Niflungahringurinn
Söguþráður
Úr efnisskrá Listahátíðar 1994
Árni Tómas Ragnarsson og Baldur Sigurðsson tóku saman.
Rínargullið
1. atriði. Í djúpi Rínar
Forspil: Verkið hefst á löngum hljómi (í Es dúr), ,,frumhljómnum”.
Rínardætur eru að leik í djúpi Rínar, þar sem þær gæta gullsins, þegar dvergurinn Andvari kemur þar að og heillast af fegurð þeirra. Rínardætur gefa Andvara undir fótinn og hann fyllist af girnd til þeirra. Þær gera þá gys að honum svo Andvari verður æfur af bræði.
Sólin stafar geislum sínum á gullið svo það ljómar. Andvari verður furðu lostinn en Rínardætur segjast hafa það hlutverk að gæta þess. Þær segja frá þeirri náttúru gullsins að sá sem fái smíðað hring úr því muni geta drottnað yfir allri veröld; aðeins sá sem afneiti ástinni geti tekið gullið frá þeim og smíðað hringinn. Í gremju sinni yfir kerskni Rínardætra sér Andvari sér leik á borði, afneitar ástinni og rænir gullinu frá kveinandi Rínardætrum
2. atriði. Við Valhöll
Óðinn hefur fengið jötnana Fáfni og Regin til að reisa Valhöll og lofað þeim Freyju að verkalaunum. Það er dögun. Frigg bregður í brún er hún sér Valhöll fullgerða og vekur athygli Óðins á að verkinu sé lokið, en hann dásamar bygginguna.
Frigg varar Óðin við því að nú sé komið að skuldadögum. Hún ber hann þungum sökum og spyr hvort hann hafi gleymt því að nú verði hann að láta Freyju af hendi við jötnana. Frigg til mikillar gremju gerir Óðinn lítið úr vandanum og þau deila.
Freyja kemur hlaupandi undan jötnunum og biðst ásjár. Óðinn lýsir eftir Loka, sem hafði lofað að finna ráð við þessum vanda. Jötnarnir koma og krefjast umsaminna verklauna, en Óðinn þykist hafa gleymt hverju hann lofaði.
Æsir og jötnar deila nú ákaft um Freyju. Jötnarnir minna á að samningur þeirra sé ristur á spjót Óðins sjálfs og hann megi ekki rjúfa hann því vald hans sé byggt á sáttmálum þeim, sem hann hefur gert. Þá ber Loka að. Hann segir frá stuldi gullsins og ósk Rínardætra um aðstoð Óðins við að ná því aftur. Gullið vekur áhuga viðstaddra en Óðinn telur ýmis tormerki á að ná því. Jötnarnir sjá sér hins vegar leik á borði og bjóðast til að gefa Freyju eftir fái þeir gullið í staðinn. Við svo búið hverfa þeir á brott með Freyju í gíslingu.
Í fyrstu er Óðinn hikandi við að ræna gullinu, en þegar æsir finna fyrir þverrandi kröftum eftir að gullepli Freyju eru horfin, fellst hann á að halda með Loka í Nilfheim.
3. atriði. Í Niflheimi
Óðinn og Loki koma til Niflheims og hitta fyrir Mími, bróður Andvara. Mímir segir þeim frá hringnum, sem Andvari hefur smíðað úr gullinu. Sjálfur kveðst hann að hafa smíðað ægishjálm en misst í hendur Andvara.
Andvari birtist og Loki fær hann til að sína mátt huliðshjálmsins. Fyrst notar Andvari hjálminn til að breyta sér í risavaxinn orm, en Loki ginnir hann þá til að breyta sér í agnarsmáan frosk, sem þeim félögum reynist auðvelt að fanga.
4. atriði. Við Valhöll
Andvari er fangi Óðins, sem neyðir hann til að afhenda gullið og huliðshjálminn.
Óðinn slítur hringinn af Andvara en hann leggur á að hringurinn verði hverjum höfuðsbani er eigi.
