Nietzsche og Wagner: Vinátta - óvinátta

Fyrirlestur á aðalfundi Wagnerfélagsins
Árni Blandon 11. febrúar 2017

I.

Þegar ég fór að viða að mér efni um samband Wagners og Nietzsches kom það mér á óvart að ég skyldi finna bók í Þjóðarbókhlöðunni sem heitir Wagner og Nietzsche. Og það kom mér enn skemmtilegar á óvart að höfundur bókarinnar skyldi vera hinn frægi, þýski baritonsöngv­ari Dietrich Fischer-Dieskau (1925-2012), en eftir hann liggja rúmlega 20 bækur sem tengjast tónlist. Bókina um Wagner og Nietzsche byggði hann að miklu leyti á bréfaskiptum snilling­anna, þó meira á bréfum Wagners, því Nietzsche fann sig aldrei knúinn til að brenna bréf frá Wagner. Elísabet, systir Nietzches gaf út bók með bréfaskrifum Nietzsches og Wagners, ásamt lýsingum á þátttöku sinni í lífi þessara vina sem síðar urðu fjandvinir og í huga Wagners óvinir.

II.

Í október árið 1844, þegar þýska tónskáldið Richard Wagner (1813-1883) var að skrifa niður lokatónana í hljómsveitarútsetningunni á óperunni Tannhaüser, fæddist þýski heim­speking­ingurinn Friedrich Nietzsche (d. 1900); Nietzsche var þannig einni kynslóð yngri en Wagner, faðir Nietzsches fæddist sama ár og Wagner; Wagner var 31 ári eldri en Nietzsche.

Faðir Nietzsches dó árið 1849 úr heilasjúkdómi sem kallaður hefur verið upp á ensku: „softening of the brain“. Þá var Nietzsche fimm ára gamall. Ári síðar deyr tveggja ára bróðir Nietzsches úr krampa. Fjölskyldan flytur þá til Naumburg og þar búa þau hjá ömmu Nietz­sches sem var ekkja. Um uppeldið á Nietzsche sáu þannig fjórar konur: móðir hans og amma, og tvær aldnar frænkur; auk þess var ein kvenpersóna í viðbót á heimilinu: systir Nietzsches, sem var tveimur árum yngri en hann.

Nietzsche var duglegur námsmaður, nema í stærðfræði, og fékk námsstyrk til að stunda mjög góðan menntaskóla; hann nam þar klassísk fornfræði (fílólógíu) sem nú telst vera úrelt fag. 16 ára gamall stofnaði hann, með tveimur skólabræðrum sínum, bókmennta- og tónlistar­klúbb sem þeir kölluðu Germaníu; þessir vinir Nietzsches hétu Wilhelm Pinder og Gustav Krug. Menningarforkólfarnir ungu gerðust áskrifendur að tímaritinu „Zeitschrift für Musik“ þar sem fjallað var á óvenju jákvæðan hátt um verk Wagners; ritstjóri þessa tímarits var Franz Brendel (1811-1868). Krug keypti síðan nótur með píanóútsetningu Hans von Bülows[1] (1830-1894) á útdrætti af óperunni Tristan og Ísold eftir Wagner og þá gerðist það að Nietzsche, sem var vel dugandi spunameistari á píanó, fór að spinna á miklu nútímalegri hátt. Félagarnir æfðu Tristan á píanóið heima hjá Nietzsche vegna þess að feður hinna drengjanna hötuðu tónlist Wagners, eins og algengt var á þeim tíma. Nietzsche sagði árið 1888 í sjálfs­ævi­sögu sinni Ecce Homo[2]: „Frá því að píanóútsetningin á Tristan og Ísold kom út (kærar þakkir herra von Bülow![3]) varð ég staðfastur Wagneristi.“[4] Undirtitillinn á sjálfsævisögu Nietzsches er: „Hvernig maður verður það sem maður er“.

[1] Nemandi Franz Liszts (1811-1886) og tengdasonur hans.

[2] Ecce homo = „Lítið á manninn“, hin frægu orð Pílatusar vegna Jesú.

[3] Hans von Bülow (1830-1894) var uppáhalds píanónemandi Franz Liszt (1811-1886) svo Liszt ákvað að Bülow skyldi kvænast Cosimu dóttur Liszts. Hjónabandið var ekki gott svo Cosima gerðist ástkona Wagners og síðar eiginkona hans. Liszt hafði verið ötull stuðningsmaður Wagners þegar Wagner átti hvað erfiðast uppdráttar, en eftir að Cosima hóf samband sitt við Wagner gerðist Liszt mjög fjarlægur turtildúfunum. En sættir tókust þó undir lokin og Liszt er grafinn í Bayreuth. Þrjár styttur eru fyrir utan óperuhús Wagners í Bayreuth. Þær eru af Wagner, Cosimu og Liszt.

[4] Elísabet Foerster-Nietzsche: Bréfaskipti Nietzsches og Wagners, bls. 1.

Krug og Nietzsche tóku afstöðu í deilunum í kringum Wagner um listaverk framtíðarinnar og blöndun listgreina. Krug skráði viðbrögð sín og Nietzsches á eftirfarandi hátt: „Ég spyr: hvers vegna má þetta aldrei verða? Hefur ekki Wagner, bæði í Tristan og Ísold og Niflung­unum, sýnt fram á að kenning hans gengur upp? Þar tengjast ljóð og tónlist órofa böndum; væri þá ekki mögulegt líka til dæmis að söngvari væri einnig sannur leikari? Hafa ekki list­flytjendur eins og Schröder-Devrient[1] and Johanna Wagner[2] sannað það að frábærir söngvarar geta líka verið frábærir leikarar?“

2. maí árið1864 gerðist það í Stuttgart að útsendari Bæjarakóngs hefur upp á Wagner þar sem hann er á flótta undan kröfuhöfum frá Vínarborg. Kóngurinn, Lúðvík II, er 18 ára gamall, sem sé á svipuðum aldri og Nietzsche; Lúðvík II sá síðan til þess að Wagner þurfti ekki að hafa neinar fjárhagsáhyggur næstu árin.

