Erindi flutt á árshátíð félagsins 28. október 2023
Þórhallur Þráinsson, teiknari
Þórhallur er með cand. mag. próf í fornleifafræði frá háskólanum í Uppsölum, með áherslu á sagnfræði og listasögu.
Hann lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hefur unnið á ýmsum myndlistartengdum sviðum t.d við tölvuleikjagerð. Hann sinnir auk þess stundakennslu í fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Það er mér ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér á árshátið Wagnerfélagsins og deila með ykkur hér í nokkrar mínútur svolitlu áhugamáli mínu en það er undirleikur tónlistar Richards Wagner í kvikmyndum um óskylt efni. Er ætlunin að fara örfáum orðum um sögu þessa fyrirbæris frá öndverðu og til okkar daga. Í gegnum tíðina hefur allnokkuð verið fjallað í ræðu og riti um áhrif tónlistar Richard Wagners á kvikmyndatónlist og oftar en ekki á djúpan og spakviturlegan hátt. Jafnan snertir slík fræðimennska tónlistarfræðileg atriði eins og Leitmotiv, eða skylda hluti, en slíkt þykir oft ómissandi í kvikmyndatónlist. Ekki ætla ég mér svo stóra hluti að fjalla um slík vísindi hér, heldur er fyrst og fremst ætlunin að stikla á stóru varðandi undirleik einstakra laga meistarans í kvikmyndum og notkun þeirra á þeim vettvangi í tímans rás. Í stað þess að vitna í lærðar greinar, lét ég mér nægja að styðjast fyrst og fremst við lista á vegum alfræðisíðunnar Wikipediu, sem má finna á vefslóðinni List of films using the music of Richard Wagner
Vefsíðan tilgreinir í tímaröð 68 kvikmyndir sem innihalda Wagner-tónlistarundirleik. Ekki get ég bætt neinu við þann lista en gruna samt að hann sé ekki tæmandi fyrir allan þann aragrúa stuttmynda og lítt þekktari kvikmynda sem framleiddar hafa verið í gegnum tíðina. Hann gefur samt nokkuð góða mynd, trúi ég, af þeim kvikmyndum sem framleiddar hafa verið af stórum kvikmyndafyrirtækjum, aðallega í Hollywood, og af þekktari leikstjórum í Evrópu. Eins og þið munuð brátt sjá hef ég endurgert þennan lista en með tilliti til sjónrænna áhrifa var sá háttur hafður á að sýna hann frekar í líki auglýsingaspjalda en texta.
Þegar við Selma urðum ásátt um að ég flytti þetta erindi gerði ég mér ekki fyllilega grein fyrir því hvað þetta efni er viðamikið og hversu aðgengilegar kvikmyndir með Wagnertónlist eru á alnetinu, sérstaklega á vefnum Youtube. Þar og reyndar víðar má finna bæði fornar kvikmyndir í fullri lengd eða brot úr þeim. Því miður hef ég ekki haft tómstund til að horfa á allar myndirnar á listanum frá upphafi til enda en samt hef ég náð að átta mig á því af hverju tónlist Wagners varð fyrir valinu í flestum tilfella og til hvers konar skynhrifa henni var ætlað að höfða. Nú vita líklega flestir sem hér eru að Wagner var fyrst og fremst óperutónskáld og leikhúsmaður. Hann lét ekki eftir sig mikið af hreinni instrúmentaltónlist, ef frá eru talin einstök lög og svo forleikir í óperum. Þrátt fyrir það kemur óperusöngur eiginlega aldrei fyrir í þessum leiknu kvikmyndum. Þess í stað er notast við sönglaus atriði, í flestum tilfellum annað hvort úr die Walküre eða Tristan und Isolde. Reglan er oftast nær sú að ekki er spilað úr nema einu verki Wagners í hverri mynd. Sú tónlist sem hefur verið langvinsælust er valkyrjureiðin en hún er notuð 23 sinnum í þeim 68 kvikmyndum sem hér um ræðir. Tónlist úr Tristan und Isolde er næstvinsælust og leikin í 15 myndum. Rheingold má finna í fimm tilfellum. Sama gildir um Lohengrin 4 sinnum og Parsifal, die Meistersinger og Tannhäuser koma fyrir 3 sinnum hver. Rienzi , Götterdämmerung og Siegfried – Idyll koma fyrir einu sinni hver. Ellefu myndir bjóða upp á fleiri en eitt tónverk en algengust er sú tónlist þegar hefur verið nefnd. Tónlist úr Hollendingnum fljúgandi og Siegfried koma fyrir í nokkrum af þeim myndum.
