Niflungahringurinn til Íslands
Selma Guðmundsdóttir
Úr efnisskrá Niflungahringsins 1994
Það hefði mátt heyra saumnál detta. Við erum stödd í Þjóðleikhúsinu 25. janúar 1993 þar sem gestirnir frá Bayreuth, Wolfgang Wagner og kona hans Gudrun, eru á fundi með fulltrúum Lista-hátíðar. Wolfgang var að setja fram hugmyndir sínar um fyrstu Wagner-uppfærslu á Íslandi fyrir Listahátíð í Reykjavik á 50 ára afmæli lýðveldisins. Orð hans voru á þessa leið:
Tilefnið býður uppá að eitthvað einstakt, eitthvað sem ekki hefur verið gert áður, og vegna tengsla verks afa míns Richards Wagner við fornbókmenntir ykkar tel ég einsætt að skoða þá hugmynd að setja upp eins kvölds sýningu á Niflungahringnum. Unnið yrði að styttingu með sérstöku tilliti til hins íslenska bakgrunns þess, en brot þau, sem flutt yrðu, mætti síðan tengja í samhengi á íslenskri tungu. Stefna ætti að því að sem flestir listamenn sýningarinnar yrðu íslendingar, þannig að túlkun og flutningur verksins beri með sér reynslu og skilning þeirrar þjóðar, sem endur fyrir löngu skapaði og færði í letur þann bókmenntaarf sem Niflungahringurinn að svo miklu leyti byggir á. Wolfgang Wagner hefur tekist á flug. Augljós sköpunargleði og eldmóður hans kveikja strax í öllum viðstöddum. Hugmyndin kemur á óvart. Flestir höfðu reiknað með því að Wagner segði að íslenskar aðstæður leyfðu í hæsta lagi flutning á Hollendingnum fljúgandi. Sumir voru auk þess sannfærðir um að íslenskir listamenn ættu lítið erindi við óperur Wagners og höfðu jafnvel búist við uppástungu um gestasýningu frá Þýskalandi.
Aðstæður kannaðar
Þennan sama dag og þann næsta er viðræðum haldið áfram. Auk Þjóðleikhúss eru Íslenska óperan og Borgarleikhús skoðuð, meira að segja Laugardalshöll, þar sem við eyðum drjúgum tíma. Þar eru takmarkanir vegna rýmis minnstar, en um leið augljóst að nánast þyrfti að innrétta heilt leikhús í Höllinni. Wolfgang Wagner stikar fram og til baka um stóran völlinn. Í einu horni eru íslenskir drengir að æfa fótbolta. Oft munar minnstu að Wagner verði þátttakandi í leik þeirra. Að tengja þetta umhverfi við leikhús og dramatískan heim Richards Wagner er ekki áreynslulaust.
Þó eygir Wolfgang Wagner möguleika. Hann bendir á leiðir sem gera myndu uppsetningu í húsinu kleifa. En þá þyrfti að ráðast í framkvæmdir, sem að hans mati ættu einungis rétt á sér ef þær nýttust íslendingum í framtíðinni, bæði hvað snertir rekstur þessa ákveðna mannvirkis og menningarlífsins í landinu í heild. Í orðum hans kemur fram sterk umhyggja fyrir íslensku menningarlífi í nútíð og framtíð.
Samvinna Bayreuth-Reykjavík
Þegar líður að lokum heimsóknar Wolfgangs Wagner er enn sest á rökstóla og teknar ákvarðanir. Ákveðið er að kanna til hlítar hvort íslendingar geti sett upp Niflungahringinn með fyrrgreindum hætti. Gerð er tíu vikna áætlun um verklag. í Bayreuth ætlar Wagner að skoða verkið með tilliti til styttingarinnar og er stefnt að því að stytta verkið úr 15 tímum í 3 tíma auk tengitexta sem verði u.þ.b. 30 mínútur. Wagner tekur að sér að finna hljómsveitarstjóra. Hér heima verður safnað upplýsingum fyrir Wagner um íslenska söngvara, leikstjóra og leikmyndahönnuði, en hann ætlar síðan sjálfur að velja listafólkið úr þeim hópi. Á næstu vikum fljúga faxar tíunda ára-tugarins ört á milli Festspielhaus og Gimlis (Skrifstofa Listahátíðar).
