfall Richards Wagner og umsnúninginn á hugmyndum hans fóru hugtökin Bayreuth og Wahnfried að standa fyrir annað en bara Bayreuthhátíðina og listræna stefnu hennar heldur frekar fyrir þrönga hugsjón um hið allsherjarþýska, þjóðlega, íhaldssama og andlýðræðislega.

Bræðurnir stjórnuðu hátíðinni saman til ársins 1966 þegar Wieland féll frá eftir stutt en kröpp veikindi. Samstarf þeirra virtist hafa gengið vel, báðir fengu að njóta sín í uppsetningum þar sem þeir bæði leikstýrðu og gerðu leikmynd. Wieland var þó atkvæðameiri í listrænu tilliti, því honum hugnaðist minna að koma að fjármálum og skipulagsmálum hátíðarinnar, sem fóru Wolfgang afar vel úr hendi.

Niflungahringurinn í uppsetningu Wieland Wagners 1951

Upp úr 1960 gerðu þeir á milli sín samning um að kæmi til fráfalls annars þeirra, þá tæki hinn við öllum rekstri en gætti auðvitað hagsmuna stórfjölskyldunnar. Allt þar til upp úr 1970 var Neu-  Bayreuth stíllinn allsráðandi, afar knappur leikmyndarstíll með táknum frekar en raunsæi. Með því voru verk Wagners frelsuð frá tengingu við söguna og sett í það táknræna samhengi sem hæfði tímalausum goðsögnum hans.

Niflungahringurinn í uppsetningu Wolfgang Wagners 1974

Fljótlega eftir að Wieland var fallinn frá ákvað Wolfgang að byrja að kalla til leikstjóra utan fjölskyldunnar, sem hafði aðeins viðgengist að óverulegu leyti frá því hátíðin fór af stað 1876. Hann réð fyrst August Everding 1969 fyrir Hollendinginn fljúgandi og síðan Tristan und Isolde. Þá réð hann Götz Friedrich fyrir Tannhäuser 1972 og síðan Patrice Chéreau fyrir 100 ára Hringinn 1976. Þar á eftir m.a. Jean Pierre Ponnelle, Harry Kupfer, Werner Herzog og Heiner Müller. Haldið var áfram með vinnulag, sem hefur verið gefið heitið Werkstatt Bayreuth, sem einkenndist af því að haldið var áfram að vinna og þróa sýningarnar eftir frumsýningu og öll árin sem þær gengu, sem var oftast 4 til 5 ár.

Wolfgang naut sjaldnast sannmælis í þýskum fjölmiðlum, ýmist var það nasistagrýlan eða þá að hann stæði bróður sínum langt að baki. Þjóðverjar þorðu ekki að vera stoltir af snilldarlegum rekstri hátíðarinnar vegna nagandi samviskubits út af nasismanum. Eftir að ég fór að heimsækja Bayreuthhátíðina fannst mér afar stuðandi hversu villandi mynd var gefin af henni í þýsku pressunni, ýmist átti allt að vera staðnað þar eða þá líka að á hátíðinni væru eintómir nýnasistar. Hvorugt var auðvitað rétt. Allt ætlaði um koll að keyra þegar einhver flottasta Hringuppfærsla allra tíma, þeirra Patrice Chéreau og Pierre Boulez, var sýnd á 100 ára afmæli Hringsins 1976.

Hún þótti algjört hneyksli og lá við að Wolfgang og aðrir aðstandendur þyrftu lífverði. Á þeim tímamótum valdi hann eitt tímarit út sem hann veitti mjög langt viðtal, það var tímaritið Playboy. Mjög skemmtilegt og fræðandi viðtal. Viðtökur Chéreau-Hringsins á lokaárinu höfðu algjörlega umsnúist og hrifningin takmarkalítil. Klappað var í 90 mínútur samfellt í lok Götterdämmerung.

Wolfgang í Playboy viðtali

En nú er komið að því að fjalla sérstaklega um hvernig Wolfgang hafði aðkomu að fyrstu Wagneruppfærslu á Íslandi, á styttum Niflungahring árið 1994 og kynni mín af honum tengdum því.

Wolfgang og Ísland

Árið 1992 var enn ekkert Wagnerfélag á Íslandi. Það voru ekki margir sem höfðu sótt Bayreuthhátíðina heim, en þó nokkrir. Árni Kristjánsson píanóleikari og tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins sótti hátíðina heim 1968 og sá Niflungahringinn og gerði ferðinni góð skil, m.a. í grein, sem birtist í bókinni Hvað ertu tónlist.