Æsir fagna endurkomu Óðins og Loka, og Fáfnir og Reginn snúa aftur með Freyju og krefjast gullsins í hennar stað. Það semst svo um að jötnarnir fái eins mikið gull og þarf til að hylja Freyju. Æsir stafla upp gullinu þar til það þrýtur, en þá sjá jötnar enn í hár hennar og krefjast huliðshjálmsins til að hylja það. Regni er sárt um að missa Freyju og kveðst enn sjá í augu henni. Hann krefst hringsins til að hylja þau, en Óðinn neitar. Völvan Jörð rís þá úr djúpinu og varar Óðin við því að halda hringnum því það muni leiða til tortímingar goðanna. Við það lætur Óðinn jötnunum hringinn eftir, en þeir taka þegar að deila um skiptingu gullsins. Lýkur svo viðskiptum þeirra að Fáfnir drepur Regin, en heldur sjálfur á brott með gullið.
Óðinn hefur nú gert sér grein fyrir þeirri bölvun sem hringnum fylgir og verður uggandi um afleiðingar gerða sinna. Valhöll ljómar þá í skini aftansólar. Óðinn dásamar glæsileika hennar og fer síðan fyrir ásum yfir Bifröst til hallarinnar. Eftir stendur Loki, fullur fyrirlitningar á framferði goðanna, en slæst svo í förina og kveinstafir Rínardætra undirstrika þann órétt sem sjálfur Alfaðir hefur beitt þær.
(Úr efnisskrá Listahátíðar í Reykjavík 1994.).
Valkyrjan
Þegar Valkyrjan hefst hefur margt gerst sem sagt er frá smám saman í óperunni. Fáfnir lagðist í ormslíki á gullið á Gnitaheiði. Óðinn kveið því að Fáfnir eða Andvari myndu nota hringinn til að ná heimsyfirráðum en sjálfur gat hann ekki aðhafst án þess að ganga á samninga sína við jötnana. Hann leitaði því ráða hjá hinni alvitru völvu, Jörðu. Hún miðlaði honum af visku sinni og fæddi honum Brynhildi og aðrar valkyrjur. Hann komst að því að eina von hans var að mennsk hetja næði hringnum af Fáfni, án afskipta Óðins sjálfs, og kæmi honum í hendur Rínardætrum. Óðinn hélt í mannheima undir nafninu Völsi og gat við mennskri konu tvíburasystkynin Sigmund og Signýju, kyn Völsunga. Er Sigmundur var á unga aldri var heimili hans lagt í rúst, móðir hans drepin og systir hans numin á brott. Eftir það ólst hann upp með föður sínum(í úlfs líki) sem herti hann í ýmsum mannraunum.
1. þáttur. Í húsi Hundings
Óveður geisar. Örþreyttur eftir harðan bardaga og erfiðan flótta kemur Sigmundur í hús Hundings.
Signý húsfreyja veitir Sigmundi aðhlynningu og býður hann velkominn. Sigmundur segir mikla ógæfu fylgja sér og hyggst fara, en Signý heldur aftur af honum. Skömmu síðar kemur Hundingur heim. Hann spyr Sigmund að nafni. Sigmundur kveðst ekki vita nafn sitt en rekur sögu sína og segist vera af úlfakyni. Hundingi skilst brátt að Sigmundur er óvinur ættar hans. Áður en Hundingur gengur til náða býður hann Sigmundi næturgistingu og um leið til einvígis að morgni.
Um nóttina verður Sigmundi ekki svefnsamt. Hann skortir vopn fyrir hið komandi einvígi og það rifjast upp fyrir honum að faðir hans hafði eitt sinn heitið honum öflugu sverði, sem hann myndi finna þegar mest á riði. Signý kemur og kveðst hafa byrlað manni sínum svefndrykk. Hún segir Sigmundi frá sverði því sem ókunnur gestur, eineygður, hafi rekið á kaf í stokkinn í stofu hennar við brúðkaup þeirra Hundings. Margir hafi viljað eignast sverðið, en enginn getað losað það úr stokknum. Þau Sigmundur játa hvoru öðru ást sína.
