Til fundar við Wagner
Stytt úr bókinni Hvað ertu tónlist? AB 1986
Árni Kristjánsson
Úr efnisskrá Niflungahringsins 1994
Ég átti þess kost sumarið 1968 að koma til Bayreuth og sjá Niflungahring Wagners í fyrsta sinn á ævinni, allt verkið í heild og á sínum rétta stað. Þessi ferð mín var engri annarri Iík, sem ég hef farið um dagana, því að þetta var engin venjuleg reisa, heldur mín fyrsta „suðurganga” ef svo má segja. Ég fór þangað til þess að drekka „hinn hreina mjöð Baugregins”, þ.e. Wagners, og fann angan hans þegar fyrir vitum mér, því að allt gott, sem við eigum í vændum, gerir boð á undan sér.
Í Bayreuth rættust draumar Richards Wagner. Draumar Wagners? Já, Wagner dreymdi stóra drauma: um nýtt samfélag, nýja menningu, nýtt líf og nýja list, nýtt leikhús handa þjóðinni í andstöðu við hirðleikhús þeirra tíma, og hann boðaði hugsjónir sínar ræðu og riti, en einkum þó í söngleikjum sínum, sem áttu að vera fyrirmyndir eða frummyndir að listaverkum framtíðarinnar og jafnframt magnaðar hugvekjur til nýrra lífsskoðana. Der Ring des Nibelungen eða Niflungahringurinn er ekki einasta mesta verk Wagners að fyrirferð, þessi fjórleikur er hans heimsmyndunarsaga og Iífsjátning.
Músíkdramað — hið nýja listaverk
Dramað – goðsögnin – var hans heimur. „Helgasta köllun mannsins,“ sagði hann, „er listin, en æðsta takmark listarinnar er dramað.“ Dramað, þ.e. músíkdrama Wagners, sem svo hefur verið kallað, „hið nýja listaverk“, á að verða til fyrir samverkan allra listgreina. Heitið „músíkdrama“ taldi hann síður en svo vera réttnefni; hann sagði það valið verkum sínum til hnjóðs af óvinveittum gagnrýnendum. Hér geti ekki verið um neinn sjónleik eða drama að ræða, eins og nafnið feli í sér, slíkt heiti geti í hæsta lagi átt við um þann óskapnað sönglistarinnar, sem beri hið fáránlega nafn „ópera“, söngleikaform, sem teygði dramað og togaði á alla lund til að samþýðast tónlistinni — form sem Wagner fyrirleit og vildi feigt. En músíkin, sú list, sem kennd var við listgyðjurnar eða músurnar, skyldi á ný hefjast til síns forna vegs og binda í sér söng, póesíu, leik og látbragðslist í einu samfelldu listaverki eða hljómandi sjónarspili. Tónlistin var upphaf dramans, sagði Wagner, og það á hún aftur að verða. „Hún er hvorki fylgikona þess né frilla, hún er þess móðir. Hún hljómar, og það sem hún hljómar, verður yður augum ljóst á leiksviðinu — en hvað hún er, getið þér aðeins rennt grun í; þess vegna birtist hún yður í líkingum á leiksviðinu, líkt og þegar móðir lýkur upp leyndardómum trúarinnar fyrir börnum sínum með því að segja þeim helgisögur.“ „Ég vildi helst mega lýsa sjónleikum mínum sem sýnilegum athöfnum tónlistarinnar sjálfrar,“ sagði hann enn fremur. „Bühnen Festspiel“, „hátíðarsjónleikur“ var það heiti er hann að lokum kaus „Hringnum“ þegar hann bauð til fyrstu hátíðarinnar í Festspielhaus í Bayeruth árið 1876.