Í háskólanámi sínu sérhæfði Nietzsche sig í fornfræði í Bonn og Leipzig hjá prófessor Friedrich Ritschl (1806-1876) sem hafði óbilandi trú á gáfum Nietzsches. Haustið 1868 í Leipzig heyrði Nietzsche forleikina að óperum Wagners Tristan og Meistarasöngvurunum á tónleikum hjá Euterpe félaginu[3]. Hann skrifaði skólabróður sínum Erwin Rohde (1845-1898), um forleikinn að Tristan: „Ég næ ekki að gera mig svo fjarlægan verkinu að ég geti gagnrýnt það; hver einasta taug í mér nötrar og það er langt síðan ég hef upplifað svo varanlega alsælu eins og við að hlusta á þennan forleik.“

Systir Wagners, Ottilie Brockhaus, bjó í Leipzig ásamt eiginmanni sínum prófessor Hermann Brockhaus. Wagner kom frá München í heimsókn til þeirra á laun, tæpum mánuði eftir að Nietzsche heyrði forleikinn að Tristan á tónleikum. Nietzsche var kunnugur Brockhaus hjón­unum og hafði heimsótt þau nokkrum sinnum. Þegar Nietzsche kom í herbergið sitt hinn 9. nóvember 1868 fann hann miða frá vini sínum þar sem á stóð: „Ef þig langar að hitta Richard Wagner, komdu þá á Café Theatro korter yfir fjögur. Windisch.“[4]

Nietzsche fékkst dálítið við tónsmíðar á þessum árum, var liðtækur píanisti og Sophie, eiginkona prófessors Ritschl, átti eintök af nokkrum lögum Nietzsches og Nietzsche hafði kynnt þeim hjónum verk Wagners sem hann þekkti til. Sophie var vinkona Ottilie, systur Wagners, og var í heimsókn hjá Ottilie þegar Wagner kom þangað í heimsókn. Sophie bað Wagner um að spila lag eftir Nietzsche og Wagner var hin ánægðasti með lagið og vildi endilega hitta Nietzsche. Windisch kom síðan þessum fyrsta fundi snillinganna á og Wagner lék þar við hvern sinn fingur.[5]

Nietzsche skrifaði Erwin Rohde þann 9. nóvember 1868 um fyrsta fund þeirra Wagners og sagði meðal annars í bréfinu: „[…] Hann spurði mig hvernig stæði á því að ég væri svona kunnugur verkum hans […] Fyrir og eftir kvöldmat spilaði Wagner alla mikilvægustu kaflana úr Meistarasöngvurunum og söng hinar ýmsu raddir […] Um kvöldið áttum við langt samtal um Schopenhauer […] hann sagðist eiga honum mikla skuld að gjalda og sagði hann vera eina heimspekinginn sem hefði skilið hið raunverulega eðli tónlistar. […] Seinna um kvöldið las hann fyrir okkur hluta úr sjálfsævisögu sinni sem hann er að vinna að núna […] hann beitir pennanum á snjallan og skemmtilegan hátt. Þegar við vorum að fara þrýsti hann hönd mína innilega og bauð mér að koma og heimsækja sig svo við gætum haldið áfram spjalli okkar um tónlist og heimspeki. Hann fól mér líka að kynna verk hans fyrir systur hans og fjölskyldu hennar, sem ég sór hátíðlega að gera…“[6]

Í apríl árið1869 er Nietzsche gerður að prófessor í fornfræði við háskólann í Basel í Swiss, 24 ára gamall ekki síst vegna frægra meðmæla frá prófessor Ritschl. Þá hefjast heimsóknir Nietz­sches til Wagners í Tribschen héraðið í Sviss. Svo vildi til að í fyrstu heimsókninni ól eigin­kona Wagners einkasoninn Siegfried, en Nietzsche varð ekki var við það. Seinna var eitt herbergið í húsi Wagnerhjónanna frátekið fyrir Nietzsche og gekk þetta herbergi undir nafn­inu Hugsana herbergið.

Á þessum árum þróaðist djúp og traust vinátta á milli Wagners og Nietzsches. Samkvæmt Elísabetu, systur Nietzsches, sagði Wagner við hana um bróður hennar: „Hann var eins og sendiboði frá æðri og ómengaðri veröld.“[7] Og veturinn 1870 skrifar Wagner meðal annars í bréfi til Nietzsches: „Ég hef engan til að tala við á jafn alvarlegan hátt eins og við þig – að undantekinni hinni einu. . . Mér líkar svo dæmalaust vel við þig.“ 

Í einni heimsókn sinni til Wagners var Nietzsche viðstaddur morgungleði Cosimu, eiginkonu Wagners, á hinum fræga afmælisdegi hennar 25. desember árið 1870. Þrem vikum áður hafði Wagner lokið við að semja Siegfried´s Idyll[8] og hafði ráðið hljómsveit til vekja Cosimu um morguninn með frumflutningi á verkinu. Hin fræga dagbók Cosimu var hugsuð sem gjöf til barnanna hennar; um þennan atburð skrifaði hún í dagbókina: „Ég get ekki sagt ykkur neitt um þennan dag börnin mín, ekkert um tilfinningar mínar, ekkert um skaphöfn mína, ekkert, ekkert. Ég segi hér bara frá atburðunum á þurran hátt. Þegar ég vaknaði, heyrði ég óm sem magnaðist upp; ég áttaði mig á að mig var ekki lengur að dreyma. Þetta var tónlist, og þvílík tónlist! Þegar henni lauk, komu Richard og börnin fimm inn í herbergið mitt og afhentu mér tónskrána að sinfóníska afmælisljóðinu. Ég gat ekki varist gráti og svo var einnig um aðra í húsinu. Richard hafði komið hljómsveitinni fyrir í stiganum og þannig hafði húsið okkar í Tribschen verið vígt að eilífu.“

Nietzsche skrifaði Wagner bréf hinn 2. janúar 1872 vegna fyrstu bókar Nietzsches Fæðing tragedíunnar úr anda tónlistarinnar og sagði þar meðal annars: „Æruverðugi meistari! […] nafn mitt mun héðan í frá að eilífu verða tengt nafni þínu.“ Og Wagner skrifaði til baka meðal annars: „Kæri vinur! Ég hef aldrei lesið neitt jafn fallegt og bókina þína!“[9] Og Cosima skrif­aði: „Svo virðist sem það sé ekki nema ein persóna sem skilur Wagner fullkomlega, en ég segi ekki hver það er. […]“[10] Þessi bók hefði ef til vill ekki orðið til án hvatningar Wagners því fram að því hafði Nietzsche einungis birt greinar í tímaritum og fornfræðihluta bókarinnar hefði hann getað samið á greinarformi. En fornfræðingum líkaði ekki við Wagnerismann sem kom fram í verkinu og nemendur hættu að mæta í námskeið hjá Nietzsche í háskólanum vegna neikvæðra dóma fornfræðinga um bókina. 14 árum síðar, þegar Nietzsche hafði snúið baki við Wagner, samdi hann formála fyrir nýja útgáfu verksins þar sem hann gerðist harðari dómari á þetta hugverk sitt en nokkur fornfræðingur. En þá var Nietzsche orðinn heimspek­ing­ur og hafði yfirgefið vísindalega fornfræði og vann í því að endurmeta öll gildi Vestrænnar menningar. Undirtitill verksins var þá ekki lengur úr anda tónlistarinnar heldur hét bókin

Fæð­­­ing tragedíunnar, eða: Hellensimi og svartsýni. Í formálanum gagnrýndi Nietzsche meðal annars bjartsýnisheimspeki rómantíkurinnar.