Erindinu er skipt í tvo hluta. Að loknum fyrri hluta verða sýnd 4 myndskeið sem mér finnast sögulega áhugaverð og þar sem ekki fer á milli mála að tónlist Wagners er ekki bara skreyting heldur nokkurs konar listræn þungamiðja. Fleiri slík atriði komu til greina. Ekki er víst að ég hafi valið þau áhrifamestu en þið takið vonandi viljann fyrir verkið.
Myndir á tjaldi, sem fylgja inngangsorðum fyrir sýningu hvers myndskeiðs, eru hugsaðar sem tilvísun í listrænan eða sögulega bakgrunn og kannski líka til að leggja á það áherslu að listin er stærri en svo að hún takmarkist við stundlegar aðstæður, atburði eða tíma.
Eftir að hafa sýnt einstaka veggspjaldaskyggnur fjalla ég lítilháttar um nokkrar myndir. Tilgangurinn er að gefa smá innsýn í fjölbreytileika viðfangsefnisins
- The Birth of a Nation, 1915. D.W. Griffith. Valkyrjureiðin.
- The Viking, 1928. Roy William Neill. Parsifal, Hollendingurinn fljúgandi, Valkyrjan.
- Un Cien Andalou, 1929. Louis Buñuel. Tristan und Isolde.
- Le Age d´Or, 1930. Lois Buñuel. Tristan und Isolde.
- Murder!, 1930. Alfred Hitchcock. Tristan und Isolde.
- City Streets, 1931. Rouben Mamoulian. Die Meistersinger von Nürnberg.
- A Farewell to Arms, 1932. Frank Borzage. Tristan und Isolde.
- The Scarlet Empress, 1934. Josef von Sternberg. Valkyrjureiðin.
The Birth of a Nation
The Birth of a Nation er fyrsta myndin á listanum. Leikstjóri var David Wark Griffith og myndin gerð eftir sögu Thomas Dixons Jr. ,The Clansman. Hún fjallar um borgarastríðið bandaríska 1861 – 1865 og eftirleik þess. Sagt er að þarna fari umdeildasta kvikmynd sem nokkru sinni hafi verið gerð í Bandaríkjunum en um hana hefur alltaf staðið styr, jafnvel áður en hún var frumsýnd.
Sagt er að þarna fari umdeildasta kvikmynd sem nokkru sinni hafi verið gerð í Bandaríkjunum en um hana hefur alltaf staðið styr, jafnvel áður en hún var frumsýnd. Ástæðan er sú að í henni er dregin upp vægast sagt neikvæð mynd af þeldökku fólki. Auðvitað hefði hún fljótt lent í glatkistunni ef sérstaða hennar væri eintóm kynþáttahyggja. Sú er ekki raunin. Þessi mynd var tímamótamynd í tæknilegum skilningi og kvikmyndir allt til okkar daga draga dám af ýmsum þeim nýjungum sem komu fyrst til sögunnar með henni. Af mörgu er að taka í þeim efnum. Hér skal þó aðeins nefnt að við sýningar á henni var ekki gert ráð fyrir einföldum undirleik á píanó, eins og venjan hafði verið til þessa, heldur dugði ekki annað en heila hljómsveit til að ná fram tilætluðum áhrifum. Þegar talað er um þöglar myndir liðinna tíma er það alls ekki þannig að fólk hafi horft á slíkar myndir í hljóðum kvikmyndasölum. Fyrir hverja mynd var oft tigreind sérstök tónlist og þeir píanóleikarar sem freistuðust til að spila eftir eigin höfði stöldruðu oftast ekki lengi við. Rétt tónlist var ekki síst mikilvæg í frægasta atriði myndar Griffiths. Í því þeysa vaskir liðsmenn ku klúx klan samtakanna illræmdu á hestum til að frelsa ættingja sína og vini úr höndum þeldökkra hermanna Norðurríkjanna. Gerist þetta á ögurstundu þegar hinir illu hermannaskálkar gera sig liklega til svívirðinga og morða. Undir þessum ódæmum öllum átti svo að duna valkyrjureið Wagners.
