Wagner og Íslendingar
Á 25 ára afmæli félagsins
Árni Björnsson
Vefvarp 12. desember 2020
Athugið að hægt er að stækka myndir með því að smella á þær og minnka aftur með því að smella á x í efra hægra horni þeirra.
Áður en ég sný mér að meginefni þessa erindis, um tengsl Niflungahringsins við íslenskar bókmenntir, sýnist okkur við hæfi að gera stutta grein fyrir kynnum Íslendinga af Wagner fram til þess tíma að Wagnerfélagið var stofnað fyrir 25 árum.
Richard Wagner var 19. aldar maður á svipuðum aldri og Fjölnismennirnir okkar, Jón Sigurðsson forseti, og skáldin Jón Thoroddsen og Grímur Thomsen. Hvergi sést hans þó getið í ritum þeirra og ekki er vitað hvenær Íslendingar fréttu fyrst af tilveru hans. Hann var ekki orðin þekkt persóna þegar þeir Tómas Sæmundsson og Konráð Gíslason fóru í sínar Evrópureisur. Ætla má þó að einhverjir Hafnarstúdentar hafi heyrt hans getið eftir miðja 19. öld þegar Konunglega leikhúsið byrjaði að flytja verk eftir hann.
En nafn Wagners hefur ekki fundist á prenti á Íslandi fyrr en sagt er í blaðinu Þjóðólfi frá fyrstu Bayreuth-hátíðinni og frumflutningi Niflungahringsins sumarið 1876. Og það er skáldið Matthías Jochumsson sem segir frá. Matthías virðist reyndar hafa verið búinn að fræðast nokkuð um Wagner fáum árum fyrr hjá Eiríki Magnússyni bókaverði í Cambridge sem hafði hrifist mikið af músík Wagners.
Síðan sést getið um andlát Wagners í tímaritinu Skírni 1883 og Benedikt Gröndal skáld getur hans fimm árum seinna í fyrirlestri í Reykjavík um rómantískan skáldskap.
Fyrstu Íslendingar sem vitað er að hafi séð Wagneróperu eru Hannes Þorsteinsson síðar þjóðskjalavörður og Halldór Jónsson bankagjaldkeri sem sáu Valkyrjuna í Parísaróperunni haustið 1896. Skáldið Einar Benediktsson heyrði forleikinn að þriðja þætti óperunnar Lohengrin í Queens Hall í Lundúnum vorið 1903, og orti eftir það hið glæsilega kvæði, Í Dísarhöll: Bumba er knúð og bogi dreginn / blásinn er lúður og málmgjöll slegin.
Fyrir 110 árum hóf svo íslenskur tannlæknanemi, Pétur Jónsson, 3ja ára söngnám í Berlín, og að því loknu leið ekki á löngu þar til hann var tekinn að syngja sum helstu tenórhlutverk í óperum Wagners í söngleikjahúsum í Þýskalandi – og stundaði það með prýði í tvo áratugi. Pétur kom oft heim á sumrin og hélt þá söngskemmtanir, og þá munu Íslendingar einna fyrst hafa kynnst tónlist Wagners.
Eftir að Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð um miðja síðustu öld voru öðru hverju fluttir forleikir og önnur styttri verk eftir Wagner, og ekki síst undir stjórn hinna þýsku andófsmanna sem hér voru búsettir einsog Viktors Urbancic, Róberts Abrahams Ottósonar og Alberts Klahn.
Sumarið 1967 var tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins, Árna Kristjánssyni, boðið á Bayrreuth-hátíðina. Veturinn eftir kynnti Árni Hringinn allan í útvarpinu og greindi frá ferð sinni í sérstöku erindi. Það var viðamesta kynning á tónlist Wagners sem enn hafði átt sér stað á Íslandi. Íslenskir söngvarar fetuðu lengi vel lítt í fótspor Péturs Jónssonar. María Markan söng að vísu tvö hlutverk við Metropolitan í New York uppúr 1940 og Þorsteinn Hannesson þrjú hlutverk við Covent Garden í Lundúnum uppúr 1950.
Þetta breyttist með nýrri kynslóð söngvara uppúr 1980. Meðal þeirra má nefna Kristin Sigmundsson, Guðjón Óskarsson, Viðar Gunnarsson, Bjarna Thor Kristinsson, Tómas Tómasson, Þóru Einarsdóttur, Elmar Gilbertsson, Kolbein Ketilsson og Ólaf Kjartan Sigurðsson. Fleiri hafa bæst við. Um líkt leyti var tekið að flytja konsertuppfærslur á óperum eftir Wagner: Hollendingurinn fljúgandi árið 1985 og Tannhäuser árið 1989.
Síðan fór að draga til meiri tíðinda. Árni Tómas Ragnarsson fékk miða á Bayreuth-hátíðina sumarið 1990 sem ritstjóri Óperublaðsins, og þau Selma Guðmundsdóttir sóttu hátíðina nokkur næstu sumur. Valgarður Egilsson formaður undirbúningsnefndar Listahátíðar fékk þá hugmynd að Wagnerópera skyldi verða skrautfjöður hátíðarinnar á 50 ára afmæli íslenska Lýðveldisins árið 1994. Hann fól Selmu að ræða málið við Wolfgang Wagner tveim árum fyrr. Wolfgang kom síðan til Íslands, kynnti sér aðstæður og lagði loks til að sett yrði upp stytt útgáfa af Niflungahringnum. Slíkt hafði aldrei áður verið gert og sætti nokkrum tíðindum og jafnvel hneykslun hjá harðsvíruðum Wagneristum.
En uppfærslan þótti takast með ágætum. Hér sjást Lia Frey-Rabine sem Brynhildur, Garðar Cortes sem Sigmundur og Ólöf Kolbrún Harðardóttir sem Signý.
Árið eftir, 12. desember 1995, var Wagnerfélagið stofnað. Selma Guðmundsdóttir hefur verið formaður þess frá upphafi. Árið 2009 var hún sæmd heiðursmerki Alþjóðasamtaka Wagnerfélaga og frá 2014 hefur hún verið í stjórn samtakanna.
Auk þeirra frumkvöðla sem áður var getið mætti nefna Jóhann J. Ólafsson, Jóhannes Jónasson og Þorstein Gylfason sem sneri texta Wagners á íslensku í uppfærslu Hringsins árið 1994.
Síðan hafa ýmsir þekktir erlendir Wagneristar heimsótt Ísland svosem tveir formenn alþjóðasamtakanna, Josef Lienhart og Eva Märtson, og sagnfræðingurinn Oswald Georg Bauer hefur komið hingað þrisvar.
Og fyrir þrem árum kom hingað Eva Wagner, langafabarn Richards. Hún heimsótti Þingvelli og Þjóðminjasafnið, skoðaði Edduhandritið á Árnastofnun og var boðin til forseta Íslands að Bessastöðum.