Sigmundur syngur um fegurð vorsins og fund þeirra systkina, ástarinnar og maímánaðar og Signý svarar að hann sé það vor sem hún hefur lengi beðið. Þeim verður smám saman ljóst að þau eru systkini. Engu síður brenna þau af ást hvort til annars. Sigri hrósandi dregur Sigmundur sverðið úr stokknum. Han gefur því nafnið Gramur (Notung) og heitir að verja Signýju með sverði sínu ef hún fylgi sér út í vorið.
2. þáttur. Á hrjóstrugu fjalllendi
Óðinn býður Brynhildi valkyrju að söðla hest sinn því hún eigi að sjá til þess að Sigmundur felli Hunding í bardaga þeirra. Brynhildur varar Óðin við komu Friggjar og hverfur á braut.
Frigg stormar inn, æf yfir þeirri ætlun Óðins að styðja Sigmund. Hann hafi spillt hjónabandi þeirra Signýjar og Hundings og krefst þess að honum verði refsað. Óðinn mælir í mót og þau deila heiftarlega. Óðinn leggur áherslu á gildi ástarinnar í lífinu og bendir á að hetjunni Sigmundi sé ætlað að ná hringnum úr klóm Fáfnis án afskipta goðanna og bjarga þar með þeim sjálfum frá glötun. Frigg segir Óðin hræsnara. Ekki sé nóg með að hann haldi fram hjá henni heldur vilji hann rjúfa þau lögmál sem hann hafi sett hana, Frigg, til að gæta í mannheimum. Hlutverk Sigmundar sé dæmt til að mistakast því Óðinn hafi þegar haft afskipti af honum með því að fá honum sverðið og hún krefst þess að það verði tekið af honum. Hún heimtar að Óðinn kalli á Brynhildi og taki aftur skipun sína um stuðning við hann.
Frigg krefst þess að Sigmundur láti lífið í einvíginu svo heiður hennar sem gyðju hjónabandsins verði tryggður og Óðinn neyðist til að heita því. Fullur beiskju kallar hann á Brynhildi og í löngu samtali rekur hann sögu hringsins og truir henni fyrir ráðagerðum sínum, innstu hugrenningum og áhyggjum.
Óðinn rekur fyrir Brynhildi hvernig valkyrjur og einherjar muni verja Ásgarð, en það muni þó lítt duga nái Niflungar aftur valdi á hringnum. Hringurinn sé nú í gæslu Fáfnis, en vegna samninga sinna við hann geti Óðinn ekki beitt sér fyrir að ná hringnum frá honum. Aðeins mannleg hetja, án afskipta annarra, geti náð hringnum og kveðst Óðinn hafa ætlað Sigmundi það hlutverk. Hann hafi ætlað Sigmundi sverðið Gram, en Frigg hafi séð í gegnum þá blekkingu og hann neyðist nú til að láta lífið og bölvun gullsins hvíli á honum. Óðinn segir öllu vera lokið og að hann óski sér aðeins eins, endalokanna. Loks skipar Óðinn Brynhildi að fara og framfylgja ósk Friggjar, nú sé það einnig sinn vilji að Sigmundur láti lífið. Brynhildur reynir árangurslaust að telja Óðni hughvarf áður en hún heldur af stað.
Nú víkur sögunni aftur til Sigmundar og Signýjar, sem eru á flótta undan Hundingi og mönnum hans. Signý er örmagna og full örvæntingar, en Sigmundur sefar hana og biður hana að hvílast. Um síðir líður Signý út af í örmum hans.
Brynhildur birtist Sigmundi og boðar honum feigð. Hún tjáir honum að hann eigi brátt að fylgja sér til Valhallar. Sigmundur spyr þá hvort Signý fái að fylgja honum, en Brynhildur svarar því neitandi. Sigmundur biður þá fyrir kveðju til Valhallar og segist ekki munu fylgja Brynhildi þangað.
Brynhildur segi að þessu ráði Sigmundur ekki, þegar sé ákveðið að hann falli í bardaganum við Hunding. Sigmundur kveðst ekki hræðast hann því sverðið Gramur, sem faðir hans sendi honum, muni vel duga. Brynhildur segir að sá hinn sami hafi nú svipt sverðið mætti sínum. Sigmundur lætur gott heita að hann deyi, en til Valhallar fari hann ekki, heldur fylgi hann systur sinni og brúði til heljar.