Bayreuth - draumamir rætast
Wagner hafði lengi dreymt um hið nýja hátíðarleikhús sitt, hina nýju Wartburg, nýju Akropólís, þaðan sem rödd hans skyldi hljóma um veröld víða. Og það skyldi standa á leyndum stað í Bragalundi, langt úr alfaraleið veraldarhyggjunnar því að hann hugsaði sér hátíðarsýningar sínar sem n.k. launhelgar í nýjum anda. Hann lýsti því þannig: „Leikhúsið á að standa á hæð og sjást langt að. Þangað á fólk að flykkjast úr öllu landinu og leita sér sálubótar í samneyti við fegurð háleitrar og skírrar listar. Aðeins hið besta á að vera á boðstólum og flutt á því samboðinn hátt. Þjóðin á sjálf að efna til listahátíðarinnar og skal einskis endurgjalds krafist.“
Bayreuth varð fyrir valinu og var leikhúsið reist þar á grænni hæð í hinu fegursta umhverfi með tiIstyrk góðra manna undir forystu vinar Wagners og velunnara, Lúðvíks II. Bæjarakonungs. Og í Bayreuth Iét Wagner Iúðra gjalla og kveða saman þýska þjóð 1876 um líkt leyti og minnst var Fróni með þjóðhátíð Íslands þúsund ára. Einnig hin þýska þjóð gat þá minnst síns uppruna og sameðlis sem einnar örlagaheildar. Í fjarvídd goðsagnarinnar, eða í Ijósi þeirrar heimsmyndunarsögu, sem Wagner rakti í fjórum ginnmögnuðum sjónarspilum, studdum þeim fornu fræðum, sem skráð eru í Eddu og sögum okkar lands, mátti þjóð hans sjá sjálfa sig sem í skuggsjá og kanna rök mannlegrar tilveru sinnar. Niflungahringurinn hljómaði hér í fyrsta sinn í heild og sagan varð að veruleika. Draumar Wagners rættust.
Andstætt eðli ástar og valdafíkni
Ástin, sem Wagner kallaði „Minne“, þ.e. munúð í víðtækum skilningi, var örlagaþráður Iífs hans og listar. Lohengrin, Gralsriddarinn, stígur niður af helgu fjalli til að njóta faðmlagsins Elsu; Tannhäuser duflar við frú Venus, en dreymir um ást Elísabetar, hinnar hreinu og björtu meyjar; Tristan þráir brúðkaupsnótt dauðans með Ísold, hina eilífu ástarsælu, en Parsifal vinnur kórónu kærleikans með skírlífi sínu. Einnig í Hringnum er ástin kveikur atburðarásarinnar; andstæða hennar er valdafíknin, hin kærleiksvana eigingirni, gullæðið, en af víxláhrifum beggja skauta mótast framvinda sögunnar, mótspil manna og guða, sjálfstæðis og örlaga, einstaklings og heildar. Hringurinn er ímynd máttarins, sem allt bindur og umlykur, sem breytir auðn í veröld; hann er tákn hins hverfanda hvels í tímans rás og hins eilífa endurhvarfs alls til upphafs síns. Gullhringurinn, sem valdaræninginn Alberich smíðar úr ósnortnu gulli fljótsins eftir að hafa hafnað og formælt kærleikanum, er tákn veraldarvaldsins, girndarinnar — hann er bölvaldurinn, sem spillir og tortímir þeim sem eignast hann. Fyrst þegar Brynhildur hefir gengið undir skírslu þjáningarinnar, fylgir hetjunni Sigurði hinum goðumborna, „frjálsa“ og saklausa manni — á bálið og varpar hringnum aftur í fljótið, leysist veröldin undan bölvun valdsins.
Tónlistin — frumvaki Niflungahringsins
Vatn og eldur umlykja heimsmynd goðsögunnar. Veröldin rís af öldum Rínar, en ferst í ragnarökkri eldsins. En af öskunni rís hin nýja, æðri veröld. Ragnarökkur Hringsins eru heimsslitin í huga Óðins, alföðurins, sem vill sín eigin endalok. Að baki hans og alls, sem gerist á sviðinu, er tónskáldið. Tónskáldið veit allt fyrir og opinberar okkur það með tónlistinni, sem, eins og hann sagði, er frumvaki verksins. Tónlist Wagners er ein óslitin tónrás, síkvikult hreyfrafl þess, sem fram fer í sjónarspili sviðsins. Hver persóna, guð, vættur, vera, — hvert náttúrufyrirbrigði, hver kennd og hugsun, samsvarar ákveðnum tónmyndum, táknstefum eða kennistefum — Leitmotiv-um, sem tónlistin tjáir okkur, og verða þeir er sjá og heyra að kunna skil á þeim til að geta notið leiksins til fulls. En sá sem skilur, veit sem völvan allt sem var og er og verður — sér hið óorðna fyrir og hið orðna í því sem í upphafi var. Þríhljómurinn, sem verkið hefst á, er um leið upphaf tónlistar eða sá mystíski hljómur, sem skáldið E.T.A. Hoffmann sagði að „allir aðrir hljómar væru aðeins glitur af eða stjörnur, er spynnu um oss geislaham og byrgðu oss í þeim hjúpi, þar til sál vor flygi til sólar.