Það var ekki bara tími þrælahaldsins heldur líka eftirstríðsárin, kölluð Reconstruction sem reyndust erfið fyrir marga í suðrinu og skyldu þau ár eftir sig ýmisleg sár. Ef menn vilja skilja tilurð þessarar kvikmyndar til hlítar verður að mínum dómi að skoða hana í sögulegu ljósi þeirrar þjóðarsáttargjörðar sem átti sér stað milli norðurs og suðurs undir lok 19. aldar og í uppafi þeirrar 20., en ekki bara út frá kynþáttahyggju. Listin tekur hins vegar siðferðislega afstöðu, eins og eðlilegt er, og ég tel að sú sé á óbeinan hátt meginástæðan fyrir því að valkyrjureiðin hefur orðið lang algengasta tónlist Wagners í bandarískum kvikmyndum frá upphafi. Þar þjónar hún oft sem eins konar tilvitnun í þetta verk Griffiths og atriðið sem áður er nefnt. Þessi notkun hefur svo undið upp á sig með ýmsu móti m.a. með því bragði að leika valkyrjureiðina undir vægast sagt alvörulausu sprelli og broslegum uppákomum í grínmyndum.
- R.A.F., 1935 John Betts. Valkyrjureiðin.
- Triumph des Willes, 1935. Leni Riefenstahl. Die Meistersinger.
- The Right to Live, 1935. William Keighley. Tristan und Isolde.
- The Lion Man, 1936. John P. McCarthy. Valkyrjureiðin.
- One hundred Men and a Girl, 1937. Henry Koster. Lohengrin.
- Flash Gordon´s Trip to Mars, 1938. Frderick Stephani. Parsifal.
- Escape, 1940. Mervyn LeRoy. Tristan und Isolde, (Liebestod).
- The Great Dictator, 1940. Charles Chaplin. Lohengrin.
Sigurför viljans
Ekki er hægt annað en að rétt minnast á myndina Sigurför viljans frá 1935 í svona yfirferð. Hún er talin ein af leiðarvörðum kvikmyndasögunnar, þó mörgum hrjósi hugur við efni hennar. Tónlistin í þessari þýsku mynd var saminn af Herbert Wind í kannski svolítið Wagnerískum anda en inn í hana flétttaði hann ýmsum stefum eins og þjóðsöngnum og aðkiljanlegum sálmum þjóðernisjafnaðarmannanna þýsku. Tónlist Wagner sjálfs kemur aðeins fyrir í stuttlegu atriði sem sýnir sólarupprás annan dags flokkshátíðahaldanna í Nürnberg árið 1934 og það er auðvitað Wach auf úr forleik 3. þáttar Meistarasögvaranna. Það kemur svo sem ekkert á óvart að tónlist Wagners skuli ekki vera meira áberandi í þessari mynd en raun ber vitni, því ef satt skal segja hafa vinsældir Wagnertónlistar meðal forystusveitar þjóðernisjafnaðarmanna verið nokkuð orðum auknar, þó foringi þeirra hafi vissulega verið, eins og flestir vita, fjarska ákafur aðdáandi Wagners.
One Hundred Men and a Girl
One Hundred Men and a Girl. Sérstaklega viðkvæmnisleg og hugljúf gamanmynd, sem fjallar um það sem krefst til að þjóna tónlistargyðjunni sem skyldi. Talan 100 vísar til sinfóníuhljómsveitar áhugamanna en stúlkan er bjargvættur hennnar við erfiðar kringumstæður. Einhver töfrandi naivismi sveimar yfir þessari kvikmynd, sem er óvenjulegt fyrir kvikmyndir með Wagnertónlist.
The Great Dictator
Nokkrum orðum verður að eyða á mynd Charles Chaplin, The Great Dictator, frá 1940 en í henni leikur Chaplin einræðisherrann Adenoid Hynkel sem auðvitað er paródía og skopmynd af Hitler. Í líklega frægasta atriði þessarar þekktu kvikmyndar gerir Hynkel sjálfa jörðina að leiksoppi sínum og leikur með soppinn hinar kostulegustu kúnstir. Þar sem listin lifir sínu eigin lífi er ekki að undra þó það hafi margsinnis freistað listamanna að vitna í þetta óborganlega skaup. Mér er til dæmis minnisstæð uppfærsla Deutsche Oper Berlin á Rienzi, Der letzte der Tribune frá árinu 2010 undir stjórn Sebastian Land Lessing en þar eiga áþekk strik sér stað undir forleik í inngangskafla.