Aðalhlutverk félagsins var vitaskuld að kynna verk Wagners á Íslandi, en sérstakt verkefni var að rannsaka tengsl hans við íslenskar bókmenntir, sem einkum á við um Niflungahringinn. Löngu var vitað um þennan skyldleika, en hvorki hversu margháttaður eða náinn hann var. Svo talaðist til að sá sem hér talar fékk leyfi menntamálaráðherra Björns Bjarnasonar frá störfum sínum við Þjóðminjasafnið í fjóra mánuði til að vinna að þessu verki.
Seinna fékk ég styrk til rannsókna á bóka- og skjalasafni Wagners í Bayreuth. Bókin Wagner og Völsungar kom svo út árið 2000 og þrem árum seinna seinna bæði á þýsku og ensku. Síðan hefur mér verið boðið að flytja erindi um efni hennar í allmörgum borgum í þrem heimsálfum, Evrópu, Ameríku og Ástralíu. Allt þetta mun hafa orðið til þess að fyrir nýjustu uppfærslu Hringsins í Metropolitan-óperunni í New York gerði leikstjórinn Robert Lepage sér ferð til Íslands, til að kanna hér aðstæður og glugga í bókina. Og þess sér nokkurn stað í sýningunni, segja þau sem séð hafa. Og nú er ég staddur hér, og ætlunin er að útskýra í eins stuttu máli og unnt er með góðu móti, hvernig og hvers vegna Niflungahringurinn tengist svo mjög íslenskum fornbókmenntum. Og um leið af hverju þessar heimildir geymdust einmitt á Íslandi.
Richard Wagner var fæddur í Leipzig á Saxlandi árið 1813 og átti mestalla ævi sína heima í Miðevrópu. Hann var ekki bráðþroska tónskáld einsog til að mynda Mozart og Schubert, en hann var snemma mjög næmur á bæði tónlist og bókmenntir og mikill lestrarhestur. Adolf föðurbróðir hans átti mjög gott bókasafn sem drengurinn lá löngum í. Hann ákveður samt 16 ára gamall að gerast tónlistarmaður eftir að hafa séð óperuna Fidelio eftir Beethoven.
Fyrstu óperur Wagners skáru sig ekki mikið úr öðrum samtímaverkum, hvorki að efni né tónmeðferð.
Hann hafði samt strax þá sérstöðu að semja óperutextann sjálfur, enda leit hann ekki síður á sig sem ljóðskáld. Smám saman fór hann að fá hug á sögulegum, þjóðlegum efnum og tók að móta sitt sérstaka tónmál. Fyrstu frægustu óperur sínar semur hann þó ekki fyrr en hann er kominn um og yfir þrítugt. Það eru Hollendingurinn fljúgandi um skipstjóra sem er haldinn þeim álögum að verða að sigla friðlaus um heimsins höf, síðan Tannhäuser sem fjallar um þjóðsögulega söngvakeppni ásamt baráttu holds og anda í kastalanum Wartburg, og eftir það Lohengrin um hetju úr dularheimum sem bjargar prinsessu frá dauðarefsingu með því að kvænast henni, en verður að leyna hana nafni sínu. – Wagner virðist reyndar láta hugann reika víða um þetta leyti. Hann skrifar til að mynda drög að óperutexta um þýska keisarann Friðrik rauðskegg og önnur textadrög eftir hann eru til um sjálfan Jesúm frá Nasaret.
En skömmu eftir að Wagner lauk við Lohengrin fær hann greinilega hug á sögunni um Sigurð Fáfnisbana, sem hann hefur trúlega lesið um hjá Adolf frænda sínum og heitir bara Siegfried í þýskum sögnum. Og hann semur árið 1848 textadrög um Siegfried upp úr fyrra hluta þýska miðaldakvæðisins Nibelungenlied. Þessi drög hans heita Dauði Siegfrieds. Aldarfjórðungi síðar urðu einmitt þessi drög uppistaða í seinni hluta seinustu óperu Niflungahringsins, sem heitir Ragnarök eða Götterdämmerung.
Eftir þessa textagerð verður tveggja ára hlé á föndri Wagners við Sigurð Fáfnisbana. Hann gerist lýðræðissinni í hinum evrópska byltingaróróa um miðja 19. öld og verður landflótta til Sviss. – Þrem árum seinna fær þessi bókamaður í hendur nýja þýska þýðingu Karls Simrock á bæði Eddukvæðum og Snorra Eddu. Það kveikir í honum á ný og á næstu tveim árum semur hann frumtextann að öllum Hringnum. – Það er rétt að hafa í huga að hann samdi textann að Hringnum aftur á bak. Hann hafði einsog áður sagði þegar samið frumgerð að Dauða Sigurðar. Nú fannst honum hann þurfa að bæta framanvið óperu um æsku Sigurðar. Og þegar það var búið, fannst honum þurfa að greina frá því í óperu, hvernig Sigurður Fáfnisbani varð til. Og þá samdi hann textann að Valkyrjunni. – Og loks þurfti hann að gera grein fyrir þessu gulli og þessum hring sem allir voru að berjast um. Því samdi hann textann að Rínargulli. Og næstum allan þennan texta vann hann upp úr íslenskum fornritum, nefnilega Eddukvæðum, Snorra Eddu, Þiðreks sögu, en ekki síst Völsunga sögu. Einstaka minni úr Íslendinga sögum bregður að vísu fyrir, jafnvel úr Grimmsævintýrum, og loks í seinustu óperunni, Ragnarökum, er talsvert unnið úr þýsku efni, einkum fyrrnefndu miðaldakvæði, Nibelungenlied.
Wagner byrjar svo ekki á músíkinni við Hringinn fyrr en tveim árum eftir að hann lauk við textann, og hann lýkur ekki endanlega við músíkina fyrr en 20 árum seinna. Í millitíðinni semur hann meðal annars tvær óperur, Tristan og Isolde og Meistarasöngvarana frá Nürnberg. – Hann semur músíkina við Hringinn hinsvegar framan frá, öfugt við textann, byrjar á Rínargullinu og endar á Ragnarökum.
