Efniságrip óperunnar

Hollendingurinn fljúgandi 2002 – Úr efnisskrá

Þjóðleikhúsið í maí 2002

1. þáttur

Fárviðri geisar. Skip Dalands varpar akkerum skammt frá heimahöfn. Skipstjóri og áhöfn taka á sig náðir. Stýrimaðurinn á að standa vakt. Án þess að hann verði þess var birtist skip Hollendingsins fljúgandi. Hollendingurinn rekur raunir sínar, og segir frá þeirri bölvun sem á honum hvílir. Öldum saman hefur hann mátt sigla fram og aftur um heimsins höf. Hann þráir að deyja til að öðlast lausn undan álögunum, en hann getur ekki dáið. Eina von hans um endurlausn er að öðlast ást trúrrar konu. Á sjö ára fresti stígur hann á land í leit að slíkri ást. Hollendingurinn býður Daland gull og gersemar fyrir einnar nætur gistingu. Hann kemst að því að Daland á dóttur. Daland er heillaður af ríkidæmi þessa ókunna manns, sem kynnir sig einfaldlega sem Hollending, og lofar honum hönd dóttur sinnar, Sentu.

2. þáttur

Í spunasalnum í húsi Dalands bíða stúlkurnar óþolinmóðar eftir heimkomu manna sinna, sem eru á sjó með Daland. Senta er með allan hugann við mynd af Hollendingnum fljúgandi. Fóstra hennar Mary hefur oft sagt henni sögu hans, og hún hefur verið gagntekin af henni allt frá barnsaldri. Nú rekur Senta söguna fyrir stúlkunum. Veiðimaðurinn Erik birtist og tilkynnir að skip Dalands stefni að landi. Hann vill giftast Sentu, og biður hana að leggja inn gott orð fyrir sig hjá föður hennar. Ókunnur maður (Hollendingurinn) birtist. Með honum er Daland sem freistar þess að kynna hann fyrir dóttur sinni með giftingu þeirra í huga. Þau nálgast hvort annað varfærnislega. Sentu finnst hún sjá mynd Hollendingsins fljúgandi í ókunna manninum. Hollendingurinn verður hugfanginn af Sentu. Þau samþykkja bæði ráðahaginn.

3. þáttur

Skipverjar á skipi Dalands fagna heimkomunni ásamt stúlkunum sínum. Hópurinn hvetur áhöfnina á skipi Hollendingsins til að taka þátt í gleðskapnum en fær ekkert svar. Draugalegar raddir berast frá skipinu og allir flýja. Senta birtist í brúðarkjól. Í síðasta sinn grátbiður Erik hana að halda tryggð við sig. Full meðaumkunar faðmar Senta vin sinn að sér. Í þeim svifum kemur Hollendingurinn aðvífandi og heldur að hann hafi verið svikinn enn á ný. Þær konur sem hafa staðið í sporum Sentu, og svikið Hollendinginn, hafa uppskorið eilífa fordæmingu, en Hollendingurinn leysir Sentu undan þeim örlögum. Hann stígur á skip sitt og segist vera Hollendingurinn fljúgandi. Senta heitir honum tryggð allt til dauða og kastar sér í hafið.