Ávarp

Niflungahringur Wagners á Íslandi – ekki aðeins óvenjulegur, heldur einstæður viðburður. Segja má að listaverkið hverfi þar með aftur til goðsögulegs uppruna síns og ái við Mímisbrunn, sem óhugsandi er að geti hafa átt sér upptök annars staðar en á þessu eylandi.

Sú hugmynd að setja á svið verk eftir Wagner, innan þeirra marka sem hinni ungu listahátíð í Reykjavík eru sett, hreif mig, já heillaði mig frá upphafi. Án þess að hugsa mig tvisvar um féllst ég á að leggja mitt af mörkum sem listrænn ráðunautur. Eftir að hafa ráðfært mig við aðstandendur hátíðarinnar ákvað ég að setja á svið stytta gerð af fjórleiknum. Ekkert verka Wagners er jafn nátengt norrænni, einkum þó íslenskri menningu. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að orðlengja hve mikilvægu hlutverki hin óviðjafnanlegu Eddukvæði gegna í verkinu. Ég vil einungis nefna að þegar ég kom í heimsókn til Íslands í fyrsta sinn átti ég þess kost að skoða handritið og meira að segja fletta því …

Wolfgang Wagner

Það er merkilegt að í bókasafni Richards Wagner var að finna sömu íslensk-þýsku orðabókina og notuð hefur verið allt til þessa dags. Eintakið ber glögg merki þess, að það hefur ekki legið óhreyft. Þetta er til vitnis um þær rannsóknir sem Wagner lagði á sig til að komast til botns í hinu ósvikna eðli goðsögunnar, komast fyrir hinar dýpstu rætur.

Það gefur þessari fyrstu Wagneruppfærslu á íslensku leiksviði tvímælalaust aukið gildi að tilefnið skuli vera 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins. Mér er það sérstakt gleðiefni að það skuli einkum vera íslenskir listamenn og samverkafólk þeirra sem standa að þessu einstæða og lofsverða menningarstefnumóti þjóða okkar. Við lágum heldur ekki á liði okkar í Bayreuth. Vonandi eiga stórhugurinn og eljan, sem einkenna þetta tímamótaframtak, eftir að bera ríkulegan ávöxt. Okkur öllum, skipuleggjendum, þátttakendum og áhorfendum, óska ég þess, að sýningin verði eftirminnileg og veki með okkur löngun til nýrra dáða.

Wolfgang Wagner