Úr umsögnum íslenskra fjölmiðla
Listahátíð 1994
Árni Tómas Ragnarsson
Óperublaðið, 2. tbl. 1994
Ragnar Björnsson, Morgunblaðið 29. maí 1994
„Móttökur áheyrenda að sýningu lokinni voru sterkar og innilegar og rúmlega fimm klukkustunda seta leið furðu átakalítið fyrir okkur áheyrendur. Ég geri líka ráð fyrir því að viðstaddir hafi gert sér grein fyrir því að þeir voru að upplifa merkilega tilraun, tilraun sem okkur einum var boðið til …“
En í kvöld fengu menn mikið magn á einu bretti og frábærir listamenn komu við sögu. Af söngvurum skal fyrst telja Óðin og Brynhildi. Max Wittges mun ekki áður hafa sungið þetta hlutverk, en skilaði því eins og það hefði fæðst með honum. Af djúpum skilningi og með glæsilegri rödd skilaði hann eftirminnilega hlut þessa höfuðpaurs Æsa. Brynhildur, sungin af Liu Frey-Rabine, minnti á hippa þegar hún fyrst birtist, og röddin virtist í byrjun ekkert spennandi, en þetta breyttist fljótlega og stór var sigur hennar í lokin …“
Sigurður Steinþórsson, Tíminn 31. maí 1994
„… Og valkyrjurnar óhyrndar eru eins og kollóttar beljur og raunar er það algjör goðgá að setja Wagner upp án horna. Uppbrotin byggðu á ágætis hugmyndum sem og tengileikþættirnir, sem Þorsteinn Gylfason samdi, en í stað hins lævísa Loka hefði ég viljað sjá Jón Múla uppástrílaðan sem sögumann.
En í það heila var þetta stórkostleg upplifun og snilldin gerði allar misfellur smávægilegar: Hringurinn er það flottasta sem þýska þjóðin og sú íslenska eiga sameiginlega og hér upplifir maður sjónarspil og sögu sem hefur tengt þessar tvær þjóðir í rúm 120 ár…
… Að sjá þessa útgáfu hefur kveikt ærlega í mér: Það er þriggja ára biðtími eftir miðum á heildaruppfærsluna í Bayreuth, en ég ætla að panta þá strax.“
Friðrik Þór Friðriksson, Eintak 30. maí.
„Sýningin í Þjóðleikhúsinu á Niflungahring Wagners nálgast hugsjón höfundar síns um Gesamtkunst, list sem höfðar til skilnings jafnframt því sem hún gleður í senn auga og eyra. Því þarna fara mikilfengleg tónlist og magnaður söngur, fjörlegur leikur, búningar og mjög hugvitssamleg leikmynd saman við íslenska skjátexta, sem leyfa fullan skilning á efninu…
Á hinn bóginn er þessi sýning einstæð vegna þess að við erum Íslendingar… Engir nema Íslendingar hafa þann menningarlega bakhjarl að þetta efni sé hluti af þeim sjálfum. Þess vegna er vel við hæfi að Hringurinn sé frumsýndur á Íslandi á 50 ára afmæli lýðveldisins – enda margt í efni hans sem túlka má í ljósi vorra tíma, ef menn vilja …
… Sýningin er að flestu leyti ákaflega vel heppnuð: jafnvel hörðustu hreinstefnumenn í Wagner, sem frægar uppfærslur af Hringnum útum lönd, voru ánægðir …
… Hlutverk Óðins syngur Bandaríkjamaðurinn Max Wittges með frábærum glæsibrag – að öðrum ólöstuðum var hann bestur þarna, og hefur þó aldrei sungið hlutverkið fyrr. Brynhildur er sömuleiðis bandarísk, Lia Frey Rabine, óhefðbundinn túlkandi þessarar frægu valkyrju, grönn og dökk, en með mikil hljóð og mikið skap …
… Ólöf Harðardóttir og Garðar Cortes sýna sig að vera hinir ágætustu Wagnersöngvarar í hlutverkum Signýjar og Sigmundar. Hverjum hefði dottið það í hug fyrir 10 árum? Viðar Gunnarsson er eftirminnilegur í hlutverki Högna, valdsmannslegur með sína dimmu rödd …
… Þarna er sem sagt fjöldi af ágætu söngfólki í 30 hlutverkum, og yrði of langt upp að telja. Aðalatriðið er að sýningin er heilsteypt frá hendi leikstjóra, allir gera sitt allra besta, þannig að árangurinn er afbragðsgóð sýning, jafnvel þótt ekki sé bætt við „miðað við aðstæður.“
… Sennilega verður þessi frábæra sýning til þess að brjóta ísinn hér á landi, svipað og fyrsta óperusýningin í Þjóleikhúsinu var tímamótaviðburður: við getum sett upp Wagner, og við munum gera það.“