Ávörp listastofnanna fjögurra​

Hollendingurinn fljúgandi 2002 – Úr efnisskrá

Þjóðleikhúsið í maí 2002

Bjarni Daníelsson, óperustjóri Íslensku óperunnar

Með sameiginlegu átaki Íslensku óperunnar, Þjóðleikhússins, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listahátíðar er nú ráðist í uppfærslu á Hollendingnum fljúgandi sem er styst og að mörgu leyti aðgengilegust af óperum Wagners. Sömu aðilar tóku sig saman fyrir nokkrum árum og sýndu sérstaklega gerðan útdrátt úr Niflungahringnum, „Litla Hringinn“, sem svo var nefndur.

Hollendingurinn fljúgandi storkaði æðri máttarvöldum og var refsað með útlegð á heimsins höfum. Á sjö ára fresti mátti hann koma að landi og freista þess að finna ást og tryggð konu og losna þannig úr álögunum. Ef til vill erum við að storka örlögunum með því að sýna Wagner við þær aðstæður sem eru til óperuflutnings á Íslandi. Margar óperur hans eru bæði mannfrekar og langar og reyna jafnvel á þolrifin hjá áhorfandanum. Hins vegar er það reynsla þeirra fjölmörgu sem gefa sig að óperum Wagners að þeir ánetjist magnþrunginni tónlist hans, jafnvel svo að önnur óperutónlist blikni við samanburðinn.

Daníes Bjarnason

Verk Wagners eru svo mikilvæg í óperubókmenntunum að ekki verður hjá því komist að flytja þau hér á landi. Sumir segja raunar að óperur Wagners eigi hvergi betur heima en á enda sé bakgrunns þeirra oft að leita í þeim bókmenntaarfi sem best hefur varðveist á íslensku. Vonandi eiga íslenskir áhorfendur eftir að taka slíku ástfóstri við óperur Wagners að þær verði sjálfsagður hluti af tónlistarlífinu hér, en komi ekki bara að landi á sjö ára fresti til að freista gæfunnar.

Ég þakka fyrrnefndum listastofnunum fyrir samstarfið. Ykkur, áhorfendur góðir, óska ég eftirminnilegrar kvöldstundar með Wagner.

Stefán Baldursson, Þjóðleikhússtjóri

Það sætir tíðindum að fjórar af helstu menningarstofnunum landsins skuli nú í annað skipti sameina krafta sína í óperuflutningi og er kannski vottur þess að til þess að standa að veglegri sviðsetningu óperu á Íslandi er slíkt samstarf ekki aðeins æskilegt heldur óhjákvæmilegt.

Að sviðsetja helstu og mestu óperur tónlistarsögunnar krefst aðstæðna og fjármagns, sem engin ein umræddra stofnana ræður við ein og sér. Þótt Þjóðleikhúsið sé enn það leikhús, sem best er fallið til óperuflutnings hérlendis, er ljóst að leikhúsið tekur allt of fáa áhorfendur í sæti til þess að unnt sé að standa undir kvöldkostnaði óperusýningar. Jafnvel þótt ofangreindir aðilar leggist allir á eitt og komi hver og einn að verkefninu með sitt framlag: Sinfóníuhljómsveitin með hljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra, Íslenska óperan með einsöngvara og kór, Þjóðleikhúsið með leikstjóra, höfunda annarra listrænna þátta, leikmynd og búninga, húsnæði og allt tæknistarfsfólk og loks Listahátíð, sem átti frumkvæðið að samstarfinu og leggur til þess fjármagn, þarf engu að síður að greiða háar upphæðir með hverri sýningu verksins.

Það er því löngu tímabært að huga að stærra húsnæði, sem hýst getur óperur og ánægjulegur áfangi, að nú skuli hafa verið samþykkt að reisa tónlistarhús með allt að þreföldum sætafjölda Þjóðleikhússins og aðstöðu fyrir óperusýningar þegar svo ber undir. Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í samvinnunni við sviðsetningu Hollendingsins fljúgandi og þótt ýmsir byrjunarörðugleikar hafi skotið upp kollinum, má mönnum vera ljóst að án samstarfs um þessi mál, höfum við Íslendingar ekki efni á að koma upp reglubundnum óperusýningum í framtíðinni.

Stefán Baldursson

Það er því löngu tímabært að huga að stærra húsnæði, sem hýst getur óperur og ánægjulegur áfangi, að nú skuli hafa verið samþykkt að reisa tónlistarhús með allt að þreföldum sætafjölda Þjóðleikhússins og aðstöðu fyrir óperusýningar þegar svo ber undir. Það hefur verið lærdómsríkt að taka þátt í samvinnunni við sviðsetningu Hollendingsins fljúgandi og þótt ýmsir byrjunarörðugleikar hafi skotið upp kollinum, má mönnum vera ljóst að án samstarfs um þessi mál, höfum við Íslendingar ekki efni á að koma upp reglubundnum óperusýningum í framtíðinni.

