Ólafur Kjartan og Bjarni Frímann léku á alls oddi á Söngskemmtun Íslensku óperunnar, s.l. föstudagskvöld, 19. mars.
Fyrri hluti tónleikanna voru helgaðir atriðum úr ýmsum óperum Wagners og síðast þeirra var kveðjusöngur Óðins til Brynhildar, eftir að hann hefur svipt hana guðdómi og lagt til svefndvala, umkringda vafurloga, þannig að aðeins kæmist að hetja og ofurmenni, sem síðar reyndist vera Sigurður Fáfnisbani.
Ólafur Kjartan hóf þetta atriði um kl. 20:30, sem tók um 15 mínútur og lýst er svo í fylgiriti efnisskrár Niflungahringsins frá 1984, í þýðingu Þorsteins Gylfasonar:
Óðinn kyssir Brynhildi á bæði augun. Hún sofnar og hann leggur hana til hvíldar. Síðan miðar hann spjóti sínu á mikinn klett.
Loki, heyr!
Hlustaðu vel!
Svo sem fann ég þig fyrst
sem fuðrandi glóð,
svo sem forðum þú hvarfst mér
sem leikandi logi.
Þá fórstu í bönd.
Þig særi ég fast.
Nú kom, leiftrandi logi,
og leiktu þér óður um klett!
Hann klappar klettinnþrisvar með spjótinu.
Loki! Loki! Kom hér!
Vafurloginn kviknar. Hindarfjall stendur í björtu báli.
Hver sá er óttast
odd á spjóti
hann aldrei vaði eld!
Úr Sigurkviðu hinni meiri:
Eldur nam að æsast,
en jörð að skjálfa
og hár logi
við himni gnæfa;
fár treystist þar
fylkis rekka
eld að ríða
né yfir stíga.
Klukkan er 20:45 og Veðurstofan tilkynnir stuttu síðar:
Eldgos hófst við Fagradalsfjall í Geldingadal, um kl. 20:45 í kvöld. Gosið er talið lítið og gossprungan um 500-700 m að lengd. Hraunið er innan við 1 km2 að stærð. Lítil gosstrókavirkni er á svæðinu.