Staðfesta Sigmundar og fölskvalaus ást hans á Signýju snertir Brynhildi djúpt. Hún reynir þó að telja honum hughvarf og lofar að gæta Signýjar. Sigmundur vísar orðum Brynhildar á bug, tekur sverð sitt og ætlar að drepa Signýju og sjálfan sig svo þau megi fylgjast að til Heljar. Við þetta snýst Brynhildi hugur og hún lofar að styðja Sigmund í þeim bardaga sem bíður hans.
Hundingur kemur. Þeir Sigmundur berjast og veitir Brynhildur Sigmundi fulltingi sitt, en þá birtist Óðinn æfareiður og brýtur sverð Sigmundar með spjóti sínu. Sigmundur verður Hundingi þá auðveld bráð og hann fellur. Brynhildur laumast á brott með Signýju og hefur með sér sverðsbrotin. Óðinn, yfirkominn af sorg og reiði, sér Hunding standa sigri hrósandi yfir líki Sigmundar. Með einni bendingu fellir Óðinn Hunding og segir honum að hunskast til Friggjar. Hann svipast um eftir Brynhildi og heitir því að refsa henni grimmilega.
3. þáttur. Á Hindarfjalli
Valkyrjur koma til fundar og reiða fallna kappa. Þær glettast yfir hestum sínum og þeim hetjum, sem fallið hafa. Um það bil sem þær búa ferð sína til Valhallar kemur Brynhildur þeysandi. Sér til mikillar furðu sjá þær að hún reiðir konu í söðli sínum.
Brynhildur segir Valkyrjum sögu sína. Hún biður þær að forða sér undan reiði Óðins og hjálpa sér við að koma Signýju undan en þær hika. Signý kveðst vilja deyja en Brynhildur tjáir henni þá að hún beri barn þeirra Sigmundar undir belti. Hún skuli því strax halda á brott og fela sig á Gnitaheiði þar sem ormurinn hvílir því þar sé hún óhult fyrir Óðni. Brynhildur biður Signýju að varðveita brotin úr sverðinu Gram handa syni sínum, sem hún skuli kalla Sigurð, en sjálf bíður hún komu Óðins.
Óðinn birtist þykkjuþungur og spyr eftir Brynhildi. Valkyrjurnar freista þess að sefa reiði Óðins, en hann fyrirbýður þeim öll afskipti. Óðinn kveðst hafa trúað Brynhildi fyrir hugrenningum sínum, en hún hafi svikið sig. Brynhildur gengur fram fyrir skjöldu og býður Óðni að dæma sig. Hann segir að hún dæmi sig sjálf með óhlýðni sinni; áður hafi hún verið sér kærust, en nú muni hann útskúfa henni úr heimi goða og gera hana að mennskri konu. Óðinn kveðst munu svæfa hana löngum svefni og muni hún ekki vakna fyrr en mennskur maður veki hana og eigi hann að fá hennar. Valkyrjur biðja Brynhildi miskunnar, en Óðinn rekur þær á braut með harðri hendi.
Brynhildur spyr hvort gjörð sín hafi verið svo smánarleg; hún hafi aðeins framkvæmt hans innstu ósk. Hún lýsir því hvernig ást Sigmundar hafi brætt hjarta sitt en Óðinn svarar að hjarta hans sjálfs hafi brostið er hann ákvað að fórna honum. Með óhlýðni sinni hafi Brynhildur leyft sér þann munað að láta stjórnast af tilfinningum sínum. Þetta brot skuli hún nú gjalda dýru verði.
Brynhildur óttast að hvaða heigull sem er muni geta vakið sig og hún biður Óðin að búa svo um hnúta að aðeins óttalaus hetja geti komist að sér. Fyrir þrábeiðni Brynhildar lofar Óðinn að umgirða hana vafurloga, sem aðeins hin mesta hetja fái sigrast á. Yfirkominn af harmi kveður Óðinn loks Brynhildi og svæfir með kossi. Við svo búið kallar hann á Loka og býður honum að kveikja vafurlogann, sem skuli umlykja Brynhildi sofandi á Hindarfjalli, og mælir svo um að aðeins sá, sem ekki hræðist spjót hans, skuli fá sigrast á loganum.
