Tryggið ykkur miða á Wagnertónleika í Salnum

Ágætu félagar.

Á föstudagskvöld 29. okt mun gefast einstakt tækifæri til að hlýða á Wagnertónleika í Salnum í Kópavogi. https://salurinn.kopavogur.is/dagskra-og-tonleikaradir/adrir-tonleikar/vidburdur/2404/das-ssse-lied-verhallt

Þetta er að frumkvæði þriggja frábærra söngvara, þeirra Margrétar Hrafnsdóttur, Egils Árna Pálssonar og Hrólfs Sæmundssonar. Hrólfur á að baki mikinn feril í óperuhúsum erlendis, aðallega í Þýskalandi, þar sem hann hefur m.a. við mjög góðan orðstír farið með stór Wagnerhlutverk, t.d. Telramund í Lohengrin og Wolfram í Tannhäuser, Kurwenal í Tristan og Isolde og Beckmesser í Meistarasöngvurunum. https://opera.is/is/folk/songvarar/hrolfur-saemundsson/. Hann er nú á landinu til að synga Germont í Traviata. Egill Árni Pálsson var styrkþegi félagsins til Bayreuth fyrir nokkrum árum. Hann á einnig að baki feril erlendis og söng nýverið Florestan í Fideliósýningunni hér heima. https://opera.is/is/folk/egill-%C3%A1rni-p%C3%A1lsson/. Margrét Hrafnsdóttir var einnig styrkþegi til Bayreuth á vegum Wagnerfélagsins í Stuttgart og hefur í seinni tíð lagt mikla áherslu á flutning tónlistar Wagners. https://www.operudagar.is/is/listafolk/margr%C3%A9t-hrafnsd%C3%B3ttir/

Það er ánægjuefni að Wagnerfélagið kemur að tónleikunum og leggur til framlag leikarans og félaga Árna Blandon, sem bregða mun sér í gervi Wagners og tjá það helsta sem viðkemur efnisskránni. Þar skipti miklu máli að koma Árna í gervi Wagners, en þeir eru ekki ósvipaðir á hæð, en mikið reið á að útvega honum Wagnerhúfu eða Wagner Barrett, eins og hún er kölluð. Formaður lagðist því í leit og endaði með því að Festspielhaus í Bayreuth lánaði húfu, sem skreytt hafði höfuð stórsöngvarans Michael Volle í Meistarasöngvurunum. Húfuna fékk formaður afhenta í München, á Wagnerþinginu, sem þar er nýlokið, af formanni Wagnerfélagsins í Bayreuth, Nicolaus Richter. Brugðið var á leik með húfuna og sést hún hér á höfði Rainers Fineske, forseta Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga og Nicolas Richter, frá Bayreuth.

Vonast til að sjá sem flesta til að njóta þessa einstaka tækifæris og gleðjast.

B.kv.
Selma Guðmundsdóttir formaður RW félagsins á Íslandi
www.wagnerfelagid.is