En aftur að Tribschen. Um heimilisbraginn þar skrifaði Cosima: „Meistarinn vinnur alla morgna og þú ættir að heyra síðari söng Rínardætranna[11]. Á kvöldin lesum við Schopenhauer upphátt, síðdegis lesum við Fæðingu tragedíunnar úr anda tónlistarinnar sitt í hvoru lagi og yfir kvöldmatnum ræðum við um Níundu sinfóníuna sem verður flutt um kvöldið þegar búið verður að leggja hornsteininn.“[12] Hornsteinnin er að sjálfsögðu hornsteinninn að óperuhúsi Wagners í Bayreuth, en Wagner er eini óperuhöfundurinn sem hefur náð að byggja sitt eigið óperuhús fyrir flutning á verkum sínum.

Wagner skrifaði Nietzsche 10. janúar 1872: „Við erum bæði búin að lesa bókina þína tvisvar – einu sinni sitt í hvoru lagi að deginum til, og síðan upphátt á kvöldin.“[13]

 Og þrem vikum seinna skrifar Wagner til Nietzsche: „Það besta við ferðalagið var að inn­sæi mitt skyldi uppgötva Bayreuth. Bara að ég gæti talað um það við þig! – Allt er komið á hreint, nákvæmlega eins og ég vildi hafa það. Veldi mitt hefur verið vígt.“[14]

24. apríl 1872 kemur Nietzsches í sína síðustu heimsókn til Tribschen. Wagner hafði búið þarna hamingjusamlega í 6 ár með fjölskyldu sinni. Þennan dag var Cosima að pakka niður, Wagner hafði farið til Bayreuth tveimur dögum áður. Um þessa síðustu heimsókn til Trib­schen skrifaði Nietzsche til Gersdorffs,[15] skólabróður síns úr menntaskóla: „Það var sorg í loftinu, í skýjunum, alls staðar, hundurinn vildi ekki éta, þjónustufólkið fékk alltaf ekka ef yrt var á það. Við pökkuðum saman handritum, bréfum og bókum – ah! þetta var svo ömurlegt! Hvað hefði orðið um mig án þessara þriggja ára sem ég bjó nálæg Tribschen sem ég heim­sótti tuttugu og þrisvar sinnum! Ég gleðst yfir því að ég skuli í bókinni minni hafa fangað þenn­an Tribschen heim fyrir mig til eilífðar.“[16]

Nietzsche segir í formálanum að Ecce Homo: „Ég veit ekki um reynslu annarra af sam­skiptum við Richard Wagner, ég veit bara að ekkert ský var á okkar himni.“[17]

Wagner skrifaði Nietzsche, 25. júní 1872: „Ekkert nema Tristan vekur áhuga þinn. En taktu af þér gleraugun! Þú mátt ekki einbeita þér að neinu nema hljómsveitinni.“[18] Þetta er svipað ráð og byrjendum í Wagnerfræðum er stundum bent á að nýta sér ef nútíma uppfærslur á verkum Wagners eru mjög afkáralegar: Þá er besta ráðið að loka augunum og hlusta, ekki síst á hljómsveitina.

21. október 1873 er Wagner undir mikilli pressu að vinna að hljómsveitarútsetningunni á Ragnarökum og hann skrifar Nietzsche vegna þess að hann hefur ekki tíma til að lesa fyrstu „Ótímabæru hugleiðingu“ Nietzsches sem fjallaði um þýska guðfræðinginn David Strauss:[19] „Og nú kemur þú með þinn Strauss og það sem verra er, Overbeck með Kristnina sem hjakkar í sínu sama Guðfræðilega fari. Þetta getur gert mann geðveikan. Þetta minnir á íslenska skáld­ið Egil, sem ég sagði þér einu sinni frá, ef mig misminnir ekki. Þegar Egill kom heim eftir mjög erfitt ferðalag sá hann að einn af vinum hans hafði skilið eftir frábæran skjöld í húsi hans. Hann brást við hinn reiðasti og hrópaði: „Hann hefur bara hengt þetta upp hérna til þess að neyða mig til að yrkja ljóð á skjöldinn. Er langt síðan hann fór? Ég ætla að flýta mér á eftir honum og drepa hann.“ En hann náði honum ekki og varð mjög reiður, sneri aftur heim í hús sitt, horfði föstum augum á skjöldinn og – orti ljóð sem hann skrifaði á skjöldinn. […] Ég sé fyrir mér að ég muni þurfa að verja bókina þína fyrir sjálfum þér. – Ég hef verið að endurlesa hana og ég sver til Guðs að ég tel þig vera einu persónuna í heiminum sem veit hvað ég er að fara.“[20] Þarna er Wagner sannspár því, eins og að framan er getið, skrifaði Nietzsche harðan dóm um Fæðingu tragedíunnar sem hann birti sem formála að seinni útgáfu verksins..

Orð Wagners um að hjakka í sama Guðfræðilega farinu beinast að gagnrýni hans á kirkjuna sem stofnun. Wagner var mikill aðdáandi Jésú og var á tímabili að hugsa um að skrifa verk um hann

27. febrúar 1874 skrifar Wagner frá Bayreuth til Nietzsche: „Húsið okkar verður tilbúið í maí, og þá verður herbergið þitt alltaf til reiðu fyrir þig.“

Í ágúst 1874 lagði Nietzsche lúmskt próf fyrir Wagner. Hann setti nótur, sem hann átti með píanóútdrætti á Sigursöng Brahms,[21] á flygilinn í stóru setustofunni í Wahnfried[22]. Þetta fór ekki framhjá Wagner enda var þetta hefðbundna, „gamaldags“ verk innbundið í skærrauða kápu. Nietzsche hafði hrifist af verkinu þegar hann heyrði Brahms stjórna þessu kór- og hljóm­­sveitarverki í Dómkirkjunni í Basel tæpu ári áður en hann lagði prófið fyrir Wagner. Samkvæmt frásögn Elísabetar, systur Nietzsches, sagði Wagner við hana: „Bróðir þinn lagði þessa rauðu bók á flygilinn þannig að ég komst ekki hjá því að sjá hana í hvert sinn sem ég kom inn í setustofuna og hún angraði mig eins og rauð dula sem æsir upp naut.“[23]  „Ég skildi hvað Nietzsche var að reyna að segja: hér er náungi sem getur líka gert góða hluti. – Nú, eitt kvöldið sprakk ég, og þvílík sprenging.“ Nietzsche brást þannig við þessari sprengingu Wagn­ers að hann þagði og roðnaði. Síðar lagði Wagner út af þessum atburði á eftirfarandi hátt: „Ég mundi umhugsunar­laust gefa hundrað mörk ef ég gæti haft svona fágaða framkomu eins og Nietzsche – alltaf göfugmannlegur, alltaf tignarlegur.“[24]