(Úr efnisskrá Listahátíðar í Reykjavík 1994.).
Sigurður Fáfnisbanki
Örlaganornirnar spinna þræði sína á bjargi nokkru. Sú fyrsta segir frá því sem var, frá Aski Yggdrasils og lífi Óðins. Önnur segir frá viðbrögðum Óðins eftir að Sigurður braut spjót hans; að hann hafi þá látið fella askinn. Sú þriðja spáir eyðingu Valhallar og endalokum goðanna.
Nú víkur sögunni til Sigurðar og Brynhildar. Brynhildur hvetur hetjuna til dáða og hann er fullur ævintýraþrár. Þau kveðjast og heita hvort öðru ást sinni og tryggðum, og hann gefur henni hringinn því til sönnunar.
1. þáttur: Í höll Gjúkunga við Rín
Gunnar höfðingi Gjúkunga, ráðgast við Högna hálfbróður sinn (sammæðra, son Andvara) um veldi sitt. Högni telur ekkert á skorta nema að Gunnar sé ókvæntur og Guðrún ógefin, og segir þeim frá Sigurði og Brynhildi. Hann leggur til að Guðrún gefi Sigurði óminnisdrykk svo hann gleymi Brynhildi og fái hann síðan til við sig. Þegar það gangi eftir skuli Gunnar fá Sigurð til að ríða vafurlogann og ná í Brynhildi. Gunnar og Guðrún samþykkja þessa ráðagerð.
Sigurður siglir eftir Rín og kemur til hallar Gjúkunga, sem fagna honum vel. Högni fær Sigurð til að segja frá hringnum og gullinu og Guðrún færir Sigurði óminnisdrykkinn. Hann drekkur og allt fer eins og Högni hafði ráðgert. Þeir Gunnar og Sigurður sverjast í fóstbræðralag og halda síðan af stað saman til að finna Brynhildi handa Gunnari. Högni verður eftir til að gæta hallarinnar og hugsar þá til hringsins.
Þá víkur sögunni til Brynhildar, sem bíður Sigurðar á bjarginu. Valþrúður valkyrja birtist henni og segir vistina í Valhöll orðna dauflega mjög. Óðinn sitji daglangt í sæti sínu og mæli ekki orð af vörum. Hann ali þó enn þá von í brjósti að bölvun hringsins verði aflétt ef honum verður skilað aftur til Rínardætra. Valþrúður biður Brynhildi því að láta hringinn í hendur Rínardætra en Brynhildur segir það lítt stoða nú fyrir goðin að biðja sig um skilning. Henni var útskúfað og nú er ást Sigurðar henni miklu dýrmætari en öll vegsemd goðanna. Fyrr megi Valhöll verða að rústum einum en að hún láti hringinn af hendi. Við svo búið hverfur Valþrúður á braut.
Nú hljómar veiðihorn Sigurðar og Brynhildur býst til að fagna honum. Sigurður hefur brugðið yfir sig ægishjálminum og birtist í líki Gunnars. Brynhildur verður felmtri slegin og sér að hún hefur verið beitt svikum. Sigurður (Gunnar) kveðst hafa sigrast á vafurloganum og því sé hún réttmæt eiginkona sín. Brynhildur reynir að verjast, en Sigurður yfirbugar hana og tekur hringinn af henni með valdi.
2. þáttur: Við höll Gjúkunga að næturlagi
Andvari birtist Högna og eggjar hann til dáða. Hann minnir Högna á það hlutverk hans að ná hringnum aftur og færa sér. Litlu síðar kemur Sigurður og skýrir Högna frá því sem gerst hefur. Hann segist nú hafa fært Gunnari Brynhildi og gerir því kröfu til Guðrúnar. Þau hverfa saman inn í höllina.