Þjóðleikhúsið þakkar samstarfsaðilunum ánægjulega samvinnu og óskar áhorfendum góðrar skemmtunar á þessari fyrstu Wagneróperu, sem sýnd er í heild sinni hérlendis.

Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar íslands

Það var orðið löngu tímabært að flytja heila Wagneróperu hér á Íslandi. Þegar ákveðið var að stefna að miklum viðburði og efna til sýninga á óperu eftir Richard Wagner í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð varð Hollendingurinn fljúgandi fyrir valinu. Megin ástæðan fyrir þessu vali var sú að ekkert hús hérlendis getur með góðu móti hýst fullgilda uppfærslu á viðamikilli Wagneróperu. Hollendinginn er hins vegar hægt að færa upp við ófullkomnari aðstæður en flestar af óperum Wagners. Við urðum að sníða okkur stakk eftir vexti.

Þröstur Ólafsson

Það var því mikið ánægjuefni þegar skrifað var undir samkomulag um byggingu tónlistarhúss þann 11. apríl síðastliðinn. Þar verður nægilegt rými fyrir flutning stærstu tónverka, og það hefur verið fullyrt af ráðamönnum að undir hljómsveitarpallinum verði hljómsveitargryfja. Engin vandkvæði verða þá lengur á því að flytja Wagneróperur hérlendis eða önnur stórvirki tónbókmenntanna.

Sinfóníuhljómsveit Íslands fagnar þessum merka áfanga og þakkar fyrir sig.

Fullgild sýning á viðamikilli óperu er svo kostnaðarsöm að engin ein listastofnun hérlendis er nægilega öflug til að geta ein borið þá fjárhagslegu ábyrgð sem því fylgir. Til að þessi sýning gæti orðið að veruleika þurfti samstarf fjögurra listastofnana.

Gott og skapandi samstarf hefur orðið milli þeirra sem sýnir að hægt er að lyfta Grettistaki með samstarfi. Í þessari samvinnu stendur engin stofnun annarri framar.

En þótt stofnanir myndi starfsrammann, þá er það þó listafólkið og tæknimennirnir sem með skapandi túlkun sinni og handbragði breyta nótum Wagners í þann listræna unað sem hrífur okkur og gerir okkur mennina eilítið stærri á eftir.

Góða skemmtun.

Þórunn Sigurðardóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík 2002

Það er sérstakt ánægjuefni að á opnunarkvöldi Listahátíðar 2002 skuli vera frumsýnd á sviði á Íslandi óperan Hollendingurinn fljúgandi, fyrsta óstytta Wagneróperan sem sýnd er hér á landi og gæti reyndar líka gerst hér á landi, sem er meira en hægt er að segja um flestar aðrar óperur tónbókmenntanna. Hér taka höndum saman þær stofnanir, sem óperuunnendur á Íslandi eiga allt sitt undir. Framtíð óperuflutnings hér á landi er að verulegu leyti háð samstarfi þessara stofnana, sem hver um sig hefur sitt sérsvið og þarf á hinni að halda, að minnsta kosti enn um sinn.

Þórunn Sigurðardóttir

Samstarf sem þetta, sem Listahátíð átti frumkvæði að, er afar mikilvægt hjá fámennri þjóð. Jafnvel hjá milljónaþjóðum er áríðandi að helstu listastofnanir, sem njóta opinberra styrkja, taki höndum saman þegar um sérstaklega metnaðarfull verkefni er að ræða, þannig að unnt sé að ná hámarksárangri innan þess fjármagnsramma sem stofnununum er búinn. Slík samvinna reynir á þolrifin, mismunandi skipulag og ólíkir samningar við starfsmenn krefjast sveigjanleika, skilnings og mikils faglegs metnaðar. Það kostar sitt að teljast menningarþjóð, það er ekki nóg að krefjast góðrar aðstöðu, listamenn og stofnanir þeirra þurfa líka að leggja sitt af mörkum í vinnubrögðum til að sú nafnbót eigi við. Við undirbúning að byggingu tónlistarhúss er mikilvægt að menn hafi gert nokkrar marktækar tilraunir með slíka samvinnu þannig að forðast megi mistök og árekstra þegar lengra er komið. Samvinna sparar mikið fjármagn, sem betur er nýtt til listrænna ávinninga.

Vonandi verður þessi sýning til þess að menn geri sér betur grein fyrir mætti samstarfs og samvinnu og síðast en ekki síst, – til þess að gefa Íslendingum kost á að njóta afburða listviðburðar fremstu innlendra og erlendra listamanna við bestu fáanlegu aðstæður.

Góða skemmtun.