Undirkaflar

Formáli

Wagner og Völsungar

Richard Wagner félagið á Íslandi var stofnað haustið 1995. Aðalhlutverk þess er að kynna verk Wagners á Íslandi, en meðal verkefna er einnig að kanna hvaða hugmyndir hann kunni að hafa sótt til íslenskrar menningar. Löngu var vitað að Wagner hafði meðal margs annars lesið meginhluta eddukvæða, Snorra Eddu og Völsunga sögu áður en og meðan hann vann að texta Niflungahringsins, en fáum ef nokkrum var ljóst hversu viðtæk áhrif þess voru. Vegna nafnsins Der Ring des Nibelungen eða Hringur niflungsins hafa menn samt hvarvetna ályktað að efni verksins væri öðru fremur sótt í hið alkunna þýska miðaldakvæði Nibelungenlied frá því um 1200. Hið sama hafa og flestir Íslendingar óafvitandi lengstum haldið eins og sjá má í kaflanum um Wagner og Íslendinga í bókarlok.

Selma Guðmundsdóttir formaður Richard Wagner félagsins á Íslandi færir Wolfgang Wagner ljósprentun Konungsbókar eddukvæða á áttræðisafmæli Wolfgangs í Bayreuth í ágúst 1999.

Sumarið 1967 var tónlistarstjóra Ríkisútvarpsins, Árna Kristjánssyni, boðið til Bayreuth. Sá hann þá allan Niflungahringinn í fyrsta sinn. Árni kynnti síðan Hringinn allan í útvarpinu síðar um haustið. Það var viðamesta kynning á tónlist Wagners sem enn hafði átt sér stað á Íslandi. Árni vakti fyrstur Íslendinga athygli á hinum íslensku aðföngum Wagners og orðaði það síðar þannig í bók sinni Hvar ertu tónlist? sem út kom 1986:

Fyrsta hugmynd Wagners var að semja aðeins einn leik, „Dauða Siegfrieds“, úr efni, er hann sótti í þýzka miðaldakvæðið „Das Nibelungenlied“. En brátt varð honum ljóst að verkið krafðist miklu víðtækari útlistunar og forsendu en hægt væri að koma fyrir í einum leikþætti eða söngleik, og óx verkið þannig í höndum hans og huga að úr varð að lokum sú heimssköpunar-saga, er við nú þekkjum. Hann leitaði víða til fanga, í frumheimildum norrænnar goðafræði, er skráðar eru í Eddum Íslendinga, Völsungasögu og öðrum fornsögum.[1]

Árið 1989 skrifaði Jóhann J. Ólafsson forstjóri opnugrein í Morgunblaðið og sagði frá heimsókn sinni í bókasafn Wagners í Bayreuth. Þar voru honum sýndar margar útgáfur íslenskra fornbókmennta og þýðinga þeirra, eddukvæði, Heimskringla, riddarasögur og þættir úr Íslendingasögum. Fyrr hafði þessi íslenska bókaeign Wagners ekki verið á almennu vitorði. Í tengslum við sýningu hinnar styttu gerðar Niflungahringsins í Þjóðleikhúsinu á Listahátið í Reykjavík vorið 1994 voru tvö málþing haldin í Reykjavík þar sem íslenskir og erlendir fræðimenn greindu ýmsar hliðar á snertipunktum Hringsins við forna íslenska menningu. Hinu nýstofnaða Wagnerfélagi þótti ástæða til að láta kanna þessa tengingu enn frekar.

Haustið 1997 tókst höfundur þessarar bókar á hendur að fara nánar í saumana á því hver væri í reynd hlutur íslenskra bókmennta í texta Niflungahringsins miðað við aðrar sagnir og skáldverk sem Wagner sótti föng sín í. Menntamálaráðuneytið veitti nokkurn styrk til þeirrar rannsóknar. Meðal annars var sumarið 1998 setið nokkrar vikur á bókasafni Richard-Wagner-stofnunarinnar í Bayreuth, ekki síst til að leita af sér allan grun um að enginn annar hefði þegar gert þessu verkefni skil. Niðurstaðan verður sýnd í smáatriðum í bókarlok, en hún er í grófum dráttum sú að af aðfengnum hugmyndum megi rekja um fjóra fimmtu hluta til íslenskra bókmennta einna, einn sjötti hluti sé þýskum og íslenskum heimildum sameiginlegur, en aðeins fáein brot í lokaverkinu, Ragnarökum, séu fengin úr þýskum bókmenntum einum. Þessi niðurstaða er nokkuð öndverð því sem almennt hefur hvarvetna verið álitið. Nú er eftir að sjá hvort menn fallast á þær röksemdir sem fram verða settar hér á eftir, en vonir standa til að meginhluti bókarinnar verði brátt þýddur og gefinn út á þýsku og ensku. 

Stjórn Wagnerfélagsins hefur fylgst náið með framvindu þessa ritverks. Sérstaklega ber að nefna hlut Árna Tómasar Ragnarssonar sem var myndaritstjóri bókarinnar. Ýmsir hafa lesið yfir einstaka kafla hennar en Jónas Kristjánsson prófessor og Helgi Hálfdanarson lásu handritið í heild og veittu gagnlegar ábendingar. Einn helsti hvatamaður að þessari könnun var hinn fjölfróði eldhugi Jóhannes Jónasson lögreglumaður og ritari Wagnerfélagsins sem lést langt um aldur fram 8. september 1999. Er við hæfi að tileinka bók þessa minningu hans.

Jóhannes Jónasson

Tilvísanir

[1] Árni Kristjánsson. Hvað ertu tónlist?, 82.