Formálsorð
Úr fylgiriti efnisskrár Niflungahringsins 1994
Efni framsögunnar er að nokkru sótt í Snorra-Eddu og Völsunga sögu. Það er orðfærið líka á stöku stað. En Niflungahringnum sjálfum er auðvitað fylgt um allt sem máli skiptir. Bundið mál á tjaldi og í framsögu Loka er úr Sæmundar-Eddu, en bundið mál í framsögu Jarðar er úr Hringnum.
Þýðingin er kveðin undir bragarhætti Wagners. Hann er leiddur af háttum eddukvæða, fornyrðislagi og ljóðahætti. Að hrynjandi þræðir þýðingin sönglínuna í raddskrá Wagners. Þar sem tónlistin krefst þess er orðaröð hagað á þann veg eftir föngum að mikilsverð orð haldi sætum sínum í Ijóðlínunum. Þýðingin er stuðluð eftir íslenzkum reglum. Ljóðstafasetning Wagners víkur stundum frá þeim. Einkum hættir honum til að vera örlátari á Ijóðstafi en reglurnar gera ráð fyrir. En ef Íslendingur hefði fundið að ofstuðIun við Wagner hefði karl getað sagt:
Lítilla sanda,
lítilla sæva
lítil eru geð guma.
Einmitt svona á hann til að stuðla sjálfur.
Leiðbeiningar um sviðsetningu í þýðingunni eru lauslegar endursagnir á fyrirmælum í raddskránni. Ætla má að Wagner hafi fylgt þeim í Bayreuth 1876. Þessar leiðbeiningar eru því ekki heimildir um sviðsetningu Þórhildar Þorleifsdóttur í Reykjavík 1994.
Við samningu framsögunnar naut ég hollra ráða Þórhildar Þorleifsdóttur, Sigurjóns Jóhannssonar og Sigurðar Pálssonar, og á sama hátt liðsinntu mér við þýðingarverkið þau HeIgi Hálfdanarson, Helga Þórarinsdóttir, Sigurður Steinþórsson, Gunnar Harðarson og Þórhallur Vilmundarson. Þökk sé þeim öllum.
Þorsteinn Gylfason