- Red River Valley, 1941. Joseph Kane. Valkyrjureiðin, Rienzi.
- Sullivan´s Travels, 1941. Preston Sturges. Valkyrjureiðin.
- Secret Mission, 1942. Harold French. Die Meistersinger.
- Christmas Holiday, 1944. Robert Siodmak. Tristan und Isolde,( Liebestod).
- Humoresque, 1946. Jean Negulesco. Tristan und Isolde, ( útsett af Franz Waxman).
- A Foreign Affair, 1948. Billy Wilder. Lohengrin, (forleikur).
- Unfaithfully Yours, 1948. Preston Sturges. Tannhäuser.
- The Blue Gardenia, 1953. Fritz Lang. Tristan und Isolde.
The Blue Gardenia
The Blue Gardenia er Hollywoodmynd, sem Fritz Lang leikstýrði. Hún nýtur nokkrar sérstöðu í þessari yfirferð. Eðlilega hefur tónlist Wagners fyrst og fremst verið notuð í kvikmyndum til að magna upp upplifun áhorfenda við dramatískar kringumstæður en í þetta skiptið er svoleiðislöguðu alls ekki til að dreifa. Í stað tilfinnningamögnunar er tónlistin úr Tristan og Isolde, sem leikin er af hljómplötu, sönnunargagn í manndrápsmáli. Á þann hátt bjargar tónlist Wagners ungri stúlku frá sviplegum örlögum og réttarmorði.
- Abismos de pasión, 1954. Louis Buñuel. Tristan und Isolde.
- Magic Fire, 1955. William Dieterle. Hringurinn.
- Love in the Afternoon, 1957. Billy Wilder. Tristan und Isolde.
- What´s Opera Doc? 1957. Chuck Jones. Hringurinn, Tannhäuser, Hollendingurinn fljúgandi.
- 8 ½, 1963. Federico Fellini. Valkyrjureiðin.
- Sedmikrásky (Fjólur), 1966. Věra Chytilová. Götterdämmerung.
- Föðurlandsást, 1966. Yukio Mishima. Tristan und Isolde.
- Mondo Trasho, 1969. John Waters. Valkyrjureiðin.
What´s Opera Doc?
What´s Opera Doc? Þetta er Merrie Melodies teiknimynd frá 1957 og höfundur Cuck Jones. Aðalpersónur eru þeir Bugs Bunny og Elmer Fudd. Þessar þekktu kvikmyndastjörnur umgangast tónlist Wagners á nokkuð galgopalegan eða jafnvel óforskammaðan hátt. Fyrir mig er þetta stórmerkileg mynd, því ég held ég geti fullyrt að með henni hafi fyrstu djúpstæðu kynni mín af Wagner hafist.
Föðurlandsást
Föðurlandsást, handrit og leikstjórn: skáldið Yukio Mishima. Myndin fjallar um eftirmál hinnar svokölluðu Ni Ni Roku valdaránstilraunar árið 1936. Liðsforinginn Shinji Takeyama ákveður að svipta sig lífi með kviðristu frekar en fara gegn byltingarsinnuðum félögum sínum innan hersins. Reiko brúður Takeyama ákveður að fylgja dæmi hans undir Liebestod-tónum. Myndin er eins konar No leikur og gerist á einföldu sviði. Bakgrunnur í lokaatriði, sem sést þarna á myndinni, er áberandi kinji myndletursmálverk sem á stendur: hjartanleg einlægni. Myndin var tekin upp í leyni á tveimur dögum. Hún var talin glötuð eftir sjálfsvíg Mishima árið 1970 en varðveitt eintak fannst árið 2005.