Það er rétt að gera sér ljóst, að Wagner virðist nánast ekkert hafa vitað um Ísland, annað en að það væri einhver hluti Danaveldis. Og hann mun ekkert hafa vitað um, að þær bókmenntir sem hann sótti svo mikið efni til, hefðu verið skrifaðar á Íslandi. Það vissu menn almennt ekki um miðbik 19. aldar. Flestir Evrópumenn litu á Norðurlönd sem eina heild og þetta voru oftast nefndar norrænar eða þá forngermanskar bókmenntir. Einungis einstaka fræðimenn vissu betur líkt og Jakob Grimm. Sem dæmi um þetta má nefna, að þegar Wagner var að byrja að hugsa um Hringinn, þá hitti hann danska tónskáldið Niels Gade á tónkeikum í Dresden og sagði þá við Danann: „Ég þarf endilega að kynna mér betur þessi fornnorrænu eddukvæði ykkar; þau eru langtum djúpsærri heldur en miðaldakvæðin okkar.“
En við skulum jafnframt að gera okkur ljóst, að þegar Wagner er orðinn fulltíða maður, þá var búið að þýða töluvert af eddukvæðum og íslenskum fornaldarsögum á þýska tungu, og jafnvel valda kafla úr nokkrum Íslendinga sögum. En þetta var allt kallað „nordisch“ og þessi áhugi Þjóðverja á fornum norrænum sögnum tengdist í fyrsta lagi rómantísku stefnunni, þar sem leitast var við að grafa þjóðlegar og alþýðlegar sagnir og kvæði úr gleymsku. Frakkar höfðu byrjað á þessu þegar um 1700 og Þjóðverjarnir Jóhann Gottfried Herder og Grimmsbræður tæpri öld seinna.
Í öðru lagi höfðu ósigrar Þjóðverja fyrir Napóleon í byrjun 19. aldar hleypt þjóðhollum Þjóðverjum kapp í kinn. Napóleon hafði í hroka sínum látið taka fereykið ofan af Brandenborgarhliðinu í Berlín og flytja það til Parísar, bara til að niðurlægja Þjóðverja. Þessir þjóðhollu menn sögðu: Franska þjóðin er sameinuð. Hún er stolt af fornri menningu sinni og riddaraljóðum sínum. Þýska þjóðin er sundruð í ótal smáríki. Við verðum að hefja forna menningu okkar til vegs og virðingar og sameinast um að halda henni á loft okkur til andlegrar styrkingar. Og hvar var forngermanskan hetjuskap helst að finna? Varla í fornþýskum ástaljóðum, frekar í fornaldarsögum Norðurlanda og hetjukvæðum Eddu. Þar mátti finna sigursælar og ofurmannlegar hetjur. Miklu síður í Íslendingasögum, þær voru flestar of raunsæjar og jafnvel dapurlegar. Þær voru heldur ekki þýddar að neinu marki fyrr en seinna.
Upp úr þessu viðhorfi spratt hinn svonefndi sam-germanismi. Samkvæmt honum töldust Norðurlönd til hins germanska eða jafnvel þýska menningarsvæðis. Og þessvegna leyfði Jakob Grimm sér að nefna eitt af stórvirkjum sínum ‘Deutsche Mythologie’, þýska goðafræði, enda þótt hrygglengjan úr því verki væri tekin úr hinni íslensku Snorra Eddu. Vissulega bætti Grimm mörgu við Eddu í goðafræði sinni. En í samræmi við þessa samgermönsku menningarstefnu hlutu íslenskar og aðrar norrænar bókmenntir mjög skjóta útbreiðslu á hinu þýska svæði.
Þrátt fyrir þennan samgermmanska áhuga var Þýskaland ekki sameinað í eitt keisaradæmi fyrr en Bismarck kom því í kring árið 1871, þegar Wagner var kominn um sextugt. En alla 19. öldina fram að þeim tíma var samt sem áður gífurlega mikið gefið út á þýsku af íslenskum fornritum. Við getum sýnt hér örfá dæmi um þessa útgáfustarfsemi á 18. og 19. öld:
Hér er fyrsta útgáfa eða öllu heldur endursögn á Snorra Eddu frá árinu 1777.
Og næst sjáum við fyrstu þýsku heildarútgáfuna af Eddukvæðum, sem þá er enn kölluð Sæmundar Edda. Hún er frá 1812, þótt eitt og eitt Eddukvæði hefði reyndar birst áður.
Fyrsti rithöfundurinn, sem notaði íslenskar fornsögur til að skapa eigið skáldverk, það var prússneskur barón af frönskum ættum og hét Friedrich de la Motte Fouché. Þegar árið 1808, 5 árum áður en Richard Wagner fæddist, gaf hann út fyrsta hlutann af þríleik sínum, Hetja Norðursins, og þessi fyrsti hluti hét einmitt Sigurd der Schlangentödter, en það er í fyrsta sinn, sem nafni Sigurðar Fáfnisbana sést snúið yfir á þýsku. Efnið í þessum lesleik er að mestu byggt á Völsunga sögu. Adolf Wagner, föðurbróðir Richards, sem áður var nefndur, hann var kunningi þessa baróns og átti bækur hans, og það má telja nokkuð víst, að Richard litli hafi lesið þessi verk í hinu góða bókasafni frænda síns, þótt hann geti þess ekki beinlínis í sjálfsævisögunni.
Fjórða dæmið er svo áðurnefnd þýðing Karls Simrock á báðum Eddunum frá 1851. Simrock var bæði skáld og fræðimaður og þýðing hans var miklu betri en hinar fyrri. Og hún virðist blátt áfram hafa snúið Wagner aftur í gang við að semja texta Hringsins eftir 2ja ára hlé. Wagner hafði því úr miklu að moða um miðja 19. öld.
Og þá er víst kominn tími til að skoða hvernig Wagner nýtti sér þessar heimildir. – Það er samt rétt að taka það skýrt fram strax, að í rauninni er engin bein þörf á að vera að grafast fyrir um heimildir Wagners að efnisþræðinum í Niflungahringnum. Sú goðsögn, sem hann býr til sjálfur, hún stendur fullkomlega fyrir sínu. – Hinsvegar skóp Wagner ekki þessa goðsögn sína úr engu, hann sauð hana saman úr ýmsum eldri sögnum, þótt hann bætti sjálfur mörgu við frá eigin brjósti. Og ef við á annað borð viljum draga heimildir hans fram, þá ættum við fyrst líta á hans eigin orð:
Í fyrsta lagi er hér málsgrein úr sjálfsævisögu Wagners, Mein Leben. Eins og margir vita, þá er stíll Wagners stundum dálítið strembinn, það er hinn alræmdi þýski fræðimannastíll, en í stuttu máli er Wagner hér að segja, að enda þótt hann sé ekki fluglæs á norræn tungumál, þá hafi hann reynt að lesa Eddu og Völsunga sögu, og þessi lesning hafi smám saman orðið mjög ákvarðandi fyrir efnistök hans.
Í öðru lagi er hér málsgrein úr alþekktri Orðsendingu, sem Wagner sendi vinum sínum sumarið 1851. Þá var hann einmitt nýbyrjaður aftur á texta Hringsins eftir tveggja og hálfs árs hlé, sem meðal annars stafaði af flótta hans frá Dresden til Zürich.