Ég kom sjálf fyrst til Bayreuth löngu seinna, árið 1990, í fylgd með þáverandi maka, sem fór með ritstjórn Óperublaðsins. Miðana hafði tekist að útvega gegnum þýska sendiráðið, en á þessum árum, eins og enn í dag, var mikil eftirspurn  eftir miðum á hátíðina og komust færri að en vildu. Eins og Árni Kristjánsson sá ég þá Niflungahringinn og það í fyrsta sinn á sviði. Áður hafði ég kynnst af myndböndum 100 ára Hring Patrice Chéreau og þótt mikið til koma en Hringurinn sem ég sá 1990 í Bayreuth var í leikstjórn Harry Kupfers og Daniel Barenboim stjórnaði hljómsveitinni. Þetta sama ár hafði ég tekið sæti í stjórn og verkefnavalsnefnd Listahátíðar í Reykjavík, þar sem ég átti eftir að sitja næstu fjögur árin.

Árið 1992 er ég aftur á leið til Bayreuth. Nýr stjórnarformaður Listahátíðar, Valgarður Egilsson, hafði þá nýtekið við og var fyrsti fundur með honum í júní. Þar kom fram að ég væri á leið á Bayreuthhátíðina, hann bað mig lengstra orða að hafa samband við stjórnendur hátíðarinnar og biðja þá aðstoðar við að fá Wagneróperu á svið í fyrsta sinn á Íslandi á hátíðinni 1994. Þar sem komandi hátíð yrði haldin á 50 ára lýðveldisafmæli væri við hæfi að ráðast í stórvirki af þessum toga, sem ekki hefði verið unnt áður. „Náðu í Wagneróperu fyrir okkur“ voru síðustu orð hans.

Ég sá mér ekki annað fært en að gera a.m.k. tilraun og fór þess á leit við blaðamannaskrifstofuna að fá tal af Wolfgang Wagner fyrir hönd Listahátíðar í Reykjavík. Þessu var komið um kring, þrátt fyrir miklar annir Wolfgangs en þó ekki gefið meira svigrúm en svo að ég fékk að hitta hann baksviðs eftir Tannhäuser sýningu í hans leikstjórn og tala við hann á milli þess sem hann gekk inn á sviðið og hneigði sig og svo aðeins á eftir. Þegar hann heyrði erindið, að við vildum halda upp á 50 ára afmæli íslensks lýðveldis með uppsetningu Wagneróperu, voru hans fyrstu viðbrögð þau að honum væri vel kunnugt hversu mikilvægt Ísland og íslenskar bókmenntir hefðu verið fyrir afa sinn og að hann vildi gjarnan vera okkur innan handar eftir því sem þyrfti. Bað hann mig að skrifa sér bréf með nánari upplýsingum. Þar með hófust samskipti, ýmist með pósti eða faxi sem smám saman fylltu heila möppu og stóðu yfir langt framyfir sýninguna 1994. Oft töluðum við líka saman í síma, sem var mikil þolraun, því Wolfgang var frægur fyrir frankíska mállýsku sína, sem margir, sem þó töluðu þýsku, áttu í miklum erfiðleikum með.

Í bréfi sem ég skrifaði honum 30. ágúst sama ár, eftir að heim er komið, útlistaði ég fyrir honum kringumstæður hér heima, hvaða leikhús við ættum og sagði frá hljómsveitinni. Sagðist varla búast við öðru en að ef til vill Hollendingurinn eða Tannhäuser kæmu til greina. Sagðist þó hafa hugsað til þess eftir Bayreuthheimsóknina hvað það væri vel við hæfi að taka allan Hringinn til sýningar á árunum 1994-2000. Byrja á Rheingold og enda með Götterdämmerung á Kristnitökuafmælinu árið 2000. Í lok bréfsins bauð ég Wolfgang fyrir hönd okkar í Listahátíð að sækja okkur heim sem allra fyrst.

Í bréfi sem ég skrifaði honum 30. ágúst sama ár, eftir að heim er komið, útlistaði ég fyrir honum kringumstæður hér heima, hvaða leikhús við ættum og sagði frá hljómsveitinni. Sagðist varla búast við öðru en að ef til vill Hollendingurinn eða Tannhäuser kæmu til greina. Sagðist þó hafa hugsað til þess eftir Bayreuthheimsóknina hvað það væri vel við hæfi að taka allan Hringinn til sýningar á árunum 1994-2000. 

Við Bláa lónið

Byrja á Rheingold og enda með Götterdämmerung á Kristnitökuafmælinu árið 2000. Í lok bréfsins bauð ég Wolfgang fyrir hönd okkar í Listahátíð að sækja okkur heim sem allra fyrst.

Það varð úr að Wolfgang þáði boð Listahátíðar að koma til landsins í janúar 1993. Það var snjóstormur þegar þau Guðrún kona hans komu til landsins. Við tókum á móti þeim í Keflavík og komum á leiðinni í bæinn við bæði í Bláa lóninu og á bryggjunni í Grindavík.

