Wagner og þjóðsagan um Hollendinginn fljúgandi
Hollendingurinn fljúgandi 2002 – Úr efnisskrá
Árni Tómas Ragnarsson
Þjóðleikhúsið í maí 2002
Þjóðsagan um Hollendinginn fljúgandi var vel þekkt í Evrópu löngu áður en Richard Wagner skrifaði óperu sína. Ekki er vitað um nákvæman aldur sögunnar eða uppruna, en hún var til í ýmsum útgáfum. Þær áttu það allar sameiginlegt að segja frá draugalegu skipi hollensks skipstjóra, sem knúinn var til að sigla um heimsins höf vegna bölvunar sem á honum hvíldi.
Ein fyrsta þekkta skrifaða heimildin um söguna birtist í ensku tímariti, Blackwood’s Magazine, árið 1821, en það var smásagan Vanderecken’s Message Home. Þar segir að sjötíu árum áður hafi hollenski skipstjórinn Vanderecken svarið þess dýran eið að sigla til dómsdags ef hann aðeins næði að komast fyrir Góðrarvonarhöfða gegn óveðri og ólgusjó. Þegar það gekk síðan eftir neyddist hann til að halda áfram að sigla um heimsins höf og hafði Hollendingurinn það fyrir sið að stöðva þau skip sem hann mætti og biðja skipverja þeirra um að taka bréf heim til ættingja og vina, sem þá voru auðvitað löngu látnir. Engin gæfa fylgdi því að taka við bréfum Hollendingsins og allir sjómenn óttuðust að mæta skipi hans. Hinn óþekkti höfundur sögunnar gerir ráð fyrir því að lesendur þekki vel til efnis hennar, en sjálfur leggur hann áherslu á það trygglyndi Hollendingsins gagnvart fjölskyldu sinni sem fram kemur með bréfasendingum hans.
Árið 1826 var sýnt leikrit í London, sem bar heitið Hollendingurinn fljúgandi eftir höfund sem kallaði sig Edward Fitzball, en vera má að Heinrich Heine hafi einmitt séð leikritið flutt á sviði í London. Fleiri dæmi mætti nefna um frásagnir af Hollendingnum fljúgandi, en hér nægir að vita að sagan var þá þegar vel þekkt víða í Evrópu. Boðskapur ýmissa útgáfa sögunnar var þó mismunandi. Stundum var aðaláherslan ekki lögð á hin dapurlegu örlög Hollendingsins sjálfs heldur á óhugnaðinn í sögunni; á draugasöguna. Þau skip sem komust í tæri við Hollendinginn fljúgandi áttu sér til dæmis enga von; þau fórust jafnan í því óveðri sem eilíft fylgdi skipi hans. Stundum var hins vegar lögð áhersla á þann þátt sögunnar sem sýndi fram á svikult eðli kvenna (samanber La donna e mobile!); aldrei skyldi vesalings Hollendingurinn geta fundið sér konu sem yrði honum trú. Þetta tema nærðist væntanlega á efa þeirra sjómanna sem voru langdvölum burtu frá konu sinni. Á hinn bóginn var líka til útgáfa af sögunni sem sýndi fram á hið gagnstæða; – þar sem eiginkonan var Hollendingnum trú til dauða og það var sonur þeirra sem frelsaði Hollendinginn úr álögunum um leið og hann fórnaði sjálfum sér (á svipaðan hátt og Senta gerir í óperunni).
Heinrich Heine og von Schnabelewopski
Það er þó óumdeilt að frásögn Heinrichs Heine var sú sem langmest áhrif hafði á Richard Wagner við gerð óperunnar um Hollendinginn fljúgandi. Árið 1834 birti Heine í Salon nokkrar frásagnir sem báru titilinn Minningar Herra von Schnabelewopski. Sögumaður segir þar frá því þegar hann fór í leikhús í Amsterdam og sá leikrit sem byggði á hinni þekktu sögu um Hollendinginn fljúgandi. Von Schnabelewopski lýsir síðan Ieikritinu, hvernig skipstjórinn hafi svarið að sigla að eilífu og kölski tekið hann á orðinu, en undankomuleið átti skipstjórinn fyndi hann trygglynda konu í því landleyfi sem hann fékk á sjö ára fresti.
Í leikritinu þóttist aumingja Hollendingurinn oft heppinn að sleppa úr hnappheldunni og vildi frekar halda áfram að sigla. En loks hitti skipstjórinn þó Katharinu, dóttur skosks skipstjóra, sem lofaði honum tryggð til dauða. En einmitt þá kom von Schnabelewopski auga á fallega Ijósku á meðal áhorfenda og kynnti sig óðara fyrir henni. Sú reyndist þá meira en tilkippileg og þau brugðu sér afsíðis smástund. Þegar þau komu aftur var leikritinu alveg að Ijúka, en þó var Ijóst að Hollendingurinn hafði varað Katharinu við þeim örlögum sem myndu bíða hennar ef hún bindi trúss sitt við hann. En „frú Hollendingurinn fljúgandi“ (eins og Heine kallar hana) lét sig þetta engu skipta og til að sýna og sanna trygglyndi sitt fleygði hún sér í sjóinn og var bölvuninni þar með aflétt, skipið sökk og Hollendingurinn fékk loks að ganga á vit feðra sinna.
