Parsifal

Hátíðarhelgileikur í 3 þáttum

Persónur:

  • Gurnemanz. Gamall Gralriddari
  • Kundry: Seiðkona
  • Amfortas: Æðsti riddari gralsins
  • Parsifal: Óþekktur unglingur
  • Titurel: Faðir Amfortas og fyrrum æðsti riddari
  • Klingsor: Illur seiðkarl, fjandmaður riddaranna
  • Blómastúlkur, riddarar o.fl.

Annað:

  • Gral: Hinn heilagi kaleikur, sem blóð Krists á krossinum draup í / bikar síðustu
    kvöldmáltíðarinnar
  • Hið helga spjót: Spjótið, sem Kristur var særður með á krossinum.

1.þáttur:
Gurnemanz, riddarinn gamli, liggur á bæn þegar Kundry færir honum græðandi áburð frá Arabíu til handa Amfortas. Gurnemanz segir sögu Amfortas, sem var skipaður höfuð Gral reglunnar af föður sínum, Titurel konungi.
Hinn ungi Parsifal birtist í kjölfar svans, sem hann hefur skotið með boga sínum í hinum helga skógi. Öllum bregður, en Parsifal kærir sig kollóttan. Hann virðist ekki stíga í vitið og þekkir ekki einu sinni sitt eigið nafn. Honum bregður þó mjög er Kundry tjáir honum að móðir hans sé látin.
Við altarisgöngu reglunnar ber Amfortas fram Gralinn sárþjáður. Hann veit að það framlengir aðeins þjáningar hans, en hann á ekki annars úrkosti sem verndari Gralsins. Parsifal fylgist með en skilur ekki það sem fram fer og Gurnemanz sendir hann reiðilega í burtu.

2. þáttur
Í kastala sínum fyrirskipar Klingsor Kundry að draga Parsifal á tálar. Klingsor hverfur og garður hans fyllist af blómameyjum, sem reyna að lokka Parsifal. Hann stenst þó brögð þeirra, en þá birtist Kundry fegurri en nokkru sinni. Hún segir honum nafn hans og uppruna. Parsifal dregst að henni, en er Kundry kyssir varir hans minnist hann Amfortas og hörfar undan. Parsifal fær þó að vita að Kundry er dæmd til að draga alla menn á tálar í refsingarskyni fyrir að hafa gert gys að Kristi á krossinum. Er Parsifal vísar Kundry á bug, kallar hún á Klingsor, sem kastar hinu heilaga spjóti í átt til hans. Parsifal hendir spjótið á lofti og gerir krossmark með því. Þá hrynur kastali Klingsors.

3. þáttur
Mörg ár hafa liðið. Gurnemanz finnur Kundry illa á sig komna og hjúkrar henni. Parsifal birtist í riddaraklæðum og fellur á bæn við spjótið helga. Hann segir Gurnemanz frá ferðum sínum og hvernig honum hafi verið stýrt heim aftur til að skila hinum helga grip. Gurnemanz og Kundry smyrja fætur Parsifal, sem veitir Kundry fyrirgefningu og skírir hana til kristinnar trúar.
Þau halda til hallarinnar, þar sem útför Titurels fer fram, Amfortas, sem hafði lofað að taka fram Gralinn í síðasta sinn, er sárþjáður og biður riddarana um að veita sér líkn og drepa sig. Riddararnir sárbæna Amfortas um að rækja skyldur sínar gagnvart föður sínum. Þá birtist Parsifal og er hann snertir Amfortas með spjótinu helga, þá gerist kraftaverk; sárið grær samstundis. Parsifal gengur að altarinu og lyftir Gralnum, sem ljómar skært. Hvít dúfa flýgur að ofan. Kundry hnígur lífvana niður, en Parsifal hefur Gralinn á loft og veitir riddurunum blessun sína.