Með Vigdísi á Bessastöðum

Svo komu þau í kvöldmat heim til mín og hittu þar framkvæmdastjóra Listahátíðar Rut Magnússon og Þjóðleikhússtjóra Stefán Baldursson. Valgarður var að sjálfsögðu einnig með. Þeim var í ferðinni einnig boðið á Bessastaði til Vigdísar forseta

Þjóðleilkhúsið kannað

Næstu daga förum við með Wolfgang að heimsækja Íslensku óperuna, Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið og meira að segja Laugardalshöll og hann átti fundi með forsvarsmönnum þessara stofnana, einkum þó við okkur í stjórn Listahátíðar. Meiningin var að gefa honum svigrúm til að kynna sér aðstæður og að hann kæmi svo með tillögu. Flestir bjuggust við Hollendingnum fljúgandi.

Selma og Wolfgang Wagner í Laugardalshöll

Í efnisskrá Litla Hringsins 1994 er tilvitnun í orð hans, þegar hann gerði grein fyrir tillögu sinni:

Tilefnið býður upp á að gera eitthvað einstakt, eitthvað sem ekki hefur verið gert áður. Og vegna tengsla verks afa míns Richards Wagner við fornbókmenntir ykkar tel ég einsætt að skoða þá hugmynd að setja upp eins kvölds sýningu á Niflungahringnum. Unnið yrði að styttingu verksins með sérstöku tilliti til hins íslenska bakgrunns þess. En brot þau, sem flutt yrðu, mætti síðan tengja og setja í samhengi á íslenskri tungu. Stefna ætti að því að sem flestir listamenn sýningarinnar yrðu Íslendingar, þannig að túlkun og flutningur verksins beri með sér reynslu og skilning þeirrar þjóðar, sem endur fyrir löngu skapaði og færði í letur þann bókmenntaarf, sem Niflungahringurinn byggir á.

Við vorum flest himinlifandi með þessa óvæntu hugmynd Wolfgangs. Eftir að allar aðstæður höfðu verið kannaðar varð það ofan á að Þjóðleikhúsið væri lang best til þess fallið að hýsa sýninguna. Í framhaldi af þessu var gerð tíu vikna verkáætlun þar sem hér heima átti að safna upplýsingum fyrir Wagner um íslenska söngvara, leikstjóra og leikmyndahönnuði, sem hann gæti valið úr. Í Bayreuth ætlaði hann sjálfur að skoða Hringinn með tilliti til styttingar. Öll verkstjórn hér heima var í mínum höndum og Valgarðs í samvinnu við leikhúsin.Við hófum um leið söfnunarátak til að reyna að finna flöt á að framkvæma þetta stóra verkefni. Frá og með þessu vann ég í nánast fullri vinnu en þó kauplaust að því að þetta geti orðið. Það var eitthvað stórkostlegt við Wolfgang Wagner sem hreif mann upp úr skónum og ég vildi að við létum þetta takast.

Eitt af stærstu verkefnum okkar Valgarðs var að fá það í gegn að verkefnið yrði unnið í samstarfi Listahátíðar við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperuna og Þjóðleikhúsið þannig að allar þessar stofnanir leggðu sitt af mörkum innan síns fjárlagaramma, mestu munaði auðvitað um að fá sem stærstan hlut vinnu hljómsveitarinnar inn í vinnuskyldu hljóðfæraleikaranna. Eftir þrotlaus fundahöld náðist ásættanlegur árangur hvað það varðar og Þjóðleikhúsið kom einnig myndarlega að verkefninu. Loks einnig Óperan, sem hafði þó úr litlu að spila.

Þetta var ekki samfelld sigurganga hjá okkur Valgarði og víða mættum við úrtölum og beinlínis mótbárum, jafnvel í eigin herbúðum. Sumir héldu því fram að það gæti aldrei lukkast að stytta þetta verk og væri í raun goðgá ef ekki hrein smekkleysa að ætla sér það. Aðrir óttuðust að það að sýna Niflungahringinn hér fyrstan Wagnerópera, verk sem væri svo torskilið og erfitt, myndi fæla Íslendinga frá Wagner um aldur og ævi. Svo voru þeir sem töldu sig hafa betri hugmyndir fram að færa en Wagner og vildu hann út af borðinu.

Baráttan verkefninu til stuðnings fór þó brátt að skila árangri. Okkur tókst fljótlega að fá öflugan stuðning frá bankakerfinu, munaði þar mestu um Davíð Ólafsson seðlabankastjóra sem fékk þýska banka til að leggja fram umtalsverðan stuðning gegn því að íslensku bankarnir gerðu slíkt hið sama. Fyrirtæki með þýskan innflutning hjálpuðu mikið og ýmis önnur fyrirtæki. Hefur líklega sjaldan lukkast með jafnmikinn fjárstuðning til hendur einu verkefni.