Eins og sést þá hefur Heine ekki tekið söguna alltof hátíðlega og hann klykkir meira að segja út með því að segja að mórallinn í sögunni sé sá að konur eigi að passa sig á að giftast ekki fljúgandi Hollendingum og eins að karlmenn ættu að hafa það á hreinu að jafnvel þegar mest á ríði þá verða konur mönnum yfirleitt að falli! Ætli Gunnar á Hlíðarenda hefði ekki líka skrifað undir það?
Áhrif Heinrichs Heine á Wagner
Þrátt fyrir þessa afstöðu Heines, þá er það nú samt aðeins í sögu hans þar sem fram kemur að eini möguleiki Hollendingsins til frelsunar sé fórn konu og telja má víst að einmitt þaðan hafi Wagner fengið þá hugmynd sína enda hafði hann lesið verk Heines. Munurinn var þó sá að hann tók hugmyndinni alls ekki eins og hverju öðru gríni, eins og Heine gerði. Önnur atriði sögunnar um Hollendinginn gæti Wagner þó hafa lesið um eða heyrt hér og hvar á löngum tíma.
Í sjálfsævisögu sinni gefur Wagner það í skyn að hann hafi þegar verið farinn að velta þessu efni fyrir sér sem óperu áður en hann árið 1839 hélt upp í hina sögufrægu siglingu til London frá Riga, þaðan sem hann flúði skuldheimtumenn sína. Á þeirri leið kvaðst hann hafa heyrt sjómennina segja sögu Hollendingsins og þegar skip hans lenti í miklu óveðri og varð að leita vars undir háum klettaveggjum norskra stranda, þá segir hann að sjórinn, vindurinn, klettarnir og köll sjómannanna hafi haft svo sterk áhrif á sig að hann hafi alveg á stundinni fengið fyrstu hugmyndir sínar um þá tónlist sem myndi hæfa verkinu.
Lýsing Wagners á tilurð óperunnar
Þetta kemur einmitt skýrt fram í bréfi sem Wagner skrifaði 1843, en í lauslegri endursögn segir hann: „Þegar ég samdi Hollendinginn fljúgandi var það djúp sannfæring mín að ég gæti ekki gert það á annan hátt. Í hinni frægu sjóferð minni var ég eitt sinn umkringdur norskum hamraveggjum og þá orkaði þessi saga – sem var mér löngu kunn frá Heine – alveg sérstaklega sterkt á mig, bæði andrúmsloft hennar og sérstaða; vissulega var hún blandin óhugnaði, en þó af þeirri gerð sem snertir okkur öll, – ekki aðeins þá sem hafa sérstaka trú á draugum.
Það er ekki auðvelt að láta villt hafið og þjóðsöguna renna saman í eitt í óperuformi, en ég fann að öll þessi saga um Hollendinginn fljúgandi, svo full af ólgandi hafi, hafði gripið mig slíkum heljartökum að ég yrði að finna leið til að koma því listrænt til skila. Til þess yrði ég vissulega að skera niður í sögunni og blanda ýmsu saman til að fá fram óperutexta, sem byði upp á æsilega spennu, óvæntar uppákomur og svo framvegis í takt við kröfur og smekk nútímans. TiI að seiður þjóðsögunnar fengi notið sín sem best í heildinni reyndi ég þó að breyta frumsögunni ekki meira en nauðsynlegt var til að fullnægja kröfum um dramatíska framvindu. Ég trúði því að aðeins á þennan veg gæti ég náð að viðhalda upprunalegum töfrum þjóðsögunnar þannig að allir þeir sem skilning hafa á skáldskap gætu lifað sig sem best inn í þessa dapurlegustu sögu allra sagna.“
Þjóðsagan verður viðfangsefni Wagners
Það er merkilegt að þetta var fyrsta óperan sem Wagner gerði, sem byggði á þjóðsögu. Það átti hann eftir að gera æ síðan ef Meistarasöngvararnir eru undanskildir, en þeir byggja að miklu leyti á sögulegum atburðum. Wagner sagði sjálfur að kjarnann í manninum væri finna í þjóðsögum og goðsögum sem lifað hefðu í aldir og myndu því áfram gilda um alla framtið – hvar sem er. Hann hélt því fram að þær endurspegluðu þær frumkenndir, sem öllum manneskjum væru sameiginlegar.
Hér má hafa í huga að viðfangsefni hinnar þýsku rómantísku óperu þessa tíma var annars vegar náttúran og hinsvegar hið yfirnáttúrulega eða óhugnanlega, samanber óperurnar Freischütz eftir helstu fyrirmynd Wagners, Carl Maria von Weber, og Der Vampyr eftir Heinrich Marschner. Viðskipti manns við dularverur annars heims koma sérstaklega fram í fyrstu „alvöru“ óperum Wagners (Hollendingurinn – Djöfullinn – Hollendingurinn, Senta -Hollendingurinn og Tannhäuser: ástargyðjan Venus – Tannhäuser, sem er tilbrigði við söguna um viðskipti Ólafs liljurósar við álfameyjarnar).