Hann var nýbúinn að fá í hendur nýja þýðingu Karls Simrock, sem við sáum áðan, á bæði eddukvæðunum og Snorra Eddu. Í þessari orðsendingu staðhæfir Wagner, að enda þótt hann hefði ætíð hrifist af hinni glæsilegu ímynd Siegfrieds, þá hefði hann fyrst eftir að hafa kynnst honum í sinni upprunalegu mynd, séð möguleika á að gera hann að höfuðpersónu í leikverki. Það hefði honum aldrei til hugar komið, meðan hann þekkti Siegfried einvörðungu úr hinu þýska Nibelungenlied.
Margir fræðimenn hafa raunar alltaf vitað, að Wagner sótti mikið efni í eddurnar og Völsunga sögu. Samt sem áður hefur hingað til staðið í prógrömmum næstum allra óperuhúsa í heiminum, þar sem Hringurinn er sýndur, að meginuppspretta hans sé þýska miðaldaljóðið Nibelungenlied, þótt eitthverjar slitrur séu líka úr hinum norrænu eddum og sögum. Þessi staðhæfing fer reyndar þvert á það sem Wagner sjálfur segir.
Aðalástæðan fyrir þessari mistúlkun er sennilega mjög einföld. Nöfnin Nibelungenlied og Der Ring des Nibelungen hljóma svo líkt, að óvart hljóta menn að tengja þau saman, sérstaklega þeir sem ekki hafa lagst í neina rannsókn, heldur éta bara upp það sem stendur í eldri prógrömmum – eins og flestir gera.
Önnur ástæða gæti líka verið sú, að einhverjir þýskir umsjónarmenn hinna fyrstu dagskrárhefta hafi á sínum tíma viljað gera sem mest úr sínu eigin söguljóði. Ég varð satt að segja var við það í fyrstu, þegar ég fór að kynna mínar eigin niðurstöður, að sumir þýskir kunningjar mínir voru ekkert sérlega upprifnir yfir þeim. Breyting á þessu varð reyndar með nýjustu uppfærslu Metropolitan-óperunnar 2013 , enda hafði leikstjórinn þá, einsog áður sagði, heimsótt Ísland og gluggað í hina ensku gerð þeirrar bókar sem hér um ræðir.
Orð Wagners sjálfs hafa nefnilega fengist staðfest með nákvæmum textasamanburði. Ég ætlaði varla að trúa því sjálfur, þegar ég fór að vinna í þessu, og það kom í ljós, að þetta hafði aldrei verið gert áður svo vitað sé. Ég eyddi löngum tíma á skjalasafni Wagner-stofnunarinnar í Bayreuth við að leita að einhverjum slíkum gögnum, en án árangurs.
Og útkoman varð sú að um 80% af öllum lánsmótífum í texta Hringsins, það er að segja þeim hugmyndum, sem Wagner býr ekki til sjálfur, þau eru úr íslenskum bókmenntum eingöngu, um 5% eru úr þýskum bókmenntum eingöngu, en um 15% eru sameiginleg íslenskum og þýskum bókmenntum.
Ég ætla næst að nefna lauslega helstu heimildir, sem Wagner sótti efni sitt í. Einhverjum kann að finnast, að það sé óþarfi að rekja sumt af þessu fyrir Íslendingum, en ég held að það geri ekkert til þótt þessir sjálfsögðu hlutir séu rifjaðir upp – ekki síst núna á tíma snjallsímans.
Eddukvæði eru íslenskt safn af fornkvæðum um goð og hetjur. Elsta handritið er frá síðara hluta 13. aldar og hefur að geyma um 30 kvæði.
Snorra Edda var sett saman á Íslandi snemma á 13. öld. Hún er hugsuð sem einskonar handbók fyrir skáld. En til að skilja gamla skáldamálið, var nauðsynlegt að þekkja margar mýtur um goð og hetjur. Þessvegna hefur Snorra Edda löngum verið kölluð lykill að norrænni goðafræði, þótt hún væri ekki beinlínis hugsuð til þess brúks.
Völsunga saga er ein af hinum svokölluðu fornaldarsögum, þar sem sagt er frá atburðum í tímalausri fortíð, utan Íslands og löngu fyrir Íslands byggð. Þessi saga á rætur að rekja til þjóðflutningatímans í Evrópu á fjórðu, fimmtu og sjöttu öld, og átökum milli Búrgúnda, Húna og Gota. En goðin Óðinn og Frigg koma einnig fyrir í upphafi sögunnar.
Þiðreks saga af Bern er viss blanda af hetjuþáttum og söguljóðum í óbundnu máli. Í formála hennar segir orðrétt, að hún sé ‘saman sett eftir sögn þýskra manna’. En sagan var skrifuð á norrænu máli, norsku eða íslensku, og Þjóðverjar urðu að þýða hana úr íslensku yfir á sitt eigið tungumál á 19. öld. En Þiðrek þessi er Theodoricus Austgotakonungur, sem uppi var um 500, og borgin Bern er ekki núverandi höfuðborg í Sviss, heldur borgin Verona á Ítalíu.
Heimskringla er saga Noregskonunga frá elstu tíð til ársins 1177. Hún var skrifuð á Íslandi snemma á 13. öld.
Egils saga og Gísla saga eru af þeim flokki fornsagna, sem kallast Íslendingasögur og eru flestar skrifaðar á 13. öld. Þær voru ekki þýddar og prentaðar eins snemma erlendis og fornaldarsögurnar, sem þóttu geyma meira samevrópskt efni. Samt kom út í Berlín þegar árið 1816 einskonar sýnisbók með þýddum köflum úr um það bil 50 Íslendingasögum og þáttum. Og við vitum, að Wagner átti einmitt eintak af þessari sýnisbók.
Das Nibelungenlied er lengsta og frægasta þýska fornkvæðið. Það var sett saman kringum 1200. Persónurnar eru að talsverðu leyti hinar sömu eða svipaðar og í sumum eddukvæðum og Völsunga sögu, svo og í vissum köflum í Snorra Eddu og Þiðreks sögu. En það eru engir guðir og engar valkyrjur eða nornir í Nibelungenlied – og engin Valhöll.
Das Lied vom Hürnen Seyfrid er stutt þýskt miðaldakvæði, og nafnið merkir nánast ‘Sigfreður með hornhúðina’. Í því eru fáeinar samsvaranir við efnið í Hringnum.
Þá skulum við reyna að skýra nánar, hvaðan hver einstök ópera sækir einkum efni sitt. Það gefst þó ekki tími til að telja upp nema nokkur þeirra. Og nú verð ég að vera svo tilætlunarsamur að reikna með því að þið kannist að einhverju leyti við efnið í hverri óperu, og því mun ég ekki rekja það nema mjög stuttlega.
Fyrst er þá Rínargullið. Í fyrsta atriði segir frá því að Rínardætur gæta gulls í djúpum Rínar. Svartálfurinn Alberich leitar eftir ástum þeirra, en þær leika hann grátt. Hann heyrir á gaspri þeirra, að sá einn sem afneitar kærleikanum geti smíðað sér úr gullinu hring sem muni færa honum ótakmarkað vald. Þá bölvar Alberich ástinni, rænir gullinu og hefur á brott með sér.