Þegar við höfðum hér heima staðið nokkuð vel við okkar hlut af 10 vikna áætluninni og vorum búin að senda allar upplýsingar um hugsanlega íslenska þátttakendur sýningarinnar, samkvæmt tillögum Óperu og Þjóðleikhúss, fór okkur að lengja eftir fyrirhuguðum útdrætti úr Niflungahringnum, sem sýndur yrði. En þá gerðist nokkuð dramatískt sem okkur Valgarði brá mjög við.

Styrktaraðilar við uppsetningu Niflungahringsins

Við fengum þann 28. apríl fax frá Wolfgang þar sem hann var búinn að fara yfir allar upplýsingar frá okkur. Þar sagði hann, að hann væri nú kominn á þá skoðun að þetta verkefni, að setja upp útdrátt úr Hringnum, væri mun snúnara en að setja upp eina staka óperu. Stakk hann nú upp á að við settum frekar upp Valkyrjuna en heldur engu að síður hinum möguleikanum opnum.

Þetta urðu okkur  Valgarði mikil vonbrigði og satt að segja stungum við þessu skeyti undir stól og sögðum engum frá, því í miðri baráttunni fyrir Litla Hringnum hefði þetta bara glatt úrtölumennina og ef til vill eyðilagt þann árangur sem hafði náðst. Fáir fréttu því af þessu. Nú hófst nokkurt laumuspil.

Ég svaraði Wolfgang tveim dögum síðar og útskýrði fyrir honum hversu hrifin við værum af Hringhugmyndinni og að við værum tilbúin að berjast fyrir henni eins og sannir víkingar. Okkur grunaði að ein af ástæðum uppástungu Wolfgangs um Valkyrjuna gæti verið að í Bayreuth hefði hreinlega ekki gefist tími til að stytta Hringinn vegna gífurlegra anna við undirbúning nýs Hrings í Bayreuth. Ég stakk upp á hvort við megum senda honum innan skamms fyrstu hugmyndir okkar um hvernig styttingin gæti orðið. Hann svaraði um hæl 6.maí. Þar sagðist hann mjög áhugasamur um að sjá styttingartillögur mínar, sérstaklega væri hann spenntur fyrir því hvernig þær myndu tengja verkið við íslensku goðsöguna.

Ég hafði nokkuð rúman tíma um þessar mundir svo ég eyddi næstu 10 dögum með nóturnar eða partítúrinn af Hringnum, ásamt myndbandsupptöku frá Metropólitanóperunni í uppfærslu Otto Schenk. Ég þekkti þann Hring allvel, auk þess sem ég hafði líka séð megnið af Chéreau-Hringnum án þess þó að eiga hann og svo Kupfer-Hringinn á sviði í Bayreuth.

Það var svo 12. maí sem ég sendi út hugmyndir mínar og rökstuðning fyrir þeim. Þar  lagði ég áherslu á að þetta væru auðvitað bara hugmyndir og að okkur þætti auðvitað miklu áhugaverðara að sjá það sem Wolfgang sjálfur myndi stinga upp á. Ég segi VIÐ í þessu bréfi, en sannleikurinn var sá að það voru ekki margir sem höfðu þekkingu, aðstöðu og annað sem til þurfti til að stytta Hringinn á 10 dögum. Og kannske kjark! Það var líka lítill tími  til að leita að slíkum. Þáverandi eiginmaður þekkti Hringinn líka vel og kíkti á dagsverk mín þegar hann kom heim á kvöldin og lagði eitt og annað til málanna. Við Valgarð var ég í daglegu sambandi en hann tók ekki þátt í klippingunni. Við héldum þessu klippistússi mínu leyndu, þar sem hugmyndin, sem við vorum auðvitað að selja, var að stytta útgáfan kæmi frá Bayreuth, en nú höfðum við þurft að grípa til örþrifaráða. Hér eru svo hugmyndir mínar að útdrætti. Styttingartillögur mínar gerðu ráð fyrir fimm tíma sýningu í þrem þáttum. Fyrsti þátturinn var úr Rheingold, annar úr Walküre en í þriðja þættinum var seinni óperunum tveim, Siegfried og Götterdämmerung slegið saman.

17. maí barst svar frá Wolfgang, þar sem hann sagðist yfir sig ánægður með styttingartillögurnar og hrósaði þeim í hástert.

