Undirkaflar

Hollendingurinn fljúgandi

Efniságrip

Enisskrá konsertuppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói 7. mars 1985

Stutt efniságrip

Textahandrit Wagners að „Hollendingnum fljúgandi“ var upphaflega í einum þætti aðeins og mun styttra en varð í endanlegri gerð. Á þrengingarárum sínum í París lagði Wagner það fyrir forstjóra óperunnar þar í þeirri von að sér mundi verða falið að fullgera verkið. En sú von brást. Forstjórinn tók að vísu við textanum og greiddi Wagner fyrir hann 500 franka en fól verkið síðan í hendur öðru tónskáldi. Peningarnir gerðu Wagner hinsvegar kleift að halda áfram vinnu við handritið og að gera úr því óperu af fullri lengd.

Sagan er átakamikil og greinir frá manni sem hefur með yfirnáttúrulegum hætti hlotið þann örlagadóm að sigla um heimshöfin uns hann hljóti endurlausn vegna ástar konu. Sögusviðið er norskt sjávarþorp og sagan látin gerast á átjándu öld.

1. þáttur

Forleikurinn er mikill í sniðum og einatt fluttur sem sjálfstætt verk á tónleikum. Hann geymir í hnotskurn stefjaefni óperunnar og setur það fram með dramatískum hætti. Í fyrsta atriðinu sjáum við norskt skip sem hefur varpað akkerum eftir að hafa lent í fárviðri og hafróti undan Noregsströndum. Skipstjórinn, Daland, telur sig vera í nánd við þá höfn sem var áfangastaður hans. Hann felur því stýrimanni sínum umsjá skipsins en gengur sjálfur til hvílu ásamt öðrum mönnum sínum. Stýrimaðurinn syngur ballöðu, ,,Mit Gewitter und Sturm“, en sofnar síðan.

Draugalegt skip nálgast með rauðum seglum og svörtum siglutrjám. Það leggst við hlið norska skipsins og stýrimaðurinn rumskar í bili. Skipstjóri á þessu skipi er þjóðsagnapersónan sem nefnd hefur verið Hollendingurinn fljúgandi. Hann gengur á land og syngur um þau þungu örlög sem orðið hafa hlutskipti hans. Hann hafði ákallað Kölska eitt sinn þegar hann var að sigla fyrir Góðrarvonarhöfða í stormi, og sá gamli hafði lagt á hann að hann skyldi sigla heimshöfin til dómsdags nema hann gæti fundið konu sem yrði honum „trú til dauða“. Hann má leita slíkrar konu sjöunda hvert ár og nú er sá tími. Skipshöfnin tekur undir harmsöng hans.

Daland kemur aftur á þiljur skips síns og vekur stýrimanninn. Hann reynir að hafa samband við skip Hollendingsins en fær engin svör. Daland sér þá Hollendinginn sjálfan og þeir taka tal saman. Hollendingurinn segir frá ferðum sínum, falast eftir vináttu Dalands og býður honum sjóð dýrgripa að launum. Þegar hann verður þess vís að Daland á dóttur biður hann hennar sér til konu og því játar Daland þótt bónorðið komi honum nokkuð á óvart. Þeir syngja tvísöng: Daland fagnar þeim auðæfum sem hann telur sig eiga í vændum en Hollendingurinn vonast til að finna nú loks frið. Stormurinn er nú genginn niður, stýrimaður segir hagstæðan byr kominn á. Daland og menn hans vinda upp segl og halda glaðir til heimahafnar, en Hollendingurinn kveðst munu koma í kjölfar þeirra þegar menn hans hafi hvílst.

2. þáttur

Í húsi Dalands sitja vinkonur Sentu og Mary gamla fóstran hennar við rokka sína og syngja „Spunakórinn”. Senta ein hefst ekkert að. Hún virðir fyrir sér mynd Hollendingsins fljúgandi sem þar hangir á vegg. Mary ávítar hana fyrir iðjuleysið og stöllur hennar stríða henni á þeim áhuga sem hún hafi á Hollendingnum þar sem hún eigi sér biðil (Erik). Senta biður Mary að rifja upp sögu Hollendingsins. Gamla konan neitar og syngur þá Senta sjálf um álög og væntanlega endurlausn hans (Ballaða Sentu).