Mondo Trasho
Mondo Trasho er gerð af íslandsvininum John Waters, sem situr á nokkuð stakri grein í kvikmyndasögunni. Hér er um eina af eldri myndum þessa sérstæða leikstjóra að ræða en dívan Divine leikur í henni stóra rullu eins og í mörgum öðrum myndum Waters. Ekki er mér kunnugt um að Odorama lyktarspjald hafi fylgt þessu listverki, eins og þeirri ógleymanlegu mynd Polyester, sem margir fengu að njóta á kvikmyndasýningum árið 1983 í Bíóbæ í Kópavogi. Hef ekki mikið annað um þessa mynd að segja annað en að það er skemmtilegt að mynd eftir Waters skuli vera á þessum Wagnerlista.
- Ludwig: Requiem für einen jungfräulichen König, 1972. Hans-Jürgen Syberberg. Hringurinn, Tristan und Isolde, Lohengrin
- Liztomania, 1975. Ken Russell. Rienzi, Hringurinn.
- Winifred Wagner und die Geschichte des Hauses Whanfried, 1914 -1975. Hans Jürgen Syberberg. Hringurinn.
- Hitler, ein Film aus Deutschland. Hans-Jürgen Syberberg. Hringurinn.
- That Obscure Object of Desire, 1977. Luis Buñuel. Valkyrjureiðin.
- The Boys from Brazil, 1978. Franklin Schaffner. Siegfried – Idyll.
- Pasqualino Settebellezze, (Pasqualino, sjöföld fegurð), 1975. Lina Wertmüller. Valkyrjureiðin.
- Apocalypse Now, 1979. Francis Ford Coppola. Valkyrjureiðin.
Myndir eftir Syberberg
Myndir eftir Syberberg frá miðjum 8. áratugnum hafa nokkra sérstöðu á þessum lista. Mikið af tónlist Wagners hljómar í þessum myndum en þær mætti flokka undir tilraunakvikmyndalist kringum þýsk söguleg mótíf. Sammerkt þeim finns mér að eitt og annað, sem þar ber fyrir augu, gæti komið að góðu gagni við að lækna óæskilega kvilla eins og bjartsýni eða óbærilegt léttlyndi.
- Nosferatu: Phantom der Nacht, 1979. Werner Herzog. Das Rheingold.
- The Blues Brothers, 1980. John Landis. Valkyrjureiðin.
- Excalibur, 1981. John Boorman. Parsifal, Tristan und Isolde, Götterdämmerung.
- Wagner, 1983. Yony Palmer. Siegfried.
- Détective, 1983. Jean-Luc Godard. Rienzi.
- The Running Man, 1987. Paul Michael Glaser. Valkyrjureiðin.
- Romeo+Juliet, 1996. Baz Luhrman. Tristan und Isolde,( Liebestod).
- 24 Hour Party People, 2002. Michael Winterbottom. Valkyrjureiðin.
- Birth, 2004. Jonathan Glazer. Siegfried.
- Jarhead, 2005. Sam Mendes. Valkyrjureiðin.
- The New World, 2006. Terence Malick. Das Rheingold.
- Norbit, 2007. Eddie Murphy. Valkyrjureiðin.
- Bronson, 2008. Nicolas Winding Refn. Götterdämmerung, Das Rheingold.
- The Curious Case of Benjamin Button, 2008. David Fincher. Tannhäuser, (aría, Dich, teure Halle).
- Valkyrie. 2008. Bryan Singer. Valkyrjureiðin.
- Watchmen, 2009. Zack Snyder. Valkyrjureiðin.
- Draumurinn um veginn. 4. hluti : Lærisveinar vegarins, 2010. Erlendur Sveinsson. Parsifal (forleikur)*
- A Dangerous Method, 2011. David Cronenberg. Siegfried, Die Walküre.
- Melancholia, 2011. Lars von Trier. Tristan und Isolde.
- Rango, 2011. Gore Verbinski. Valkyrjureiðin.
- To the Wonder, 2012. Terrence Malick. Parsifal, (forleikur).
- Nymphomaniac, 2013. Lars von Trier. Das Rheingold.
- Florence Foster Jenkins, 2016. Stephen Frears. Valkyrjureiðin.
- Alien: Covenant, 2017. Ridley Scott. Rínargullið, innganga guðanna í Valhöll.
*Draumurinn um veginn er ekki á Wikipediu – listanum. Myndinni var bætt við eftir flutning erindisins.
