Orðsending frá Kammermúsíkklúbbnum.
Eins og kunnugt er hefur æ ofan í æ þurft að fresta tónleikum í vetur og lengi vel var mikil óvissa hvort eða hvernig hægt yrði að ljúka vetrardagskránni.
Þegar fresta þarf tónleikum liggja tónleikadagar í Hörpu ekki á lausu og ef þeir finnast, er ekki víst að flytjendur séu tilbúnir til að nýta þá.
Það hefur því ekki dugað að hafa eitthvert „plan B“ til að styðjast við, fremur mætti segja að stafrófið hefði varla nægt fyrir þau drög að áætlunum sem unnið var að.
Sem betur fer lítur út fyrir að takast muni að halda áætlun um fjölda tónleika í vetur eins og meðfylgjandi endur- endur-endurskoðuð dagskrá sýnir og er þrautalendingin sú að næstu tónleikar, aðrir í röðinni á þessum vetri, verða sunnudaginn 28. febrúar n.k. og síðan á hverjum sunnudegi til 21. mars. Segja má að vetrarstarfinu ljúki með ofurlítilli Kammer-listahátíð.
Hægt er að ganga til liðs við klúbbinn með því að fara inn á heimasíðuna kammer.is og smella á hnappinn „gerast félagi“. Fyrir þá ferna tónleika sem eftir eru þarf að greiða 13.000 kr. Vegna reglna um samkomuhald þarf hver og einn að tryggja sér númerað sæti og verða nánari leiðbeiningar um það sendar þeim sem taka þessu tilboði og félagsskírteini afhent á tónleikunum.
Í miðasölu Hörpu (s. 5285050) fást miðar í lausasölu á 3.900kr.
Bestu kveðjur og góða skemmtun!
F.h. stjórnar Kammermúsíkklúbbsins.
Helgi Hafliðason