Sagði að nú sé ekkert til fyrirstöðu að fara að ráða listamenn og gera æfingaáætlun. Í millitíðinni hafði hann sent okkur tillögu um hljómsveitarstjóra, Alfred Walter, sem fæddur var í Bæheimi en bjó í Brüssel. Walter hafði mjög mikla þekkingu og reynslu, sem átti eftir að reynast vel, því að minnkuð hljómsveitargerð Niflungahringsins eftir Gotthold Ephraim Lessing, sem Wolfgang hafði vísað okkur á, var samt of stór, aðeins um 60 manns komust í gryfju Þjóðleikhúss og þótt farið væri í að nota hliðarstúkurnar þurfti samt að skera aðeins niður í um 70 manns

Þann 20. maí sendi ég Walter hljómsveitarstjóra æfingaáætlun, tæpt ár fram í tímann þar sem hljómsveitaræfingar áttu að hefjast 11. maí og frumsýning var sett 27. maí. Um svipað leyti var verið að ganga frá ráðningu á leikstjóra og leikmyndahönnuði, einn útlendingur kom til greina sem leikstjóri  en ákveðið var að ráða þau Þórhildi Þorleifsdóttur og Sigurjón Jóhannsson, þar sem Wolfgang vildi gjarnan Íslendinga. Þau voru auðvitað ráðin á þeim forsendum að setja upp fyrirfram valda parta úr Hringnum, en finna ætti rithöfund til að semja talaða texta milli partanna. Þórhildi og Sigurjóni var boðið að dvelja um tíma á Bayreuthhátíðinni um sumarið, sjá sýningar og kynna sér húsið. Þetta sumar var lítill hópur Íslendinga á hátíðinni samtímis, því við Valgarður förum líka út ásamt fulltrúa Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússtjóra.

Selma og Valgarður
Selma og Valgarður í Bayreuth 1993
Í Bayreuth 1993

Alfred Walter kom líka og á fundi með honum, Þórhildi og Wolfgang Wagner var útdrátturinn endanlega samþykktur, nánast án breytinga frá mínum tillögum frá í maí. Það var alveg látið milli hluta hver hefði gert hann enda var Wolfgang með listræna yfirumsjón yfir öllu. Við töldum heppilegast að þegja alveg yfir því.  Á sama tíma var að mestu leyti tilbúinn listi yfir listamenn, nema þá söngvara sem þurfti að fá erlendis frá í hlutverk Wotans, Siegfrieds og Brynhildar. Mikið var reynt til að telja Kristin Sigmundsson á að taka hlutverk Wotans en tókst ekki

Kvöldverður í boði Wagner hjónanna 1993.

Fyrrverandi eiginmaður var mjög duglegur í kynningarmálum, bæði hér heima og erlendis enda fór svo að fjölmargir blaðamenn sóttu sýninguna heim. Hinn almenni tónlistarunnandi fékk líka kost á að undirbúa sig. Sett var upp sýningaraðstaða á heimili okkar og almenningi boðið að koma og sjá óperur Wagners, einkum þó Niflungahringinn og var þá að sjálfsögðu sýndur Chéreau Hringurinn, sem keyptur hafði verið á Laser diskum í Bayreuth um sumarið en hann var sýndur tvisvar í heild sinni í september þetta ár, með kaffi og pönnukökum ef ég man rétt.

Í október fara Þórhildur og Sigurjón loks að undirbúa sig, vonum seinna. Þau höfðu verið ráðin til þess að sýna valda hluta Hringsins, með töluðum texta milli brotanna. Söngvarar höfðu verið valdir úti í Bayreuth, aðallega af raddsérfræðingi þeirra Frú Dorotheu Glatt, út frá gögnum sem send voru héðan. Wolfgang Wagner hafði lagt ríka áherslu á að ekki skyldi gerð sýning, þar sem reynt væri að fela skurðina í verkið með því að reyna að gera samfellda sýningu. Nú þurfti að finna aðila til að semja þessa texta. Þá lentum við í  erfiðleikum með leikstjórnarparið, því þau lýstu því yfir að þeim fyndist þetta aldrei geta orðið góð sýning, sem væri öll í smá brotum. Þrátt fyrir að þeim væri bent á að þetta  væri forsenda styttingarinnar af hálfu Bayreuth þráuðust þau við og vildu fá að gera sína eigin tillögu að styttingu.

Ég sá mig tilneydda til að setjast niður með þeim, með partitúrinn sem fyrr og skrá þeirra óskir niður. 