Rínardætur eru að mestu skáldskapur Wagners sjálfs. En að öðru leyti eru hugmyndir Rínargullsins nánast allar sóttar í Snorra Eddu: það er að segja guðirnir, gyðjurnar, jötnarnir, borgarsmiðurinn, yngingareplin, gull dvergsins og hringurinn hans, og bölvunin, sem dvergurinn leggur á hringinn, regnbogabrúin Bifröst og virkið Valhöll. Allt úr Eddu.
Eitt mikilvægt atriði gæti samt verið ættað úr litla kvæðinu um Sigfreð með hornhúðina. Það er sjálft nafnið Nibelung. Það er einungis í því kvæði, sem Nibelung er nafn á dverg. Í öðrum þýskum og íslenskum heimildum eru Niflungar annaðhvort kóngar eða hetjur. Og annað óíslenskt er aðferð Loka til að fanga dverginn sem minnir á ævintýrið um stígvélaða köttinn.
Næst kemur Valkyrjan. Hugmyndirnar í henni eru að mestu leyti fengnar úr fyrstu 11 köflum Völsunga sögu. Við getum nefnt tréð sem stendur í miðjum veislusalnum, sverð Óðins í trjástofninum, sem Sigmundur einn getur dregið út, blóðskömm milli tvíbura, Óðinn sundrar sverði Sigmundar, valkyrja er svæfð á fjallstindi með vafurloga umhverfis – allt er þetta úr Völsunga sögu.
Sú ákvörðun Hundings að þyrma lífi Sigmunds þar til dagur rennur, virðist helst runnin frá hinni frægu frásögn Egils sögu, þegar Arinbjörn hersir telur Eirík konung blóðöx á að þyrma lífi Egils til morguns með þeim rökum, að náttvíg séu morðvíg. Og eftir það flytur Egill Höfuðlausn. Það hafa ekki fundist eldri dæmi í germanskri réttarsögu um þetta viðhorf. Og þessi kafli úr Egils sögu var einmitt í sýnisbókinni sem til var í bókasafni Wagners.
Valkyrjureið er nefnd í Völuspá, og reyndar koma valkyrjur hvergi fyrir á norrænu svæði, nema í íslenskum bókmenntum. Grísku skjaldmeyjarnar eru þeim einna skyldastar.
Þá er komið að óperunni Siegfried. Atburðirnir í smiðju Mímis eru blanda af frásögnum um æsku Sigurðar í eddunum báðum, Völsungu og Þiðreks sögu, en auk þess vottar fyrir áhrifum frá kvæðinu um Sigfreð með hornhúðina, og reyndar líka frá Grimms ævintýrinu um strákinn, sem fór út í heiminn til að læra að hræðast.
Viskukeppnin milli Óðins og Mímis minnir á svipaða þrautakeppni milli jötunsins Vafþrúðnis og Óðins í Vafþrúðnismálum.
Dráp drekans, það að bragða á blóði hans, að skilja fuglamál, þetta er allt ættað úr Fáfnismálum og Völsungu. Dirfskuför Siegfrieds gegnum vafurlogann og uppvakning valkyrjunnar líkist bæði Sigurdrífumálum og Völsungu.
Og þá eru það Ragnarök, Örlög guðanna, eða Götterdämmerung einsog Wagner nefndi óperuna eftir íslensku myndinni Ragnarökkur sem oft sást í gömlum prentuðum útgáfum en telst vera mislestur úr handritum. Forleikurinn með nornunum á sér fyrirmyndir í Snorra Eddu og Völuspá. Hesturinn Grani er bæði í Reginsmálum, Völsungu og Þiðreks sögu.
Neitun Hagens við að blanda blóði við Siegfried og Gunther gæti átt sér samsvörun í Gísla sögu Súrssonar þar sem Þorgrímur neitar að blanda blóði við Véstein. Óminnisdrykkurinn er nánast tekinn beint úr Völsungu. Önnur reið Siegfrieds gegnum vafurlogann til Brynhildar og nakið sverðið, sem hann leggur í sængina á milli þeirra, þetta er allt úr Völsungu og báðum eddum.
Tengsl Siegfrieds við Gunther og Hagen, rifrildi drottninganna, Brynhildar og Guðrúnar, ásakanir um svik við Brynhildi og morðið á Siegfried: öll þessi atriði eru hinsvegar sameiginleg öllum þeim heimildum, sem hér hafa verið teknar til skoðunar. Þannig að fyrst hér, í miðri seinustu óperu Hringsins, kemur eitthvert bitastætt efni úr hinu þýska Nibelungenlied. Og sjálf veiðiferðin og ýmis smáatriði í tengslum við morðið á Siegfried, þetta er einvörðungu fengið úr Nibelungenlied og Þiðreks sögu. Í íslenskum sögum og kvæðum er Sigurður ekki myrtur úti í skógi, heldur í rúminu sínu, – kannski af því það var enginn skógur með veiðidýrum til á Íslandi, þegar eddukvæðin voru ort.
Bálför þeirra Sigurðar og Brynhildar, og örlög guðanna, það á sér aftur á móti rætur í báðum eddunum og Völsungu. En bruninn á sjálfri Valhöll er viðbót Wagners.
Og þá komum við að einstökum dæmum um greinilegar samsvaranir milli texta Wagners og hinna fornu texta. Ég held mér hafi tekist að finna um það bil hundrað dæmi, en ég get tímans vegna ekki sýnt nema fáein þeirra.
Fyrsta dæmið er málsgrein úr fyrstu drögum Wagners að goðsögn sinni um Hringinn, maður mundi núna líklega kalla það synopsis. Þarna er hann að lýsa niflungum sínum. Tökum sérstaklega eftir orðunum að þeir hafi sprottið ‘gleich Würmern im toten Körper’ ‘svo sem ormar í dauðum líkama’.
Í Gylfaginningu Snorra Eddu segir hinsvegar: Þar næst settust guðin upp í sæti sín og réttu dóma sína og minntust hvaðan dvergar höfðu kviknað í moldinni og niðri í jörðinni sem maðkar í holdi.
Í öðru dæmi sjáum við brot úr 2. atriði Rínargullsins, þar sem Wotan og Fricka deila um virkið Valhöll, sem jötnarnir hafa reist fyrir guðina, og hvers þeir hafa krafist í laun, nefnilega Freyju. Til samanburðar tökum við brot úr frásögninni um borgarsmiðinn í Gylfaginningu.