Hinar stúlkurnar taka undir sönginn. Að lokum slær niður þeirri hugmynd hjá Sentu að hún kunni að vera sú sem ætlað sé að leysa Hollendinginn. Þetta vekur skelfingu allra viðstaddra, einnig Eriks sem komið hefur að og heyrt til Sentu. Hann segir þær fréttir að skip Dalands sé að koma að landi og fagna stúlkurnar því mjög. Mary minnir þær á skyldustörfin sem bíði þeirra, og verða þau Erik og Senta ein eftir á sviðinu. Þau syngja tvísöng. Hann gengur eftir loforði hennar um tryggð við sig en hún vill komast sem fyrst til fundar við föður sinn. Hún segir Erik frá samúð sinni með Hollendingnum en hann rekur fyrir henni draum sinn. Hann hefur dreymt að Daland kæmi með Hollendinginn til Sentu, þau féllust í faðma og leiddust síðan á brott. Hún verður nú sannfærð um að það séu örlög sín að létta álögunum af Hollendingnum. Erik þýtur á brott fullur örvæntingar.

Þegar Senta er orðin ein rifjar hún upp hendingar úr ballöðunni sem hún söng fyrr. Þá birtast þeir, faðir hennar og Hollendingurinn. Athygli hennar beinist öll að gestinum og faðir hennar undrast að hún skuli ekki að venju hlaupa í fang honum. En hann fer lofsyrðum um gestinn, biður hana að taka honum vinsamlega og íhuga bónorð hans með velvild. Þau virða þögul hvort annað fyrir sér og Daland skilur þau eftir ein.

Senta og Hollendingurinn eru bæði eins og uppnumin og trúa því naumast að draumar þeirra séu að rætast. Þau syngja um ást sína: „Wie aus der Ferne“. Daland fagnar því þegar hann kemur aftur á sviðið að Senta hefur lofast gestinum og hann býst til að kunngera trúlofun þeirra við hátíðahöld sem í vændum eru.

3. þáttur

Á firði framundan húsi Dalands sjást skipin tvö. Draugaleg kyrrð grúfir yfir skipi Hollendingsins, en á norska skipinu ríkir líf og fjör og sjómennirnir syngja og dansa í ákafa: „Steuermann, lass’ die Wacht”. Konurnar koma færandi hendi með mat og drykk. Þær ætla líka að miðla vistum til hollenska skipsins en fá engin svör frá skipverjum þótt þær kalli sífellt hærra. Loks verða þær óttaslegnar, sérstaklega þegar norsku sjómennirnir slá því fram í kerskni að skipið líkist farkosti Hollendingsins fljúgandi.

Þegar norsku sjómennirnir hafa etið og drukkið nægju sína nálgast þeir hollenska skipið. Það bregður fyrir óhugnanlegri bláleitri ljósglætu, áhöfn draugaskipsins vaknar og syngur villtan söng meðan stormurinn þýtur og öldurnar rísa umhverfis skipið. Norðmennirnir verða undrandi og óttaslegnir, og þegar þeir gera fyrir sér krossmark og hverfa undir þiljur fylgir þeim draugalegur hlátur hollensku áhafnarinnar.

Það lygnir og Senta kemur út úr húsi föður síns. Á hæla henni kemur Erik æstur í skapi og álasar henni fyrir framkomuna við sig. Hann hermir upp á hana að hún hafi heitið sér eilífri tryggð, og hún minnist þess með skelfingu. Hollendingurinn birtist (Erik þekkir hann úr draumi sínum). Hann hefur heyrt á tal þeirra Eriks og heldur að Senta sé sér ótrú. Hann ákveður þegar í stað að leggja enn einu sinni á hafið. Hollendingurinn álasar Sentu fyrir ótryggð hennar sem hann telur vera, hún biður hann að fara hvergi, en Erik grátbænir hana að láta Hollendinginn sigla sinn sjó.

Áður en Hollendingurinn hverfur á brott hyggst hann segja Sentu hver hann er, en hún kveðst vita það og ætla að létta af honum hinum skelfilega skapadómi. Að viðstöddum

Daland og öllu liði hans lýsir hann yfir því að hann sé Fljúgandi Hollendingurinn, sem menn óttist svo mjög. Skip hans er nú seglbúið, hann stígur á skipsfjöl og leggur frá landi. Senta hleypur fram á klettsnef, hrópar til hans og fleygir sér síðan í sjóinn. Í sömu andrá sogast skipið niður í iðusvelg. Meðan sólin sest sjást Senta og Hollendingurinn stíga til himna úr sökkvandi flakinu.