Setja svo Wolfgang inn í málið og senda honum þessar hugmyndir. Ég gerði þetta dálítið gegn betri vitund því forsendur Wolfgangs voru kunnar. Í hugmyndum Þórhildar og Sigurjóns voru teknir fjöldinn allur af örstuttum bútum, sem þau hugðust tengja saman án þess að hafa talaðan texta á milli.  Skemmst er frá því að segja að Wolfgang og hljómsveitarstjórinn höfnuðu báðir alfarið þessum hugmyndum, sem væru þvert á það sem Wolfgang hefði lagt til og Wolfgang, sem barnabarn Wagners gæti með engu móti borið ábyrgð á né samþykkt.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu vildu þau Þórhidur og Sigurjón samt halda áfram í verkefninu. Okkur tókst svo í framhaldinu að fá Þorstein Gylfason til að semja tengitextana, sem var mikið lán fyrir verkefnið og átti án efa mikinn þátt í hve vel tókst til. Textar hans, lagðir í munn Loge og Erdu, sem voru í gerfum söngvaranna en flutt af leikurum, voru afburða vel heppnaðir, upplýsandi og fyndnir. Þegar upp var staðið skilaði Þórhildur góðu verki í leikstjórninni og var þar vel studd bæði af Þorsteini Gylfasyni og Sigurjóni. Það var ánægjulegt að árið 2004, þegar Lars von Trier hafði með stuttum fyrivara þurft að bakka út úr leikstjórn nýs Niflungahrings og leitað var logandi ljósi að nýjum aðilum, þá hafði Gudrun Wagner samband og bað mig að útvega allar upplýsingar um Sigurjón og upptöku af Litla Hringnum, sem sjónvarpið hafði tekið upp. Mér tókst að útvega þetta á sólarhring og senda út í hraðpósti, en því miður varð ekki úr því að Sigurjón yrði fyrir valinu.

Í febrúar 1994 var búið að ráða í öll hlutverk. Hljómsveitarstjórinn Alfred Walter kom til landsins í mars og vann með söngvurunum í 2 vikur. Leikæfingar hófust svo í byrjun apríl, þótt erlendu gestasöngvararnir mættu töluvert seinna til leiks. Við vorum ekki heppin með fyrstu Brynhildina og þurfti að útvega nýja,  bandarísku söngkonuna Lia Frey-Rabine, sem stóð sig feikilega vel og gerði mikið fyrir sýninguna. Það má líka kalla hana guðmóður Wagnerfélagsins okkar, sem þarna var ekki ennþá til, því hún hvatti okkur mjög til að stofna hér Wagnerfélag að erlendri fyrirmynd og ganga í Alþjóðasamtök Wagnerfélaga.

Einsöngvarar og leikarar

Sjálf dró ég úr afskiptum mínum af verkefninu frá og með desember 1993 því þá fæddist dóttir mín Selma Lára. Þá var líka búið að ganga frá flestu varðandi þetta verkefni og það komið í hendur fagaðila í Þjóðleikhúsi og hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Ég þurfti þó oft að koma inn, eins og þegar útvega þurfti nýja Brynhildi eða annað frá Bayreuth, til að mynda Wagnertúburnar, sem þeir lánuðu hljómsveitinni.

Á frumsýninguna í maí kom Wolfgang Wagner til landsins í annað sinn ásamt konu sinni Guðrúnu. Með þeim kom fylgdarlið vina og starfsmanna Festspielhaus, svo sem raddsérfræðingurinn Dorothea Glatt. Eins kom mikið af blaðamönnum, forvitnir ekki síst vegna aðkomu Bayreuth að verkefninu. Wolfgang Wagner og Gudrun kona hans nutu heimsóknarinnar mjög. Þau fóru  í Þingvallaferð og út í Viðey. Þau fengu líka að skoða handritin í sérstakri leiðsögn Jónasar Kristjánssonar. 

Við frumsyningu
á Hiflungahringnum 27. maí 1994
Í Viðey
Fornritin skoðuð

Samhliða sýningunum fimm voru haldin tvö málþing, annað alþjóðlegt á ensku, hitt á íslensku. Yfirskriftin var Ísland og Wagner – Hringurinn lokast og á ensku Iceland and Wagner Full Circle: Reykholt-Bayreuth-Reykjavik.  Málþingið skipulagði ég fyrir hönd Listahátíðar ásamt fulltrúum frá Stofnun Sigurðar Nordals, Félagi ísl. fræða, Styrktarfélagi óperunnar og Goethe-Instituts. Meðal fyrirlesara voru Barry Millington, Stewart Spencer og Oswald Georg Bauer. Á íslensku hliðinni Anna Magnúsdóttir, Vésteinn Ólason, Þorsteinn Gylfason, Árni Björnsson, Jóhannes Jónasson og Kristján Árnason. Þau Anna Magnúsdóttir og Reynir Axelsson voru líka með kynningu á Hringnum með tóndæmum.

Ísland og Wagner
Hringurinn lokast
Fyrirlesarar á Wagner málþingi

Til er stór mappa með umfjöllunum um Litla Hringinn, bæði úr erlendum og innlendum blöðum og hlaut hann almennt mjög mikið lof.

