Jörð:
Sigurður gaf Brynhildi hringinn Andvaranaut til merkis um ást sína og tryggð. Hringurinn sem sá einn gat smíðað sem afneitaði ástinni var orðinn að teikni um ást. En dvergurinn Andvari átti son sem Högni hét. Högni var hálfbróðir Gunnars Gjúkasonar og Guðrúnar Gjúkadóttur. Af þeim er Guðrún frægust af örlögum sínum. Það var hún sem síðar átti Atla Húnakóng og drap hann.
Loki:
Það kemur okkar sögu ekki við. Högni var verstur þeirra systkina. Hann var mesta forað eins og hann átti ætt tiI. Andvari vildi fyrir alla muni að Högni eignaðist hringinn. Til að svo mætti verða spann Högni upp svikráð sín. Nú skuluð þið heyra þangað til ykkur rísa hár á höfði.
Jörð:
Högni hvatti systkini sín til hjúskapar. Hann vildi að Gunnar fengi Brynhildar, en Guðrún sjálfs Sigurðar Fáfnisbana sem var afbragð annarra manna. Högni vissi af Brynhildi á Hindarfjalli. Hann vissi Iíka af vafurloganum. Loks vissi hann að enginn nema Sigurður Fáfnisbani fengi vaðið logann. Til að allt næði fram að ganga yrði að byrla Sigurði óminnisveig.
Loki:
Nú kom Sigurður til Gjúkunga, og honum var vel fagnað.
Jörð:
Hann sagði frá Niflungagullinu og hringnum sem hann gaf hinni dýrlegu mey.
Loki:
Guðrún bar honum drykk.
Jörð:
Sigurður drakk minni Brynhildar og ástar þeirra tveggja.
Loki: En þegar hann hafði dreypt á drykknum gleymdi hann Brynhildi samstundis og felldi jafnskjótt hug til Guðrúnar.
Jörð:
Hann hét því að veita Gunnari lið við að finna honum konu. Sú átti að vera valkyrjan sofandi á Hindarfjalli.
Loki:
En Sigurður einn gat riðið vafurlogann. Hann greip nú til ægishjálmsins, og þeir Gunnar skiptu litum. Það var því Sigurður í líki Gunnars sem reið logann, lýsti Brynhildi konu sína, tók hringinn af fingri hennar með valdi og svaf hjá henni þá nótt.