Áfram eru gerðar verkáætlanir með tímamörkum. Verði dráttur á málum í Bayreuth bregst ekki að Wagner taki upp símann og láti heyra frá sér. Föstudaginn langa kemur eitt slíkt símtal frá Wolfgang og Guðrúnu. Vinsamlegt og hlýlegt, til að láta vita að við séum þeim ofarlega í huga og munum heyra frá þeim innan skamms.
Sérstök íslensk uppfærsla
Í maímánuði liggja fyrir frumdrög að styttum Niflungahring. Auk þess listi yfir íslenska söngvara. Kannað er í skyndi hvort 16 þeirra séu fáanlegir til að taka þátt í uppfærslunni. í ljós kemur að 15 íslenskir söngvarar eru reiðubúnir til þátttöku. Um svipað leyti gefur „gamall Íslendingur, vinur og samstarfsmaður Wagners, Alfred Walter, kost á sér sem hljómsveitarstjóri verksins, en Walter var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1969-1970. Í júníbyrjun er leitað til þeirra Þórhildar Þorleifsdóttur leikstjóra og Sigurjóns Jóhannssonar leikmyndahönnuðar um að vinna að uppsetningunni. Á þessu stigi verður ljóst að við munum ná hinu upphaflega markmiði — og jafnframt forsendu þess að setja upp brot úr Niflungahringnum, – að þetta verði sérstök íslensk uppfærsla verksins.
Á sama tíma og unnið hefur verið að því að tryggja listrænar forsendur uppsetningarinnar hefur stjórn Listahátíðar ekki setið auðum höndum hvað varðar fjárhagslegar forsendur og framkvæmd. Tekin hefur verið ákvörðun um að sýningin fari fram í Þjóðleikhúsinu og náðst hefur einstætt samkomulag um að fjórar íslenskar menningarstofnanir taki höndum saman um uppsetninguna; auk Listahátíðar og Þjóðleikhúss eru það Íslenska óperan og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Heimsóknir til Bayreuth
Lorem ipsum dolor sit amet, consectetur adipiscing elit. Ut elit tellus, luctus nec ullamcorper mattis, pulvinar dapibus leo.
Þetta fór allt af stað í júlí 1992. Við Árni Tómas erum á leið til Bayreuth til að sjá Hollendinginn fljúgandi og Tannhäuser. Skömmu áður er stjórnarfundur í nýskipaðri stjórn Listahátíðar. Þar eru mættir Valgarður Egilsson, Sjón og Kristján Steingrímur, auk mín. Þegar við kveðjumst segir Valgarður: „Náðu fyrir okkur í eitt stykki Wagner-óperu“. Árni Tómas var orðinn vel kunnur frábærlega elskulegu starfsliði í Festspielhaus frá fyrri ferðum sínum. Þegar við komum til Bayreuth ber hann upp erindi okkar við þau Barböru Christ og Jeter Emmerich, um að fá samtal við Wolfgang Wagner fyrir hönd Listahátíðar í Reykjavik. Okkur er stefnt baksviðs eftir sýningu á Tannhäuser. Á milli þess sem Wolfgang Wagner, leikstjóri sýningarinnar, gengur fram og hneigir sig og tekur við fagnaðarlátum áhorfenda, hlustar hann á erindi okkar tveggja íslendinga, sem viljum halda upp á 50 ára lýðveldisafmæli landsins okkar með því að frumflytja Wagner á Íslandi. Wolfgang Wagner er strax afar jákvæður og kveðst lengi hafa haft áhuga á Íslandi, ekki síst vegna bókmenntanna, sem hafi haft svo mikla þýðingu fyrir Richard Wagner.