“ Þykir mér Iíklegt að Wagner hafi haft þessa líkingu skáldsins í huga þegar hann valdi sér Es-dúr þríhljóminn að upphafstónum, enda vel kunnugur kenningum og skáldskap Hoffmanns. „Hljóðfærin,“ segir Wagner, „tákna frumöfl sköpunarmáttarins og náttúrunnar. Það, sem þau tjá,“ segir hann, „er raunar ósegjanlegt og verður ekki skilgreint af því að þau gefa sjálfa frumkenndina til kynna, er brýst fram úr djúpi upphafsins, þess er var, jafnvel áður en maðurinn varð til og gat skynjað hana. Mannsröddin er annars eðlis. Hún tjáir innstu kenndir hjartans, sem allar eiga eitthvert takmark. Hún er þess vegna túlkandi í eðli sínu, hún er sérstæð og ákveðin. Það sem gera þarf er að fella þessa tvo miðla hvorn að öðrum og saman í eina heild, tefla tilfinningum hjartans, sem söngröddin tjáir, gegn blindri frumkenndinni, takmarkalausri og óstöðvandi, sem hljóðfærin lúta, en það lægir ofsa hennar og býr þverstreymi beggja beinan farveg. En hjartað víkkar og vex um leið og það fyllist frumkenndinni og getur þá, með guðlegum andvara, greint hið æðsta, sem áður var því hulið og meinað að skynja nema í óljósri mynd.“
Frumkenndin, sem Wagner talar um, þ.e. lífshvötin sjálf, hinn síkviki, blindi vilji náttúrunnar í okkur, hið innsta og dýpsta eðli mannsins, sem siðferðisvitundin agar og bindur, en tónlistin leysir og göfgar. Tónlistin er táknmál þeirrar vitundar, sem við vitum ekki af; æðri sem lægri. „Orð og tónar,“ segir Nietzsche, „eru draumabrýr og friðarbogar milli þess, sem eilíflega er að skilið.“
Líf án listar — ekkert líf
Það að fer enginn samur af fundi sínum við Wagner. Ef ég spyr endurminninguna um það, hvaða atriði mér hafi þótt mest til um í Hringnum, svarar hún mér: Ástarfundur þeirra Sigmundar og Siglindu, systkinanna í Valkyrjunni, og „Dauði Siegfrieds“ í Ragnarökkri. Í báðum þessum atriðum, sem úrslitum valda um gang sögunnar, slær tónskáldið gígju sína af þvílíkum guðmóði að ómögulegt er að sitja algáður undir flutningi þeirra. Hugljómun elskendanna og algleymisást, sem tónlistin Iyftir í æðra veldi, orkar á mann með slíkum mætti að engin hugsun um synd eða sifjaspell kemst þar að. Fegurðin ein, kærleikurinn, guðdómsviljinn er allsráðandi og gagntekur þann, er þetta sér, heyrir og lifir. Eins fékk „Dauði Siegfrieds“ í leiknum, sem sorgarslagurinn umvefur dýrðarljóma helgrar sorgar, svo mjög á mig, að mér verður aftur þungt og þó hlýtt um hjartarætur, er ég hugsa til þessa atriðis. Andagift Wagners er hér svo máttug að einnig við, sem nemum, þykjumst „sjáandi sjá og heyrandi heyra“, skynja og skilja.
Að lokinni frumsýningu fjórleiksins í Bayreuth árið 1876 gekk Wagner fram fyrir tjaldið, stillti með einni handbendingu fagnaðarlæti áheyrenda og sagði: „Vér höfum nú fengið sannanir fyrir því að listin getur lifað. Það er undir yður sjálfum komið, hvort hún á að lifa áfram.“
Ef til vill á „peningamúgurinn“ einhvern þátt í því að hægt er að halda uppi jafnstórbrotnum sýningum og þeim, er fram fara í Bayreuth á hverju sumri, en hvað um það: Listin, tónlist Richards Wagner, — lifir enn og öll hin mikla þýska tónlist með henni. Hamingjunni sé lof fyrir það að hún býr enn yfir þeim særingarmætti að geta bundið tómið – auðnina í okkur. Hvar værum við annars stödd í okkar dreifða, demóníska heimi, ef listarinnar nyti ekki við? Listin, hin mikla list, er vissulega sú Bifröst, sem brúar bilið milli okkar og hins óræða. Eins og letrað stendur gylltum stöfum í hátíðarsal borgarinnar Bayreuth: Sine arte, sine amore non est vita. Líf án Iistar, án ástar, er ekkert líf!