Melancholia
Melancholia er apókalíptískt drama eftir Danann Lars von Trier. Hún telst önnur myndin í svokallaðri þunglyndis trílógíu leikstjórans þ.e.: Antichrist, Melancholia og Nymphomaniac. Melancholia er tekin upp á ríkulegu strandsetri í Hallandssýslu í Svíþjóð, kallað Tjolöholm. Geri ráð fyrir að margir hérna hafi séð þessa mynd og því ekki fjölyrt um efni hennar. Óhætt er þó að segja að hvorki fyrr né síðar hafi Tristan og Isolde hljómað undir jafn yfirgengilegum ósköpum og þar eiga sér stað.
To the Wonder
To the Wonder er athyglisverð ástar- og skilnaðarsaga eftir Terrence Malick. Það sem einkennir hana er trúarlegur kaþólskur undirtónn með sjálfsævisögulegu ívafi. Eins og mörg atriði í myndum Malicks er eitt þeirra fjarska fallegt og hjálpar þar umgjörðin, sem er klettaborgin Mont-Saint-Michel í Frakklandi. Því fylgja tónar úr Parsifal. Í myndskeiði hér á eftir gefst kostur á að kynnast listsköpun þessi leikstjóra aðeins betur.
- Promising young Woman, 2020. Emerald Fennel. Tristan und Isolde.
- Army of the Dead, 2021. Zack Snyder. Götterdämmerung.
- Wrath of Man, 2021. Guy Ritchie. Valkyrjureiðin.
- Army of Thieves, 2021. Matthias Schweighöfer. Götterdämmerung, Das Rheingold, Valkyrjureiðin, Siegfried.
- Tár, 2022. Todd Field. Tannhäuser( forleikur).
Wrath of Man
Wrath of Man er spennutryllir, leikstýrð af bretanum Guy Ritchie. Eins og í öðrum myndum, þar sem Jason Statham leikur aðalhlutverkið, er enginn skortur á skothvellum og blóðugum barsmíðum. Þessi mynd er með frekar hefðbundnu sniði spennumynda, hvað flesta hluti varðar, en þó er frásagnarvert að valkyrjureiðin gegnir hlutverki hringitóns farsíma í einu atriða myndarinnar* Auðvitað boðar það feigð og grimmilegt mannvíg.
* Eins og reyndar líka í myndinni Commuter, 2018, sem ekki var á listanum. Þekkti því miður ekki til þessarar myndar fyrr en eftir samningu erindisins.
Tár
Síðasta myndin á listanum heitir Tár í höfuðið á aðalpersónu myndarinnar, sem er hljómsveitarstjóri.
101. flugherdeildarfylki landhers Bandaríkjanna - Apríl 1968
Þegar rætt er um Wagner í tengslum við kvikmyndir er ekki ólíklegt að í huga flestra af minni kynslóð komi upp kvikmynd Francis Ford Coppola Apocalypse Now frá árinu 1979. Í þessu tímamótaverki er litið um öxl og vísvitandi vitnað í fyrrnefnda kvikmynd Griffiths: Fæðing Þjóðar. Hugsunin og boðskapurinn að baki gæti samt ekki verið ólíkari. Í stað þess að vekja aðdáun á hugdirfsku notar Coppola tónlist Wagners á kaldhæðinn hátt til að undirstrika grimmd þjóðar sinnnar í hernaði. Allt er heima hvat. Í árásarþyrlu eru möguleikar til brimbrettaleika hálfærum riddaraliðsforingjanum Bill Kilgore efst í huga þegar haldið er á vígaslóð. Undirmenn hans eru hins vegar tilfinningadaufir og áhugalausir á ókunnuglegri og fráhrindandi slóð. Valkyrjutónlist Wagners kemur úr glymskröttum og boðar feigð, eins og slíkri tónlist er lagið, en heitar ástríður eða framhaldstilvera í Valhöllu er fráleit í þessu samhengi. Hér er ekkert að sjá nema nöturleg vígaferli og fáránleikinn og fáfengileikinn metast um hvor eigi sviðið.
