Það er álitamál hvort líta beri á þessi birtingarform sem sjálfstæð leiðarfrymi, því að bau virðast gegna nánast sama merkingarlega hlutverki og endurlausnarfrymið sjálft.
Fyrir utan þessi tvö leiðarfrymi og þrjú afleiddu leiðarfrymi er töluvert af öðrum frymum sem koma fyrir aftur og aftur í óperunni, og ef þau eru ekki leiðarfrymi, hvað eru þau þá? Í vel þekktum kafla úr ritinu Eine Mitteilung an meine Freunde (Orðsending til vina minna) skrifaði Wagner:
Ég minnist þess að hafa gert drög að ballöðu Sentu í öðrum þætti Hollendingsins fljúgandi, áður en ég tók til við eiginlega samningu verksins, og skrifað bæði Ijóð og lag; í þessu atriði sáði ég án þess að vita það stefjafrækorninu að allri tónlistinni í óperunni: Það var samanþjöppuð mynd af öllum harmleiknum, eins og hann stóð mér fyrir hugarsjónum; og þegar ég þurfti að finna nafngift fyrir verkið fullgert var mér einna næst skapi að kalla það „dramatíska ballöðu“. Þegar ég tók endanlega til við tónsetninguna, þá breiddist ósjálfrátt stefjamyndin sem ég hafði skynjað yfir allt tónleikverkið í samfelldum vef; ég þurfi aðeins að leyfa stefjakímunum sem leyndust í ballöðunni að þróast til fullnustu, hverju í sína átt, án frekari áreynslu viljans, og öll meginhughrif skáldverksins urðu mér sjálfkrafa aðgengileg í ákveðnu stefrænu sköpulagi.
Þetta var ritað árið 1851, um svipað leyti og Wagner var að hefjast handa við að yrkja kvæðið um Niflungahringinn, en tíu árum eftir að hann lauk við að semja tónlistina við Hollendinginn fljúgandi og tveimur árum áður en hann byrjaði á tónlistinni við Rínargullið. Þau eru augljóslega lituð af því verkefni sem hann var þá að byrja að fást við og hafði eytt mörgum árum í að búa sig undir, meðal annars með því að skrifa bókina Oper und Drama, sem hann Iauk einmitt við í janúar 1851 og var einskonar fræðileg undirstaða undir aðferðirnar sem hann átti eftir að nota í Niflungahringnum. Auðvitað er ógerlegt að dæma um að hve miklu leyti hugmyndir hans um tónlistina í Niflungahringnum voru mótaðar á þessum tíma; kannski ekki nema að litlu leyti, því að hann virðist hafa átt í nokkrum erfiðleikum við að komast af stað að semja hana. En þó mætti Iíka hafa í huga eftirfarandi orð sem hann skrifaði í bréfi um mitt árið 1845, eða nokkrum mánuðum eftir að hann lauk við Tannhäuser:
Til að byrja með getur ekkert efni höfðað til mín nema það sem birtist mér fyrir hugskotssjónum, ekki aðeins í skáldlegri, heldur einnig í sömu svipan í tónlistarlegri merkingu. Áður en ég fer að yrkja kvæði, eða gera uppkast að atriði, þá er ég óðara ölvaður af músíkölskum ilmi sköpunarverks míns, ég hef alla tóna, öll einkennandi frymi í höfðinu, svo að eiginlega óperan er Iíka tilbúin um leið og kvæðið er tilbúið og atriðin komin á sinn stað, og úrvinnsla tónlistarinnar í smáatriðum er þá meira eða minna róleg og yfirveguð eftirvinna, en hin eiginlega tilurð er þegar komin á undan.
Við verðum því að Iíta á tilvitnuð orð hans frá 1851 í Ijósi þess sem var að gerjast innra með honum þegar þau voru skrifuð. Það eru stórkostlegar ýkjur að tónlistin í Hollendingnum sé öll sprottin af ballöðu Sentu. Skoðum samt málið nánar. Það er söguleg staðreynd að hann samdi ballöðu Sentu fyrst af öllu, og þar næst sjómannakórinn og kór draugaáhafnarinnar í skipi Hollendingsins, og þetta gerði hann að því er virðist í maí og júlí 1840, eða um það bil ári áður en hann lauk við endanlegan texta óperunnar og tók til við að semja tónlistina í heild. Þegar að því kom gat hann því að nokkru leyti raðað saman heilum tilbúnum atriðum. Þessi aðferð er allsendis ólík þeirri sem hann viðhafði á seinni árum, en þá byrjaði hann venjulega á að semja kvæðið fyrst og skrifa svo drög að allri óperunni á tvo nótnastrengi, nefnilega einn streng fyrir söngröddina og annan fyrir bassalínu og örfáar aðrar vísbendingar um endanlega hljómsveitargerð.
Ballaða Sentu er því einskonar kveikja að Hollendingnum, svo að við skulum athuga hvaða stefjaefni er þar að finna, og hvað af því er notað annarsstaðar í óperunni. Þá er þess fyrst að geta að þar er að finna öll fimm leiðarfrymin sem þegar hafa verið nefnd. Senta byrjar til dæmis ballöðuna með því að syngja leiðarfrymi Hollendingsins í þessari mynd: