Meistarinn mikli í Bayreuth
Árni Tómas Ragnarsson
Úr efnisskrá Niflungahringsins 1994
Richard Wagner var sannarlega skilgetið afsprengi síns tíma. Margir helstu menningarstraumar 19. aldar fengu framrás í verkum hans og hann hafði meiri og viítækari áhrif á samtíð sína og eftirkomendur en flestir aðrir. Wagner var jafnframt meðal umdeildustu listamanna síns tíma; ekki aðeins fyrir óperur sínar, sem ýmist vöktu undrun og aðdáun eða hatur og reiði, heldur voru ýmsar kenningar hans mjög umdeildar og einkalíf Wagners og persóna vöktu oft mikla hneykslan. Enn í dag — meira en hundrað árum eftir dauða hans — er deilt um manninn Richard Wagner og stundum hafa verk hans verið látin gjalda þess. Sumum hefur orðið tíðræddara um skrautleg samskipti hans við hið veikara kyn, óreiðu hans í fjármálum, fjandsamleg skrif hans um gyðinga og takmarkalausa trú hans og upphafningu á sjálfum sér, en um þær stórfenglegu óperur sem halda munu nafni Wagners á lofti um ókomin ár.
Listamaður í mótun
Þegar á unga aldri hreifst Richard Wagner af leikhúsi, skáldskap og tónlist. Hann mun aldrei hafa notið mikillar tónlistarmenntunar og í upphafi ferilsins kaus hann fremur að líta á sig sem skáld en tónlistarmann. Sem drengur dáðist hann að leikritum Forngrikkja jafnt sem tónlist Bachs, Mozarts, Glucks og Beethovens, og hann sökkti sér á kaf í skáldskap Goethes og leikrit Williams Shakespeare. Seinna vaknaði áhugi hans á heimspeki og trúmálum og í síðari verkum hans endurspeglast djúpur skilningur á þeirri tegund sálarfræði sem síðar átti eftir að koma fram meðal Freud og lærisveina hans í Vínarborg.
Richard Wagner hreifst snemma af þjóðernisvakningu Þjóðverja og tók síðar virkan hátt í stjórnmálum. Arið 1849 átti hann aðild að misheppnaðri byltingartilraun í Dresden og varð að flýja land. Rótleysið fylgdi Wagner alla tíð; mestan hluta ævinnar átti hann engan fastan bústað heldur flakkaði á milli landa og stóð víðast stutt við. Það var fyrst árið 1872, þegar hann var tæplega sextugur, sem hann eignaðist eiginlegt heimili í Bayreuth, Villa Wahnfried.
Í tónlistinni átti Wagner sér fyrirmynd í Beethoven og hann leit á óperur sínar sem rökrétt framhald af níundu sinfóníu hans. En í verkum Wagners gætti einnig áhrifa frá mörgum öðrum tónskáldum; nefna má Carl Maria von Weber, Vincenzo Bellini og ýmis frönsk óperutónskáld. Í fyrstu óperum sínum reyndi Wagner fyrir sér í nokkrum helstu stíltegundum óperutónlistar sem mestra vinsælda nutu á hans tíma; hann samdi þá verk í anda þýskrar rómantíkur (Die Feen), í stíl ítalskrar gamanóperu (Das Liebesverbot) og franskrar „grand opera“ (Rienzi). Um síðir fann hann þó sinn eigin stíl, sem ekki aðeins tók mið af öllu þessu, heldur reyndist einnig svo nýr og frumlegur að vestræn tónlist varð ekki söm á eftir.
Áhrifamikill kenningasmiður
Bókasafn Richards Wagner var gríðarstórt og hann var víðlesnari en nokkurt annað tónskáld. En jafnframt því sem hann las mikið um hin ólíkustu efni, urðu rit hans sjálfs einnig mikil að vöxtum. Þau fjölluðu ekki aðeins um kenningar hans á sviði lista, svo sem um tengsl óperu og tónlistar við leiklist, heimspeki og trúmál, heldur einnig um fjölmörg önnur mál sem þá brunnu á samtíma hans jafnt í stjórnmálum, heimspeki sem vísindum. Ritgerðir Wagners eru ekki auðveldar aflestrar svo hlaðnar eru þær af orðskrúði og upphafningu. Það getur því tekið lesandann langan tíma að skilja hvert höfundurinn er að fara, en samt leynast þar einhverjar byltingarkenndustu hugmyndir óperusögunnar. Höfuðrit hans í listrænum efnum, Oper und Drama, fjallar um nauðsyn þess að allar listgreinar sameinist í einni, óperunni, í anda Forngrikkja. Það má svo teljast eitt af undrum veraldar að Wagner hafi síðar tekist að útfæra þessar kenningar sínar um Gesamtkunstwerk í tilfinningaþrungnustu tónverkum, sem samin hafa verið.