En Nietzsche skrifaði í vasabókina sína: „Einræðisherrann viðurkennir engin einstakl­ings­­­einkenni nema sín eigin og nánustu vina sinna. Það er hættulegt fyrir Wagner þegar hann gefur ekkert fyrir Brahms eða gyðingana.“[25] Einn þáttur í stríðinu sem kom upp eftir vinslit Nietzsches og Wagners tengdist gyðingum á þann hátt að einn nánasti vinur Nietzsches á tímabili, Paul Rée (1849-1901), var gyðingur og Wagner var ekki sérlegur aðdáandi gyðinga. Ein frægasta ljósmynd sem tekin var á 19. öld er af Nietzsche og Paul Rée, þar sem vinkona þeirra, hin sjarmerandi og fræga gáfukona Lou Salomé (1861-1937) situr á handvagni með litla svipu í hönd; þeir sem draga vagninn eru Nietzsche og Paul Rée. Í þekktustu bók Nietz­sches, Svo mælti Zaraþústra, segir um svipur, að ef karlmaður sé að fara á fund konu megi hann ekki gleyma að taka með sér svipuna. En á þessari frægu ljósmynd, er það sem sé konan sem getur beitt svipunni á karlmennina.

En aftur að Wahnfried. Í mars árið1875 passaði Elísabet, systir Nietzsches, börnin í Wahn­fried fyrir Wagnerhjónin. Þá kom þungur pakki með heilli óperu til Wagners og hann var beðinn um að segja álit sitt á verkinu; höfundur verksins var bankastjóri. Svo vildi til að Elísa­bet átti hlutabréf í þessum banka sem óperuhöfundurinn stýrði. Þegar Wagner frétti þetta sagði hann við Elísabetu: „Barnið mitt! Seldu þessi hlutabréf! Bankastjóri sem skrifar óperur vanrækir bankann sinn.“ Elísabet treysti því líklega ekki á þessum tíma að Wagner væri sá snillingur sem hann var, svo hún seldi ekki bréfin; bankinn varð síðan gjaldþrota og Elísabet tapaði mörg þúsund mörk­um.[26]

Í hamingjuóskabréfi Nietzsches til Wagners á afmælisdegi hans í maí 1876 skrifaði Nietzsche: „Það eru nánast nákvæmlega sjö ár síðan ég heimsótti þig fyrst í Tribschen, og allt sem ég get sagt á afmælisdegi þínum er, að upp frá þeim degi hef ég haldið upp á andlegan afmælisdag minn í hverjum maímánuði. Frá þeim tíma hefur þú búið í mér og stöðugt virkað sem algjör­lega nýr blóðdropi sem ég hafði ekki haft áður. Þessi þáttur, sem kemur frá þér, keyrir mig áfram, lætur mig skammast mín, yljar mér, hvetur mig og gefur mér engan frið, þannig að mér liggur við að óska þess að ég gæti reiðst þér fyrir að valda þessum óróleika, ef ekki væri fyrir það að ég átta mig á að þetta ójafnvægi hvetur mig sífellt til að verða frjálsari og betri. Þar af leiðir hin dýpsta þakklætis-skuld mín til hans sem er orsakavaldurinn.“[27]

Aðeins tveimur mánuðum síðar, í júlí 1876 kveður við annan tón hjá Nietzsche; hann er þá  staddur á fyrstu músik-drama hátíðinni í Bayreuth, þar sem verið er að frumflytja Niflunga­hringinn í heild sinni; Nietzsche skrifar systur sinni: „Ég vildi að ég væri einhvers staðar annars staðar… Ég fæ hroll af tilhugsuninni um öll þessi löngu listakvöld…. Ég þoli þetta ekki.“[28]

Síðar lýsti hann vanlíðan sinni á þessari fyrstu Bayreuth hátíð á þennan hátt: „Mistök mín fólust í því að koma til Bayreuth með eigin hugsýn í farteskinu. Það leiddi til sárra vonbrigða. Hinn öfgafulli ljótleiki, afbökunin og yfirspennan gerði það að verkum að ég fylltist miklum óhugnaði.“[29]

Wagner og Nietzsche hittust í síðasta sinn um haustið þetta sama ár. Tólf árum síðar skrifaði Nietzsche í ritgerðina „Nietzsche Contra Wagner“ sem er samantekt á því sem hann hafði áður skrifað um samskipti þeirra. Kaflinn sem Nietzsche nefndi: „Hvernig ég losnaði við Wagner“ hefst svona: „Ég hafði þegar kvatt Wagner sumarið 1876, um miðbik fyrstu Hátíðarinnar. Ég þoli ekki tvöfeldni; frá því Wagner fluttist til Þýskalands hefur hann smám saman lagst lægra og lægra gagnvart öllu sem ég fyrirlít – meira að segja gyðingahatri. […] það var löngu kom­inn tími til að kveðja. Fljótlega fékk ég staðfestingu á þessu. Richard Wagner, að því er virtist á sínum hæsta sigurtindi, var í rauninni rotinn og örvæntingarfullur hnignunaraðili (décadent), sem féll allt í einu á kné, hjálparvana og niðurbrotinn, fyrir framan hinn kristna kross….“[30]

Það sem gerist í heimspekilegri hugsun Nietzsches á þessum tíma er að listin og listaverk, sem hann hóf til vegsemdar í fyrstu bók sinni Fæðing tragedíunnar, bókinni sem Wagner var svo ánægður með – eru ekki lengur í huga Nietzsches sá bjargvættur menningarinnar sem hann hafði bundið vonir við, heldur er það heimspekingurinn, það er að segja Nietzsche, en ekki Wagner, sem skiptir mestu máli fyrir framtíðina og göfuga framþróun menningar­innar. Þessi straumhvörf koma fram í bók Nietzsches Mannlegt, alltof mannlegt, sem kom út árið 1878. Wagner líkaði illa við þessa bók, þó nafn hans komi þar aldrei fram, en hins vegar fá listamenn falleinkunn í verkinu. Að vísu var það svo að í upphaflega handritinu að verkinu kom nafn Wagners oft fyrir enda ætlaði Nietzsche að gefa verkið út undir dulnefni. En útgef­and­inn vildi það ekki og þá breytti Nietzsche verkinu þannig að nafn Wagners var strokað út en orðið „listamaður“ sett inn í staðinn.

Um haustið1878, sama ár og bók Nietzsches Mannlegt, alltof mannlegt kom út, er heift Wagners út í Nietzsche orðin slík í Bayreuth að Nietzsche dæmist vera svikari og Wagner eyðir flestum bréfa hans nema þeim allra jákvæðustu; þetta á sér stað án vitundar Nietzsches. Tveimur árum síðar skrifar Nietzsche vini sínum Peter Gast um Wagner: „Á milli okkar komu aldrei upp reiðiorð, aðeins hvetjandi og gleðileg orð, og ég hef líklega aldrei hlegið eins mikið með neinum.“[31] Þetta er hálfsannleikur hjá Nietzsche: sannleikurinn var sá að Nietzsche lét aldrei reiðiorð falla í samskiptum við Wagner, en lygin er sú að Wagner sprakk jú heiftarlega í samskiptum við Nietzsche, eins og að framan getur, vegna tónskrár Brahms í rauðu bandi.