Ég vil sérstaklega nefna einn hlut varðandi kvikmyndina Apocalypse now. Mér finnst nokkuð augljóst að burtséð frá hæðnislegri notkun á tónlist okkar manns gegnir framkoma Kilgores, foringja 9. riddarafylkisins, leikinn af Robert Duvall, og notkun hans á Valkyrjureiðinni því lykilhlutverki í myndinni að undirstrika algeran eðlismun á hernaðar-háttarlagi hans og því sem þungamiðja kvikmyndarinnar, Kurz ofursti, hefur fyrir stafni djúpt inni í víetnömskum frumskóginum. Kurz hefur, að eigin mati, krufið eðli hernaðarlistarinnar til mergjar. Tautandi línur úr ljóði T.S. Eliots, The Hollow Men (1925) horfist hann í angist sinni og einmanaleika í augu við þá staðreynd að velgengni í hernaði snýst um það eitt að snúa baki við öllu sem heitir meðaumkun. Staðfastur í þeirri sannfæringu sinni að feta þá braut, þráir hann samt innst inni að fá að losna úr þeim kvalaböndum sem hann hefur reyrt að sér og finna að lokum þann frið sem margur örvinglaður hermaður hefur víst fagnað, er hann nemur hinn raunverulega söng valkyrjanna.
Vopnahlésdagurinn - 11. nóvember 1918 - London
Það má segja að tónlist Wagners í kvikmyndum hverfist einna oftast um aðeins tvö mótíf, annars vegar vígamóð og hins vegar harmræn geðbrigði eða dauðaangist undir válegum kringumstæðum. Hvergi er þetta meira áberandi en í þeim myndum sem tónlistin um elskendurna Tristan og Isolde kemur fyrir og er af mörgu að taka í þeim efnum. Sú mynd sem markaði þá lífseigu hefð að nota þessa tónlist í átakanlegum dauðasenum, eins og i upprunaverki Wagners, var kvikmyndin Farewell to Arms eða Vopnin kvödd frá árinu 1932, leikstýrð af Frank Borzage. Hér er um að ræða verðlaunaða stórmynd úr kvikmyndaverinu í Hollywood. Þarna eru menn komnir upp á lag með að samræma og fínstilla tónalist að leikatriðum eins og nútímafólk er svo alvant við, eins og til dæmis með því að hækka hana og lækka þar sem við á og þannig magna upp dramatíkina.
Hér er komið að leikslokum. Hjúkrunakonan Catharine Barkley, Leikin af Elen Hays, liggur fyrir dauðanum á fæðingardeild en eiginmaðurinn Frederick Henry liðsforingi, leikinn af Gary Cooper, vitjar hennar á dánarbeðinu. Takið eftir því hvernig áhersla í tónverkinu er notuð í atriðinu þegar læknirinn opnar dyrnar út á ganginn, þar sem Frederick bíður. Einnig hvernig sama bragð er notað í samtali aðalpersónanna. Þessi aðferð var nýjung á þeim tíma, þar sem tónlist í kvikmyndum hafði fram að þessu mest verið notuð til að ná fram almennri stemmningu en ekki mikið hugað að fínlegri blæbrigðum leiks eða samræmingu einstaka klippinga við framvindu tónlistarinar. Við sem erum alin upp við þessa aðferð tökum varla eftir henni svo alvanaleg og sjálfsögð sem hún er. Sú hugsun er líka áleitin hvort margir sem sáu myndina Farewell to Arms upphaflega hafi ekki upplifað þetta minnisstæða atriði á mun sterkari hátt en okkur getur grunar. Alla vega var annar hamingjusamlegri endir framleiddur fyrir bandaríkjamarkað, svona til vonar og vara.