Högni kveður Gjúkaþegna saman því brúðkaup Gunnars og Brynhildar standi fyrir dyrum. Þeir skuli undirbúa fórnir, mat og drykk og fagna komu brúðarinnar. Þá birtist Gunnar með Brynhildi og þegnar þeirra fagna þeim vel. Gunnar býður Brynhildi velkomna til hallar sinnar og þau Sigurður og Guðrún heilsa þeim. Brynhildur verður agndofa er hún sér Sigurð við hlið Guðrúnar og síðan æfareið er hún tekur eftir að hann ber hringinn. Brynhildur kveður Sigurð hafa riðið vafurlogann og tekið sig fyrir eiginkonu, en Sigurður harðneitar. Gunnar krefst þess að Sigurður sverji að hann hafi ekki snert Brynhildi. Sigurður sver við spjót Högna, en Brynhildur sver á sama hátt að hann hafi svikið sig. Þegnar Gjúkunga eru furðu lostnir og ákalla Þór um að refsa hinum seka.
Sigurður býður til brúðkaupsveislu og allir fylgja honum nema Brynhildur, Högni og Gunnar. Brynhildur er harmi lostin yfir svikum Sigurðar og Högni býður henni aðstoð sína við að ná fram hefndum. Högni sannfærir Gunnar um að hann hafi einnig verið svikinn af Sigurði og fellst Gunnar því á áform Högna um að drepa Sigurð í veiðiferð daginn eftir brúðkaupið.
3. þáttur: Í skógi við Rín
Rínardætur verða á vegi Sigurðar eftir að hann verður viðskila við Högna og menn hans á veiðunum. Sigurður fer að gantast við þær en þær biðja um hringinn sem glitrar á hönd hans. Hann tekur því ekki ólíklega en þær fara þá að tala við hann um bölvun hringsins og spá honum lífláti síðar um daginn nema hann færi þeim hann. Sigurður segist ekki hræðast hótanir þeirra og ákveður að halda hringnum sjálfur.
Högni og menn hans finna Sigurð og þeir taka sér hvíld frá veiðunum. Sigurður gerir að gamni sínu og býðst til að segja þeim sögu sína. Í miðri sögu Sigurðar færir Högni honum drykk, sem hann segir að muni örva minni hans. Sigurður drekkur og heldur svo áfram sögunni. Í sömu svifum og hann minnist Brynhildar og ástar sinnar á henni keyrir Högni spjót sitt í bak Sigurði, sem hnígur niður, særður til ólífis. Hirðmenn saka Högna um morð en hann kveðst aðeins hafa hefnt meinsæris. Áður en Sigurður deyr minnist hann unaðsstunda þeirra Brynhildar. Sigurður er borinn heim á leið.
Við höll Gjúkunga. Það er nótt og Högni kemur og kallar menn á fætur. Lík Sigurðar er borið til hallarinnar og Guðrún verður frávita af sorg. Gunnar kennir Högna um víg Sigurðar og hann gengst við því. Högni segir hringinn nú vera sinn og er Gunnar mótmælir drepur Högni hann. Högni ætlar að taka hringinn af hendi Sigurðar en kreppt hönd Sigurðar lyftist ógnandi upp og hann hrekkur undan. Brynhildur gengur fram og ásakar þau öll um svikráð. Hún segir frá fyrri fundum þeirra Sigurðar og að hún ein hafi verið réttmæt eiginkona hans.
Brynhildur lætur hlaða bálköst að líki Sigurðar. Hún ákallar Óðin: Jafnvel sá göfgasti og trygglyndasti allra manna, rauf heit sín við hana svo hún mætti skilja þá bölvun sem Óðinn hefur leitt yfir veröldina. Hún tekur hringinn af Sigurði og að því búnu er lík hans lagt á bálköstinn. Brynhildur biður hrafna Óðins að flytja honum þessi tíðindi, og skila til Loka að hann megi nú leggja eld í Valhöll. Hún gengur á bálið og logarnir læsast í höll Gjúkunga. Rín flæðir yfir bakka sína og sópar bálkestinum burt. Rínardætur ná hringnum og er Högni eltir þær drukknar hann. Í rústunum stendur þjóð Gjúkunga hnípin og í fjarska sést Valhöll í ljósum logum.
(Úr efnisskrá Listahátíðar í Reykjavík 1994)