Þar segir: Þá kom smiður og bauð að gera þeim borg á þrem misserum svo góða að trú og örugg væri fyrir bergrisum og hrímþursum þótt þeir kæmi inn um Miðgarð. En hann mælti það sér til kaups að hann skyldi eignast Freyju, og hafa vildi hann sól og mána. … En því réð Loki að það var til lagt við hann. … En að kaupi þeirra voru sterk vitni og mörg særi.
Þriðja dæmið er sviðslýsing úr upphafi Valkyrjunnar: Í miðju húsi Hundings stendur voldugur trjástofn. Rætur hans hverfa niður úr gólfinu en greinar hans og toppurinn teygja sig til allra hliða og uppúr þakinu.
Í Völsungu segir: Svo er sagt að Völsungur konungur lét gera höll eina ágæta og með þeim hætti að ein eik mikil stóð í höllinni og limar trésins með fögrum blómum stóðu út um ræfur hallarinnar, en leggurinn stóð niður í höllina.
Vafurloginn um fjallstindinn gæti líka minnt á eldgos sem ekki þekktust annarstaðar í N-Evrópu en á Íslandi.
Og fjórða dæmið er úr 2. þætti Siegfrieds, samtali Siegfrieds og hins deyjandi dreka, Fáfnis með samanburði við Fáfnismál í Eddu. Tökum til dæmis eftir orðunum „Wer reizte des Kindes Mut zu der mordlichen Tat?“ og „Helläugiger Knabe“.
Í Fáfnismálum segir á sama stað: Hverra ertu manna mögur? Hver þig hvatti, hví hvetjast lést mínu fjörvi að fara? Inn fráneygi sveinn.
Í fimmta dæminu höfum við söng Brynhildar, eftir að Siegfried hefur vakið hana og samanburð við lofsöng valkyrjunnar í Sigurdrífumálum. Hér má eiginlega segja, að Wagner hafi ekki gert annað en raða orðunum svolítið öðruvísi upp. Í þýðingu Þorsteins Gylfasonar lætur Wagner Brynhildi segja: Heill þér dagur/ Heill þér ljós / Heill þér ljómandi sól. / Lengi ég svaf / en lokið er.
Í Sigurdrífumálum segir:
Hvað beit brynju?
Hví brá eg svefni?
Hver felldi af mér
fölvar nauðir?
Lengi eg svaf,
lengi eg sofnuð var.
Heill dagur!
Heilir dags synir!
Heil nótt og nift!
Heilir æsir!
Heilar ásynjur!
Heil sjá in fjölnýta fold!
Að lokum skulum við sjá, hvernig Wagner fer með óminnisdrykkinn. Gutrune færir Siegfried óminnisdrykk að boði Hagens. Siegfried gleymir Brünnhilde samstundis en festir ásatraugu á Gutrune og hrópar: Hæ, fagra kona!
Í Völsunga sögu er það reyndar drottningin, móðir Guðrúnar, sem upphaflega færir Sigurði drykkinn en Guðrún ekki fyrr en seinna, en að öðru leyti er rás viðburðanna nánast eins: Þar segir svo: Eitt kveld er þeir sátu við drykk rís drottning upp og gekk fyrir Sigurð og kvaddi hann og mælti: ‚Fögnuður er oss á þinni hérvist, og allt gott viljum vér til yðar leggja. Tak hér við horni og drekk.’ … við þann drykk mundi hann ekki til Brynhildar … Og eitt kveld skenkir Guðrún. Sigurður sér að hún er væn kona og að öllu hin kurteisasta.
Nú má segja, að búið sé að leiða rök að því, að hugmyndir Wagners í Niflungahringnum séu að langmestum hluta fengnar úr íslenskum fornbókmenntum, og ekki nema örlítill, en að vísu mikilvægur þáttur í lokum verksins sé fenginn úr þýska ljóðinu Nibelungenlied.
Ég sleppi að mestu að fjalla hér um bragfræði Wagners, en eitt af því sem hann tók upp á í texta Hringsins var að líkja eftir bragarháttum eddukvæða og beita stuðlasetningu. Hann tók svo til orða að hinir klassísku grísku og rómversku bragarhættir ættu ekki við hina léttstígu persónu Sigurðar sveins. – Hann hefði að vísu ekki fengið háa einkunn fyrir stuðlasetninguna hjá íslenskukennara en hann hefði þó ekki fengið falleinkunn.
Sem dæmi um örlitla orðalagsbreytingu, sem Wagner gerir í þágu stuðlasetningar, má taka eina ljóðlínu úr 2. þætti Ragnaraka, þar sem Hagen hvetur menn til að hlusta á klögumál Brynhildar. Hann breytir einu orði, ‘wohl’ í ‘klug’ til þess að geta tvínotað stuðulinn ‘k.
Hér mætti láta staðar numið, því ég þykist nú hafa gert nokkra grein fyrir því, úr hvaða heimildum Wagner smíðaði sína eigin vésögn um Hring Niflungsins.
Mér hefur samt lengi þótt freistandi að leita svars við þeirri gömlu spurningu, hvernig á því geti staðið, að svona miklu meira hefur varðveist af þvílíkum sögum og kveðskap frá Íslandi en annarstaðar í Norður-Evrópu á miðöldum. Og af hverju hafa forn sagnaminni geymst betur á Íslandi en annarstaðar? Af hverju skrifuðu Íslendingar aðallega á móðurmálinu, en ekki á latínu einsog aðrir skriftlærðir menn í Evrópu á sama tíma? Og afhverju eru bændur aðalpersónur í sögum Íslendinga, en ekki kóngar og aðalsmenn? Það þarf reyndar ekki útlendinga til að undrast þetta, jafnvel þjóðkunnir íslenskir fræðimenn hafa sagt, að það væri ekki hægt að kalla þetta annað en kraftaverk.
Það má auðvitað nefna gamlar skýringar, en ég leyfi mér að fullyrða, að ástæðan er ekki sú, að Íslendingar hafi verið gáfaðri en aðrir, eða þeir hafi verið af einhverju sérstöku skáldakyni. Og það er fráleit skýring, sem heyrðist stundum, að menn hafi ekki haft annað að gera en skrifa sögur til að drepast ekki úr leiðindum á löngum, köldum og dimmum vetrarkvöldum.
Ef það væri skýringin, af hverju skrifuðu menn þá ekki enn fleiri bækur í norðurhluta Skandinavíu eða í Síberíu þar sem eru enn lengri og kaldari vetrarnætur? Menn hafa líka nefnt náin tengsl Íslendinga við keltneska menningu. Vissulega finnast eldri skráðar keltneskar sögur en norrænar, en þær eru talsvert öðruvísi. Keltneskir þrælar og landnemar voru líka í Skandinavíu og víðar í Evrópu. Af hverju skrifuðu þeir ekki samskonar bækur þar?
Aðalástæðan sýnist mér að hafi verið félagsleg, samfara dálítilli heppni, sem ég skal reyna að útskýra í stuttu máli.