Wagner áttaði sig ekki á, eða vildi ekki skilja, hvert Nietzsche var að fara í hinni nýju heim­speki sinni, enda orðinn gamall maður, kominn hátt á sjötugsaldur, og orðinn sigurvegari á sinni braut. Nietzsche var í eðli sínu afar sterkur einstaklingur, enda var eitt lykilatriðið í heimspeki hans einstaklingshyggjan. Hann var því lítt hneigður til að fylla hjörð Wagnerista og hylla sigurvegarann Wagner, en aftur á móti varði hann Wagner af miklum eldmóði þegar Wagner var að berjast fyrir því að list hans fengi brautargengi. Nietzsche var stríðsmaður, baráttumað­ur, öfgamaður og þegar Wagner var kominn á sinn hæsta sigurtind, var baráttunni fyrir hug­sjón­um Wagn­ers lokið í huga Nietzsches en baráttan sem tók við hjá Nietzsche var barátta fyrir hinum nýju og frumlegu heimspekilegu hugsunum Nietzsches, sem voru rúmlega 100 árum á undan sinni samtíð. Þetta skildi Wagner ekki, sem vonlegt var, og var ekki tilbúinn að setja sig inn í heimspeki Nietzsches eða styðja við bakið á þessum fyrrverandi vini sínum. Wagner hafði aldrei áttað sig til fulls á snilld Nietzsches þó hann hefði gaman af að ræða við Nietzsche á eigin forsendum á meðan Nietzsche var nemandi Wagners. Wagner bjó ekki yfir þeirri auðmýkt að geta orðið nemandi nemanda síns. Þegar Nietzsche sleit sig frá Wagner, til þess að geta farið eigin leiðir sagði hann meðal annars eitthvað á þessa leið: Kennari sem ýtir ekki undir sjálfstæði nemanda síns, en vill að nemandinn sé sífellt einungis nemandi hans, er ekki góður kennari.

Nietzsche skrifaði vinkonu sinni Malwidu von Meysenbug (1816-1903) um Wagner: „…það vill svo til að hann hefur mjög tilviljanakennda og ófullkomna menntun, svo að hann skilur hvorki alvar­leikann eða nauðsynina á ástríðu minni.“[32]

Þegar Nietzsche lýsti óánægju sinni með það að Wagner skyldi falla á kné fyrir framan hinn kristna kross, átti hann við efnistök Wagners í síðustu óperu hans Parsifal. Nietzsche kallaði sjálfan sig Anti-Krist þegar hann barðist fyrir upplýsingu á hinu tvöfalda siðgæði Kristninnar, þrælasiðfræðinni sem hann kallaði svo, þar sem Kristnin leggur meðal annars meiri áherslu á „lífið“ eftir dauðann heldur en lífið á jörðinni. Auk þess taldi Nietzsche að Wagner hefði verið að beygja sig fyrir lögmálum markaðsaflanna með því að búa til Kristið verk, þar sem hið heiðna verk um Niflungahringinn hafði farið illa með fjárhag Wagnerveld­isins.

Gagnrýni Nietzsches á vestræna siðfræði er einn sterkasti þátturinn í heimspeki hans. Andstæða þrælasiðfræðinnar er höfðingjasiðfræðin sem er einkennist ekki af tvöfeldni eins og þrælasiðfræðin: höfðinginn stendur við það sem hann segir, orð og gjörðir fylgjast að. Nietz­sche taldi að norrænir menn skildu höfðingjasiðfræðina betur en aðrir. 31. maí árið 1888 skrifaði Nietzsche vini sínum Heinrich Köselitz (sem Nietzsche kallaði Peter Gast: 1854-1918): „Þeir eru betur undirbúnir fyrir kenningu mína um „höfðingjasiðfræði“ vegna almennrar og nákvæmrar þekkingar á Íslendingasögunum sem búa yfir mörgum ríkulegum  dæmum sem styðja kenninguna.“[33]

Þrátt fyrir óánægju Nietzsches með efnið í Parsifal Wagners, kunni hann vel að meta tónlistina í forleiknum að verkinu. 21. janúar 1887 skrifaði Nietzsche vini sínum Peter Gast um það þegar hann heyrði forleikinn að Parsifal í Monte Carlo: „Gerði Wagner nokkurn tíma nokkuð betra? […] Öll blæbrigði tilfinninganna smættuð niður í kjarnyrtar einingar; skýrleiki tónlistar sem lýsandi listar […] einstök og göfug tilfinningaleg reynsla, sálrænn atburður á grunni tónlistar, sem er mikið afrek hjá Wagner […] sambland af samsekt og skilningi sem sker í sálina eins og hnífar – og uppfullt af samúð með því sem er hér séð og dæmt. Svipaða upplifun má fá í verkum Dantes, en hvergi annars staðar.“[34]

Malwida skammaði Nietzsche fyrir ritgerðina Wagner málið (Der Fall Wagner, 1888). Hún spurði hvaða „villu“ hann teldi sig hafa gert varðandi heimspeki Schopen­hau­ers og tón­list Wagners. Og Nietzsche svaraði árið 1888: „[…] Ég túlkaði tónlist Wagners út frá eigin forsendum, sem tjáningu á Díonýsískum krafti sálarinnar; ég trúði því að í henni gæti ég heyrt jarðskjálfta þar sem frumkraftar lífsins, sem höfðu verið stíflaðir frá örófi alda, hefðu loks brotist út […] Það sést hvað það var sem ég áttaði mig ekki á, hvaða farangur ég kom með til Wagners og Schopenhauers: sjálfan mig.“[35]

Í fyrstu bók sinni Fæðingu tragedíunnar kom Nietzsche fram með upplýsingar sem forn­fræðin hafði ekki búið yfir áður. Þessi viðbót var útskýring hans á hinum frumstæðu Díonýs­ísku kröftum, sem kenndir eru við Bakkursarguðinn Díonýsos, og hvernig sá frum­kraftur tekst á við sígilda Appólóníska fágun sem kennd er við guð hinnar sígildu listar Appolon. En þegar Nietzsche tekur sig til og vill umbreyta öllum siðrænum, vestrænum gildum, verður Díonýsos ekki lengur guð lista, heldur guð heimspekinnar. Og það er með aðstoð hinna undirmeðvituðu krafta Díonýsusar sem Nietzsche skrifar sitt þekktasta verk Svo mælti Zaraþústra sem er and-kristilegt verk með áherslu á jarðlífið, núið, sjálfsrækt og dauða Guðs. Þegar fyrsti hlutinn af Zaraþústra kom út, var Wagner um það bil að gefa upp öndina.