Ári síðar erum við aftur stödd í Bayreuth. Nú ásamt Valgarði Egilssyni og Stefáni Baldurssyni Þjóðleikhússtjóra. Undirbúningur er á lokastigi fyrir uppfærslu Niflungahringsins á Listahátíð 1994. Ákveðið er að Wolfgang Wagner verði titlaður listrænn ráðgjafi sýningarinnar. Hann býður fram alla aðstoð, sem hann og leikhús hans geti veitt hér eftir sem hingað til. Við njótum dyggrar aðstoðar þeirra Stephan Jöris og Dorotheu Glatt sem eru í liði nánustu samstarfsmanna Wagners. Það er sagt um frú Glatt að hún sé eins og Erda sem allt veit um söngvara. Enda er það hún sem á heiðurinn af því að útvega söngvara í hlutverk Óðins, Brynhildar og Sigurðar Fáfnisbana. Þarna eru einnig Þórhildur leikstjóri og Sigurjón leikmyndahönnuður, sem hafa fengið að kynnast heimi Wagners og haft aðgang að Festspielhaus um nokkurt skeið. Hljómsveitarstjórinn, Alfred Walter kemur einnig til Bayreuth og lögð er síðasta hönd á val atriða til sýningarinnar. Á þessu stigi er ljóst að ekki verður aftur snúið, áformin munu verða að veruleika.
Litli Hringurinn á Listahátíð
Þau drög að styttingu Niflungahringsins, sem fyrir lágu í maí 1993, eru uppistaða sýningar Lista-hátíðar 1994. Þegar haft er í huga að útdrátturinn á að þjóna því tvöfalda markmiði að hafa sérstaka hliðsjón af íslenskum bakgrunni verksins, en um leið að gefa góða mynd af heildarverkinu og inni-halda tónlistarlega og leikræna hátinda þess, þarf engan að undra þótt erfiðlega hafi gengið að skera verkið niður í 3 tíma. Raunin varð sú að lengd atriðanna er nær 4 tímum og þar við bætist hinn talaði texti, sem tengir brotin saman. í þessum „Litla Hring“ okkar íslendinga eru 30 hlutverk en í „Stóra Hringnum eru 34. Mímir hefur fallið út, svo og nornirnar þrjár í Ragnarökum. Söngvarar eru þó aðeins átján. Tólf þeirra syngja fleiri en eitt hlutverk. Á þann hátt tekst að halda fjölda söngvara í lágmarki.
Litli Hringurinn er í þremur þáttum. Fyrsti þáttur byggir á fimm brotum úr Rínargullinu, en annar þáttur á níu brotum úr Valkyrjunni. Þessir tveir þættir eiga það sammerkt að þeir hefjast og þeim lýkur á upphafi og enda viðkomandi óperu. Þriðji þátturinn byggir svo á sex brotum úr seinni óperunum tveimur, Sigurði Fáfnisbana og Ragnarökum.
Í heild má segja um þennan útdrátt úr Niflungahringnum, að hann fylgi þræði gullsins; sögunni um Rínargullið eru gerð allgóð skil, afdrifum þess og áhrifavaldi á leið þess frá Rínardætrum í hendur dverga, sem smíða úr því hringinn máttuga, þaðan til guða, risa og manna, og síðan aftur til Rínardætra þegar öllu er lokið.
Saga guðanna verður fyrirferðarmikil, söguvettvangur Niflheims fellur út. Völsungar eru mjög í sviðsljósinu, Gjúkungar minna. Óhætt er að fullyrða að flestir hápunktar verksins, sem áður hafa verið valdir til ýmiss konar útgáfu í samandregnu formi, eru með í þeim útdrætti sem sýndur verður hér.
Styttingin byggir á hefð
Stytting Niflungahringsins er ekki sjálfsagður hlutur og allra síst fyrir afkomendur Richards Wagner. Hugmynd Wolfgangs Wagner um sýningu Listahátíðar í Reykjavik 1994 byggir þó á vissri hefð. Áður en Niflungahringurinn var frumfluttur í heild sinni hafði Richard Wagner oft þann háttinn á að kynna verkið í brotum með talaðri frásögn á milli.
Það er í anda þeirrar hefðar sem sýning Listahátíðar fer á fjalirnar. Þau Þórhildur Þorleifsdóttir og Sigurjón Jóhannsson hafa tekist það vandasama hlutverk á hendur að skapa heildstæða sýningu úr fyrrgreindum efniviði og fengið til liðs við sig ágætt skáld og mikinn kunnáttumann um Wagner, íslenskar bókmenntir og tónlist, Þorstein Gylfason. Engum nema Sigurði Fáfnisbana tókst að skeyta saman brot sverðsins Notung. Ég efa ekki að þessu snjalla leikhúsfólki okkar íslendinga muni takast jafn vel upp við brot Niflungahringsins.