Fyrst er þá að gera sér ljóst, hvernig og hvenær Ísland og Íslendingar urðu til. Þið verðið að fyrirgefa þótt ykkur finnist ég kannski vera að ræða um sjálfsagða hluti.
Ísland er eitt af yngstu byggðu svæðum á jörðinni. Það hefur orðið til við neðansjávargos á seinustu 15 miljón árum. Aðeins Hawai-eyjar í Kyrrahafi eru yngri sem byggt svæði. Hér er uppdráttur af Atlantshafshryggnum þar sem neðansjávargos hafa orðið á nokkrum stöðum, til dæmis á Azoreyjum, en Ísland er stærsta eyjan sem myndast hefur á þessum hrygg.
Ég leyfi mér að sýna í tengslum við þetta mynd frá íslensku eldfjalli, Kröflu til að vekja aftur athygli á því, að hugmyndin um hinn ógnvekjandi vafurloga sem umlykur valkyrjuna sofandi á fjallstindinum, þetta gæti hæglega verið skáldleg sýn frá eldfjallalandi einsog Íslandi. Til samanburðar má nefna að hugmyndin um hina sofandi Þyrnirósu á miklu frekar heima í evrópskum skógi.
Íslenska þjóðin er líka meðal hinna yngstu í heimi. Innflytjendur í Ameríku og Ástralíu eru auðvitað enn yngri sem þjóðir. En vegna þess hvað landið var ungt, þá voru hér ekki neinir frumbyggjar einsog þar. Og það var ekki fyrr en á 9. öld, hugsanlega þó eitthvað fyrr, sem menn höfðu eignast þann skipakost, að þeir gætu byrjað að sigla yfir úthafið í stórum stíl og nema land á Íslandi. Og landnemarnir komu annarsvegar frá Norðurlöndum, aðallega suðvesturhluta Noregs, og hinsvegar frá bresku eyjunum, Orkneyjum, Hjaltlandi og Suðureyjum, en auk þess eitthvað frá Írlandi og Skotlandi.
Menn höfðu alltaf vitað, að einhver hluti landnámsfólksins kom frá keltneska svæðinu á bresku eyjunum, en menn vissu ekki, hversu stór sá hluti var, því það eru ekki nema rúmlega 400 stærstu jarðeigendurnir, sem voru nefndir í Landnámabók, – af að minnsta kosti 10 þús. manns, sem hljóta að hafa komið hingað á landnámsöld. Það er lítið minnst á vinnufólk, þræla eða börn í Landnámu. Á seinustu áratugum telja erfðafræðingar sig hinsvegar hafa fundið út með DNA-rannsóknum að um 80% landnámskarla hafi verið norrænir, en um 60% landnámskvenna verið keltneskar. Þessi munur skýrist eðlilega af því að norrænir karlar frá bresku eyjunum hafa náð sér í keltneskar konur. Til samans merkir þetta, að hlutfallið milli norrænna og keltneskra manna hafi alls verið kringum 60% á móti 40%. Enn frekari rannsóknir geta auðvitað átt eftir að breyta þessu hlutfalli.
Þetta þýddi hvað sem öðru líður, að íbúar Íslands voru frá upphafi mjög blandaðir, enda tóku þeir brátt að líta á sig sem sérstakt fólk, Íslendinga, óháð því hvaðan þeir höfðu komið í upphafi. Elsta dæmi um lýsingarorðið íslenskur er í lausavísu frá því skömmu eftir árið 1000.
Mér finnst óhjákvæmilegt, í þessu samhengi, að leiðrétta þá þrálátu villukenningu, að Ísland hafi verið víkinganýlenda. Þessi staðhæfing tröllríður allri ferðaþjónustu og kvikmyndagerð nú á dögum, og grimmdarlegur víkingur með horn á hjálmi er jafnvel gerður að táknmynd Íslands í auglýsingapésum. Sumir eru jafnvel farnir að nota orðið víkingur um alla íbúa Norðurlanda á miðöldum. Í fyrsta lagi voru víkingar, í sinni réttu merkingu, ekkert annað en sjóræningjar, og fjöldi þeirra var aldrei nema örlítið brotabrot af íbúum Norðurlanda. Og í öðru lagi voru þetta mjög illa þokkaðir menn, svo ekki sé meira sagt. Aldrei er talað jákvætt um víkinga í miðalda sagnaritum. Það var til að mynda gerður skýr greinarmunur á norrænum kaupmönnum eða handverksmönnum annarsvegar og víkingum hinsvegar. Og það er reyndar ekki nema hálfönnur öld síðan orðið víkingur sést notað á jákvæðan hátt í íslensku og þá í merkingunni dugnaðarmaður. Þangað til merkir víkingur jafnan ræningi og illmenni þá sjaldan það sést.
Ísland var vissulega numið á svonefndri víkingaöld, en það komu ekki nema sárafáir eiginlegir víkingar til landsins, enda höfðu þeir ekkert hingað að sækja. Þetta var ónumið land, hér voru engin rík klaustur, kirkjur eða hallir til að ræna, ekkert gull eða gersemar, ekki einusinni konur til að nema brott. Til hvers hefðu ræningjar átt að leggja á sig margra vikna hættulega sjóferð hingað yfir úfið haf? Þeir örfáu fyrrverandi víkingar, sem þrátt fyrir allt settust hér að og nefndir eru í sögum, virðast einna helst hafa litið á Ísland sem einskonar elliheimili. Hinsvegar kom mikið af norrænum kaupmönnum hingað og áttu hér vetursetu.
Af sömu ástæðu er deginum ljósara, að með þáverandi skipakosti lá Ísland alltof langt í burtu frá arðvænlegum stöðum í Evrópu til að geta þjónað sem einhverskonar víkingaherstöð til útrásar, einsog hugmyndaríkir leiðsögumenn hafa látið sér detta í hug að segja ferðamönnum. Og enda þótt ungir íslenskir bændasynir einsog Egill Skallagrímsson færu nokkrum sinnum til útlanda að sjá sig um í heiminum og lentu stundum í bæði kaupferðum og víkingaferðum í eitt til tvö sumur, þá urðu þeir yfirleitt ekki neinir atvinnuvíkingar.
Ástæða þess, að erlendir menn hafa á seinustu 200 árum talið Ísland vera gamla víkinganýlendu, er aðallega sú, að Íslendingar skrifuðu á miðöldum spennusögur um víkinga, þessar svonefndu fornaldarsögur, sem ég minntist á áðan og urðu vinsælt lesefni í rómantík 19. aldar í Evrópu. Og menn ályktuðu eðlilega sem svo, að Íslendingar hefðu verið að skrifa um sjálfa sig eða sína eigin forfeður. En þessar spennusögur um víkinga, þær gerast allar utan Íslands og allar löngu fyrir Íslands byggð. Á 19. og 20. öld fóru svo enskir og þýskir höfundar að skrifa sínar eigin víkingaskáldsögur. Og þá fyrst varð til hugmyndin um víkingahetjur. Enn síðar var svo farið að framleiða víkingakvikmyndir og þetta viðheldur vitleysunni.