Í þessu verki gerist Nietzsche ljóðrænn heimspekingur og skrifar í stíl sem hann hefði óskað að hann hefði haft hugrekki til að nota þegar hann var undir áhrifum Wagners og skrifaði Fæðingu tragedíunnar.

Í bókinni Nietzsche & Wagner: A Lesson in Conjugation (1996), eða Lexía um sambönd,  eftir Joachim Köhler er farið ofan í saumana á þeirri hatursfullu orðræðu sem átti sér stað frá hendi Nietzsches vegna sambandslita þeirra Wagners, sem Nietzsche opinberaði í nokkrum verkum sínum. Honum var í mun að fólk skildi hvað hefði gerst sem olli sambandsslitunum. Það er löngu opinbert að Wagner skrifaði einkalækni Nietzsches bréf þar sem hann taldi sig vita hvað skýrði hin stöðugu veikindi Nietzsches: höfuðverki og magaverki og jafnvel  sjón­depru. Ástæðan átti að vera óhófleg sjálfsflekkun Nietzsches. Nietzsche frétti af þessu áliti Wagners, en túlkun Kohlers er sú að þarna og víðar hafi Wagner átt við, undir rós, að Nietz­sche væri hommi. Slíkt var ekki gamanmál fyrir rúmri öld síðan, ekki minni maður en Oscar Wilde var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 1895 fyrir að viðurkenna að honum finndist ungir drengir misfallegir og hefði ekki áhuga á að kyssa þá suma.

Tveimur mánuðum eftir dauða Wagners skrifaði Nietzsche vini sínum Köselitz bréf þar sem hann kvartar yfir ýmsu, meðal annars Wagner. Þar skrifaði Nietzsche meðal annars: „Hvað finnst þér um mann sem skrifar bréf, jafnvel til læknisins míns þar sem hann lýsir því að breytingarnar á hugsun minni sé afleiðing af óeðlilegum hneigðum – sérstaklega peder­asty?“[36] Í bók sinni Nietzsche & Wagner útskýrir Köhler orðið „pederasty“ á eftirfarandi hátt: „Nietzsche notar orðið á venjubundinn hátt eins og það var notað á nítjándu öld um ást milli tveggja karlmanna, eins og hjá Grikkjum til forna.“[37]

Köhler vitnar líka í bók Nietzsches Mannlegt alltof mannlegt, sem Wagner var svo illa við. Í kaflanum „Vinir“ má meðal annars finna tvö orð: „banvæn móðgun“ (e. a mortal insult). Nietzsche segir þar að vinir þurfi að kunna að þegja, „vegna þess að mannleg sambönd eru nær alltaf byggð á nokkrum þáttum sem aldrei er minnst á, aldrei eru orðaðir […] Finnst nokk­ur maður sem myndi ekki móðgast á banvænan hátt er hann kæmist að því hvaða grund­vallar sannindi nánustu vinir hans vissu um hann?“[38] Í ensku þýðingunni á einum kaflanum í bók Köhlers, er titill kaflans: „A Mortal Insult“.

Að einu leyti sveik Cosima, hin trygga eiginkona Wagners, þennan síðari eiginmann sinn. Hún hafði lofað honum að deyja fljótlega eftir að hann væri dáinn, en þess í stað lifði hún 46 árum lengur en Wagner. Hún gat því haldið áfram stíðinu við Nietzsche, sem hún gerði í samtölum og í sendibréfum. Þessi aukaár gáfu henni líka tíma til að bæta í bréfbrennuna sem Wagner hafði byrjað með því að brenna bréf frá Nietzsche. Cosima sagði að enginn vildi gefa út þessi bréf, bréf frá mönnum eins og Heine, Berlioz, Baudelaire og Bülow, og frá Wesen­donck hjónunum.

Cosima átti fullt í fangi með að halda honum Wagner sínum fyrir sig. Ef það var ekki Nietz­sche að þvælast fyrir henni þá var það Lúðvík II, Bæjarakóngur, hann átti það til að stilla Wagner fyrir framan sig og horfa á hann aðdáunaraugum tímunum saman. Og Wagner lét sér það vel líka enda var hann á ótrúlega háu tímakaupi við það.

Í dagbók sinni lýsti Cosima afbrýðisemi sinni út í Lúðvík konung þá loksins þegar hún var laus við Nietzsche. Hún skrifaði til dæmis um bréf frá Wagner til Lúðvíks: „Fremur undar­leg tilfinning, eitthvað ólýsanlegt, nær tökum á mér þegar ég les niðurlagið [á bréfinu], að sál hans tilheyri honum að eilífu. Þetta stingur eins og eiturtönn í hjartað, ég veit ekki hvers ég óska. Ég vil ekki að þessi orð séu skrautmælgi (e. rhetoric), og ég vil ekki að þau séu sann­leik­urinn; ef það væri í mínu valdi, vildi ég ekki að þessi orð væri óskrifuð. Vegna þess að allt sem hann gerir er rétt. En ég þjáist og ég læt mig hverfa, til þess að fela sorgina.“[39]

Ástríðurnar voru miklar hjá þessu fræga fólki í lok rómantíska tímabilsins. Árið 1888 skrifaði Nietzsche um Wagner: „Þegar ég hugsa til þess tíma þegar síðasti hluti Siegfrieds var að verða til! Við elskuðum hvorn annan þá og óskuðum hvor örðum alls hins besta – það var raunverulega djúp ást, með engum hliðarsporum.“

Þegar Nietzsche var orðinn geðveikur, virðist hann hafa litið þannig á að hann væri þriðji eiginmaður Cosimu því samkvæmt innfærslu á Jena sjúkrahúsinu 27. mars árið 1899 sagði Nietzsche: „Það var eiginkona mín Cosima Wagner sem kom með mig hingað.“ Tónlist og orðið Wagner var það sem náði Nietzsche helst út úr sljóleika geðveikinnar síðustu tíu árin sem hann lifði. Þegar minnst var á Wagner við ævilok Nietzsches sagði hann: „Þann mann elskaði ég mikið“ eða á frummálinu: Den habe ich sehr geliebt.“[40]

III.

Eftir dauða Wagners og Nietzsches hélt hugmyndafræðilegt stríð í þeirra nafni áfram. Því var stjórnað frá tveimur vígstöðvum af tveimur konum: Cosimu í Bayreuth og Elízabetu, systur Nietzsches í Weimar. Að vísu átti Elísabet erfitt með að skilja heimspeki bróður síns en hún hafði mikinn metnað fyrir hans hönd og átti stóran þátt í því að koma á tískubólu í kringum hugmyndafræði Nietzsches með því að sjá meðal annars til þess að verk hans væru endurút­gefin eftir að hann gat enga björg sér veitt.