Pocahontas - Disney Productions - 1995
Terrence Malick er leikstjóri, sem gert hefur eftirminnanlegar listrænar kvikmyndir og tvisvar sinnum notast við tónlist Wagners. Sumar af myndunum á listanum falla undir tilraunakennda listræna kvikmyndagerð en það þýðir oftast að slík framleiðsla er sjaldan sniðin að smekk venjulegra áhorfenda, sem oft setja sínar kröfur og láta ekki bjóða sér hvað sem er. Malick er þó alveg á jaðrinum og sumt af því sem hann hefur gert hefur notið nokkuð almennra vinsælda í kvikmyndahúsum. The New World er af slíku tagi og fjallar um landnám Englendinga í Virginíu árið 1607. Aðalpersónur eru þau elskendurnir John Smith og Pochahontas en þau eru alþekkt úr bandarískri þjóðarsögu. Sögusviðið í upphafsatriði myndarinnar er við bakka James River. Powhatan þjóðin er í hlutverki Rínardætra og gullið er þeirra eigið land. Alberich lónir fyrir utan á skipsfjöl en í stað þriggja vatnadísa eru 3 dökk skip. Fyrsta atriðið í löngum harmleik er um það bil að hefjast ,,,
Le Chevalier aux fleurs
Nú líður að lokum þessa stuttlega erindis og meðfylgjandi myndasýningar. Í kvikmyndinni Excalibur frá árinu 1981, sviðsetti enski leikstjórinn John Boorman sögu Artúrs kóngs eins og henni er lýst í frásögn sir Thomas Malory, Le Morte d´Arthur frá 15. öld. Artúr konunugur er goðsöguleg persóna sem varð til i umróti krossferðatímans í Suður- og Mið-Evrópu. Um tilurð þessa sagnakóngs eru til margar og aðskiljanlegar tilgátur. Segja má þó að engar trúverðugar heimildir séu tiltækar sem geta sýnt fram á að hann hafi nokkru sinni átt jarðvist í okkar heimi. Hvað sem því líður spannst um riddara þessa konungs digur sagnabálkur og eins og líklega flestir hér vita lét tónskáldið okkar ekki sitt eftir liggja við að ganga í þann sjóð til fanga. Artúr konungur átti samkvæmt hefð að hafa ríkt í Bretlandi á tímum þjóðflutninganna miklu. í kjölfar rómantíkur og þjóðernishyggju á 19. öld urðu Artúrsmenn mörgum listamanninum að viðfangsefni og var Wagner bara einn af mörgum. Í myndlist varð þetta mótíf líka geysivinsælt, sérstaklega í Englandi á því tímbili sem kennt er við Viktoríu drottningu. Eitt er þó áberandi við þessa myndhefð að Artúrsmótíf eru sjaldnast eða næstum aldrei tengd efnislegum veruleika hins myrka þjóðflutningatíma, eins og reynt var að gera í sambandi við önnur mótíf sbr. Niflungahring Wagners. Í stað loðfelda og fjaðrahjálma, eru riddarar hringborðsins oftast sýndir í glansandi pönsurum og plátum 15. aldar og annað eftir því. Í þessa smiðju gengur Boormann óhikað og undir heyrast tónar úr verkum Wagners. Siegfrieds Tod und Trauermarsch markar bæði inngang og endi myndarinnar Excalibur á svipaðan hátt og Malick gerði með Rínargullið í mynd sinni um Nýja heiminn. Samkvæmt flokkunarkerfi kvikmyndalistarinnar fellur Excalibur líklega undir svokallaðar fantasíu- eða ævintýramyndir. Ég vil hins vegar líta á hana sem eins konar óð til liðinnar menningarhefðar, þar sem öllu er til tjaldað í þeim tilgangi að vekja hughrif í 19. aldar anda. Er það gert bæði í mynd og tónum og án allra kunnuglegra fyrirvara eða gráglettni.
Þegar maður hefur skoðað notkun Wagnertónlistar í kvikmyndum, kemur það dálítið á óvart að þessi kafli um fall Sigurðar fáfnisbana úr Götterdämmerung hafi ekki freistað fleiri kvikmyndagerðarmanna en raun ber vitni. Mér er ekki kunnugt um að aðrir leikstjórar en Boorman hafi notað hana sem undirleik við óskylt efni. Hvað veldur veit ég ekki en kannski er dæmi hans svo yfirþyrmandi og ógleymanlegt að enginn hafi treyst sér að fylgja í þau fótspor.
(Hvað um það). Artúr konungur, leikinn af Nigel Terry, er hniginn í gras, örmagna af blóðrás og banvænn orðinn. Fallinn er fjandmaður hans og sonur, Mordred, og enginn stendur eftir af fylgjurum utan Parsifal einn, sem leikinn er af Paul Geoffrey. Konungur biður sinn dygga riddara að kasta töfrahjör sínum Excalibur á vatn út en Parsifal hikar. Dísir bíða átekta, morgun rís og ferjan til Avalon bíður albúin til siglingar.