Ágætu félagar.

Que sera, sera…. sagði í laginu hennar Doris Day um árið. Óvissan er enn okkar öruggasti fylginautur.

Félagið aflýsti ferðinni á Niflungahringinn í París í lok nóv/ byrjun des. 41 manns ætluðu að fara. Parísaróperan er enn með áform um að vera með konsertuppfærslu, en ég á eftir að sjá það gerast eins og staðan er. Okkur tókst sem betur fer að fá endurgreiðslu fyrir alla og inneign á það sem greitt hafði verið í flug.

Stjórnin hyggst reyna á hvort dagskrá á næstunni geti staðist, 7. nóv og 12. des í Safnaðarheimiinu með erindum Árna Blandon, sem einnig verði boðið upp á rafrænt og svo óperusýningu af DVD í Þjóðminjasafninu 21. nóv. Þar er fallegur salur og væri gaman ef gengi!

Utanlands frá er það að frétta að Katharina Wagner, yfirmaður Bayreuthhátíðarinnar er komin aftur til starfa eftir kröpp veikindi, fílefld: Sjá hér:

Þar er auðvitað stefnt á að hátíðin 2021 fari fram. Nýi Hringurinn þó geymdur til 2022.

Metropolitan óperan er enn með dalegar útsendingar: Sjá hér:.

Úti í Gautaborg er Ólafur Kjartan Sigurðarson að undirbúa sig fyrir hlutverk Alberichs í Siegfried. Hann segir að æfingar standi nú yfir og er að vonum lukkulegur. Í dag mega þó eingöngu 50 manns koma saman. Reiknað er með frumsýningu 29. nóvember.  Sjá hér:

Rainer Fineske, forseti Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga stefnir ótrauður á Wagnerdaga í Berlín í lok janúar Sjá hér:. Yfirskrift er NeuBayreuth 70 ár. Sýndur verður nýr Siegfried í leikstjórn Stefan Herheim og fleiri óperur í boði. Spurningin hvort af verður eða fólk þori að mæta, en Deutsche Oper hefur verið að sýna með fjöldatakmörkunum.

Steinunn B. Ragnarsdóttir fullyrti í blaðaviðtali nýlega að Valkyrjan yrði sýnd 25. og 27. febrúar. Orðið hefur lítils háttar breyting í hlutverkaskipan og leitað er að Wotan, sem Ólafur Kjartan átti að syngja en getur ekki á þessum dagsetningum.  Sjá hér:. Miðarnir sem nokkrir tugir félagsmanna hafa keypt gilda þá á sýninguna 27. febrúar. Margir höfðu líka keypt á píanótónleika Alberts Mamriev en ólíklegt er að af þeim verði, fari Valkyrjusýningin fram í febrúar. Þar sem okkur finnst veruleg óvissa hljóti að vera með febrúaráformin hefur stjórnin beðið með að aflýsa tónleikunum alveg eða bjóða annað í staðinn. Mikill fjöldi erlendra gesta hugðist koma, ef þetta yrði í maí en mun ekki koma um miðjan vetur í óvissuástandi.  Þeir sem keypt hafa miða af okkur geta hvenær sem er fengið endurgreiðslu á hvort sem er píanótónleikunum eða óperumiðunum gegn framvísun miðanna. Hafið samband við gjaldkera (jonragnar@simnet.is).

Með ósk um allan velfarnað til líkama og sálar: Keep safe and keep sane!
Selma