Frásagnir af þætti Cosimu í stríðinu við hugmyndafræði Nietzsches hefur ekki verið fyrirferðarmikilar í Wagnerfræðunum, en í bók Joachim Köhlers Nietzsche & Wagner: Lexía í sam­böndum, gerði Köhler nokkuð ítarlega grein fyrir hatri Cosimu á Nietzsche. Köhler segir  meðal annars frá því með ýmsum stuttum tilvitnunum í bréf Cosimu til skoðanasystkina sinna hvernig hún lýsti fyrirlitningu sinni á Nietzsche og sá fólki fyrir upplýsingum til þess að það gæti hafið árásir á óvininn og hugmyndafræði hans upp á eigin spýtur. Hún sagði að alveg frá barnæsku hefði Nietzsche verið „veiklaður . . . og hefði aldrei getað verið hamingjusamur eða glaður“, sem gerði það að verkum að börnin hennar „hefðu verið verulega hrædd við hann“. Og þrátt fyrir þróttleysi hans, „óeðlilegt uppburðarleysi“ og „almennan kvenleika í háttum hans“ hefði alls ekki verið hægt að líta á hann sem ósvikinn karlmann, og hann hefði „móðgað konur með því að átta sig ekki á göfugu hlutverki þeirra“. Þarna er Cosima líklega meðal annars að verja það hvernig hún fórnaði sér sem þræll fyrir Wagner. Um verk Nietzsches skrifaði Cosima að þau væru eins og „náttúrulaus krampaflog, uppfull af fyrirlitlegri ill­kvittni“.[41] Þarna hefur Cosima líklega í huga lýsingu Nietzsches á henni sem eldingarvara fyrir Wagner. Þó Elísabet systir Nietzsches skildi fæst af því sem bróðir hennar hélt fram í hugmyndafræði sinni þá skildi hún þessa líkingu vel vegna þess að þegar hún sá Cosimu og Wagner í fyrsta skipti brá henni við að sjá hvað Wagner var óvenju lágvaxinn af karlmanni að vera, en Cosima aftur óvenju hávaxinn kvenmaður. Elízabetu fannst þessi líking verulega fyndin hjá Nietzsche að lýsa Cosimu sem eldingarvara sem skagaði hátt yfir Wagner.

Cosima taldi að það vantaði frumleika í verk Nietzsches; hún skrifaði: „Það er raunar svo að við getum sýnt fram á hvaðan sérhver setning Nietzsche er komin.“ Ofan á þennan „algjöra skort á frumleika“ leggst síðan „mikilmennskubrjálæði“ sem birtir okkur í gegnum hugsýki hans „sannleikann um hans fyrirlitlegu og auvirðilegu persónu“. Um þekktasta verk Nietz­sches Svo mælti Zaraþústra skrifaði Cosima árið 1901 til hins mikla kynþáttafordómara og tilvonandi tengdasonar síns Houston Stewart Chamberlain: „Við lögðum það á okkur að lesa þetta verk og vorum ekki einungis undrandi á því hve heimskulegt það er heldur líka hvað það er illa stílað“ „Þetta er ekki þýska, skrykkjóttar setningarnar, þunglyndislega einhæfnina er ekki að finna í neinu tungumáli sem ég þekki – það sem kæmi næst því er Gamla testa­ment­ið. Og þarna telur  Cosima sig hafa fundið ástæðuna fyrir því sem hún kallar „andstyggi­legustu hliðina á Nietzsche“ sem sé „að hann skyldi draga Kristnina inn í sína afbökuðu hugmynda­fræði og í stað hins sanna Guðs sett bakkusargoð sem honum gæti sjálfsagt ekki hafa dottið í hug nema út frá Davíð konungi dansandi fyrir framan Sáttmálsörkina.“ Á þennan hátt taldi Cosima sig hafa sýnt fram á gyðinglegheit í spá Nietzsches um Ofurmennið. En hún hefði þó getað sætt sig við það að þessir hræðilegu þættir, ásamt hinum „innantómu hug­mynd­um“ og „siðferðilega óeðli“ ættu sér rætur í andlegu ástandi Nietzsches, ef ekki hefði verið fyrir það, sem reitti hana til mikillar reiði, „að svo mikið var látið með þessa ömurlegu bók“.

Tveimur árum eftir dauða Nietzsches tjáði Cosima sig um það að sætta hefði mátt sig við skrif Nietzsches ef hann hefði bara fallið frá á hljóðlegan og friðsamlegan hátt „eins og margir aðrir hafa gert“ og þá hefði mátt breiða dulu yfir allt sem honum tengdist. En þá gerist það að „brjóstumkennanleg sértrúartilbeiðsla“ á sér stað í kringum dýrkun á síðustu verkum hans og það versta við það var „ruglingurinn og skilningsleysið ásamt óskammfeilninni og hrokan­um“.[42]

Af þessu sést að það er kominn nokkur annar tónn í afstöðu Cosimu til Nietzsches heldur en þegar Wagner og Nietzsche voru bestu vinir og Cosima var þá líka besti vinur Nietz­sches. Dæmi þar um má nefna jólin í kringum þrítugasta og annan afmælisdag Cosimu. Nietzsche var þá í heimsókn hjá Wagnerhjónunum í Tribschen. Eftir hádegi á jóladag, á  með­an Wagner lagði sig, dró Cosima fram frumdrög Wagners að handriti hans af Parzival, en svo hét verkið upphaflega, með setu og vaffi. Cosima las verkið fyrir Nietzsche. Wagner hafði samið Parzival fyrir vin sinn Lúðvík konung í einni af fjallahöllum konungsins árið 1865. Frumlestur Wagners á upprunalega verkinu sem óperan byggir á, tengdist ást Wagners á Cosimu á þann hátt að hann var í miklu afbrýðissemi­kasti í ágústmánuð fyrr á þessu sama ári, en þá hafði Liszt boðið dóttur sinni Cosimu og eiginmanni hennar Bülow að vera viðstödd frumflutning á verki hans Þjóðsögnin um heilaga Elísabetu í Budapest. Einn og einmana í afbrýðissemikasti hafði Wagner leitað huggunar í því að lesa upprunalegu söguna um Parzi­val.