Þótt leggja megi út af frumgerð þjóðsögunnar á ýmsa vegu þá er ljóst að Wagner valdi þann kostinn að leggja annars vegar áherslu á einsemd og óhamingju Hollendingsins og svo göfuga fórn hinnar saklausu Sentu, sem leiddi til lausnar hans. Við það fær sagan hjá Wagner þrátt fyrir allt „Happy End“. Þessi hugmynd Wagners að maður verði leystur undan bölvun sinni eða óhamingju fyrir fórn konunnar sem elskar hann átti síðan eftir að endurtaka sig í nokkrum óperum hans, til dæmis í Tannhäuser og Niflungahringnum.
Náttúran í verkum Wagners
Eins og fyrr segir lagði Wagner mikla áherslu á að hið villta haf væri í stóru hlutverki í Hollendingnum fljúgandi og er ekki hægt að segja annað en að honum hafi tekist það vel. Þetta var þó aðeins upphafið að því sem koma skyldi. Náttúran sjálf og náttúruöflin skipa stóran sess í öllum óperum hans. Tannhäuser vaknar upp úti á engi eða í skógarrjóðri eftir að hann hefur yfirgefið björg Venusar og hann gefur öndina einnig upp úti á víðavangi undir stjörnuhimni. Lohengrin kemur siglandi upp fljótið og hittir Elsu í skógarjaðri og hverfur aftur í lokin á sama stað. Niflungahringurinn er uppfullur af tilvísunum í náttúruna; klettarnir, skógurinn, eldfjallið, veiðiferðin og svo framvegis. Tristan og Isolde sigla á sjó í fyrsta þætti og elskast í skóginum í öðrum þætti. Meira að segja í Meistarasöngvurunum í Nürnberg, sem er borgarsaga, syngur Walther lofsöng til náttúrunnar og lokaatriðið gerist í fögrum skógarlundi. Um Parsifal þarf vart að ræða, skógurinn er í fyrsta þætti, garður Klingsors, endurkoma Parsifals í skóginum í þriðja þætti. En það eru ekki bara gróðurinn og landslagið sem Wagner elskar að lýsa í tali og tónum – hann treður einhverju kvikindi inn í næstum hverja einustu óperu sína – leikstjórum oftast til mikillar hrellingar. Dúfur og svanir, skógarfuglar og hrafnar, já, jafnvel hestar og skógarbirnir eiga að birtast á óperusviði Wagners (að maður tali nú ekki um drekann!). Þó er ekkert dýr í Hollendingnum, ekki einn einasta fisk hefur hann til dæmis skrifað í allan þennan sjó! Kannski ekki átt kvóta?
Hver er Guðjón bak við tjöldin?
Verk Wagners gefa oft tilefni til margvíslegra hugleiðinga. Hollendingurinn er tákngervingur einsemdar og firringar, hann á sér enga von, markmið hans eru vonlítil og veikburða. Skyldi nútímamaðurinn ekki geta fundið eitthvað af sér í honum? Hin aðaluppistaða óperunnar er Senta, stúlkan góðgjarna, samúðarfulla og fórnfúsa. Þótt þessir eiginleikar séu ekki beinlínis stórlega auglýstir í dag, þá blómstra þeir samt allt í kringum okkur ef vel er að gáð. Hugsum okkur bara allar Senturnar, sem svo Iítið ber á, vinna fyrir lítið kaup við hjúkrun og aðhlynningu sjúkra og aldraðra!
Önnur forvitnileg spurning gæti einnig vaknað. Leit Wagner á sig sjálfan sem Hollendinginn bak við tjöldin?
Þegar Wagner skrifar Hollendinginn er hann „einmana“ og misskilinn listamaður, sem þráði lausn. Hann var enn ekki útlagi eins og Hollendingurinn var í óeiginlegum skilningi, en hann hafði flúið til Parísar, fátækur, smáður og fjarri heimahögum. Hann þráði að vísu ekki dauðann eins og Hollendingurinn, en hann þráði lausn, viðurkenningu, frægð og frama – og líklega hefði smávegis af peningum ekki skaðað. Sumir segja að Wagner hafi alltaf verið að skrifa um sitt eigið hlutskipti, hann hafi séð sig sem Tannhäuser (misskilinn listamaður), Lohengrin (enn misskildari), Siegfried (lausnari mannkyns), Walter (misskilinn listamaður, sem á endanum verður þó skilinn – enda gamanópera!) og loks Parsifal, sem verður andlegur frelsari alls mannkyns. Auðvitað var Wagner líka Tristan, en það var mikið tristara en hitt því þar lék hann bara ófullnægðan elskhuga, en engan bjargvætt og var alls ekkert misskilinn.