Umsögn í Die Zeit - Feuilleton
Tilvísun í
Opera Now

Í framhaldinu var farið þess á leit við Wolfgang að hópur Íslendinga fengi að koma til Bayreuth árið eftir og sjá nýjan Hring Rosalie og Kirchners, almennt kallaður Rosalie Hringurinn. Úr varð að 30 miðar fengust og varð þetta upphafið að því að Íslendingum og Wagnerfélaginu eftir stofnun þess var úthlutað nokkrum miðum árlega. Í þessari ferð var haldinn undirbúningsfundur að stofnun Wagnerfélags á Íslandi, sem síðar var formlega stofnað 12. desember 1995 með um 100 stofnfélögum.

Bayreuth-farar 1995

Af samskiptum mínum við Wolfgang og Guðrúnu hafði smám saman þróast vinátta gagnvart mér og fjölskyldu minni. Þau gáfu börnum mínum gjafir og fylgdust með lífi okkar í gleði og sorg og gagnkvæmt. Í hvert sinn, sem við komum til Bayreuth vorum við boðin í móttöku í Festspielhaus, þar sem þau notuðu hvert hlé í sýningum til að vera gestgjafar fyrir 10-12 manna hópa. Oft gátum við tekið Íslendinga með og var þar jafnan glatt á hjalla.

Með Wagner hjónunum í Festspielhaus

Mér þótti orðið svo vænt um Wolfgang að ég gat ekki stillt mig um að faðma hann og smella á hann kossi og komst upp með það, þótt alla jafna heilsaði hann fólki frekar snaggaralega með því að taka í hönd þess og hneigja sig. Ég fékk oftast að sitja við hliðina á honum í þessum boðum. Eitt sinn var galakjóll minn svo sleipur að servíettan rann stöðugt í gólfið. Kavalér, sem hann var, beygði hann sig eftir henni. Í þriðja sinn gaf hann mér sýnikennslu, maður gat sett annan endann á servíettunni ofan í hálsmálið og skorðað hinn undir disknum, þannig var hún örugg. Svo glotti hann og sagði: „þetta kenndi Adolf Hitler mér“. Börnunum mínum finnst þetta alltaf svolítið fyndin saga. Við hjónin vorum einnig boðin heim til þeirra, þar sem þau bjuggu steinsnar frá Festspielhaus. 

Eftirminnilegastur var glæsilegur kvöldverður bara fyrir okkur og dóttur okkar, sem var aðeins 7 ára. Hún lagðist til svefns undir matarborðinu, sem hafði forðum staðið á heimili greifynjunnar d‘Agoult og Franz Liszts, foreldra Cosimu. Maður fékk óneitanlegan léttan fiðring af tilhugsuninni.

Kvöldverður hjá Wagner hjónunum

Þegar Árni Björnsson hafði verið fenginn til að rannsaka tengsl Niflungahringsins og íslenskra bókmennta  sá Wolfgang til þess að hann fengi aðgang að Wagnersafninu og þá aðstöðu sem hann þurfti. Rannsóknir hans birtust árið 2000 í bókinni Wagner og Völsungar, sem tveim árum síðar kom líka út á ensku og þýsku. 

Kápumynd bókarinnar Wagner og Völsungar eftir Árna Björnsson

Þegar Wolfgang varð áttræður 1999 færði ég honum frá félaginu okkur sérprentun af Sæmundar Eddu, sem gladdi hann mjög.

Þau Wolfgang og Guðrúnu langaði mikið að koma aftur til Íslands og skoða landið betur, eiga hérna frí, en staðreyndin er sú að Wolfgang Wagner tileinkaði líf sitt verkum afa síns Ríkharðs með þvílíkum krafti að hann átt nánast aldrei sumarfrí, ef hann tók sér frí var það ekki á sumrin.

Selma Guðmundsdóttir
og Wolfgang Wagner

Árið 1998 hringdu þau í mig og voru þá að velta fyrir sér að halda upp á 80 ára afmæli hans á Íslandi og koma í vinahópi. Því miður varð ekki úr því. Árið 2000 höfðum við enn eitt sinn reynt að fá þau til landsins, þá kom þetta svar, sem sýnir vel hvað hann langaði mikið að koma. Þá hafði hann lesið bókina Asgard eftir Walter Hansen, sem hann sendi mér og sagðu að lesturinn hefði fyllt þau Guðrúnu heiftarlegri Íslandsþrá.