Áhrif Wagners á skáld og rithöfunda
Á sama hátt og Wagner tók margt af því besta úr menningu og listum fortíðar og samtíðar og gerði úr því mikilfengleg listaverk, þá áttu verk hans sjálfs síðar eftir að hafa mikil áhrif á fjölmörgum sviðum. Áhrifa Wagners hefur ekki aðeins gætt í heimi tónlistar og óperu, heldur einnig í leikhúsi, bókmenntum og skáldskap, heimspeki og stjórnmálum. Í gervallri mannkynssögunni fyrirfinnst varla hliðstæða manns sem hafði svo víðtæk áhrif á jafn mörgum sviðum menningar og lista.
Úr heimi skáldskapar má nefna sem dæmi að eitt áhrifamesta Ijóð 20. aldar, The Waste Land eftir T.S. Eliot, hefur að geyma margar tilvitnanir úr óperum Wagners og er miðkafli þess saminn með atriði úr óperunni Ragnarök sem fyrirmynd. Skáldsagan Ódysseifur eftir James Joyce, sem ýmsir telja eitt helsta meistaraverk 20. aldar á sviði ritlistar, inniheldur ekki aðeins ótal tilvitnanir í verk Wagners, heldur er verkið allt skrifað með hliðsjón af óperum Wagners. Texti verksins er þannig ein samfella þar sem viss stef eru endurtekin og í eintali persóna skáldsögunnar er þess freistað að túlka það með orðum sem Wagner lét leik hljómsveitarinnar tjá í óperum sínum — að kafa niður í undirvitund mannssálarinnar. Hér má einnig nefna, að skáldin W. H. Auden, Thomas Swinburne, Oscar Wilde, Virginia Woolf og D. H. Lawrence, urðu öll fyrir miklum áhrifum af kenningum og verkum Wagners.
Það var þó rithöfundurinn Bernard Shaw, sem hafði mest dálæti á Wagner. Hann skrifaði m.a. fræga bók um Niflungahringinn, The Perfect Wagnerite. Shaw dáðist ekki hvað síst að hugsuðinum Richard Wagner og taldi að með því að kalla fram samruna tilfinninga og rökhugsunar á leiksviðinu hefði Wagner fyrstur manna sýnt fram á að hægt væri að vekja áhuga leikhúsgesta á hugmyndafræðilegri umræðu.
Áhrif Wagners í Frakklandi
Um miðja síðustu öld var París miðstöð menningar og lista í Evrópu. Þótt óperur Wagners hafi ekki fengið góðar viðtökur meðal almennings í borginni, þá urðu áhrif hans þar mjög mikil. Mörg helstu skáld og rithöfundar Parísar voru ákafir aðdáendur Wagners og skrifuðu ótal greinar í Parísarblöðin um hrifningu sína á verkum hans. „Við rithöfundarnir ræddum ekki aðeins um tónlist, heldur einnig um málaralist, skáldskap og heimspeki út frá forsendum Wagners“, sagði Romain Rolland. „Við skoðuðum og dæmdum allan heiminn út frá hugsun meistarans í Bayreuth.“ Í þessum hópi voru höfuðskáldin Baudelaire og Mallarmé, en Baudelaire hafði sérstakt dálæti á Wagner. Sagt er að þegar hann háði banastríð sitt fárveikur og sárkvalinn, hafi hann samt brosað sínu breiðasta þegar hann heyrði nafn Wagners nefnt. Af öðrum aðdáendum Wagners má nefna skáldin Villiers, Gautier, Verlaine, Laforgue og Émile Zola og síðar þá Valéry og Proust.
Franskir listmálarar voru einnig í hópi aðdáenda Wagners og urðu sumir þeirra fyrir miklum áhrifum frá verkum hans. Hér má nefna impressionistana Cézanne, Renoir (sem málaði frægt portrett af Wagner), Gauguin, Degas og Whistler. Sumir málaranna sóttu myndefni í atriði úr óperum Wagners.
Það voru þó frönsku tónskáldin, sern mest hrifust af Wagner. Í óperu Debussys, Pelléas og Mélisande, má augljóslega greina áhrif frá Wagner og tónskáldin Chausson, Saint-Saëns og Gounod beinlínis dýrkuðu hann þegar sýning óperunnar Tannhäuser kolféll í París sagði Gounod: „Guð gæfi að ég fengi samið verk sem félli svona!“ Og Bizet sagði um Wagner: „Það sem gerir tónlist hans svo heillandi verður ekki tjáð með orðum; því er ekki unnt að lýsa. Þar má finna jafnt megnasta losta sem mikla viðkvæmni og göfugustu ást.“ Tónskáldið Chabrier brast í grát við sýningu á Tristan og Isolde í Bayreuth og Lekeu varð svo mikið um að yfir hann leið og þurfti að bera hann út. César Franck var einnig mikill aðdandi Wagners og í sumum verka hans heyrast greinileg áhrif frá tónlist Wagners. Loks má nefna að Jules Massenet var stundum kallaður „Mademoiselle Wagner“.
Spámaður í föðurlandi
Á heimaslóðum bar Wagner ægishjálm yfir önnur tónskáld; aðeins Johannes Brahms veitti honum nokkra samkeppni. En á meðan Brahms hafði fornar dyggðir í mestum heiðri í verkum sínum, ruddi Wagner nýjar brautir í tónlistinni og naut því almenns stuðnings framsækinna tónskálda. Franz Liszt var tengdafaðir Wagners þótt þeir væru nánast jafnaldrar. Tónlist Liszt hafði talsverð áhrif á tónsmíðar Wagners, en á móti dýrkaði Liszt tónlist Wagners og leit á hann sem einn mesta tónsnilling allra tíma. Ein þekktasta ópera Dvoráks, Rusalka, er greinilega samin undir áhrifum frá tónlist Wagners og Anton Bruckner var einlægur aðdáandi hans og tileinkaði honum eina sinfónfu sína. Gustav Mahler skrifaði konu sinni: „Í tónlistinni eru aðeins Beethoven og Richard — og á eftir þeim — enginn“. Loks getur hver sá sem hlustar á tónlist Richards Strauss heyrt að nafni hans Wagner hefur verið honum fyrirmynd.
Framan af ævi var Wagner fullur bjartsýni og baráttuhug. Þá aðhylltist hann kenningar þýska heimspekingsins Feuerbachs, en sár vonbrigði hans eftir þátttöku í misheppnaðri byltingartilraun Dresden 1849 og útlegð hans þar á eftir gerðu Wagner svartsýnni svo hann dróst að efahyggju og bölsýni í heimspeki Schopenhauers. Wagner var náinn vinur heimspekingsins Friedrichs Nietzsche og þótt hann hafi um síðir hafnað Wagner í orði, dáði hann lengstum bæði manninn og verk hans. Sagt er að Nietzsche hafi talið samband sitt við Wagner vera eitthvert hið mikilvægasta sem fyrir sig hafi borið á Iífsleiðinni. Fyrsta rit Nietzsches, Fæðing harmleiksins, var tileinkað Wagner, og mörg önnur rit hans tengjast Wagner eða verkum hans á einn eða annan hátt.
Thomas Mann, einn helsti rithöfundur Þjóðverja, var mikill aðdáandi Wagners og gætir áhrifa tónskáldsins víða í ritverkum hans. Hann komst m.a. svo að orði um óperur Wagners: „Undur og stórmerki — engin orð fá betur lýst þessum undursamlegu afurðum listarinnar — þessi orð eiga ekki betur við um neitt annað í gervallri sögu listrænnar sköpunnar, ef til vill að örfáum gotneskum dómkirkjum undanskildum.“
Richard Wagner var maður andstæðna og þversagna; allt sem hann var og aIlt sem hann gerði var stórt í sniðum. Þetta birtist jafnt í lífi hans sem verkum, í hinu jákvæða og stórfenglega sem í hinu neikvæða og lítilfjörlega. Að þekkja Richard Wagner og umgangast hann var það sama og að falla að fótum hans — að öðrum kosti hefði hann reynst óþolandi. Þetta á einnig við um óperur hans, sem enn í dag ýmist heltaka hlustendur eða hrinda þeim frá sér. En eitt er þó víst — að hver sá sem gefur sig tónlist hans á vald verður ekki samur maður á eftir.
Árni Tómas Ragnarsson