Óperur Richards Wagner

Úr efnisskrá Niflungahringsins 1994

Óperum Richards Wagner er gjarnan skipt í þrjá flokka. Í þeim fyrsta eru „æskuverkin“ Die Feen, Das Liebesverbot og Rienzi (þessi verk eru ekki tekin til sýninga í Bayreuth), í öðrum flokknum fyrstu verk hins „fullþroska listamanns“ Hollendingurinn fljúgandi, Tannhäuser og Lohengrin, og þeim þriðja eru svo hin fullmótuðu „Musikdrama“ Wagners Niflungahringurinn, Tristan og Meistarasöngvararnir í Nürnberg og Parsifal.

Hollendingurinn fljúgandi - lokaatriði

Die Feen (Álfkonurnar). Rómantísk ópera í þremur þáttum. Texti óperunnar saminn eftir sögu Carlo Gozzis, La donna serpente. Hún var fullgerð 1834 og frumsýnd í München 1888.

Das Liebesverbot (Ástarbannið). „Grand“ gamanópera í tveimur fráttum í ítölskum stíl. Texti óperunnar saminn eftir leikriti Shakespeares Measure for measure. Hún var fullgerð 1836 og frumsýnd í Magdeburg sama ár.

Rienzi. „Grand“ ópera í fimm þáttum í frönskum stíl. Textinn saminn eftir skáldsögu Edward Bulwer-Lytton Rienzi, the Last of the Tribunes. Óperan var fullgerð 1840 og frumsýnd í Dresden 1842.

Hollendingurinn fljúgandi. Rómantísk ópera þremur þáttum. Textinn að hluta gerður eftir sögu Heinrichs Heine Aus den Memoiren des Herren von Schnabelewopski. Óperan fjallar um Hollendinginn fljúgandi, sem að eilífu var dæmdur til að sigla um heimsins höf þar til hann fyndi konu sem sýndi honum sanna ást og sviki hann ekki. Óperan var fullgerð 1841 og frumsýnd Dresden 1843.

Tannhäuser und der Sängerkrieg auf Wartburg. Rómanatísk „grand“ ópera í þremur þáttum. Texti eftir þýskum miðaldasögnum; annars vegar um söngvakeppnina í Wartburg og hins vegar um Tannhäuser og Venusberg. Óperan fjallar um söngriddarann Tannhäuser, sem lifir lostafengnu lífi í Venusberg. Hann snýr baki við syndinni og iðrast, en fær fyrst fyrirgefningu fyrir fórn hinnar hreinu Elísabetar. Óperan var fullgerð 1845 og frumsýnd í Dresden sama ár. Hún var síðan flutt í talsvert breyttri gerð í París 1861.

Lohengrin. Rómantísk ópera í þremur þáttum. Texti gerður eftir nokkrum þýskum miðaldasögnum um riddarann Lohengrin, son Parsifals. Óperan fjallar um það hvernig Lohengrin, hreinsar Evu af fölskum áburði, en vegna ístöðuleysis hennar verður hann síðar að yfirgefa hana. Óperan var fullgerð 1848 og frumsýnd í Weimar 1850 undir stjórn Franz Liszt.

Niflungahringurinn. Hátíðarsjónleikur fyrir leiksvið í þrjá daga auk kynningarkvölds. Allt verkið var fullgert 1874 og frumsýnt sem heild í Bayreuth 1876.

Rínargullið. Kynningarkvöld í fjórum atriðum. Fullgerð 1854. Frumsýnd í München 1869.

Valkyrjan. Fyrsti dagur í þremur þáttum. Fullgerð 1856. Frumsýnd í München 1870.

Siegfried. Annar dagur í þremur þáttum. FulIgerð 1871. Frumsýnd í Bayreuth 1876.

Ragnarök. Þriðji dagur í þremur þáttum með forleik. Fullgerð 1874. Frumsýnd i Bayreuth 1876.

Tristan og Isolde. Ópera í þremur þáttum. Textinn gerður eftir víðfrægri norðurevrópskri sögu. Óperan fjallar um brennandi ást Tristans og Isolde, sem nær hámarki við dauða þeirra. Óperan var fullgerð 1859 og frumsýnd í München 1865.

Meistarasöngvararnir í Nürnberg. Gamanópera í þremur þáttum. Hún fjallar um skósmiðinn Hans Sachs, sem leiðir riddarann Stolzing í allan sannleika um dýpsta eðli listarinnar. Með söng sínum sigrar Stolzing fyrst í söngvakeppni meistarasöngvaranna og fær síðan hönd Evu. Óperan var fullgerð 1867 og frumsýnd í München 1868.

Parsifal. Hátíðarhelgileikur í þremur þáttum. Textinn byggir á helgisögninni um riddarann Parsifal og hinn heilaga Gral. Óperan fjallar um „hinn hreina dára“ Parsifal, sem með staðfestu sinni þroskast frá fávisku til þess að verða lausnari riddarareglu hins heilaga Grals. Óperan var fullgerð 1882 og frumsýnd í Bayreuth sama ár.

Meistarasöngvararnir í Nürnberg. Stokkhólmsóperan 1977