Þegar Cosima tók sig til og las handritsdrög Wagners að Parzival, kom henni sjálfsagt í hug þetta afbrýðissemitímabil hjá Wagner. Sagan fjallar meðal annars um sársaukann sem getur fylgt því að draga aðra á tálar, demón syndarinnar og samviskubitsins, fallegar verur í efnislitlum og ögrandi klæðnaði, sem sé, eins og Köselitz orðar það: „örvandi þætti sem gátu komið upp í huga einmana prófessors í félagi við hefðarkonu.“[43] Erótíska örvunin nær há­marki þegar Kundry reynir að draga Parzival á tálar í hans fyrsta ástarkossi. Í þessu tilviki var hefðarkonan, sem hélt fram hjá eiginmanni sínum með Wagner og eignaðist tvö börn með Wagner sem kennd voru eiginmanninum, að lesa fyrir Nietzsche innan um silki og satín í íburðarmikilli setustofu. Þau eru tvö ein, hann feiminn ungur aðdáandi, sagan er djörf, auk þess sem hetjan bjargar hinum synduga kóngi og sest í hásæti hans. Í dagbók sína skrifaði Cos­ima: „Las Parzival með prófessor Nietzsche […] aftur ógnvekjandi reynsla.“ Síðasti bældi ungi karlmaðurinn sem hún hafði hellt úr skálum tilfinninga sinna með og grátið yfir verkinu var Lúðvík konungur sem Wagner kallaði stundum Parzival.

Ég lýk þessari samantekt með tilvitnun í síðasta bréfið sem Nietzsche skrifaði móður sinni en það er dagsett 21. desember árið 1888. Hann byrjar á að ávarpa hana sem sína „gömlu móður“ og undirskrifar svo bréfið: „Þín gamla vera“. Bréfið endar svona:

„[…] Ég er mjög góður til heilsunnar. Erfiðustu verkefni sem enginn hefur hingað til verið nægilega sterkur til að leysa af hendi reynast mér auðveld.

Mín gamla móðir, við lok þessa árs óska ég þér auðmjúklegast alls hins besta og óska mér árs sem samsvari á allan hátt hinum miklu viðburðum sem munu óhjákvæmilega eiga sér stað á næsta ári.“[44]

Einn frægasti viðburðurinn í menningarsögu Vesturlanda átti sér stað fljótlega á nýja ár­inu, eða tveimur vikum eftir að Nietzsche lauk við þetta bréf, en þá hvarflaði vitið endanlega frá  Nietz­sche.

Heimildir

Fischer-Dieskau, Dietrich : Wagner and Nietzsche. Þýtt úr þýsku af Joachim Neugroschel.: Sidwick and Jackson, London. 1974. 1978.

Foerster-Nietzsche, Elísabet: Bréfaskipti Nietzsches og Wagners. London: Duckworth & Co 1922. (Formáli Elísabetar er dagsettur 15. október 1914 í Weimar).

Köhler, Joachim: Nietzsche & Wagner: A Lesson in Conjugation. Þýtt úr þýsku af Ronald Taylor. Yale University Press, New Haven and London 1998 (1996).

Middleton, Christopher: Selected Letters of Friedrich Nietzsche. Edited and Translated by C.  Middleton. Hackett Publishing Company, Inc. Indianapolis/Cambridge. 1996.

Nietzsche, Friedrich: Friedrich Nietzsche on Wagner. Ensk þýðing: Anthony M. Ludovici. Spastic Cat Press, 2012. Formáli þriðju útgáfu er frá árinu 1911.

Nietzsche, Friedrich: Unpublished Letters. Ensk þýðing og ritstjórn: Kurt F. Leidecker. Philosophical Library, New York, 1959.

Tilvísanir

[1] Nemandi Franz Liszts (1811-1886) og tengdasonur hans.
[2] Ecce homo = „Lítið á manninn“, hin frægu orð Pílatusar vegna Jesú.
[3] Hans von Bülow (1830-1894) var uppáhalds píanónemandi Franz Liszt (1811-1886) svo Liszt ákvað að Bülow skyldi kvænast Cosimu dóttur Liszts. Hjónabandið var ekki gott svo Cosima gerðist ástkona Wagners og síðar eiginkona hans. Liszt hafði verið ötull stuðningsmaður Wagners þegar Wagner átti hvað erfiðast uppdráttar, en eftir að Cosima hóf samband sitt við Wagner gerðist Liszt mjög fjarlægur turtildúfunum. En sættir tókust þó undir lokin og Liszt er grafinn í Bayreuth. Þrjár styttur eru fyrir utan óperuhús Wagners í Bayreuth. Þær eru af Wagner, Cosimu og Liszt.
[4] Elísabet Foerster-Nietzsche: Bréfaskipti Nietzsches og Wagners, bls. 1.
[5] Schröder-Devrient hafði mikil áhrif á Wagner vegna leik- og sönghæfileika sinna. Auk þess tók hún þátt í byltingartilrauninni í Þýskalandi árið 1849, eins og Wagner. 13 ára útlegð Wagners frá Þýskalandi orskaðist af þátttöku hans í byltingartilrauninni.
[6] Stjúp-frænka tónskáldsins. Hún var hin upprunalega Elísabet í Tannhäuser Wagners.
[7] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 4.
[8] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 10.
[9] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 11-13.
[10] Christopher Middleton, bls. 39.
[11] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 21.
[12] Hárómantískur hluti af Niflungahringnum sem Cosima varð síðar ósátt við að sá hluti verksins yrði almenningseign en ekki hennar einka afmælisgjöf.
[13] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 94.
[14] Sama rit, bls. 97.
[15] Rínardæturnar koma fyrir á tveimur stöðum í Niflungahringnum hinu fjögurra kvölda músikdrama Wagners sem tekur um það bil 16 klukkustundir í flutningi.
[16] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 97.
[17] Sama rit, bls. 99.
[18] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 81.
[19] Carl von Gersdorff (1844-1904).
[20] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 82 og Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 112. Bókin er Fæðing tragedíunnar.
[21] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 113.
[22] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 135.
[23] Fjórða ótímabæra hugleiðingin Nietzsches fjallaði um Wagner.
[24] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 179.
[25] Wagneristum þótti tónlist Brahms gamaldags.
[26] Wagner gaf húsi sínu þetta nafn sem þýðir nánast „hugarró“. Húsið var gjöf frá Bæjarakóngi og þar af leiðandi brjóstmynd af honum fyrir framan húsið.
[27] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 224.
[28] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 118-19.
[29] Elísabet Foerster-Nietzsche, bls. 223.
[30] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 124.
[31] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 137
[32] Christopher Middleton, bls. 147.
[33] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 139.
[34] Friedrich Nietzsche on Wagner. Ensk þýðing: Anthony M. Ludovici, bls. 68.
[35] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 168.
[36] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 179. Ekki er getið um dagsetningu í heimild.
[37] Nietzsche, Friedrich: Unpublished Letters, bls. 137.
[38] Christopher Middleton, bls. 259-260.
[39] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 209.
[40] Köhler, bls. 143.
[41] Sama rit, bls. 143.
[42] Sama rit, bls. 142.
[43] Dietrich Fischer-Dieskau, bls. 166.
[44] H. L. Mencken, bls. xvii: formálsorð í bók Elísabetar Foerster-Nietzsche um bróður sinn og Wagner.
[45] Köhler, bls. 164.
[46] Köhler, bls. 165-166.
[47] Sama rit, bls. 50.
[48] Nietzsche, Friedrich: Unpublished Letters, bls. 152