Asgard - Eine Reise in die Götterwelt der Germanen

Ávarp það sem Wolfgang ritaði í efnisskrá Litla Hringsins 1994 segir meira en mörg orð um stórhug hans og sköpunarkraft. Það var á þessa leið:

„Niflungahringur“ Wagners á Íslandi – ekki aðeins óvenjulegur, heldur einstæður viðburður. Það má segja, að listaverkið hverfi þar með aftur til goðsögulegs uppruna síns og ái við Mímisbrunn, sem óhugsandi er, að geti hafa átt sér upptök annars staðar en á þessu eylandi. Hugmyndin um að setja á svið verk eftir Wagner, innan þeirra marka sem hinni ungu listahátíð í Reykjavík eru sett, hreif mig, já heillaði mig frá upphafi. Án þess að hugsa mig tvisvar um féllst ég á að leggja mitt af mörkum sem listrænn ráðunautur. Eftir að hafa ráðfært mig við aðstandendur hátíðarinnar ákvað ég að setja á svið stytta gerð af fjórleiknum. Ekkert verka Wagners er jafn nátengt norrænni, einkum þó og sér í lagi íslenskri menningu. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að orðlengja það hér, hve mikilvægu hlutverki hin óviðjafnanlegu Eddukvæði gegna í verkinu. […]

Mér er það sérstakt gleðiefni, að það skuli hafa verið íslenskir listamenn og samverkafólk þeirra, sem átti frumkvæðið að þessu einstæða og lofsverða menningarstefnumóti þjóðanna okkar beggja.

Við lágum heldur ekki á liði okkar í Bayreuth. Vonandi eiga stórhugurinn og eljan, sem einkenna þetta tímamótaframtak, eftir að hljóta verðuga umbun í góðum árangri. Okkur öllum, skipuleggjendum, aðstoðarfólki og áhorfendum, óska ég þess, að sýningin verði eftirminnileg og veki með okkur löngun til nýrra dáða.

Nú eru 25 ár síðan Litli Hringurinn var sýndur hér. Það hafa margir auðvitað spurt sig þeirrar spurningar af hverju þetta glæsilega upphaf með Wagner á Íslandi hafði ekki för með sér fleiri sýningar á næstu árum eða jafnvel endurtekningu Litla Hrings. Einungis Hollendingurinn fljúgandi hefur verið sýndur hér síðan, árið 2004 í Þjóðleikhúsinu og einnig að frumkvæði Listahátíðar. Sem formaður Wagnerfélagsins hef ég margreynt að hvetja til frekari sýninga, einkum á Niflungahringnum eða Litla Hringnum, en viðbrögðin hafa því miður ekki verið í stíl við viðbrögð Wolfgangs Wagner. Bágur fjárhagur Íslensku óperunnar er líka þekkt stærð, sem þyrfti að ráða bót á með gjörbreyttum forsendumins.

Hvað Litla Hringinn varðar og vegna þeirrar staðreyndar að hann var samvinnuverkefni svo margra stofnana var kannske ekki mjög líklegt að þessar stofnanir tækju sig aftur saman um sama verkefni. Það hafði haft afgerandi þýðingu að stjórnarformaður Listahátíðar, Valgarður Egilsson, hafði mikinn áhuga á að Wagner færi á svið og studdi það mál alla leið. Svona stórvirki gerast ekki öðruvísi en að fólk í lykilstöðum beiti sér og hafi áhuga. Og Valgarður hafði svo sannarlega frumleika og kjark. Það skipti líka miklu að Þjóðleikhússtjóri, Stefán Baldursson, bæði sat í stjórn Listahátíðar og studdi verkefnið heils hugar og mjög öfluglega fyrir hönd hússins. Og þetta var einstakt tækifæri að vinna þetta verkefni í samvinnu við Wolfgang Wagner og Bayreuthhátíðina. Þetta var fyrsta stytting á Niflungahringnum í heiminum eftir því sem ég best veit.

Nú getum loks fagnað því að Íslenska óperan ætlar í lok maí á þessu ári, í samvinnu við Sinfóníuhljómsveitina og Listahátíð, að setja upp Valkyrjuna í Hörpu og halda allar þrjár stofnanir upp á stórafmæli með sýningu þessari [1]. Hún verður því miður bara að hluta til sviðsett, hljómsveitin verður upp á sviðinu. Þetta er engu að síður tilhlökkunarefni og Wagnerfélagið, sem verður 25 ára á árinu, mun gera sér góða Wagnerdaga í kringum Valkyrjusýningarnar, með alþjóðlegu málþingi og píanótónleikum píanósnillingsins Alberts Mamriev. Von er á annað hundrað Wagneráhugamanna til landsins, undir merkjum Alþjóðasamtaka þar sem greinarhöfundur á sæti í stjórn, auk fjölda annarra innlendra og erlendra gesta. Svo er einungis hægt að vona að það dragist ekki allt of lengi áður en við Íslendingar setjum upp okkar eigin Hring, óstyttan, því Hringurinn á óvíða betur heima en á Íslandi.

[1] Erindið var flutt í nóvember 2019, en Valkyrjan ásamt öðrur liðum Listahátíðar 2020 féll niður vegna Covit-19 eða þeim var frestað ótímabundið.