Snúum okkur nú að staðreyndum. Næstum allir landnemar Íslands voru blátt áfram bændafólk, sem var löngu orðið þreytt á herhlaupum víkinga og skattheimtu gráðugra konunga.
Hér er rómantískt málverk frá Þingvöllum eftir enska málarann Collingwood árið 1897. Íslensku bændurnir komu sér smám saman upp laustengdri samkundu, sem þeir kölluðu Alþingi og svonefndir goðar sátu í henni. Sérstaða þessa þings var fólgin í því, að þótt það gæti samþykkt lög og dæmt í málum, þá hafði þingið ekkert framkvæmdavald, engan kóng eða herstjóra. Önnur sérstaða var þó enn merkilegri, en hún var sú, að frjálsir bændur gátu ráðið því sjálfir, hvaða goða þeir létu gæta hagsmuna sinna. Það þurfti ekki endilega að vera sá, sem bjó næst þeim. Þetta var einskonar óbeinn kosningaréttur og var fádæmi, ef ekki einsdæmi í Evrópu á þessum tíma.
Á miðöldum ríkti nefnilega svonefnt lénsskipulag í meginhluta Evrópu. Það þýddi að næstum allar jarðeignir voru í höndum klaustra, kirkna, biskupsstóla og aðalsmanna. Allir venjulegir bændur voru á þessum tíma orðnir ánauðugir leiguliðar þessara stórjarðeigenda og þar með litlu betur settir en þrælar.
Og nú kemur þessi óvænta heppni Íslendinga til sögunnar. Einmitt á þeim tíma þegar þeir nutu þessa óvenjumikla persónufrelsis, þá kemur ritlistin til þeirra – með kirkjunni. Íslenska kirkjan var hinsvegar mjög valdalítil fyrstu tvær aldirnar, því að hinir veraldlegu höfðingjar réðu langmestu um hag hennar.
Það voru nefnilega efnaðir bændur sem reistu kirkjuhúsin og áttu kirkjurnar fyrstu aldirnar.
Það voru líka bændur sem stofnuðu prestaskóla, og síðan höfðu þeir prestana sem einskonar vinnuhjú hjá sér. En prestarnir höfðu lært að skrifa, svo að fyrir utan kirkjuþjónustu mátti nota þá til að skrásetja það sem húsbændur þeirra kærðu sig um. Og hvað skyldi það helst hafa verið?
Í ritgerð um íslenska stafrófið frá miðri 12. öld telur hinn ónafngreindi höfundur hennar upp, hvað þá þegar hafi verið skrifað á íslensku. Fyrir utan kristileg helgirit, eru það eru lög og ættfræði, og svo það sem hann nefnir ‘hin spaklegu fræði, sem Ari hinn fróði hefur á bækur sett af skynsamlegu viti’ en þar mun átt við Íslendingabók og frumgerðir Landnámu.
Þetta er nákvæmlega það sem maður gæti búist við, að efnaður bóndi vildi láta skrásetja. Það hlaut að vera gagnlegt, að hafa einhverjar lagagreinar í bakhöndinni, ef menn lentu í þrætum. Enda fundust á sínum tíma slitur af lögbókum á skinni á mörgum bóndabæjum. – Það gat líka verið hentugt að hafa ættartöluna handbæra, því erfðaréttur gilti á þeim tíma aftur í 5. lið, þannig að manni gat tæmst óvæntur arfur. – Og loks var ekki ónýtt að hafa eitthvað skrásett um landnámið á sínum eigin slóðum til að geta rökstutt sögulegan rétt sinnar eigin jarðar til einhvers landsvæðis, í stað þess að þurfa að reiða sig á vitnisburð nágrannanna. – Hitt er svo annað mál hvort sumir bændur hafa ekki freistast til að láta skrifara sína hagræða einhverju í þeim spaklegu fræðum. – En allt varð þetta að skrifa á íslensku, blátt áfram af því að bændurnir skildu ekki latínu, en þeir hlutu að vilja geta skilið það sem skrifað var.
Þessi praktísku ritverk þjálfuðu íslenskuna smám saman sem ritmál. – Þessu var allt annan veg farið með bændamállýskur suður í Evrópu, þar sem allt þess háttar var skrifað á latínu fyrir aðalsmennina, eigendur búgarðanna. En hér var smám saman hægt að fara að skrifa bæði guðsorð, fræði og afþreyingarefni á íslensku. Og þannig urðu til heilagra manna sögur, konungasögur, biskupasögur, og loks sögur um átök og ástir venjulegs íslensks fólks, svonefndar Íslendingasögur. Menn fóru líka að festa gömul munnmæli og kvæði á skinn, jafnvel stærðfræði og stjörnufræði.
Það var því ekki neitt kraftaverk, engin óvenjuleg skáldgáfa, engin köld og dimm vetrarkvöld, sem ollu því, að Íslendingar skrifuðu meiri bókmenntir á miðöldum en aðrar þjóðir Norður-Evrópu, – heldur blátt áfram sú lukkulega tilviljun, að tiltölulega frjálsir íslenskir góðbændur gátu í eina til tvær aldir notað ritlistina handa sjálfum sér, en ekki einungis fyrir einhverja lærða yfirstétt. Með þessu móti komst íslensk alþýða á bragð bókmenntanna. – Og það er þessi sama lukkulega tilviljun, sem veldur því, að hér bjargaðist, þrátt fyrir margskonar náttúrlega og stjórnarlega vesöld, ýmislegt úr fornri munnlegri geymd, sem þýskir snilldarmenn einsog Jakob Grimm og Richard Wagner urðu fegnir að geta leitað til þegar kom fram á 19. öld.
Við sjáum hér að lokum mynd af Óðni úr pappírshandriti frá 18. öld. Einsog við vitum, þá urðu gömlu guðirnir allt að því persónulegir kunningjar okkar gegnum aldirnar, svona líkt og Tarzan eða Harry Potter á síðustu öld. Við lásum um þá í barnaskóla og göntuðumst með þá okkar á milli.
Þetta veldur því, að Íslendingar geta verið nokkuð heimaríkir, þegar útlendingar eru að fjalla um og nýta sér þessa gömlu bókmenntalegu lagsbræður okkar. Mér er það minnisstætt, þegar stutta gerðin af Niflungahringnum var sýnd í Þjóðleikhúsinu fyrir aldarfjórðungi, þá heyrði ég nálægt mér í salnum, að einhver gamall maður hvíslaði:
„En þetta er ekki rétt! Þessi Wagner hlýtur að hafa misskilið eitthvað“!