Wagnerfélagið ræðst nú í stærsta verkefni sitt frá upphafi (Litli Hringurinn var áður en félagið var stofnað). Þetta eru Wagnerdagar frá 2.-6. júní (sjá viðhengi).Félagsmenn eru hvattir til að kaupa sér miða, ekki bara til að styrkja starf félagsins heldur til að missa ekki af frábærri upplifun.

Félagið stendur fyrir tvennum tónleikum á Wagnerdögum, þeir fyrri eru 2. júní í samvinnu við Listahátíð. Þá heldur Kammersveit Reykjavíkur í fyrsta sinn Wagnertónleika undir yfirskriftinni “Wagner í návígi”. Hin frábæra söngkona Hanna Dóra Sturludóttir flytur þá bæði Wesendonckljóðin í útgáfu fyrir rödd og strengjakvintett og Liebestod úr Tristan und Isolde.

Meira um þessa tónleika hér fyrir neðan, en hér er linkur til að kaupa miða: Listahátíð

4. júní er  Alþjóðlegt málþing í Veröld, Húsi Vigdísar. Fyrir hádegi á þýsku, eftir hádegi á ensku, næstum sömu fyrirlestrar. Yfirskriftin er:

Richard Wagner og Ísland. Norrænar fornsagnir og áhrif þeirra á Wagner.  Ókeypis aðgangur fyrir félagsmenn.

Klukkan 17 sama dag eru svo seinni tónleikar Barböru Hannigan ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þeir sem vilja geta svo fengið sér galadinner í La Primavera (áður Kolabrautin), sem kynnt var í pósti 3. maí sl. Skráning fyrir 28.maí svo lengi sem pláss leyfir hjá Solrun.Jensdottir@gmail.com, sími 8959118. Fyrstir koma fyrstir fá.

5. júní leikur svo píanósnillingurinn Albert Mamriev í Salnum í Kópavogi, kl 17. Þessir tónleikar eru líka á vegum félagsins. Linkur til að kaupa miða fyrir þá ekki hafa þegar tryggt sér miða, er: Salurinn

Efnisskráin er eftirfarandi:

  • L. van Beethoven:
  • Píanó sónata op. 109 í E-dúr
  • Píanó sónata op. 110 í As dúr

Hlé

  • Wagner-Liszt:
  • Feierlicher Marsch úr Parsifal.
  • Ballaða úr Der fliegende Holländer
  • O du mein holder Abendstern úr Tannhäuser
  • Isoldes Liebestod úr Tristan und Isolde
  • Santo Spirito Cavaliere úr Rienzi.

 

Albert Mamriev mun svo, daginn eftir tónleikana, halda master class og fyrirlestur í samvinnu við Íslandsdeild Evrópusambands píanókennara. Það verður í Tónlistarskólanum í Garðabæ og hefst kl 9 árdegis.

Kynning á tónleikum Kammersveitar:
Það er mikið tilhlökkunarefni að Kammersveit Reykjavíkur mun nú í fyrsta sinn leika tónleika með tónlist Richards Wagner. Tónleikarnir eru í samvinnu við Richard Wagnerfélagið á Íslandi, sem stofnað var 1995 og Alþjóðasamtök Wagnerfélaga og marka upphaf alþjóðlegra Wagnerdaga í Reykjavík 2.-6. júní. Verkin sem leikin verða eru Siegfried Idyll í upprunalegu gerðinni, en Wagner samdi verkið sem gjöf til konu sinnar, Cosimu, eftir fæðingu sonar þeirra, Siegfrieds og var hún vakin upp með flutningi þess í stigaganginum á húsi þeirra við Tribschen í Sviss á jóladag 1870. (Sagt er að hljómsveitarstjórinn Hans Richter hafi sérstaklega lært á trompet til að leika 13 trompettakta í verkinu við þetta tilefni. Til að Cosima kæmist ekki að neinu hafi hann siglt út á Luzernvatnið til að geta æft án þess að heyrðist). Hanna Dóra Sturludóttir mun syngja Wesendonck ljóðin í útsetningu fyrir strengjakvintett, en þau eru upphaflega samin fyrir rödd og píanó við ljóð Mathilde Wesendonck, sem var í nánu sambandi við Wagner og mikill áhrifavaldur. Hanna Dóra mun einnig syngja Isoldes Liebestod (Ástardauði) úr Tristan und Isolde, en samband Wagners og Mathilde endurspeglast um margt í óperunni. Flutt verður sérstök umritun, en þýski fiðluleikarinn Martina Trumpp hefur útsett atriði úr Tristan og Isolde fyrir strengjaseptett og verða hlutar af þeim útsetningum einnig fluttar ásamt Liebestod. Martina Trumpp mun leiða kammersveitina á þessum tónleikum.

Bestu kveðjur.
Við vonumst til að sjá sem flesta!
Selma Guðmundsdóttir